Hæstiréttur íslands
Mál nr. 469/1999
Lykilorð
- Verksamningur
- Aðild
|
|
Fimmtudaginn 16. mars 2000. |
|
Nr. 469/1999.
|
Gjörvi ehf. (Sigmundur Hannesson hrl.) gegn Stálsmiðjunni hf. (Ragnar H. Hall hrl.) |
Verksamningur. Aðild.
G tók að sér umfangsmikla viðgerð á skipi í eigu V. Þar sem G hafði ekki yfir að ráða slipp aflaði hann tilboðs um slipptöku hjá S. S taldi sig hafa samið við G um verkið og krafði það um greiðslu þess, en G bar fyrir sig að kröfunni ætti að beina að V. Talið var að engum stoðum hefði verið skotið undir þá staðhæfingu að S hefði samþykkt að V kæmi í stað G í því samningssambandi, sem stofnað var til. Háttsemi G eftir að verkið hefði verið hafið hefði ennfremur gefið S tilefni til að treysta því að ekki væri ágreiningur um aðild hins fyrrnefnda að samningi um viðgerð skipsins. Var niðurstaða héraðsdóms um að fallast bæri á kröfur S staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. nóvember 1999 og krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að krafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Í greinargerð áfrýjanda fyrir héraðsdómi var því lýst yfir að hann reki véla- og viðgerðarþjónustu í Reykjavík. Megi rekja aðdraganda málsins til þess að forsvarsmaður Vesturskips ehf. hafi beðið sig um að annast umfangsmikla viðgerð á fiskiskipi félagsins, sem hafi meðal annars falist í því að taka það í slipp. Þar sem áfrýjandi hafi ekki haft yfir slipp að ráða hafi hann orðið að fá tilboð um slipptöku hjá stefnda. Er meðal skjala málsins tilboð stefnda til áfrýjanda 18. júní 1998 um að taka skipið upp og sjósetja að nýju, svo og að vinna tilgreind verk við það, sem fólust einkum í botnþvotti, botnmálningu og öxuldrætti. Kveður stefndi fulltrúa áfrýjanda hafa samþykkt tilboðið munnlega, sem sé alvanalegt í þessari starfsemi. Hinn síðarnefndi mótmælir því að hafa samþykkt tilboðið. Segist hann hafa hætt við að taka að sér verk fyrir útgerðarmanninn og því beðið stefnda að gera tilboð í allt verkið. Hafi hann afhent tilboð stefnda útgerðarmanninum, sem hafi samþykkt það. Stefndi neitar hins vegar að hafa átt í nokkrum samningaviðræðum við útgerðarmanninn, enda hefði ekki komið til álita að vinna verkið fyrir hann án fullkominna trygginga vegna bágrar fjárhagsstöðu hins síðarnefnda, sem stefnda hafi verið kunnugt um.
II.
Útgerðarmaður skipsins lét færa það til stefnda 4. júlí 1998 og var það síðan tekið í slipp. Í bréfi stefnda til áfrýjanda 7. sama mánaðar var vakin athygli á að í áðurnefndu tilboði hafi verið tekið fram að 25% tilboðsfjárhæðarinnar skyldi greitt í upphafi verks. Greiðslan hafi ekki enn borist og var óskað eftir að 450.000 krónur yrðu inntar af hendi samdægurs. Í niðurlagi bréfsins sagði: „Það skal skýrt tekið fram að Stálsmiðjan hf. lítur á Gjörva hf. sem verkkaupa.“ Stefnda barst greiðsla sömu fjárhæðar frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. tveim dögum síðar. Við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi kvaðst fyrirsvarsmaður áfrýjanda hafa sagt útgerðarmanninum hvað greiða bæri og hann hafi gengið frá því máli. Af hálfu áfrýjanda var ekki með öðrum hætti brugðist við bréfi stefnda.
Svo sem áður er rakið beindi stefndi tilboði sínu að áfrýjanda. Hefur engum stoðum verið skotið undir þá staðhæfingu að stefndi hafi samþykkt að útgerðarmaðurinn kæmi í stað áfrýjanda í því samningssambandi, sem stofnað var til. Háttsemi áfrýjanda eftir að verkið var hafið gaf stefnda ennfremur tilefni til að treysta því að ekki væri ágreiningur um aðild hins fyrrnefnda að samningi um viðgerð skipsins. Að þessu virtu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans staðfest, enda er varakrafa áfrýjanda engum rökum studd.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Gjörvi ehf., greiði stefnda, Stálsmiðjunni hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Stálsmiðjunni hf., kt. 620269-1079, Austurbakka v/Brunnarstíg, Reykjavík, á hendur Gjörva ehf., kt. 470581-0269, Grandagarði 18, Reykjavík, með stefnu sem birt var 13. apríl 1999.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.735.300 kr. með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. ágúst 1998 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda skv. gjaldskrá Lögmanna Mörkinni 1 sf. að fjárhæð 354.930 kr. og að auki þing-festingargjald, 3.500 kr., eða samtals 358.430 kr.
Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Jafnframt verði stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu skv. mati réttarins. Til vara er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.
Stefnandi reisir kröfu sína á níu reikningum vegna viðgerða á Erni ÍS. Reikningarnir eru allir dags. 24. júlí 1998 og eru samtals að fjárhæð 2.185.300 kr. Af hálfu stefnanda er tjáð að stefndi hafi greitt inn á skuld sína við stefnanda 4. ágúst 1998 eða áður en lögfræðilegar innheimtuaðgerðir hófust og hafi verið tekið tillit til þess í kröfugerð stefnanda.
Af hálfu stefnda er málsatvikum lýst þannig: Stefndi, sem rekur m.a. véla- og viðgerðarverkstæði hér í borg, var til þess kvaddur af forsvarsmanni Vesturskips ehf. „eiganda og útgerðaðila Ernis BA, skipaskrárnr. 1410 (ex/áður Dagrún ÍS) að annast umfangsmikla viðgerð á skipinu, sem fólst m.a. í því að taka varð skipið í slipp." Stefndi hefði ekki haft yfir slipp að ráða og hafi hann orðið að fá tilboð í slipptökuna frá stefnanda. Síðar hafi komið í ljós að stefnda var ekki kleift vegna anna að taka að sér verkið, hafi hann þá boðist til þess að senda fyrirspurn til stefnanda um verðtilboð fyrir allt verkið. Og með tilboði 18. júní 1998 hafi stefnandi boðist til að taka að sér allt verkið. Stefndi hafi látið eiganda skipsins fá tilboð stefnanda og síðan ekki haft frekari afskipti af málinu.
Af hálfu stefnda er byggt á því að hann sé ekki réttur aðili að málinu, málsatvik leiði ekki til þess að stefnandi eigi lögvarða kröfu á hendur stefnda til greiðslu þeirra reikninga sem hér um ræðir og vísar hann til 2. tl 16. gr. laga nr. 91/1991 í því sambandi. Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu krefst hann þess að stefnukröfur verði verulega lækkaðar og að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.
Við flutning málsins var fullyrt af hálfu stefnanda að forráðamenn stefnanda hefðu ekki ætlað annað en stefndi væri samningsaðili þeirra varðandi slipptöku skipsins Ernis BA. Staðhæft var að ekkert í gögnum málsins benti til annars. Af hálfu stefnanda, Stálsmiðjunnar hf., hefði aldrei verið fallist á að gera við skipið einungis á ábyrgð eiganda þess ef á það hefði reynt. Verkið hefði verið unnið að frumkvæði stefnda, í trausti þess að stefndi væri verkkaupandinn og bæri skyldu til að greiða stefnanda fyrir verkið. Og stefnda væri skylt að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð að fullu, hvorki rök né forsendur væru fyrir öðru.
Lögmaður stefnanda benti sérstaklega á að í bréfi frá stefnanda til stefnda, dags. 7. júlí 1998, (dskj. nr. 16), sé tekið fram að stefnandi líti á stefnda sem verkkaupa. Taldi hann að stefndi hefði ekki hreyft tímanlega andmælum gegn þessu viðhorfi stefnanda og reyndar ekki tjáð stefnanda fyrr en viðgerðinni var lokið og skipið sett niður að honum bæri að leita til eiganda skipsins en ekki til stefnda um greiðslu fyrir verkið.
Af hálfu stefnda var ítrekað að stefndi hefði einungis haft milligöngu um það að skipið Ernir BA var tekið til viðgerðar af stefnanda. Forráðamenn stefnda hefðu hvorki formlega né á annan hátt samþykkt tilboð stefnanda, sem fram kemur á dskj. nr. 15 um viðgerð á skipinu, heldur aðeins framvísað tilboðinu til eiganda skipsins. Viðgerð skipsins hjá stefnanda hefði síðan farið fram án þess að forsvarsmenn stefnda hefðu afskipti af því verki. Ekkert hefði komið fram í málinu sem sýndi eða sannaði neitt annað.
Eiríkur Brynjólfur Böðvarsson, forsvarsmaður Vesturskips ehf., en félagið var eigandi skipsins Ernis BA á þeim tíma sem hér um ræðir, kom fyrir réttinn. Hann kvaðst hafa leitað eftir því við verkefnastjóra Stálsmiðjunnar hf. að skipið yrði tekið í slipp á árinu 1998 og hafi það gerst með venjulegum hætti slíkra viðskipta. Fljótlega hafi hins vegar komið í ljós að stefnandi hafði ekki tíma til að vinna við skipið, skipið hafi verið fært úr slippnum og ágreiningur hafist milli hans og stefnanda meðan skipið lá í höfn án viðgerðar. Hann hafi síðan orðið að leita annað til að fá viðgerðum lokið enda hafi hann ekki fengið stefnanda til að taka skipið upp aftur. Hann sagði að Steinar Viggósson hafi verið talsmaður stefnanda í viðræðum við hann um viðgerðir stefnanda á skipinu. Kvaðst hann hafa greitt stefnanda 450.000 kr. [9. júlí 1998] vegna verksins, fjárhæðin hafi verið færð út af reikningi hans hjá Sjóvá. Ekki hafi þó verið um uppgjör á tjóni að ræða. Aðspurður kvað hann samkomulag sitt við stefnanda um viðgerðir skipsins vera fólgið í samþykki sínu á tilboði stefnanda sem stílað var á stefnda [dskj. nr.15].
Steinar Viggósson, rekstrarstjóri hjá stefnanda, bar vitni í málinu. Hann sagði að haft hefði verið samband við sig frá Gjörva og þess óskað að gert yrði tilboð (um viðgerð) og umrætt skip yrði tekið í slipp. Þá hafi ekki verið ljóst á hvaða tíma þetta ætti að vera, en á þeim tíma sem tilboðið var gert hefði slippurinn verið laus til 12. eða 13. júlí. Engin spurning hafi verið um það að tilboðinu var beint til Gjörva. Hann sagði að honum hefði borist símleiðis svar frá Gjörva um að gengið yrði að tilboðinu. Ekkert hefði komið fram annað en Gjörvi væri að taka tilboðinu í eigin nafni. Hann neitaði því að hafa samið við forsvarsmann eiganda skipsins, Eirík Brynjólf Böðvarsson, um viðgerðina. Hann sagði að enginn skriflegur samningur hefði verið gerður, samningurinn hafi falist í því að forsvarsmenn Gjörva hefðu tjáð honum að tilboðið væri ásættanlegt. Hann sagði að á þessum tíma hefði staðið yfir viðræður milli stefnanda, Reykjavíkurhafnar og Gjörva um það að stefnandi tæki skip í slipp fyrir þá síðarnefndu vegna viðskiptavina þeirra, sem þörf hefðu á slíkri aðstöðu. Ætlað hefði verið að stefnanda bæri að taka upp skip fyrir þá gegn eðlilegu gjaldi. Hefði hann ályktað að hér væri á ferðinni fyrsta verkefni stefnanda á þeim nótum. Þannig hafi hann gengið út frá því að stefndi væri verkkaupandi og bæri ábyrgð á greiðslu fyrir verkið.
Ágúst Einarsson, sem var forstjóri stefnanda, Stálsmiðjunnar hf., á þeim tíma sem hér um ræðir, kom fyrir réttinn. Hann sagði m.a. að ástæðan fyrir því að hann tiltekur í bréfi sínu til stefnda [dskj. nr. 16], dags. 7. júlí 1998, að stefnandi líti á stefnda sem verkkaupa hafi verið sú, að forsvarsmenn stefnda höfðu haft samband við hann og reynt „að ýta ábyrgðinni af sínum öxlum yfir á útgerð skipsins”. Hann hafi ekki ljáð máls á því og raunar talið það fráleitt vegna þess að honum hafi verið kunnugt um að útgerðin stóð ekki traustum fótum fjárhagslega. Einu ástæðuna fyrir því að skipið hafi verið tekið upp í slipp án tryggingar fyrir greiðslu sagði Ágúst vera þá staðreynd að stefndi var kaupandi verksins en ekki útgerðin.
Helgi Eiríksson, stjórnarmaður stefnda, bar fyrir rétti að útgerðarmaður Ernis hafi leitað til þeirra varðandi viðhald á skipinu og spurt hvort stefndi hefði aðgang að slipp. Hann hafi tjáð honum að stefndi væri með samning við stefnanda í þá veru. Stefndi hafi beðið stefnanda um tilboð í verkið með það í huga að stefndi ynni verkið, allt nema slipptökuna sjálfa. Tilboð stefnanda hafi borist þeim en þá hefðu aðstæður verið þannig að stefndi hafði ekki lengur tök á að sinna þessu verkefni vegna anna svo að þeir höfðu tjáð Eiríki [Brynjólfi Böðvarssyni] að það væri best fyrir hann að taka tilboðinu. Síðan myndi stefndi sjá um verkefni varðandi viðgerð á skipinu sem ekki kæmu slipptökunni við.
Vilhjálmur Óskarsson, stjórnarmaður stefnda, bar fyrir rétti að stefndi hefði ekki samþykkt tilboð stefnanda. Hann sagði að fyrirspurn stefnda til stefnanda hefði ekki alls kostar verið til að fá stefnanda til að vinna verkið, ætlunin hefði öllu heldur verið að fá verðmat stefnanda á verkinu.
Niðurstaða:
Fallast verður á það með stefnanda að tilboð hans, að taka skip það er hér um ræðir í slipp, botnþvo, botnmála og öxuldraga o.fl. svo sem segir í tilboðinu, hafi einungis beinst að stefnda. Gegn mótmælum stefnanda verður ekki talið sannað að forráðamenn stefnanda hafi mátt vera það ljóst að Vesturskip ehf., eigandi og útgerðaraðili skipsins á þeim tíma, væri verkkaupandinn en ekki stefndi. Að vísu var tilboðið ekki formlega samþykkt af stefnda. En telja verður jafngildi þess liggi í afhendingu forráðamanna stefnda á tilboðinu til eiganda skipsins án samráðs eða samþykkis stefnanda og færslu skipsins til viðgerðar á grundvelli tilboðsins án þess að sannarlega liggi fyrir að stefnanda hafi á þeim tíma mátt vera kunnugt um að stefndi ætlaði sér ekki að vera verkkaupandinn. Eins og málum var hér háttað mátti forráðamönnum stefnda vera það ljóst að þeim bæri milliliðalaust og tímanlega, áður en skipið var tekið til viðgerðar af stefnanda, að upplýsa stefnanda að stefndi væri ekki verkkaupandi skv. tilboðinu heldur útgerðaraðili skipsins. Verður stefndi að bera hallann af því tómlæti.
Engum tölulegum ágreiningi er í raun fyrir að fara í málinu og verður stefndi dæmdur til að greiða dómkröfur stefnanda eins og greint verður frá í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem hæfilegur þykir 300.000 krónur alls.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Gjörvi ehf., greiði stefnanda, Stálsmiðjunni hf., 1.735.300 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. ágúst 1998 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur alls í málskostnað.