Hæstiréttur íslands

Mál nr. 371/2002


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Varnarþing
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. apríl 2003.

Nr. 371/2002.

Brynjólfur Hauksson og

Arndís Magnúsdóttir

(Jón Magnússon hrl.)

gegn

Statens Bostadsfinansieringsaktiebolag

(Þorsteinn Júlíusson hrl.)

 

Skuldabréf. Varnarþing. Frávísun máls frá héraðsdómi.

Sænska hlutafélagið S, sem hafði með höndum lánastarfsemi í Svíþjóð, stefndi A og B  fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til greiðslu á skuld samkvæmt skuldabréfi, sem þau gáfu út til félagsins. Var málið höfðað í þeirri þinghá, þar sem lögmaðurinn sem fór með það fyrir S í héraði, hafði starfstöð, sbr. 3. mgr. 36. gr. laga um meðferð einkamála, en óumdeilt var að A og B áttu þá lögheimili í Kópavogi. Í dómi Hæstaréttar segir að skýra verði ákvæði 36. gr. áðurnefndra laga eftir orðanna hljóðan, þannig að þau varði eingöngu mál, sem eru höfðuð til greiðslu á andvirði vöru eða þjónustu. Þótt lánastarfsemi geti eftir atvikum talist til þjónustu sé málið ekki höfðað til greiðslu þóknunar fyrir hana, heldur til heimtu ætlaðrar skuldar samkvæmt viðskiptabréfi, sem S kveði hafa verið gefið út til sín fyrir veittu láni. Geti reglur 36. gr. því ekki heimilað að málið sé sótt í þeirri þinghá, þar sem lögmaðurinn, sem fór með málið fyrir S í héraði, hafði starfstöð. Var málinu vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 12. júní 2002, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 7. ágúst sama árs. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994, áfrýjuðu þau öðru sinni 12. ágúst 2002. Þau krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að þau verði sýknuð af kröfu stefnda en að því frágengnu að hún verði lækkuð. Í öllum tilvikum krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Stefndi höfðaði mál þetta á hendur áfrýjendum 8. maí 2001 og var það þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 31. sama mánaðar. Í héraðsdómsstefnu krafðist stefndi þess að áfrýjendum yrði gert óskipt að greiða sér 309.000 sænskar krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum frá 31. maí 1997 til greiðsludags og málskostnað. Sagði þar að stefndi reisti kröfu sína á skuldabréfi, sem áfrýjendur hafi gefið út til hans 10. júní 1991, og hafi höfuðstóll þess verið framangreind fjárhæð. Fasteign á nánar tilteknum stað í Svíþjóð hafi verið sett að veði fyrir skuldinni. Í skuldabréfinu hafi meðal annars verið ákvæði um að hún félli öll í gjalddaga ef veðið yrði selt nauðungarsölu, en það hafi verið gert 2. nóvember 1993 og ekkert fengist greitt upp í kröfu stefnda. Í stefnunni var tekið fram að málið væri höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stoð í 3. mgr. 36. gr. laga nr. 91/1991, en óumdeilt er að áfrýjendur hafi þá átt lögheimili í Kópavogi. Fyrir héraðsdómi gerðu áfrýjendur sömu kröfur og þau gera nú fyrir Hæstarétti. Þegar málið var flutt í héraði 5. nóvember 2001 um frávísunarkröfu þeirra lækkaði stefndi dómkröfu sína í 210.986 sænskar krónur. Héraðsdómari hafnaði að vísa málinu frá dómi með úrskurði 9. sama mánaðar. Með hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var upp 27. mars 2002, var fallist á kröfu stefnda eins og henni hafði verið breytt samkvæmt framansögðu.

Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 91/1991 má sækja mál til greiðslu á andvirði vöru eða þjónustu, sem hefur verið fengin eða þegin í verslun eða annarri fastri starfstöð, í þeirri þinghá, þar sem verslunin eða starfstöðin er, sé það atvinna upphaflegs skuldareiganda að láta slíka vöru eða þjónustu í té. Ef vara eða þjónusta hefur verið látin á þennan hátt í té erlendis er heimilað í 3. mgr. sömu lagagreinar að mál til greiðslu andvirðis hennar verði höfðað í þinghá þar sem sá, sem hefur kröfuna til innheimtu hér á landi, hefur starfstöð, enda hafi hann skuldheimtu að atvinnu. Þessi ákvæði, sem veita heimild til að víkja frá grunnreglum 32. gr. og 33. gr. laga nr. 91/1991 um að mál verði höfðað á heimilisvarnarþingi stefnda, verður að skýra eftir orðanna hljóðan, þannig að þau varði eingöngu mál, sem eru höfðuð til greiðslu á andvirði vöru eða þjónustu. Samkvæmt málflutningi stefnda hefur hann með höndum lánastarfsemi í Svíþjóð. Þótt slík starfsemi geti eftir atvikum talist til þjónustu er mál þetta ekki höfðað til greiðslu þóknunar fyrir hana, heldur til heimtu ætlaðrar skuldar samkvæmt viðskiptabréfi, sem stefndi kveður hafa verið gefið út til sín fyrir veittu láni. Reglur 36. gr. laga nr. 91/1991 gátu því ekki heimilað að mál þetta yrði sótt í þeirri þinghá, þar sem lögmaðurinn, sem fór með það fyrir stefnda í héraði, hefur starfstöð. Þegar af þeirri ástæðu verður að fallast á kröfu áfrýjenda um að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

Eftir þessum úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi handa hvoru þeirra eins og nánar greinir í dómsorði.

 

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi, Statens Bostadsfinansieringsaktiebolag, greiði áfrýjendum, Brynjólfi Haukssyni og Arndísi Magnúsdóttur, hvoru um sig 150.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2002.

                Mál þetta, sem dómtekið var 4. þ.m., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ágeiri Björnssyni hdl. f.h. SBAB Statens Bostadsfinansieringsaktiebolag, Karlstad, Svíþjóð, gegn Brynjólfi Haukssyni, kt. 100648-3779, og Arndísi Magnúsdóttur, kt. 130658-4749, Lækjarsmára 80, Kópavogi, með stefnu sem birt var 8. maí 2001.

                Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði dæmd in solidum til greiðslu skuldar að fjárhæð 210.986 sænskar krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 11. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 31. maí 1997 til 1. júlí 2001 en samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðar-reikningi.

                Dómkröfur stefndu eru aðallega að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts á málflutningþóknun.  Til vara að krafa stefnanda verði stórlega lækkuð og málskostnaður samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun felldur á stefnanda.

Helstu málavextir eru að 10. júní 1991 gáfu stefndu út skuldabréf til stefnanda.  Skuldabréfi ber númerið 20-04-48101-2 og er að höfuðstól 309.000 sænskar krónur.  Til tryggingar var veð í fasteigninni Borgärde 31:20 Falun.   Eignin var seld á nauðungaruppboði 2. nóvember 1993 en samkvæmt skilmálum bréfsins féll það allt í gjalddaga við nauðungaruppboðið.  Ekkert kom upp í kröfu samkvæmt skuldabréfinu af andvirði eignarinnar.

Af hálfu stefnanda segir að krafan sé byggð á lánssamningi aðila, þ.e. skuldabréfinu, skilmálum þess og á almennum reglum samninga- og kröfuréttinda um ábyrgð manna á skuldbindingum sínum.

Af hálfu stefndu er byggt á því að skuldabréfið hafi á sínum tíma verið gefið út til staðfestingar á þegar afgreiddri lánveitingu.  Lánið hafi verið veitt 3. september 1990 en skuldabréfið gefið út 10. júlí 1991.  Því beri að miða upphaf fyrningarfrests við 3. september 1990, en meira en 10 ár hafi liðið frá þeim degi og þar til stefna var birt 8. maí 2001.

                Á því er einnig byggt að skuldabréfið hafi verið gjaldfellt 2. nóvember 1993 en samkvæmt 4. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1995, þá gildi 10 ára fyrning því aðeins að því er snertir kröfur þær, er um ræðir í 2.- 4. tölul. 3. gr. laganna að skuldabréf sé út gefið, dómur genginn eða sátt gerð, eftir að krafan féll í gjalddaga, eða var orðin sjálfstæð skuldakrafa á annan veg.  Skuldin hafi því fyrnst á 4 árum samkvæmt 3. gr. laganna og hún því fyrnd.

                Þá er á því byggt að Falun Kommune hafi gengist í sjálfskuldarábyrgð vegna skuldar samkvæmt skuldabréfinu.  Hafi Falun Kommune greitt samkvæmt þeirri ábyrgð.  Stefnandi sé því að tvíkrefja sömu skuld.

                Í öllum tilvikum mótmæla stefndu vaxtakröfu stefnanda.

Fyrningarfrestur telst frá þeim degi, er krafa varð gjaldkræf, sbr. 5. gr. laga nr. 14/1995.  Á 10 árum fyrnast kröfur samkvæmt skuldabréfi, sbr. 4. gr. sömu laga.  Eins og áður sagði féll skuld stefndu samkvæmt skuldabréfi, er hér um ræðir, öll í  gjalddaga við nauðungaruppboð 2. nóvember 1993.  Stefna var birt 8. maí 2001 og var því fyrning rofin innan 10 ára.  Krafa stefnanda er byggð á skuldabréfi sem ekki ber með sér að skuldin hafi verið greidd eða felld niður með öðrum hætti.  Eru því ekki haldbærar ástæður til annars en að fallast á kröfu stefnanda að öllu leyti.

                Rétt er að stefndu greiði stefnanda óskipt 350.000 krónur í málskostnað.

                Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

                Stefndu, Brynjólfur Hauksson og Arndís Magnúsdóttir, greiði stefnanda, SBAB Statens Bostadsfinansieringsaktiebolag, 210.986 sænskar krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 11. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 31. maí 1997 til 1. júlí 2001 en samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

                Stefndu greiði stefnanda óskipt 350.000 krónur í málskostnað.