Hæstiréttur íslands
Mál nr. 299/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Opinber skipti
- Fjárslit
- Óvígð sambúð
|
|
Fimmtudaginn 2. september 2004. |
|
Nr. 299/2004. |
M(Róbert Árni Hreiðarsson hdl.) gegn K(Helgi Birgisson hrl.) |
Kærumál. Opinber skipti. Fjárslit. Óvígð sambúð.
M og K voru í óvígðri sambúð. Eftir lok sambúðarinnar komu upp nánar tilgreind ágreiningsefni í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli þeirra. Fyrir Hæstarétti deildu aðilar um andvirði tiltekinnar íbúðar og verðmun tveggja bifreiða. Í héraðsdómi var talið að M hefði ekki tekist að sýna fram á að hann hefði lagt fé til kaupa á eignarhluta K í íbúðinni. Var kröfu hans um að hann fengi í sinn hlut 25% af andvirði íbúðarinnar því hafnað. Þá var talið að aðilar væru bundnir af niðurstöðu verðmats á umræddum bifreiðum sem skiptastjóri kynnti fyrir þeim. Var því hafnað að meta bifreiðina sem kom í hlut M 500.000 krónum verðmeiri en bifreiðina sem K fékk í sinn hlut. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2004, þar sem til úrlausnar var tiltekinn ágreiningur aðilanna í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna slita á óvígðri sambúð. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega, að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað til héraðsdóms til löglegrar meðferðar og uppkvaðningar úrskurðar að nýju. Til vara krefst sóknaraðili þess, að hann fái í sinn hlut 25% af andvirði íbúðar að [...] í Reykjavík og því verði hafnað, að bifreiðin X, sem samkomulag er um að komi í hlut varnaraðila, verði metin 500.000 krónum verðmeiri en bifreiðin Y, sem samkomulag varð um að sóknaraðili fengi í sinn hlut. Að því frágengnu krefst hann þess, að þessum kröfulið verði vísað frá dómi vegna vanreifunar. Þá krefst sóknaraðili þess, að hnekkt verði niðurstöðu héraðsdóms um málskostnað og jafnframt verði sér dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst þess aðallega, að málinu verði vísað frá Hæstarétti. Til vara er þess krafist, að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en í báðum tilvikum er krafist kærumálskostnaðar.
Eins og kröfugerð aðila er háttað eru ekki önnur efnisatriði til úrlausnar fyrir Hæstarétti en varða andvirði íbúðar að [...] í Reykjavík og verðmun bifreiðanna X og Y.
Af hálfu sóknaraðila hafa ekki verið færð fram haldbær rök fyrir því, að ómerkja beri úrskurð héraðsdóms.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað. Rétt þykir, að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað, sem fellur niður.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2004.
Með bréfi, dagsettu 20. febrúar 2004 og mótteknu í Héraðsdómi Reykjavíkur 24. sama mánaðar, óskaði skiptastjóri sem fer með fjárslit vegna slita á óvígðri sambúð málsaðila eftir úrlausn héraðsdóms á tiltreindum ágreiningsefum sem risið hafa við skiptin. Ágreiningsmál þetta var þingfest 6. febrúar 2004. Málið var tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð 4. maí 2004. Þar sem dómara málsins tókst ekki ljúka úrskurði á málið innan fjögurra vikna var málið, að kröfu sóknaraðila, flutt munnlega að nýju fyrr í dag og tekið til úrskurðar.
Sóknaraðili er M [...].
Varnaraðili er K [...].
Dómkröfur sóknaraðila eru eftirfarandi:
1. Að úrskurðaður verði 25% eignarhlutur hans í íbúðinni að B í Reykjavík.
2. Að úrskurðaður verði verðmismunur á milli bifreiðanna X og Y, 1.000.000 króna, sóknaraðila í vil.
3. Að úrskurðað verði að varnaraðili eigi ekki helming hlutafjár í Z ehf.
4. Að úrskurðað verði að varnaraðili eigi ekki rétt til hlutdeildar í fjárframlagi vegna sumarhúss að [...] eða endurgreiðslu þess frá A til sóknaraðila.
5. Að úrskurðað verði að varnaraðili eigi ekki rétt til hlutdeildar í dómkröfu sóknaraðila á hendur Q ehf.
6. Að sóknaraðila verði dæmdur hæfilegur málskostnaður úr hendi varnaraðila að mati dómsins.
Dómkröfur varnaraðila eru eftirfarandi:
1. Að í hlut varnaraðila komi 1.681.892 krónur, sem er 25% af söluandvirði íbúðar við B í Reykjavík, og eru í vörslum skiptastjóra.
2. Að við það verði miðað að bifreiðin X, sem samkomulag er um að komi í hlut varnaraðila, verði metin 500.000 krónum verðmeiri en bifreiðin Y, sem samkomulag varð um að sóknaraðili fengi í sinn hlut, og að sóknaraðili afhendi varnaraðila fjögur vetrardekk á felgum sem tilheyra bifreiðinni X.
3. Að einkahlutafélagið Z. komi undir skiptin og málsaðilar verði taldir jafnir eigendur hlutafjár félagsins.
4. Að undir skiptin komi 694.554 króna fjárframlag, sem sóknaraðili kveðst hafa lánað A vegna kaupa á sumarhúsi að [...] og fengið endurgreiddar eftir sambúðarslit málsaðila.
5. Að undir skiptin komi 3.683.040 króna krafa, ásamt dráttarvöxtum, á hendur Q ehf., samkvæmt dómi Héraðsdóms Suðurlands frá [...] febrúar 2003 í málinu nr. [...], og að varnaraðili verði talinn eigandi helmings kröfunnar.
Þá er þess krafist að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað.
Þegar mál þetta var flutt munnlega að nýju gerði sóknaraðili verulegar breytingar á kröfugerð sinni. Einu efnislegu breytingarnar á kröfugerðinni varnaraðila í óhag voru þó aðeins þær að gerð var krafa um málskostnað sem ekki hafði komið áður fram í málinu af hálfu sóknaraðila. Fallið var frá öðrum kröfum sem hafðar voru uppi af hálfu sóknaraðila í greinargerð og við munnlegan flutning málsins 4. maí 2004. Af hálfu varnaraðila var málskostnaðarkröfu mótmælt sem of seint fram kominni.
Helstu málsatvik
Málsaðilar kynntust í [...] um áramótin 1993 og 1994. Sóknaraðili átti þá fjögur börn af fyrri samböndum en varnaraðili tvö. Vorið 1994 flutti sóknaraðili til [...] og hóf störf þar. Málsaðilar hófu sambúð á [...] haustið 1994 og leigðu íbúð að [...]. Varnaraðili átti þá íbúð að [...] og leigði hún íbúðina út eftir að hún flutti til [...].
Varnaraðili var atvinnulaus á [...] og um tíma á atvinnuleysisbótum og sá um heimilishald. Synir hennar bjuggu á heimilinu og 15 ára dóttir sóknaraðila einnig um hálfan vetur en tvær yngri dætur hans dvöldu þar í styttri tíma.
Málsaðilar fluttu til [...] í janúar 1996 og bjuggu hjá foreldrum varnaraðila fram í júní en síðan í íbúð varnaraðila að [...] fram í október 1998 þegar þau fluttu í íbúð að B í Reykjavík.
Í málinu hefur verið lagður fram kaupsamningur, dagsettur 3. september 1998, vegna kaupa varnaraðila og foreldra sóknaraðila, þeirra D, á þriggja herbergja íbúð að B í Reykjavík. Kaupverð fasteignarinnar var 7.250.000 krónur, þar af voru 2.498.973 krónur greiddar við undirritun kaupsamnings, 100.000 krónur greiddar 2. október 1998 og yfirteknar veðskuldir að eftirstöðvum 4.651.027 krónur.
Á sambúðartímanum starfaði sóknaraðili lengst af sjálfstætt við járnabindingar. Varnaraðili starfaði að þessum atvinnurekstri sóknaraðila en málsaðila greinir á um hversu mikið það hafi verið. Hún starfaði einnig við ræstingar og fleira, auk heimilishalds.
Einkahlutafélagið Z ehf. var stofnað í ársbyrjun 2002 um rekstur þann sem þau höfðu áður stundað í nafni sóknaraðila. Samkvæmt framlagðri tilkynningu til fyrirtækjaskrár Hagstofu Íslands var varnaraðili skráður eini stofnandinn og eini stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi en sóknaraðili sem varamaður í stjórn. Í málinu liggur fyrir afsal varnaraðila á öllu hlutafé í Z ehf. til A bróður sóknaraðila og er það dagsett 27. maí 2002. Þá liggur einnig fyrir yfirlýsing sóknaraðila, dagsett 31. maí 2002, þess efnis að með framsali á Z ehf. felist ekki viðurkenning á því að fyrirtækið sé eingöngu eign sóknaraðila eða annarra fram að 21. maí og að hún áskilji sér allan rétt við skipti á búi þeirra. Sóknaraðili ritaði samþykki sitt á þessa yfirlýsingu.
Sambúð málsaðila lauk í maí 2002. Í kjölfarið kom upp ágreiningur um fjölmörg atriði varðandi fjárhagslegt uppgjör milli þeirra. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júlí 2003 var fallist á að opinber skipti færu fram til fjárslita milli málsaðila og var Kristinn Bjarnason hrl. skipaður skiptastjóri.
Ágreiningur kom upp milli varnaraðila og foreldra sóknaraðila um íbúðina að B. Foreldrar sóknaraðila kröfðust þess að íbúðin yrði seld við nauðungarsölu til slita á sameign. Sýslumaðurinn í Reykjavík hélt uppboð til slita á sameigninni 10. júní 2003. Þar sem hæstbjóðandi stóð ekki til tilboð sitt samþykkti sýslumaður næst hæsta tilboð frá föður varnaraðila, E, að fjárhæð 11.200.000 krónur. Hann framseldi varnaraðila tilboð sitt 27. júní 2003. Ágreiningur kom upp um úthlutun uppboðsandvirðis og krafðist sóknaraðili þess að honum yrði úthlutað 25% af uppboðsandvirðinu. Málsaðilar féllust á að skjóta ágreiningnum til skiptastjóra. Uppboðsafsal var síðan gefið út til varnaraðila 28. nóvember 2003 eftir að hún hafði staðið skil á kaupverðinu með greiðslu peninga, yfirtöku veðskuldar við Íbúðarlánasjóð á 1. veðrétti og með því að taka eftirstöðvar uppboðsverðsins undir sjálfum sér upp í eignarhluta sinn.
Í málinu liggja fyrir fundargerðir fjögurra funda skiptastjóra með málsaðilum þar sem ágreiningsefni þeirra voru til umfjöllunar. Á síðasta skiptafundinum, 16. janúar 2004, gerði skiptastjóri grein fyrir ágreiningsefnum málsaðila. Í fundargerð frá fundinum er að finna ítarlega umfjöllun um eftirfarandi ágreiningsefni:
1. Ágreining um verðmæti bifreiðar.
2. Ágreining um eignarhald að B.
3. Ágreining um eignarhald að Z ehf.
4. Ágreining varðandi [...], sumarhús.
5. Dómkröfu á hendur Q ehf.
6. Uppskrift innbús og búsmuna.
Um fimm fyrstu ágreiningsefnin var bókað að ekki hefði tekist að jafna ágreininginn og að honum yrði vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur í samræmi við 112. gr. laga nr. 20/1991. Varðandi sjötta ágreiningsefnið var bókað að rétt væri að fresta uppskrift innbús og búsmuna þar til fengist hefði niðurstaða um hvort unnt væri að ná samkomulagi um ágreiningsefni búsins. Af hálfu skiptastjóra væri ákveðið að uppskrift færi fram og yrði boðað til hennar í tölvupósti til lögmanna málsaðila.
Með bréfi skiptastjóra til Héraðsdóms Reykjavíkur, dagsettu 22. janúar 2004, var beðið um úrlausn framangreindra fimm ágreiningsefna en ekki vikið að því sjötta.
Með dómi Héraðsdómi Reykjavíkur, uppkveðnum 27. mars 2003, var varnaraðili sýknuð af kröfu foreldra sóknaraðila um viðurkenningu á fullum eignarrétti þeirra að bifreiðinni X. Þá höfðaði sóknaraðili tvö einkamál á hendur varnaraðila fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og voru þau þingfest 17. desember 2002 og 5. júní 2003. Í fyrra málinu krafðist hann viðurkenningar á 90% eignarhluta í bifreiðinni Y og í seinna málinu að hann ætti bifreiðina X að öllu leyti. Málin voru felld niður eftir að aðilar höfðu gert með sér samkomulag á fundi skiptastjóra 4. september 2003 um að sóknaraðili fengi í sinn hlut bifreiðina Y en varnaraðili bifreiðina X.
Helstu málsástæður og lagarök aðila
Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að málsaðilar hafi aldrei verið skráð í óvígri sambúð hjá opinberum aðilum og ávallt talið fram til skatts hvort í sínu lagi. Þau hafi ekki átt börn saman. Þá hafi þau ekki átt sameiginlega bankareikninga. Hún hafi alla tíð verið skráð sem einstæð móðir og þegið alla opinbera styrki á sambúðartímanum. Varnaraðili hafi átt íbúð í félagslega kerfinu við upphaf sambúðar en eignarhluti hennar verið óverulegur. Hún hafi ein notið leigugreiðslna af íbúðinni meðan þau hafi búið á [...].
Sóknaraðili kveður fjárhag þeirra hafi verið mjög bágborinn við upphaf sambúðar og þau notið margvíslegrar aðstoðar frá foreldrum hans, þar á meðal peningaláns. Fjárhagur málsaðila hafi alla tíð verið aðskilinn og þau haft hvort sína bankareikninga.
Varnaraðili hafi átt verðlítið innbú við upphaf sambúðar en á sambúðartímanum hafi sóknaraðili keypt flest af því innbúi sem til staðar hafi verið við sambúðarslitin fyrir sitt aflafé. Hún hafi lítið sem ekkert unnið utan heimils fyrir sambúðina og á sambúðartímanum hafi hún ekkert unnið utan heimilis sem heitið gat en tekið að sér að færa bókhald og greiða reikninga fyrir sóknaraðila, sem hafi starfað sem sjálfstæður verktaki [...]. Fjárhagur sóknaraðila hafi ekki farið að vænkast fyrr en eftir kaupin á íbúðinni að B.
Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að foreldrar hans hafi lagt til helming kaupverðs íbúðarinnar að B, hann 25% og varnaraðili um 600.000 krónur, sem hún hafi fengið út úr sölu á íbúð sinni í [...]. Faðir sóknaraðila hafi lagt til 1.750.000 krónur af útborgunargreiðslunni og hafi hann greitt þá fjárhæð með tveimur ávísunum sem afhentar hafi verið fasteignasalanum og framseldar af honum. Sóknaraðili kveður foreldra hans hafa hans lánað honum 440.000 krónur vegna fasteignakaupanna og hafi hann endurgreitt þeim fjárhæðina í tvennu lagi 1. og 27. september 1999. Því til viðbótar hafi hann greitt 148.983 krónur. Þá hafi sóknaraðili greitt 100.000 króna útborgun 2. október 1998 og 32.148 krónur vegna þinglýsinga og stimpilgjalds.
Því er haldið fram að sóknaraðili hafi keypt bifreiðarnar X og Y á sambúðartímanum fyrir eigið aflafé og hafi varnaraðili ekkert lagt til þeirra kaupa. Ástæða þess að sóknaraðili hafi skráð eigur sínar á nafn varnaraðila hafa verið sú að safnast hafi upp miklar skattaskuldir á sambúðartímanum vegna aðhaldsleysis í fjármálum. Samkomulag hafi verið milli aðila um þetta fyrirkomulag og varnaraðili lofað því að þessum eignum yrði skilað ef til sambúðarslita kæmi.
Þá er því haldið fram af hálfu sóknaraðila að verðmunur á bifreiðinni X, BMW árgerð 1998, sem samkomulag sé um að varnaraðili fái í sinn hlut, og bifreiðinni Y, Toyota Land Cruiser árgerð 1995, sem samkomulag sé um að sóknaraðili fái í sinn hlut, sé að minnsta kosti 1.000.000 króna en ekki 500.000 krónur eins og varnaraðili byggi á. Telur sóknaraðili mat bílasala órökstutt og rangt og vísar til framlagðra upplýsinga um verð sem sé sett á umræddar bifreiðir hjá bílasölum. Samkvæmt því sé BMW bifreiðin metin á 3.600.000 krónur en Toyota bifreiðin á 2.000.000 krónur. Þá er því haldið fram að álfelgur þær sem varnaraðili krefji hann um afhendingu á hafi hann sérpantað frá Þýskaladi og hafi þær verið hans eign. Um sé að ræða sérhluti sem ekki teljist venjulegt fylgifé með bifreiðinni. Sóknaraðili hafi selt felgurnar.
Þegar málið var munnlega flutt að nýju fyrr í dag var því auk þess haldið fram af hálfu sóknaraðila að skiptastjóri hafi ekkert samráð haft um val á bílasala til að meta bifreiðarnar og eins hafi hann ekki lagt fram skriflegt og rökstutt mat á verðmæti bifreiðanna. Ekki verði heldur séð að tekið hafi verið tillit til tjóns á BMW bifreiðinni. Því var haldið fram að þessi mótmæli sóknaraðila hafi legið fyrir frá upphafi.
Sóknaraðili hafi stofnað Z ehf. í ársbyrjun 2002 um starfsemi sína og fengið varnaraðila til að skrá sig fyrir hlutafé því sem hann hafi lagt í félagið. Varnaraðili hafi ekkert lagt fram og ekki verið ætluð nein hlutdeild í félaginu. Engin eign sé í félaginu fyrir utan aflahæfi sóknaraðila. Sóknaraðili kveður félagið í raun hafa verið eign hans þar til öllu hlutafé hafi verið afsalað til bróður hans. Bróðir sóknaraðaðila sé nú skráður fyrir öllu hlutafé í einkahlutafélaginu og formlegur eigandi þess. Ekki sé því hægt að taka kröfu varnaraðila til greina.
Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að til hafi staðið að hann eignaðist hlut í sumarbústað að [...], sem hafi verið keyptur fokheldur á uppboði. Eftir sambúðarslit málsaðila hafi A bróðir hans endurgreitt honum það sem hann hafi lagt til bústaðarins og eigi sóknaraðili ekkert í þessum bústað. Varnaraðili eigi því ekkert tilkall til hlutdeildar í þessum bústað eða í endurgreiðslunni, enda hafi það fé sem sóknaraðili hafi lagt í bústaðinn verið sjálfsaflafé hans.
Þá er því ennfremur haldið fram að dómkrafa á hendur Q ehf. sé til komin vegna verktakastarfsemi hans og sé séreign hans sem ekki komi undir skiptin. Sóknaraðili hafi stofnað til ýmissa skulda vegna umrædds verks og hafi greiðslan runnið til að greiða þær skuldir. Miklar skuldir hafi orðið til vegna atvinnurekstrar sóknaraðila. Hins vegar liggi ekki fyrir í málinu rekstrarreikningar vegna verktakastarfseminnar en hins vegar sé ljóst að verulegar skattskuldir hafi myndast vegna rekstrarins þannig að hann hafi ekki skapað neinar eignir hjá sóknaraðila. Neikvæð eignastaða sóknaraðila hafi verið ein af ástæðunum fyrir því að reksturinn hafi verið færður yfir á Z ehf.
Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að hún hafi verið á vinnumarkaði frá 17 ára aldri. Hún hafi útskrifast sem sveinn í prentsmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1993. Hún kveðst hafa átt íbúð og bifreið við upphaf sambúðar málsaðila. Sóknaraðili hafi hins vegar verið eignalaus og skuldað verulegar fjárhæðir í opinber gjöld og meðlög vegna fjögurra barna af fyrri samböndum. Hann hafi þó átt ónýta Ladabifreið.
Varnaraðili kveður sóknaraðili ekki hafa verið skráðan fyrir þeim eignum sem orðið hafi til á sambúðartímanum. Þannig hafi foreldrar hans verið skráðir sem kaupendur að íbúðinni að B ásamt varnaraðila þótt sóknaraðili hefði í raun átt 50% í íbúðinni á móti varnaraðila. Þá hafi allar bifreiðar sem þau hafi keypt á sambúðartímanum verið skráðar á hennar nafn.
Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að hún hafi frá árinu 1996 starfað með sóknaraðila við járnaklippingar og fleira hjá [...] og að verkefnum hjá [...]. Á árinu 1997 hafi sóknaraðili og bróðir hans fengið umboð fyrir bindivélar og bindivír frá [...]. Eftir það hafi varnaraðili séð um að sendast með bindivír og vélar, annast járnaklippingar, raðað í bakka og séð um þrif. Um áramótin 2001 og 2002 hafi varnaraðili farið að sjá um bókhald vegna rekstrarins. Þessu til viðbótar hafi hún haldið heimili fyrir þau og börn þeirra.
Varnaraðili kveður járnabindingastarfsemina hafa verið rekna á kennitölu sóknaraðila í byrjun og viðskipti vegna hennar farið um tékkareikning nr. [...] við [...]. Varnaraðili hafi orðið prókúruhafi á reikningnum á árinu 1995 og hafi hann orðið sameiginlegur reikningur málsaðila eftir það. Prókúran hafi verið felld niður fyrir mistök á árinu 2000 en verið endurnýjuð þegar í stað. Varnaraðili hafi verið með debetkort á reikninginn.
Stofnað hafi verið einkahlutafélagið Z ehf. um reksturinn í ársbyrjun 2002 og varnaraðili verið stofnandi, stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi. Einkahlutafélagið hafi tekið yfir allan þann rekstur sem þau hafi verið með.
Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að hún hafi ekki fengið greidd laun út úr rekstrinum með beinum hætti fyrr en við stofnun einkahlutafélagsins. Faðir sóknaraðila hafi lengst af annast framtalsgerð fyrir málsaðila og sá háttur hafi verið hafður á við framtalsgerð sóknaraðila að gefnir hafi verið út launamiðar vegna hennar og skráðar á hana tekjur miðaðar við skattleysismörk.
Því er haldið fram að innkoman á reikning nr. [...] hafi verið afrakstur af vinnu beggja málsaðila og þau hafi tekið út af reikningum til reksturs heimilisins, eigin framfærslu, greiðslu skulda, fjárfestinga o.fl.
Af hálfu varnaraðila er kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á 25% hlut í uppboðsandvirði íbúðar að B mótmælt. Því er haldið fram af hálfu varnaraðila að hún hafi fengið 865.755 krónur við sölu á íbúð hennar að [...] 12. júní 1998. Sú fjárhæð hafi runnið óskipt til kaupanna á íbúðinni að B og auk þess andvirði láns sem hún hafi tekið í [...] að fjárhæð 350.000 krónur. Þannig hafi varnaraðili lagt 1.215.755 krónur í útborgun vegna B. Þessir fjármunir hafi runnið inn á sameiginlegan reikning þeirra og verið notaðir til að fjármagna fasteignakaupin af hálfu varnaraðila. Auk þess að greiða hluta af útborgunargreiðslu hafi hún greitt afborgun 2. október 1998 að fjárhæð 100.000 krónur og stimpilgjöld o.fl. að fjárhæð 32.148 krónur. Hún hafi því lagt til helminginn að kaupverði íbúðarinnar eins og kaupsamningur beri með sér.
Á því er byggt að varnaraðili sé löglega komin að helmingseignarhlutdeild í umræddri íbúð og eigi ekki að þurfa að þola skerðingu á þeim eignarrétti. Fyrir liggi þinglýstar eignarheimildir og skattframtöl sem staðfesti eignarheimild hennar. Þá liggi fyrir bréf frá lögmanni foreldra sóknaraðila þar sem beinlínis sé viðurkennt að hún hafi átt helming íbúðarinnar. Við kaupin hafi málsaðilar ákveðið að íbúðin skyldi vera 50% eign varnaraðila og í því felist viðurkenning á eignarrétti hennar. Í samræmi við það hafi varnaraðili borið ábyrgð á sköttum og skyldum vegna eignarhlutans og sóknaraðili í orði og verki staðfest að hann hafi fyrir sambúðarslit litið svo á að varnaraðili ætti íbúðina.
Sóknaraðili kveðst hafa sýnt fram á hvernig hún fjármagnaði sinn hluta kaupverðsins. Það fjármagn hafi runnið í gegnum sameiginlegan reikning þeirra nr. [...]. Varnaraðili hafi hins vegar ekki sýnt fram á að hann hafi innt af hendi hluta af kaupverðinu enda hafi hann verið mjög illa staddur fjárhagslega á þessum tíma. Á sóknaraðila hvíli sönnunarbyrði um þetta og mögulegar greiðslur frá föður sóknaraðila við kaupsamningsgerðina umfram hans eignarhlut feli ekki í sér sönnur fyrir því að hann hafi verið að greiða fyrir meintan eignarhlut sóknaraðila.
Varnaraðili vísar einnig til þess að skattframtöl hennar endurspegli ekki raunverulegar tekjur hennar þar sem málsaðilar hafi staðið saman að verktakastarfsemi sem lengst af hafi verið rekin á kennitölu sóknaraðila. Tekjur vegna starfseminnar hafi farið inn á sameiginlegan reikning þeirra nr. [...] og reikningar verið greiddir af þeim reikningi. Hún hafi haft nægar tekjur til að standa undir afborgunum af áhvílandi lánum sínum eignarhluta af íbúðinni. Hún kveður foreldra sóknaraðila ekki hafa greitt afborganir af skuldum. Þá vísar hún til þess að málsaðilar hafi búið á heimili foreldra hennar leigulaust eftir að þau fluttu til [...] og síðan í íbúð hennar í [...]. Það hafi meðal annars gert þeim léttara fyrir að koma undir sig fótunum fjárhagslega og ráðast í íbúðarkaup.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að málsaðilar hafi gert með sér samkomulag á fundi með skiptastjóra 4. september 2003 um að sóknaraðili fengi í sinn hlut bifreiðina Y en varnaraðili bifreiðina X. Á sama fundi hafi verið gert samkomulag um að láta aðila sem skiptastjóri tilnefndi verðmeta bifreiðarnar og að verðmismunurinn yrði gerður upp í fjárslitunum. Skiptastjóri hafi bókað í fundargerð að aðilar samþykktu að verðmat þetta yrði endanlegt í uppgjöri aðila. Sá aðili sem skiptastjóri hafi fengið til að verðmeta bifreiðarnar hafi skoðað þær og metið þá bifreið sem komið hafi í hlut varnaraðila 500.000 krónum verðmeiri en bifreið þá sem komið hafi í hlut sóknaraðila. Telur varnaraðili að leggja beri það mat til grundvallar. Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að ekki hafi verið lögð fram af hálfu sóknaraðila gögn sem hnekki umræddu verðmati. Þau gögn sem lögð hafi verið fram séu aðeins almennar upplýsingar um ásett verð á bifreiðum af sömu tegund en þau segi ekkert til um raunverulegt verðmæti þeirra bifreiða sem hér um ræðir. Þetta séu því ónothæf sönnunargögn.
Þá telur varnaraðili að hafna beri mótmælum sóknaraðila við því að matið hafi verið réttilega framkvæmt sem of seint fram komnum og röngum.
Þá er því haldið fram að í áðurnefndu samkomulagi málsaðila felist eðli málsins samkvæmt að varnaraðili eigi að fá með bifreiðinni X þá aukahluti sem henni hafi fylgt og þar með þann aukagang af dekkjum og felgum sem sóknaraðili hafi neitað að afhenda henni.
Af hálfu varnaraðila er því ennfremur haldið fram að einkahlutafélagið Z ehf. hafi verið stofnað í kringum sameiginlegan atvinnurekstur málsaðila. Varnaraðili hafi verið stofnandi félagsins og eigandi alls hlutafjár að fjárhæð 500.000 krónur. Varnaraðili hafi séð um framkvæmdastjórn félagsins, allt reikningshald og bókhald, útkeyrslu, þrif o.fl. Auk þess hafi hún unnið við járnabeygingar, -bindingar og klippingar. Ásamt þessari vinnu hafi hún verið í störfum annars staðar.
Vísað er til þess að þegar varnaraðili hafi gengið út úr rekstrinum og afsalað hlutafé félagsins til bróður sóknaraðila hafi hún undirritað yfirlýsingu um að í afsalinu fælist ekki viðurkenning á því að fyrirtækið væri eingöngu eign sóknaraðila. Það að sóknaraðili hafi ritað samþykki sitt á yfirlýsinguna telur varnaraðili verða að skýra þannig að hann hefði verið sammála henni um að fyrirtækið væri ekki eingöngu hans eign.
Varnaraðili telur ljóst að þótt félagið hafi alfarið verið talið hennar eign hafi hún og sóknaraðili myndað þessa eign sameiginlega á sambúðartímanum og séð sameiginlega um reksturinn. Þar sem eignin hafi orðið til fyrir tilstilli beggja á sambúðartímanum beri að skipta henni jafnt á milli þeirra.
Þá er því haldið fram af hálfu varnaraðila að sóknaraðili hafi viðurkennt að hafa lagt til fjármuni til byggingar sumarhúss að [...] og að hann hafi fengið þessa fjármuni endurgreidda eftir sambúðarslitin. Varnaraðili telur að um sé að ræða eign sem hafi orðið til fyrir tilstilli beggja, enda hafi þau haft sameiginlegan fjárhag á sambúðartímanum. Sé eðlilegt að hún fái helmingshlutdeild í þessari eignamyndun sem orðið hafi á sambúðartímanum.
Þá er að lokum byggt á því að fyrirtæki málsaðila hafi á sambúðartímanum unnið að verkefni fyrir Q í [...]. Risið hafi ágreiningur um endurgjald fyrir verkið. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands [...] febrúar 2003 hafi Q ehf. verið dæmt til að greiða sóknaraðila 3.683.040 krónur, ásamt dráttarvöxtum frá 9. febrúar 2001, auk málskostnaðar. Því er haldið fram af hálfu varnaraðila að um sé að ræða eignamyndun sem orðið hafi til á sambúðartímanum fyrir tilstuðlan beggja og því beri að taka hana til skipta.
Niðurstaða
Lög um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 21/1991 taka til opinberra skipta til fjárslita milli karls og konu sem búið hafa í óvígðri sambúð í að minnsta kosti samfellt tvö ár, sbr. 100. gr. laganna, og eiga þau því við um skipti milli málsaðila. Í 1. mgr. 105. gr. laganna er kveðið á um að skiptastjóri skuli svo fljótt sem verða má eftir skipun hans boða aðilana, umboðsmenn þeirra, lögráðamenn eða málsvara, til skiptafundar og meðal annars leita þar vitneskju um hverjar eignir geti komið til skipta, hvorum aðilanum þær tilheyri og hvert verðmæti þeirra sé. Í 112. gr. laganna er mælt fyrir um að ef ágreiningur rísi milli aðila við opinber skipti um þar til greind atriði skuli skiptastjóri leitast við að jafna hann. Takist það ekki beini hann málefninu til héraðsdóms eftir ákvæðum 122. gr. Slíkur ágreiningur verði ekki lagður fyrir dómstóla á annan hátt. Í 122. gr. laganna segir meðal annars að ef skiptastjóri telji þörf úrlausnar héraðsdóms skuli hann beina skriflegri kröfu um það til þess héraðsdómstóls þar sem hann var skipaður til starfans. Í kröfunni skuli meðal annars koma fram um hvað ágreiningur standi og hverjar kröfur hafi komið fram í því sambandi.
Málsaðilar deila um hvort sóknaraðili eigi að fá í sinn hlut við skiptin 1.681.892 krónur sem skiptastjóra hafa verið fengnar til varðveislu og samsvara 25% af söluandvirði þriggja herbergja íbúðar að B, sem seld var á uppboði til slita á sameign. Við munnlegan flutning málsins 4. maí 2004 taldi lögmaður sóknaraðila að umrædd krafa samsvaraði 845.946 króna fjárkröfu. Í síðari ræðu leiðrétti hann þetta og kvað um misskilning hafa verið að ræða. Með hliðssjón af kröfu sóknaraðila um 25% eignarhlut þykir sóknaraðili ekki bundinn af þessum mistökum lögmanns síns og verður að miða við að sóknaraðili geri kröfu um að fá í sinn hlut þær 1.681.892 krónur sem skiptastjóra hefur fengið til varðveislu vegna andvirðis 25% eignarhlutar við sölu íbúðarinnar á uppboði til slita á sameign.
Það hefur verið talin meginreglan í íslenskum rétti um fjárhagslegt uppgjör við slit óvígðrar sambúðar að hvor aðili um sig teljist eiga þau verðmæti sem hann kemur með í sambúðina og þau verðmæti sem hann eignast á sambúðartímanum. Almennt verður að líta á þinglýsingu eignarheimilda og aðra opinbera skráningu um eignarhald á fasteignum sem sterka vísbendingu um raunveruleg eignarráð yfir þeim og að sá sem haldi öðru fram beri sönnunarbyrðina fyrir því að eignarráð séu önnur en skráðar eignarheimildir segja til um. Þar sem ekki er formlegt fjárfélag með fólki í óvígðri sambúð, hafa dómstólar þó í mörgum tilvikum talið óhjákvæmilegt við úrlausn ágreinings um slík fjárskipti að líta fram hjá beinni nafnskráningu eigna, sem myndast hafa á sambúðartímanum.
Samkvæmt fyrirliggjandi þinglýstum kaupsamningi, dagsettum 3. september 1998, keypti varnaraðili 50% hlut í umræddri íbúð á móti foreldrum sóknaraðila. Í málinu liggur fyrir kvittun frá fasteignasala fyrir því að á varnaraðili og C, faðir varnaraðila, hafi 3. september 1998 greitt 1. greiðslu samkvæmt kaupum um B að fjárhæð 2.498.973 krónur. Þá liggur fyrir í málinu bréf frá lögmanni foreldra sóknaraðila þar sem fram kemur að eignarhaldi samkvæmt kaupsamningi sé þannig háttað að varnaraðili eigi helmingshlut á móti þeim.
Í framlögðum athugasemdum móður sóknaraðila til þáverandi lögmanns hans, dagsettum 7. maí 2003, er því haldið fram að hún leggi fram afrit af ávísunum að fjárhæð 1.750.000 krónur sem sýni hvernið þau hafi greitt íbúðina, hvaðan peningarnir komu og hverjir hafi framselt ávísanirnar. Þessi afrit af ávísunum voru ekki meðal þeirra gagna sem lögð voru fram í málinu fyrir upphaf aðalmeðferðar. Þegar flytja skyldi málið munnlega að nýju að kröfu lögmanns sóknaraðila fyrr í dag var þess krafist að ljósrit af umræddum ávísunum yrði lögð fram í málinu. Þar sem aðalmeðferð var hafin og framlagningu var mótmælt af hálfu varnaraðila synjaði dómarinn um framlagningu meintra ljósrita. Af hálfu varnaraðila hefur því hins vegar ekki verið mótmælt að faðir sóknaraðila hafi innt umræddar greiðslur af hendi við kaupsamningsgerðina en því hins vegar mótmælt að meintar greiðslur feli í sér að sóknaraðili hafi eignast hlut í umræddri fasteign.
Framlagður kaupsamningur dagsettur 12. júní 1998 sýnir að varnaraðili fékk útborgaðar 865.755 krónur á árinu 1998 vegna sölu á félagslegri íbúð sem hún átti að [...]. Þá hefur varnaraðili lagt fram ljósrit af skuldabréfi sem sýnir að hún tók lán að fjárhæð 350.000 krónur í [...] 29. september 1998. Þykir varnaraðili hafa leitt að því líkur að umræddar fjárhæðir hafi runnið til kaupa á íbúðinni að B.
Óumdeilt er að sóknaraðili var mjög skuldugur við upphaf sambúðar málsaðila. Allan sambúðartímann virðast málsaðilar hafa forðast að skrá á hann eignir, hvort sem um var að ræða fasteignir, bifreiðar eða eignarhluta í félögum. Þykir varnaraðili hafa gert það sennilegt að hlutur sá sem hann hafi ætlað sér í íbúðinni að B hafi verið skráður á foreldra hans. Með hliðsjón af því þykja gögn um greiðslur sóknaraðila á samtals 450.000 krónum til foreldra hans í september 1999 ekki veita vísbendingu um hann hafi verið að endurgreiða þeim lán vegna meints eignarhluta síns sem skráður var á varnaraðila.
Af hálfu sóknaraðila er fullyrt að hann hafi innt af hendi afborgunargreiðslu að fjárhæð 100.000 krónur 2. október 1998 og greiðslu til fasteignasala fyrir stimpil- og þinglýsingagjaldi. Hann hefur engin gögn lagt fram þessu til sönnunar. Af hálfu varnaraðila hefur þessu verið mótmælt og haldið fram að hún hafi innt þessar greiðslur af hendi. Það sem einkum styður það að varnaraðili hafi innt af hendi umræddar greiðslur er að kvittun fasteignasala um móttöku greiðslu vegna stimpil- og þinglýsingagjalds er stíluð á varnaraðila og eins að umrætt 350.000 króna lán í [...] var tekið þremur dögum fyrir umrædda 100.000 króna afborgunargreiðslu.
Samkvæmt framangreindu hefur sóknaraðili ekki lagt fram nein haldbær gögn eða sýnt fram á það með öðrum hætti að hann hafi fjármagnað greiðslu útborgunar vegna þess hluta fasteignarinnar sem skráður var á varnaraðila. Þá þykir hann heldur ekki hafa sýnt fram á að líta megi á hugsanlegar greiðslur frá föður hans umfram helming af útborgunargreiðslu sem framlag þeirra til kaupa hans á 25% hlut í fasteigninni.
Í málinu hafa ekki verið lögð fram nein gögn um hvernig háttað var afborgunum af þeim veðskuldum sem á fasteigninni hvíldu. Engin gögn liggja þannig fyrir um að foreldrar sóknaraðila eða sóknaraðili sjálfur hafi greitt afborganir af áhvílandi veðskuldum.
Samkvæmt framlögðum skattframtölum hafði varnaraðili tiltölulega lágar tekjur á sambúðartímanum. Fyrir liggur að varnaraðili hafði lengst af sambúðartímanum umboð til úttekta af reikningi sóknaraðila sem notaður var vegna verktakastarfseminnar. Þá höfðu málsaðilar sameiginlegan kreditkortareikning sem skráður var á varnaraðila en sóknaraðili var með aukakort. Framlögð gögn sýna því að veruleg fjárhagsleg samstaða var með málsaðilum á sambúðartímanum og að þau hafa að einhverju leyti notað sameiginlega reikning nr. [...] hjá [...] vegna verktakastarfseminnar og heimilishalds.
Með framburði Ö framkvæmdastjóra [...] ehf., sem sóknaraðili vann mikið fyrir og Æ, sjálfstætt starfandi járnabindingarmanns, sem samrýmast framburði varnaraðila fyrir dómi, þykir nægjanlega í ljós leitt að varnaraðili hafi lagt fram umtalsvert vinnuframlag í þágu verktakastarfsemi sóknaraðila. Með vísan til þess og hinnar fjárhagslegu samstöðu málsaðila þykir varnaraðili hafa sýnt fram á að hún hafi haft nægjanlegar tekjur til að standa undir afborgunum af sínum eignarhluta í fasteigninni B.
Engra gagna nýtur við um það frá hverjum þeir fjármunir komu sem varið var til greiðslu afborgana af áhvílandi veðskuldum. Af því sem fram er komið í málinu þykir sóknaraðili ekki hafa hnekkt þeirri málsástæðu varnaraðila að hún hafi greitt afborganir af öllum áhvílandi veðskuldum af tekjum sem hafi haft vegna vinnuframlags í þágu verktakastarfseminnar. Þar sem ekki verður séð að foreldrar sóknaraðila hafi greitt afborborganir af veðskuldum verður að líta svo á að það sem kunni að hafa vantað upp á að varnaraðili hafi greitt í útborgunargreiðslum vegna fasteignarinnar til jafns við foreldra sóknaraðila hafi hún bætt upp með greiðslu afborgana af veðskuldum og annarra gjalda af eigninni.
Samkvæmt öllu framangreindu þykir sóknaraðili ekki hafa sýnt fram á að hann hafi lagt til fé til kaupa á 50% eignarhluta hennar í þriggja herbergja íbúð að B í Reykjavík og ber því að hafna kröfu hans um að þær 1.681.892 krónur sem skiptastjóri hefur í vörslum sínum, og samsvara 25% af söluandvirði eignarinnar, komi í hans hlut við skiptin. Sóknaraðili hefur heldur ekki sýnt fram á að hann eigi rétt á að honum beri tilkall til hlutdeildar í þinglýstum eignarhluta varnaraðila í fasteigninni á grundvelli eignaaukningar á sambúðartíma eða á öðrum grundvelli.
Á fyrsta skiptafundi 12. ágúst 2003 kom fram að ágreiningur væri um hvor málsaðila ætti í raun bifreiðarnar X, sem er BMW árgerð 1998, og Y, sem er Toyota Land Cruiser árgerð 1995. Bifreiðarnar voru báðar skráðar á nafn varnaraðila og sem fyrr segir höfðu verið rekin þrjú dómsmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem deilt var um eignarhald að þeim. Í fundargerð skiptafundar 4. september 2003 kemur fram að lögmenn málsaðila hafi lýst því yfir að náðst hefði samkomulag milli aðila um fjárskipti er lytu að umræddum bifreiðum þannig að bifreiðin X kæmi í hlut konunnar og bifreiðin Y í hlut mannsins. Einnig var bókað að ákveðið væri að konan kæmi bifreiðunum til bifreiðasala, sem skiptastjóri myndi tilnefna, og setji Y á númerin. Skiptastjóri myndi bera tillögu sína um matsmenna undir lögmenn aðila og fá samþykki þeirra. Skyldi sá verðmeta báðar bifreiðarnar, sem yrðu í framhaldi af því afhentar aðilum í samræmi við samkomulagið. Matsmaðurinn skyldi meta hvort tjón sem orðið hafi á bifreiðinni X eftir samvistarslit hefði áhrif á verð hennar. Skyldi matsmaðurinn tilgreina hversu mikið bifreiðin lækkaði við þetta ef tjónið hefði valdið verðlækkun. Þá er bókað að aðilar samþykki að verðmat þetta verði endanlegt í uppgjöri aðila. Lögmenn aðila voru ekki sammála um hvort verðlækkun sem kynni að hafa orðið vegna tjóns á bifreiðinni X væri að fullu á ábyrgð konunnar en ákveðið var að leyst yrði úr þessu í framhaldi skiptanna í tengslum við uppgjör verðmismunar. Þá var bókað að verðmismunur sem kynni að verða á milli bifreiðanna skyldi gerður upp í fjárslitum. Loks var því lýst yfir að dómsmál sem rekin væru fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um þessar bifreiðar yrðu felld niður án kostnaðar.
Í fundargerð skiptafundar 25. nóvember 2003 segir svo:
„Skiptastjóri kynnir að hann hafi leitað verðmats óháðs bifreiðasala á verðmun bifreiðanna X og Y auk þess sem haft hefur verið samband við Toyota umboðið og Bifreiðar og Landbúnaðarvélar hf.
Niðurstaða bifreiðasalans og tilgreindra umboða er að líklegur verðmunur þessara bifreiða sé ´um kr. 500.000,00 miðað við staðgreiðslu þ.e. að X (BMW) sem kom í hlut konunnar sé verðmeiri sem þessari fjárhæð nemur.”
Sóknaraðili lýsti því strax yfir að hann teldi verðmuninn meiri og lögmaður hans gerði tillögu um að miðað yrði við 1.000.000 króna verðmun. Ekki náðist um það samkomulag og óskaði skiptastjóri því eftir úrlausn héraðsdóms um þennan ágreining.
Ekki kemur fram í fundargerðum frá skiptafundum hvernig staðið var að umræddu mati á bifreiðum og undir rekstri málsins hefur það ekki verið upplýst að öðru leyti en því að fram hefur komið að matsmaður hafi skoðað bifreiðarnar. Af framlögðum fundargerðum eða öðrum gögnum verður hins vegar ekki ráðið að þeirri niðurstöðu verðmats sem skiptastjóri kynnti á skiptafundi 25. nóvember 2003 hafi verið mótmælt á þeim grundvelli að matið hefði ekki verið framkvæmt í samræmi við það samkomulag sem tókst með aðilum um framkvæmd þess á skiptafundi 4. september 2003.
Þegar málið var munnlega flutt að nýju fyrr í dag var því haldið fram af hálfu sóknaraðila að skiptastjóri hafi ekkert samráð haft um val á bílasala til að meta bifreiðarnar og eins hafi hann ekki lagt fram skriflegt og rökstutt mat á verðmæti bifreiðanna. Ekki verði heldur séð að tekið hafi verið tillit til tjóns á BMW bifreiðinni. Því var haldið fram að þessi mótmæli sóknaraðila hafi legið fyrir frá upphafi. Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að umrædd málsástæða sé of seint fram komin og röng.
Líta verður svo á að sóknaraðila hafi verið í lófa lagið að koma fram með umrædd mótmæli undir rekstri málsins og leiða skiptastjóra og umræddan matsmann fyrir dóm til að leiða í ljós hvernig staðið var að umræddu mati. Þetta lét sóknaraðili hins vegar fyrir farast og verður að bera hallann af því.
Líta verður svo á að á skiptafundi 4. september 2003 hafi lögmenn aðila komist að bindandi samkomulagi um að verðmat bifreiðasala yrði endanlegt í uppgjöri málsaðila og um það hvernig staðið yrði að slíku verðmati.
Þar sem fallast ber á það með varnaraðila að sú málsástæða sóknaraðila, sem fyrst var haldið fram við munnlegan málflutning fyrr í dag, að skiptastjóri hafi staðið rangt að framkvæmt umrædds verðmats, sé of seint fram komin, þykja másaðilar bundnir af þeirri niðurstöðu varðmats sem skiptastjóri kynnti á skiptafundi 25. nóvember 2003.
Ber því að fallast á kröfu varnaraðila um að við það verði miðað við skiptin að bifreiðin X, sem samkomulag er um að komi í hlut varnaraðila, verði metin 500.000 krónum verðmeiri en bifreiðin Y, sem samkomulag varð um að sóknaraðili fengi í sinn hlut.
Ágreiningur um eignarrétt að fjórum vetrardekkjum á felgum kom ekki fram á fyrsta skiptafundi 12. ágúst 2003. Þetta ágreiningsefni var hins vegar eitt þeirra sem skiptastjóri skaut til héraðsdóms með bréfi sínu frá 22. janúar 2004. Þar sem því hefur ekki verið mótmælt af hálfu sóknaraðila að úr þessu ágreiningefni verði skorið í máli þessu verður það gert.
Af hálfu varnaraðila hefur ekki verið haldið fram að hún hafi keypt umræddar felgur og þar með orðið eigandi þeirra heldur byggir hún á samkomulagi aðila um að hún fengi í sinn hlut bifreiðina X, sem umræddar felgur hafi fylgt. Sóknaraðili hefur haldið því fram að hann hafi keypt umræddar felgur og dekk. Ekki var minnst á umræddar felgur og dekk í samkomulagi málsaðila um að varnaraðili fengi í sinn hlut bifreiðina X. Þá hefur ekki verið sýnt fram á af hálfu varnaraðila að það sé föst venja að aukafelgur og dekk í eigu seljanda fylgi með í viðskiptum með bifreiðar. Varnaraðili hefur því ekki sýnt fram á að umræddar felgur og dekk eigi að koma í hennar hlut á grundvelli umrædds samkomulags. Ber því að hafna kröfu varnaraðila að því er lýtur að afhendingu á þessum hlutum.
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að einkahlutafélagið Z ehf. komi undir skiptin og málsaðilar verði taldir jafnir eigendur hlutafjár félagsins en þessu hafnar sóknaraðili. Umræddur ágreiningur kom fram á fyrsta skiptafundi og var meðal þeirra ágreiningsefna sem skiptastjóri hefur óskað eftir að héraðsdómur leysi úr.
Fyrir liggur að varnaraðili var skráð fyrir öllu hlutafé í Z ehf. við stofnun félagsins í ársbyrjun 2002. Þá liggur fyrir að hún seldi bróður sóknaraðila, A, allt hlutafé í félaginu 27. maí 2002. Í yfirlýsingu varnaraðila, dagsettri 31. maí 2002, kemur fram að í framsali á Z ehf. felist ekki viðurkenning á því að fyrirtækið hafi eingöngu verið eign sóknaraðila eða annarra fram að 21. maí og að hún áskilji sér allan rétt við skipti á búi þeirra. Sóknaraðili ritaði samþykki sitt á yfirlýsinguna.
Af hálfu sóknaraðila er byggt á því að hann hafi staðið einn að verktakastarfsemi þeirri sem Z ehf. yfirtók í ársbyrjun 2002 og að hann hafi í raun verið eigandi einkahlutafélagsins. Þá er á því byggt að hann sé enn raunverulegur eigandi félagsins þótt allt hlutafé sé enn skráð á A bróður hans.
Af hálfu varnaraðila hefur ekki verið sýnt fram á að hún hafi lagt fé til einkahlutafélagsins þótt hún sé skráð fyrir öllu hlutafé í því og hún afsalaði sér hlutafénu fyrir sambúðarslitin til bróður sóknaraðila. Í málinu liggja engin gögn fyrir um verðmæti umrædds einkahlutafélags og engin fjárkrafa gerð af hálfu varnaraðila. Krafa varnaraðila lýtur eingöngu að viðurkenningu á helmings eignarhlut í umræddu einkahlutafélagi sem fyrir liggur að bróðir sóknaraðila, sem ekki er aðili að málinu, er skráður eigandi að. Enda þótt fyrir liggi viðurkenning sóknaraðila á því að hann sé raunverulegur eigandi félagsins er útilokað í ágreiningsmáli þessu, eins og formlegu eignarhaldi á félaginu er háttað, að fallast á kröfu varnaraðila um að félagið komi undir skiptin þannig að varnaraðili verði talin eigandi helmings hlutafjár félagsins. Ber því að hafna þessari kröfu varnaraðila.
Fyrir liggur að sumarbústaður að [...] er skráður á nafn systkina sóknaraðila. Í fundargerð frá skiptafundi 25. nóvember 2003 kemur fram að því hafi verið lýst yfir af hálfu sóknaraðila að bústaðurinn hafi verið keyptur fokheldur á uppboði og að til hafi staðið að hann eignaðist hlut í honum. Eftir sambúðarslitin hafi A bróðir hans endurgreitt honum það sem hann hafi lagt til bústaðarins.
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að undir skiptin komi umrædd 694.554 krónu endurgreiðsla. Umræddur ágreiningur kom fram á fyrsta skiptafundi og er meðal þeirra ágreiningsefna sem skiptastjóri hefur óskað eftir að héraðsdómur leysi úr.
Samkvæmt framansögðu er ekki deilt um að sóknaraðili hafi eftir sambúðarslit málsaðila fengið endurgreiddar 694.554 krónur sem hann hafi á sambúðartímanum lagt í umræddan bústað. Af hálfu varnaraðila hefur ekki verið sýnt fram á að hún hafi látið af hendi fé vegna umrædds sumarbústaðar. Varnaraðili byggir hins vegar á því að umrædd fjárhæð, sem sóknaraðili hafi fengið greidda eftir sambúðarslitin, teljist til eignaaukningar á sambúðartímanum og telur hún sig eiga tilkall til helmings fjárhæðarinnar við skiptin.
Í málinu liggja ekki fyrir neinir útreikningar á eignamyndun málsaðila á sambúðartímanum. Ekki liggur þannig fyrir hver eigna- og skuldastaða hvors þeirra um sig var við upphaf eða lok sambúðarinnar. Fyrir liggur að sóknaraðili var alla tíð mjög skuldugur. Samkvæmt skattframtölum skuldaði hann þannig um 13 milljónir króna í árslok 2000. Síðari skattframtöl sóknaraðila hafa ekki verið lögð fram.
Enda þótt sóknaraðili hafi viðurkennt að hafa fengið umrædda fjárhæð í hendur eftir sambúðarslitin er samkvæmt framansögðu útilokað að ráða af fyrirliggjandi gögnum hvort þessi endurgreiðsla feli í sér eignaaukningu á sambúðartímanum. Með hliðsjón af framangreindu þykir grundvöllur umræddrar kröfu svo óljós og krafan svo vanreifuð að úrskurður verður ekki á hana lagður. Verður því ekki hjá því komist að vísa henni frá dómi án kröfu.
Fyrir liggur að Q ehf. var í Héraðsdómi Suðurlands, [...] febrúar 2003, dæmt til að greiða sóknaraðila 3.683.040 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 9. febrúar 2001. Krafan var til komin vegna járnabindingaþjónustu sóknaraðila vegna brúargerðar á árinu 2000. Ekkert liggur fyrir um í málinu hvort dómi þessum hafi verið áfrýjað eða hvort dómkrafan hafi verið greidd. Þar sem sóknaraðili hefur ekki orðið við áskorunum um að upplýsa um þessa kröfu verður hann að bera hallann af því sem uppá vantar um afdrif þessarar kröfu. Verður því lagt til grundvallar að hún hafi greiðst eftir sambúðarslitin í samræmi við dóminn.
Í málinu liggja ekki fyrir nein gögn um hvernig umrædd krafa var færð í bókhaldi sóknaraðila. Ekki liggur heldur neitt fyrir um hagnað eða tap af því verki sem krafan var sprottin af. Skattframtal sóknaraðila vegna tekjuársins 2000 liggur fyrir í málinu en ekki síðari skattframtöl. Í því skattframtali kemur fram að sóknaraðili hafi haft rúmlega 10 milljóna króna hreinar tekjur af atvinnurekstri sínum á árinu 2000 og rúmar 2 milljónir króna reiknað endurgjald við eigin atvinnurekstur. Í þessu skattframtali kemur einnig fram að sóknaraðili skuldaði um 13 milljónir króna í opinber gjöld o.fl. í árslok ársins 2000. Liggur þannig ekkert fyrir um hvort líta megi svo á að tilvist umræddrar kröfu við sambúðarslitin feli í sér samsvarandi eignaaukningu á sambúðartímanum.
Með hliðsjón af framangreindu þykir grundvöllur umræddrar kröfu svo óljós og krafan svo vanreifuð að útilokað er að leggja á hana úrskurð. Verður því ekki hjá því komist að vísa henni frá dómi án kröfu.
Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn ákveðinn 250.000 krónur.
Af hálfu sóknaraðila flutti mál þetta Róbert Árni Hreiðarsson hdl. en Helgi Birgisson hrl. af hálfu varnaraðila.
Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, M, um að hann fái í sinn hlut við skiptin 25% af andvirði íbúðar að B í Reykjavík.
Fallist er á kröfu varnaraðila, K um að við skiptin verði miðað við að bifreiðin X, sem samkomulag er um að komi í hlut varnaraðila, verði metin 500.000 krónum verðmeiri en bifreiðin Y, sem samkomulag varð um að sóknaraðili fengi í sinn hlut.
Hafnað er kröfu varnaraðila um að sóknaraðili afhendi henni fjögur vetrardekk á felgum sem hún heldur fram að tilheyri bifreiðinni X.
Hafnað er kröfu varnaraðila um að einkahlutafélagið Z ehf. komi undir skiptin og málsaðilar verði taldir jafnir eigendur hlutafjár félagsins.
Vísað er frá dómi kröfu varnaraðila um að undir skiptin komi 694.554 króna fjárframlag, sem sóknaraðili kveðst hafa lánað A vegna kaupa á sumarhúsi að [...] og fengið endurgreiddar eftir sambúðarslit málsaðila.
Vísað er frá dómi kröfu varnaraðila um að undir skiptin komi 3.683.040 króna krafa, ásamt dráttarvöxtum, á hendur Q ehf., samkvæmt dómi Héraðsdóms Suðurlands frá [...] febrúar 2003, í málinu nr. [...], og að varnaraðili verði talinn eigandi helmings kröfunnar.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 250.000 krónur í málskostnað.