Hæstiréttur íslands

Mál nr. 411/1997


Lykilorð

  • Umboðssamningur
  • Veðtrygging
  • Ógilding samnings
  • Matsgerð
  • Yfirmat
  • Áfrýjun
  • Aðfinnslur


Ár

 

Nr. 411/1997.

Fimmtudaginn 21. janúar 1999.

Olíuverzlun Íslands hf.

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

 

gegn

 

Einari Þór Kolbeinssyni

Maríu Óskarsdóttur og

 

Óskari B. Guðmundssyni

(Jónatan Sveinsson hrl.)

 

og gagnsök

 

Umboðssamningur. Veðtrygging. Ógildi samnings. Matsgerð. Yfirmat. Áfrýjun. Aðfinnslur.

 

Með samningi E og O hf., tók E að sér sölu á olíuvörum, rekstur olíu- og bensínafgreiðslustöðvar og eftirlit með eignum O hf. sem umboðsmaður þess. Jafnframt þessu undirrituðu E, M og Ó veðtryggingarbréf til tryggingar varðveislu vörulagers O hf.  sem E varðveitti og seldi úr til viðskiptamanna. Tap varð á rekstri E og safnaði hann skuldum gagnvart O hf., allt þar til O hf. rifti samningnum vegna vanefnda E. O hf. höfðaði mál gegn E til greiðslu skuldarinnar og gegn E, M og Ó til staðfestingu veðréttar samkvæmt tryggingarbréfi fyrir skuldinni. Ekki var talið, gegn skýru orðalagi tryggingarbréfsins, að því væri ætlað að tryggja annað og meira en að skráðar birgðir væru til staðar. Þar sem óumdeilt var að ekki hafði vantað á skráðar birgðir við lausn E frá umboðsstarfanum var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna E, M og Ó af kröfum um staðfestingu veðréttar. Litið var til þess að O hf. hafði rekið stöðina um nokkurt skeið áður en samningur við E hafði verið gerður þannig að starfsmenn félagsins máttu gera sér ljósa grein fyrir rekstrargrundvelli hennar. Þá höfðu starfsmenn O hf. haft veg og vanda af samningi aðila. Var fallist á það með héraðsdómi að það hefði verið andstætt góðri viðskiptavenju að O hf. bæri samninginn fyrir sig í heild sinni sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Ekki þótti unnt að leggja yfirmatsgerð sem aflað hafði verið eftir að dómur gekk í héraði til grundvallar í málinu. Kröfur O hf.  voru lækkaðar nokkuð umfram það sem kveðið hafði verið á um í héraðsdómi. Þá var talið að með gagnáfrýjun hefði mátt koma að kröfum um breytingar á öðrum hlutum dóms en aðaláfrýjun laut að, þótt hinn almenni þriggja mánaða áfrýjunarfrestur hefði verið liðinn við útgáfu gagnáfrýjunarstefnu. Fundið var að meðferð málsins í héraði.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 7. október 1997. Hann krefst þess að fasteign gagnáfrýjenda Einars Þórs Kolbeinssonar og Maríu Óskarsdóttur að Garðarsbraut 25 á Húsavík og fasteign gagnáfrýjanda Óskars B. Guðmundssonar að Höfðavegi 8 á Húsavík standi til tryggingar skuld gagnáfrýjanda Einars Þórs samkvæmt héraðsdómi fyrir allt að 2.000.000 króna er taki hækkunum lánskjaravísitölu frá mars 1987, en þá hafi hún numið 1614 stigum, og til greiðsludags, allt samkvæmt veðtryggingarbréfi útgefnu af gagnáfrýjendum á Húsavík 1. mars 1987 og innfærðu í þinglýsingabók Húsavíkur 29. maí 1989 merkt nr. 542/89. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Máli þessu var gagnáfrýjað 30. október 1997, sbr. 3. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994, en varð ekki þingfest. Því var síðan gagnáfrýjað á ný 3. desember sama ár, sbr. 4. mgr. sömu greinar og varð þá þingfest. Endanlegar dómkröfur gagnáfrýjanda Einars Þórs Kolbeinssonar fyrir Hæstarétti eru aðallega þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum aðaláfrýjanda og aðaláfrýjandi greiði honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara gerir hann kröfu um, að fjárhæð sú, sem hann var dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda samkvæmt hinum áfrýjaða dómi, verði stórlega lækkuð en niðurstaða héraðsdómsins að því er varðar vexti og málskostnað í héraði verði staðfest. Verði þessi úrslit málsins krefst hann þess, að aðaláfrýjandi greiði málskostnað fyrir Hæstarétti. Til þrautavara gerir hann þá kröfu, að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og aðaláfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjendur, María Óskarsdóttir og Óskar B. Guðmundsson, gera sameiginlega þær dómkröfur, að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og aðaláfrýjandi greiði þeim hvoru um sig málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Aðaláfrýjandi gerir þá kröfu að gagnsök verði vísað frá um annað en málskostnað. Bendir hann á að áfrýjun málsins hafi eingöngu tekið til þess að fá hnekkt því mati héraðsdóms að veðtryggingarbréf, sem gagnáfrýjendur gáfu út          1. mars 1987, standi ekki til tryggingar dæmdri fjárhæð. Gagnáfrýjendur bresti heimild til gagnáfrýjunar, um annað en málskostnaðarákvörðun héraðsdómara, þar sem áfrýjunarfrestur samkvæmt 1. mgr. 153. gr. laga um meðferð einkamála hafi verið liðinn við útgáfu gagnáfrýjunarstefnu. Ákvæði 3. mgr. sömu greinar beri að skýra svo, að einungis sé átt við gagnáfrýjunarheimild vegna þeirra dómkrafna í héraði, sem áfrýjandi skaut til Hæstaréttar. Gagnáfrýjendur hafi mátt áfrýja héraðsdómi fyrir sitt leyti samkvæmt 151. gr. laganna innan áfrýjunarfrests 1. mgr. 153. gr. eða að öðrum kosti óska eftir áfrýjunarleyfi samkvæmt 2. mgr. hafi þau verið ósátt við niðurstöðuna.

 Í lögum er ekkert sem kemur í veg fyrir að gagnáfrýjendur geri kröfur um breytingar á öðrum hlutum dóms en þeim sem aðaláfrýjun lýtur að enda uppfylli þeir einhver af þeim skilyrðum sem 153. gr. laga um meðferð einkamála setur um áfrýjunarfresti. Gagnsökinni verður af þessum sökum ekki vísað frá dómi. Miða ber við að aðaláfrýjandi krefjist staðfestingar héraðsdóms að því er varðar fjárhæð sem honum var dæmd í héraði og beri hún vexti sem þar greinir.

I.

Aðaláfrýjandi og gagnáfrýjandi Einar Þór Kolbeinsson gerðu með sér samning 1. mars 1987 um að Einar Þór tæki að sér fyrir aðaláfrýjanda sölu á olíuvörum, rekstur olíu- og bensínstöðvar og eftirlit með eignum hans á Húsavík, eins og nánar greinir í 1. gr. samningsins. Í 8. gr. samningsins sagði að bensínstöðin skyldi opin frá kl. 8.00 að morgni til kl. 22.00 að kvöldi alla daga, nema aðaláfrýjandi samþykkti annað. Aðaláfrýjandi átti að leggja til alla aðstöðu sína á staðnum og greiða fyrir viðhald hennar. Hann átti að greiða umboðsmanni venjuleg umboðs- og sölulaun. Auk þess skyldi hann greiða 40.000 króna rekstrarstyrk á mánuði frá 1. apríl 1987 að telja. Einar Þór átti hins vegar að greiða öll laun og launatengd gjöld og ekki að fá greiðslur fyrir akstur og afhendingu á vörum til annarra sölustaða. Allar vörur sem aðaláfrýjandi setti á markað og Einar Þór átti að dreifa skyldu vera eign aðaláfrýjanda þótt þær væru skuldfærðar á Einar Þór. Lánsviðskipti skyldu vera óheimil nema með sérstöku leyfi aðaláfrýjanda. Allt andvirði seldra birgða að frádregnum umboðs- og sölulaunum átti að teljast eign aðaláfrýjanda og bar að halda því sér. Andvirðinu átti að skila að fullu til aðaláfrýjanda vikulega ásamt greiðsluyfirliti og skyldi það vera í samræmi við heildarteljara á söludælum og í samræmi við gasolíu- og bensínbók. Samkvæmt 7. gr. samningsins skyldi Einar Þór leggja fram tryggingarbréf að fjárhæð 2.000.000 krónur með lánskjaravísitölu til tryggingar viðskiptaskuld sinni.

Samningurinn var á stöðluðu eyðublaði frá aðaláfrýjanda og kom Ólafur Bjarki Ragnarsson einn fyrirsvarsmanna aðaláfrýjanda með það til Húsavíkur og gekk frá því til undirskriftar. Er enginn ágreiningur um það að samningurinn var allur gerður að tillögu aðaláfrýjanda enda Einar Þór alls ókunnugur rekstrinum. Aðaláfrýjandi hafði er þetta gerðist rekið þessa stöð á Húsavík í tvö ár. Gagnáfrýjandi Einar Þór Kolbeinsson bjó aftur á móti út tryggingarbréf eftir formálabók og lét Ólafi Bjarka það í té. Tryggingarbréf þetta liggur fyrir í málinu. Með því eru íbúðarhúsin að Garðarsbraut 25 og Höfðavegi 8, svo sem greinir í kröfugerð aðaláfrýjanda, sett að veði. Samkvæmt efni bréfsins eru tryggðar birgðir aðaláfrýjanda í útibúi hans á Húsavík og þar segir nánar: “Veðin eru sett til tryggingar varðveislu lagers Olíuverslunar Íslands á Húsavík.”  Aðaláfrýjandi lét ekki þinglýsa bréfinu fyrr en síðari hluta maí 1989.

Aðila greinir ekki á um að skilagreinar gagnáfrýjanda Einars Þórs til aðaláfrýjanda hafi verið með ágætum hætti en samkvæmt gögnum málsins byrjaði hann þegar að safna skuldum hjá aðaláfrýjanda. Heldur hann því fram að fljótlega hafi komið í ljós að umboðið varð ekki rekið fyrir þær greiðslur, sem komu frá aðaláfrýjanda, og hafi hann stöðugt kvartað við aðalskrifstofuna undan því og verið lofað að þetta yrði athugað. Um áramótin 1987/1988 hafi aðaláfrýjandi samþykkt að veita honum viðbótarstyrk að fjárhæð 300.000 krónur fyrir árið 1987 og hækka mánaðarstyrkinn í 90.000 krónur. Þegar uppgjör vegna ársins 1987 hafi legið fyrir hafi endurskoðandi hans bent honum á að reksturinn gæti ekki staðið undir sér og hafi hann þá þegar haft samband við starfsmann aðaláfrýjanda og rætt við hann um leiðréttingar. Kveður hann að því hafi verið tekið vel og hann því haldið áfram rekstrinum og að safna skuldum hjá aðaláfrýjanda.

Styrkir voru ekki hækkaðir frekar til gagnáfrýjanda Einar Þórs. Hinn 13. júní 1989 fór einn framkvæmdarstjóra aðaláfrýjanda til Húsavíkur og gerði heildarúttekt á stöðu umboðsins. Aðaláfrýjandi heldur því fram að komið hafi í ljós vöntun á verulegum fjárhæðum og þegar það hafi legið fyrir hafi verið ákveðið að leysa gagnáfrýjanda frá störfum þegar í stað og gera upp við hann. Aðilar eru sammála um að skuld gagnáfrýjanda eftir það uppgjör hafi numið 6.054.576 krónum og var höfðuðstóll endanlegrar kröfu aðaláfrýjanda í héraði miðaður við það að frádregnum 600.000 krónum sem síðar greiddust.

II.

Héraðsdómur lækkaði höfuðstól kröfu aðaláfrýjanda verulega með vísun til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986. Hér fyrir dómi unir aðaláfrýjandi þeirri niðurstöðu þó að tæpast verði hann skilinn svo að hann samþykki röksemdafærsluna. Hann krefst hins vegar að húseignirnar að Garðarsbraut 25, eign gagnáfrýjendanna Einars Þórs Kolbeinssonar  og Maríu Óskarsdóttur, og Höfðavegur 8, eign gagnáfrýjandans Óskars B. Guðmundssonar, standi til tryggingar skuld Einars Þórs samkvæmt héraðsdómnum. Byggir hann það á 7. gr. samnings aðila sem áður er rakin. Veðtryggingarbréfinu hafi verið ætlað að tryggja að aðaláfrýjandi fengi allar birgðir sínar á Húsavík eða andvirði þeirra til baka við uppgjör.

Samkvæmt orðalagi veðtryggingarbréfsins stóð það til tryggingar því að aðaláfrýjandi fengi birgðir sínar til baka án rýrnunar. Í bréfinu er ekki vitnað til 7. gr. samnings aðila. Ólafur Bjarki  Ragnarsson tók við bréfinu fyrir hönd aðaláfrýjanda í þessu formi án athugasemda. Því er ekki haldið fram að vantað hafi á skráðar birgðir við uppgjörið 13. júní 1989 og viðurkennt að Einar Þór hafi gert skýra grein fyrir hvað hafði selst af þeim. Gegn skýru orðalagi bréfsins verður það ekki talið tryggja annað og meira en að skráðar birgðir séu til staðar. Við þeim tók aðaláfrýjandi. Ber af þessum ástæðum og annars með vísun til raka héraðsdóms að staðfesta niðurstöðu hans um veðtrygginguna og sýkna gagnáfrýjendur af  þessari kröfu.

III.

             Héraðsdómur gekk 10. júlí 1997. Höfuðstóll kröfu aðaláfrýjanda var þar færður verulega niður með vísun til 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986, svo sem að framan greinir. Var það að verulegu leyti byggt á þeirri skoðun matsmanna að samkvæmt ákvæði samnings aðila um opnunartíma stöðvarinnar þyrfti minnst 5,5 stöðugildi til að starfrækja hana allt árið um kring. Hafi 2.000.000 króna vantað upp á að endar næðu saman í rekstrinum miðað við allt rekstrartímabil gagnáfrýjanda Einars Þórs Kolbeinssonar. Við þann útreikning var meðal annars tekið tillit til launa bifreiðarstjóra þess er ók vörum til annarra sölustaða og Einars Þórs sjálfs.

            Gagnáfrýjandi Einar Þór Kolbeinsson óskaði eftir yfirmati með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 1998, og var matsbeiðni hans tekin þar fyrir 27. ágúst 1998. Í beiðninni var yfirmatsmönnum ætlað að meta hvort umboðssamningur aðila frá 1. mars 1987 hefði verið sanngjarn og eðlilegur í garð gagnáfrýjanda Einars Þórs miðað við þær skyldur sem á hann voru lagðar með samningnum. Yrði niðurstaða matsmanna sú að svo hefði ekki verið var þess óskað að metið yrði hvert viðbótarframlag aðaláfrýjanda hefði þurft að vera, miðað við virði 13. júní 1989, svo að unnt hefði verið að standa straum af öllum eðlilegum útgjöldum rekstursins samkvæmt samningnum. Af hálfu aðaláfrýjanda var talið að matsmálið væri þýðingarlaust og óskað væri eftir yfirmati á öðru en undirmat laut að. Dómkvaðning fór fram  og skiluðu yfirmatsmenn matsgerð sinni 16. október 1998. Komust þeir að þeirri niðurstöðu að nauðsynleg stöðugildi til að fullnægja starfsskyldum samkvæmt umboðssamningnum frá 1. mars 1987 hefðu þurft að vera átta. Fjárhæðina, sem upp á vantaði svo að endar næðu saman og skyldum samkvæmt umboðssamningnum væri fullnægt, mátu þeir vera 7.228.735 krónur. Þeir töldu því að umboðssamningur frá 1. mars 1987 hefði ekki verið sanngjarn og eðlilegur í garð gagnáfrýjanda Einars Þórs miðað við þær skyldur sem á honum hvíldu samkvæmt samningnum.

        Gagnáfrýjandi Einar Þór Kolbeinsson byggir á þessu yfirmati í gagnsökinni og krefst sýknu af öllum kröfum aðaláfrýjanda. Í yfirmatsgerðinni kemur fram að af hálfu aðaláfrýjanda var því lýst yfir að hann myndi ekki hafa afskipti af matinu. Hér fyrir dómi er matsgerðinni mótmælt af hálfu aðaláfrýjanda sem þýðingarlausri og rangri.

        Við aðalflutning í héraði var gagnaöflun lýst lokið af hálfu beggja aðila. Matsbeiðni gagnáfrýjanda er að því leyti gölluð að beðið er um álit matsmanna á atriði sem dómstólar eiga að skera úr um. Önnur atriði yfirmatsins höfðu verið metin undirmati og máttu því vera efni yfirmats. Eins og að framan greinir, var ekki beðið um yfirmatið fyrr en rúmu ári eftir að undirmati lauk og héraðsdómur gekk. Hafði undirmat dregist af orsökum, sem gagnáfrýjandi Einar Þór bar ábyrgð á að minnsta kosti að hluta, þar sem undirmatsmönnum voru ekki afhent þau gögn sem hann þó hafði og voru nauðsynleg fyrir mat þeirra. Þar sem hann sætti sig ekki við undirmatið var brýnt að hann hlutaðist til um yfirmat sem fyrst. Þess í stað var gagnaöflun lýst lokið og dregið að biðja um matið. Sá dráttur hefur ekki verið réttlættur. Verður að hafna matinu sem of seint fram komnu, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. 166. gr. sömu laga.

IV.

Starfsmenn aðaláfrýjanda höfðu allan veg og vanda af samningi aðila. Þeir höfðu þegar rekið stöðina í tvö ár og máttu gera sér ljósa grein fyrir rekstraraðstöðu hennar, þar á meðal mannaflaþörf miðað við þann opnunartíma sem reiknað var með í samningnum. Þá varð að reikna sérstaklega með því að gagnáfrýjandi Einar Þór fékk ekki tekjur af  þeim birgðum sem fluttar voru til annarra umboðsmanna. Undirmatsmenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að verulega hafi vantað á að endar næðu saman í rekstrinum miðað við lágmarksmönnun stöðvarinnar. Fram er komið að gagnáfrýjandi kvartaði stöðugt undan rekstrinum án þess að fyrirsvarsmenn aðaláfrýjanda gerðu allsherjarúttekt á honum. Ber að fallast á það með héraðsdómi að það hafi verið andstætt góðri viðskiptavenju að aðaláfrýjandi bar samninginn fyrir sig í heild sinni, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986. Eftir að til máls þessa kom var það ekki fyrr en við aðalflutning í héraði að aðaláfrýjandi lagði atbeina sinn að því að skýra málið með víðhlítandi hætti. Af framburði gagnáfrýjanda Einars Þórs í héraði verður hins vegar ráðið að hann jók lánsviðskipti stöðvarinnar án þess að hafa til þess leyfi aðaláfrýjanda og ekki verður betur séð samkvæmt undirmatinu en að hann hafi ekki haldið kostnaði af eigin rekstri að öllu leyti aðskildum frá rekstri fyrir aðaláfrýjanda. Hvort tveggja var andstætt ákvæðum samningsins. Að þessu athuguðu og annars með skírskotun til raka  héraðsdóms þykir hæfilegt að dæma gagnáfrýjanda Einar Þór Kolbeinsson til að greiða aðaláfrýjanda 1.800.000 krónur með vöxtum eins og í héraðsdómi greinir.

Rétt er samkvæmt niðurstöðu málsins að aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjendum málskostnað í héraðsdómi, að teknu tilliti til hluta matskostnaðar, og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði. Er þá á því byggt að undirmatið nýttist sannanlega við úrlausn málsins þótt matsbeiðnin væri umfangsmeiri en ástæða var til og framkvæmd matsins yrði ekki sem skyldi af ástæðum sem gagnáfrýjandi ber ábyrgð á.

V.

Mál þetta var þingfest 1. nóvember 1989 í bæjarþingi Húsavíkur. Frumgögn málsins virðast öll hafa verið komin fram 15. mars 1990. Síðan gerðist ekkert raunhæft í málinu fyrr en 6. maí 1994 að lögð er fram ósk um dómkvaðningu matsmanna fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra. Endanlegt mat er ekki lagt fyrir héraðsdóminn fyrr en við aðalflutning 16. maí 1997. Af gögnum málsins má ráða að meðan málið var til meðferðar fyrir bæjarþingi Húsavíkur 1989 til 1. júlí 1992 var það sent bæjarþingi Reykjavíkur svo að þar mættu fara fram aðila- og vitnaleiðslur. Af bókunum þar sést að lögmenn aðila hafa ekki sinnt endurteknum boðum dómarafulltrúa um tíma til yfirheyrslna. Þá má af málinu ráða að lögmenn aðila eiga sinn þátt í því að endanlegri matsgerð var ekki skilað fyrr. Öll þessi meðferð málsins er að engu skýrð í héraði. Verður ekki hjá því komist að gera alvarlegar athugasemdir við það hvernig á máli þessu hefur verið haldið og það dregist að því er virðist algjörlega að ófyrirsynju. Þá er reifun málavaxta í hinum áfrýjaða dómi í andstöðu við d. lið 1. mgr. 114. gr. laga um meðferð einkamála.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Einar Þór Kolbeinsson, greiði aðaláfrýjanda, Olíuverzlun Íslands hf., 1.800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. nóvember 1989 til greiðsludags.

Gagnáfrýjendur, Einar Þór Kolbeinsson, María Óskarsdóttir og Óskar B. Guðmundsson, eru sýknuð af þeirri kröfu aðaláfrýjanda, að fasteignirnar Garðarsbraut 25 og Höfðavegur 8, Húsavík, standi til tryggingar kröfu aðaláfrýjanda á hendur gagnáfrýjanda Einari Þór Kolbeinssyni samkvæmt veðtryggingarbréfi að fjárhæð 2.000.000 krónur, útgefnu á Húsavík 1. mars 1987.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjendum sameiginlega 1.100.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 10. júlí 1997.

Mál þetta, sem upphaflega var dómtekið 16. maí s.l., og endurupptekið 1. þ.m., er höfðað af Olíuverslun Íslands h.f., kt. 500269-3249, Héðinsgötu 10, Reykjavík, með héraðsstefnu, útgefinni á Húsavík 10. október 1989 og birtri 21. s.m., á hendur Einari Þór Kolbeinssyni, kt. 150553-5479, Garðarsbraut 25, Maríu Óskarsdóttur, kt. 131054-2629, s.st., og Óskari B. Guðmundssyni, kt. 230825-4919, Höfðavegi 8, öllum á Húsavík. Málið var þingfest á Húsavík 1. nóvember 1989.

Á hendur stefnda Einari Þór Kolbeinssyni er gerð sú krafa að hann greiði stefnanda kr. 6.053.116,80 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 3. júlí 1989 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun kr. 600.000,00 er innt var af hendi 17. maí 1990, svo og að hann greiði málskostnað að mati dómsins. Ennfremur er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta skv. 12. gr. vaxtalaga.

Á hendur öllum stefndu, Einari Þór Kolbeinssyni og Maríu Óskarsdóttur, þinglesnum eigendum fasteignarinnar að Garðarsbraut 25, Húsavík, og Óskari B. Guðmundssyni, þinglesnum eiganda fasteignarinnar að Höfðavegi 8, Húsavík, gerir stefnandi þá kröfu að staðfest verði að fasteignir þessar standi til tryggingar ofangreindri skuld Einars Þórs að fjárhæð kr. 2.000.000,00 er taki hækkun lánskjaravísitölu frá marsmánuði 1987, 1614 stigum, til greiðsludags, allt samkvæmt veðtryggingarbréfi, útgefnu af stefndu á Húsavík 1. mars 1987 og innfærðu í þinglýsingarbók Húsavíkur þann 29. maí 1989, merkt nr. 542-89.

Upphafleg krafa allra stefndu var sú að máli þessu yrði vísað frá dómi, en síðan var fallið frá þeirri kröfu og er krafa þeirra nú að vera sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt sundurliðuðum málskostnaðarreikningi, alls kr. 1.816.993,00.

Stefnandi lýsir málalvöxtum svo að með samningi dagsettum 1. mars 1987 hafi stefnandi og stefndi Einar Þór gert með sér samning um að stefndi Einar Þór tæki að sér að hafa á hendi ýmis umboðsverk fyrir stefnanda á Húsavík. Nánar var um að ræða sölu á öllum olíuvörum stefnanda, rekstur olíu- og bensínstöðvar stefnanda og eftirlit með eignum stefnanda á Húsavík. Í samningnum eru síðan nánari ákvæði um með hvaða hætti stefnandi skyldi greiða stefnda Einari fyrir umboðsstarfann og hver sérstök sölulaun stefnda Einars skyldu vera fyrir sölu á vörum stefnanda, sbr. 3. - 6. gr. samningsins á fskj. 3 á dskj. nr. 2. Til tryggingar efndum samkvæmt samningi þessum hafi jafnframt verið ákveðið að stefndi Einar Þór gæfi út tryggingarbréf til tryggingar greiðslu viðskiptaskulda hans á hverjum tíma, sbr. 7. gr. samningsins og dskj. nr. 4. Þá var í samningnum sérstakt ákvæði um að stefnandi hefði heimild til að segja samningnum upp án fyrirvara ef um verulegar vanefndir af hálfu stefnda á skyldum hans samkvæmt samningnum yrði að ræða og yrðu þá reiknaðir dráttarvextir á öll vanskil , sbr. 9. gr. samningsins.

Hinn 13. júní 1989 hafi einn af framkvæmdastjórum stefnanda, Hallgrímur Jónasson, farið til Húsavíkur og hafi gert heildarúttekt á stöðu umboðs stefnda gagnvart stefnanda. Að lokinni vörutalningu, samantekta á útistandandi kröfum, peningum í sjóði, greiðslum til stefnanda og kostnaðarreikningum hafi komið í ljós vöntun á verulegum fjárhæðum. Þegar þessi staða stefnda Einars Þórs gagnvart stefnanda lá fyrir og var ómótmælt af hans hálfu, hafi ekki verið um annað að ræða af hálfu stefnanda en að leysa stefnda þegar í stað frá störfum, sbr. 9. gr. samningsins. Að fenginni þessari niðurstöðu og í samráði við stefnda hafi verið hafist handa við að telja sælgætislager í eigu stefnda, Einars sjálfs, og hann síðan keyptur á kr. 502.478,45, skv. sérstöku samkomulagi. Þá hafi einnig verið keypt tæki í eigu stefnda að fjárhæð kr. 230.000,00 svo og hafi verið yfirfarinn skuldalisti tilheyrandi stefnda Einari, skv. sérstöku samkomulagi, og hann færður stefnanda til tekna með endanlegri fjárhæð kr. 590.636,00. Samkvæmt reikningsyfirliti, dagsettu 3. júlí 1989, nemi skuld stefnda Einars Þórs við stefnanda með leiðréttingum þann dag kr. 6.053.116,80 og hafi sú fjárhæð ekki sætt andmælum af hálfu stefnda Einars. Við gerð samnings aðila þann 1. mars 1987 hafi stefndu gefið út tryggingarbréf til stefnanda til tryggingar viðskiptum af hálfu stefnda Einars Þórs. Með tryggingarbréfi þessu séu fasteignirnar að Garðarsbraut 25 og Höfðavegi 8 á Húsavík veðsettar til stefnanda til tryggingar ofangreindu fyrir fjárhæð að upphæð kr. 2.000.000,00 er taki breytingum í samræmi við lánskjaravísitölu með grunnvísitölu hvers mánaðar 1987, 1614 stig. Til staðfestingar á tryggingu þessari hafi verð nauðsynlegt í málinu að stefna Maríu Óskarsdóttur, eiginkonu stefnda Einars Þórs, þar sem hún sé þinglesinn eigandi að fasteigninni Garðarsbraut 25, Húsavík, ásamt stefnda Einari, svo og tengdaföður hans Óskari Guðmundssyni, þinglesnum eiganda fasteignarinnar að Höfðavegi 8, Húsavík.

Stefnandi kveðst hafa þann 4. október 1989 krafist þess í fógetarétti Húsavíkur að lagt yrði löghald á eignir stefnda Einars Þórs til tryggingar greiðslu ofangreindrar skuldar að frádreginni tryggingu samkvæmt veðtryggingarbréfinu og hafi Einar Þór í löghaldsmáli þessu einungis getað bent á bifreiðina MMC Galant, árgerð 1987, til tryggingar og hafi gerðin að öðru leyti verið árangurslaus. Þann 17. maí 1990 afsalaði stefndi Einar Þór stefnanda bifreiðinni R-77357 á kr. 600.000,00 sem greiðslu upp í kröfu stefnanda, sbr. dskj. nr. 23.

Stefndi Einar Þór lýsir málavöxtum svo, að stefnandi hafi reist veglega bensín- og olíustöð á Húsavík á öndverðu árinu 1987, u.þ.b. 250 m² hús er þjóni hvort tveggja sem almenn bensínverslun og almenn verslun með hluti í bifreiðar og fleira er stefnandi selji til neytenda. Umboðsmaður stefnanda sem hafði umsjón með byggingu hinnar nýju stöðvar og rekstri hennar í byrjun hafi látið af störfum fyrir stefnanda vegna ágreinings um rekstrargrundvöll hennar. Við hafi tekið nýr umboðsmaður sem látið hafi af störfum innan mánaðar frá starfsbyrjun þar sem honum þótti sýnt að reksturinn stæði ekki undir sér miðað við forsendur stefnanda. Er svo var komið hafi stefnandi rekið stöðina á eigin reikning en leitað með logandi ljósi að umboðsmanni og hafi sérstakur starfsmaður þeirra erinda farið til Húsavíkur í lok febrúar 1987. Hinn 1. mars 1987 hafi stefndi Einar Þór Kolbeinsson gert samning við stefnanda um umboðsmennsku í hans þágu, en stefnandi sé olíufélag og eigi m.a. olíu- og bensínafgreiðslustöð á Húsavík. Aðdragandi þessa samnings hafi verið sá að stefndi hafi átt u.þ.b. hálfrar klukkustundar langan fund með starfsmanni stefnanda Ólafi Bjarka Ragnarssyni og hafi lyktir orðið þær að stefndi haf ritað undir umboðssamning við stefnanda, en Ólafur Bjarki hafi haft undir höndum fyrirframgerða samningsskilmála gerða af starfsmönnum stefnanda. Að undirritun lokinni kvaðst Ólafur Bjarki mundu senda stefnda eintak samningsins en af því hafi ekki orðið. Þá hafi stefndi látið Ólafi Bjarka í té veðtryggingabréf í fasteign sinni og eiginkonu sinnar, sem einnig hafi verið tryggt með veði í fasteign tengdaforeldra hans, sem einnig er stefnt í máli þessu til: „tryggingar varðveislu lagers” stefnanda. Samkvæmt samningnum á dskj. nr. 2, fskj. 3, hafi stefndi tekist á hendur verulegar skyldur gagnvart stefnanda. Í 1. gr. séu tíundaðar starfsskyldur stefnda og í stuttu máli sé sala á vörum stefnanda rekstur starfsemi stefnanda, ýmis þjónusta á hans vegum við önnur umdæmi og þá án endurgjalds frá stefnanda, sbr. lokaorð 6. gr., sem mæli fyrir um að umboðsmaður fái engar greiðslur fyrir akstur og afhendingu á vörum til annarra sölustaða. Samkvæmt samningnum skyldi stefndi greiða öll laun og launatengd gjöld af rekstri umboðsins og bensínstöð, þ.m.t. laun bílstjóra olíubifreiðar er þjónustaði m.a. önnur umdæmi f.h. stefnanda án þess að stefndi fengi umbun fyrir. Ljóst hafi því verið að verulegar skyldur voru lagðar á herðar stefnda samkvæmt samningnum, en að sama skapi lítið endurgjald á móti af hálfu stefnanda. Samkvæmt samningnum skyldi stefnandi leggja til húsnæði, rafmagn, hita, bifreiðar og viðhald og ekki vinnu við viðhald. Þá skyldi stefndi fá „venjuleg umboðs- og sölulaun af sölu umboðsins” svo sem segi í samningnum og hafi þau laun verið tíunduð í 6. gr. samningsins. Hins vegar hafi ekki legið fyrir rekstrartölur af hálfu stefnanda við samningsgerðina heldur hafi verið fullyrt af hálfu stefnanda, þ.e. Ólafi Bjarka Ragnarssyni, að góð afkoma yrði af rekstrinum miðað við samningstölur samkvæmt fenginni reynslu, sérstaklega þegar tekið væri tillit til rekstrarstyrks er nema skyldi kr. 40.000,00 á mánuði. Vekur stefndi athygli á því að þessi fjárhæð hafi verið lögð til af hálfu Ólafs Bjarka, en engar umræður hafi farið fram um grundvöll hennar, ekki hafi hún verið sannreynd með bókhaldsgögnum þar sem engin gögn lágu fyrir. Aðeins hafi verið byggt á ummælum Ólafs Bjarka er fullyrti að góð afkoma yrði af rekstrinum svo og þáverandi fjölda starfsmanna við stöðina, sem voru þrír, sbr. 3. gr. 2. mgr. samningsins og það talið nægjanlegur mannafli að mati stefnanda. Bent er á að á þessum tíma hafi stefnandi starfað sem venjulegur launamaður, þ.e.a.s. bifvélavirki er samningsgerð fór fram og hafi ekki til að bera þekkingu og reynslu af eigin rekstri, sem hafi komið honum í koll við samningsgerð þessa.

Er stefndi tók við rekstrinum í mars 1987 höfðu aðeins verið þrír starfsmenn við bensínsölu stefnanda á Húsavík. Fljótlega hafi komið í ljós að útilokað var fyrir stefnda að reka stöðina ásamt aðeins tveimur starfsmönnum, svo sem fullyrt hafði verið af hálfu starfsmanna stefnanda. Ljóst var í fyrsta lagi að skuldbundinn opnunartími á mánuði skv. 8. gr. samningsins, þ.e. frá kl. 08:00 að morgni til kl. 22:00 að kvöldi alla daga nema samþykki stefnanda lægi fyrir öðrum opnunartíma, þ.e. 420 vinnustundir að meðaltali á mánuði kallaði á vaktaskipti hjá starfsfólki þannig að í stað þriggja starfsmanna hafi stefnda verið nauðsyn að ráða allt að 5-7 manns til að geta mætt skyldum sínum samkvæmt samningnum. Sökum þess hve tekjur stefnanda voru lágar, þ.e. umboðstekjur og styrkur, hafi komið í ljós að rekstrarkostnaður við stöðina var miklum mun hærri en nam tekjum. Af þessum ástæðum vantaði upp á skil til stefnanda sem þessum aukna reksturskostnaði nam og að kröfu stefnanda greiddi stefndi mismun úr eigin vasa með því að selja bifreið sína að verðmæti kr. 400.000,00. Síðan hafi verið tekin bankalán til að jafna mismun. Um áramótin 1987 og 1988 hafi stefnandi samþykkt að veita stefnda viðbótarstyrk, eingreiðslu, að fjárhæð kr. 300.000,00 fyrir árið 1987 og hækka styrkinn á mánuði í kr. 90.000,00 enda þótt starfsmönnum stefnanda mætti vera fullljóst að slíkar upphæðir næðu engan veginn til þess að jafna rekstrartap Húsavíkurumboðsins. Er uppgjör vegna ársins 1987 lá fyrir í febrúar 1988 hafi endurskoðandi stefnda bent á að reksturinn gæti aldrei staðið undir sér með óbreyttum hætti. Hafi þá stefndi haft samband við Hallgrím Jónasson, skrifstofustjóra stefnanda, og rætt við hann um leiðréttingu á samningnum þar sem fyllilega væri ljóst að rekstrarkostnaður væri vanmetinn um u.þ.b. kr. 200.000,00 til 300.000,00 á mánuði, enda þótt miðað væri við lágmarkstilkostnað, en stefndi og eiginkona hans hafi unnið alla daga vikunnar við umboðið og tóku sér mun lægri laun en almennir kjarasamningar sögðu til um. Hafi Hallgrímur tekið vel í málaleitun um leiðréttingu og boðað komu sína til þess að gera nýjan samning við stefnda. Við svo búið hafi stefndi haldið áfram rekstri stöðvarinnar í þeirri von að leiðrétting fengist af hálfu stefnanda. Vegna þessa hafi stefndi haldið áfram að safna skuld við stefnanda um ca kr. 200.000,00 til 300.000,00 á mánuði og hafi ekki verð gerðar athugasemdir við slíkt af hálfu stefnanda af þeim augljósu ástæðum að allir vissu hvernig í málinu lá og stefnt hafði verið að leiðréttingu mála. Hafi mál þessi verið rædd í hverjum mánuði án þess að stefnandi leiðrétti nokkuð. Þá hafi forstjóri stefnanda, Óli Kr. Sigurðsson, komið um mitt ár 1988 til Húsavíkur og hafi hann lofað að taka olíubílstjóra á launaskrá stefnanda þar sem bifreiðin var að mestu í birgðaflutningum fyrir stefnanda án þess að gefa stefnda tekjur á móti launum bílstjóra. Þá hafi stefnda verið lofað að sjálfvirk þvottastöð myndi auka umferð og viðskipti, en hvort tveggja hafi verið vanefnt af stefnanda.

Í ljósi vanefnda stefnanda svo og að ekkert varð af fyrirhugaðri leiðréttingu hafi stefndi ritað Hallgrími Jónassyni, starfsmanni stefnanda, bréf í september 1988 þar sem hann ítreki að umboðið sé í fjársvelti, hvetur til tafarlausra leiðréttinga og bendir ráðamönnum stefnanda á að tímabært sé að stöðin á Húsavík verði rekin á kostnað stefnanda, en ekki stefnda, sbr. dskj. nr. 6. Meðfylgjandi sendi stefndi stefnanda útreikninga á starfsmannaþörf stefnanda á Húsavík og sjáist á yfirliti þessu að þegar tillit hefur verið tekið til framlags stefnanda til reksturs stöðvarinnar sé rekstrarkostnaður vantalinn um kr. 298.014,95 og er þá miðað við lágmarkslaun skv. gildandi kjarasamningum. Ekki hafi borist skriflega viðbrögð við þessu erindi stefnda, en ítrekað munnlega að um leiðréttingu yrði að ræða. Af því hafi þó ekki orðið og hinn 13. júní 1989 hafi starfsmenn stefnanda komið fyrirvaralaust til Húsavíkur og afhent stefnda bréf um fyrirvaralausa riftun á umboðssamningi. Þá hafi upphafist mikil látalæti af hálfu starfsmanna stefnanda. Þá vill stefndi geta þess að Hallgrímur Jónasson hafi fullyrt við stefnda og eiginkonu hans að ekki myndi koma til innheimtu á hinni meintu skuld þar sem hún ætti sér eðlilegar skýringar. En þessi afstaða varð skammlíf, í bréfi til stefnda, undirrituðu af Hallgrími þessum standi: „Við athugun í dag, 13. júní, hefur komið í ljós að óskýrð skuld þín sé 5.900.000,00. Jafnframt er um að ræða óeðlilega viðskiptaskuld þína, eiginkonu þinnar og sonar, kr. 1.435.358,30.” Þessi fullyrðing sé alröng og óskammfeilin þar sem hún hafi myndast með sama hætti á hverjum mánuði sem leið í rekstri stefnda og hafi verið kjarni umræðu um leiðréttingu umboðslauna, sbr. dskj. nr. 6. Þá riti Hallgrímur bréf til Óla Kr. Sigurðssonar, forstjóra stefnanda, þar sem látið sé að því liggja að staða málsins hafi komið að óvörum auk þess sem hann fari vísvitandi með rangindi að mati stefnda. Í fyrsta lagi sé fullyrt að meint skuld stefnda og fjölskyldu hans, sem vann við umboðið, hafi verið tekin „til óskilgreindra nota” að sögn Hallgríms. Engum starfsmanni stefnanda hafi verið betur kunnugt um það en Hallgrími að stöðin stóð ekki undir sér og umboðslaun og styrkur nægðu ekki til þess að greiða lágmarksmannafla við rekstur hennar. Þessa fullyrðingu setji Hallgrímur því fram gegn betri vitund í því skyni að búa til það sjónarspil sem síðar verði grundvöllur þessarar málsóknar á hendur stefnanda. Í öðru lagi sé fullyrt að stefndi hafi lánað viðskiptamönnum sínum án samþykkis stefnanda, en slíka fullyrðingu kveður stefndi alranga og hafi lánveitingar verið með fullri vitneskju stefnanda, enda hafi átt m.a. með þeim hætti að fjölga viðskiptamönnum stefnanda á Húsavík. Eftirleikurinn sé sá að lögmaður stefnanda ritar stefnda bréf og krefur hann um greiðslu rúmlega 6 milljóna króna og gefur honum vikufrest til að greiða eða semja um skuldina, ella sæti hann málssókn og kæru um fjárdrátt til Rannsóknarlögreglu ríkisins. Áður hafi stefnandi hinn 29. maí 1990 þinglýst tryggingarbréfi því sem krafist er staðfestingar á í máli þessu þannig að ljóst sé að ákvörðun um að víkja stefnda úr umboðinu og heimta af honum fé hafi verið til komin löngu fyrir 13. júní 1989.

Sýknukrafa stefnda Einars Þórs er á því byggð að samningur aðila hafi komist á með blekkingum, svikum og misneytingu af hálfu starfsmanna stefnanda. Hafi viðkomandi starfsmenn stefnanda leynt stefnda veigamiklum upplýsingum um rekstur umboðs félagsins á Húsavík í þeim tilgangi að fá stefnda til að gera samning er starfsmenn stefnanda vissu að var stefnda í óhag og því beinlínis beitt svikum við samningsgerðina sjálfa og síðar er stefndi fór fram á leiðréttingu í þeim tilgangi að hafa fé út úr stefnda, en stefnandi mátti vita að tekjur og styrkur myndu aldrei nægja til fullnægjandi rekstrar. Slíkt hafi stefnandi viðurkennt með því að bjóða fram aukinn styrk til stefnda, enda þótt öllum væri ljóst að meira þurfti til að koma. Þá telur stefndi að starfsmenn stefnanda hafi gerst sekir um misneytingu með því að nýta sér reynsluleysi og fákunnáttu stefnda til að gera samning svo óhagstæðan sér sem raun ber vitni. Þá muni stefndi leiða vitni um afstöðu stefnanda til samningsins, þ.e.a.s. hversu hagstæður hann hafi verið stefnanda en um leið sér óhagstæður.

Í öðru lagi reisir stefndi sýknukröfur sínar á því að hinn umdeildi samningur hafi verið bersýnilega ósanngjarn, enda samningurinn grundvallaður á upplýsingum stefnanda og saminn af stefnanda án atbeina stefnda. Svo sem framvinda samnings aðila málsins sýni þá hallaði samningnum svo á stefnda að stefnanda var fullkunnugt um að stefndi greiddi með starfi sínu sem umboðsmaður stefnanda og sparaði þannig stefnanda fé sem nemur a.m.k. stefnufjárhæð máls þessa, en óumdeilt er að sá mismunur á skiluðu fé til stefnanda og tekjur af umboðinu nema aðeins þeim kostnaði sem varða mannahald við stöðina, en ekki er um að ræða „óskýrða skuld” sem telja megi persónulega úttekt stefnda eða fjölskyldu. Bendir stefndi á að eftir samningsrofin af hálfu stefnanda hafi hann sjálfur rekið stöðina og athyglisvert sé að rekstrargjöld séu mun hærri en stefnandi viðurkenndi í samningi við stefnda og séu nú ívið hærri en sem nemur þeim mun á rekstrarkostnaði sem stefndi er nú sóttur til greiðslu á. Samkvæmt dskj. nr. 17 sem er yfirlit byggt á launamiðum 9 starfsmanna stefnanda á Húsavík á tímabilinu 1. til 28. júlí 1989 komi í ljós að launakostnaður stefnanda af hinni umdeildu bensínstöð sé hvorki meira né minna en kr. 700.000,00 á mánuði. Af þessu verði séð að stefnda voru ætlaðar mun minni tekjur til mannahalds skv. samningi við stefnanda, en stefnandi greiði nú sjálfur. Samningur aðila var því bersýnilega ósanngjarn að öllu leyti gagnvart stefnda. Er skorað á stefnanda að leggja fram bókhaldsgögn er sýni kostnað hans við rekstur stöðvarinnar er stefndi rak hana og hins vegar kostnað stefnanda af stöðinni fyrir eigin reikning eftir að stefnda var vikið úr starfi. Bendir stefndi sérstaklega á að ef krafa stefnanda verður tekin til greina hafi öll vinna hans í þágu stefnanda ekki aðeins verið launalaus heldur hafi hann og þurft að greiða með sér í starfi sínu hjá stefnanda.

Í ljósi þess hversu bersýnilega ósanngjarn samningur aðila var frá upphafi gagnvart stefnda hljóti að verða að taka sýknukröfu hans til greina. Hvað varðar kröfu um staðfestingu tryggingabréfs er þess krafist að synjað verði um þær kröfur stefnanda að eftirgreindum ástæðum:

Samkvæmt veðtryggingarbréfinu skal það „sett til tryggingar varðveislu lagers Olíuverslunar Íslands á Húsavík”, eins og segir í bréfinu sjálfu. Samkvæmt dskj. nr. 15 og 16 komi fram að stefnandi yfirtaki lager og viðskiptakröfur stöðvarinnar við skiptin 13. júní 1989 og ljóst sé í málinu að lager stefnanda var að öllu leyti eðlilegur við brottvikningu. Hafi stefnandi heldur ekki haldið fram að bókhald stefnda vegna lagers eða skila á andvirði hans hafi sætt athugasemdum af hans hálfu. Því séu ekki efni til að verða við kröfu stefnanda um staðfestingu tryggingarbréfsins þar sem ágreiningur sé eigi um lager, heldur hvor aðili skuli bera uppi launakostnað við rekstur stöðvarinnar.

Til lagaraka vísar stefndi til laga nr. 7/1936, einkum ákvæða 30., 31., 33. og 36. gr., sbr. lög nr. 11/1986. Málskostnaðarkröfu sína styður hann lögum um meðferð einkamála.

Að því er varðar kröfu stefndu Maríu Óskarsdóttur og Óskars B. Guðmundssonar þar sem krafist er að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að synjað verði um staðfestingu á tryggingarbréfinu þá lýsa stefndu málavöxtum svo að Einar Þór Kolbeinsson hafi veitt stefnanda tryggingu í fasteigninni Garðarsbraut 25, Húsavík, til tryggingar varðveislu lagers Olís á Húsavík svo sem áður getur með tryggingarbréfi útgefnu 1. mars 1987. Einnig setti stefndi Óskar veð fyrir hinu sama í fasteign sinni að Höfðavegi 8, Húsavík. Var veðtryggingarbréfi þessu þinglýst 29. maí 1989 og hinn 13. júní s.á. vék Einar Þór úr stöðu sinni hjá stefnanda vegna meintra vanefnda á umboðssamningi og fór þá fram uppgjör á lager skv. dskj. nr. 16 og hafi stefnandi fengið lager sinn afhentan auk þess sem stefnandi yfirtók lager er stefndi Einar átti á bensínstöð stefnanda, sbr. dskj. nr. 15. Við yfirtöku stefnanda á stöðinni af stefnda Einari, hafi stefnandi fengið í sínar vörslur þann lager sem stefndi Einar hafði undir höndum og hafi engar athugasemdir verið gerðar við talningu hans. Stefndu halda því fram að synja beri um kröfu stefnanda um staðfestingu á tryggingabréfi því sem hér um ræðir þar sem eigi sé fyrir hendi sú skuld sem bréfið eigi að tryggja. Eigi sé fyrir hendi ágreiningur um lager þann er bréfið skyldi tryggja. Þar sem eigi sé krafa að baki veðtryggingabréfinu beri að synja um staðfestingu þess og benda stefndu að hin umþrætta skuld stafi af ágreiningi um rekstrarkostnað í stöð stefnanda á Húsavík og sá ágreiningur óviðkomandi lager stefnanda á Húsavík.

Stefnandi byggir kröfu sína á samningalögum nr. 7/1936. Sé stefnufjárhæðin samkvæmt leiðréttri saldótölu á bls. 4 á dskj. nr. 9 í aktinum á dskj. nr. 2, sbr. dskj. 44 og hafi stefndi Einar Þór viðurkennt stefnufjárhæðina tölulega rétta samkvæmt réttu bókhaldi hér fyrir dómi. Telur hann fráleitt að stefndi hafi beitt stefnanda einhverri misneytingu við gerð samningsins 1. mars 1987 og að stefndi Einar Þór hafi kynnt sér rækilega gerð hans. Hafi hann fengið leiðréttingu 9 mánuðum eftir gerð samningsins, en alls hafi hann gegnt umboðsmannsstarfinu í 27 mánuði. Hafi stefnda Einari Þór verið í lófa lagið að segja samningnum upp hafi ekki verið hægt að vinna eftir honum og þó svo hann hafi kvartað í september 1988, sbr. dskj. nr. 6, við forsvarsmann stefnanda hafi það ekki skapað honum neinn bótarétt á hendur stefnanda. Stefndi hafi verið í daglegu sambandi við við­skipta­fræði­mennt­aðan mann samkvæmt hans eigin framburði. Um það hvað varð af hinum umstefnda mismuni sé stefndi einn til frásagnar um og ekki liggi önnur skýring fyrir en stefndi hafi sjálfur nýtt sér þessa fjárhæð sem hann er um krafinn. Tryggingabréfið hafi stefndi Einar Þór útbúið sjálfur og standi það sem trygging fyrir því að eignir stefnanda væru til í umboðinu á Húsavík. Lager stefnanda hafi verið tekinn og seldur og því sé tryggingabréfið til tryggingar þeirri skuld sem um er krafið. Spurning geti verið hvort tengdaforeldrar stefnda, Einars Þórs, hafi verið að skuldbinda sig fyrir eitthvað annað. Telur stefnandi að niðurstaða dómkvaddra matsmanna, er síðar verður rakin, hafi ekki þýðingu, en geti hugsanlega að álitum komið til lækkunar samkvæmt sanngirnissjónarmiðum. Sem grundvöllur fyrir kröfunni sem skaðabótakröfu sé hún ekki fyrir hendi. Þessu mótmælir stefndi Einar Þór sérstaklega. Fram hafi komið að rekstrarstyrkur stefnanda hafi verið ákveðinn einhliða og upplýst hafi verið að reksturinn stæði ekki undir sér styrkjalaust. Samningur aðila hafi þurft að vera í stöðugri endurskoðun og hafi stefndi Einar Þór þurft að halda eftir stöðugt af skilum til stefnanda til þess að geta staðið við mannakaup. Aldrei hafi verið tekið á vandamálum Húsavíkurumboðsins af stefnanda hálfu og stefnda Einari Þór látið blæða. Hafi hann átt óhægt með að segja samningnum upp en honum verið lofað úrbótum af hálfu stefnanda sem aldrei hafi verið staðið við, en stefndi Einar Þór treyst á. Stefnanda hafi verið fullkunnugt um rekstrarvandann á Húsavík. Ekki sé um að ræða skaðabótakröfu þar sem matsmenn hafi komist að því að að lágmarki hafi vantað kr. 2.000.000,00 í greiðslur frá stefnanda til þess að stefndi Einar Þór gæti efnt samning sinn. Samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. lög nr. 11/1986 eigi að víkja samningi þessum til hliðar. Hér hafi samið bifvélavirki og launþegi annars vegar og fjármálastjóri stefnanda hins vegar og hafi stefndi Einar Þór ekki verið í neinni stöðu til þess að meta rekstrarlegar forsendur samningsins og hafi það staðið stefnanda næst að tryggja rekstrargrundvöll Húsavíkurumboðsins. Stefnandi hafi ekki afhent bókhaldsgögn né viljað upplýsa um viðskiptin og ætti því að bera sönnunarbyrði í máli þessu. Þá hafi stefnandi ekki viljað upplýsa matsmenn um staðreyndir og beri matsgjörðin þess merki. Standi það stefnanda næst að upplýsa hver hafi verið hæfilegur rekstrarstyrkur til Húsavíkurumboðsins. Tryggingabréfið standi eingöngu til tryggingar lagers og í uppgjörum sjáist ekki hver lagerstaðan hafi verið og lagerinn afhentur stefnanda og eigi hann engan veðrétt í honum lengur.

Verða nú raktir framburðir vitna og aðila og önnur gögn málsins eftir því sem þurfa þykir.

Vitnið Ólafur Bjarki Ragnarsson, kt. 280734-4469, forstöðumaður innra eftirlits stefnanda, Víghólastíg 6, Kópavogi, bar um tilurð samningsins frá 1. mars 1987 að auglýst hafi verið eftir umboðsmanni á Húsavík. Hafi maður verið ráðinn sem hafi starfað 1 mánuð og hafi þá hætt og hafi hann svo fundið stefnda Einar Þór og hafi hann verið með samninginn er hann hitti hann. Hafi þetta verið venjulegur umboðsmanna­samningur eins og þeir gerðust hjá Olís. Eigi Olís eignir og birgðir, en bensín, díselolía og aðrar vörur séu mánaðarlega færðar á viðskiptareikning umboðsmanns og reikningurinn skuldfærður um þá fjárhæð sem umboðsmaður gefi upp. Birgðir væru taldar a.m.k. um áramót og venjulega væri nokkur rýrnum sem Olís tæki á sig. Mismunur á viðskiptareikningi umboðsmanns, þ.e. skuld við Olís gæti skýrst af eign í sjóði, birgðum eða útistandandi kröfum umboðsins, sem þýddi þá aukningu viðskipta. Færslur á fylgiskjali nr. 9 í aktinum á dskj. nr. 2 skýrði hann svo að debet væru færslur samkvæmt gögnum sem umboðsmaður gæfi upp um sölu á hverri vörutegund mínus umboðs- og sölulaun og kredit peningar sem umboðsmaður sendir plús viðhaldskostnaður plús ef umboðsmaður hefur tapað kröfu vegna útgerðar en ekki tap á bensínstöð. Þetta væri vinnuregla. Rekstrarstyrkurinn, upphaflega kr. 40.000,00 á mánuði, hafi verið vegna þess að umboðið hafi ekki verið komið í fullan gang og vegna þess að til reksturs þurfti 3 menn svo og þurfti að sjá um bókhald. Bókhald stefnda Einars Þórs á Húsavík hafi verið mjög gott. Hann kvað góðan samning í dag geta verið handónýtan á morgun, t.d. ef togari færi úr viðskiptum við umboðsmann og taldi hann að samningur við umboðsmenn ætti að vera í sífelldri endurskoðun og umboðsmaður þyrfti að eiga frumkvæði að því. Er samningurinn var gerður var vitnið framkvæmdastjóri fjármálasviðs og þá næstur forstjóra að völdum. Hallgrímur Jónasson hafi síðar séð um samband við stefnda Einar. Hafi vitnið gert félagið upp og verið yfirmaður alls bókhalds og verið fulltrúi Landsbanka Íslands og Texaco gagnvart Olís hf. Hann kvaðst ekki hafa haft þessa samningsgerð almennt með höndum heldur hafi markaðsdeildin séð um þessi mál, en hann hafi tekið þetta mál að sér út af vandræðum. Hafi markaðsstjóri ekki verið við eða eitthvað þess háttar og hafi þetta raunar verið eini samningurinn sem hann hafi gert. Búið hafi verið að reka stöðina á Húsavík í 2-3 ár, barist hafi verið um kúnna því að tvær aðrar bensínstöðvar hafi verið á staðnum. Við gerð samningsins hafi verið notaðar nýjustu tölulegar upplýsingar svo og væntingar. Hafi hann hitt stefnda Einar Þór á hótelherbergi og hafi fundur þeirra staðið stutt og hafi rekstrarstyrkurinn einhliða verið boðinn af Olís. Hafi hann verið viðurkenning á að reksturinn stæði ekki undir sér. Varðandi tryggingabréfið á dskj. nr. 4 vissi hann ekki hver hefði samið það, en þar sem lager var veðsettur taldi hann að Olís ætti að fá greitt fyrir þá vöru sem tekin var af þeirra lager. Lagerinn hafi verið færður á geymslureikning eða öllu heldur viðskiptareikning. Stefndi hafi gefið söluskýrslu í mánaðarlok, sundurliðaða, og hafi það verið fært út af birgðareikningi og inn á viðskiptareikning stefnanda. Hann kvaðst hafa heyrt um það síðar að stefndi hafi kvartað. Þó svo að viðskiptaskuld hækki þá viti félagið ekki um af hverju það stafi, það geti stafað af auknum peningum í sjóði, auknum birgðum og aukningu á útistandandi kröfum. Hann upplýsti að stefnandi hafi rekið umboðið á Húsavík eftir að stefndi hætti. Vitninu var sýnd sundurliðun stefnufjárhæðarinnar á dskj. nr. 44 og upplýsti hann að engar vaxtafærslur væru inni í þeirri tölu og þær vaxtafærslur er kæmu fram á fylgiskjali nr. 9 í aktinum á dskj. nr. 2 bæru það með sér að þær fjárhæðir hefðu núllast út. Bókhaldið hafi verið býsna gott hjá stefnda og hafi stefndi átt að vita allan tímann samkvæmt bókhaldinu hvernig reksturinn gengi þar sem mánaðarlegt uppgjör hafi verið mjög nákvæmt. Stefnda hafi alltaf verið í lófa lagið að kvarta og benda á rök án uppsagnar og ef ekki næðust sættir þá gat hann sagt samningnum upp. Ekki vissi hann til að sest hafi verið niður með stefnda og forráðamönnum Olís til að leiðrétta málin. Hann kvað stefnanda hafa tekið fljótt á öllum málum og Olís ekki dregið menn á asnaeyrum í sambandi við leiðréttingu þeirra mála; það væri félaginu alls ekki í hag að gera það, en þetta vandamál á Húsavík hafi tekið rúmlega 2 ár að hlaðast upp. Hann kvaðst aldrei hafa séð dskj. nr. 6. þ.e. bréf stefnda, dags. 14. september 1988. Varðandi mannahaldið þá taldi hann að bílstjóri olíubíls hefði ekki verið í stöðugri keyrslu og því getað nýst umboðinu og einnig væri umboðsmaður alltaf við, dag og nótt, og einn maður til viðbótar. Einnig hafi stefnda verið boðið að reka sjoppu í húsnæðinu. Hann kvaðst örugglega ekki hafa rætt um að það þyrfti 3 menn til rekstursins. Ekki hafi verið rætt sérstaklega um bílstjóra olíubílsins, en hann taldi hann nýtast á bensínstöðinni svo sem áður greinir. Birgðatalning hafi örugglega farið fram í lokin því næsti maður hafi tekið við töldum lager. Markaðshlutdeild stefnanda hafi verið frekar lítil þar sem þetta hafi verið bændasvæði, en hann taldi að stefndi hafi staðið sig vel í því að auka markaðshlutdeild stefnanda því að Skeljungsmenn hafi farið að kvarta undan sinni stöðu. Að því er varðaði sjálfvirka bílaþvottastöð þá hafi ekki verið rætt um það í sín eyru að setja hana upp.

Vitnið Hallgrímur Jónasson, framkvæmdastjóri, kt 090745-3959, Fífuhvammi 41, Kópavogi, bar að síðari hluta árs 1987 hafi hann hafið afskipti af stefnda Einari Þór og um áramótin 1987-1988 hafi hann verið með í ráðum þegar rekstrarstyrkurinn var hækkaður úr kr. 40.000,00 í kr. 90.000,00 á mánuði ásamt kr. 300.000,00 í eingreiðslu. Að athuguðu máli í samráði við stefnda Einar Þór hafi þessar tölur orðið til. Hafi 90.000,00króna mánaðarstyrkurinn átt að nægja til að reka umboðið. Árið 1988 hafi hann ekki skoðað umboðið á Húsavík sérstaklega, en umboð Olís hafi þá verið á milli 40 og 50 og umboðsmannakerfið hafi verið til skoðunar. Í sambandi við uppsögn stefnda 13. júní 1989, sbr. dskj. nr. 10, hafi verið eðlilegt að kanna stöðu umboðsins þar sem skuldaaukning hafi orðið hjá umboðinu. Í fullu samráði við stefnda Einar Þór hafi verið farið norður og umboðið gert upp og þá hafi staðan komið í ljós og vanefndaákvæðum samningsins beitt og gripið til uppsagnarinnar. Hann sagði að hvarflað hefði að sér að gera þetta að opinberu máli. Hafi hann talið skuldina upphaflega ekki að fullu útskýrða og umboðið hafi því verið tekið út í samráði við stefna Einar Þór. Skýrslu sína á dskj. nr. 14 til Óla Kr. Sigurðssonar sagði vitnið skýra staðreyndir málsins. Varðandi færslurnar á fylgiskjali 9 í löghaldsaktinum á dskj. nr. 2 lýsti hann að debet megin væri færð sala umboðsmannsins og vörur sem umboðið hafi fengið og kredit megin innborganir frá umboðsmanni auk kostnaðar sem Olís bar að greiða. Dskj. nr. 44 sýndi heildaruppgjörið, það er saldótalan skuld stefnda Einars Þórs 6.054.576,80 að frádreginni ávísun að fjárhæð kr. 1.460,00 sem hafi komið stefnda til góða og lækkað kröfuna sem því nam. Komi þessar sömu niðurstöðutölur fram í löghaldsaktinum á dskj. 2. Hafi lagerinn verið talinn af starfsmönnum Olís svo og stefnda einnig hafi stefndi Einar Þór og eiginkona hans samþykkt birgðatalningu á vörulager þeirra er Olís yfirtók, sbr. löghaldsaktinn dskj. nr. 2 fylgiskjal 4, og hafi verðið verið metið í samráði við stefnda og hafi Olís reynt að laga fyrir honum stöðuna í sambandi við það uppgjör. Vitnið mundi eftir bréfi stefnda Einars Þórs á dskj. 6 frá því í september 1988. Umræður hafi farið fram en þetta hafi ekki verið óumdeilt. Í lok 1988 hafi stefnda verið greiddar 300.000,00 krónur auk rekstrarstyrkjar kr. 90.000,00 á mánuði til að rétta við hag umboðsins. Starfsemin á Húsavík hafi verið í uppsveiflu og ýmsir rekstrarliðir hafi verið umdeilanlegir, en stefndi hafi haft góða aðstöðu fyrir eigin rekstur. Óskir stefnda hafi verið ræddar innan Olís en ekki fallist á þessar kröfur hans. Hafi honum ekki verið lofað leiðréttingu en að málið yrði skoðað frekar. Málið hafi snert ýmsa þætti t.a.m. ábyrgð rekstraraðila. Ekki mundi hann eftir umræðum um olíubifreiðastjóra, en taldi ekki ólíklegt að Olís tæki að sér kostnað vegna hans. Athugað hafi verið með að koma upp sjálfvirkri bílaþvottastöð, en komið hafi í ljós að stöðin, þ.e. stöðvareiningin, „unitið” passaði ekki inn í húsnæðið. Vitninu var sýnt dskj. nr. 17 sem áður er nefnt þar sem ráðnir hefðu verið 9 starfsmenn á stöðina eftir að stefndi hætti rekstrinum og hvort þessi ráðstöfun sannaði ekki kröfur stefnda um aukinn mannafla. Sagði hann það ekki gefið, þetta hafi verið um háannatímann. Rekstur væri sveiflukenndur og sennilega hlutastörf inni í þessum fjölda. Dskj. nr. 17 sannaði ekki alla söguna og ekki væri hægt að leggja mat á aðstæður samkvæmt því. Að því er varðar dskj. nr. 10, þ.e. bréf vitnisins til stefnda Einars Þórs, dags. 13. júlí 1989, þar sem rætt var um óskýrða skuld að fjárhæð kr. 5.900.000,00, skuld þessi hafi ekki legið ljós fyrir því að viðskiptareikninginn hafi þurft að kanna, þ.e. hvað stæði á bak við tölurnar við uppgjörið. Á bak við skuldina hefðu þá átt að standa útistandandi kröfur, peningar í sjóði og lager, en ekkert þetta hafi verið til staðar er skýrði skuld stefnda. Hvernig stefndi hefði átt að bregðast við taprekstrinum, hefði hann getað stytt opnunartíma eða gert eitthvað sjálfur til að laga stöðuna. Í upphafi árs 1988 hafi vitnið og stefndi Einar Þór verið sammála um að þá væru hlutirnir í lagi. Samskiptin við stefnda hefðu verið góð og það sem þurft hefði að gera hafi verið dapurlegt. Stefndi hafi haft öll gögn á starfstíma sínum og eðlilega hafi verið að öllu staðið. Hafi stefndi haft sitt bókhald, það hafi verið hans bókhald. Vitnið kvaðst hafa verið aðal „kontaktmaður” við stefnda svo og innheimtudeild og fjárreiðudeild og hafi vitnið borið ábyrgð um allt land.

Stefndi Einar Þór Kolbeinsson, framkvæmdastjóri, Garðarsbraut 25, Húsavík, lýsti upphafi viðskipta sinna við Olís þannig, að félagið hafi auglýst eftir umboðsmanni á Húsavík og hafi hann sótt um og hafi Ólafur Bjarki kallað hann á sinn fund á Hótel Húsavík og lýst fyrir honum í hverju starfið fólst. Hafi hann í sjálfu sér ekki vitað hvers spyrja bæri, en annar maður hafi verið ráðinn. Mánuði síðar hafi Ólafur Bjarki haft aftur samband við sig því sá sem umboðið hafði fengið hefði sagt því lausu vegna þess að það hafi reynst of mikið verk. Hafi hann hitt Ólaf Bjarka á Hótel Húsavík og hafði hann meðferðis staðlaðan samning að hans sögn. Hann hafi þá starfað sem bifvélavirki, verið með kr. 95.000,00 til 96.000,00 í mánaðarlaun og hafi Ólafur Bjarki sagt honum að hann myndi koma til með að hafa miklu meiri laun en þetta. Er hann fékk samningsuppkastið kvaðst hann hafa þurft að sýna samninginn eiginkonu sinni svo og bókhaldara sínum er hafi litið á hann og ekkert séð athugavert við hann, en hann hafi verið í tímapressu og skrifað undir samninginn. Hafi hann séð fyrir sér vel launað framtíðarstarf. Hafi honum verið sagt hver sölulaunin væru og hafi hann vitað að styrkja þyrfti umboðið um kr. 40.000,00 á mánuði. Hafi olíubíll fylgt umboðinu en hann ekki vitað hver kostnaður af honum yrði. Hafi verið lagt að honum að ráða Sigvalda Jónsson sem olíubílstjóra. Ekki hafi verið rætt sérstaklega um starfsmannaþörf, en eftir að hann tók við umboðinu hafi starfsmenn verið 5. Bílstjóri olíubílsins hefði ekki nýst sér sem umboðsmanni heldur hafi aðalstarf hans verið í þágu Olís. Þurft hafi tvær vaktir á bensínstöðina og fjóra bensínafgreiðslumenn. Stefnandi kveðst sjálfur ekki hafa getað sinnt afgreiðslu og bílstjórinn nýttist ekki heldur til afgreiðslustarfa þannig að starfsmenn hefðu verið að lágmarki sex til að halda stöðinni gangandi. Hafi það sést eftir fyrstu mánuðina að ekki hafi verið hægt að reka þetta svona, gert hafi verið upp mánaðarlega og skuldalisti hafi fylgt hverju uppgjöri þannig að staða umboðsins hafi alltaf átt að sjást hjá Olís. Á starfstíma sínum hafi hann haft mest samstarf við Inga Þór Eðvaldsson, skrifstofumann hjá Olís. Árið 1988 hafi hann fengið kr. 90.000,00 í mánaðarstyrk auk kr. 300.000,00 eingreiðslu, sem einhliða hafi verið ákveðin af Olís. Í júlí 1987 hafi hann verið kallaður til forstjóra Olís og átt að hafa allt bókhaldið með. Hafi Ingi Þór skoðað bókhaldið og séð að þetta gengi ekki. Hafi hann hitt Óla Kr. Sigurðsson, forstjóra, í 5 mínútur, hafi hann talið að hægt væri að reka umboðið og ætlað að setja málið í vinnslu. Í júlí eða ágúst 1988 hafi Óli Kr. Sigurðsson komið á Húsavík og litið við á umboðinu og hafi lofað að Sigvaldi Jónsson, olíubifreiðastjóri, færi á launaskrá hjá Olís h.f. frá upphafi og hafi lofað sjálfvirkri bílaþvottastöð á Húsavík. Hafi Óli Kr. sagst ætla að ganga í þetta strax og hann kæmi suður, en ekkert hefði gerst. Bílstjórinn hefði alltaf verið í vinnu hjá Olís en ekki hjá sér. Hafi skuld sín við Olís aukist mánaðarlega þar sem hann hafi lagt áherslu á að standa skil á launum til starfsfólks síns, hafi hann tekið lán til aðjafna reikninginn. Hafi hann séð að þetta gekk ekki og hafi þá verið kominn í stóra skuld. Hafi Hallgrímur Jónasson sagt að það yrði tekið á hans vanda, en ekkert hefð skeð. Hafi Hallgrímur sagt er Óli Kr. Sigurðsson kom suður að ekkert yrði gert á Húsavík. Viðskilnaðurinn 13. júní 1989 hafi verið með eðlilegum hætti og hafi hann talið lagerinn með starfsmönnum Olís. Er hann hafi verið leystur frá störfum hafi komið nýr umboðsmaður á Húsavík, fyrrverandi umboðsmaður Skeljungs á staðnum og gamall vinur Óla Kr. Viðskilnaðurinn hafi verið eðlilegur nema að því leyti að hann hafi staðið uppi með skuld. Hafi hann fært bókhaldið daglega, bókhaldið eigi Olís og hafi hann ekki gögnin um bókhaldið, það hafi Olís allt tekið. Hvað laun sín áhræri hafi hann reiknað sér laun samkvæmt því sem skattalög hafi krafist. Stefnda var sýnt dskj. nr. 44. Sagði hann yfirlitið vera tölulega rétt og kvaðst ekki geta útskýrt þennan mismun á annan hátt en að framan er rakið. Kreditmegin væru færðar innborganir frá honum og debetmegin þær vörur sem Olís hafi skuldfært hann um samkvæmt upplýsingum hans. Veðtryggingarbréfið á dskj. nr. 4 kvaðst stefndi Einar Þór hafa samið samkvæmt formálabók, en Ólafur Bjarki hafi sagt að hann þyrfti að leggja fram tryggingu fyrir lager þar sem hann hafi þurft að skila lagernum til baka. Hann kveðst hafa haft sjálfstæðan rekstur, rekið sjoppuhorn, en aðalsalan hafi verið í tóbaki og álagning á því lítil, en hann hafi fjárfest í dýrum tækjum til rekstursins og enginn hagnaður hafi verið af rekstri þessum. Hafi hann byrjað með videóleigu rétt áður en hann hætti rekstri. Árið 1988 hafi honum boðist tryggingaumboð, en hafi verið bannað að taka það að sér af Ólafi Bjarka. Hagnaður af sjoppurekstrinum hafi farið upp í stofnkostnað. Sá sem afgreiddi í sjoppunni hafi verið annar en sá um bensínafgreiðslu þar sem slíkt var ekki talið fara saman af heilbrigðisfulltrúa og hafi hann verið með 2 manneskjur í sjoppu þessari. Hann upplýsti að sá er leit yfir umboðsmannssamninginn sem hann gerði við Olís hafi verið að enda nám í viðskiptafræði og hafi séð um gerð skattaskýrslna fyrir sig. Þessi maður hafi bent honum á að bæta þyrfti úr rekstrinum, þetta gengi ekki. Maður þessi hafi verið daglegur gestur heima hjá honum og reksturinn alltaf til umræðu.

Svo sem áður hefur rakið voru dómkvaddir matsmenn af hálfu stefnda. Verður sá þáttur málsins nú rakinn nánar.

Með bréfi dagsettu 5. maí 1994, sbr. dskj. nr. 50, fór lögmaður stefnda Einars Þórs Jónssonar fram á það að dómkvaddir yrðu matsmenn til þess að meta eftirgreind atriði:

„1.        Hver hafi verið starfsmannaþörf við rekstur Húsavíkur umboðsins skv. þeim starfsskyldum sem kveðið var á um í umboðssamningi dags. 01.03.1987, á tímabilinu 01.03.1987 til 01.06.1989.

2.          Hver hafi verið launakostnaður, svo og annar kostnaður við rekstur umboðsins á Húsavík á tímabilinu 01.03.1987 til 01.06.1989.

3.          Hvert vinnuframlag matsbeiðanda og starfsmanna hans hafi verið og hvaða tekjur hefði borið að greiða þeim eftir gildandi kjarasamningum skv. vinnuframlagi.

4.          Hvort samræmi sé milli greiddra launa skv. tl. 2 og raunverulegra áunninna launakrafna skv. tl. 3. Ef ekki, er óskað tilgreiningar á mismun.

5.          Hver hafi verið kostnaður matsbeiðanda við rekstur olúbifreiðar á tímabilinu 01.03.1987 til 01.06.1989.

6.          Hver hafi verið laun olíubifreiðastjóra umboðsins á tímabilinu 01.03.1987 til 01.06.1989.

7.          Hversu mikið olíubifreiðin hafi verið nýtt í þágu annarra umboðsmanna OLÍS en matsbeiðanda, sem ca. hlutfall af heildarnotkun skv. ökuskýrslum frá 01.03.1987 til 01.06.1989.

8.          Hversu rekstrarstyrkur OLÍS hafi mikill hluti af heildarrekstrartekjum umboðsins á tímabilinu 01.03.1987 og frá þeim tíma til 01.06.1989.

9.          Hversu sölulaun frá OLÍS til matsbeiðanda hafi verið mikill hluti af heildarrekstraratekjum á tímabilinu 01.03.1987 til 01.06.1989.

10.        Hver launa- og annar rekstrarkostnaður hafi verið við Húsavíkur umboðið frá 01.06.1989 til 31.12.1993, þ.m.t. starsmannafjöldi.

11.        Hverjar hafi verið heildartekjur umboðsins á ári frá 01.06.1989 til 31.12.1993.

12.        Hvort að framlag OLÍS til rekstrarins, þ.e. rekstrarstyrkur og umboðslaun, hafi verið sanngjarnt og nægjanlegt m.t.t. þeirra skyldna sem á matbeiðanda hvíldu skv. umboðssamningi.

13.        Ef niðurstaða matsmanna er sú að framlag OLÍS hafi verið ósanngjarnt og ekki fullnægjandi, er þess óskað að matsmenn láti í ljós álit á því hvert hafi verið sanngjarnt og eðlilegt framlag af hálfu OLÍS til matsbeiðanda miðað vð skyldur hans skv. samningi aðila.

             Áskilnaður:

             Áskilinn er réttur til þess að leggja fram frekari spurningar fyrir matsmenn á matsfundi, ef þörf krefur að mati matsbeiðanda.“

Var beiðnin þingfest 6. s.m. og var beiðninni um dómkvaðningu hafnað með úrskurði, en með dómi Hæstaréttar 16. júní 1994 var lagt fyrir dómara að dómkveðja matsmenn og á dómþingi 11. nóvember 1994 voru dómkvaddir sem matsmenn þeir Þorsteinn Kjartansson og Þórir Ólafsson, löggiltir endurskoðendur á Akureyri. Matsmenn skiluðu matsgerð, dags. á Akureyri 12. september 1996, er lögð var fram hér í dómi sem dskj. nr. 54, þann 7. nóvember 1996, en í millitíðinni gekk úrskurður hér fyrir dómi þann 28. febrúar 1995 þar sem hafnað var að stefnandi legði fram þau gögn er stefndi krafðist á dskj. nr. 51. Var úrskurður þessi kærður til Hæstaréttar. Með dómi Hæstaréttar 24. mars 1995 var úrskurðurinn staðfestur. Matsmenn skiluðu framhaldsmatsgerð, dags. á Akureyri 15. maí 1997 og lögð er fram í málinu sem dskj. nr. 60. Við gerð matsgerðarinnar á dskj. nr. 54 fengu matsmenn ekki í hendur frá lögmanni stefnda, Einars Þórs, umboðssamning aðila í löghaldsaktinum á dskj. nr. 2. Sýna dskj. nr. 57 og 58 hvernig í þeim misskilningi hefur legið og er hann ekki rakinn hér, en rétt þykir vegna samhengis málsins að rekja skýrslu matsmannanna frá 12. september 1996, sbr. dskj. nr. 54 að hluta:

 

„Á dómþingi föstudaginn 11. nóv. 1994 eru matsmenn dómkvaddir til málsins og tilkynnt það með bréfi 22. nóv. sama ár. Boðað var til fundar með málsaðilum miðvikudaginn 7. des. sama ár. Í framhaldi af þeim fundi fengum við afhent dómskjöl málsins merkt 1 - 51 að skjali 2 undanskildu. Meðfylgjandi er afrit af bréfi okkar matsmanna dags. 11. des. 1994, sent lögmönnum málsaðila þar sem gerð er grein fyrir umgetnum fundi. Þar var einnig óskað ákveðinna gagna auk gagna sem getið er í dskj. 51. Í bréfi lögmanns matsbeiðanda dags. 13. des. 1994 kemur fram að hann muni snúa sér til dómara án tafar með ósk um úrskurð um framlagningu umbeðinna gagna. Sá úrskurður var kveðinn upp 28. febrúar 1995 og var kröfu matsbeiðanda hafnað. Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar 8. mars. 1995 sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms.

Aftur var boðað til matsfundar með lögmönnum málsaðila föstudaginn 6. október 1995 og farið fram á að lögð yrðu fram gögn. Á fundinn mætti auk matsmanna Davíð Gíslason fh. matsbeiðanda. Fram voru lögð eftirfarandi gögn:

Tímaskráningarbækur 1987 - 1989, 3 stk.

Aðgerðabækur 1987 - 1989, 3 stk.

Kauptaxtar Verkalýðsfélags Húsavíkur og fréttabréf AN 1. mars 1987 - 1. maí 1989.

Tölvuútprentun á sölu 1. jan 1989 - 1. júní 1989 hjá umboðsmanni OLÍS, Húsavík.

Boðaði Davíð fyrir hönd matsbeiðanda að hann sendi frekari gögn til matsmanna þegar hann hefði aflað þeirra en ekkert hefur frekar borist frá honum. Matsmönnum hefur ekki orðið auðið að afla frekari gagna en að ofan getur.

 

Í matsbeiðninni eru þrettán tilgreindir liðir sem óskað er mats á.

 

Fyrsti liður hljóðar svo:

Hver hafi verið starfsmannaþörf við rekstur Húsavíkurumboðsins skv. þeim starfsskyldum sem kveðið var á um í umboðssamningi dags. 1. mars 1987, á tímabilinu 1. mars 1987 - 1. júní 1989.

 

Niðurstaða:

Þar sem tilgreindur umboðssamningur hefur ekki verið lagður fram er ekki unnt að leggja mat á starfsmannaþörf skv. samningnum.

Samkvæmt tilvitnun í umboðssamninginn sem er að finna í gögnum málsins (dskj. 5 (?))er gert ráð fyrir opnunartíma bensínafgreiðslu frá kl. 8 að morgni til kl. 22 að kvöldi sem gerir 14 klst. opnunartíma, rekstur eldsneytisflutningabifreiðar sem sinna átti flutningsþörf um nánast allar Þingeyjarsýslur, ásamt umsjón með og viðhaldi eigna OLÍS á Húsavík. M.t.t. staðhátta er ljóst að ekki verður komist af með minna en tvær tveggja manna vaktir á dag í bensínafgreiðslu einni sér.

 

Annar liður hljóðar svo:

Hver hafi verið launakostnaður, svo og annar kostnaður við rekstur umboðsins á Húsavík á tímabilinu 1. mars 1987 til 1. júní 1989.

 

Niðurstaða:

Hér er spurt um rauntölur sem fyrir eiga að liggja í bókhaldi matsbeiðanda og teljum við það ekki atriði sem þurfi að meta. Gögn um nefndan kostnað eiga að liggja fyrir hjá matsbeiðanda. Á dskj. 41 kemur fram að greidd laun jan - maí 1989 hafi verið kr. 1.712.998. Skv. dskj. 8 eru laun sama tímabil kr. 1.637 þúsund. Þar er gert ráð fyrir reiknuðu endurgjaldi umboðsmanns og eiginkonu hans. Með launatengdum gjöldum um 20% er heildarlaunakostnaður það tímabil kr. 1.9 - 2,1 millj.

 

Þriðji liður hljóðar svo:

Hvert vinnuframlag matsbeiðanda og starfsmanna hans hafi verið og hvaða tekjur hafi borið að greiða þeim eftir gildandi kjarasamningum skv. vinnuframlagi.

 

Niðurstaða:

Meðfylgjandi eru útreikningar á skráðum vinnutíma starfsmanna umboðsmanns OLÍS, Húsavík skv. tímaskráningarbókum tímabilið 1. mars 1987 - 1. júní 1989. Miðað er við launataxta bensínafgreiðslumanns 2. flokk eftir 3ja ára starf og að allir tímar séu greiddir á dagvinnutaxta. Samtals reiknast laun skv. þessu, sbr. meðf. útreikning og skýringar, kr. 2,36 milljónir fyrir árið 1987, 3,36 milljónir árið 1988 og 1,77 milljónir árið 1989. Laun bifreiðastjóra eru þessu til viðbótar. Skv. dskj. 47 voru laun bifreiðastjóra kr. 461 þús. 1987, dskj. 46 623 þús. 1988 og dskj. 8 270 þús. 1989. Launatengd gjöld um 20% bætast svo á laun. Reiknuð laun miðað við ofangreindar forsendur eru í þús. kr.:

 

 

 

Reiknuð

Laun

Launat.

 

 

 

Ár

laun

bifreiða-

gjöld

Samtals

 

 

 

(dagv.taxti)

stjóra

20%

 

 

 

1987

2.359

461

564

3.384

 

 

1988

3.360

623

797

4.780

 

 

1989

1.770

270

408

2.448

 

 

Ljóst er þó af þeim opnunartíma sem um getur í gögnum málsins, að vinna við starfsemina verður aldrei öll unnin í dagvinnu. Ítrekað skal að hér er einungis um að ræða framsetningu á skráðum vinnutíma umboðsmannsins og starfsmanna hans. Eins og áður er getið vantar upplýsingar til að ljúka mati samkvæmt þessum lið, svo sem umboðssamninginn, upplýsingar um starfsaldur ofl.

 

Fjórði liður hljóðar svo:

Hvort samræmi sé milli greiddra launa skv. tl. 2 og raunverulegra áunninna launakrafna skv. tl. 3. Ef ekki, er óskað tilgreiningar á mismun.

 

Niðurstaða:

Ekki voru lögð fram gögn um geidd laun, sbr. tl. 2. Samanburður þessara liða er öllum kleifur séu lagðar fram tölur um greidd laun og þarf ekki sérstakt mat til. Miðað við tölur um greidd laun skv. dskj. 8 eru laun 1/1 - 31/5 1989 kr. 1.637.344. Reiknuð laun miðað við forsendur í lið 3 eru fyrir sama tímabil 2.040.000. Mismunur vegna reiknaðra launa matsbeiðanda og maka hans og reiknaðs endurgjalds þeirra er kr. 503.440. Greidd laun til starfsmanna eru því um kr. 100.000 hærri en reiknuð skv. forsendum í lið 3 enda þar hvorki gert ráð fyrir yfirvinnu né misháum töxtum.

 

Í liðum 5 til 9 er óskað mats á raunverulegum kostnaðarliðum úr bókhaldi matsbeiðanda. Við teljum hér vera um að ræða hreinan útreikning á kostnaðarfylgiskjölum sem ekki þarf að meta.

 

Í liðum 10 og 11 er óskað mats á liðum sem fyrir liggja í rauntölum í bókhaldi matsþola.

 

Niðurstaða okkar varðandi liði 12 og 13 er að ekki hafi verið lögð fram þau gögn sem nauðsynleg eru til að meta megi það sem um er beðið í þeim. Þó virðist af þeim gögnum sem frammi liggja í málinu að strax hafi komið í ljós að þær tekjur sem umboðsmaðurinn hafði nægðu, ekki til að standa undir kostnaði og að hann hafi fengið leiðréttingu á því amk að hluta. Í dskj. 41 er gerð grein fyrir tekjum af umboðinu tímabilið jan - maí 1989 og af því að dæma eru tekjur, þ.m.t. rekstrarstyrkur, lægri en greidd laun. Umboðsmaður er því að bera kostnað sem nemur hluta launa og allra launatengdra gjalda og að teknu tilliti til launa sem hann fær fyrir tímabilið og að meiri kostnaður er við reksturinn en laun, er hann að vinna í sjálboðavinnu um 2000 tíma þessa fimm mánuði.

 

Til skýringar málsins þykir rétt að rekja framhaldsmatsgerðina á dskj. nr. 60:

 

„Vísað er til matsskýrslu okkar dags. 12. september 1996 um aðdraganda máls og niðurstöðu okkar þá.

Þann 4. desember bárust skrifleg tilmæli héraðsdómara um að lokið verði matsgjörð í mál nr. E-96/1992 skv. matsbeiðni og gerðum við dómara grein fyrir þeim annmörkum sem voru á að unnt væri að framkvæma matið eins og matsbeiðni stóð til.

Boðað var til matsfundar með málsaðilum föstudaginn 18. apríl 1997 og að fengnu fundarboði ítrekaði lögmaður matsþola svar sitt frá fyrri matsfundarboðunum um að ekki yrði mætt af hálfu matsþola og um þýðingarleysi matsins. Ekki varð af matsfundi en haft var samband við málsaðila símleiðis og bréflega. Gagnaöflun, umfram þau gögn sem við höfðum undir höndum við gerð skýrslu okkar þann 12. sept. sl. voru umboðssamningur sem lögmaður matsbeiðanda sendi okkur vegna kröfu um lúkningu mats og afrit af rekstrar- og efnahagsyfirlitum matsbeiðanda sent okkur á faxi 12. maí sl. Bókhald sitt taldi matsbeiðandi vera í fórum OLIS frá því þeir yfirtóku húsnæði umboðsins er samningi var rift við hann. Lögmaður matsþola neitaði veru bókhaldsins í höndum OLÍS aðallega á þeirri forsendu að bókhaldið ætti að vera í höndum matsbeiðanda sjálfs og geta allir verið sammála um að þar á það að vera.

 

Í matsbeiðninni eru sem fyrr þrettán tilgreindir liðir sem óskað er mats á.

 

Fyrsti liður hljóðar svo:

Hver hafi verið starfsmannaþörf við rekstur Húsavíkurumboðsins skv. þeim starfsskyldum

sem kveðið var á um í umboðssamningi dags. 1. mars 1987, á tímabilinu 1. mars 1987 - 1. júní 1989.

 

Niðurstaða:

Í umboðssamningi er áskilinn opnunartími bensínafgreiðslu frá kl. 8 að morgni til kl. 22 að kvöldi sem gerir 14 klst. opnunartíma á dag eða 5.040 tíma á ársgrundvelli. Til að umboðsmaður geti uppfyllt kröfur um opnunartíma bensínafgreiðslu þarf hann 4,5 stöðugildi á ársgrundvelli. Að auki þarf eitt stöðugildi til vegna tankbíls sem einnig nýtist vegna viðhalds eigna. Til að uppfylla kröfur umboðsamnings þarf hann því að lágmarki 5,5 stöðugildi á ársgrundvelli.

 

Annar liður hljóðar svo:

Hver hafi verið launakostnaður, svo og annar kostnaður við rekstur

umboðsins á Húsavík á tímabilinu 1. mars 1987 til 1. júní 1989.

 

Niðurstaða:

 

 

 

 

 

 

 

Launakostnaður umboðsmanns samkvæmt rekstrarreikningi hans var eftirfarandi:

 

 

 

 

 

1987

1988

1989

 

 

 

 

Laun og launatengd gjöld

2.835.925

3.962.626

1.897.847

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Laun þessi eru einnig vegna reksturs sælgætisverslunar umboðsmanns en ekki liggja fyrir forsendur til að skipta þeim milli rekstrarþátta. Að auki er kaffikostnaður og annar starfsmanna- og viðskiptamannatengdur kostnaður allt að kr. 100.000 á ársgrundvelli.

Skv. umboðssamningi var ekki um að ræða að annar kostnaður félli á umboðsmann en kostnaður vegna bókhalds "annar en kostnaður af nótum og eyðublöðum sem OLÍS leggur til". Enginn sérgreindur kostnaður er tiltalinn hjá umboðsmanni vegna bókhalds.

 

Ekki liggja fyrir gögn sem sýna hvort gjaldfærður vaxtakostnaður matsþola tilheyrir umboðsrekstri hans eða verslunarrekstri. Af viðskiptayfirliti OLÍS við matsbeiðanda, dskj. 44 eru skuldfærðir vextir vegna maímánaðar kr. 55.300 sem reiknast af stofni kr. 1,7 milljónir en skuld í lok maí er 12 milljónir. Ekki er ljós tilurð skuldar og hvort hún er tilkomin vegna skuldfærslu á vörum skv. 1. ml. 5. gr. samnings en á fyrrgreindu yfirliti sést sú skuldfærsla ekki bakfærð.

 

Þriðji liður hljóðar svo:

Hvert vinnuframlag matsbeiðanda og starfsmanna hans hafi verið og hvaða tekjur hafi borið að greiða þeim eftir gildandi kjarasamningum skv. vinnuframlagi.

 

Niðurstaða:

Í matsskýrslu okkar þann 12. septembar sl. var gerð grein fyrir þessum lið. Miðað var við laun skv. dagvinnutaxta með vaktaálagi og lítur það svo út (að gerðum smávægilegum breytingum):

 

 

 

 

 

 

 

Vinnu-

Reiknuð laun

Laun

Launat.

Samtals

Ár

framlag

(dagv.taxti

bifreiða-

gjöld

launagreiðslur

 

í klst.

 m/vaktaálagi)

stjóra

11%

eftir gildandi samn.

1987

10.543

2.396.000

461.000

307.128

3.164.128

1988

11.944

3.547.000

674.000

453.758

4.674.758

1989

5.772

1.892.000

290.000

234.565

2.416.565

 

 

 

 

 

 

Um forsendur vísast til matsskýrslu okkar dags. 12. sept. 1996.

 

Fjórði liður hljóðar svo:

Hvort samræmi sé milli greiddra launa skv. tl. 2 og raunverulegra áunninna launakrafna skv. tl. 3. Ef ekki, er óskað tilgreiningar á mismun.

 

Niðurstaða:

 

 

1987

1988

1989

 

Reiknuð laun skv. lið 3

3.164.128

4.674.758

2.416.565

Greidd laun skv. lið 2

2.835.925

3.962.626

1.897.847

 

Reiknuð laun hærri en greidd

328.203

712.132

518.718

 

Reiknuð laun umfram greidd (%)

11,6%

18,0%

27,3%

 

Greidd og reiknuð laun miðast við vinnu fyrir bæði umboðsstarfsemi og sælgætisverslun matsbeiðanda.

 

Fimmti liður hljóðar svo:

Hver hafi verið kostnaður matsbeiðanda við rekstur olíubifreiðar á tímabilinu 1. mars 1987 til 1. júní 1989.

 

Niðurstaða:

Kostnaður matsbeiðanda við rekstur olíubifreiðar var eingöngu launakostnaður.

Laun bifreiðastjóra eru tilgreind í lið 3 og lið 7.

 

Sjötti liður hljóðar svo:

Hver hafi verið laun olíubifreiðastjóra umboðsins á tímabilinu 1. mars 1987 til 1. júní 1989.

 

Niðurstaða:

Skv. dskj. 47 voru laun bifreiðastjóra kr. 461 þús. 1987, skv. dskj. 46 623 þús.(11 mán.) 1988 og skv. dskj. 8 270 þús. 1989 (jan - maí). Launatengd gjöld um 10,75% bætast svo á laun. Launakostnaður bifreiðastjóra er því 1.625 þúsund á tímabilinu.

 

Sjöundi liður hljóðar svo:

Hversu mikið olíubifreiðin hafi verið nýtt í þágu annarra umboðsmanna OLÍS en matsbeiðanda, sem hlutfall af heildarnotkun skv. ökuskýrslum frá 1. mars 1987 til 1. júní 1989.

 

Niðurstaða:

Ökuskýrslur 1988 og 1989 vegna bifreiðar hafa ekki fengist framlagðar. Matsbeiðandi telur þær hafa verið í húsnæði umboðsins er OLÍS yfirtók það í skyndi þann 13. júní 1989 og hann hafi ekki fengið aðgang að húsnæðinu eða gögnin afhent eftir það. Ekki liggur fyrir hverjir af afgreiðslustöðum OLÍS eru umboðsmenn og hverjir ekki. Af gögnum málsins má ráða að notkun matsbeiðanda á bifreiðinni í þágu sölustöðvar á Húsavík er innan við 20% af heildarnotkun.

 

Áttundi liður hljóðar svo:

Hversu rekstrarstyrkur OLÍS hafi (verið) mikill hluti af heildarrekstrartekjum umboðsins á tímabilinu 1. mars 1987 og frá þeim tíma til 1. júní 1989.

 

Niðurstaða:

Rekstrarstyrkur OLÍS var um 24,3% af heildarrekstrartekjum umboðsins 1/3 - 31/12 1987, um 25,8% af heildarrekstrartekjum umboðsins 1988 og um 21,7% af heildarrekstrartekjum umboðsins 1/1 - 31/5 1989

 

Níundi liður hljóðar svo:

Hversu sölulaun frá OLÍS til matsbeiðanda hafi verið mikill hluti af heildarrekstrartekjum á tímabilinu 1. mars 1987 til 1. júní 1989.

 

Niðurstaða:

Sölulaun OLÍS voru um 75,7% af heildarrekstrartekjum umboðsins 1/3 - 31/12 1987, um 74,2% af heildarrekstrartekjum umboðsins 1988 og um 78,3% af heildar­rekstrar­tekjum umboðsins 1/1 - 31/5 1989

 

Vegna liða 10 og 11 hafa engin gögn fengist afhent til að mögulegt sé að framkvæma vitlegt mat.

 

Tólfti liður hljóðar svo:

Hvort að framlag OLÍS til rekstrarins, þ.e. rekstrarstyrkur og umboðslaun, hafi verið sanngjarnt og nægjanlegt m.t.t. þeirra skyldna sem á matsbeiðanda hvíldu skv. umboðssamningi.

 

Niðurstaða:

Samkvæmt umboðssamningi bar umboðsmanni að annast sölu á bensíni, gasolíu, steinolíu og ýmsum bíla- og smávörum fyrir OLÍS, annast rekstur olíustöðvar og allan akstur á þessum sömu vöru á sölusvæði allt austur til Þórshafnar, annast rekstur bensínstöðvar annast eftirlit með öllum eignum OLÍS á Húsavík, jafnt fasteignum sem lausafé og annast allt bókhald vegna umboðsins og bensínstöðvarinnar ásamt skýrslugerð því samfara.

Í næst síðust mgr. 6. gr. samningsins kemur fram að endurgjald OLÍS til umboðsmannsins fyrir að annast framangreindar skyldur eru við gerð samningsins, kr. 1,37 pr. ltr. af seldu bensíni, gasolíu og steinolíu, kr. 0,14 pr. ltr. af sölu frá olíustöð, 9,2% af seldum smurolíum og 12,6% af seldum smávörum. Samkvæmt samningnum skyldu framangreind sölulaun taka breytingum í samræmi við ákvarðanir verðlagsyfirvalda á hverjum tíma. Auk þessa kemur fram í síðari mgr. 3. gr. samningsins að OLIS greiðir mánaðarlegan rekstrarstyrk sem við gerð samningsins var kr. 40.000 á mánuði.

Umboðsmaður skyldi greiða öll laun og launatengd gjöld og samkvæmt gögnum málsins eru þar innifalin laun bifreiðastjóra á olíubifreið en samkvæmt 4. gr. samningsins skyldi OLÍS greiða allan annan rekstrarkostnað, þó ekki kostnað vegna bókhalds annan en nótur og eyðublöð sem OLÍS skyldi leggja til. Samkvæmt framlögðum ársreikningum umboðsmannsins fyrir árin 1987, 1988 og 1989 er ekki að finna bókhaldskostnað og er því gert ráð fyrir að bókhaldskostnaður sé innifalin í launum. Samkvæmt b-lið 1. gr. samningsins skyldi umboðsmaður annast “rekstur olíustöðvar og allan akstur á gasolíu, bensíni, smurolíum og smávörum á sölusvæði allt austur til Þórshafnar”. Með olíustöð í þessu tilliti er væntanlega átt við birgðastöð OLÍS á Húsavík. Ekki kemur fram í gögnum málsins með hvaða hætti aðföng og dreifing til og frá birgðastöðinni fór fram bókhaldslega, þ.e. hvort og þá að hvaða leyti vörur í olíustöðinni fóru í gegn um bókhald umboðsmannsins, en ef gengið er út frá því að OLÍS hafi ekki skuldfært umboðsmannin fyrir aðföngum í olíustöðina þá má telja rökrétt að álykta að OLÍS hafi skuldfært alla sölu frá olíustöðinni í bókhaldi sínu á viðkomandi viðskiptavini en ekki skuldfært þá sölu á umboðsmanninn. Því eru þessar hugleiðingar hafðar í frammi að fyrir dreifingu frá olíustöðinni virðist umboðsmaðurinn einungis hafa fengið kr. 0,14 pr. ltr. af bensíni og gasolíu en ekki er ljóst af gögnum málsins með hvaða hætti eða hvort hann fékk þóknun fyrir dreifingu á smurolíum og smávörum frá olíustöðinni. Ekki er heldur ljóst af umboðssamningum hvert sölusvæði olíubifreiðarinnar var nákvæmlega, en samkvæmt upplýsingum umboðsmannsins var sölusvæðið “allt frá Ljósavatnshreppi og allt austur á Þórshöfn og einnig Mývatnssveit”. Við dreifinguna frá olíustöðinni var notuð bifreið sem OLÍS lagði til og tók bifreiðin u.þ.b. 10.000 ltr. í þrískiptum tanki. Samkvæmt því var hámarksþóknun umboðsmannsins kr. 1.400 í hvert skipti sem bifreiðin fór fulllestuð frá olíustöðinni (fyrir sama magn frá dælu hefði hann fengið kr. 13.700). Í ljósi þess að umboðsmaðurinn greiddi laun bifreiðastjórans, sem samkvæmt gögnum málsins hafa verið um kr. 350 pr. klst. að launatengdum gjöldum meðtöldum, er ljóst að þóknunin fyrir hverja ferð með fulllestaða bifreiðina dygðu aðeins fyrir 4 klst launum bifreiðastjórans. Þar af má ætla að helmingur tímans eða jafnvel meira færi í að ferma og afferma bifreiðina og sem dæmi að ferð bifreiðar austur á Þórshöfn tók 9 - 10 tíma eða jafnvel meira. Eins og áður sagði er hér gengið út frá því að skyldur umboðsmannsins hafi aðeins verið að annast mótttöku pantana varðandi dreifingu þessa, halda saman upplýsingum um hana og senda til OLÍS, en ekki að annast útskrift reikninga, innheimtu og færslu í bókhald. Þrátt fyrir að gengið sé út frá slíkum lágmarksskyldum umboðsmannsins sem að framan greinir varðandi dreifingu frá olíustöðinni verður ekki af gögnum málsins ráðið hvort, og þá með hvaða hætti, ætlast var til að þessi þáttur starfseminnar stæði undir sér. Á dómskjali nr. 41 kemur fram velta umboðsins fyrir tímabilið janúar til maí 1989. Samkvæmt því eru sölulaun vegna dreifingar frá olíustöð kr. 26.751 og er þá reiknað með kr. 0,17 pr. ltr. en ekki kr. 0,14 eins og samningurinn kveður á um. Á sama tíma námu laun bifreiðastjórans u.þ.b. kr. 330.000 þegar launatengdur kostnaður er meðtalinn. Það vantar því u.þ.b. kr. 60.000 á mánuði til að þessi þáttur standi undir sér og er þá ekki á nokkurn hátt reiknað með vinnu umboðsmannsins sjálfs við þennan þátt starfseminnar. Þá má einnig geta þess að þó nokkuð virðist um að bifreiðin fari út fyrir tilgreint sölusvæði, svo sem til Akureyrar, Sauðárkróks, afgreiðslu til Skeljungs ofl., eins og fram kemur á dómsskjali nr. 48. Ekki verður af gögnum málsins ráðið hvort, og þá með hvaða hætti umboðsmaðurinn fékk þóknun fyrir slíkar ferðir. Hann upplýsir hinsvegar um að aldrei hafi komið sérstök greiðsla fyrir.

Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir upplýsingar um stofna til ákvörðunar umboðslauna hvorki á rekstrartímabili matsbeiðanda né á undan því eða eftir, að undanskildu tímabilinu janúar til maí 1989, verður að telja, m.a. með vísan til þess sem að framan er sagt, að þrátt fyrir að reiknað sé með lágmarks mannafla við reksturinn, hafi framlag OLÍS til rekstrarins ekki verið nægjanlegt og þá ekki heldur sanngjarnt.

 

Þrettándi liður hljóðar svo:

Ef niðurstaða matsmanna er sú að framlag OLÍS hafi verið ósanngjarnt og ekki fullnægjandi, er þess óskað að matsmenn láti í ljós álit á því hvert hafi verið sanngjarnt og eðlilegt framlag af hálfu OLÍS til matsbeiðanda miðað við skyldur hans skv. samningi aðila.

 

Niðurstaða:

Ef aðeins er reiknað með opnunarskyldum umboðsmannsins samkvæmt umboðssamningnum, þ.e. frá kl. 8 til kl. 22 alla daga, hefur á þessu 27 mánaða tímabili sem rekstur matsbeiðanda stóð, vantað kr. 1.200.000 upp á að endar næðu saman. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á, að vitað er að a.m.k. hluta ársins var opnunartími umboðsins meiri en fram kemur í umboðssamningnum og hér er ekki reiknað með auknum kostnaði vegna þess, þrátt fyrir að ætla megi að inni í þeim tekjum sem gengið er út frá séu tekjur sem aflað var á þessum aukna opnunartíma. Þá þarf og að hafa í huga að ekki er reiknað með neinum vaxtagjöldum af viðskiptaskuld enda verður hvorki af gögnum málsins ráðið með hvaða hætti skuld matsbeiðanda við OLÍS myndast, hvort og þá hvernig birgðir og birgðabreytingar fara í gegn um viðskiptareikninginn né skýrður sá munur sem er á milli aðila um lokastöðu viðskiptaskuldarinnar, en skv. efnahagsreikningi matsbeiðanda telur hann viðskiptaskuldir sínar í árslok 1989 kr. 1.407.297.

Með tilliti til aukinnar þjónustu umboðsmannsins m.a. með auknum opnunartíma, aukinni útlánastarfsemi (sem hafði í för með sér verulega aukna vinnu hans við innheimtur) o.fl., hefur vantað kr. 2.000.000 upp á að endar næðu saman á þessu 27 mánaða tímabili.”

 

Fyrir dóm kom sem vitni Þórir Hvanndal Ólafsson, löggiltur endurskoðandi, kt. 210657-2159, Hamragerði 27, Akureyri, og staðfesti hann matsgjörðina. Hafi starfsmannaþörf umboðsins verið 5,5 störf með vinnuframlagi stefnda Einars Þórs. Upp á hafi vantað kr. 2.000.000,00 til að endar næðu saman í rekstri umboðsins og inni í þeirri fjárhæð hafi verið laun bifreiðastjóra olíubifreiðar að fjárhæð kr. 1.625.000,00. Lokaniðurstaða kr. 2.000.000,00 sem hafi vantað hafi verið miðuð lægsta tilkostnað. Í matsgerðinni væri ekki gert ráð fyrir neinum vaxtagreiðslum. Hafi þeir beðið stefnanda um gögn og ekki fengið og því ekki hægt að meta liði 10 og 11 vegna þess.

 

Álit dómsins.

Ekki er í málinu tölulegur ágreiningur um stefnufjárhæð, heldur eingöngu réttmæti tilurðar hennar. Ekki er annað leitt í ljós en að reikningshald stefnda Einars Þórs hafi verið í góðu lagi og samkvæmt umboðssamningi aðila og samkvæmt framburði stefnda Einars Þórs hafi stefnandi átt að sjá hvernig viðskiptaskuldin varð til vegna þess hve nákvæmlega skilagreinar voru sundurliðaðar.

Samkvæmt færsluyfirlitum á fylgiskjali 9 í löghaldsakstinum á dskj. nr. 2 er ljóst að viðskiptaskuld stefnda Einars Þórs við stefnanda hækkar jafnt og þétt og stefnda var ljóst að í óefni stefndi og rekstur umboðsins á Húsavík stæði ekki undir sér að óbreyttum aðstæðum og án þess að rekstrarstyrkur stefnanda hækkaði. Gerði hann forsvarsmönnum stefnanda sannanlega grein fyrir stöðu mála, án þess að á vandanum væri tekið til fulls. Að vísu fékk stefndi leiðréttingu sinna mála árið 1988, en eins og vitnið Ólafur Bjarki Ragnarsson bar, þá þurftu umboðsmannasamningar að vera í sífelldri endurskoðun vegna síbreytilegra forsendna. Í tilfelli stefnda Einars Þórs sígur jafnt og þétt á ógæfuhliðina í rekstrinum með tilheyrandi skuldasöfnun við stefnanda.

Samkvæmt 10. gr. samnings aðila var gagnkvæmur uppsagnarfrestur 6 mánuðir, en í 9. gr. hans ákvæði um tafarlausa riftunarheimild af hálfu stefnanda vegna vanefnda stefnda.

Segja má að stefndi Einar Þór hafi getað sagt samningnum upp skv. 10. gr. til þess að reyna að knýja fram leiðréttingu af hálfu stefnanda. Í því falli ber að líta til stöðu aðila. Stefndi Einar Þór hafði atvinnu sína af umboðsstarfanum, var kominn í skuld við stefnanda og fjölskylda hans hafði veðdregið eignir sínar stefnanda. Samningsstaða aðilanna var því bersýnilega orðin ójöfn og hallaði þar mjög á stefnda Einar Þór. Kemur þá til skoðunar ákvæði 36. gr. laga nr. 7, 1936, sbr. lög nr. 11, 1986, er kveða á um að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta eða breyta ef það yrði talið talið andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við matið skal líta til efnis samnings, atvika við samningsgerðina og atvika er síðar koma til. Hér er óhjákvæmilegt að líta til hins viðvarandi hallarekstrar er stefnanda var kunnugt um, þannig að Húsavíkurumboðið var í raun rekið að hluta til á kostnað stefnda Einars Þórs. Samkvæmt niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna og framburði Þóris Hvanndal Ólafssonar, löggilts endurskoðanda, vantaði upp á kr. 2.000.000,- að endar næðu saman á þessu 27 mánaða rekstrartímabili stefnda og var þá miðað við lægsta tilkostnað og ekki gert ráð fyrir neinum vaxtagreiðslum. Til hins ber að líta að viðskiptaskuld stefnda Einars Þórs við stefnanda vegna rekstrarins er tölulega óumdeild.

Að þessu virtu og með vísan til 36. gr. laga nr. 7, 1936, sbr. lög nr. 11, 1986, og þess að öll sönnunarfærsla stefnda Einars Þórs hefur verð honum öndverð í máli þessu þykir að álitum hæfilegt að hann greiði stefnanda kr. 2.500.000.- ásamt vöxtum frá þingfestingardegi 1. nóvember 1989, samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987, til greiðsludags. Að því er varðar veðtryggingarbréfið á dskj. nr. 4 er allir stefndu gáfu út á Húsavík 1. mars 1987 þá er samkvæmt því hið tryggða lager stefnanda í útibúi þeirra á Húsavík að upphæð kr. 2.000.000.- og er upphæðin breytileg í samræmi við lánskjaravísitölu, en grunnvísitala er lánskjaravísitala marsmánaðar 1987, 1614 stig. Veðsettar eru eignirnar Garðarsbraut 25, Húsavík, á 7. veðrétti, og Höfðavegur 8, Húsavík, á 2. veðrétti. Í bréfinu segir: „Efni veðtrygginga. Veðin eru sett til tryggingar varðveislu lagers Olíuverslunar Íslands á Húsavík. Svo og til innheimtu og málskostnaðar ef til kemur.” Fram er komið að stefndi Einar samdi skjal þetta upp úr formálabók. Samkvæmt orðalagi skjalsins er það til tryggingar lager stefnanda í útibúi hans á Húsavík og er fallist á þá málsástæðu stefndu að ákvæði bréfsins hafi verið efnt er stefnandi yfirtók lager sinn á Húsavík við uppsögnina 13. júní 1989 og að frekari skuldaviðurkenning felist ekki í veðtryggingarbréfi þessu. Eru öll stefndu sýknuð af kröfu stefnanda að „skuldabréf þetta standi til tryggingar kröfu stefnanda á hendur stefnda Einari Þór Kolbeinssyni.”

Málskostnaður fellur niður.

Dóm þennan kvað upp ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Einar Þór Kolbeinsson, greiði stefnanda, Olíuverslun Íslands h.f., kr. 2.500.000,00 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. nóvember 1989 til greiðsludags.

Stefndu, Einar Þór Kolbeinsson, María Óskarsdóttir og Óskar B. Guðmundsson, eru sýknuð af þeirri kröfu stefnanda, Olíuverslunar Íslands h.f., að fasteignirnar Garðarsbraut 25 og Höfðavegur 8, Húsavík, standi til tryggingar kröfu stefnanda á hendur stefnda Einari Þór Kolbeinssyni samkvæmt tryggingarbréfi að fjárhæð kr. 2.000.000,00, útgefnu á Húsavík 1. mars 1987 og innfært var í þinglýsingarbók Húsavíkur 29. maí 1989 merkt 542-89.

Málskostnaður fellur niður.