Hæstiréttur íslands
Mál nr. 561/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 26. ágúst 2015. |
|
Nr. 561/2015.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Björgvin Jónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. ágúst 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. ágúst 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 21. september 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. ágúst 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 21. september nk. kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að þann 15. ágúst sl. hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að [...] í [...] vegna líkamsárásar. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi gerendur verið á brott en B, húsráðandi hafi tekið á móti lögreglu. Hafi hún skýrt lögreglu frá því að veist hafi verið að dóttur hennar C og kærasta hennar, D. Hafi þau verið með skurð í andliti, D einnig með skurð á fæti og sögðust hafa verið lamin með harmri. Blóð hafi verið á gólfi á ganginum í íbúðinni, inni í eldhúsi en mesta blóðið hafi verið í herbergi C og D. Sögðu þau að þrír einstaklingar hefðu komið inn á heimilið og veitt C og D þessa áverka með hníf. Hafi C og D verið flutt með sjúkrabifreið á Landspítalann í Fossvogi til aðhlynningar.
Lögregla hafi yfirheyrt brotaþolana D og C og vitnin B, E, F og G.
Brotaþolinn D hafi skýrt frá því að hann hefði vaknað við að X væri að skera hann með hnífi í hægri fótinn. X hafi svo skorið hann með hnífnum í vinstri kinnina, skorið C í kinnina, skipst á að slá sig og C með hamri og svo hótað að taka C með sér og hótað fjölskyldu þeirra C öllu illu. Hann hafi einnig barið þau í andlitið með hnefahöggum og einnig sparkað í þau. Hafi hann barið sig í höfuðið og hendur og slegið C í andlitið. Í kjölfarið hafi þeir farið og tekið með sér fartölvuna hennar C og báða Samsung snjallsímana þeirra. Aðspurður hver væri ástæða þessa máls kvað D þá hafa verið að leita að stolnum Lyrica flogaveikislyfjum sem D hafi haldið að hann hafi stolið frá þeim.
Brotaþolinn C skýrði frá því að X og Y hafi komið um tvöleytið 15. ágúst sl. og verið að leita að F vegna Lyrica taflna sem hafi verið stolið frá þeim. Kvað hún þá hafa beðið sig að koma með sér en hún ekki viljað það og þeir hafi þá neytt hana til að koma mér sér. Hafi þeir tekið harkalega í hana og leitt hana út í bíl og farið svo heim til F. Þaðan hafi þau farið heim til X þar sem F hafi sagt að D hafi stolið lyfjunum. X hafi orðið mjög pirraður, sagt C að hún væri samsek þar sem hún væri kærasta D, slegið hana í andlitið, grýtt henni utan í vegg og hrint henni niður tröppurnar í stigaganginum. Hafi þau svo farið öll út í bíl og heim til hennar í [...]. Hafi hún opnað útidyrahurðina með lykli. Þegar inn hafi verið komið hafi X gengið beint að D og skorið hann með hnífi í vinstri fótinn. Í kjölfarið hafi X kýlt D í andlitið og öskrað á hann að skila lyfjunum. Á meðan hafi Y verið að leita í öllu í herberginu. X hafi svo skorið hana í andlitið með hnífnum. Þeir hafi fundið eitthvað af þessum lyfjum í herberginu. Á meðan D hafi verið að leita að lyfjum í herberginu hafi X kýlt hann í andlitið og sparkað einu sinni í höfuðið á honum. Einnig hafi X barið D nokkrum sinnum með hamri, m.a. í höfuðið og einnig lamið hana einu sinni með hamrinum í vinstri hendina. Hafi X hellt bjór yfir hana, skipað henni að sleikja blóð af puttunum hans og svo stungið puttunum á sér upp í munninn á henni og nuddað þeim þar í nokkrar sekúndur. X hafi svo skorið D með hnífnum í vinstri kinnina. Eftir þetta hafi barsmíðunum lokið og þeir X og Y hafi byrjað að tína saman dót í herberginu sem þeir ætluðu að taka með sér. Hafi þeir tekið farsíma hennar og D, fartölvuna hennar, flakkara og eitthvað af fötum. X hafi svo sagt þeim að létu þau lögregluna vita myndi hann drepa fjölskyldur þeirra. Hann hafi líka hótað að nauðga C og láta D fylgjast með því og drepa þau síðan.
Rétt eftir hádegi 16. ágúst sl. hafi X og Y verið handteknir á heimili X að [...]. Við leit í íbúðinni hafi fundist fartölva C og gsm sími sem tekinn hafði verið daginn áður í árásinni í [...]. Einnig hafi fundist blóðugar buxur efstar í bunka af óhreinu taui inni í fataskáp, blóðugur bolur á baðherbergisgólfi og einnig aðrar buxur með blóðkámi inni í stofu. Einnig hafi Letherman-hnífur með blóðkámi verið í vasa X og dúkahnífur með blóðkámi í stofu. Í gluggakistu í svefnherbergi hafi verið klaufhamar.
Meðal gagna málsins séu upptökur úr eftirlitsmyndavélakerfi fjölbýlishússins að [...] í [...], þar sem þeir X og Y þekkjast. Hafi sést á upptökum að þegar þeir X og Y komi í seinna skiptið 15. ágúst sl. þá hafi þeir verið inni í húsinu í tæpan klukkutíma.
Í bráðabirgðaáverkavottorði læknis á slysadeild landspítalans er varði brotaþolann D hafi komið fram að D hefði skurð vinstra megin í andliti og á hægri fæti og væri bólginn vinstra megin á höfði. Í bráðabirgðaáverkavottorði læknis á slysadeild landspítalans er varði brotaþolann C hafi komið fram að hún hefði skurð vinstra megin í andliti og væri marin á vinstri hendi.
Kærði X hafi skýrt frá því í skýrslutöku hjá lögreglu að D og C hefðu komið í heimsókn til hans. Eftir að þau voru farin hafi lyfjapokinn hans verið horfinn og sími Y. Hafi X því haft samband við C og fengið að koma til þeirra og spyrja hvar lyfin væru. C hafi sagt að H hafi tekið þau, þannig að þau hafi farið til H. Þar hafi komið í ljós að D hefði tekið lyfin og þá hafi þau farið aftur heim til D. D hafi verið sofandi þegar þau komu og X vakið hann með því að kýla hann einu sinni og skorið hann í löppina. Hafi D ekki sagst vita hvar lyfin væru og því hafi X skorið þau C og D í kinnina. Að sögn X hefði eitthvað af lyfjunum verið þarna en ekki allt. Hafi hann tekið peysur sem D hefði verið með í láni frá honum og Y tekið símann sinn. X neiti að hafa verið með hamar umrætt sinn og að þetta hafi ekki verið frelsissvipting. C hafi komið sjálfviljug með þeim. Að sögn X hafi þetta ekki verið rán, hann hafi bara tekið það sem hann hafi átt þarna. D og C hafi gleymt tölvunni heima hjá honum. Kvaðst X hafa notað silfurlitaðan Letherman-hníf við að skera D og C, en hnífurinn hafi fundist heima hjá X þegar hann hafi verið handtekinn daginn eftir árásina. X kveðst ekki hafa hótað C.
Kærði Y hafi skýrt frá því í skýrslutöku hjá lögreglu að hann og X hafi farið heim til D og C og hafi D verið sofandi. C hafi komið sjálfviljug með þeim til X, en þar hafi X snappað og byrjað að slá hana á fullu. Hafi þau svo farið aftur heim til D og C en þar hafi X byrjað að kýla D í andlitið, tekið svo upp letherman hníf og skorið D og C í kinnina. Y kvað X einnig hafa verið með hamar og sveiflað honum út um allt og reynt að beita hamrinum á C. Y kvað X hafa tekið fartölvu og flakkara og hafi Y tekið símann því D hafi stolið honum af sér.
Að sögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á kærði nokkurn sakaferil að baki sem nái til 2005. Kærði hafi 12. júní sl. verið dæmdur í fangelsi í 9 mánuði, skilorðsbundið til tveggja ára fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Í því máli hafi kærði verið sakfelldur fyrir að hafa veist að manni með hnífi og skorið hann á hægri framhandlegg og hægri kinn auk þess sem maðurinn hafi hlotið skurði á báðum höndum er hann hafi reynt að verjast árás kærða með því að taka utan um hnífsblaðið. Þá hafi kærði hlotið sekt með viðurlagaákvörðun 18. júní 2014, meðal annars fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins liggi kærði nú undir sterkum grun um að hafa á skipulagðan hátt, í félagi við annan mann, farið vopnaður hnífi og hamri að [...] í [...] og framið þar brot sem varðað geti við 2. mgr. 218. gr., 226. gr., 233. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Framangreind brot geti varðað allt að 16 ára fangelsi.
Lögregla telur ljóst að kærði sé hættulegur umhverfi sínu og það sé mat lögreglu að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Myndi það jafnframt særa réttarvitund almennings gengi kærði laus.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.
Niðurstaða:
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú brot kærða framin 15. ágúst sl. Brotin eru talin geta varðað við 2. mgr. 218. gr., 226. gr., 233. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot gegn 233. gr. geta varðað allt að tveggja ára fangelsi en brot gegn 226. gr. allt að fjórum árum. Hins vegar geta brot gegn 2. mgr. 218. gr. og 252. gr. laga nr. 19/1940 varðað allt að 16 ára fangelsi.
Kærði gaf skýrslu hjá lögreglu 20. ágúst sl. Hann kvaðst þá hafa kýlt annan brotaþola og skorið þau bæði með hnífi en neitaði því að hafa beitt hamri gegn þeim og kvaðst ekki líta svo á að hann hefði hótað þeim eða svipt neinn frelsi og taldi sig ekki hafa tekið aðra muni en þá sem tilheyrðu honum.
Fallist er á það með lögreglu að það að beita hnífi á þann hátt sem kærði fellst á að hafa gert 15. ágúst sl. og með því valdið tjóni á líkama brotaþola beggja geti varðað við 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Brot gegn því ákvæði getur eins og áður segir varðað 16 ára fangelsi. Hann hefur því játað að hafa framið brot sem getur að lögum varðað allt að 10 ára fangelsi. Því er uppfyllt það skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sem varðar refsiramma meintra brota og skilyrðið um sterkan grun.
Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 frá því 17. ágúst sl.
Kærði veitti brotaþolum áverka algerlega að tilefnislausu en hvorugt þeirra hafði veist að honum áður en til þess kom að hann beitti hnífnum gegn þeim. Hann var [...] sl. sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að veita manni áverka með hnífi og var þá dæmdur til níu mánaða vistar í fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár. Engu að síður hefur hann á ný, [...] mánuðum síðar, veitt tveimur manneskjum áverka með hnífi.
Að mati dómsins verður við mat á því hvort brot sé þess eðlis að telja verði varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna ekki einungis lagt mat á lengd og dýpt þeirra sára sem veitt voru með eggvopninu heldur einnig þess hvort gerandi beiti sömu hættulegu verknaðaraðferðinni ítrekað.
Þegar litið er til þess að kærði hefur, þrátt fyrir að hafa nýlega verið sakfelldur fyrir að beita eggvopni, beitt því enn á ný þykir brot hans jafnframt uppfylla það skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 að nauðsynlegt sé, með tilliti til almannahagsmuna, að tryggja að hann gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar.
Að mati dómsins eru því uppfyllt öll skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að gera kærða að sæta áfram gæsluvarðhaldi. Jafnframt þykir ekki tilefni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er. Krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu verður því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ingiríður Lúðvíksdóttir settur héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 21. september nk., kl. 16:00.