Hæstiréttur íslands

Mál nr. 347/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 3

Föstudaginn 3. september 1999.

Nr. 347/1999.

Sýslumaðurinn í Keflavík

(Júlíus Magnússon fulltrúi)

gegn

X

(Halldór H. Backman hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A.liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðs 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. ágúst 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. september sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. ágúst 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 7. september nk. kl. 19.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara, að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar úrskurðar héraðsdóms.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. ágúst 1999.

                Ár 1999, sunnudaginn 29. ágúst, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er í dómhúsinu að Brekkugötu 2, Hafnarfirði, af Jónasi Jóhannssyni héraðs­dómara kveðinn upp úrskurður í málinu nr. R-37/1999: Lögreglustjórinn í Keflavík gegn X, sem tekið var til úrskurðar samdægurs.

I.

                Lögreglustjórinn í Keflavík hefur krafist þess að X verði með dómsúrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 7. september nk. kl. 19:00 vegna gruns um brot á 2. sbr. 5. gr. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75/1982, sbr. lög nr. 13/1985 og reglugerða nr. 16/1986, sbr. nr. 177/1986, sbr. auglýsingu nr. 84/1986.

                Kærða mótmælir kröfunni og kveðst vera saklaus af ætluðum brotum.

II.

                Lögreglan í Keflavík fann síðastliðna nótt við leit í bifreið kærðu og eiginmanns hennar [...] talsvert magn af ætluðum fíkni­efnum, m.a. ætluðu hassi og amfetamíni, ásamt öðru sem tilheyrt getur fíkniefna­neyslu. Í framhaldi af því var gerð húsleit á heimili kærðu og [...] og fundust þar umtalsvert magn ætlaðra fíkniefna, m.a. 165 grömm af meintu amfetamíni og 256,5 grömm af meintu hassi.

                Kærða hefur neitað bæði hjá lögreglu og fyrir dómi að eiga umrædd fíkniefni eða vita nokkuð um vörslur þeirra. Þá hefur kærða staðfastlega neitað að hafa selt [...] 1 gramm af ætluðu amfetamíni í eða við bifreiðina[...] skömmu fyrir handtöku, en [...] var handtekinn ásamt kærðu og fannst á honum 1 gramm af ætluðu amfetamíni, sem hann hefur skýrt lögreglunni frá að hann hafi keypt af kærðu.

III.

                Af rannsóknargögnum málsins er ljóst að rannsókn þessa máls er á frumstigi, en fyrir liggur rökstuddur grunur um aðild kærðu að brotum gegn lögum nr. 65/1974 um ávana-og fíkniefni, en brot gegn lögunum geta varðað allt að 6 ára fangelsi. Vísast hér sérstaklega til framburðar [...]og þess mikla magns af ætluðum fíkniefnum, sem lögregla fann við leit á heimili kærðu og eiginmanns hennar [...] og í bifreið þeirra[...]. Kærða hefur staðfestlega neitað allri vitneskju um hin ætluðu fíkniefni og er því ljóst að yfirheyra þarf eiginmann hennar og vitni og kanna nánar haldlögð gögn, þ. á m. minnisbækur með ýmsum upp­lýsingum, sem lögregla telur geta varpað ljósi á rannsókn málsins.       

                Samkvæmt framanröktu telur dómurinn að fallast megi á með lögreglustjóra að veruleg hætta sé á því að kærða hafi áhrif á vitni og nái að spilla sakargögnum haldi hún óskertu frelsi.  Þykir því rétt að taka kröfu Lögreglu­stjórans í Keflavík til greina eins og hún er sett fram, með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um með­­ferð opinberra mála, en c-liður 1. mgr. 103. gr. þykir ekki eiga við í málinu.

Úrskurður:

                Kærða, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 7. september 1999 kl. 19:00.