Hæstiréttur íslands

Mál nr. 692/2013


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Meðdómsmaður
  • Ómerking héraðsdóms
  • Gjafsókn


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 13. mars 2014.

Nr. 692/2013.

K

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)

gegn

M

(Hulda R. Rúriksdóttir hrl.)

Börn. Forsjá. Meðdómsmaður. Ómerking héraðsdóms. Gjafsókn.

Aðilar deildu einkum um hvort þeirra skyldi fara með forsjá tveggja barna sinna. Vegna þess hvernig málsatvikum var háttað taldi Hæstiréttur að héraðsdómara hefði borið að kveðja til sérfróða meðdómsmenn samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 38. gr. barnalaga nr. 76/2003. Var héraðsdómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. október 2013. Hún krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til dómsálagningar að nýju, en til vara að sér verði falin forsjá barnanna A og B til 18 ára aldurs þeirra. Þá krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða einfalt meðlag með hvoru barni frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra og að „kveðið verði á um inntak umgengnisréttar og að kostnaður af umgengni greiðist af því foreldri sem umgengni nýtur.“ Loks krefst hún málskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Málsaðilar eiga saman tvö börn, A sem fæddur er [...] 2002 og B sem fædd er [...] 2004. Í máli þessu deila aðilarnir fyrst og fremst um það hvort þeirra skuli fara með forsjá barnanna.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var dómkvaddur sálfræðingur í ársbyrjun 2013 til að meta forsjárhæfni aðila, en hann hafði áður skilað matsgerð um hæfni þeirra 14. desember 2010. Í matsgerð 14. maí 2013 var gerð grein fyrir þáverandi aðstæðum aðilanna og barnanna, sem höfðu breyst frá því að matsmaðurinn skilaði fyrri matsgerð sinni, en helsta breytingin var sú að stefndi hafði flutt frá [...] að [...] í [...] haustið 2012 og börnin skipt við það um skóla. Niðurstaða matsmannsins var þó sú sama og áður að börnin hefðu jákvæð og sterk tengsl við báða forseldra sína. Á fjölskyldutengslaprófum fengi áfrýjandi mun fleiri skilaboð frá börnunum, hvoru um sig, heldur en stefndi. Boðin í heild bentu til að börnin væru „ívið tilfinningalega tengdari“ áfrýjanda en stefnda. A hefði greinilega komið þeim skilaboðum til matsmanns að við þá mögulegu breytingu að hann yrði meira hjá öðru hvoru foreldrinu þá vildi hann vera meira hjá áfrýjanda en stefnda. Á hinn bóginn ætti B í vanda með að taka afstöðu til deilu aðila. Að áliti matsmanns voru þau hvort um sig vel hæf til að fara með forsjá barnanna og veita þeim ástúð sem foreldrar.

Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 kveður dómari á um hjá hvoru foreldri barn verði, eftir því sem barni er fyrir bestu. Vegna þess hvernig atvikum er háttað, meðal annars með vísan til fyrrgreindrar niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns, þurfti sérkunnáttu, sem ekki er á færi héraðsdómara, til að ráða ágreiningi aðila til lykta. Bar honum því að kveðja til meðdómsmenn, sem slíka kunnáttu hafa, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 38. gr. barnalaga. Þar sem það var ekki gert er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar á ný.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað aðila hér fyrir dómi fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, K, og stefnda, M, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna þeirra, 300.000 krónur til hvors þeirra um sig.