Hæstiréttur íslands
Mál nr. 81/2001
Lykilorð
- Skuldabréf
- Skaðabætur
- Umboð
- Fjöleignarhús
|
|
Fimmtudaginn 21. júní 2001. |
|
Nr. 81/2001. |
Landsbanki Íslands hf. (Jakob R. Möller hrl.) gegn Húsfélaginu Glæsibæ (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Skuldabréf. Skaðabætur. Umboð. Fjöleignarhús.
F gaf út skuldabréf í nafni H. Í máli, sem rekið var samkvæmt XVII. kafla þágildandi laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði, var H dæmdur til að greiða kröfu samkvæmt skuldabréfinu, enda taldi dómari að varnir H, er lutu að umboðsskorti F, kæmust ekki að í málinu. K fékk framselda dómkröfu L á hendur H og lýsti yfir skuldajöfnuði gagnvart H. Höfðaði H í framhaldinu mál á hendur L og krafðist skaðabóta á þeirri forsendu að honum hefði borið sýkna í málinu ef varnir hans, er lutu að umboðsskorti F, hefðu komist að í málinu. Fallist var á að H hefði ekki orðið bundinn af nafnritun F undir skuldabréfið og að honum bæru af þeim sökum bætur. Var ekki fallist á þá málsástæðu L að bótaréttur H væri háður því að L hefði sýnt af sér saknæma háttsemi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. mars 2001. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Hinn 1. október 1989 var gefið út skuldabréf í nafni stefnda til Kristjáns Stefánssonar að fjárhæð 200.000 krónur, sem skyldi greiðast á fjórum árum með átta jöfnum afborgunum. Var skuldabréfið undirritað af Finnboga Ásgeirssyni „pr. pr. Húsfélag Glæsibæjar Álfheimum 74 ...“. Kristján framseldi skuldabréf þetta 13. sama mánaðar til áfrýjanda og gekkst jafnframt í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu þess. Áfrýjandi höfðaði mál í október 1990 á hendur stefnda og Kristjáni til greiðslu skuldarinnar, en hún hafði verið í vanskilum frá fyrsta gjalddaga. Var málið höfðað samkvæmt XVII. kafla þágildandi laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði. Stefnda var með dómi bæjarþings Reykjavíkur 24. október 1991 gert að greiða skuldina ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði, enda taldi héraðsdómari að varnir hans, er lutu að umboðsskorti Finnboga, kæmust ekki að í málinu. Dómi þessum var ekki áfrýjað. Kristján Stefánsson mun hafa gert dómsátt í málinu við áfrýjanda sama dag og dómurinn gekk. Tók dómurinn því einungis til greiðsluskyldu stefnda.
Kristján Stefánsson mun hafa greitt skuld samkvæmt áðurnefndri dómsátt, enda framseldi áfrýjandi honum kröfu á hendur stefnda samkvæmt dóminum með áritun á endurriti hans 14. maí 1997. Kristján mun síðan hafa beint yfirlýsingu til stefnda 26. maí 1998 um skuldajöfnuð kröfunnar við kröfur stefnda á hendur sér. Mun stefndi ekki hafa varist skuldajöfnuði að öðru leyti en um vexti, sem hann taldi fyrnda að hluta. Liggur fyrir í málinu kvittun 15. mars 2000 vegna fullnaðaruppgjörs kröfu Kristjáns á hendur stefnda, en samkvæmt henni greiddi stefndi hana með alls 676.148 krónum. Stefndi höfðaði mál þetta á hendur áfrýjanda sama dag til heimtu þeirrar fjárhæðar í skaðabætur samkvæmt 2. mgr. 119. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og hliðstæðu ákvæði í eldri lögum nr. 85/1936, þar sem hann hafi farið á mis við að koma að vörnum í fyrra dómsmálinu vegna reglna í XVII. kafla síðarnefndu laganna um réttarfarshagræði í skuldabréfamálum.
II.
Fallast verður á með héraðsdómi að stefndi hafi ekki orðið bundinn af nafnritun Finnboga Ásgeirssonar undir fyrrnefnt skuldabréf vegna ákvæða 9. gr. reglugerðar nr. 280/1976 um samþykktir fyrir húsfélög, sbr. 15. gr. þágildandi laga nr. 59/1976 um fjölbýlishús. Með því að stefndi varð aldrei skuldbundinn af undirritun Finnboga gat áfrýjandi ekki unnið rétt gagnvart honum á grundvelli traustfangsreglna um viðskiptabréf. Stefndi fékk ekki komið að vörnum á þessum grunni í máli áfrýjanda á hendur honum, sem lauk með áðurnefndum dómi bæjarþings Reykjavíkur 24. október 1991, en með þeim hefði honum borið sýkna í málinu.
Eins og áður greinir framseldi áfrýjandi Kristjáni Stefánssyni kröfu sína á hendur stefnda samkvæmt dóminum frá 24. október 1991 eftir að Kristján hafði greitt áfrýjanda kröfu þess síðarnefnda á hendur sér samkvæmt dómsátt, sem þeir gerðu sama dag. Kristján, sem var ekki skuldari samkvæmt dóminum, beitti síðan hinni framseldu kröfu til skuldajafnaðar við stefnda. Gegn þessu gat stefndi ekki komið við vörnum á fyrrgreindum grundvelli, en það hefði hann á hinn bóginn getað gert ef Kristján hefði sem ábyrgðarmaður samkvæmt skuldabréfinu sótt hann til greiðslu framkröfu í nýju dómsmáli. Samkvæmt þessu var stefndi knúinn til að greiða kröfu samkvæmt dóminum án þess að koma að vörnum gegn henni, þótt áfrýjandi hafi ekki sjálfur gert reka að innheimtu hennar hjá stefnda.
Áfrýjandi heldur því fram að til heimtu skaðabóta samkvæmt 2. mgr. 119. gr. laga nr. 91/1991 þurfi stefndi að sýna fram á sök af hans hálfu eða skaðabótaskyldu á öðrum grundvelli. Um þetta verður að líta til þess að með XVII. kafla laga nr. 91/1991 og samsvarandi reglum í eldri lögum er kröfuhafa samkvæmt víxli, tékka eða skuldabréfi veitt það réttarfarshagræði að einungis er unnt að hafa uppi nánar tilteknar varnir í máli um kröfu hans. Er þetta gert til að stuðla að skilvirkni í rekstri dómsmáls til heimtu skuldar samkvæmt skjali af þessum toga, en ekki til að koma í veg fyrir að endanlegt uppgjör milli kröfuhafa og skuldara verði reist á öllum þeim reglum, sem kunna að geta varðað viðskipti þeirra. Í 2. mgr. 119. gr. laga nr. 91/1991 felst þannig sérstök bótaregla að því leyti að þeim, sem heimtir bætur samkvæmt henni, nægir að sýna fram á að hann hafi vegna ákvæða 118. gr. laganna farið á mis við að koma að vörnum, sem ella hefðu orðið honum að haldi, en ekki þarf hann að auki að sýna fram á saknæma háttsemi þess, sem neytti hagræðis samkvæmt síðastnefndum ákvæðum í málsókn á hendur honum. Verður því ekki fallist á fyrrgreinda röksemd áfrýjanda.
Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Landsbanki Íslands hf., greiði stefnda, Húsfélaginu Glæsibæ, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 14. nóvember síðastliðinn, er höfðað með stefnu, þingfestri 30. mars 2000, af Húsfélaginu Glæsibæ, kt. 430487-2139, Skipholti 50d, Reykjavík, gegn Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, Austurstræti 11, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess, að stefnda verði gert að greiða stefnanda 676.148 krónur, auk vanskilavaxta samkvæmt 10. gr., sbr. 12. gr. vaxtalaga, frá 26. maí 1998 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.
Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu, en til vara, að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.
I.
Málavextir
Þann 7. desember 1988 keypti maður að nafni Finnbogi Ásgeirsson verslunarrými á miðhæð C-álmu fasteignarinnar nr. 74 við Álfheima hér í borg, Glæsibæjar. Finnbogi hafði verið formaður stefnanda, en var starfsmaður hans, er umrædd kaup áttu sér stað. Hinn 23. janúar 1989 var haldinn fundur með stjórn og eigendum húseignarinnar Glæsibæjar. Var Finnbogi þar mættur. Er bókað í fundargerðarbók, að hann hafi skýrt svo frá, að hann hefði fest kaup á áðurnefndu skrifstofuhúsnæði, sem væri 18 fermetrar að stærð, fyrir 1.050.000 krónur. Væri hann fús til að selja stefnanda eignina á sömu kjörum. Var ákveðið að taka ákvörðun um kaupin í kjölfar framvindu leigu og/eða sölu nánar tiltekins sameiginlegs rýmis í kjallara húseignarinnar.
Með kaupsamningi, dagsettum 9. október 1989, gerði Finnbogi samning fyrir hönd stefnanda um kaup á nefndu verslunarrými á miðhæð C-álmu fasteignarinnar. Samkvæmt kaupsamningnum er stærð eignarinnar 13 fermetrar og kaupverð 900.000 krónur. Í kafla kaupsamnings um greiðslutilhögun segir, að skuld seljanda, Kristjáns Stefánssonar, við stefnanda falli niður með verðtryggðum skuldabréfum til 5 ára, útgefnum af kaupanda. Í tengslum við kaupin gaf Finnbogi út skuldabréf, dagsett 1. október 1989, að fjárhæð 200.000 krónur, fyrir hönd stefnanda. Skyldi bréfið greiðast upp á fjórum árum og fyrsti gjalddagi vera 1. apríl 1990. Eigandi bréfsins og seljandi umræddrar fasteignar framseldi það til stefnda í máli þessu 13. október 1989 með sjálfskuldarábyrgð framseljanda. Þar sem bréfið fór í vanskil höfðaði stefndi mál á hendur stefnanda og sjálfskuldarábyrgðarmanni, Kristjáni Stefánssyni, með áskorunarstefnu, þingfestri 6. nóvember 1990. Sátt varð með Kristjáni og stefnda 24. október 1991, en vörnum haldið uppi af hálfu stefnanda og á því byggt, að Finnbogi hefði ekki haft umboð stjórnarinnar til að kaupa umrætt húsnæði og væru allar skuldbindingar, sem gerðar voru af honum, ógildar gagnvart félaginu og samningarnir á hans ábyrgð. Hefði hann farið út fyrir umboð sitt, þegar hann gekk frá kaupum á umræddu húsnæði og samþykkti skuldaskjöl af því tilefni. Teldi stefndi, að hér ætti við sú almenna regla, sem leidd væri af 1. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1936, með gagnályktun, að fari umboðsmaður út fyrir umboð sitt, skuldbindi gerningur ekki umbjóðanda. Væri Finnbogi því persónulega ábyrgur fyrir skuldbindingum sínum samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sömu laga. Af hálfu stefnanda í málinu, stefnda í þessu máli, var mótmælt, að ofangreind vörn kæmist að í málinu. Var á það fallist af hálfu dómsins og húsfélagið dæmt til greiðslu 225.065,70 króna, ásamt dráttarvöxtum frá 1. apríl 1990 til greiðsludags og málskostnaði, að fjárhæð 65.000 krónur.
Þann 14. maí 1997 voru dómkröfur málsins framseldar af Landsbanka Íslands til Kristjáns Stefánssonar, eftir að hinn síðarnefndi hafði gert upp skuld sína við stefnda samkvæmt dómsáttinni frá 24. október 1991. Gerði stefnandi upp skuldina við Kristján 26. maí 1998 með greiðslu 676.148 króna samkvæmt kvittun, dagsettri 15. mars 2000. Stefnandi höfðaði mál á hendur stefnda með stefnu, birtri 8. mars 1999, en með úrskurði 15. september sama ár var því vísað frá að kröfu stefnda vegna vanreifunar. Stefndi hafði einnig uppi frávísunarkröfu í þessu máli, en með úrskurði dómsins 13. október síðastliðinn var henni hafnað.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af hálfu stefnanda er byggt á sérstakri bótareglu, sem felist í því, að stefnandi samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 geti meinað stefnda að koma að öðrum vörnum, en þar eru sérstaklega tilgreindar, gegn því að bæta það tjón, sem af slíku leiði. Sé tilgangurinn með þessu ákvæði sá að koma í veg fyrir, að tafir verði á rekstri mála sem þessara, en aðhaldið fyrir stefnanda að misbeita ekki rétti sínum, sé að bæta allt tjón, sem af því leiði. Samkvæmt þessu sé grundvöllur mála af þessu tagi að komast að niðurstöðu um það, hvort mál hefði farið á annan veg, hefðu allar varnir komist að. Afmarkist tjónið síðan af reglunni conditio sine qua non, þ.e.a.s. hvernig hefði gagnaðili orðið settur fjárhagslega, hefðu allar varnir hans komist að í upphaflegu máli aðila.
Samkvæmt 15. gr. laga nr. 59/1976 skyldu nánari reglur, en lögin höfðu að geyma, vera samkvæmt samþykktum, sem félagsmálaráðuneytið setti með reglugerð. Sé reglugerðin nr. 280/1976 og samkvæmt 9. gr. hennar þurfi tvo stjórnarmenn saman til að skuldbinda húsfélagið við ráðstafanir sem þessar og þurfi annar að vera formaður eða varaformaður. Engum þinglýstum samþykktum húsfélagsins hafi verið fyrir að fara og gildi reglugerðin því alfarið, sbr. 15. gr. laganna. Undirskrift Finnboga Ásgeirssonar undir skuldabréfið hafi því ekki getað skuldbundið stefnanda. Hafi engin fundarsamþykkt stjórnar húsfélagsins eða húsfundar gefið Finnboga umboð til ráðstafananna.
Verði ekki fallist á varnir, byggðar á umboðsskorti, er á því byggt, með vísan til þess, sem að framan er rakið, að heimildarskorti hafi verið fyrir að fara. Hafi verið gáleysislegt af stefnda að taka við bréfi, sem var svo bjagað að formi til, eins og að framan sé rakið, að hann geti ekki borið fyrir sig traustfangsreglur. Verði stefndi því að sæta vörnum, byggðum á heimildarskorti.
Verði ekki fallist á efni bótareglunnar, eins og að framan er lýst, og verði talið nauðsynlegt að draga inn í málið lögskiptin að baki útgáfu bréfsins, m.a. til að herða á sönnunarkröfum um meint tjón, sé eftirfarandi tekið fram:
a) Stefnandi hafi aldrei fengið afhenta eign þá, sem var tilefni útgáfu bréfsins.
b) Stefnandi hafi aldrei tekið ákvörðun um að ráðast í þessi kaup.
c) Eignin hafi verið seld á uppboði og þá fallið niður allar kvaðir og veðbönd, sem á henni hvíldu og ekki var sérstaklega samið um, að stæðu áfram.
Tjón stefnanda sé sannað með framlagðri kvittun dómhafa og því, að stefnandi hafi aldrei fengið nein verðmæti af neinu tagi fyrir það bréf sem gefið var út.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir á því, að skuldabréf það, sem er grundvöllur þessa máls, hafi verið gefið út af framkvæmdastjóra stefnanda með stoð í samþykkt fundar í húsfélaginu í janúar 1989 og samþykkt stjórnar félagsins. Sé þetta staðfest í greinargerð stefnanda í skuldamálinu, sem rekið var út af vanskilum á greiðslu skuldabréfsins. Þar sé einnig staðfest, að framkvæmdastjórinn hafi farið út fyrir umboð sitt, er hann gekk frá kaupum á húsnæði fyrir húsfélagið og gaf út skuldaskjöl í því sambandi. Þó svo kunni að vera, að starfsmaður stefnanda hafi farið út fyrir umboð sitt með útgáfu skuldabréfsins, leiði það ekki til þess, að grandlaus framsalshafi þurfi að sæta því að skuldaviðurkenningin teljist óskuldbindandi fyrir umbjóðandann. Leiði l. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1936 ekki til þeirrar niðurstöðu. Öllu heldur sé umboðsskorturinn á ábyrgð þess, sem gaf út skuldabréfið, án nægilegs umboðs.
Framkvæmdarstjórinn hafi séð um umfangsmikil fjármál húsfélagsins og í þessu tilviki átt í viðskiptum fyrir hönd félagsins við einn af eignaraðilum í húsfélaginu um þekktan eignarhluta í húsinu. Hér hafi ekki verið um að ræða hefðbundin störf húsfélags samkvæmt markmiðum laga, heldur hrein fasteignaviðskipti með ágóða í huga. Viðsemjandi hans hafi verið hæstaréttarlögmaður og einn af húseigendum, sem þekkti vel til framkvæmdastjórans. Hafi lögmaðurinn staðfest gildi skuldbindingarinnar með því að framselja hana til stefnda til kaups. Hefði húsfélagsfundur talið, að verið væri að fremja ólöglegan verknað, hefði viðkomandi verið í lófa lagið að biðja um opinbera rannsókn á málinu og láta lögbrjóta sæta ábyrgð gerða sinna.
Viðskiptabréfsreglur fari fyrst að virka, þegar viðskiptabréfið hafi verið framselt. Sé framsalshafi grandlaus um, að bréfið sé gallað, geti hann gengið að skuldara, sem ekki geti borið gallann fyrir sig. Nefnist það mótbárumissir skuldara. Þó þessi regla gildi á milli skuldara og framsalshafa, gildi almennar reglur á milli skuldara og kröfuhafa, það er þess aðila, sem bréfið er gefið út til.
Staðgöngumaður stefnanda hafi verið framkvæmdastjóri hans. Hafi hann starfað við daglegan rekstur atvinnuhúsnæðis undir stjórn löglega kjörinnar stjórnar, sem auk þess hafi haft eftirlit með því, að hann framkvæmi fyrirmæli stjórnarinnar. Séu kaup húsnæðis og greiðsla fyrir það liður í viðskiptum.
Varðandi varakröfu er mótmælt kröfu um greiðslu á málskostnaði, sem stefnandi hafi auðveldlega getað komist hjá að greiða með því að innleysa fjárkröfuna á hendur sér í upphafi og síðan haft í beinu framhaldi uppi endurkröfu gegn þeim, sem bar ábyrgð á hugsanlegu tjóni, sem stefnandi kynni að verða fyrir eða hafði orðið fyrir. Sama eigi við um dráttarvaxtakröfu eftir dómsuppkvaðningu. Verði aðalkröfu hafnað, sé því gerð krafa um að stefnufjárhæðin lækki um þessa tvo kröfuliði.
IV.
Forsendur og niðurstaða
Svo sem áður greinir var hinn 23. janúar 1989 haldinn fundur með stjórn og eigendum húseignarinnar Glæsibæjar, Álfheimum 74 hér í borg. Er bókað í fundargerðarbók, að umræddur Finnbogi Ásgeirsson hafi skýrt svo frá, að hann hefði fest kaup á áðurnefndu skrifstofuhúsnæði, sem væri 18 fermetrar að stærð, fyrir 1.050.000 krónur. Væri hann fús til að selja stefnanda eignina á sömu kjörum. Var ákveðið að taka ákvörðun um kaupin í kjölfar framvindu leigu og/eða sölu nánar tiltekins sameiginlegs rýmis í kjallara húseignarinnar. Í bréfi framkvæmdastjóra stefnanda, dagsettu 16. desember 1989, kemur meðal annars fram, að stjórn stefnanda hafi haft heimild fundarins til að ganga inn í kaupsamning Finnboga og Kristjáns Stefánssonar frá 7. desember 1988. Hafi heimildin verið samþykkt á grundvelli þeirra upplýsinga, sem Finnbogi hefði gefið á fundinum, að húsnæðið væri um 18 fermetrar að stærð og kaupverðið 1.050.000 krónur, en komið hafi í ljós, að kaupverðið var 1.350.000 krónur og stærð húsnæðisins um 13 fermetrar. Væru allar ráðstafanir Finnboga um kaup á umræddu skrifstofuhúsnæði stefnanda með öllu óviðkomandi og algjörlega á ábyrgð hans sjálfs, enda hefði hann aldrei haft umboð til að skuldbinda stefnanda á þennan hátt.
Af gögnum málsins er ljóst, að Finnbogi Ásgeirsson var formaður stefnanda frá því í september 1988 og þar til í febrúar 1989, en þá gerðist hann starfsmaður hans. Í uppsagnarbréfi Finnboga, dagsettu 27. október 1989, kemur fram, að hann hafi unnið um fjórar til fimm klukkustundir á dag í hverri viku í þágu stefnanda, en að auki tekið að sér þrif, vaktað húsið og séð um ýmislegt varðandi daglegan rekstur, þar á meðal greiðslu reikninga. Var Finnbogi með tékkhefti á nafni stefnanda og hafði heimild til að rita tékka úr því.
Samkvæmt 15. gr. laga nr. 59/1976 um fjölbýlishús, sem voru í gildi á þeim tíma, sem mál þetta tekur til, skyldu nánari reglur um stjórn húsfélags, reikninga, sameiginlegan hita, afnot sameiginlegs húsrýmis, endurskoðun o. fl., vera ákveðnar í samþykktum, sem félagsmálaráðuneytið setti með reglugerð. Skyldu samþykktir þessar gilda, hefði húsfélagið ekki sett sér aðrar samþykktir og þinglýst þeim. Ráðuneytið gaf út reglugerð 25. júní 1976 samkvæmt nefndri lagaheimild. Segir í 9. gr. hennar, að húsfélagið sé skuldbundið með undirritun formanns eða varaformanns og eins annars stjórnarmanna. Engum þinglýstum samþykktum húsfélagsins var fyrir að fara og gilti reglugerðin því, hvað stefnanda varðaði, samkvæmt 15. gr. laga nr. 59/1976.
Enda þótt ekki komi fram í fundargerð stefnanda frá 23. janúar 1989, að stjórn stefnanda hafi samþykkt að ganga inn í kaupsamning Finnboga Ásgeirssonar og Kristjáns Stefánssonar frá 7. desember 1988, verður ráðið af bréfi framkvæmdastjóra stefnanda frá 16. desember 1989, að svo hafi verið, að gefnum tilteknum forsendum. Hins vegar verður hvergi ráðið af gögnum málsins, að Finnbogi hafi haft heimild stjórnarinnar til að skuldbinda stefnanda með kaupum á fasteigninni eða samþykkja skuldaskjöl í tengslum við þau, en um var að ræða meiri háttar ráðstöfun. Er fallist á með stefnanda, að Finnboga hafi skort umboð til útgáfu skuldabréf þess, sem mál þetta er sprottið af og gefið var út í tengslum við umrædd fasteignarkaup. Bar hann þar af leiðandi persónulega ábyrgð gagnvart stefnda á skuldbindingum samkvæmt því, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Samkvæmt 2. mgr. 119. gr. laga nr. 91/1991 getur stefndi, sem fer á mis við að koma að vörnum í máli vegna ákvæða 118. gr. sömu laga, höfðað mál gegn stefnanda eftir almennum reglum til heimtu skaðabóta. Stefndi mótmælti, að varnir þær, sem stefnandi hafði uppi í máli því, sem dæmt var í bæjarþingi Reykjavíkur 24. október 1991 og fyrr greinir, sem voru reistar á því, að Finnbogi Ásgeirsson hefði farið út fyrir umboð sitt, er hann gaf skuldabréfið út, kæmust að í málinu. Var þar af leiðandi í ekki fjallað efnislega um þá málsástæðu stefnanda í því máli. Dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu, að Finnboga Ásgeirsson hafi skort umboð stefnanda til útgáfu skuldabréfs þess, er mál þetta á rætur sínar að rekja til. Hefði sú niðurstaða leitt til sýknu stefnanda í umræddu bæjarþingsmáli.
Ljóst er af gögnum málsins, að stefnandi fékk aldrei afhenta þá fasteign, sem Finnbogi festi kaup á greint sinn og meðal annars var greitt fyrir með útgáfu skuldabréfsins. Stefnandi neyddist hins vegar til að leysa til sín skuld samkvæmt dóminum frá 24. október 1991 með greiðslu 676,148 króna, sem er sannanlegt tjón hans vegna framangreindra lögskipta.
Með vísan til framanskráðs er fallist á kröfu stefnanda um greiðslu umræddrar skuldar og ber að dæma stefnda til greiðslu hennar.
Stefnandi höfðaði mál á hendur stefnda með stefnu birtri 8. mars 1999, en því máli var vísað frá dómi með úrskurði 15. september sama ár. Verður eigi séð, að stefnandi hafi, fyrr en með málsókn þessari, krafið stefnda um greiðslu vegna umrædds tjóns síns. Þykir því rétt, með vísan til 4. mgr. 9. gr., sbr. 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, að hin dæmda fjárhæð beri dráttarvexti samkvæmt III. kafla laganna frá 8. mars 1999 til greiðsludags.
Eftir þessum úrslitum og með skírskotun til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.
Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Landsbanki Íslands hf., greiði stefnanda, Húsfélaginu Glæsibæ, 676.148 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. mars 1999 til greiðsludags og 150.000 krónur í málskostnað.
Helgi I. Jónsson