Hæstiréttur íslands

Mál nr. 72/2007


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Tollalagabrot
  • Reynslulausn
  • Ítrekun
  • Upptaka


         

Fimmtudaginn 25. október 2007.

Nr. 72/2007.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

Ársæli Snorrasyni

(Jón Magnússon hrl.

 Ólafur Thóroddsen hdl.)

Herði Eyjólfi Hilmarssyni og

(Björgvin Þorsteinsson hrl.

 Jóhann Pétursson hdl.)

Ólafi Ágústi Hraundal Ægissyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni. Tollalagabrot. Reynslulausn. Ítrekun. Upptaka.

H var ásamt J sakfelldur fyrir að hafa staðið að innflutningi á 15.227,9 g  af amfetamíni og 10.283,05 g af kannabis til söludreifingar í ágóðaskyni. Á og Ó voru sakfelldir fyrir að hafa tekið við bifreið, sem þeir töldu þessi fíkniefni enn vera falin í og hafa hana í vörslum sínum. Ó var auk þess sakfelldur fyrir frekari fíkniefnabrot og tollalagabrot. Við ákvörðun refsingar var meðal annars horft til hættueiginleika efnanna, magns þeirra og styrkleika. Segir í niðurstöðu Hæstaréttar að brotin, sem allir ákærðu áttu hlut að, ættu sér fáar hliðstæður í dómaframkvæmd að því er varðar magn fíkniefna. Ættu ákærðu sér engar málsbætur. Við ákvörðun refsingar Á hafði dómur er hann hlaut fyrir héraðsdómi í Hollandi ítrekunaráhrif, sbr. 2. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 8. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni með áorðnum breytingum. Þótti refsing Á hæfilega ákveðin 5 ár. Með broti sínu rauf Ó skilyrði reynslulausnar og var refsing hans því ákveðin í einu lagi með hliðsjón af óafplánaðri fangelsisrefsingu, sbr. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga og 60. gr. almennra hegningarlaga. Jafnframt hafði fyrra brot Ó ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingarinnar. Var hún hæfilega ákveðin fangelsi 9½  ár. H var gert að sæta fangelsi í 7 ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. janúar 2007 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærðu, sem verði þyngd.

Ákærði Ársæll Snorrason krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.

Ákærði Hörður Eyjólfur Hilmarsson krefst þess að refsing á hendur honum verði milduð og jafnframt hafnað kröfu ákæruvaldsins, sem að honum beinist, um upptöku hnúajárns og tveggja rýtinga.

Ákærði Ólafur Ágúst Hraundal Ægisson krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt 1. kafla ákæru, en að öðru leyti að refsing verði milduð.

Johan Hendrik Engelsman, sem dæmdur var til refsingar í héraði ásamt ákærðu, unir hinum áfrýjaða dómi og ákæruvaldið einnig að því er hann varðar.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu og heimfærslu brota þeirra til refsiákvæða.

Við ákvörðun refsingar ákærðu verður að líta til þess að ákærði Hörður Eyjólfur er sakfelldur fyrir að hafa staðið ásamt Johan Hendrik Engelsman að innflutningi á 15.227,9 g af amfetamíni og 10.283,05 g af kannabis til söludreifingar í ágóðaskyni, en ákærðu Ársæll og Ólafur Ágúst fyrir að hafa tekið við bifreið, sem þeir töldu þessi fíkniefni enn vera falin í, og haft hana í vörslum sínum. Auk þess er ákærði Ólafur Ágúst sakfelldur fyrir frekari fíkniefnabrot og tolllagabrot. Brotin, sem allir ákærðu áttu hlut að, eiga sér fáar hliðstæður í dómaframkvæmd að því er varðar magn fíkniefna, en samkvæmt skýrslu Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði um greiningu á sýnum úr því amfetamíni, sem málið varðar, var styrkur amfetamínbasa 26%. Ákærðu eiga sér engar málsbætur.

Að virtu framangreindu ásamt því, sem getið er í hinum áfrýjaða dómi varðandi ákvörðun refsingar, verður ákærða Herði Eyjólfi gert að sæta fangelsi í 7 ár.

Ríkissaksóknari hefur lagt fram í Hæstarétti gögn um að ákærði Ársæll hafi verið dæmdur 18. janúar 2000 í fjögurra ára fangelsi fyrir héraðsdómi í Haarlem í Hollandi vegna innflutnings þangað á 15.794,2 g af kókaíni. Hann mun hafa verið látinn laus 21. maí 2002 að lokinni afplánun tveggja þriðju hluta refsingarinnar. Sá dómur verður að hafa hér ítrekunaráhrif, sbr. 2. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 8. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni með áorðnum breytingum. Að gættu þessu ásamt því, sem greinir í héraðsdómi varðandi refsingu ákærða Ársæls, er hún hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár.

Svo sem getið er í héraðsdómi var ákærði Ólafur Ágúst dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. júní 2000 til að sæta fangelsi í níu ár fyrir brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga, en honum var veitt reynslulausn 16. febrúar 2004 í þrjú ár á eftirstöðvum refsingar, sem nam 1.620 dögum. Með þeim brotum, sem hann er nú sakfelldur fyrir, rauf hann skilyrði reynslulausnar og ber því að ákveða refsingu í einu lagi með hliðsjón af þeirri fangelsisrefsingu, sem óafplánuð er samkvæmt fyrri dóminum, sbr. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga og 60. gr. almennra hegningarlaga. Fyrra brot hans hefur jafnframt ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar, sbr. 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga og 8. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, auk þess sem líta verður til þess að brot hans, sem mál þetta varðar, voru framin á skilorðstíma reynslulausnar af refsingu samkvæmt dómi fyrir stórfellt fíkniefnabrot. Að þessu virtu og öðru því, sem getið er í hinum áfrýjaða dómi varðandi refsingu ákærða Ólafs Ágústs, er hún hæfilega ákveðin fangelsi í 9½ ár.

Frá framangreindri refsingu ákærðu dregst gæsluvarðhaldsvist þeirra vegna málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verða ákvæði hans um upptöku staðfest, svo og niðurstaða hans um sakarkostnað.

Ákærðu verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði Ársæll Snorrason sæti fangelsi í 5 ár.

Ákærði Hörður Eyjólfur Hilmarsson sæti fangelsi í 7 ár.

Ákærði Ólafur Ágúst Hraundal Ægisson sæti fangelsi í 9½ ár.

Til frádráttar framangreindri refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist ákærðu frá 14. apríl til 30. ágúst 2006.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærðu greiði hver fyrir sig málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Jóns Magnússonar, Björgvins Þorsteinssonar og Sveins Andra Sveinssonar, 373.500 krónur í hlut hvers. Annan áfrýjunarkostnað málsins, 81.083 krónur, greiði ákærðu óskipt.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 30. nóvember sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 4. október 2006 á hendur Ársæli Snorrasyni, Laugavegi 41a, Reykjavík, Herði Eyjólfi Hilmarssyni, Austurbrún 2, Reykjavík, Ólafi Ágústi Hraundal Ægissyni, Johan Hendrik Engelsman, hollenskum ríkisborgara, fæddum 21. október 1969, Chopinstraat 155, Capelle A/D IJssel, Hollandi og Hafþóri Harðarsyni, Fannafold 14, Reykjavík „fyrir fíkniefnabrot, tollalagabrot og til upptöku eigna, eins og hér greinir:

1.

Gegn ákærðu Ársæli, Herði Eyjólfi, Ólafi Ágústi og Johan Hendrik, fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, framið í mars til apríl 2006. Er ákærðu Herði Eyjólfi og Johan Hendrik gefið að sök að hafa staðið saman að innflutningi á 15.227,90 g af amfetamíni og 10.283,05 g af kannabis, sem falin voru í bifreið sem flutt var með flutningaskipi til Íslands, og jafnframt er þeim, ásamt Ársæli og Ólafi Ágústi, gefið að sök að hafa tekið við bifreiðinni og haft í vörslum sínum, í þeirri trú að í henni væru falin framangreind fíkniefni ætluð til söludreifingar í ágóðaskyni, en lögregla hafði þá lagt hald á stærstan hluta þeirra og komið fyrir gerviefnum í þeirra stað, allt eins og nánar er lýst í liðum 1.1, 1.2, og 1.3.

Gegn Hafþóri er málið eingöngu höfðað til upptöku á bifreiðinni sem fíkniefnin voru flutt í eins og nánar er tilgreint í dómkröfukafla.

1.1.          Ákærði Hörður Eyjólfur

flutti inn bifreið, af tegundinni BMW með verksmiðjunúmerinu WBADD4100BT54923 sem hann keypti í Belgíu, frá Rotterdam í Hollandi til Íslands, með flutningaskipinu Reykjafossi sem kom til hafnar í Reykjavík mánudaginn 3. apríl, kunnugt um að fíkniefnin væru falin í bifreiðinni, en tollverðir fundu kannabisefnið og 13.265,94 g af amfetamíninu í eldsneytistanki bifreiðarinnar við leit daginn eftir. Ákærði fékk bifreiðina tollafgreidda og afhenta úr vöruafgreiðslu þriðjudaginn 11. apríl, flutti hana á bifreiðastæði við heimili sitt að Austurbrún 2 og hafði í vörslu sinni þar til meðákærðu Johan Hendrik, Ársæll og Ólafur Ágúst fjarlægðu hana fimmtudaginn 13. apríl.

1.2.          Ákærði Johan Hendrik

hafði milligöngu um kaup ákærða Harðar Eyjólfs á bifreiðinni í Belgíu og flutning hennar til Íslands, kunnugt um að í henni væru falin fíkniefnin. Ákærði kom til Íslands fimmtudaginn 13. apríl, í því skyni að hafa umsjón með móttöku fíkniefnanna, en hann fór síðar sama kvöld að Austurbrún 2 og tók bifreiðina í sínar vörslur, ásamt ákærðu Ársæli og Ólafi Ágústi, og flutti hana í iðnaðarhúsnæði að Krókhálsi 10, Reykjavík. Unnu þeir þar við að fjarlægja efnin úr bifreiðinni, er lögregla kom á vettvang og handtók þá og fann í vörslum þeirra afganginn af amfetamíninu sem flutt hafði verið inn, þ.e. 1.961,96 g.

1.3.          Ákærði Ársæll og Ólafur Ágúst

fóru að kvöldi fimmtudagsins 13. apríl ásamt meðákærða Johan Hendrik, að Austurbrún 2, tóku bifreiðina í sínar vörslur og fluttu í iðnaðarhúsnæði að Krókhálsi 10, Reykjavík, í þeirri trú að í henni væru fíkniefnin sem falin höfðu verið í henni ytra. Unnu þeir þar við að fjarlægja efnin úr bifreiðinni, er lögregla kom á vettvang og handtók þá og fann í vörslum þeirra afganginn af amfetamíninu sem flutt hafði verið inn, sbr. ákærulið 1.2.

2.

Gegn ákærða Ólafi Ágústi fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 14. apríl 2006, í herbergi sem hann hafði til umráða á Hótel Fróni við Laugaveg 22, Reykjavík, haft í vörslum sínum 198,58 g af kannabis, 6,23 g af amfetamíni og 1,49 g af kókaíni.

3.

Gegn ákærða Ólafi Ágústi fyrir tollalagabrot, með því að hafa við komu til Keflavíkurflugvallar frá Hollandi, laugardaginn 25. mars 2006, eigi framvísað með tilskildum hætti við tollgæslu fartölvu af tegundinni Sony PCC-7H69, samtals að tollverðmæti krónur 167.824, sem ákærði hafði keypt í Singapúr, en í greint skipti gekk ákærði um tollhlið merkt grænu skilti með áletruninni: „Enginn tollskyldur varningur“ og fannst fartölvan við leit í farangri hans.

Heimfærsla til refsiákvæða:

Háttsemi ákærðu Ársæls, Harðar Eyjólfs, Ólafs Ágústs og Johans, samkvæmt 1. lið ákæru, telst varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974 og nr. 32/2001.

Háttsemi ákærða Ólafs Ágústs samkvæmt 2. lið ákæru telst varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001, hvað varðar meðferð ákærða á kókaíni.

Háttsemi ákærða Ólafs Ágústs samkvæmt 3. lið ákæru telst varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 170. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 2. og 10. gr. reglugerðar um tollmeðferð vara sem ferðamenn og farmenn hafa með sér við komu til landsins nr. 526/2002, sbr. reglugerð nr. 13/2005.

Dómkröfur:

1.               Að ákærðu Ársæll, Hörður Eyjólfur, Ólafur Ágúst og Johan Hendrik              Engelsman, verði dæmdir til refsingar.

2.               Að 15.227,90 g af amfetamíni og 10.283,05 g af kannabis, sbr. ákærulið 1 og 198,58 g af kannabis, 6,23 g af amfetamíni og 1,49 g af kókaíni, sbr. ákærulið   2 verði gert upptækt samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og     2. mgr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr.              233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.        

3.               Að Hafþóri Harðarsyni, verði með vísan til 7. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni, sbr. 7.  gr. laga nr. 10/1997, gert að  sæta upptöku  á bifreiðinni  OG-             093, með verksmiðjunúmerinu WBADD4100BT54923, sem notuð var til              innflutnings og vörslu á fíkniefnum og var jafnframt ávinningur Harðar Eyjólfs              af broti sem lýst er í ákærulið 1, en bifreiðin var skráð á nafn Hafþórs 11. apríl              2006. Til vara er þess krafist að ákærða Herði Eyjólfi verði, með vísan til 7.     mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni, sbr. 7. gr. laga nr. 10/1997, gert að              sæta upptöku á kr. 1.235.056, sem svarar til andvirðis bifreiðarinnar              samkvæmt tollverði að viðbættum opinberum gjöldum og flutningskostnaði.

4.               Að ákærða Ólafi Ágústi verði með vísan til 1. mgr. 181. gr. tollalaga nr. 88/2005 gert að sæta upptöku á fartölvu af tegundinni Sony PCC-7H69, sbr.              ákærulið 3.

5.               Að eftirtalin ólögmæt vopn sem lagt var hald á við rannsókn málsins verði gerð upptæk samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998:

a)              Svört rafstuðbyssa sem fannst við leit lögreglu á heimili ákærða Ársæls, þann 14. apríl 2006.

b)              Hnúajárn og tveir rýtingar, sem fundust við leit lögreglu á heimili ákærða Harðar Eyjólfs, sama dag.“

Af hálfu ákærðu Harðar Eyjólfs og Johans Hendrik er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist þeirra komi til frádráttar. Þá er og krafist hæfilegra málsvarnarlauna og jafnframt þóknunar fyrir störf verjenda á rannsóknarstigi. Þá krefst Hörður Eyjólfur þess að hafnað verði upptökukröfu vegna hnúajárns og tveggja rýtinga.

Af hálfu ákærðu Ársæls og Ólafs Ágústs er aðallega krafist sýknu vegna 1. liðs ákæru en til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist komi til frádráttar verði dæmd fangelsisrefsing. Þá verði málsvarnarlaun og þóknun fyrir störf verjenda á rannsóknarstigi greidd úr ríkissjóði. Þá krefst ákærði Ólafur Ágústs vægustu refsingar vegna  2. og 3. liðs ákæru.

  

1. liður ákæru.

                                                               I.

Mánudaginn 3. apríl 2006 ákvað Tollgæslan í Reykjavík að skoða BMW bifreið, sem flutt var frá Rotterdam til Reykjavíkur með gámi Eimskipafélagsins. Skráður sendandi og móttakandi sendingarinnar samkvæmt farmbréfi var ákærði Hörður Eyjólfur Hilmarsson. Í skýrslu Tollgæslunnar kemur fram að við leit í bifreiðinni hafi fundist samtals 42 hálfslítra flöskur í bensíntanki með brúnu og hvítu efni, ætluð fíkniefni. Var lögreglan í Reykjavík kvödd á staðinn. Voru hin ætluðu fíkniefni haldlögð og gervipakkningum komið fyrir í bensíntanki bifreiðarinnar.

Í upplýsingaskýrslum lögreglu kemur fram að eftirlit hafi verið haft með umræddri bifreið og kom að því hinn 11. apríl 2006 að ákærði Hörður Eyjólfur kom og leysti bifreiðina úr tolli á hafnarbakkanum við Sundahöfn. Í framhaldi var bifreiðin skráð undir fastanúmerinu OG-093. Þaðan var ferðinni heitið að heimili ákærða Harðar Eyjólfs og var lögreglan þar við eftirlit. Til tíðinda dró hinn 14. apríl er bifreiðin OG-093 var flutt af þremur mönnum með dráttartaug sem fest hafði verið í bifreiðina OL-397, inn í vörugeymslu að Krókhálsi 10. Hafði áður verið komið fyrir hlustunarbúnaði í OG-093 samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur og var ljóst, eftir að lögreglan hafði hlýtt á hljóðritaða upptöku, að ætlun þessara aðila var sú að fjarlægja ætluð fíkniefni úr bifreiðinni. Var því þegar hafist handa við að undirbúa handtöku mannanna, sem reyndust vera ákærði Ársæll Snorrason, Ólafur Ágúst Hraundal Ægisson og Johan Hendrik Engelsman. Í handtökuskýrslu lögreglu, sem rituð er af Kristni Sigurðssyni rannsóknarlögreglumanni, er aðkomu í nefndu iðnaðarhúsnæði lýst svo að þar hafi bifreiðin OG-093 staðið og á gólfi við hlið hennar hafi legið þrír svartir ruslapokar með plastflöskum sem ýmist innihéldu ætluð fíkniefni eða gerviefni þau sem lögreglan hafði komið fyrir. Þá hafði verið átt við hluta af efninu og það fjarlægt úr flöskum, m.a. hafði verið dreift úr brúnu efni á bylgjupappa. Vettvangur var að handtöku lokinni myndaður og liggja þær ljósmyndir frammi í málinu. Þá framkvæmdi lögreglan leit í bifreiðinni eftir að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur lá fyrir  og fannst þá ½ lítra plastflaska með brúnu efni í eldsneytistanki hennar.

Ákærðu Ársæli, Ólafi Ágústi og Johan Hendrik var gert að sæta gæsluvarðhaldi í kjölfarið. Þá var ákærði Hörður Eyjólfur handtekinn þennan sama dag á heimili sínu og hnepptur í gæsluvarðhald.  

Samkvæmt niðurstöðu efnarannsóknar tæknideildar lögreglu reyndust umrædd efni vera samtals 10.283,05 g af hassi og 15.227,90 g af amfetamíni. Efnasýni voru rannsökuð af Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði sem staðfesti að um þessi efni væri að ræða. Reyndust þrjú kannabissýnanna vera á bilinu 120-124 mg/g í styrkleika en eitt sýnið reyndist vera 102 mg/g í styrkleika. Styrkur amfetamínbasa í þurru sýni reyndist í öllum fjórum amfetamínsýnunum vera 26%, sem samsvari 35% af amfetamínsúlfati og styrkur koffeins í þurru sýni í þeim öllum reyndist vera 21%.

II.1

Ákærði Hörður Eyjólfur greindi svo frá við yfirheyrslu hjá lögreglu 14. apríl sl. að hann hefði farið til Antwerpen og keypt BMW bifreið fyrir son sinn. Bifreiðin hafi verið ógangfær heima hjá honum í fjóra daga. Um fíkniefnainnflutning kvaðst ákærði ekkert vita. Ákærði var yfirheyrður aftur hinn 17. apríl, þar sem hann lá á Landspítala-háskólasjúkrahúsi eftir að hafa fengið vægt hjartaáfall í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni. Greindi hann þá svo frá að hann hafi kynnst bílasala á bar í Antwerpen og ákveðið að kaupa af honum bifreið. Hann hafi fengið aðstoð tveggja manna, sem með honum voru, meðal annars við að fara til Rotterdam og senda bifreiðina heim með Eimskip. Annar þeirra hafi komið á hótelið til hans, fengið öll skjöl tengd bifreiðinni og sagt að hann vildi senda pakka með bifreiðinni sem þeir myndu nálgast á Íslandi. Bílasalinn hafi beðið sig um að hringja þegar hann kæmi til landsins. Hafi hann þá fengið á tilfinninguna að ekki væri allt með felldu, ekki síst þegar bifreiðin hafi ekki farið í gang. Kvaðst hann hafa skilið kveikjuláslykilinn eftir í hurðinni og ekki vitað hvað af bifreiðinni varð eftir það. Þá var ákærði yfirheyrður að nýju 24. apríl sl. og hélt hann sig þá við sinn fyrri framburð. Spurður um fjármál sín kvaðst ákærði hafa fengið bætur frá tryggingum fyrir tveimur árum og hafa geymt féð í peningaskáp í bílskúr í Hafnarfirði. Með þeim hafi hann fjármagnað bílaviðskiptin og ferðina. Ákærði kvaðst ekki þekkja meðákærðu Ársæl, Ólaf Ágúst og Johan Hendrik. Hann kvaðst hafa haft samskipti við bílasalann þegar hann kom heim og meðal annars hafi hann boðið honum fjárhagslega aðstoð. Hafi hann sent honum sms-skeyti sem á stóð „650 ísl“ sem verið hafi kostnaðurinn við að losa bifreiðina úr tollinum. Hann hafi hins vegar greitt þá fjárhæð sjálfur og lagt inn á greiðslukortareikning sinn. Þá hafi bílasalinn sagt í samtali við hann að hann ætlaði að koma til landsins „væntanlega til að losa draslið“ úr bifreiðinni. Ákærði kvaðst hafa sagt syni sínum að hann hafi ætlað að flytja inn tvær bifreiðar og að hann fengi BMW bifreiðina að launum. Kannaðist hann við samtal á milli sín og Arnars Hilmarssonar þar sem gefið hafi verið í skyn að fíkniefni væru falin í bifreiðinni. Kvaðst ákærði aðeins hafa verið að „djóka“ í Arnari.

Ákærði greindi svo frá við yfirheyrslu 25. apríl sl. að það sem hann hefði sagt í fyrri skýrslum hjá lögreglu væri „tóm þvæla“. Hið  rétta væri að Herbjörn Sigmarsson hefði beðið hann um að fara út og kaupa bifreið fyrir vin sinn og flytja með henni kannabisefni sem yrðu falin í bifreiðinni. Hafi Herbjörn lagt fé til fararinnar. Kvaðst ákærði hafa tekið son sinn með sér til Antwerpen. Þar hafi hann hitt menn sem hafi átt að annast milligöngu um þetta en ekkert hafi orðið af þessu í það skiptið. Hann hafi svo farið út aftur hálfum mánuði síðar þegar Herbjörn hafi upplýst hann um að búið væri að finna bifreiðina. Hafi Herbjörn afhent honum 100.000 krónur til fararinnar. Úti í Antwerpen hafi hann hitt þessa sömu menn og hafi þá verið gengið frá flutningnum á BMW bifreiðinni. Kvöldið eftir að bifreiðin hafði verið afhent afgreiðslu Eimskipa í Rotterdam hafi einn mannanna hringt í hann á hótelherbergið, eftir að hann var sofnaður, í því skyni að fá hjá honum pappírana vegna bifreiðarinnar. Hafi maður þessi komið upp á herbergi til hans og verið æstur. Hafi hann sagt að í bifreiðinni væri ekki aðeins hass heldur væri þar líka spítt. Honum bæri að láta bifreiðina í friði þegar heim væri komið og að þeir myndu sjá um að taka efnin úr bifreiðinni. Þegar heim var komið kvaðst ákærði hafa hitt Herbjörn og rætt um það við hann að það hefði ekki verið hluti af þeirra samkomulagi að flytja spítt með bifreiðinni. Hafi Herbjörn eytt því og sagt að hann fengi bara greitt eitthvað aukalega í staðinn. Hafi hann einnig fengið fé frá Herbirni til að leysa bifreiðina úr tolli, samtals 650.000 krónur. Herbjörn hafi nokkru síðar komið og fengið lykilinn að bifreiðinni og hafi ákærði ekki vitað hvað af henni varð. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sést að 11. apríl hringdi Herbjörn í ákærða kl. 13.05 og 31 mínútu síðar lagði ákærði inn á bankareikning sinn í SPRON 650.000 krónur.

Miðvikudaginn 26. apríl sl. var tekin skýrsla af ákærða Herði Eyjólfi fyrir dómi með vísan til b-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991 að viðstöddum þáverandi verjanda hans sem fyrr. Greindi hann frá á sama veg og hjá lögreglu daginn áður og staðfesti skýrsluna. Kvað hann Herbjörn hafa lagt til að hann flytti inn bifreið á sínu nafni. Í bifreiðinni hafi átt að fela kannabisefni og hafi ákærði átt að fá bifreiðina fyrir verkið. Aðspurður kvaðst ákærði aldrei hafa séð nein fíkniefni eða hvernig frá þeim hafi verið gengið í bifreiðinni. Hann hafi fengið fé til að leysa hana úr tolli hér á landi frá Herbirni. Hafi hann einnig haft samband við mann í Belgíu vegna þess. Ákærði kvaðst hafa náð í bifreiðina og ekið henni heim til sín en eftir það hafi hún ekki farið í gang, þrátt fyrir að hann hafi hellt bensíni í tankinn.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu 27. apríl sl. kvaðst ákærði ekki hafa vitað að það yrði annað en kannabisefni í bifreiðinni en náunginn sem hafi komið til hans á hótelið hafi sagt, „there is something more“. Taldi hann að maðurinn hefði átt við það að magnið af kannabis væri meira en um hefði verið talað.

Loks var tekin skýrsla af ákærða 10. maí sl. og skýrði ákærði þá meðal annars frá því að maðurinn sem hann hafi átt að hafa samband við í Belgíu varðandi upphæð aðflutningsgjaldanna hafi verið meðákærði, Johan Hendrik. Þá ítrekaði ákærði að hann hafi rifist við Herbjörn eftir að hann kom frá Belgíu vegna þeirra orða útlendingsins að það væri meira í bifreiðinni en upphaflega átti að vera.

Við myndsakbendingu sem framkvæmd var 28. apríl sl. benti ákærði Hörður Eyjólfur á mynd af meðákærða Johan Hendrik sem þann mann sem hafi ekið honum til Rotterdam.

Af símagögnum verður ráðið að mikil símasamskipti voru á milli ákærða og Herbjörns Sigmarssonar frá því í ársbyrjun og allt þar til 12. apríl sl., tveimur dögum fyrir handtöku ákærða. Þá liggur fyrir að ákærði hringdi í nokkur skipti í meðákærða Johan Hendrik eða sendi honum sms-skeyti síðustu fjóra dagana fyrir handtöku þeirra.

II.2

Ákærði Johan Hendrik var yfirheyrður 14. apríl sl. og kvaðst þá ekki kannast við fíkniefni þau sem lagt var hald á. Við yfirheyrslu 19. apríl sl. neitaði hann enn að hafa staðið að innflutningi fíkniefna til landsins. Kvaðst hann hafa komið til landsins 13. apríl sl. og hafi meðákærði Ársæll, sem sé gamall kunningi hans, sótt hann. Eftir að hafa farið heim til Ársæls með tösku sína hafi þeir farið saman út að borða á veitingastað þar sem einnig hafi verið maðurinn sem handtekinn var með þeim, meðákærði Ólafur Ágúst. Einhvern tíma seinna um kvöldið hafi þeir þrír farið þangað sem BMW bifreiðin var geymd. Hafi þeim ekki tekist að koma henni í gang og því hafi þeir dregið hana í húsnæðið að Krókhálsi. Ákærði kvaðst ekki kannast við minnismiða sem fannst í veski hans. Við yfirheyrslu 3. maí sl. breytti ákærði framburði sínum og játaði aðild sína að innflutningi fíkniefnanna en sagðist ekki geta skýrt frá aðild annarra að málinu. Sagði hann hlutverk sitt vegna innflutningsins hafa verið að taka á móti íslenskum manni í Belgíu og fylgja honum til að ganga frá pappírum varðandi bifreiðina. Seinna hafi verið útskýrt fyrir sér hvernig fíkniefnunum hafði verið komið fyrir af öðrum í bensíntank bifreiðinnar. Kvaðst ákærði hafa tekið að sér gegn greiðslu að fara til Íslands og hafa umsjón með því þegar fíkniefnin væru fjarlægð úr bifreiðinni. Hafi hann jafnframt átt að vigta fíkniefnin. Viðurkenndi ákærði að þeir þrír, sem hafi verið að Krókhálsi 10, hafi verið að veiða flöskur upp úr bensíntanki bifreiðarinnar þegar lögreglan kom á vettvang. Hafi þeir sett flöskurnar á gólfið og einhverjar hafi verið opnaðar. Kynnt var fyrir ákærða hljóðupptaka af samtali hans og meðákærða Ársæls og Ólafs Ágústs að Krókhálsi. Taldi ákærði sig þar þekkja rödd meðákærða Ársæls en ekki meðákærða Ólafs Ágúst en hann kvaðst gera ráð fyrir að um hann væri að ræða. Ákærði var beðinn um að skýra þann hluta samtalsins þar sem  lögregla telji hann segja: „Fuck is wrong, ohhh fuck“ og í framhaldi að Ólafur Ágúst segi, „is it gasoline, we can wait for him. He’s gona come with a pump“. Ákærði kvað það sem þarna gerðist vera það að nokkrar flöskur hafi komið úr tankinum og hafi komist bensín í einhverjar þeirra. Þá var borið undir ákærða hvað rætt hafi verið um þegar einn þeirra, líklega Ársæll, segi „shake the car“. Kvað hann tilefni þessa hafa verið að þeim hafi þótt nauðsynlegt að hreyfa við flöskunum í bensíntankinum. Þá kvað hann mega heyra þegar þeir telji flöskurnar. Ákærði kannaðist við að hafa hitt meðákærða Hörð í Belgíu, sem hann reyndar kallaði ávallt Íslendinginn, í tengslum við frágang bílakaupanna, en þeir hafi ekkert rætt saman um fíkniefnin. Þá kannaðist hann og við að hafa átt símasamskipti við hann varðandi greiðslu aðflutningsgjalda af bifreiðinni. Ákærði vildi ekki tjá sig neitt frekar um þátt meðákærðu.

Áður hefur verið lýst símasamskiptum ákærða við meðákærða Hörð Eyjólf. Þá má af símagögnum ráða að samskipti ákærða hafi verið mikil við meðákærða Ársæl frá febrúar á þessu ári og þar til þeir voru handteknir. Aukast þau á þeim tímum þegar Hörður Eyjólfur fer til Belgíu og fjölmörg símtöl eiga sér stað frá 16. til 20. febrúar sl. er Hörður Eyjólfur var í Belgíu með ákærða. Þá voru mikil samskipti milli þeirra um það leyti er Hörður Eyjólfur fer aftur til Íslands og á tímabilinu 29.-31. mars sl. er bifreiðin var send af stað til Íslands. Loks voru mikil samskipti milli þeirra frá 7. apríl og fram til 13. apríl er meðákærði Ársæll sótti hann á flugvöllinn.

II.3

Ákærði Ársæll var fyrst yfirheyrður eftir handtökuna 14. apríl sl. og kaus þá að tjá sig ekki um sakarefnið. Við yfirheyrslu 18. apríl sl. kvaðst ákærði hafa aðstoðað við að draga BMW bifreið að Krókhálsi, en hann hafi haft þar iðnaðarhúsnæði til umráða, og hafi ætlunin verið að koma bifreiðinni í gang. Hafi meðákærði Ólafur Ágúst beðið hann um aðstoð en hann hafi verið með lyklana að bifreiðinni. Þá hafi meðákærði Johan Hendrik, sem ákærði kvað drykkjufélaga sinn, einnig verið þarna staddur, en hann hafi verið í heimsókn hjá sér hér á landi. Hann kvaðst engar skýringar hafa á fíkniefnunum sem fundust í bifreiðinni. Hann hafi hins vegar gert sér grein fyrir að brúna efnið úr plastbrúsunum væri enginn barnamatur og að honum hafi ekki liðið vel með þetta innan dyra. Við yfirheyrslu hinn 21. apríl sl. kaus ákærði að draga til baka framburð sinn en þá hafði honum verið kynnt að hlerunarbúnaður hafi verið í bifreiðinni OG-093. Kvaðst hann hafa vitað af fíkniefnunum en ekki vitað um magn þeirra og tegund. Hann hafi lagt til húsnæði og aðstoðað við að flytja bifreiðina OG-093 þangað. Þá kvaðst hann hafa aðstoðað við að sjúga bensín úr tanki bifreiðarinnar. Hann hafi hins vegar farið út á bensínstöð og þegar hann hafi komið til baka hafi verið búið að hella úr nokkrum plastflöskum á pappír. Hann hafi aðstoðað við að tína saman flöskur í poka. Hinn 2. maí sl. greindi ákærði svo frá í skýrslutöku að meðákærði Ólafur Ágúst hafi haft lykil að BMW bifreiðinni og að það væri rangt, sem haft væri eftir Ólafi Ágústi, að hann hefði verið að aðstoða sig á einhvern hátt. Þá kvaðst ákærði ekki hafa fjarlægt flöskurnar úr bensíntanki bifreiðarinnar OG-093 en vitað að fíkniefni væru í henni.

Ákærði var yfirheyrður á ný 11. maí sl. Sagði hann þá að meðákærði Johan Hendrik hefði hringt í sig og skýrt sér frá að hann vantaði aðstöðu fyrir bifreið. Kvaðst hann hafa gert sér grein fyrir hvað stóð til og að fjarlægja þyrfti eitthvað sem hann grunaði að væru fíkniefni. Hafi hann boðist til að útvega meðákærða þessa aðstöðu. Kvaðst hann hafa hringt í meðákærða Ólaf Ágúst því að Johan Hendrik hafi vantað lykla bifreiðarinnar. Þeir hafi allir hist á veitingastað og hafi Ólafur Ágúst sagt að hann gæti útvegað lyklana. Hafi þeir mælt sér mót við Iðnskólann eftir rúman klukkutíma. Kvaðst ákærði hafa boðið fram aðstoð sína við að flytja bifreiðina. Kvað hann rangt, sem meðákærði Ólafur Ágúst segði í skýrslutöku hjá lögreglu, að hann hafi verið staddur að Krókhálsi að beiðni ákærða og aðeins til að aðstoða við að koma bifreiðinni í gang. Þá greindi ákærði frá því í skýrslutöku 1. júní sl. að hann hafi grunað að um mikið magn fíkniefna væri að ræða þar sem Johan Hendrik hefði minnst eitthvað á það þegar hann hafi spurt hann hversu mikið væri í tankinum. Það hafi jafnframt verið Johan Hendrik sem bað hann um að leggja til aðstöðu fyrir bifreiðina. Þá hafi það verið Johan Hendrik sem hafi beðið hann um að hafa samband við Ólaf Ágúst.

Eins og áður var lýst var ákærði mikið í símsambandi við meðákærða Johan Hendrik frá því í febrúar sl. auk þess að vera í mjög miklum símasamskiptum við meðákærða Ólaf Ágúst allt árið. Þá virðist ákærði einnig hafa átt mörg símtöl við Herbjörn Sigmarsson, sem virðast nánast eingöngu eiga sér stað stuttu fyrir ferðir meðákærða Harðar Eyjólfs til Belgíu og stuttu eftir að BMW bifreiðin er komin til landsins.

II.4

Ákærði Ólafur Ágúst var yfirheyrður 14. apríl sl. Kvaðst hann hafa verið staddur að Krókhálsi til að aðstoða Ársæl og útlendan vin hans við að gangsetja bifreið sem þeir hafi flutt þangað. Hafi þeir þurft að taka bensín af tankinum. Hann kvaðst engin fíkniefni hafa séð, aðeins brúsa með bensíni. Hann hafi aðstoðað við að tappa bensíninu af. Spiluð var fyrir ákærða hljóðupptakan úr BMW bifreiðinni OG-093 frá 13. apríl sl. en ákærði kvaðst ekki kannast við sína rödd á henni né myndi hann eftir þessum samtölum. Meðal annars heyrist á upptökunum eftirfarandi samtal og telur lögregla að þar megi greina raddir Ólafs Ágústs og Ársæls. Heyrist Ólafur Ágúst þannig segja: „já...hva...hvað eiga þær að vera margar“. Þá heyrist ákærði Ársæll segja  „það vantar 19 flöskur í viðbót“. Ólafur segir, „hassið er ónýtt allavega. Það þýðir ekkert að svekkja sig á því helvíti“. Skömmu síðar heyrast ákærðu telja upphátt.

Ekki verður ráðið af símagögnum að nein símasamskipti hafi átt sér stað á milli ákærða og Johan Hendriks en áður hafa verið rakin mikil samskipti ákærða og meðákærða Ársæls. Þá virðast og mikil símasamskipti hafa verið á milli ákærða og Herbjörns Sigmarssonar.

III.

Eins og fyrr greinir var lögreglu veitt heimild til að koma fyrir hlerunarbúnaði í bifreiðinni OG-093. Fyrir liggja í málinu endurrit hljóðupptöku af samtölum í eða við bifreiðina. Þannig var eftirfarandi samtal tveggja manna tekið upp frá kl. 14.06 hinn 12. apríl sl. og telur lögregla að þar ræði saman ákærði Hörður Eyjólfur og Arnar Hilmarsson. Í samtalinu segir ákærði: „Ég stakk því bara í vasann, þannig að það er allt í, djöfulsins helvítis hundar þessir helvítis tollhundar maður er allur í hárum og sjáðu sporin, þetta er eftir hundinn vaðið út um allt.“ Þá segir Arnar, „Og fann ekki neitt“. Hörður: „Nei, nei það eru hundrað kíló fyrir neðan.“ A: „Er það ekki, ég vissi nú að þú kynnir að ganga frá þessu...“ Hörður: „Hann verður hérna bíllinn, strákurinn fær hann ekkert strax sko ég hreyfi hann ekkert núna bara í nokkra daga.“ A: „Já, það borgar sig.“ Hörður: „Nei það er fylgst með mér eða eitthvað sko“. A: „Það liggur ekki svo mikið undir“. Hörður: „Nei, nei en það er að minnsta kosti skárra heldur en að sitja í steininum.“ A: „Já, það er einmitt ef þeim grunar eitthvað sem gæti alveg verið sko þá um leið og þú ferð og keyrir hann inn í einhvern skúr.“ Hörður: „Sko málið er það sko það sem ég get ímyndað sko að þeir láta mig hafa bílinn og allt og fylgjast með honum kannski.“

Þá var eftirfarandi samtal tekið upp frá kl. 23.26 hinn 13. apríl sl., þegar bifreiðin er komin í iðnaðarhúsnæðið að Krókhálsi 10, og telur lögregla að þar ræði saman ákærðu Ársæll, Johan Henrik og Ólafur Ágúst. Ársæll: „Það er kannski þú ... shake the car?“ Ólafur: „Já ... hvað eiga þær að vera margar?“ Ársæll: „Það vantar nítján flöskur í viðbót.“ Ólafur: „Ókei. Já ... þær ... út um allt sko. Bara reyna að krafsa okkur til. Helvítis karlinn að fylla bílinn af bensíni.“ ... Ársæll: „Jesus Christ maður.“ Ólafur: „Hassið er ónýtt allavega. Það þýðir ekkert að svekkja sig á því helvíti.“ Nokkur síðar í samtalinu heyrast Ársæll og Ólafur telja sextán, sautján, „nineteen, thirty, thirtyone.“ Johan: „Nineteen.... (óskiljanlegt)“. Ólafur: „Það eru nítján hérna.“

IV.

Fyrir dómi skýrði ákærði Hörður Eyjólfur svo frá að hann hefði kynnst Herbirni Sigmarssyni því þeir hafi búið í sama fjölbýlishúsi. Herbjörn hafi fengið hann til að flytja bifreið til landsins á sínu nafni, fyrir kunningja hans, sem hafi verið gjaldþrota og því ekki mátt eiga bifreið. Herbjörn hafi fyrst rætt þetta við sig fyrir löngu síðan og síðan talað um þetta aftur. Ákærði kvaðst hafa slegið til og farið út til Belgíu ásamt syni sínum í febrúar á þessu ári. Kvaðst hann hafa hitt þar einn mann, meðákærða Johan Hendrik, og hafi þeir spjallað saman í um tíu mínútur. Hann hafi sagt sér að bifreiðin sem hann ætti að kaupa væri ekki fundin og hann hefði því ekkert að gera þarna. Hann hafi því komið heim aftur um viku síðar. Kvaðst hann þá hafa talið að þessu væri lokið og að hann þyrfti ekki að fara þangað aftur. Ákærði kvaðst hafa fengið peninga frá Herbirni fyrir ferðinni. Hann kvaðst ekki muna hvað hún hafi kostað en hann hafi keypt miða fyrir son sinn fyrir ferðapunkta sem hann hafi sjálfur átt. Ákærði kvaðst hafa átt að fá ferðina og uppihald úti að launum. Herbjörn hafi lagt peninga inn á greiðslukort hans þegar hann hafi verið í Belgíu í fyrra skiptið vegna kostnaðar við ferðina, en hún hafi verið dýrari en reiknað hafi verið með. Ákærði kvað öll samskipti sín vegna ferðarinnar hafa verið við Herbjörn, hann hafi ekki átt nein samskipti við meðákærða Johan Hendrik vegna innflutnings á fíkniefnum, eins og ákært sé fyrir. Hann hafi einungis hitt þann mann tvisvar, einu sinni í hvorri ferð. Ákærði kvaðst ekkert hafa hugsað út í það hvort eitthvað væri einkennilegt við að þurfa að fara út til að kaupa bifreiðina. Hann kvaðst hafa átt að skoða hana og sjá hvort hann væri ekki í lagi.  Kvaðst hann vera vélstjóri og bifvélavirki og hafa því þekkingu á bifreiðum. Ákærði kvað Herbjörn hafa komið til sín og tjáð sér að búið væri að finna réttu bifreiðina. Ákærði hafi þá spurt hvort þessu væri ekki aflýst þar sem faðir hans hafi verið í bænum að heimsækja hann. Hafi þá orðið einhver æsingur yfir því og hann hafi því skellt sér út daginn eftir. Þetta hafi einungis átt að taka tvo daga, en hafi reyndar tekið þrjá daga.  Kvaðst ákærði hafa hitt sama manninn í Belgíu. Hann hafi farið og skrifað þar undir afsal fyrir bifreiðinni. Hafi hann þurft að fara og líta á bifreiðina, en vantað hafi upplýsingar um hvað hann væri mikið keyrður. Hann hafi séð bifreiðina í tvær mínútur en þeir hafi síðan farið til Hollands og skráð hana í skip hjá Eimskipum. Einhver maður hafi komið með honum sem eigi að vera klár í þessum efnum. Honum hafi verið tjáð að bifreiðin yrði flutt í skip af einhverjum flutningsaðila. Meðákærði Johan Hendrik hafi svo keyrt hann aftur á hótelið í Brussel og þeir hafi kvaðst þar. Ákærði kvað einu samskipti þeirra hafa snúist um kaup á bifreiðinni og ekkert verið rætt um fíkniefni.  Honum hafi svo verið skutlað á hótel og hann hafi síðan flogið heim. Þegar hann hafi komið aftur heim hafi hann haft samband við Herbjörn og þeir spjallað saman.  Hann kvað Herbjörn hafa farið undan í flæmingi þegar hann hafi spurt um það sem hann hafi heyrt úti, að það færi eitthvað með bifreiðinni. Maður hafi komið til hans á hótelið, kvöldið áður en hann hafi farið heim, og sagt að hann ætti að láta bifreiðina vera þegar heim væri komið því þeir ættu eitthvað í bifreiðinni. Ekki hafi verið um meðákærða Johan Hendrik að ræða. Hann hafi séð þennan mann með honum, en hann hafi ekki komið með á skrifstofu Eimskipa. Hann hafi ekki séð meðákærða Johan Hendrik aftur fyrr en fyrir dóminum. Ákærði kvaðst ekki hafa hugsað nánar um þetta þarna en hafa dottið í hug að það gætu verið húsgögn eða verkfæri eða eitthvað slíkt í bifreiðinni.  Herbjörn hafi svo sagt sér að hugsanlega yrði smávegis af kannabisefnum með bifreiðinni. Ákærði kvaðst ekki hafa ætlað að leysa bifreiðina út en Herbjörn hafi þá sagst mundu redda henni. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað af því að það væru fíkniefni í bifreiðinni fyrr en hann talaði við Herbjörn eftir að hann kom heim. Hann hafi hins vegar verið farinn að gruna það á leiðinni heim en sagðist ekki mundu hafa tekið að sér að flytja bifreiðina heim hefði hann vitað að það væru fíkniefni í henni. Aðspurður kvað ákærði framburð sinn hjá lögreglu í apríl sl., um að Herbjörn hafi sagt honum áður en hann fór út að flytja ætti kannabisefni í bifreiðinni, vera rangan. Hann hafi verið nýbúinn að fá hjartaáfall í fangelsinu og haldið sig vera að deyja. Hann hafi farið í hjartaþræðingu og verið á spítala í fimm daga. Lögreglan hafi neitað að láta sig fá lyfin sín og sagt að kæmi hann sökinni á einhvern annan myndi sá hefna sín. Þetta hafi því skolast eitthvað til hjá honum. Þegar bifreiðin var komin til landsins kvaðst ákærði hafa leyst hana út úr tolli og keyrt hana heim. Kvaðst hann hafa gert það vegna hræðslu við að fá eitthvað verra fyrir ef hann gerði það ekki. Kvaðst hann ekki hafa komið bifreiðinni í gang aftur. Hann hafi ætlað að setja númerin á og svo hafi einhver átt að sækja hana en hann hafi ekki vitað hver hafi átt að gera það. Herbjörn hafi sótt lykilinn að bifreiðinni og þetta hafi allt verið í gegnum hann. Aðspurður um hvers vegna bifreiðin hafi verið skráð á son hans kvað ákærði Herbjörn hafa sagt honum að skrá hana á strákinn og hann myndi svo redda þessu. Kvaðst hann hafa skilið það svo að ef einhver mismunur yrði þar á milli myndi hann redda því. Herbjörn hafi boðið honum að eiga bifreiðina fyrir að leysa hana út úr tollinum. Kvaðst hann hafa látið sér detta í hug að láta son sinn fá að eiga bifreiðina til að greiða upp gamla skuld við hann. Ákærði kvaðst ekki hafa leitað til lögreglu þar sem hann væri skíthræddur í þessum heimi. Hann noti þessi efni ekki sjálfur en nokkuð hafi verið um þetta í fjölbýlishúsinu þar sem hann búi og hann hafi fyrr á árinu séð mikið af slagsmálum þar sem handrukkarar hafi komið. Ákærði kvað Herbjörn hafa sagt sér að hann hafi setið í fangelsi fyrir fíkniefnainnflutning. Þeir hafi rætt mikið saman en aðalumræðuefnið hafi verið að þeir hafi báðir lent í skilnaði. Aðspurður um framburð hans fyrir dómi 26. apríl sl., þar sem ákærði kvað Herbjörn hafa komið til sín og beðið sig um að flytja inn bifreið með kannabisefnum, kvað hann það vera rangt. Hann hafi sagt þetta þar sem hann hafi óttast Herbjörn og félaga hans.  Kvað hann lögregluna hafa sagt að hún vissi að Herbjörn væri á bak við þetta og að ákærði ætti að passa sig á honum og þessum mönnum. Hann hafi því reynt að gera sem minnst úr hans hlut til að byrja með. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað hvernig efni hafi verið í bifreiðinni eða hversu mikið. Þegar borið var undir hann samtal við kunningja hans, Arnar, þar sem ákærði sagði 100 kíló vera undir bílnum, kvað ákærði það hafa verið grín. Samtalið hafi þróast þannig að það hafi verið algert bull. Hann hafi þó vitað á þessum tíma að einhver efni væru í bílnum. Hann kvaðst ekki hafa vitað hvar í bifreiðinni fíkniefnin voru falin. Aðspurður hvort hann þekkti meðákærða Ársæl kvaðst ákærði ekki þekkja hann og hafi séð hann í fyrsta skipti þegar hann mætti fyrir dóm vegna þessa máls. Ákærði kvaðst heldur ekki þekkja meðákærða Ólaf Ágúst og fyrst hafa séð hann í dómsalnum. Aðspurður á ný hvenær ákærði hafi fyrst vitað að það væru fíkniefni í bifreiðinni kvað þann það hafa verið á hótelinu kvöldið áður en hann hafi haldið heim. Maðurinn sem hafi komið til sín hafi sagt sér að það væru einhver efni í bifreiðinni en ekki hver þau væru.

 Ákærði Johan Hendrik skýrði frá því að hann hefði aðstoðað meðákærða Hörð Eyjólf við að fylla út eyðublöð vegna flutnings á bifreiðinni. Hann hafi ekið með hann frá Antwerpen í lítið þorp í nágrenninu til að hann sæi bifreiðina og vissi um hvaða bifreið væri að ræða. Þaðan hafi hann keyrt hana til flutningafyrirtækisins.  Hann sagðist ekki hafa vitað nákvæmlega hvernig kaupin hafi gengið fyrir sig.  Eigendurnir hafi verið búnir að setja þetta upp og sagt honum að vera á ákveðnu kaffihúsi á ákveðnum tíma ásamt meðákærða Herði Eyjólfi. Hann kvaðst ekki hafa farið með honum á neina bílasölu eða haft neitt að gera með kaup á bifreiðinni. Þegar þeir hafi komið á kaffihúsið hafi verið búið að skrifa undir einhverja pappíra sem hann hafi reiknað með að væru pappírar vegna kaupanna. Hann kvað þá meðákærða Hörð Eyjólf aldrei hafa talað neitt nákvæmlega um fíkniefni. Hann taldi þó að meðákærði hafi vitað að um fíkniefni væri að ræða, það hafi verið ljóst um hvað væri að ræða, þó það  hafi ekki verið rætt berum orðum. Ákærði kvaðst hafa vitað að það ættu að fara fíkniefni með bifreiðinni. Hann kvaðst ekki hafa vitað um magnið en hafa vitað að það ættu að vera tvær tegundir, amfetamín og hass. Hann kvaðst ekki hafa átt efnið heldur hafi hann verið að vinna fyrir aðra útlendinga. Hann hafi vitað hverjir hafi verið eigendur fíkniefnanna en ekki hverjir hafi komið þeim fyrir í bifreiðinni. Hann kvaðst ekki geta sagt neitt frekar um það því það væri of hættulegt fyrir sig. Ákærði kvaðst hafa komið hingað til lands til að taka fíkniefnin úr bifreiðinni. Þá hefði verið óvissa um magnið sem sett hafi verið í bifreiðina og því hafi hann verið beðinn um að fylgjast með því hve mikið magn kæmi úr henni. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað nákvæmlega hver hafi átt að taka við efnunum hér á landi, hann hafi ekki vitað mikið um íslenska hlutann af málinu. Aðspurður um miða sem fannst með útreikningum á efnismagni og verði kvað hann þetta vera miða sem honum hafi verið afhentur í Belgíu og hann hafi átt að afhenda hann einhverjum á Íslandi. Hann kvaðst ekki hafa skrifað miðann sjálfur. Ákærði kvað meðákærða Ársæl hafa sótt sig út á flugvöll þegar hann hafi komið til landsins.  Hann hafi beðið hann um það þar sem hann væri sá eini sem hann þekkti hérlendis. Hann hafi kynnst Ársæli í Hollandi árið 1997 og þeir hafi verið vinir síðan. Hann hafi ætlað að gista hjá honum. Hafi þeir byrjað á því að fara í Bláa lónið og síðan ekið um. Aðspurður hvort hann hafi rétt meðákærða Ársæli miða með símanúmeri eða öðrum upplýsingum kvað ákærði það rétt. Á miðanum hafi verið íslenskt símanúmer en hann hafi ekki vitað hjá hverjum það var. Honum hafi verið sagt eftir á hver hafi átt númerið. Um hafi verið að ræða Herbjörn Sigmarsson sem hann kvaðst ekki þekkja. Hann taldi meðákærða Ársæl hafa gert eitthvað við númerið, en taldi ekki að hann hefði hringt í það sjálfur. Kvaðst hann ekki vilja tjá sig meira um þennan miða því það væri hættulegt fyrir sig. Kvað ákærði þá meðákærða Ársæl hafa átt eitthvert stefnumót en hann hafi ekki alveg vitað hvað það hafi verið. Þeir hafi síðan farið að borða og hann fengið sér í glas. Á veitingastaðnum hafi þeir hitt meðákærða Ólaf Ágúst. Ákærði kvaðst einu sinni áður hafa hitt hann og þá í framhjáhlaupum nokkrum mánuðum áður.  Kvaðst hann aðspurður ekki hafa óskað eftir komu hans og hann minntist þess ekki að hafa sagt meðákærða Ólafi Ágústi að það væru fíkniefni í bifreiðinni. Eftir að hafa borðað á veitingastaðnum kvaðst ákærði hafa beðið heima hjá meðákærða Ársæli í u.þ.b. hálftíma eða klukkutíma. Þeir hafi síðan ekið saman þangað sem BMW bifreiðin var staðsett. Hann kvaðst ekki hafa vitað hvar það var og vissi ekki heldur hver hefði sagt til um það. Þeir hafi reynt að kom bifreiðinni í gang en það hafi ekki tekist. Sjálfur hafi hann ekki verið með lykil að bifreiðinni. Þeir hafi dregið bifreiðina að iðnaðarsvæðinu og sett inn í húsnæðið. Aðspurður um hvers vegna meðákærðu Ársæll og Ólafur Ágúst hafi farið með honum að taka fíkniefnin úr bifreiðinni sagði hann rétt að spyrja þá. Hann kvaðst ekki vilja svara spurningum um annarra manna hlut að málinu heldur einungis hvað hann hafi sjálfur gert. Þegar inn í iðnaðarhúsnæðið kom kvaðst hann hafa tekið flöskur úr bensíntankinum. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa verið einn við það verk. Þeir hafi tekið aftursætið úr bifreiðinni til að komast að tankinum. Það hafi verið búið að sýna honum hvernig ætti að gera þetta. Kvaðst hann hafa talið að fíkniefni væru í flöskunum. Hann var ekki viss um hvort búið hafi verið að taka öll fíkniefnin úr bifreiðinni þegar lögreglan kom en allavega meirihlutann. Kvaðst ákærði ekki geta sagt til um hvað hafi átt að verða um efnin eftir að þau hefðu verið fjarlægð úr bifreiðinni þar sem það myndi leiða hann í vandræði.  Þau hafi hins vegar ekki átt að liggja eftir í iðnaðarhúsnæðinu. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa vitað hvert meðákærði Ársæll hafi farið þegar hann fór um stund úr iðnaðarhúsnæðinu. Kvaðst ákærði hafa verið drukkinn og því ekki vita alveg hvernig atburðarásin var. Aðspurður hvort hann hafi staðið að skipulagningu eða fjármögnun innflutningsins sagði hann svo ekki vera og að hann hefði heldur ekki getað fjármagnað hann. Kvað hann hlutverk sitt hafa verið að aðstoða meðákærða Hörð Eyjólf við pappírsvinnu úti og að aðstoða við að koma efnunum úr bifreiðinni hér á landi. Kvaðst hann hafa skuldað nokkrum mönnum peninga og hafi þær skuldir átt að hverfa í staðinn fyrir framlag hans. Þegar ákærði var spurður sérstaklega um hvort meðákærði Ársæll hafi komið að kaupum, skipulagningu eða innflutningi fíkniefnanna kvaðst hann ekki telja það. Hann hafi klárlega ekki komið að skipulagningunni því um það hafi menn í Hollandi og Belgíu séð. Hann kvaðst ekki vita til þess að meðákærði Ársæll hafi haft nein samskipti við þá.

Ákærði Ársæll kvaðst hafa haft iðnaðarhúsnæðið að Krókhálsi til umráða. Hafi það verið eina ástæðan fyrir því að hann hafi verið á staðnum þegar lögreglan kom.  Bifreiðin hafi verið flutt þangað frá Austurbrún þar sem hún hafi verið biluð. Kvaðst hann ekki hafa vitað hver hafi verið með lykilinn en gruna að hann hafi verið í kveikjulásnum. Framburður hans hjá lögreglu, um að meðákærði Ólafur Ágúst hafi haft lykilinn, hafi einungis verið það sem hann hafi haldið. Ekki hafi tekist að koma bifreiðinni í gang og hann hafi því aðstoðað við að draga hana upp á Krókháls þar sem hafi staðið til að koma henni í samt lag fyrir eigandann. Þegar ákærði var spurður út í þann framburð hans hjá lögreglu að tilgangurinn með því að færa bifreiðina í iðnaðarhúsnæðið hafa verið sá að losa fíkniefnin úr honum kvaðst hann hafa sagt þetta þar sem hann hafi þá verið búinn að fá vitneskju um fíkniefnin. Hann hafi hins vegar ekki vitað af efnunum fyrr en hann hafi verið kominn þangað á staðinn. Hann hafi ekki farið til að losa nein fíkniefni heldur til að aðstoða við að koma bifreiðinni í gang. Hann kvaðst ekki hafa vitað hverjir hafi átt bifreiðina en boðist til að færa hana fyrir meðákærða Johan Hendrik. Hann kvaðst hafa kynnst honum er hann hafi búið í Rotterdam 1997 en ekki orðið var við að hann væri í neinum fíkniefnaviðskiptum. Þeir hafi hins vegar báðir neytt fíkniefna. Ákærði kvaðst hafa talið að meðákærði Johan Hendrik hafi komið hingað til lands til að heimsækja hann. Hafi meðákærði haft samband við hann tveimur dögum fyrr og sagst vera að koma í heimsókn. Hann hafi komið hingað áður og ákærði hafi einnig oft farið til hans. Þegar ákærði hafi farið að sækja hann á flugvöllinn hafi hann beðið um aðstoð við bifreið sem væri hérna. Kvað hann meðákærða Johan Hendrik hafa látið sig hafa miða með símanúmeri og jafnframt beðið hann að hringja í það númer. Kvaðst hann hafa leitað að númerinu í símanum sínum og séð að þetta væri númerið hjá Herbirni Sigmarssyni. Hann hafi hins vegar ekki hringt þar sem hann kærði sig ekki um að tala við Herbjörn, þekkja hann eða vera í kringum hann. Hann hafi því hringt í meðákærða Ólaf Ágúst, þar sem hann hafi vitað að þeir væru góðir vinir, og beðið hann um að aðstoða þá við bifreiðina. Þegar þeir hafi hist á veitingastaðnum hafi verið rætt um að þeir þyrftu að komast í bifreiðina og koma henni þaðan sem hún væri í húsnæðið sem hann hefði til umráða. Hafi það verið vegna þess að hún hafi verið biluð og átt hafi að lagfæra hana. Kvaðst ákærði ekki hafa vitað að það væru fíkniefni í bifreiðinni fyrr en hún hafi verið komin upp á Krókháls. Hann hafi farið úr húsnæðinu og þegar hann hafi komið til baka hafi verið brúsar úti á gólfi. Hafi hann séð að um fíkniefni af einhverju tagi væri að ræða, áfengi eða eitthvað slíkt. Hafi hinir tveir ákærðu sem þarna voru þá verið að tappa bensíni af bifreiðinni og hafi eitthvað bensín verið komið á gólfið. Hafi bifreiðin verið full af bensíni og hafi verið talað um að bensínstífla væri í bifreiðinni. Þar sem hann hafi haft umsjón með þessu húsnæði hafi hann ætlað að afstýra því að allt færi út um allt, enda hafi hann þurft að skila húsnæðinu í sama ásigkomulagi og þegar hann hafi tekið við því. Hann kvaðst því hafa farið út til að ná í bensíndælu auk þess sem hann hafi verið kominn í mikla vímu af bensíngufunni þarna inni og viljað forða sér. Hann hafi verið í burtu í u.þ.b. 15-20 mínútur. Aðspurður kvaðst ákærði hafa keypt svarta plastpoka í því skyni að tína saman rusl. Hann hafi ekki fengið dæluna en keypt pokana þar sem hann hafi minnt að þá hafi vantað. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa verið með í því að fjarlægja fíkniefni úr bifreiðinni. Aðspurður um hljóðupptökur af því þegar átt hafi verið við bifreiðina að Krókhálsi og hann heyrist telja og nefni töluna nítján kvað ákærði að þegar hann hafi komið aftur hafi flöskur legið á gólfinu. Hann hafi tekið þær upp og sett í poka. Hann hafi spurt meðákærða Johan Hendrik að því hvort eitthvað meira væri þarna. Kvaðst hann minna að hann hafi fengið svarið að það ættu að vera 19 flöskur. Kvaðst hann ekki hafa séð að það væri neitt ólöglegt í þeim miðað við hans reynslu af fíkniefnum. Aðspurður um það þegar meðákærði Ólafur Ágúst hafi sagt að hassið væri ónýtt kvaðst ákærði ekkert hafa vitað hvað hann hafi verið að tala um í þessu tilviki. Hann hafi ekki séð neitt hass. Kvaðst hann ekki kannast við að um rödd sína væri að ræða í öllum tilvikum þar sem skráð væri í málsskjölum að rödd hans væri á hljóðupptökunni. Ákærði kvaðst hafa talað íslensku, ensku og hollensku. Kvaðst hann hafa verið orðinn svo ruglaður að hann hafi allt eins getað talað frönsku. Kvaðst ákærði ekki vita hvernig efnin hafi komist úr bifreiðinni, hann hafi einungis hugsað um að koma þessu í burtu þar sem hann hafi ekki viljað hafa þetta í húsnæðinu. Hann hefði ekki tekið þátt í þessu hefði hann vitað af fíkniefnunum. Kvað ákærði skýrslur sínar hjá lögreglu um hlut meðákærða Ólafs Ágústs ekki vera réttar þar sem hann hafi verið að reyna að hlífa meðákærða Johan Hendrik. Hann hafi ekki haft neina vitneskju um að meðákærði Ólafur Ágúst tengdist þessum innflutningi á fíkniefnum. Hann hafi með þessum framburðum jafnframt verið að koma til móts við framburð meðákærða Ólafs Ágústs hjá lögreglu því hann hafi þá sagst hafa verið að aðstoða sig en enginn hafi þorað að nefna nafn Herbjörns. Ákærði kvað framburð sinn hjá lögreglu, um að hann hefði vitað af því að sendingin væri að koma, hafi heyrt tölur um magn og hann hafi unnið að því að fjarlægja efnin úr bifreiðinni, vera í stórum atriðum rangan. Hann hafi sagt þetta til að fría sjálfan sig. Hann hafi verið í mikilli taugaspennu og liðið mjög illa. Hann hafi því sagt margt á þessum tíma sem hann hafi ekki átt að segja.

Ákærði, Ólafur Ágúst, greindi svo frá að meðákærði Ársæll hefði hringt í sig og beðið sig um aðstoð við að koma bifreið í gang. Kvaðst ákærði ekki minnast þess að hann hafi beðið sig um að hafa samband við einhvern annan. Aðspurður hvort hann minntist þess að hafa talað við Herbjörn Sigmarsson vegna þessa máls kvað hann svo ekki vera. Aðspurður kvaðst hann hafa heimsótt Herbjörn þetta sama kvöld en þeir væru vinir. Þegar hann og meðákærðu hafi farið að sækja bifreiðina kvaðst ákærði telja að lykillinn hefði verið í henni. Ákærði kvaðst aldrei hafa séð meðákærða Johan Hendrik áður og ekki hafa vitað nein deili á honum. Kvaðst hann hafa verið undir stýri er bifreiðin var flutt að Krókhálsi. Er þangað var komið hafi þeir reynt að tappa bensíni af henni því meðákærð Johan Hendrik hafi talið að farið hefði á hann díselolía en ekki bensín. Tvö op hafi verið á bensíntanknum. Hafi fyrst verið reynt að dæla bensíni af úr öðru opinu og svo hinu. Hann hafi sett slöngu í opið en ekki séð nein fíkniefni þar eða í húsnæðinu. Mikið drasl hafi verið á staðnum eins og væri í geymsluhúsnæði. Það eina sem hann hafi gert var að tappa eldsneyti af bifreiðinni og hann verið að vinna að því þegar lögreglan kom á staðinn. Þegar borin var undir ákærða hljóðupptaka úr iðnaðarhúsnæðinu þar sem lögregla ætlar að hann spyrji hvað þær eigi að vera margar og meðákærði Ársæll svari að það vanti 19 flöskur kvaðst ákærði ekki geta komið því fyrir sig um hvað þarna hafi verið rætt. Hann hafi ekki séð neinar flöskur. Aðspurður um tölur sem þeir hafi heyrst nefna sagðist ákærði hafa verið í bensínvímu og þegar meðákærði Ársæll hafi sagt 16 hafi hann bara sagt 18. Ef hann hefði verið að telja eitthvað í raun hefði hann örugglega sagt 17. Þessar tölur væru ekki í röð og hann vissi ekkert um hvað væri verið að tala. Spurður út í orð sín, að hassið væri ónýtt og það þýddi ekkert að svekkja sig á því helvíti, kvaðst hann ekki halda að hann væri þarna að tala um hass heldur hafi hann líklega verið að tala um plastið sem hafi verið undir sætinu og að bensín hafi lekið á það eða gúmmímottuna. Kvaðst hann ekki þekkja raddir á umræddri upptöku. Upptakan væri óskiljanleg og efnið samhengislaust. Kvaðst ákærða aldrei hafa grunað að þarna væri um fíkniefni að ræða.

Vitnið, Herbjörn Sigmarsson, kvaðst hafa búið að Austurbrún 2 í sama húsi og ákærði Hörður Eyjólfur. Kvaðst hann hafa kynnst ákærða sem nágranna í fjölbýlishúsinu. Hann hafi stundum komið í kaffi til hans. Misjafnt hafi verið hversu mikil samskipti hafi verið þeirra á milli. Sagðist vitnið í eitt eða tvö skipti hafa lánað ákærða Herði Eyjólfi peninga, kannski 5.000 krónur, en hann hafi alltaf fengið greitt til baka. Aðspurður hvort hann hafi beðið ákærða Hörð Eyjólf um að fara til Belgíu og kaupa bifreið fyrir vin hans kvað vitnið svo ekki vera. Peningar sem hann hafi sent honum á meðan hann hafi verið í Belgíu hafi verið greiðsla á skuld frá því nokkrum mánuðum áður en ákærði Hörður Eyjólfur hafi lánað sér pening. Hann hafi hringt í sig frá Belgíu og dauðvantað peninga. Hann hafi því lagt inn á hann samkvæmt hans beiðni. Kvaðst vitnið hafa vitað að ákærði Hörður Eyjólfur hafi verið að fara eitthvað út en hann vissi ekkert meira um það. Aðspurður hvort hann hafi orðið var við bifreiðina sagðist hann hafa séð hana á bílastæðinu við húsið. Ákærði Hörður Eyjólfur hafi sýnt sér bifreiðina og sagst hafa keypt hana. Vitnið kvaðst ekki kannast við að hafa fengið lykil að bifreiðinni. Vitnið kvað ákærða Ólaf Ágúst vera vin sinn. Aðspurður um heimsókn Ólafs Ágústs hinn 13. apríl sagðist hann muna að hann hafi komið ásamt dóttur sinni en ekki hversu lengi hann stoppaði. Sagðist hann ekki muna eftir neinu sérstöku erindi, sjálfsagt hafi verið um eitthvert vinaspjall að ræða. Aðspurður hvort bifreiðin hafi komið til umræðu kvaðst vitnið vera viss um að svo hafi ekki verið.

Vitnið, Ásgeir Karlsson lögreglumaður, vann að rannsókn málsins.  Aðspurður um hvernig lögreglan hafi litið á samvinnu ákærðu kvað hann lögregluna hafa haft þá tilfinningu að ákærði Hörður Eyjólfur væri ekki höfuðpaur í málinu. Hafi þeir frekar álitið hann smápeð sem væri oft notað í svona málum.

Vitnið Jakob Kristinsson, dósent hjá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerðir vegna fíkniefnanna. Taldi hann kannabissýnið hafa verið töluvert sterkt og óblandað. Meðaltal kannabissýna á árinu 2005 hafi verið um 50 mg/g. Mjög sjaldgæft væri að sjá efni yfir 200 mg/g.  Amfetamínið hafi verið aðeins sterkara en í meðalsýni sem hafi verið rannsökuð á árinu 2005, en ekkert á við það sterkasta sem hann hafi séð.

V.

Niðurstaða.

Framburður ákærða Harðar hefur verið mjög óstöðugur og óljós allt frá því hann var handtekinn og þar til hann var yfirheyrður fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Hefur hann frá upphafi viðurkennt að hafa annast kaup á tilgreindri BMW bifreið í Belgíu og síðan innflutning á henni hingað til lands en við tvær fyrstu yfirheyrslurnar hjá lögreglu kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa haft neina vitneskju um að fíkniefni leyndust í umræddri bifreið. Hafi hann kynnst bílasala á bar í Belgíu og ákveðið að kaupa af honum bifreið fyrir son sinn. Hafi hann fengið aðstoð tveggja manna þar við að koma bifreiðinni til landsins frá Rotterdam í Hollandi. Annar mannanna hafi komið á hótelið til hans, fengið þar öll skjöl varðandi bifreiðina og sagt að þeir vildu senda pakka með bifreiðinni sem þeir myndu nálgast þegar hún væri komin til Íslands. Eftir að hafa ekið bifreiðinni heim til sín frá tollvörugeymslunni hafi gengið erfiðlega að koma henni þar aftur í gang þrátt fyrir margar tilraunir. Hafi hann skilið bifreiðina eftir ólæsta og bíllyklana í hólfi á hurðinni við heimili sitt og hafi hann talið að hún stæði þar enn þegar hann var handtekinn. Við þriðju yfirheyrsluna talaði ákærði um að maðurinn sem kom til sín á hótelið hafi talað um að þeir ætluðu að setja smádrasl í bifreiðina sem þeir myndu svo taka úr henni við komuna til landsins. Hann hafi svo áttað sig á því þegar hann kom til landsins að eitthvað vafasamt, hugsanlega fíkniefni, kynnu að vera falin í bifreiðinni. Við fjórðu yfirheyrsluna kvaðst ákærði svo vilja breyta sínum fyrri framburði þar sem hann væri „tóm þvæla“. Hið rétta væri að Herbjörn Sigmarsson hafi beðið hann um að fara út til að kaupa bifreiðina í því skyni að flytja með henni kannabisefni sem yrðu falin í henni. Hafi Herbjörn þessi fjármagnað kaupin á bifreiðinni og annast allan undirbúning vegna þeirra. Maðurinn sem komið hefði til hans á hótelið hefði þá sagt honum að í bifreiðinni væri ekki bara hass heldur væri þar líka spítt. Staðfesti ákærði þessa frásögn sína fyrir dómi í skýrslu sem tekin var af honum þar með vísan til 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991. Kom þar og fram að hann hefði átt að fá bifreiðina að launum. Hafi hann verið í sambandi við mann í Hollandi vegna greiðslu aðflutningsgjalda af bifreiðinni og hafi Herbjörn síðan annast greiðslu á þeim. Við yfirheyrslu daginn eftir dró ákærði aðeins úr framangreindri játningu sinni um hvað hann hefði vitað um fíkniefnin og sagði þá að maðurinn á hótelinu hefði sagt við sig að auk hassins væri „something more“, sem hann hefði skilið þannig að um væri að ræða meira magn af kannabis en um hefði verið rætt. Áður hafði ákærði þó ávallt borið því við að hann hefði aldrei haft neina vitneskju um magn þeirra fíkniefna sem fara áttu í bifreiðina. Í síðustu yfirheyrslunni hjá lögreglu, sem fram fór hinn 10. maí sl., kom fram hjá ákærða að eftir að heim var komið hafi hann rifist við Herbjörn vegna þeirra orða mannsins á hótelinu að meira væri í bifreiðinni en um hefði verið rætt. Einnig kom þá fram hjá honum að meðákærði Johan Hendrik væri sá sem hann hefði verið í sambandi við vegna aðflutningsgjaldanna af bifreiðinni.

Við þingfestingu máls þessa neitaði ákærði sök í málinu og við aðalmeðferð þess neitaði hann í fyrstu að hafa vitað fyrir fram að flytja ætti fíkniefni með bifreiðinni til landsins. Hann hélt því þá fram að maðurinn, sem komið hefði til hans á hótelið, hefði sagt að þeir ættu eitthvað í bifreiðinni og að ákærði ætti að láta að hana vera þegar heim væri komið. Það hafi svo ekki verið fyrr en Herbjörn hafi staðfest það við hann eftir heimkomuna að hann fékk vitneskju um fíkniefnin í bifreiðinni. Er ákærði var síðan undir lok skýrslugjafar sinnar nánar spurður um vitneskju sína um fíkniefnin játaði hann að fyrrgreindur maður á hótelinu í Belgíu hefði sagt honum, kvöldið áður en ákærði hélt heimleiðis, að í bifreiðinni væru fíkniefni án þess að það væri nánar rætt hvaða efni væri um að ræða.

Eins og rakið hefur verið viðurkennir ákærði að hafa keypt og flutt umrædda bifreið til landsins. Þegar virtur er framangreindur framburður hans hjá lögreglu, sem gefinn var í öllum tilvikum í viðurvist verjanda, framburður hans sem gefinn var fyrir dómi áður en mál þetta var þingfest, og þegar einnig er haft í huga samtal ákærða við vin hans Arnar sem hljóðritað var í bifreiðinni, þar sem ákærði talar meðal annars um fíkniefni sem falin séu undir bifreiðinni, og loks játning ákærða undir lok aðalmeðferðar málsins um að hann hafi verið upplýstur um að fíkniefni væru í bifreiðinni áður en hann hélt heim á leið, telur dómurinn að  hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi vitað eða mátt vita að þau fíkniefni sem tilgreind eru í ákæru hafi verið falin í bifreiðinni við flutning hennar hingað til lands. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæru. 

Ákærði, Johan Hendrik, hefur fyrir dómi játað að hafa haft milligöngu um kaup meðákærða Harðar Eyjólfs á umræddri bifreið í Belgíu og flutning hennar til Íslands og að hafa haft vitneskju um að í bifreiðinni væru falin fíkniefni, bæði amfetamín og hass. Þá játaði hann að hafa, ásamt meðákærðu Ársæli og Ólafi Ágústi, tekið bifreiðina og flutt hana að Krókhálsi 10 og jafnframt að hafa haft það hlutverk að hafa umsjón með að fjarlægja fíkniefnin úr bifreiðinni og vigta þau. Hafi það verk verið í miðjum klíðum er lögreglan kom á vettvang. Hann hafi eingöngu tekið að sér þetta ákveðna verk fyrir erlenda eigendur efnanna til að létta af sér skuldum sem hann stæði í og  hafi hann ekkert vitað um magn þeirra né hverjir komu efnunum fyrir í bifreiðinni. Samkvæmt þessu er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.

Við þingfestingu málsins fyrir dómi neitaði ákærði Ársæll sök. Framburður hans hefur þó frá upphafi verið mjög á reiki. Eftir að hafa neitað að tjá sig um málið við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu skýrði hann frá því við aðra yfirheyrslu að meðákærði Ólafur Ágúst hefði beðið hann að aðstoða sig við að koma bifreiðinni í gang. Hafi ákærði aðstoðað hann við að draga bifreiðina að Krókhálsi 10 og með honum í því verki hafi einnig verið meðákærði Johan Hendrik. Kvaðst hann þá ekki hafa vitað að fíkniefni væru í bifreiðinni og ekki hafa neinar skýringar á að í henni hafi fundist slík efni. Hann hafi þó gert sér grein fyrir að brúna efnið á gólfinu væri enginn barnamatur. Þegar ákærði var yfirheyrður af lögreglu þriðja sinni var honum gerð grein fyrir því að hlerunarbúnaður hefði verið í bifreiðinni og að samtöl þeirra að Krókhálsi hefðu verið tekin upp. Kaus hann þá að draga fyrri framburð sinn til baka að því leyti að hann sagðist hafa vitað af fíkniefnunum í bifreiðinni en hvorki um magn þeirra né tegund. Hafi hann aðstoðað við að fjarlægja efnin úr bifreiðinni. Við fjórðu yfirheyrslu hjá lögreglu kvaðst hann ekki hafa fjarlægt flöskurnar úr bensíntanki bifreiðarinnar en hann hafi þó vitað að fíkniefni væru í henni. Við fimmtu yfirheyrslu sagði hann meðákærða Johan Henrik hafa beðið sig um aðstöðu fyrir bifreið og kvaðst ákærði þá hafa gert sér grein fyrir að fjarlægja ætti eitthvað úr bifreiðinni sem hann grunaði að væru fíkniefni. Og er hann var seinast yfirheyrður vegna málsins hjá lögreglu lýsti hann því að hann hefði grunað að um mikið magn fíkniefna væri að ræða.                        

Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi dró ákærði svo þann framburð sinn til baka að hann hefði vitað um fíkniefnin í bifreiðinni áður en þeir fóru með hana að Krókhálsi og hafi hann ekkert um þau vitað fyrr en eftir að þangað var komið. Gaf hann þá skýringu á fyrri framburði sínum hjá lögreglu að hann hefði sagt þetta „til að fría sjálfan sig“. Hann hefði verið í mikilli taugaspennu og liðið mjög illa. Hann hafi því sagt margt á þessum tíma sem hann hefði ekki átt að segja. Það er mat dómsins að þessar skýringar ákærða á þessum breytta framburði séu vægast sagt sérkennilegar og í sjálfu sér mjög ótrúverðugar og verði því að meta framburð hans, bæði fyrir lögreglu og fyrir dómi, heildstætt. Við það mat verður að hafa í huga tengsl ákærða við meðákærða Johan Hendrik, sem hefur játað fyrir dómi að hafa komið hingað til lands í þeim tilgangi að hafa umsjón með að fjarlægja svo stóra fíkniefnasendingu úr umræddri bifreið sem raun ber vitni. Miðað við þá hagsmuni sem í húfi voru og þá miklu áhættu sem slíkum innflutningi fylgir verður að telja með ólíkindum ef til greina hefði komið af hálfu meðákærða Johan Hendrik að blanda þeim meðákærðu Ársæli og Ólafi Ágústi í þau mál ef þeir tengdust á engan hátt innflutningi efnanna. Telur dómurinn því mjög ótrúverðuga þá skýringu ákærða fyrir dómi að hann og meðákærði Ólafur Ágúst hafi umrætt sinn eingöngu verið að aðstoða meðákærða Johan Hendrik við að gangsetja bifreið í eigu einhvers óþekkts aðila og jafnframt lána honum húsnæðið að Krókhálsi til viðgerðarinnar án þess að þeir hefðu nokkra vitneskju um fíkniefnin í bifreiðinni eða hefðu orðið þeirra varir að Krókhálsi 10. Einnig þykir í því sambandi verða að horfa til þeirra hljóðupptaka sem liggja fyrir af samtölum þeirra þriggja ákærðu að Krókhálsi 10 umrætt sinn þar sem augljóslega kemur fram að ákærði og meðákærði Ólafur Ágúst voru að telja þær flöskur sem upp úr bensíntanki bifreiðarinnar komu og að ekki var hægt að merkja annað en að þeir ynnu þar allir saman við að fjarlægja þær úr bifreiðinni. Er það og í samræmi við framburð meðákærða Johans Hendriks þar sem hann talar um að hann hafi ekki verið einn við það verk. Þá verður loks að telja að allar aðstæður á vettvangi þegar ákærðu voru handteknir hafi augljóslega verið þannig að ekki gat leynst hvað þar hafði farið fram. Þannig lá fjöldi flaskna fullar af fíkniefnum eða ætluðum fíkniefnum þar í plastpokum á gólfi og sömuleiðis lá þar meint kannabisefni í lausu formi á gólfi.          

Að þessu virtu er það niðurstaða dómsins að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi aðstoðað við að flytja bifreiðina í iðnaðarhúsnæðið á Krókhálsinum vitandi að fíkniefni væru í henni og unnið þar með meðákærðu Johan Hendrik og Ólafi Ágústi að fjarlægingu efnanna í þeirri trú að í henni væru þau fíkniefni sem greind eru í ákæru og hann vissi eða mátt vita að í henni höfðu verið falin. Verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru þó þannig að virða ber verknað ákærða að hluta sem tilraun til brots á 173. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga, þar sem mestur hluti þeirra efna sem ákærði tók í vörslur sínar voru gerviefni sem lögreglan hafði komið fyrir í bifreiðinni í stað fíkniefnanna. Þetta hefur þó engin áhrif á refsiákvörðun í málinu, enda hafði ákærði ótvíræðan ásetning til að fremja brotið, sbr. 2. mgr. 20. gr.                          

Ákærði Ólafur Ágúst hefur frá upphafi neitað sök, bæði fyrir lögreglu og við dómsmeðferð málsins, á þeim grundvelli að hann hafi ekki haft hugmynd um að fíkniefni væru falin í umræddri bifreið. Skýringin á veru hans í iðnaðarhúsnæðinu að Krókhálsi umrætt sinn sé sú að meðákærði Ársæll hafi beðið hann um að aðstoða sig við að koma BMW bifreiðinni í gang og í framhaldi að draga hana upp á Krókháls 10. Skýrði hann aðstæðurnar á vettvangi, þegar þeir voru handteknir, á þann veg að þeir hafi verið að vinna þar við að tappa bensíni af bensíntanki bifreiðarinnar vegna gruns meðákærða Johans Hendrik um að díselolía hefði farið á bensíntankinn.                 

Fyrir liggur að þegar ákærðu voru handteknir var búið að setja flöskur með meintum fíkniefnum í svarta plastpoka og búið að dreifa brúnu efni á pappír á gólfinu. Verður að telja ákaflega ótrúverðuga þá staðhæfingu ákærða að hann hafi einskis orðið var þegar flöskur þessar voru fjarlægðar úr bensíntanki bifreiðarinnar og innihaldi þeirra að hluta til dreift á pappírinn. Þá fær framangreind frásögn um díselolíu í bensíntankinum enga stoð í frásögn hinna ákærðu um hvað þarna fór fram. Var  skýring meðákærða Ársæls þvert á móti sú að um bensínstíflu hafi verið að ræða og af framburði meðákærða Johans Hendrik verður ekkert annað ráðið en að dæling bensínsins hafi eingöngu tengst töku fíkniefnanna úr tankinum. Þá verður framburður Johans Hendrik fyrir lögreglu og dómi, þó hann hafi forðast að lýsa því frekar, ekki skilinn á annan veg en þann að allir þeir ákærðu sem þarna voru á staðnum hafi unnið að því í sameiningu að fjarlægja efnin með fulla vitneskju um hvað þar var um að ræða. Sú frásögn ákærða að meðákærði Ársæll hefði haft samband og óskað aðstoðar hans vegna bifreiðarinnar stangast einnig á við framburð Ársæls að þessu leyti hjá lögreglu sem mótmælti þá algjörlega þessari staðhæfingu ákærða og fullyrti að þessu hafi í raun verið þveröfugt farið. Ársæll dró að vísu þennan framburð til baka fyrir dómi með þeirri skýringu að hann hefði sagt þetta í þeim tilgangi að reyna að hlífa meðákærða Johan Hendrik. Þykir sú skýring þó ekki sennileg í ljósi þess að ekkert bendir til að tengsl hans við Johan Hendrik hafi verið slík að hann hefði tekið hagsmuni hans fram yfir hagsmuni Ólafs Ágústs sem hann augljóslega hafði verið í miklu sambandi við. Einnig verður að telja með ólíkindum að meðákærði Johan Hendrik, sem hefur hér fyrir dómi játað að hafa komið hingað til lands í þeim eina tilgangi að fjarlægja fíkniefnasendinguna úr bifreiðinni, augljóslega í samvinnu við kaupendur hér, hefði ljáð máls á því að blanda einhverjum óviðkomandi í það mál. Þá verður loks að líta til þeirra hljóðupptaka sem liggja fyrir  af samtölum þeirra þriggja ákærðu sem voru að Krókhálsi 10 umrætt sinn. Þannig telur dómurinn að ótvírætt komi þar fram að ákærði og meðákærði Ársæll hafi báðir verið að telja flöskur sem komu upp úr bensíntanki bifreiðarinnar og að ákærði hafi talað um að „hassið væri ónýtt“.                                                                                                             

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er það mat dómsins að framburður ákærða sé allur mjög ótrúverðugur og að engu hafandi. Sé því hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hafi aðstoðað við að flytja bifreiðina í iðnaðarhúsnæðið á Krókhálsinum vitandi um að fíkniefni væru í henni og unnið þar með meðákærðu Johan Hendrik og Ársæli að töku efnanna úr henni í þeirri trú að það væru þau fíkniefni sem greind eru í ákæru og hann vissi eða mátt vita að í henni höfðu verið falin. Verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru þó þannig að virða ber verknað ákærða að hluta sem tilraun til brots á 173. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga, þar sem mestur hluti þeirra efna sem ákærði hafði í vörslum sínum voru gerviefni sem lögreglan hafði komið fyrir í bifreiðinni í stað fíkniefnanna. Þetta hefur þó engin áhrif á refsiákvörðun í málinu, enda hafði ákærði ótvíræðan ásetning til að fremja brotið, sbr. 2. mgr. 20. gr.                                                                 

Samkvæmt þessu hafa allir ákærðu verið fundnir sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í 1. lið ákæru. Með hliðsjón af því mikla magni fíkniefna sem hér um ræðir teljast brot þeirra varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2. og 3. liður ákæru.

Ákærði Ólafur Ágúst hefur skýlaust játað háttsemi þá sem honum er gefin að sök í þessum ákæruliðum. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt færð til refsiákvæða í ákæru.

 

Refsiákvörðun, upptaka o.fl.

Við ákvörðun refsingar ber meðal annars að horfa til hættueiginleika efnanna, magns þeirra og styrkleika. Er hér um að ræða verulegt magn af amfetamíni og kannabis sem ætlað var til söludreifingar hér á landi og enginn vafi leikur á að eru mjög skaðleg heilsu manna. Magn þetta, yfir 15,2 kg af amfetamíni og yfir 10,2 kg af kannabis, á sér fá fordæmi í slíkum málum hérlendis. Þá má ráða af matsgerðum Jakobs Kristinssonar dósents og framburði hans fyrir dómi að styrkleiki amfetamínsins hafi verið ríflega í meðallagi en kannabisefnið hafi verið töluvert sterkt. Horfir þetta til sérstakrar refsiþyngingar.

 

Ákærði Hörður Eyjólfur hefur ekki áður sætt refsingu sem áhrif hefur á ákvörðun refsingar hans í máli þessu. Enda þótt ekkert hafi komið fram um að hann hafi skipulagt verknaðinn kom hann ásamt Johan Hendrik að innflutningi efnanna. Þykir refsing hans að því virtu sem hér hefur verkið rakið, og með vísan til 1. og 3. tl. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin fangelsi í 6 ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist hans frá 14. apríl til 30. ágúst 2006.

 

Ákærði Johan Hendrik, sem er hollenskur ríkisborgari, hefur ekki áður sætt refsingu hérlendis og ekki liggur neitt heldur fyrir um að hann hafi hlotið refsingu í heimalandi sínu eða annars staðar. Enda þótt ekkert hafi komið fram um að hann hafi skipulagt verknaðinn kom hann ásamt Herði Eyjólfi að innflutningi efnanna og vörslum þeirra í framhaldi. Ákærði játaði aðild sína að innflutningnum þegar hann var yfirheyrður af lögreglu þriðja sinni og staðfesti játningu sína fyrir dómi. Hann hefur þó forðast að upplýsa um hlut annarra sem að málinu komu og gefið þá skýringu að hann óttaðist að það kynni að stofna honum eða fjölskyldu hans í hættu. Verður því í nokkru tekið tillit til játningar ákærða. Þykir refsing hans að því virtu sem hér hefur verið rakið og með vísan til 1. og 3. tl. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin fangelsi í 6 ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist sem hann hefur sætt frá 14. apríl 2006.

 

Ákærði Ársæll hefur ekki áður sætt refsingu sem áhrif hefur við ákvörðun refsingar hans í máli þessu. Hann hefur vegna 1. liðs ákæru, ásamt meðákærðu Ólafi Ágústi og Johan Hendrik, verið fundinn sekur um að taka í sína vörslu tilgreinda BMW bifreið í  þeirri trú að í henni væru fíkniefni sem vafalaust voru ætluð til söludreifingar í ágóðaskyni. Liggur ekkert fyrir um að ákærði hafi komið að skipulagningu verknaðarins. Samkvæmt því, og með vísan til 1. og 3. tl. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 4 ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist hans frá 14. apríl til 30. ágúst sl.

 

Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði var ákærði Ólafur Ágúst hinn 27. júní 2000 dæmdur í 9 ára fangelsi fyrir brot á 173. gr. a almennra hegningarlaga. Síðan þá hefur hann í þrígang gerst sekur um umferðarlagabrot sem ekki skipta máli við ákvörðun refsingar hans. Ákærða var veitt reynslulausn 16. febrúar 2004 í þrjú ár á 1620 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar samkvæmt framangreindum dómi. Hefur ákærði með brotum sínum nú rofið skilorð þeirrar reynslulausnar, sbr. 1. mgr. 42. gr. almennra hegningarlaga. Í samræmi við 60. gr. sömu laga verður ákærða því nú gerð refsing í einu lagi með hliðsjón af hinni óloknu refsivist. Hann hefur vegna 1. liðs ákæru, ásamt meðákærðu Ársæli og Johan Hendrik, verið fundinn sekur um að taka í sína vörslu tilgreinda bifreið í  þeirri trú að í henni væru fíkniefni sem vafalaust voru ætluð til söludreifingar í ágóðaskyni. Liggur ekkert fyrir um að ákærði hafi komið að skipulagningu verknaðarins. Þá hefur ákærði játað sakir samkvæmt liðum 2 og 3 í ákæru. Að því virtu sem hér hefur verið rakið og með vísan til 1. og 3. tl. og einnig 2. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 8 ½  ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist hans frá 14. apríl til 30. ágúst 2006.

Upptæk eru gerð 15.234,13 g af amfetamíni, 10.481,63 g af kannabis og 1,49 g af kókaíni, sbr. 1. og 2. lið ákæru, með vísan til þeirra lagaákvæða sem tilgreind eru í ákæru.

Ákærði Ólafur Ágúst hefur fallist á upptöku á fartölvu af gerðinni Sony, sbr. 3. lið ákæru, og er hún gerð upptæk með vísan til þeirra lagaákvæða sem tilgreind eru í ákæru. Ákærði Hörður Eyjólfur mótmælir því hins vegar að hnúajárn og tveir rýtingar, sem lögregla lagði hald á við leit á heimili hans hinn 14. apríl 2006, verði gerð upptæk. Þar eð varsla slíkra vopna fer í bága við ákvæði 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998 ber með vísan til 1. mgr. 37. gr. þeirra laga að fallast á kröfu ákæruvalds um að þau verði gerð upptæk. Ákærði Ársæll hefur samþykkt upptöku rafstuðbyssu sem fannst við leit lögreglu á heimili hans hinn 14. apríl 2006. Samkvæmt því, og með vísan til 1. mgr. 37. gr., sbr. 2. mgr. 30. gr., er fallist á þá kröfu ákæruvalds.

Hafþór Harðarson, skráður eigandi bifreiðarinnar OG-093, hefur fallist á kröfu ákæruvalds um að honum verði gert að sæta upptöku á bifreiðinni og verður því fallist á þá kröfu með vísan til 7. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni, sbr. 7. gr. laga nr. 10/1997.

Um sakarkostnað, málsvarnarlaun og réttargæsluþóknun fer svo sem í dómsorði greinir. Hefur þá verið tekið tillit til tímaskýrslna verjenda og virðisaukaskatts.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Kolbrúnu Sævarsdóttur saksóknara.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Hörður Eyjólfur Hilmarsson, sæti fangelsi í 6 ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist hans frá 14. apríl til 30. ágúst 2006.                                            

Ákærði, Johan Hendrik Engelsman, sæti fangelsi í 6 ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist sem hann hefur sætt frá 14. apríl 2006.

Ákærði, Ársæll Snorrason, sæti fangelsi í 4 ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist hans frá 14. apríl til 30. ágúst 2006.

Ákærði, Ólafur Ágúst Hraundal Ægisson, sæti fangelsi í 8 ½  ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist hans frá 14. apríl til 30. ágúst 2006.

Upptæk eru gerð 15.234,13 g af amfetamíni, 10.481,63 g af kannabis og 1,49 g af kókaíni. Einnig er gerð upptæk bifreiðin OG-093, fartölva af gerðinni Sony, hnúajárn, tveir rýtingar og rafstuðbyssa.

Ákærði, Hörður Eyjólfur, greiði 1.546.390 krónur í sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 498.000 krónur.

Ákærði, Johan Hendrik, greiði 1.330.656 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.

Ákærði, Ársæll, greiði 1.322.511 krónur í sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 969.180 krónur.

Ákærði, Ólafur Ágúst Hraundal, greiði 1.165.500 króna réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns.

Annan sakarkostnað, 448.024 krónur, greiði ákærðu óskipt.