Hæstiréttur íslands
Mál nr. 574/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Föstudaginn 9. október 2009. |
|
Nr. 574/2009. |
Ákæruvaldið(Stefán Eiríksson lögreglustjóri) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan áfrýjunarfrestur í máli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-1065/2009 stendur yfir, allt til fimmtudagsins 5. nóvember 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að honum verði gert að sæta farbanni.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Úrskurður héraðsdóms verður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2009.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, á meðan áfrýjunarfrestur skv. 199. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, í máli héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-1065/2009 stendur yfir, allt til fimmtudagsins 5. nóvember 2009 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að dómfelldi hafi setið í gæsluvarðhaldi frá 30. september sl. Kærða hafi verið veitt reynslulausn af 40 daga eftirstöðvum dóms Hæstaréttar frá 18. desember 2008 þann 2. febrúar 2009. Þá var honum vísað úr landi og bönnuð endurkoma til Íslands næstu 5 ár með ákvörðun Útlendingastofnunar frá 9. janúar 2009. Kærði kom til landsins í apríl síðastliðnum þrátt fyrir framangreint endurkomubann.
Kærði var í dag, með dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli S-1065/2009 dæmdur til fangelsisrefsingar fyrir brot gegn útlendingalögum nr. 96/2002.
Er nú farið fram á að kærða verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi með vísan til þess að hætta sé á að hann komi sér undan fangelsisrefsingu, á meðan á áfrýjunarfresti skv. 199. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, stendur, nema að afplánun geti hafist fyrir þann tíma.
Með vísan til framangreinds, áður framlagðra krafna og úrskurða á hendur kærða um gæsluvarðhald áður en dómur hafi verið kveðinn upp í dag í máli S-1065/2009, þess dóms, b-liðar 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga um meðferð sakamála er þess farið á leit að krafan nái fram að ganga.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum fyrr í dag, var dómfelldi sakfelldur fyrir og dæmdur til að sæta 70 daga fangelsi. Hefur hann tekið sér lögmæltan áfrýjunarfrest í málinu.
Samkvæmt 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008, lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í málinu. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á áfrýjunarfresti samkvæmt 199. gr. laganna stendur. Dómfelldi hefur áður sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli b liðar 1. mgr. 95. gr. laganna. Með tilliti til þess og með því að skilyrði 3. mgr. 97. gr. eru uppfyllt, verður krafan tekin til greina eins og hún er fram sett.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Dómfelldi, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi meðan áfrýjunarfrestur í máli héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-1065/2009 stendur yfir, allt til fimmtudagsins 5. nóvember 2009 kl. 16:00.