Hæstiréttur íslands
Mál nr. 464/2004
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 28. apríl 2005. |
|
Nr. 464/2004. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Sigurði Einari Stefánssyni (Lárentsínus Kristjánsson hrl.) |
Líkamsárás. Skilorð. Sératkvæði.
S var sakfelldur fyrir að hafa hrint A með þeim afleiðingum að hann féll aftur fyrir sig og lenti með höfuðið á gangstéttarbrún, en ósannað þótti að S hefði greitt A hnefahögg í andlitið. Talið var að þó brot S yrði ekki metið sérstaklega hættulegt í skilningi 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 væri það réttilega heimfært til þess ákvæðis vegna þeirra alvarlegu afleiðinga sem það hafði fyrir heilsu A. Var S dæmdur í fimm mánaða fangelsi og var refsingin skilorðsbundin til þriggja ára.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. nóvember 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms og að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, til vara ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar málsins en að því frágengnu að refsing hans verði milduð.
Óumdeilt er að A varð fyrir líkamstjóni er hann féll aftur fyrir sig og lenti á gangstéttarbrún fyrir utan Hótel Borgarnes við Egilsgötu í Borgarnesi aðfaranótt laugardagsins 20. mars 2004. Þrátt fyrir að kröfugerð ákærða sé hagað með framangreindum hætti verður fyrst að fjalla um kröfu hans um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins. Sú krafa er á því reist að vettvangur hafi ekki verið kannaður við meðferð málsins í héraði og skorti á upplýsingar um aðstæður á vettvangi umrætt sinn. Þá hafi lögregla ekki reynt nægilega að hafa uppi á hugsanlegum vitnum að atvikum. Ekki verður séð að sakflytjendur í héraði hafi óskað eftir að vettvangur yrði skoðaður, en fram er komið að bæði þeir og dómari, sem og ákærði og vitni voru staðkunnug. Ekki verður heldur ráðið af gögnum málsins að fleiri vitnum hafi verið til að dreifa en þeim er gáfu skýrslur við málsmeðferðina. Að þessu virtu sem og framburði ákærða og vitna telst meðferð málsins í héraði ekki hafa verið haldin slíkum annmörkum að heimvísun varði.
Einungis eitt vitni, B, gestur á dansleiknum á hótelinu, bar að hann hafi séð ákærða slá A högg í andlit með þeim afleiðingum að hann féll aftur fyrir sig. Þrátt fyrir að fram sé komið að A hafi hlotið áverka í andliti þykir, vegna eindreginnar neitunar ákærða, varhugavert að telja sannað að ákærði hafi veitt A högg í andlit umrætt sinn, sbr. 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Ákærði telur einnig ósannað að hann hafi hrint A í götuna með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Í því sambandi beri að hafa sérstaklega í huga ölvunarástand A umrætt sinn og að A hafi fyrst ráðist að sér og eiginkonu sinni við leigubifreið þar fyrir utan hótelið. Ákærði viðurkenndi þó fyrir dómi að hafa ýtt A með báðum höndum, en kvaðst eigi að síður ekki hafa fylgst með því hvort A féll við það í götuna þar sem ákærði hafi strax farið í leigubifreiðina. Af framburði vitna, sem rakin eru í héraðsdómi, verður hins vegar ekki ráðið að A hafi ráðist á ákærða eða eignkonu hans þótt fram sé komið að A, sem var verulega undir áhrifum áfengis, hafi „danglast“ utan í ákærða, eins og segir í héraðsdómi. Af framburði vitnanna B og C leigubifreiðarstjóra, og að nokkru leyti vitnisins D dyravarðar, er í ljós leitt að þetta varð tilefni þess að ákærði, sem var æstur í garð A, vatt sér að A og hrinti honum svo harkalega að hann missti fótanna og féll í götuna svo illa að hann missti meðvitund. Gerðist ákærði þannig sekur um líkamsárás. Þá er sannað, með framburði framangreindra vitna og framburði lækna, sem raktir eru í héraðsdómi, að A hlaut við það þá áverka sem getið er um í ákæru og framlögðum áverkavottorðum.
Fallist er á með héraðsdómi að brot ákærða verði ekki metið sérstaklega hættulegt í skilningi 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, en þegar virtar eru afleiðingar af háttsemi hans fyrir heilsu A, sem varð bæði fyrir mari á heila og heyrnarskerðingu, er hún réttilega heimfærð undir það lagaákvæði. Ekki er fallist á með ákærða að það breyti nokkru í því sambandi þótt ekki verði á þessu stigi fullyrt hversu mikinn bata A muni fá í framtíðinni. Sakarferill ákærða er rakinn í hinum áfrýjaða dómi, en brot hans er framið áður en dómur Héraðsdóms Vesturlands 10. ágúst 2004 gekk. Refsingu ákærða ber að ákveða að teknu tilliti til ákvæða 60. gr., og 78. gr., sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og gert er í hinum áfrýjaða dómi. Að því virtu og atvikum öllum er refsing ákærða ákveðin í einu lagi fangelsi í fimm mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Sigurður Einar Stefánsson, sæti fangelsi í fimm mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Lárentsínusar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.
Sératkvæði
Árna Kolbeinssonar
Ég er sammála meirihluta dómara um að meðferð málsins í héraði sé ekki haldin slíkum annmörkum að heimvísun varði. Ég tel með vísan til forsendna héraðsdóms sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi aðfaranótt laugardagsins 20. mars 2004, fyrir utan Hótel Borgarnes, slegið A í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll aftur fyrir sig með höfuðið á gangstéttarbrún. Þá er ég sammála forsendum héraðsdóms fyrir heimfærslu á broti ákærða til refsiákvæðis sem og fyrir ákvörðun refsingar. Ég tel því að staðfesta beri hinn áfrýjaða dóm með vísan til forsendna hans.
Ég er sammála meirihluta dómara um áfrýjunarkostnað.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 18. október 2004.
Mál þetta höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 30. júlí 2004 á hendur ákærða, Sigurði Einari Stefánssyni, [KT.], Þórunnargötu 9, Borgarnesi. Málið var dómtekið 14. október s.l. að lokinni aðalmeðferð.
Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða „fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 20. mars 2004, fyrir utan Hótel Borgarnes við Egilsgötu í Borgarnesi, slegið [A], [kt.], í andlitið með krepptum hnefa þannig að hann féll aftur fyrir sig og lenti á gangstéttarbrún, með þeim afleiðingum að hann hlaut glóðarauga, bólgna vör, skurð á hnakka, áverka á heila og missti heyrn á vinstra eyra.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Skipaður verjandi ákærða, Ingi Tryggvason hdl., hefur fyrir hönd ákærða gert þær kröfur að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og sakarkostnaður felldur á ríkissjóð, en til vara að refsing verði ákveðin svo væg sem lög frekast leyfa.
I.
Aðfaranótt 20. mars 2004, um kl. 03:30, barst lögreglunni í Borgarnesi tilkynning símleiðis um slasaðan mann við Hótel Borgarnes. Lögregla kallaði þegar út vakthafandi lækni og hélt á vettvang. Er lögregla kom að Hótel Borgarnesi lá hinn slasaði, A, á bifreiðarstæði skammt frá inngangi hótelsins og höfðu dyravörður hótelsins ásamt nokkrum gestum þess veitt honum aðhlynningu.
Í frumskýrslu lögreglu er bókað að einhver blæðing hafi verið sjáanleg úr aftanverðu höfði A og jafnframt hafi hann verið með áverka í andliti. Þá hafi meðvitund A verið takmörkuð og hann ekki verið viðræðuhæfur af þeim sökum.
Á vettvangi skýrði vitni lögreglu frá því að A hefði skömmu áður, eftir viðskipti við ákærða, fallið í jörðina og legið hreyfingarlaus eftir.
Læknir skoðaði hinn slasaða á vettvangi. Að þeirri skoðun lokinni var hann færður inn í sjúkrabifreið og fluttur á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi til frekari aðhlynningar. Við rannsókn þar kom í ljós að hann hafði hlotið alvarleg höfuðmeiðsl, en meiðslunum er nánar lýst í kafla IV.
II.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði umrædda nótt verið á dansleik á Hótel Borgarnesi. Eftir að dansleiknum lauk hefði hann farið út af hótelinu ásamt unnustu sinni og staðnæmst einhverja stund á tröppum hótelsins og rætt við fólk sem þar var. Hann hefði því næst haft tal af leigubifreiðarstjóra, C, sem þá hefði verið á leið frá hótelinu með farþega, og spurt hann eftir því hvort hann kæmi aftur að hótelinu. C hefði svarað því játandi og ákærði þá ákveðið að bíða eftir leigubifreiðinni.
Þegar leigubifreiðin kom aftur sagðist ákærði hafa gengið að henni ásamt unnustu sinni. Hann hefði verið að opna hurð þegar maður hefði komið niður tröppur hótelsins og ýtt við honum með þeim afleiðingum að hann skall á leigubifreiðinni. Ákærði hefði þá spurt manninn hvort ekki væri allt í lagi en maðurinn brugðist við með því að löðrunga hann. Ákærði sagðist þá hafa ýtt við manninum en síðan sest inn í leigubifreiðina.
Ákærði neitaði því alfarið að hafa slegið umræddan mann, A. Ákærði ítrekaði að hann hefði einungis ýtt við manninum og því næst sest inn í leigubifreiðina. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa séð manninn falla í jörðina. Honum hefði hins vegar verið litið út um hliðarrúðu bifreiðarinnar eftir að hann var sestur inn í hana og þá séð manninn liggja á jörðinni. Hann hefði því beðið C um að athuga hvort ekki væri allt í lagi með manninn. Það hefði C gert og hefði ákærða skilist á C þegar hann kom til baka að ekkert amaði að manninum.
Ákærði sagðist ekki þekkja A og kvaðst engin samskipti hafa haft við hann inni á hótelinu meðan á dansleiknum stóð.
Aðspurður um ástand sitt er atvik máls gerðust svaraði ákærði því til að hann hefði verið undir áhrifum áfengis, þó ekki svo miklum að áhrif hefðu haft á minni hans af atburðum næturinnar.
III.
Vitnið A skýrði svo frá fyrir dómi að það hefði verið á umræddum dansleik á Hótel Borgarnesi og sagði vitnið dansleikinn hafa gengið áfallalaust fyrir sig. Vitnið bar að það hefði ekki lent í neinum útistöðum á dansleiknum og enga áverka hlotið meðan á honum stóð.
Vitnið kvaðst reka minni til þess að hafa klætt sig í frakka eftir að dansleiknum lauk. Næst myndi vitnið eftir sér á hádegi daginn eftir. Þá hefði það verið mikið marið í andliti, heyrnarlaust á vinstra eyra, með eitthvað skerta heyrn á því hægra og með stanslaust suð fyrir eyrum. Á vitninu var að skilja að eitthvað örlítið hefði heyrnin á vinstra eyra lagast á þeim tíma sem liðinn væri frá umræddum atburðum en alls ekki nóg til að einhverju gagni kæmi. Jafnframt kom fram hjá vitninu að það hefði frá því það hlaut áverka sína þjáðst af jafnvægisleysi og gengi nú við staf.
Ástandi sínu umrædda nótt lýsti vitnið svo að það hefði drukkið 3-4 glös um nóttina og það því trúlega verið eitthvað ölvað. Hins vegar var á vitninu að skilja að minnisleysi þess mætti líklega rekja til þeirra áverka sem það hlaut um nóttina, ekki áfengisneyslunnar.
Fram kom hjá vitninu að það þekkti ákærða ekkert.
Vitnið B bar fyrir dómi að það hefði verið á umræddum dansleik á Hótel Borgarnesi. Þegar vitnið hefði komið út af hótelinu að dansleiknum loknum hefði það staðnæmst efst í tröppum við hótelið og litast um. Vitnið kvaðst hafa veitt athygli ákærða og unnustu hans þar sem þau hefðu staðið neðst í tröppunum. Einnig hefði vitnið veitt athygli manni, sem vitnið kvaðst ekki þekkja, er verið hefði ráfandi nokkru neðan við parið. Í því hefði leigubifreið komið inn á planið og hefðu ákærði og unnusta hans gengið að bifreiðinni. Þegar unnusta ákærða hefði því sem næst verið sest aftur í leigubifreiðina og ákærði verið búinn að opna framhurðina farþegamegin hefði áðurnefndur maður komið og „danglast“ utan í ákærða. Taldi vitnið að líklega hefði það verið ætlan mannsins að taka sér far með leigubifreiðinni. Ákærði hefði þá gefið manninum olnbogaskot, er lent hefði á brjóstkassa mannsins, sem við það hefði hrökklast frá. Ákærði hefði síðan snúið sér við, stigið eitt eða tvö skref í átt að manninum og slegið hann í andlitið. Maðurinn hefði við höggið, sem vitnið treysti sér ekki til að fullyrða um hvort veitt hefði verið með krepptum hnefa, fallið aftur fyrir sig og hnakki hans skollið í gangstéttarkantinum. Ákærði hefði því næst sest inn í leigubifreiðina og henni verið ekið á brott.
Vitnið kvaðst nánar aðspurt ekki geta sagt til um hvort leigubifreiðarstjórinn, C, hefði stigið út úr bifreið sinni rétt áður en hann ók á brott. Ástæðu þess sagði vitnið vera að höfuð mannsins hefði skollið með þeim hætti í gangstéttarkantinum að vitnið hefði strax óttast að maðurinn hefði hlotið alvarleg meiðsl. Vitnið hefði því strax og það sá manninn falla snúið sér við, farið í hurðargættina og beðið um að sjúkrabifreið yrði kölluð á staðinn.
Vitnið kvaðst ásamt fleirum hafa reynt að hlúa að manninum áður en læknir og sjúkralið kom á vettvang.
Um ástand sitt þessa nótt bar vitnið að það hefði verið undir áhrifum áfengis en þó ekki verið ofurölvi.
Vitnið C leigubifreiðarstjóri skýrði svo frá fyrir dómi að umrædda nótt hefði vitnið ekið leigubifreið sinni að Hótel Borgarnesi til að kanna hvort einhver vildi nýta þjónustu þess. Ákærði og sambýliskona hans E hefðu gengið að bifreiðinni og er þau hefðu verið að setjast inn í bifreiðina, ákærði í farþegasætið við hlið vitnisins en E í aftursætið, hefði drukkinn maður komið hlaupandi og dottið eða skollið utan í bifreiðina. E hefði kveinkað sér vegna þessa og ákærði orðið æstur og í kjölfarið hefði hann farið frá bifreiðinni og verið „eitthvað að skammast“. Vitnið sagðist hafa sagt ákærða að setjast inn í bifreiðina sem hann hefði gert. Vitnið hefði að því búnu stigið út úr bifreiðinni og þá séð áðurnefndan mann liggja í jörðinni. Hvernig það atvikaðist kvaðst vitnið ekkert geta sagt til um.
Fram kom hjá vitninu að það hefði ekki kannað ástand mannsins. Það hefði hins vegar kallað í B sem þarna var staddur og beðið hann um að athuga með manninn. Vitnið hefði síðan ekið á brott með ákærða og E.
Vitnið D skýrði svo frá fyrir dómi að er atvik máls gerðust hefði það verið við störf á Hótel Borgarnesi sem dyravörður. Vitnið kvaðst hafa séð hvar A lá með hnakkann uppi á kantsteini og hefði blætt úr hnakka A. Vitnið sagðist hafa þreifað á A og fundið að um talsverða blæðingu var að ræða. Vitnið kvaðst ekki hafa þorað að hreyfa við A en þó reynt að hlúa að honum eftir fremsta megni. Jafnframt hefði það strax kallað til lækni og lögreglu.
Fram kom hjá vitninu að það hefði enga áverka séð á A sem bentu til að hann hefði verið sleginn.
Þá kom fram hjá vitninu að það hefði fyrr um nóttina þurft að hafa afskipti af A inni á hótelinu vegna mikillar ölvunar og í tvígang vísað honum út úr húsinu.
Vitnið E, sambýliskona ákærða, kom fyrir dóm. Vitnið staðfesti að rétt væri eftir því haft í framlagðri lögregluskýrslu. Að öðru leyti nýtti vitnið sér rétt sinn til að skorast undan að gefa vitnaskýrslu vegna nefndra tengsla þess við ákærða, sbr. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Þá kom fyrir dóm vitnið Sigurjón Haukur Valsson sjúkraflutningamaður en ekki þykir ástæða til að rekja framburð vitnisins sérstaklega.
IV.
Í málinu liggur fyrir vottorð Lindu Kristjánsdóttur læknis varðandi áverka A. Í vottorðinu segir eftirfarandi:
„Var ég kölluð út aðfaranótt 20.03.2004 að Hótel Borgarnesi. Er ég kem á staðinn liggur [A] á jörðinni, var hann töluvert drukkinn en hafði verið kýldur í andlitið hægra megin og fallið við það aftur fyrir sig og lenti á gangstéttarbrún. Rotaðist hann við fallið og fékk skurð á hnakka. Erfitt var að meta meðvitundarstig vegna þess að hann var ölvaður en var meðvitund greinilega minnkuð. Var með mar og bólgu neðan við hæ. auga, með skurð á hnakka, hann hreyfði bæði hendur og fætur. Var fluttur á Slysadeild. Í bílnum á leiðinni var hann með mjög flöktandi meðvitund en var stabill í lífsmörkum. Var hann sendur í tölvusneiðmynd af heila og mynd af hrygg á Slysadeild.“
Linda Kristjánsdóttir kom fyrir dóm og staðfesti og skýrði vottorð sitt. Fram kom hjá lækninum það álit að hinir sýnilegu áverkar á A, glóðarauga og mar á andliti og skurður á hnakka, samrýmdust þeirri lýsingu málsatvika að A hefði verið sleginn og hann síðan dottið aftur fyrir sig.
Þá liggur einnig fyrir í málinu vottorð Garðars Guðmundssonar, heila- og taugaskurðlæknis, dags. 3. júní 2004, varðandi áverka A. Í vottorði Garðars segir meðal annars:
„Við komu á slysadeild lyktar hann af áfengi og hann er greinilega þreyttur og slæptur, gefur þó skýra sögu og virtist áttaður á stað og stund. Hann er með áverka á hnakka, með um 2 cm sár sem er minniháttar og saumað. Byrjandi glóðarauga hæ. megin. Blóðugur á vörum, svolítið bólginn lateralt hæ. megin á efri vör.
Við skoðun á hæ. eyra þá virðist það eðlilegt, spurning hvort það sé blóð bak vi. hljóðhimnu. Kvartar yfir heyrnardeyfu þar. Fyrsta sneiðmynd af heila sýndi svokallað taumatíska subarachnoidal blæðingu, þ.e.a.s. blóðslikju yfir heilaberki að framan til báðum megin. Endurteknar myndir, sú síðasta ca mánuði eftir áverkann, sýndu að þetta blóð var að mestu horfið, en áverkamerki í heilaberki framan til ofarlega beggja vegna, þannig að hér er um minniháttar heilamar að ræða.“ ...
„[A] virðist af þeim gögnum sem ég hef verið sleginn í andlitið þann 20.3. sl. Hann var mjög drukkinn þegar þetta var og skellur aftur fyrir sig á brún þannig að hann fær höggsár á hnakka. Glóðarauga hæ. megin og bólgin vör virðast því ekki skýrast af fallinu. Hann fær algjört heyrnarleysi á vi. eyra sem hefur þó aðeins lagast, hann hefur þrálátan svima og óstöðugleika og myndatökur af höfði og heila sýna að hann hefur fengið minniháttar blæðingu yfir framhluta heilans beggja vegna og minniháttar heilamar báðum megin. Niðurstaðan er því sú að [A] hefur hlotið umtalsverðan áverka, maður getur fullyrt á þessum tímapunkti að hann hafi viðvarandi heyrnarskerðingu vi. megin og jafnvel viðvarandi svima og óstöðugleika en öllu erfiðara er að tjá sig um afleiðingar af áverkanum á heilann, áverki af þessari stærðargráðu þarf ekki að skilja eftir sig nein mein en hér yrði þá að koma til flóknari taugasálfræðilegar mælingar ef ætti að álykta eitthvað um það, en það er ekki tímabært fyrr en í fyrsta lagi 12 mánuðum eftir áverkann.“
Garðar Guðmundsson staðfesti og skýrði vottorð sitt fyrir dómi. Fram kom hjá lækninum að áverki sá sem A hlaut á heila væri flokkaður sem minniháttar heilamar. Á lækninum var að skilja að erfitt væri að segja til um hvort umræddur áverki myndi með tímanum ganga til baka. Helstu sjáanlegar afleiðingar áverka sem þessa kvað læknirinn vera skapgerðarbreytingar.
Læknirinn sagði það álit sitt, miðað við þá reynslu sem hann hefði af tilvikum sem þessum, að höggið sem A fékk á hnakkann væri aðalorsök þess áverka sem hann hlaut á heila. Þá taldi læknirinn líklegra en hitt að áverkar þeir sem A hlaut í andliti væru eftir högg frekar en þeir væru eftir fall á hnakkann.
Orsök heyrnarskerðingar þeirrar sem A varð fyrir kvað læknirinn eflaust vera brot í hauskúpubotni sem gengið hefði inn í miðeyrað. Læknirinn sagði heyrn A hafa á þeim tíma sem liðinn væri frá umræddum atburðum farið hægt og rólega batnandi. Enn væri hins vegar óljóst hvort heyrnarskerðing A væri varanleg. Tók læknirinn þó fram að þar sem heyrnarskerðing A væri óvenjumikil miðað við mann sem hlotið hefði höfuðhögg héldi hann að A fengi ekki fulla heyrn aftur.
V.
Samkvæmt framburði ákærða og vætti B og C, voru ákærði og sambýliskona hans, E, að stíga inn í leigubifreið C er A bar að. Ákærði heldur því fram að A hafi hrint honum en B lýsti atvikinu svo fyrir dómi að A hefði „danglast" utan í ákærða.
Ákærði fullyrti fyrir dómi að A hefði í framhaldinu rekið sér löðrung. Hann hefði þá ýtt við A en síðan sest inn í leigubifreiðina. Þessi framburður ákærða fær stoð í framlagðri lögregluskýrslu E, sambýliskonu ákærða. Framburðar E fyrir dómi nýtur hins vegar ekki við í málinu þar sem hún skoraðist undan að gefa skýrslu vegna tengsla við ákærða. Umræddur framburður ákærða er hins vegar í andstöðu við vætti B. B kvað A einungis hafa „danglast“ utan í ákærða sem brugðist hefði við með því að gefa A olnbogaskot. Við olnbogaskotið hefði A hrökklast frá og ákærði þá snúið sér við, stigið eitt eða tvö skref í átt að A og slegið hann í andlitið. A hefði við höggið fallið aftur fyrir sig og hnakki hans skollið í gangstéttarkantinum.
Framburður vitnisins B fyrir dómi var greinargóður og skýr. Lýsing vitnisins á málsatvikum fær nokkra stoð í framburði C, en C kvað ákærða hafa orðið æstan er A datt eða skall utan í leigubifreiðina og hefði ákærði í kjölfarið farið frá bifreiðinni og verið „eitthvað að skammast“.
Jafnframt er framburður B studdur framlögðu vottorði Lindu Kristjánsdóttur læknis og vætti hennar fyrir dómi. Í vottorðinu kemur fram að þegar læknirinn kom á vettvang hefði A verið með mar og bólgu neðan við hægra auga og með skurð á hnakka, en ekkert hefur komið fram um það í málinu að A hefði verið með umræddan áverka í andliti þegar hann kom að leigubifreiðinni. Verður og að líta til þess að fyrir dómi lýsti læknirnn því áliti sínu að greindir áverkar A samrýmdust þeirri lýsingu málsatvika að hann hefði verið sleginn og hann síðan dottið aftur fyrir sig.
Þá þykir mega líta til þess að Garðar Guðmundsson, heila- og taugaskurðlæknir, bar fyrir dómi að hann teldi líklegra en hitt að áverkar þeir sem A hlaut í andliti væru eftir högg frekar en þeir væru eftir fall á hnakkann.
Að öllu framangreindu virtu þykir dóminum nægjanlega sannað, svo hafið verði yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi aðfaranótt laugardagsins 20. mars 2004, fyrir utan Hótel Borgarnes, slegið A í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll aftur fyrir sig og lenti með höfuðið á gangstéttarbrún.
Brot ákærða verður ekki sem slíkt metið sérstaklega hættulegt í skilningi 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar verður til þess að líta að af framlögðu vottorði Garðars Guðmundssonar, heila- og taugaskurðlæknis, má ráða að afleiðingar líkamsárásar ákærða fyrir A hafi meðal annars verið mar á heila og mikil heyrnarskerðing. Er það álit læknisins að alls óvíst sé hvort A hljóti fullan bata. Að öllu þessu virtu þykir verða að meta áverka A sem stórfellt líkams- eða heilsutjón, en áverkalýsing í ákæruskjali fær að öðru leyti en hér hefur sérstaklega verið vikið að styrka stoð í framlögðum læknisvottorðum. Brot ákærða er því réttilega heimfært í ákæruskjali undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
VI.
Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins var ákærða veitt ákærufrestun árið 1995 vegna brots gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hinn 14. ágúst 1996 gekkst hann undir viðurlagaákvörðun vegna brots gegn 1. mgr. 257. gr. sömu laga þess efnis að hann greiddi 20.000 krónur í sekt. Þann 7. apríl 1997 hlaut ákærði dóm fyrir brot gegn 225. gr. almennra hegningarlaga og umferðarlögum. Refsing var ákveðin 2 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár. Hélt ákærði það skilorð. Ákærði hlaut á ný dóm 1. mars 2001 fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga og var refsing ákveðin 50.000 króna sekt. Þann 8. nóvember sama ár gekkst hann svo undir viðurlagaákvörðun vegna brota gegn umferðarlögum þess efnis að hann greiddi 30.000 krónur í sekt. Þá var ákærði þann 10. ágúst s.l. dæmdur í 2 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.
Brot það sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir var framið fyrir uppkvaðningu síðastnefnds dóms. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga ber að taka þann dóm upp og dæma ákærða refsingu í einu lagi eftir reglum 78. gr. sömu laga.
Að brotum ákærða virtum, sem og sakaferli, þykir refsing hans hæfilega ákveðin 7 mánaða fangelsi. Eftir atvikum þykir með heimild í 60., 57. og 57. gr. a. almennra hegningarlaga mega fresta fullnustu 4 mánaða af refsingu ákærða og skal sá hluti refsingarinnar falla niður að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Inga Tryggvasonar hdl., sem hæfilega þykja ákveðin svo sem í dómsorði greinir.
Benedikt Bogason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, Sigurður Einar Stefánsson, sæti 7 mánaða fangelsi en fresta skal fullnustu 4 mánaða af refsingunni og fellur sá hluti refsingarinnar niður að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Inga Tryggvasonar hdl., 130.000 krónur.