Hæstiréttur íslands
Mál nr. 557/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Slit
- Fjármálafyrirtæki
- Kröfulýsing
|
|
Föstudaginn 6. september 2013. |
|
Nr. 557/2013.
|
Hansa Spezial 35 Opportunity Fund (Heiðar Ásberg Atlason hrl.) gegn Kaupþingi hf. (Hjördís E. Harðardóttir hrl.) |
Kærumál. Slit. Fjármálafyrirtæki. Kröfulýsing.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var að taka kröfu H á kröfuskrá við slit K hf. Vísað var til þess að samkvæmt 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skyldi kröfulýsing vera skrifleg og að skýra bæri áskilnað ákvæðisins svo að krafa ásamt fylgigögnum yrði að berast á pappír innan kröfulýsingarfrests á þann stað sem tiltekinn væri í innköllun vegna gjaldþrotaskipta, sbr. 4. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 85. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. ágúst 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júlí 2013, þar sem hafnað var að taka kröfu sóknaraðila á kröfuskrá við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að krafa hans að fjárhæð 6.000.000 evrur verði viðurkennd sem almenn krafa, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 er svo fyrir mælt að kröfulýsing á hendur þrotabúi skuli vera skrifleg. Eins og rökstutt er í hinum kærða úrskurði ber að skýra þennan áskilnað svo að krafa ásamt fylgigögnum verði að berast á pappír innan kröfulýsingarfrests á þann stað sem tiltekinn er í innköllun vegna gjaldþrotaskipta, sbr. 4. tölulið 1. mgr. og 2. mgr. 85. gr. sömu laga. Samkvæmt því og að virtum dómi Hæstaréttar 26. nóvember 2010 í máli nr. 619/2010 verður úrskurðurinn staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Hansa Spezial 35 Opportunity Fund, greiði varnaraðila, Kaupþingi hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júlí 2013.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 6. júní 2012, sem barst héraðsdómi sama dag. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var tekið til úrskurðar föstudaginn 21. júní sl.
Sóknaraðili er Hansa Spezial 35 Opportunity Fund, Kapstadtring 8, Hamborg, Þýskalandi, en varnaraðili er Kaupþing hf., Borgartúni 26, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að krafa hans, alls að fjáræð 6.000.000 evrur, sem lýst var sem almennri kröfu í bú Kaupþings hf. verði viðurkennd að fullu eins og henni var lýst, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá krefst hann málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að staðfest verði afstaða slitastjórnar hans um að taka kröfu sóknaraðila að fjárhæð 6.000.000 evrur, sem lýst var sem almennri kröfu, ekki á kröfuskrá. Þá krefst hann málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
I
Varnaraðili er fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið 9. október 2008 yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd.
Varnaraðila var 24. nóvember 2008 veitt heimild til greiðslustöðvunar. Með lögum nr. 44/2009, sem breyttu nokkrum ákvæðum laga nr. 161/2002, var varnaraðili tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði 25. maí sama ár slitastjórn sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur varnaraðila. Hún gaf út innköllun til skuldheimtumanna félagsins 30. júní 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 30. desember sama ár. Í samræmi við ákvæði 102. gr. laga nr. 161/2002 eins og greininni var breytt með lögum nr. 44/2009 fer að meginstefnu um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki sem er til slitameðferðar eftir ákvæðum laga nr. 21/1991.
Slitastjórn varnaraðila gaf út innköllun til kröfuhafa í samræmi við 85. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Innköllunin birtist í fyrra sinn í Lögbirtingablaði 30. júní 2009. Kom þar m.a. fram að kröfum skyldi lýsa skriflega fyrir slitastjórn varnaraðila innan sex mánaða frá fyrri birtingu innköllunar og yrðu kröfulýsingar því að berast slitastjórn í síðasta lagi 30. desember 2009 til að forðast vanlýsingaráhrif skv. 118. gr. laga nr. 21/1991. Þá segir jafnframt í innköllun að efni kröfulýsinga skuli vera í samræmi við fyrirmæli 2. og 3. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991.
Fram kemur í greinargerð varnaraðila að jafnframt því að birta innköllun í Lögbirtingarblaðinu á Íslandi hafi innköllunin verið auglýst í dagblöðum hérlendis og þeim löndum þar sem bankinn hafi verið með útibú og öðrum viðskiptalöndum bankans, þ.á.m. Bretlandi, Þýskalandi, Spáni, Hollandi, Austurríki, Ítalíu, Frakklandi, Finnlandi, Færeyjum, Írlandi, Svíþjóð, Noregi, Dubai, Katar, Japan, Hong Kong og Mexíkó. Þá hafi innköllunin birst í Financial Times og stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Þá hafi innköllunin jafnframt verið birt á ensku og íslensku á heimasíðu varnaraðila, www.kaupthing.com.
Samkvæmt gögnum málsins var krafa sóknaraðila sem hann hugðist lýsa í slitabú varnaraðila að fjárhæð 6.000.000 evrur og mun hafa byggst á tveimur rafrænum skuldabréfum, sem voru hluti af útboði rafrænna skuldabréfa sem varnaraðila stóð fyrir á árunum 2004 og 2005.
Í málinu liggja fyrir tölvupóstsamskipti milli starfmanns sóknaraðila og slitastjórnar varnaraðila sem áttu sér stað 29. og 30. desember 2009.
Hófust þau með sendingu starfsmanns sóknaraðila klukkan 14:49 29. desember 2009. Í viðhengi við tölvupóstinn var kröfulýsing. Kom fram í póstinum að sóknaraðili hefði ekki enn fengið svokallað „lokunarnúmer“ og hafi hann því sent kröfulýsinguna án þess. Klukkan 15:20 sama dag svarar starfsmaður slitastjórnar og segir að kröfur verði að senda á heimilisfang slitastjórnar að Borgartúni 19, Reykjavík og að allar kröfur þurfi að hafa borist á framangreint heimilisfang fyrir miðnætti laugardaginn 30. desember 2009. Varað er við því að ef kröfu sé ekki lýst innan frestsins teljist krafan fallin niður sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. nema undantekningar ákvæðisins eigi við. Þá er loks tekið fram að kröfur sé ekki unnt að senda með tölvupósti eða símbréfi.
Starfsmaður sóknaraðila svarar klukkan 16:04 og tekur fram að honum sé ómögulegt að senda frumrit kröfulýsingarinnar í pósti þannig að hún berist fyrir umrætt tímamark. Kemur og fram í póstinum að sóknaraðili telji að seinkun sé ekki honum að kenna heldur stafi af því að hann hafi verið að bíða eftir „lokunarnúmeri“.
Starfsmaður slitastjórnar svarar klukkan 16:41 og ítrekar þær upplýsingar sem fram komu í fyrra bréfi m.a. um að ekki væri unnt að senda kröfulýsingu með símbréfi eða tölvupósti. Þá var vakin athygli á að öruggasta leiðin til að koma kröfulýsingu til slitastjórnar innan tilskilins tíma væri að sóknaraðili réði sér lögmann á Íslandi. Var bent á heimasíðu Lögmannafélags Íslands. Þá voru í bréfinu veittar upplýsingar um heimildir lögmanna til að lýsa kröfu fyrir hönd kröfuhafa. Þá voru og settar fram leiðbeiningar um að rétt væri að lýsa kröfu þó ekki væri enn búið að afla „lokunarnúmers“.
Starfsmaður sóknaraðila sendi síðan tölvupóst 30. desember 2009 með viðhengi sem innihélt kröfulýsingu með „lokunarnúmeri“. Þá sendi sóknaraðili frumrit kröfulýsingar í pósti og barst frumritið slitastjórn varnaraðila 4. janúar 2010. Slitastjórn varnaraðila tilkynnti sóknaraðila með bréfi 11. febrúar 2010 að kröfulýsing hans hefði ekki borist innan kröfulýsingarfrests og af þeim sökum myndi slitastjórn varnaraðila ekki taka efnislega afstöðu til kröfunnar. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar með bréfi 5. mars 2010. Ágreiningsfundur var haldinn þann 4. maí 2012. Ágreiningur aðila var ekki jafnaður á þeim fundi og málinu í framhaldi vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur í samræmi við 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.
II
Í greinargerð sóknaraðila kveður hann að ekki sé í málinu ágreiningur um málsatvik. Lúti ágreiningur aðila eingöngu að því hvort sending kröfulýsingar með rafrænum hætti teljist fullnægjandi sendingarháttur.
Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína á því að tölvupóstsendingar hans 29. og 30. desember 2009, sem sendar hafi verið á netföng slitastjórnar varnaraðila, sem óumdeilt sé að hafi borist varnaraðila, hafi falið í sér fullnægjandi kröfulýsingu í skilningi íslenskra laga. Byggi sóknaraðili á því að sendingin hafi að öllu leyti verið í samræmi við áskilnað laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. sérstaklega 117. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Í 1. mgr. 117. gr. segi að sá sem halda vilji uppi kröfu á hendur þrotabúi og geti ekki fylgt henni eftir skv. 116. gr. laganna, skuli lýsa henni fyrir skiptastjóra. Sögnin að lýsa feli í sér að tilkynna eitthvað eða kunngera. Þannig feli áskilnaður 1. mgr. 117. gr. um að lýsa kröfu fyrir skiptastjóra í sér að tilkynna honum um kröfuna eða kunngera hana fyrir honum og verði orðið „lýsa“ ekki skýrt á annan veg en þann að í því felist sú merking að gera þurfi slitastjórn grein fyrir kröfunni, munnlega eða skriflega, innan umræddra tímamarka. Óumdeilt sé að tölvupóstarnir frá 29. og 30. desember 2009 beri skýrlega með sér að sóknaraðili hafi talið sig vera að lýsa kröfum á hendur varnaraðila. Auk þess sé óumdeilt að slitastjórn varnaraðila hafi móttekið báða póstana og þau viðhengi sem með þeim hafi verið.
Í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 segi m.a. að kröfulýsing skuli vera skrifleg og tekið fram í hvers þágu hún sé gerð. Af gögnum málsins megi ráða að kröfulýsing sóknaraðila hafi verið skrifleg og hún hafi verið fyllt inn í sérstakt form sem slitastjórn varnaraðila hafi útbúið fyrir kröfuhafa félagsins. Kröfulýsingin uppfylli áskilnað 117. gr. laga nr. 21/1991 og í henni komi fram upplýsingar um í hvers þágu hún sé gerð, fjárhæð kröfu og vaxta og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í skuldaröð. Að auki hafi kröfulýsingin að geyma ítarlegar upplýsingar sem slitastjórn varnaraðila hafi gert eigendum skuldabréfa að gefa upp. Til dæmis upplýsingar um lokunarnúmer (e. blocking number) og auðkenni þeirra skuldabréfaútgáfu sem sóknaraðili hafi tekið þátt í. Þá sé kröfulýsingin undirrituð af lögbærum aðila og dagsett 29. desember 2009 annars vegar og 30. desember sama ár hins vegar.
Í 85. gr. laga nr. 21/1991 sé kveðið á um hvernig innköllun skiptastjóra skuli háttað. Samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 85. gr. laganna skuli innköllunin hafa að geyma áskorun til lánardrottna um að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra með sendingu eða afhendingu kröfulýsingar á tilteknum stað innan tilgreinds kröfulýsingarfrests.
Í innköllun slitastjórnar varnaraðila, sem birt hafi verið í Lögbirtingarblaði 30. júní 2009 sé skorað á kröfuhafa að lýsa kröfum sínum skriflega fyrir slitastjórn bankans innan sex mánaða frá birtingu innköllunarinnar. Kröfulýsingarnar skuli sendar til slitastjórnar bankans að Borgartúni 19, 105 Reykjavík og efni þeirra vera í samræmi við fyrirmæli 2. og 3. mgr. 117. gr. gjaldaþrotaskiptalaga.
Þá sé ljóst af upplýsingum af heimasíðu varnaraðila sem vísað sé til í innköllun, að öll samskipti við slitastjórn varnaraðila skuli vera í gegnum uppgefin tölvupóstföng, þau sömu og sóknaraðili sannanlega hafi sent kröfulýsingu sína á.
Sóknaraðili vísi til þess hagræðis sem samskipti í gegnum tölvupóst hafi í för með sér og slitastjórn varnaraðila vísi til í innkölluninni en þar komi fram eftirfarandi:
„Slitastjórn beinir ... [þeim] tilmælum til kröfuhafa:
a) að upplýsa um tölvupóstfang sitt eða umboðsmanns síns í kröfulýsingu til að auðvelda miðlun upplýsinga.“
Sóknaraðili telji það leiða af eðli máls að rafræn sending, sem sannanlega sé móttekin, hljóti að teljast nægjanleg lýsing kröfu í skilningi laga nr. 21/1991. Annar skilningur gangi ekki upp röklega og sé einfaldlega of þröng túlkun. Ennfremur hafi það verið tilmæli slitastjórnar að nota tölvupósta til að auðvelda samskipti.
Í því sambandi vísi sóknaraðili til samanburðar til 8. gr. laga nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Þar komi fram að rafrænir samningar skuli teljast jafngildir skriflegum svo lengi sem þeir séu aðgengilegir. Sé ákvæðið í samræmi við meginreglur íslensks samningaréttar um að samningar séu ekki formbundnir.
Þá bendi sóknaraðili einnig á það sem komi fram í almennum athugasemdum við frumvarpi til laga nr. 51/2003 (rafræn stjórnsýsla) um breytingu á stjórnsýslulögum nr. 37/1993 að ljóst sé að rafræn upplýsingatækni geti staðfest með tryggum hætti hvenær gögn teljist komin til aðila, sbr. áskilnað um sendingu „með sannanlegum hætti“. Þá komi fram að ástæða sé til að gera rafrænar staðfestingar um móttöku jafngildar hefðbundnum aðferðum við sendingar með sannanlegum hætti. Megi einnig um þetta vísa til samanburðar til formlegra tilkynninga dómstóla til lögmanna varðandi boðun til þinghalda.
Það sé því ljóst að rafrænir samningar séu jafngildir skriflegum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og að rafræn staðfesting um móttöku jafngildi hefðbundnum aðferðum við sendingar með sannanlegum hætti. Slík skilyrði séu öll uppfyllt í tilviki sóknaraðila enda sé fyrir hendi óræk sönnun þess að tölvupóstar sóknaraðila bæði frá 29. og 30. desember 2009 hafi réttilega verið mótteknir af þar til bærum starfsmönnum varnaraðila. Af þessu megi leiða, að þar sem tölvupóstur sá sem sóknaraðili hafi sent til slitastjórnar hafi verið aðgengilegur viðtakanda enda óumdeilt að slitastjórn hafi móttekið póstinn fyrir lok kröfulýsingarfrests þá eigi kröfulýsing send með sannanlega rafrænum hætti að njóta sömu stöðu og bréfsend kröfulýsing.
Sóknaraðili bendi einnig á að tilgangur kröfulýsingarfrestsins sé að eyða óvissu slitastjórnar varnaraðila um hvaða kröfum verði lýst í búið. Hafi því skýr tilkynning sóknaraðila með tölvupóstum 29. og 30. desember 2009 verið til þess fallin að ná því markmiði.
Af málsatvikalýsingu megi ráða að sóknaraðili hafi neytt allra tiltækra ráða til að tryggja að kröfulýsing hans kæmist í hendur slitastjórnar varnaraðila fyrir lok kröfulýsingarfrests. Þannig hafi kröfulýsingin verið send tvisvar á uppgefin netföng slitastjórnar varnaraðila og sannanlega móttekin af þess til bærum aðila f.h. varnaraðila.
Sóknaraðili hafi þar með komið fullmótaðri og undirritaðri kröfulýsingu sinni til slitastjórnar varnaraðila innan kröfulýsingarfrests. Hvorki ákvæði laga nr. 21/1991 né orðalag innköllunar slitastjórnar varnaraðila standi því í vegi að krafa sóknaraðila á grundvelli kröfulýsingar hans verði tekin til greina. Í þessu samhengi sé rétt að benda á afdráttarlaust fordæmi Hæstaréttar í hæstaréttarmáli nr. 8/1991.
Í málinu hafi bústjórar til bráðabirgða samþykkt kröfu sem send hafi verið með faxi á skrifstofu skiptaráðanda eftir hefðbundinn skrifstofutíma. Þar sem annar kröfuhafi hafi mótmælt þessari afstöðu bústjóra hafi verið rekið um það sérstakt skiptaréttarmál. Skiptaréttur Gullbringusýslu hafi komist að þeirri niðurstöðu að sú kröfulýsing með myndsendi væri „fullkomlega marktæk, enda ljóst, hver sendir og hver fær“. Þarna hafi ný tækni rutt sér braut sem eðlilegt væri að viðurkenna sem slíka meðan aðrir hlutir í sendingunni séu með eðlilegum hætti. Kröfunni hafi hins vegar verið hafnað af skiptaréttinum sökum þess að hún hafi borist skiptaráðanda eftir lokun skrifstofu hans. Hæstiréttur hafi fellt úrskurðinn úr gildi og staðfest ákvörðun bústjóra um viðurkenningu kröfunnar með eftirfarandi ummælum: „Sannað er í málinu, að kröfulýsing áfrýjanda barst skrifstofu skiptaráðandans í Gullbringusýslu kl. 17.02 hinn 26. mars 1990. Miðað við það verður talið, að áfrýjandi hafi lýst kröfu sinni á fullnægjandi hátt innan tilskilins frests. Hvorki haggar það þeirri niðurstöðu, að kröfulýsingin barst um myndsendi, né að skrifstofa skiptaráðanda var ekki opin, þegar hún barst.“
Í þessu samhengi sé einnig rétt að benda á umfjöllun Hæstaréttar í máli Venor Capital gegn Glitni banka hf. nr. 619/2010 en þar hafi reynt á svipað álitaefni og hér um ræði.
Í málinu hafi fyrirsvarsmaður sóknaraðila sent fyrirspurn á netfang slitastjórnar varnaraðila og óskað eftir því að fá það staðfest, áður en kröfulýsing yrði send með hraðpósti, hvort eyðublað fyrir kröfulýsingu hefði verið fyllt út með fullnægjandi hætti, en kröfulýsingin hafi fylgt með sem viðhengi. Héraðsdómur segi í niðurstöðu sinni:
„Af tölvupósti þessum verður ekki annað ráðið en að sóknaraðili sé með fyrirspurn til varnaraðila sem hann óskar eftir að fá svar við áður en hann sendi kröfulýsinguna af stað og verður tölvupóstur þessi ekki með nokkrum hætti skilinn á þá lund að með honum hafi sóknaraðili verið að lýsa kröfu í búið. Ber tölvupósturinn þess glögglega merki að sóknaraðili leit sjálfur ekki á þennan tölvupóst sem kröfulýsingu enda kemur fram í honum að hann hygðist póstsenda kröfulýsinguna þennan sama dag og því lægi honum á að fá svar fljótt.“
Hæstiréttur hafi staðfest niðurstöðu héraðsdóms með vísan til forsendna. Dómurinn sýni að huglæg afstaða þess sem sendi skiptir öllu máli. Í tilviki Venor hafi sendandi ekki talið sig vera að senda kröfulýsingu heldur hafi hann verið að spyrja hvort formið væri rétt fyllt út o.s.frv. Augljóst sé af samskiptum sóknaraðila við varnaraðila með tölvupóstum 29. og 30. desember 2009 að sendandinn, sóknaraðili, hafi talið sig sannanlega vera að senda fullnægjandi og réttmæta kröfulýsingu sem gildi skyldi hafa að lögum.
Af þessum forsendum sé ljóst að þar sem sóknaraðili hafi talið sig vera að skila inn fullgildri kröfulýsingu með tölvupósti þann 30. desember 2009 þá megi gagnálykta frá dómi í máli nr. 619/2010 að sóknaraðili hafi verið að lýsa kröfu í búið, sem fullgild sé samkvæmt reglum laga nr. 21/1991.
Af framangreindu megi ljóst vera að veigamikil rök hnígi til þess að kröfu sóknaraðila verði hleypt að og fái slík niðurstaða stoð í lögum nr. 21/1991 og fordæmum Hæstaréttar.
Sóknaraðili kveðst vísa til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, laga nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Einnig vísi sóknaraðili til eðlis máls auk meginreglna gjaldþrota-, skipta-, samninga- og kröfuréttar. Krafa sóknaraðila um málskostnað sé reist á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. l. 91/1991. Um virðisaukaskatt á málskostnað vísist til laga nr. 50/1988.
III
Varnaraðili kveðst hafna öllum kröfum sóknaraðila á þeim grundvelli að kröfu sóknaraðila hafi ekki verið lýst fyrir lok kröfulýsingarfrests varnaraðila þann 30. desember 2009. Beri af þeim sökum að hafna því að taka kröfuna inn á kröfuskrá varnaraðila, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Varnaraðili mótmæli þeirri staðhæfingu sóknaraðila að tölvupóstsendingar starfsmanns sóknaraðila, 29. og 30. desember 2009, hafi falið í sér fullnægjandi kröfulýsingu í skilningi íslenskra laga og að umræddar sendingar hafi því að öllu leyti verið í samræmi við áskilnað laga nr. 21/1991, sbr. einkum 117. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þyki ljóst af málatilbúnaði sóknaraðila að kröfur hans byggi á þeim grundvelli einum að sending kröfulýsingar með tölvupósti teljist vera fullnægjandi sendingarháttur samkvæmt lögum nr. 21/1991, en á það geti varnaraðili ekki fallist.
Í því sambandi bendi varnaraðili á að um kröfulýsingar og kröfulýsingarferlið í heild gildi reglur laga nr. 21/1991 sem séu ófrávíkjanlegar. Um gerð og lýsingu krafna sé fjallað í 117. gr. laganna en í 1. mgr. þeirrar lagagreinar segi að sá sem halda vilji uppi kröfu á hendur þrotabúi og geti ekki fylgt henni eftir skv. 116. gr. skuli lýsa henni fyrir skiptastjóra. Þá sé í 2. mgr. ákvæðisins skýrlega tekið fram hvernig slíkri lýsingu skuli háttað, en þar segi berum orðum að kröfulýsing skuli vera skrifleg. Með vísan til þessa hafni varnaraðili sem rangri þeirri skýringu sóknaraðila á 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, að í sögninni að lýsa felist sú merking að gera þurfi skiptastjóra grein fyrir kröfunni munnlega eða skriflega. Geti varnaraðili með engu móti séð að slík túlkun eigi við rök að styðjast. Þvert á móti telji varnaraðili ljóst að skv. 117. gr. laga nr. 21/1991 sé eingöngu í boði að kröfum verði lýst með skriflegum hætti.
Til frekari stuðnings ofangreindu veki varnaraðili athygli á að ákvæði laga nr. 21/1991 áskilji að í kröfulýsingu þurfi kröfur að koma fram eins skýrt og auðið sé. Þannig verði ráðið af 2. mgr. 117. gr. laganna. að kröfugerð í kröfulýsingu verði nánast að vera með sama hætti og í stefnu í einkamáli auk þess sem að tilgreina beri fjárhæð kröfu í krónum með sundurliðuðum útreikningi hennar til fullnaðar. Að áliti varnaraðila leiki enginn vafi á að slík kröfugerð verði aldrei gerð með munnlegum hætti.
Þá bendi varnaraðili á að þegar leitast sé við að staðreyna hvaða merkingu beri að leggja í orðið „skriflega“ í ákvæði 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 standi ekki rök til annars en að hafa hliðsjón af öðrum ákvæðum sömu laga þar sem orðið komi fyrir, enda hljóti það að hafa sama inntak í lögunum innbyrðis. Í því sambandi megi sem dæmi nefna að í 1. mgr. 15. gr. laganna segi að ef skuldari æski áframhaldandi greiðslustöðvunar skuli hann leggja fram skriflega beiðni um slíkt í þinghaldi sem héraðsdómari hafi ákveðið í úrskurði sínum. Þá segi í 2. mgr. sömu greinar að beiðninni skuli fylgja skrifleg greinargerð aðstoðarmannsins um nánar tilgreind atriði. Loks megi geta þess að í 171. gr. laga nr. 21/1991 komi fram að ef ágreiningur rísi um atriði við gjaldþrotaskipti sem mælt sé fyrir í lögunum að skiptastjóri skuli beina til héraðsdómstóls til úrlausnar skuli hann beina skriflegri kröfu um það til viðkomandi héraðsdómstóls.
Að áliti varnaraðila gefi auga leið að með áskilnaði framangreindra ákvæða, um að viðkomandi gögn, sem leggja beri fram, skuli vera „skrifleg“, sé verið að vísa til þess að orð eða önnur tákn skuli vera rituð eða prentuð á pappír eða annað áþreifanlegt efni. Telji varnaraðili t.d. útilokað að það þyki fullnægjandi samkvæmt 15. gr. laga nr. 21/1991 að beiðni um áframhaldandi greiðslustöðvun og greinargerð meðfylgjandi henni, þar sem verið sé að óska eftir mikilvægri réttarstöðu gagnvart lánardrottnum, verði einfaldlega send með tölvupósti til viðkomandi héraðsdómstóls.
Að framangreindu virtu þyki ljóst að þegar áskilið sé í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 að kröfulýsing skuli vera skrifleg sé átt við að hún skuli vera áþreifanleg en ekki í rafrænu formi. Þegar af þeirri ástæðu sé ekki unnt að fallast á að sóknaraðili hafi lýst kröfu sinni með fullnægjandi hætti við slitameðferð varnaraðila með tölvupóstum 29. og 30. desember 2009 enda sé slík kröfulýsingaraðferð ekki viðurkennd skv. fortakslausu ákvæði 117. gr. laga nr. 21/1991. Sé rétt að benda á að slitastjórn varnaraðila hafi vakið sérstaka athygli á þessu í tölvupóstum sínum til sóknaraðila.
Varnaraðili árétti að um kröfulýsingar gildi strangar og ófrávíkjanlegar reglur. Sé það og eðlilegt í ljósi þess að kröfulýsingum fyrir skiptastjóra fylgi sömu áhrif og ef mál hefði verið höfðað um kröfuna á þeirri stund sem kröfulýsing berst honum sbr. 6. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Að mati varnaraðila verði umrætt ákvæði ekki skýrt á annan veg en þann, að til að kröfulýsing geti haft þau áhrif sem henni sé ætlað, það er að vera ígildi stefnu, verði afhending hennar að vera með fullnægjandi hætti.
Í því sambandi beri að hafa hugfast að í 4. tl. 1. mgr. 85. gr. laga nr. 21/1991 segi að innköllun skiptastjóra skuli innihalda áskorun til lánardrottna og annarra, sem telji sig eiga kröfur á hendur búinu eða til muna í vörslum þess, um að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra með sendingu eða afhendingu kröfulýsinga á tilteknum stað innan tilgreinds kröfulýsingarfrests sem hafi verið ákveðinn eftir 2. mgr. sömu greinar. Leggi varnaraðili sérstaka áherslu á að þessi tiltekni staður hafi verið skýrt og skilmerkilega ákveðinn að Borgartúni 19, 105 Reykjavík í innköllun varnaraðila, en þar hafi hvergi verið gefinn sá möguleiki að unnt væri að lýsa kröfum með tölvupósti eða öðrum rafrænum hætti. Þá hafi í nefndri innköllun jafnframt verið tekið fram með ótvíræðum hætti í hvernig formi kröfulýsingar ættu að berast á ofangreint heimilisfang.
Þegar hliðsjón er höfð af framangreindu telji varnaraðili ljóst að tölvupóstur sóknaraðila hafi ekki falið í sér sendingu eða afhendingu kröfulýsingar í skilningi 4. töluliðar 85. gr. og 117. gr. laga nr. 21/1991 enda hafi hann ekki verið í því formi sem áskilið hafi verið í innköllun varnaraðila. Með vísan til þessa hafni varnaraðili alfarið þeirri fullyrðingu sóknaraðila að sending kröfulýsingar með tölvupósti hafi verið fullnægjandi sendingarháttur, enda sé augljóst að svo hafi ekki verið.
Líkt og fyrr greini hafi kröfulýsing skv. 6. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 sömu áhrif og ef mál hefði verið höfðað um kröfuna á þeirri stund sem hún berst skiptastjóra, en í 118. gr. laganna sé boðað að krafa verði að hafa borist honum innan kröfulýsingarfrest sem ákveðinn sé skv. 2. mgr. 85. gr. laganna. Samkvæmt framangreindu nægi kröfuhöfum ekki að senda kröfulýsingar sínar af stað til skiptastjóra með bréfpósti innan tilsettra tímamarka. Þar sem hin bréfsenda kröfulýsing sóknaraðila hafi ekki borist varnaraðila fyrr en 4. janúar 2010 sé ljóst að kröfunni hafi ekki verið lýst fyrr en að liðnum tímafresti sem gefinn hafi verið upp í innköllun varnaraðila í samræmi við 2. mgr. 85. gr. laga nr. 21/1991. Beri þar af leiðandi að líta á kröfu sóknaraðila sem niður fallna gagnvart varnaraðila, sbr. 118. gr. sömu laga.
Varnaraðili bendi á að framangreindur skilningur varnaraðila hafi verið staðfestur í dómaframkvæmd með ótvíræðum hætti, sbr. t.d. dómur Hæstaréttar í máli réttarins nr. 619/2010: Venor Capital gegn Glitni banka hf.
Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest hafi verið í Hæstarétti með vísan til forsendna, hafi málatilbúnaði sóknaraðila, um að nægilegt væri að lýsa kröfu við slitameðferð varnaraðila með tölvupósti, verið hafnað með eftirfarandi orðum m.a.: „ þá var hvorki í innköllun né öðrum auglýsingum um slitameðferðina boðið upp á að hægt væri að lýsa kröfum á hendur varnaraðila með tölvupósti.“ Þá segi dómurinn um túlkun á 4. tl. 1. mgr. 85. gr. laga nr. 21/1991: „ orðalag ákvæðis þessa verður ekki skilið á annan veg en að lýsing kröfu fyrir skiptastjóra feli það í sér að kröfuhafi þarf að senda eða afhenda kröfu sína á þeim tiltekna stað sem um getur í innköllun og þarf krafan að hafa borist skiptastjóra fyrir lok kröfulýsingarfrests. Í tilviki varnaraðila bar kröfuhöfum að lýsa kröfum sínum skriflega fyrir slitastjórn varnaraðila að Sóltúni 26, Reykjavík [...]“.
Varnaraðili hafni alfarið þeirri fullyrðingu sóknaraðila að í framangreindum dómi sé að finna staðfestingu þess að huglæg afstaða sendanda kröfulýsingar skipti öllu máli við mat á því hvort hún teljist fullnægjandi samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991, en sá hluti dómsins sem sóknaraðili vísi til sé tekinn úr samhengi við aðrar röksemdir í forsendum hans. Varnaraðili leggi áherslu á að dómurinn sé þvert á móti afdráttarlaus um að kröfum beri að lýsa í samræmi við þann áskilnað sem gerður sé í viðkomandi innköllun. Sé með öðrum orðum ljóst að til að forðast vanlýsingaráhrif skv. 118. gr. laga nr. 21/1991 verði kröfuhafar að senda eða afhenda kröfulýsingar sínar á þann stað sem tiltekinn sé í innköllun. Þá sé framangreind niðurstaða skýr um það atriði að skiptastjóra sé rétt að líta framhjá kröfulýsingum sem sendar séu með rafrænum hætti ef ekki hafi verið boðið upp á slíkan sendingarmáta í innköllun.
Rétt sé að benda á að í máli þessu sé óumdeilt að móttökustaður kröfulýsinga hafi verið tilgreindur með ótvíræðum hætti í innköllun varnaraðila og að þar hafi engin netföng verið tiltekin. Þá hafi frá upphafi slitameðferðar varnaraðila verið að finna leiðbeiningar um skilyrði og form kröfulýsinga á vefsíðu varnaraðila þar sem skýrlega hafi verið tekið fram að kröfulýsingar yrðu að vera skriflegar og hvert þær skyldu sendar, sbr. leiðbeiningar varnaraðila sem liggi fyrir í málinu. Loks hafi sóknaraðila sérstaklega verið bent á það af hálfu varnaraðila hvert hann ætti að senda kröfulýsingu sína og með hvaða hætti.
Með vísan til þess sem að framan greini hafni varnaraðili sem röngum þeim málatilbúnaði sóknaraðila, að hvorki ákvæði laga nr. 21/1991 né orðalag innköllunar slitastjórnar varnaraðila standi því í vegi að krafa sóknaraðila á grundvelli hinnar rafrænt sendu kröfulýsingar hans verði tekin til greina. Jafnframt sé þeirri staðhæfingu sóknaraðila hafnað að hann hafi talið sig vera að senda fullnægjandi og réttmæta kröfulýsingu á varnaraðila enda þykir ljóst samkvæmt framangreindu að sóknaraðili hafi með engu móti getað haft réttmætar væntingar um að svo hafi verið.
Þá leggi varnaraðili sérstaka áherslu á að tilvísun sóknaraðila til dóms Hæstaréttar í máli nr. 8/1991 hafi enga þýðingu fyrir úrlausn þessa máls en í því sambandi bendi varnaraðili á þá staðreynd að umræddur dómur hafi fallið í gildistíð eldri gjaldþrotalaga nr. 6/1978. Verði ekki framhjá því litið að með lögum nr. 21/1991 hafi verið settar mun strangari formreglur en hin eldri lög hafi haft að geyma en með gildistöku þeirra hafi skiptastjóra jafnframt verið veitt heimild í 4. tl. 1. mgr. 85. gr. til að ákveða í hvernig formi og hvert senda skyldi kröfulýsingar. Veki varnaraðili athygli á að þessi heimild skiptastjóra hafi m.a. verið staðfest í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 619/2010.
Varnaraðili mótmæli enn fremur þeim málatilbúnaði sóknaraðila að það leiði af eðli máls að rafræn sending teljist nægjanleg lýsing kröfu í skilningi laga nr. 21/1991 og að annar skilningur gangi ekki röklega upp enda feli það í sér of þrönga túlkun. Í því sambandi ítreki varnaraðili að hin fortakslausu ákvæði laga nr. 21/1991 séu skýr varðandi það að kröfuhafi verði að lýsa kröfu sinni með sendingu eða afhendingu kröfulýsingar á þann stað sem gefinn sé upp í innköllun fyrir lok kröfulýsingarfrests. Um kröfulýsingar og kröfuferlið í heild gildi ótvíræðar og lögbundnar reglur, sem hafi m.a. þann tilgang að tryggja jafnræði kröfuhafa, og geti varnaraðili því með engu móti fallist á að víkja beri þeim reglum til hliðar á þeim grundvelli að einstökum kröfuhöfum þyki það eðlilegt.
Þá sé samanburður sóknaraðila við 8. gr. laga nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu algjörlega fráleitur að mati varnaraðila og hafi enga þýðingu við úrlausn þessa máls, en þar komi fram að rafrænir samningar teljist jafngildir skriflegum svo lengi sem þeir séu aðgengilegir og unnt sé að varðveita þá. Hér nægi einfaldlega að líta til gildissviðs umræddra laga sem afmarkað sé 1. gr. þeirra, en þar komi fram að þau gildi einungis um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu á afmörkuðum sviðum. Hafi ákvæði laganna því engin áhrif á önnur viðskipti og enn síður á lýsingu krafna við gjaldþrotaskipti enda verði kröfulýsingar ekki lagðar að jöfnu við löggerninga á sviði samningaréttar.
Varnaraðili telur loks að tilvísun sóknaraðila til almennra athugasemda í frumvarpi til laga nr. 51/2003 um breytingu á stjórnsýslulögum nr. 37/1993 eigi ekki við rök að styðjast. Í því sambandi bendi varnaraðili á að í 1. mgr. 2. gr. fyrrnefndra laga segi að stjórnvald ákveði hvort boðið verði upp á þann valkost að nota rafræna miðlun upplýsinga við meðferð stjórnsýslumáls. Miði frumvarpið þannig eingöngu að því að gera stjórnvöldum kleift að nýta rafræna upplýsingatækni við meðferð stjórnsýslumála en geri þeim það ekki skylt, sbr. það sem segi í athugasemdum við frumvarpið. Sé þetta og ítrekað í nefndaráliti allsherjarnefndar Alþingis en framangreind tillaga grundvallist m.a. á því að huga þurfi að ýmsum tæknilegum og skipulagslegum vandkvæðum áður en rafræn meðferð stjórnsýslumála sé tekin upp á tilteknu sviði. Þá verði ekki framhjá því litið að í athugasemdum frumvarpsins segi með skilmerkilegum hætti að breytingarnar sem þar séu lagðar til takmarkist við gildissvið stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sé auk þess sérstaklega tekið fram að breytingarnar taki m.a. ekki til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Bendi varnaraðili á að þetta sé í samræmi við 1. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram komi að lögin gildi ekki um nauðasamninga, gjaldþrotaskipti eða önnur opinber skipti. Að framangreindu virtu sé ljóst að tilvísun sóknaraðila til ofangreindra breytingarlaga hafi enga þýðingu fyrir úrlausn þessa máls.
Að lokum kveðst varnaraðili hafna sem rangri þeirri staðhæfingu sóknaraðila, að hann hafi neytt allra tiltækra ráða til að tryggja að kröfulýsing hans kæmist í hendur slitastjórnar varnaraðila fyrir lok kröfulýsingarfrests. Að mati varnaraðila verði að hafa í huga að kröfulýsingarfrestur við slitameðferð varnaraðila hafi verið ákveðinn sex mánuðir en sóknaraðili hafi ekki hafist handa við að lýsa kröfu sinni fyrr en einum degi fyrir lok frestsins. Hafi hann þá sent kröfulýsingu sína með tölvupósti á netfang slitastjórnar varnaraðila sem eingöngu hafi verið gefið upp á heimasíðu varnaraðila en ekki í innköllun til kröfuhafa.
Þá veki varnaraðili athygli á að sóknaraðili hafi virt að vettugi þær ráðleggingar varnaraðila, að leita sér aðstoðar hjá íslenskum lögmanni til að lýsa kröfunni fyrir sína hönd til að tryggja að krafan bærist fyrir tilsett tímamörk. Með hliðsjón af framangreindu gefi auga leið að mati varnaraðila að sóknaraðili hafi ekki neytt allra ráða til að lýsa kröfu sinni fyrir lok kröfulýsingarfrests. Komi því ekki annað til álita en að sóknaraðili verði látinn bera hallan af eigin aðgerðarleysi og beri því að hafna kröfu hans. Sé önnur niðurstaða útilokuð að áliti varnaraðila og beinlínis röng.
Með vísan til alls þess sem að framan greini beri að staðfesta þá afstöðu slitastjórnar varnaraðila að hafna því að taka kröfu sóknaraðila á kröfuskrá enda hafi kröfunni ekki verið lýst við slitameðferð varnaraðila fyrir lok kröfulýsingarfrests.
Um lagarök kveðst varnaraðili vísa m.a. til laga nr. 21/1991um gjaldþrotaskipti o.fl., fyrirrennara þeirra nr. 6/1978 og meginreglna gjaldþrotaskiptaréttar. Þá sé vísað til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og laga nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Loks sé vísað til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og laga nr. 51/2003 um breytingu á stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Krafa um málskostnað sé reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
IV
Í máli þessu deila aðilar að meginstefnu um það hvort sending kröfulýsingar með tölvuskeyti fyrir lok kröfulýsingarfrests feli í sér fullnægjandi lýsingu kröfunnar að íslenskum lögum. Ekki er deilt um málsatvik.
Eins og rakið er ítarlega hér að framan þegar gerð var grein fyrir málatilbúnaði aðila gaf slitastjórn varnaraðila út innköllun til kröfuhafa í samræmi við ákvæði 85. gr. laga nr. 21/1991, en ákvæðið gildir við slitameðferð varnaraðila, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 85. gr. laga nr. 21/199 skal í innköllun koma fram áskorun til lánardrottna og annarra sem telja sig eiga kröfur á hendur búinu eða til muna í vörslum þess, um að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra með sendingu eða afhendingu kröfulýsinga á tilteknum stað innan tilgreinds kröfulýsingarfrests sem ákveðinn hafi verið samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins. Fyrir liggur og er óumdeilt að sá frestur var ákveðinn 6 mánuðir og rann út á miðnætti við lok 30. desember 2009. Í innköllun slitastjórnar varnaraðila segir meðal annars að kröfulýsingar skuli hafa borist slitastjórn í síðasta lagi 30. desember 2009 og skuli efni þeirra vera í samræmi við fyrirmæli 2. og 3. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Í nefndri 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 segir m.a. að kröfulýsing skuli vera skrifleg.
Í síðastnefndu ákvæði, sem áskilur skriflega kröfulýsingu, felst að mati dómsins krafa um að umrætt skjal ásamt fylgigögnum þess sé afhent á tilgreindum stað fyrir tilgreint tímamarka á pappír en ekki aðeins rafrænt eins og óumdeilt er að sóknaraðili gerði. Á þessi skilningur dómsins styrka stoð í réttarframkvæmd og veldur að mati dómsins ekki teljandi vafa. Er hér um að ræða formkröfu á sviði réttarfars sem telja verður meðal meginreglna á því réttarsviði. Má t.d. vísa til þess til samanburðar að stefnur í einkamálum verða ekki birtar fyrir aðila máls eða lagðar fram á dómþingi nema ritaðar á pappír, en 6. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 kveður á um að lýsing kröfu fyrir skiptastjóra fylgi sömu áhrif og ef mál hefði verið höfðað um kröfuna á þeirri stundu er hún berst honum. Kröfulýsing sóknaraðila, sem barst slitastjórn á tölvuskeyti fyrir lok kröfulýsingarfrests, getur þegar af framangreindum ástæðum ekki talist í samræmi við áskilnað 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um skriflega kröfulýsingu. Liggur og fyrir að skrifleg kröfulýsing sóknaraðila barst slitastjórn varnaraðila 4. janúar 2010 en þá var kröfulýsingarfrestur liðinn. Geta engar þær röksemdir sem sóknaraðili hefur teflt fram í málinu breytt þessum grundvallarstaðreyndum. Leiðir 118. gr. laga nr. 21/1991 því til þess að umrædd krafa telst af þeim sökum fallin niður gagnvart slitabúinu en ekki er á því byggt í málinu að neinar þær undantekningarástæður sem taldar eru upp í sex töluliðum ákvæðisins eigi hér við.
Ber þegar af framangreindum ástæðum að hafna kröfum sóknaraðila en fallast á með varnaraðila að staðfesta ákvörðun slitastjórnar hans um að taka kröfu sóknaraðila ekki á kröfuskrá.
Með hliðsjón af málsúrslitum verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn að teknu tilliti til virðisaukaskatts með þeirri fjárhæð sem nánar greinir í dómsorði.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Staðfest er sú afstaða slitastjórnar varnaraðila, Kaupþings hf., að taka kröfu sóknaraðila, Hansa Spezial 35 Opportunity Fund, að fjárhæð 6.000.000 evrur, sem lýst var sem almennri kröfu, ekki á kröfuskrá við slitameðferð varnaraðila.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 376.500 krónur í málskostnað.