Hæstiréttur íslands

Mál nr. 333/2015

Stefán Björnsson (Guðni Á. Haraldsson hrl.)
gegn
Isavia ohf. (Jón R. Pálsson hrl.) og til vara íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

Lykilorð

  • Vinnusamningur
  • Laun
  • Kjarasamningur
  • Varnarsamningur

Reifun

S krafði I ohf., en til vara Í, um greiðslu vangoldinna launa vegna frítökuréttar sem hann taldi sig hafa áunnið sér í starfi sínu hjá slökkviliði varnarliðsins. Kröfunni til stuðnings vísaði S til tveggja nánar tilgreindra kjarasamninga en hann taldi sig hafa notið sömu kjara og þar var mælt fyrir um í starfi sínu hjá varnarliðinu. Hélt S því jafnframt fram að síðari vinnuveitendur hans hefðu yfirtekið þær skyldur og hefði því átt að gera upp við hann uppsafnaðan frítökurétt þegar hann hætti störfum hjá I ohf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að varnarliðið hefði ekki átt aðild að kjarasamningum og hefði farið um kjaramál íslenskra starfsmanna þess eftir úrskurðum kaupskrárnefndar. Í slökkviliði varnarliðsins hefði verið unnið á 24 tíma vöktum en það fyrirkomulag hefði ekki samræmst fyrrgreindum kjarasamningum þar sem kveðið var á um að vinnutími skyldi ekki vera lengri en 13 klukkustundir. Hefði því þurft að leggja af sólarhrings vaktir ef starfsfyrirkomulagið hefði átt að samrýmast þeim samningum. Af því leiddi að S öðlaðist ekki sjálfkrafa frítökurétt eftir öðru og ólíku fyrirkomulagi en því sem greiðslur hjá varnarliðinu hefðu tekið mið af. Voru I ohf. og Í því sýknaðir af kröfum S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. maí 2015. Hann krefst þess að stefnda Isavia ohf., en til vara íslenska ríkinu, verði gert að greiða sér aðallega 12.552.120 krónur, en til vara 8.782.200 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. apríl 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi starfaði áfrýjandi um langt skeið í slökkviliði varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, en þar gegndi hann síðast stöðu aðstoðarslökkviliðsstjóra. Þegar varnarliðið hvarf af landi brott árið 2006 var áfrýjanda, eins og öðrum innlendum starfsmönnum þess, sagt upp störfum og honum send tilkynning þess efnis 12. september það ár. Í kjölfarið var áfrýjandi með samningi 19. sama mánaðar ráðinn í sömu stöðu á flugvellinum af Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar frá 1. október 2006. Við stofnun Keflavíkurflugvallar ohf. árið 2008 tók það félag við starfseminni á Keflavíkurflugvelli, en það félag sameinaðist síðar Flugstoðum ohf. árið 2009 í aðalstefnda. Áfrýjandi lauk störfum hjá honum með samkomulagi 28. september 2012 um starfslok 1. apríl 2013.

Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að við starfslok sín hjá aðalstefnda hafi hann áunnið sér frítökurétt vegna starfa sinna í slökkviliði varnarliðsins frá árinu 1997 þar til hann lauk starfi hjá því í lok september 2006. Til stuðnings þessu vísar áfrýjandi til kjarasamnings Reykjavíkurborgar, fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Landssambands slökkviliðsmanna, með gildistíma frá 1. maí 1997 til 31. október 2000, og kjarasamnings Launanefndar sveitarfélaga og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, með gildistíma frá 1. apríl 2001 til 31. desember 2005. Telur áfrýjandi sig hafa notið sömu kjara og mælt er fyrir um í þessum samningum í starfi sínu hjá varnarliðinu. Jafnframt byggir hann á því að síðari vinnuveitendur hafi yfirtekið þær skyldur á grundvelli laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Þennan uppsafnaða frítökurétt hafi því átt að gera upp við hann við starfslokin hjá aðalstefnda. Verði ekki talið að frítökuréttur hafi færst frá varnarliðinu til síðari vinnuveitenda áfrýjanda telur hann að varastefnda beri að svara til skuldbindingarinnar á grundvelli ábyrgðar sem hann beri sökum þess að málsókn varð ekki beint að varnarliðinu vegna úrlendisréttar sem það naut hér á landi.

II

Varnarliðið átti ekki aðild að kjarasamningum og fór um kjaramál íslenskra starfsmanna þess eftir úrskurðum kaupskrárnefndar, sbr. 6. gr. laga nr. 82/2000 um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna og áður 4. tölulið 6. gr. viðbætis 8. maí 1951 við varnarsamning milli Íslands og Bandaríkjanna frá 5. sama mánaðar, sbr. lög nr. 110/1951. Meðal málsgagna er yfirlýsing formanns kaupskrárnefndar 3. apríl 1991, en þar kom fram að kaupskrárnefnd hefði hafnað því að láta hækkun á álagsgreiðslum til slökkviliðsmanna í Reykjavík leiða sjálfvirkt til hækkunar á launum slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli. Einnig var tekið fram að laun slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli væru ákveðin út frá grunnlaunum slökkviliðsmanna í Reykjavík en á þann grunn væri greitt ákveðið álag út frá mati á störfum og starfsfyrirkomulagi. Þá er ágreiningslaust með málsaðilum að kaupskrárnefnd felldi ekki úrskurð um frítökurétt vegna vaktafyrirkomulagsins hjá varnarliðinu.

Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi var unnið á 24 tíma vöktum í slökkviliði varnarliðsins. Það fyrirkomulag samræmdist ekki þeim kjarasamningum sem áfrýjandi vísar til en þar var tekið fram að óheimilt væri að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími væri lengri en 13 klukkustundir. Hefði þurft að leggja af sólarhrings vaktir ef starfsfyrirkomulagið átti að samrýmast þeim samningum. Af þessu leiðir að áfrýjandi öðlaðist ekki sjálfkrafa frítökurétt eftir öðru og ólíku starfsfyrirkomulagi en því sem greiðslur hjá varnarliðinu tóku mið af. Þegar af þessari ástæðu eru kröfur hans á hendur stefndu haldlausar og verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Eftir þessum úrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Stefán Björnsson, greiði stefndu, Isavia ohf. og íslenska ríkinu, hvorum um sig 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.   

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2015.

                Mál þetta höfðaði Stefán Björnsson, Heiðarhorni 5, Keflavík, með stefnu birtri 23. október 2013, á hendur Isavia ohf., Reykjavíkurflugvelli, og fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins.  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 7. janúar sl. 

                Stefnandi krefst þess að stefndi Isavia, til vara íslenska ríkið, verði dæmdur til að greiða honum, aðallega 12.552.120 krónur, til vara 8.782.200 krónur, í báðum til­vikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. apríl 2013 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins. 

                Aðalstefndi Isavia krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins. 

                Varastefndi íslenska ríkið krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda, til vara lækkunar á stefnukröfum.  Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins. 

                Stefnandi var lengi slökkviliðsmaður í slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli.  Lengst af var hann starfsmaður varnarliðsins.  Frá 1. október 2006 til ársloka 2008 var hann starfsmaður Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar, sem var opinber stofnun.  Frá 1. janúar 2009 var stefnandi starfsmaður Keflavíkurflugvallar ohf., sem var opin­bert hlutafélag stofnað samkvæmt sérlögum.  Stefnandi varð síðan starfsmaður stefnda Isavia þegar Keflavíkurflugvöllur ohf. og Flugstoðir ohf. sameinuðust.  Hann hætti störfum 1. apríl 2013.

                Um kjaramál íslenskra starfsmanna varnarliðsins gilti sú tilhögun að kjör voru ákveðin af kaupskrárnefnd, sem starfaði samkvæmt 6. gr. laga nr. 82/2000, áður 4. tl. 6. gr. laga nr. 110/1951. 

                Í málinu er ágreiningur um hvort stefnandi hafi áunnið sér frítökurétt í starfi sínu eftir gerð kjarasamninga á árinu 1997 fram til þess að varnarliðið fór frá landinu 2006, en þá var vaktafyrirkomulagi slökkviliðsmanna breytt. 

                Vaktakerfi slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli var lengst af skipulagt þannig að þeir unnu á 24 tíma vöktum þriðja hvern sólarhring.  Unnu þeir 96 klukku­stundir á hverju tveggja vikna tímabili.  Vaktakerfi þetta var lagt af eins og áður segir 1. október 2006 þegar Flugmálastjórn tók við rekstri slökkviliðsins. 

                Í kjarasamningi Reykjavíkurborgar, fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Lands­sambands slökkviliðsmanna, sem undirritaður var 21. maí 1987, var sagt í lið 2.4.1 að starfsmaður skyldi fá a.m.k. 11 stunda samfellda hvíld á hverjum sólarhring.  Óheimilt væri að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími yrði lengri en 13 stundir.  Í lið 2.4.2 var heimilað, við sérstakar aðstæður, að lengja vinnulotu upp í 16 stundir.  Í 2. mgr. þessa liðar sagði orðrétt:  „Í þeim tilvikum að sérstakar aðstæður gera það óhjákvæmilegt að víkja frá daglegum vinnutíma gildir eftirfarandi:  Séu starfsmenn sérstaklega beðnir að mæta til vinnu áður en 11 klst hvíld er náð er heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, þannig að frítökuréttur, í klst (dagvinna), safnist upp fyrir hverja klst sem hvíldin skerðist.“  Í 4. mgr. liðarins sagði að uppsafnaður frítökuréttur skyldi koma fram á launaseðli.  Hann skyldi veittur í heilum og hálfum dögum utan annatíma. 

                Svipað ákvæði um frítökurétt var að finna í kjarasamningi sömu aðila frá 1. apríl 2001. 

                Stéttarfélag stefnanda var ekki aðili að þessum kjarasamningum og þeir giltu ekki samkvæmt efni sínu um slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli.  Eins og áður segir voru ekki gerðir kjarasamningar við íslenska starfsmenn varnarliðsins, heldur voru laun þeirra ákveðin af kaupskrárnefnd.  Stefnandi hefur ekki lagt fram í þessu máli neinar ákvarðanir kaupskrárnefndar sem teknar voru eftir gerð kjarasamningsins 1997.  Er þannig ekki að finna í skjölum málsins neina tilvísun nefndarinnar til þessa frítökuréttar.  Í stefnu er sagt að kaupskrárnefnd hafi ætíð miðað laun og önnur kjara­samningsbundin réttindi við kjarasamning slökkviliðsmanna í Reykjavík. 

                Stefnandi hefur lagt fram nokkur skjöl sem stafa frá kaupskrárnefnd.  Í fyrsta lagi er yfirlýsing formanns nefndarinnar, dags. 3. apríl 1991.  Þar er skýrð sú ákvörðun nefndarinnar að hafna því að láta hækkun álagsgreiðslna til slökkviliðsmanna í Reykjavík leiða sjálfvirkt til hækkunar á launum slökkviliðsmanna á Keflavíkur­flugvelli.  Þá er bréf nefndarinnar, dags. 8. september 1994, þar sem ákveðnar voru til­teknar breytingar á kjörum slökkviliðsmanna í kjölfar gerðar kjarasamnings fyrir slökkviliðsmenn á Íslandi.  Í bréfinu segir m.a.:  „Þá telur Kaupskrárnefnd rétt að almenn ákvæði samingsins, sem ekki snert launakjör, gildi eftir því sem við getur átt.“ 

                Við brottför varnarliðsins var gerður kjarasamningur við fjármálaráðherra vegna slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli.  Í bókun nr. 7 með þessum kjarasamningi segir:  „Í tengslum við ákvæði þessa samnings er sátt um að ágreiningur um launa­setningu fyrir gildistöku hans sé lokið og ekki verði um frekari kröfur að ræða á hendur fyrri rekstraraðila eða íslenska ríkinu.“ 

                Lögmaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna ritaði varnar­málaskrifstofu utanríkisráðuneytisins bréf, dags. 26. september 2011, þar sem reifuð eru sjónarmið sambandsins um það að slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli hefðu áunnið sér frítökurétt og er óskað eftir viðræðum við ráðuneytið um málið.  Erindi þessu var hafnað með bréfi ráðuneytisins, dags. 23. október 2012. 

                Stefnandi og stjórnendur stefnda Isavia undirrituðu samkomulag um starfslok stefnanda þann 28. september 2012.  Þar er ekki vikið að þeim frítökurétti sem deilt er um í þessu máli.  Í samningnum segir orðrétt:  „Með samningsefndum skv. því sem að ofan greinir fer fram fullnaðaruppgjör allra starfstengdra greiðslna sem eiga rætur að rekja til ráðningarsambands aðila.“

                Skömmu eftir að stefnandi lét af störfum skrifaði lögmaður hans og fjögurra samstarfsmanna hans bréf til stefnda Isavia, þar sem gerð er athugasemd við að frítökuréttur þeirra hefði ekki verið gerður upp.  Bréf þetta er dags. 8. maí 2013, en því var svarað með bréfi dags. 21. júní sama ár, þar sem kröfum slökkviliðsmannanna var hafnað. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að ákvæði í kjarasamningum slökkviliðsmanna í Reykjavík hafi gilt um sig og aðra slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli.  Hann vísar til yfirlýsingar kaupskrárnefndar frá 3. apríl 1991 þar sem segi að laun slökkviliðs­manna á Keflavíkurflugvelli væru ákveðin út frá grunnlaunum slökkviliðsmanna í Reykjavík.  Þetta hafi haldist óbreytt allt til 1. október 2006.  Þá vísar hann til tilkynningar formanns kaupskrárnefndar frá 8. september 1994 til varnarmála­skrifstofu utanríkisráðuneytisins þar sem fram komi að nefndin telji sér skylt að taka mið af gildandi kjarasamningum við ákvörðun almennra launakjara slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli.  Þá telji nefndin rétt að almenn ákvæði samningsins, sem ekki snerti launakjör, gildi eftir því sem við geti átt.  Loks bendir stefnandi á að samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 séu kjarasamningsbundin réttindi lágmarkskjör.  Í tilkynningu kaupskrárnefndar 8. september 1994 segi að kjarasamningur slökkviliðsmanna í Reykjavík taki til slökkviliðsmanna varnarliðsins.  Því sé frítökurétturinn lágmarks­kjör þeirra slökkviliðsmanna sem unnu hjá varnarliðinu.  Kaupskrárnefnd hafi ekki tekið þennan rétt af þeim eins og hún hefði getað með beinni ákvörðun. 

                Stefnandi segir að hann hafi unnið sér inn frítökurétt eins og hér verður rakið.

                Frá 1. maí 1997 til 1. apríl 2004 hafi verið í gildi kafli 2.4 um hvíldartíma í kjarasamningi Reykjavíkurborgar o.fl. og Landssambands slökkviliðsmanna.  Þar hafi gilt sú regla að veitt skyldi 11 klukkustunda hvíld eftir hverja 16 klukkustunda vinnu­lotu.  Væri það ekki gert skyldi hver klukkustund á því 11 stunda tímabili veita eina klukkustund af frítökurétti.  Ónýttan frítökurétt skyldi gera upp við starfslok.  Stefnandi kveðst hafa unnið 24 stunda vaktir á gildistíma þessa samnings og því áunnið sér 8 stunda frítökurétt á hverri vakt.  Á tímabilinu hafi hann unnið 264 vaktir og því áunnið sér 2.112 stunda frítökurétt. 

                Á tímabilinu frá 1. apríl 2004 til 1. október 2006 hafi gilt sambærileg regla og á fyrra tímabilinu, þó þannig að á hverju 24 stunda tímabili mátti ekki vinna umfram 13 stundir og frítaka í eina og hálfa klukkustund fylgdi hverri unninni stund umfram 16 klukkustundir.  Á þessu tímabili kveðst stefnandi hafa áunnið sér 4.920 stunda frítökurétt. 

                Í kjarasamningi sem gilti á þessu tímabili hafi sagt að ótekinn frítökurétt skyldi gera upp við starfslok og að þessi réttur fyrndist ekki. 

                Stefnandi byggir á því að stefndi Isavia beri ábyrgð á vangoldnum greiðslum vegna frítökuréttarins.  Hann segir að reglur laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfs­manna við aðilaskipti að fyrirtækjum gildi um skiptin þegar Flugmálastjórn Kefla­víkurflugvallar tók við starfsemi flugvallarins af varnarliðinu.  Hafi íslenska ríkið þá tekið yfir réttindi og skyldur stefnanda sem launamanns samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna, þ. á m. uppsafnaðan frítökurétt.  Telur hann að lögin gildi hér og að þau taki til almennrar atvinnustarfsemi, þótt hún sé ekki rekin af fyrirtæki í hagnaðarskyni.  Undantekningarregla a-liðar 2. mgr. 1. gr. laganna eigi hér ekki við. 

                Stefnandi færir fram ítarleg rök fyrir þessari málsástæðu sinni.  Slökkviliðs­menn á Keflavíkurflugvelli hafi ekki verið opinberir starfsmenn fram til 1. október 2006.  Hér sé ekki um að ræða flutning verkefna milli innlendra stjórnvalda.  Stefnandi telur að nefnd undantekning eigi ekki við þegar íslensk stjórnvöld taki yfir starfsemi erlendra stjórnvalda.  Starfsemi slökkviliðsins hafi ekki breyst mikið þegar aðilaskiptin urðu.  Þá verði að túlka undantekningarregluna þröngt. 

                Stefnandi telur að ráðningu sinni sem slökkviliðsmaður hafi ekki verið slitið við aðilaskiptin.  Ef talið yrði að honum hafi verið sagt upp, þá sé sú uppsögn ekki lögmæt í skilningi 1. mgr. 4. gr. aðilaskiptalaganna. 

                Stefnandi beinir kröfu sinni að Isavia ohf. þar sem hann hafi verið í starfi hjá því félagi þegar hann hætti störfum.  Frítökurétt hafi átt að gera upp við starfslok.  Rekur hann í þessu sambandi þær breytingar sem gerðar hafa verið á yfirstjórn flug­vallarins frá því að varnarliðið fór af landi brott og raktar voru stuttlega í atvikalýsingu hér að framan.  Þar sem þetta atriði er óumdeilt í málinu þarf ekki að rekja það nánar. 

                Verði ekki fallist á að lög nr. 72/2002 eigi við hér, byggir stefnandi á því að íslenska ríkið beri ábyrgð á vanefndum á greiðslum til hans vegna frítökuréttarins og að sú krafa sé ekki fyrnd. 

                Stefnandi bendir á að varnarliðið hafi á sínum tíma notið úrlendisréttar og ekki hafi verið unnt að stefna því fyrir dómstóla.  Af 4. tl. 6. gr. varnarsamningsins, sbr. lög nr. 110/1951 hafi leitt að hann geti krafið íslenska ríkið um vangoldnar greiðslur vegna frítökuréttarins.  Þetta byggir hann einnig á dómvenju, en hann vísar til nokkurra hæstaréttardóma þar sem viðurkennt hafi verið að íslenska ríkið ætti aðild að launakröfu á hendur varnarliðinu.  Loks vísar hann um þetta til 5. og 6. gr. laga nr. 82/2000. 

                Þar sem frítökurétt hafi átt að gera upp við starfslok sé krafan ekki fyrnd.  Þá komi einnig fram að krafan fyrnist ekki.  Þá mótmælir hann því að hann hafi sýnt af sér tómlæti um kröfuna.  Ekki hafi verið tilefni til að halda henni á lofti fyrr en hann hætti störfum. 

                Enn fremur byggir stefndi á samningi milli Íslands og Bandaríkjanna um brott­flutning hersins frá tilteknum varnarsvæðum o.fl., dags. 29. september 2006.  Þar segi í VI. grein að Ísland skuli gera Banaríkin skaðlaus af hvers konar kröfum sem kunni að verða hafðar uppi í tengslum við fyrri rekstur varnarsvæða og mannvirkja. 

                Stefnandi reiknar aðalkröfu sína með því að leggja saman allan áunninn frítökurétt á tímabilinu frá 1. maí 1997 til 1. október 2006, en varakröfu miðar hann við tímabilið frá 1. apríl 2001 til 1. október 2006.  Frítökuréttur í klukkustundum er margfaldaður með tímakaupi stefnanda á þeim tíma er hann lét af störfum, sem hafi verið 1.785 krónur.  Í aðalkröfu er byggt á því að frítökuréttur stefnanda nemi 7.032 klukkustundum, þannig að krafan sé að fjárhæð 12.552.120 krónur.  Í varakröfu er frítökuréttur talinn nema 4.920 klukkustundum, þannig að krafan nemi 8.782.200 krónum.  Hann krefst dráttarvaxta frá þeim degi er hann hætti störfum, sem hafi verið gjalddagi kröfunnar. 

                Málsástæður og lagarök stefnda Isavia ohf. 

                Stefndi byggir á því að hann hafi hvorki samkvæmt lögum né samningum tekið yfir þau launakjör sem stefnandi hafi notið hjá varnarliðinu.  Lög nr. 72/2002 hafi ekki átt við þegar stefnandi hafi verið ráðinn til Flugmálastjórnar.  Þessari afstöðu til stuðnings byggir hann á því að starfsemi varnarliðsins geti ekki talist fyrirtæki í skilningi 1. mgr. 1. gr., sbr. 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laganna.  Ákvæðið eigi ekki við um opinbera aðila nema um atvinnurekstur sé að ræða.  Rekstur herliðsins geti ekki talist atvinnurekstur. 

                Þá teljist starfsemi varnarliðsins ekki fara fram innan Evrópska efnahags­svæðisins í skilningi laganna.  Starfsemi varnarliðsins hafi notið úrlendisréttar hér á landi eins og á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og því gildi lögin ekki um starfsemi þess. 

                Þá telur stefndi að ekki sé fullnægt því skilyrði laganna að orðið hafi aðila­skipti á efnahagslegri einingu sem hafi haldið einkennum sínum.  Varnarliðið hafi haft hér mikil hernaðarumsvif, en þau hafi lagst af.  Varnarliðið hafi sagt öllum sínum starfsmönnum upp störfum.  Í kjölfarið hafi verið sett lög um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar og slökkviliðsmönnum boðin vinna í nýju og breyttu starfi.  Efnahagsleg eining innan varnarliðsins hafi ekki haldið einkennum sínum. 

                Um þýðingu laga nr. 72/2002 í þessu sambandi bætir stefndi við að Hæstiréttur hafi skýrt lögin svo í dómi í máli nr. 375/2004 að vanefndir flyttust ekki yfir til nýs vinnuveitanda.  Því hafi ekki verið hægt að krefja nýjan vinnuveitanda um launa­skuldir hins fyrri.  Þessari reglu hafi nú verið breytt með lögum nr. 81/2010, sem tóku gildi 1. júlí 2010.  Þessi lög séu ekki afturvirk.  Því hafi launaskuldir ekki getað færst frá varnarliðinu til Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar. 

                Stefndi bendir á að með lögum nr. 34/2006 hafi verið ákveðið að Flugmála­stjórn Keflavíkurflugvallar tæki yfir hluta af þeim verkefnum sem varnarliðið hafði annast.  Hafi Alþingi markað þá stefnu að bjóða skyldi öllum starfsmönnum ákveðinna deilda varnarliðsins starf hjá hinu nýja félagi.  Þeir hafi ekki flust sjálfkrafa til nýs vinnuveitanda. 

                Stefndi vísar til kjarasamnings ríkisins og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna frá 14. september 2006.  Þar segi í bókun 7 að sátt sé um að „ágreiningur um launasetningu fyrir gildistöku hans sé lokið og að ekki verði um frekari kröfur að ræða á hendur fyrri rekstraraðila eða íslenska ríkinu“.  Stefndi telur að skilja megi þessa bókun svo að fullnaðaruppgjör hafi farið fram við slökkviliðs­menn og að þeir ættu ekki frekari kröfur á varnarliðið.  Eigi að skýra bókunina á annan veg verði stefnandi að sýna fram á það. 

                Verði fallist á að lög nr. 72/2002 gildi í þessu tilviki byggir stefndi á því að ekki hafi verið sýnt fram á að vinnufyrirkomulagið hafi verið andstætt þeim ákvæðum kjarasamninga sem varnarliðinu hafi borið að fylgja.  Varnarliðið hafi ekki verið bundið af öðrum ákvæðum kjarasamninga en þeim sem kaupskrárnefnd ákvað að skyldu gilda.  Nefndin hafi ekki tekið ákvörðun um að slökkviliðsmenn skyldu fá sér­stakar viðbótargreiðslur vegna vaktakerfisins, eftir að ákvæði um sérstakan frítökurétt komu inn í kjarasamninga 2001.  Vísar stefndi hér sérstaklega til yfirlýsingar nefndarinnar, dags. 3. apríl 1991, þar sem segi að umsamin kjör í kjarasamningum flyttust ekki sjálfkrafa yfir til varnarliðsins. 

                Stefndi byggir á því að stefnandi og aðrir starfsmenn hafi haft aðgang að sér­stakri svefnaðstöðu og því hafi þeir fengið næga hvíld.  Stefnandi rökstyðji ekki hvers vegna hvíldartími skuli talinn vinnutími í skilningi hvíldartímaákvæða kjarasamninga. 

                Stefndi byggir enn fremur á því að krafa stefnanda sé ósönnuð.  Þegar stefnandi hætti störfum hjá varnarliðinu hafi laun verið gerð upp.  Stefndi kveðst ekki hafa nein gögn um laun stefnanda hjá varnarliðinu.  Hann geti því ekki staðreynt full­yrðingar stefnanda um vinnutíma.  Ekkert liggi fyrir um það hvort varnarliðið hafi veitt viðbótarhvíld eða greitt sérstaklega fyrir meinta skerðingu hvíldar. 

                Verði fallist á að stefnandi hafi eignast kröfu eins og hann lýsi, hafi hann glatað henni með tómlæti. 

                Stefndi segir það andstætt kjarasamningum að frítökuréttur safnist upp.  Hann hafi verið grandlaus um hugsanlegan frítökurétt stefnanda og því hafi stefnanda verið skylt að leita eftir því að taka út frí vegna þessa réttar.  Frítökuréttar hafi aldrei verið getið á launaseðlum, en fullt tilefni hefði verið fyrir stefnanda til að gera athugasemd um það.

                Stefndi byggir á fullnaðaruppgjöri sem aðilar hafi gert með sér vegna starfs­loka stefnanda, dags. 28. september 2012. 

                Loks byggir stefndi á því að hugsanleg krafa stefnanda sé nú fyrnd, fyrningu verði hér að reikna frá því að stefnandi hætti störfum hjá varnarliðinu.  Fyrningartími sé fjögur ár, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007. 

                Stefndi mómælir upphafstíma dráttarvaxta, en skilgreindar kröfur hafi fyrst verið lagðar fram með stefnu birtri 23. október 2013. 

                Málsástæður og lagarök varastefnda íslenska ríkisins

                Varastefndi mótmælir því að frítökuréttur hafi getað stofnast með kjara­samningi slökkviliðsmanna og Reykjavíkurborgar 1997.  Það hafi fyrst getað hafa verið í kjarasamningi þessara aðila 1. apríl 2001. 

                Varastefndi byggir á því að allur útreikningur stefnanda byggist á forsendum sem hann geti ekki sannreynt og séu ósannaðar. 

                Varastefndi byggir á því að krafa stefnanda sé fyrnd.  Hann hafi hætt störfum hjá varnarliðinu 1. október 2006 og fyrningarfrestur sé fjögur ár, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007.  Þegar ráðningarsambandi stefnanda við varnarliðið lauk hafi óuppgerðar vinnuréttarkröfur orðið að almennum fjárkröfum, sem lúti reglum um fyrningu. 

                Varastefndi byggir á því að stefnandi hafi glatað hugsanlegum kröfum með tómlæti sínu.  Hann hafi ekki gert athugasemd um þennan rétt við starfslok hjá varnar­liðinu 2006.  Stéttarfélag stefnanda hafi fyrst hreyft þessu máli fimm árum síðar.  Stefnandi sjálfur hafi fyrst komið fram sjö árum síðar, er stefna í máli þessu var birt. 

                Varastefndi byggir á því að stefnandi hafi aldrei eignast frítökurétt vegna vinnuskipulags hjá varnarliðinu.  Þessi frítökuréttur hafi aldrei verið ákveðinn af kaup­skrárnefnd.  Nefndin hafi oft fjallað um laun slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli, en engar heimildir séu til um ætlaðan frítökurétt þeirra.  Þá hafi málefni þetta aldrei verið borið upp við nefndina og engin dæmi finnist um að frítökuréttur hafi verið gerður upp við slökkviliðsmann á Keflavíkurflugvelli.  Bendir hann á það sem hann telur misræmi í málatilbúnaði stefnanda, en hann vísi til bréfs formanns kaupskrár­nefndar dags. í september 1994, en segi jafnframt að frítökuréttur hafi fyrst komið í kjarasamningi 1997. 

                Varastefndi mótmælir því að lög nr. 72/2002 eigi við í þessu tilviki.  Bandarísk stjórnvöld sem njóti úrlendisréttar uppfylli ekki skilyrði 1. gr. laganna um að teljast fyrirtæki innan Evrópska efnahagssvæðisins.  Lögin hafi ekki gilt um ráðningar­samband stefnanda og varnarliðsins.  Því ráðningarsambandi hafi verið slitið 30. september 2006.  Daginn eftir hafi stofnast nýtt ráðningarsamband við Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar. 

                Varastefndi byggir á því að íslenska ríkið beri ekki að lögum ábyrgð á kröfum innan samninga, þrátt fyrir ákvæði 4. tl. 6. gr. viðbætis við varnarsamninginn, sbr. lög nr. 110/1951.  Þá hafi lög nr. 82/2000 nú verið felld úr gildi. 

                Varastefndi byggir á því að stefnandi hafi fallið frá hugsanlegum kröfum með starfslokasamningi sínum við aðalstefnda í september 2012.  Þá vísar hann, eins og aðalstefndi, til bókunar nr. 7 við kjarasamning slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli, dags. 14. september 2006, sem rakin er hér að framan. 

                Varastefndi byggir á því að hann eigi með réttu ekki aðild að málinu.  Yrði fallist á málatilbúnað stefnanda um órofið vinnuréttarsamband, væri aðalstefndi einn ábyrgur fyrir öllum kröfum stefnanda.  Meðstefndi hafi yfirtekið alla skyldur gagnvart stefnanda með lögum nr. 76/2008. 

                Varastefndi mótmælir því að skaðleysisábyrgð ríkisins samkvæmt varnar­samningnum eigi við hér. 

                Loks byggir varastefndi á því að ákvæði kjarasamnings um frítökurétt hafi samrýmst því vaktafyrirkomulagi sem tíðkast hafi hjá varnarliðinu.  Hefði verið ætlunin að taka upp ákvæði um frítökurétt hefði vaktaskipan verið breytt.  Sérstök hvíldar- og svefnaðstaða hafi verið þar sem slökkviliðsmenn hafi getað notið lágmarkshvíldar á hverri vakt. 

                Niðurstaða

                Stefnandi krefst peningagreiðslu í stað frítökuréttar sem hann telur sig hafa safnað á tímabilinu frá 1. maí 1997 til 30. september 2006.  Hann byggir kröfu sína á ákvæðum í kjarasamningum sem giltu ekki beint um vinnustað hans, en telur að skír­skotun kaupskrárnefndar til kjarasamninga slökkviliðsmanna í Reykjavík hafi þau áhrif að vinnutímaskipulagið leiði til þess að hann hafi safnað jafnt og þétt frítökurétti, þar sem vaktir voru lengri en heimilt var samkvæmt þessum kjarasamningum. 

                Nú hefur stefnandi að vísu ekki lagt fram nema lítið sýnishorn af ákvörðunum kaupskrárnefndar.  Hann heldur því ekki fram að nefndin hafi beinlínis ákveðið að greind ákvæði kjarasamnings LSS um hámarksvinnutíma og frítökurétt hafi verið tekin orðrétt upp í ákvörðun kaupskrárnefndar.  Byggir hann á almennri skírskotun nefndarinnar til ákvæða kjarasamningsins, sem í ákvörðun frá 8. september 1994 er takmörkuð með fyrirvaranum „eins og við getur átt“. 

                Með vaktaskipulagi hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli var vikið í megin­atriðum frá þeim reglum sem ákveðnar voru í kjarasamningi slökkviliðsmanna í Reykjavík.  Þannig var hver vakt 24 stundir, sem var óheimilt samkvæmt kjara­samningnum.  Ákvæðið um frítökurétt verður að skilja svo að það hafi átt að taka til þeirra undantekningartilvika sem upp gætu komið og krefðust þess að einstakir slökkviliðsmenn ynnu lengur en almennt var heimilt.  Á Keflavíkurflugvelli var hver vakt ákveðin 24 stundir og verður að skilja málflutning aðila svo að aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við þá skipan af hálfu slökkviliðsmanna eða stéttarfélags þeirra.  Var þessi skipan hluti ráðningarkjara.  Þegar ákveðið hafði verið með þessum hætti að regla um hámarkslengd vakta gilti ekki, geta starfsmenn ekki byggt kröfu um sérstaka aukagreiðslu á reglu sem gildir um allt annað vaktafyrirkomulag.  Stefnandi átti því ekki rétt á sérstakri frítöku vegna vaktaskipulagsins.  Verður þegar af þessari ástæðu að hafna kröfum hans og sýkna báða stefndu.  Þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að réttur sá sem krafið er um hafi ekki stofnast, þarf ekki að leysa úr öðrum máls­ástæðum aðila. 

                Þrátt fyrir þessa niðurstöðu er rétt að málskostnaður falli niður.

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.  Dómsuppkvaðning hefur dregist mjög vegna anna, en lögmenn og dómari töldu endurflutning óþarfan.

D ó m s o r ð

                Stefndu, Isavia ohf. og ríkissjóður, eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Stefáns Björnssonar.

                Málskostnaður fellur niður.