Hæstiréttur íslands
Mál nr. 453/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Skuldabréf
|
|
Föstudaginn 2. september 2011. |
|
Nr. 453/2011.
|
Gljúfurbyggð ehf. (Örn Karlsson framkvæmdastjóri) gegn Gunnari Andrési Jóhannssyni (Ásgeir Þór Árnason hrl.) |
Kærumál. Fjárnám. Skuldabréf.
G ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að ógilt yrði fjárnám sem sýslumaður hafði gert hjá honum fyrir kröfu G á grundvelli skuldabréfs. Í dómi Hæstaréttar kom m.a. fram að væri það upphaflegur eigandi skuldabréfs sem beiddist fjárnáms, eins og ætti við um G í málinu, gæti G ehf. sem skuldari m.a. komið að þeirri vörn að bréfið væri í skilum þótt bréfið bæri það ekki með sér. Bæri G ehf. sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu. Taldi Hæstiréttur að G ehf. hafi ekki sannað að greitt hefði verið af skuldabréfinu eftir tiltekinn dag, umfram þá fjárhæð sem getið hafi verið í aðfararbeiðni. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júlí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. júlí 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði fjárnám, sem sýslumaðurinn á Selfossi gerði hjá honum 31. janúar 2011 fyrir kröfu varnaraðila að fjárhæð samtals 17.831.601 króna. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess aðallega að framangreint fjárnám verði fellt úr gildi, en til vara að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 verður gert fjárnám á grundvelli skuldabréfa, að uppfylltum þeim skilyrðum sem þar eru greind. Sé það upphaflegur eigandi skuldabréfs, sem beiðist fjárnáms, eins og á við um varnaraðila í máli þessu, getur sóknaraðili sem skuldari meðal annars komið að þeirri vörn að bréfið sé í skilum þótt bréfið beri það ekki með sér. Ber sóknaraðili sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu.
Sóknaraðili heldur því fram að skýra eigi áritun Kaupþings banka hf. á skuldabréfið, sem hefst á orðunum „Staða skuldabréfsins eftir síðasta greidda gjalddaga þann 6/9´07“, svo að það hafi verið í skilum þann dag og eftirstöðvarnar 6. september 2007 numið þeirri fjárhæð sem fram kemur í árituninni. Að því virtu að gjalddagi skuldabréfsins skyldi vera 1. ágúst ár hvert getur þessi skýring ekki staðist, heldur hlýtur áritunin að vísa til þess að staða skuldarinnar hafi verið sú, sem þar greinir, 6. september 2007 miðað við síðasta greidda gjalddaga sem sagður er vera 1. ágúst 2005 í áritun varnaraðila á bréfið. Að teknu tilliti til þessa hefur sóknaraðili ekki sannað að greitt hafi verið af skuldabréfinu eftir síðastnefndan dag, umfram þær 2.850.000 krónur sem getið er í aðfararbeiðni.
Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Gljúfurbyggð ehf., greiði varnaraðila, Gunnari Andrési Jóhannssyni, 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. júlí 2011.
Sóknaraðili er Gljúfurbyggð ehf., kt. 470503-2540, Klettagljúfri 10, Sveitarfélaginu Ölfusi.
Varnaraðili er Gunnar Andrés Jóhannsson, kt. 230551-2519, Árbæ, Rangárvallasýslu.
Krafa sóknaraðila í máli þessu varðar aðfarargerð nr. 033-2010-01517 sem fram fór hjá sýslumanninum á Selfossi þann 31. janúar 2011. Krefst sóknaraðili þess að aðfararkröfu varnaraðila um fjárnám á hendur sóknaraðila verði hafnað og að fjárnámsgerð sem fram fór 31. janúar 2011 verði ógilt. Þá er krafist hæfilegs málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá en til vara að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Mál þetta var þingfest 31. mars sl. Hluti af gögnum sem fylgdu kröfu sóknaraðila, (dskj. 1, og dskj. 2-47), voru lögð fram í máli milli sömu aðila sem sóknaraðili felldi niður og bera þau dagsetningu þeirrar framlagningar. Með úrskurði dómsins uppkveðnum þann 10. maí sl., var frávísunarkröfu varnaraðila hafnað. Þá voru kveðnir upp úrskurðir í málinu þann 19. apríl og 10. júní sl., er vörðuðu rétt sóknaraðila, annars vegar til framlagningar frekari gagna og hins vegar til að leiða fram vitni. Aðalmeðferð fór fram í málinu þann 22. júní sl. og var málið, að henni lokinni, tekið til úrskurðar.
Málavextir
Mál þetta er tilkomið vegna aðfararbeiðni varnaraðila á hendur sóknaraðila, dagsettri 11. apríl 2010, sem tekin var fyrir hjá sýslumanninum á Selfossi, sem aðfarargerð nr. 033-2010-01517, þann 31. janúar sl. Umrædd aðfararbeiðni var reist á veðskuldabréfi nr. 5809, (dskj. nr. 18), útgefnu þann 23. september 2003, sem tryggt var með veði í jörðinni Ingólfshvoli í Ölfusi, og var eitt af fleiri samhljóða veðskuldabréfum sem hvíldu á 2. veðrétti jarðarinnar. Jörðin var seld nauðungarsölu 27. ágúst 2009 að kröfu varnaraðila og var varnaraðili hæstbjóðandi og uppboðskaupi. Ekkert kom upp í kröfu samkvæmt umræddu skuldabréfi við nauðungarsöluna.
Sóknaraðili í máli þessu, gerðarþoli, mótmælti aðförinni og lagði fram skrifleg andmæli við aðfarargerðina, og eru andmælin efnislega þau sömu og málsástæður sóknaraðila í máli þessu.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir kröfu sína á þremur málsástæðum.
Í fyrsta lagi byggir sóknaraðili á því að aðfararbeiðni varnaraðila hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Telur sóknaraðili heimildarskjalinu, skuldabréfinu sjálfu, vera ranglega lýst í aðfararbeiðni varnaraðila með þeirri afleiðingu að kröfugerð hans gangi út fyrir það sem heimildarskjalið, veðskuldabréfið sjálft, gefi tilefni til. Þannig kveður sóknaraðili tilgreindan höfuðstól í aðfararbeiðni, 8.586.864 krónur og samningsvexti til 1. ágúst 2006, 453.983 krónur og heildarkröfu varnaraðila, að fjárhæð 17.831.314 krónur ekki fá staðist. Vísar sóknaraðili til þess að skuldabréfið sjálft beri aðra fjárhæð með sér. Vísar hann í því efni til áritunar Kaupþings banka hf., sem hann kveður hafa verið innheimtubanka varnaraðila, á skuldabréfið þess efnis að eftir síðasta greidda gjalddaga, miðað við 6. september 2007, hafi eftirstöðvar bréfsins numið 7.322.314 krónum og áfallnar ógreiddar verðbætur 530.649 krónur samtals 7.852.963 krónur. Þessi áritun sé dagsett 10. september 2007. Í greiðsluáskorun varnaraðila, sem dagsett sé 1. október 2007, sé höfuðstóll hins vegar tilgreindur 8.586.864 krónur og samningsvextir til 1. ágúst 2006, 453.893 krónur. Þar að auki séu þar tilgreindir dráttarvextir til 1. október 2007 að fjárhæð 2.672.229 krónur. Þannig sé staða bréfsins í umræddri greiðsluáskorun, dagsettri 1. október 2007, sögð nema 11.712.986 krónum sem sé um fjórum milljónum króna hærra en áritun bréfsins sjálfs, sem dagsett sé 24 dögum áður, þann 10. september 2007, gefi til kynna. Þá sé lýsing heimildarskjalsins í aðfararbeiðni að grunni til í samræmi við áðurnefnda greiðsluáskorun varnaraðila og því jafn röng að mati sóknaraðila. Kveður sóknaraðili varnaraðila í engu geta heimilda sem gefi honum rétt til aðfarar á þessum mikla mismun sem leiði af samanburði hinnar röngu framsetningar aðfararbeiðninnar og áritaðri stöðu heimildarskjalsins sjálfs.
Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að umrætt skuldabréf hafi verið í skilum þann 11. apríl 2010, þegar aðfararbeiðni varnaraðila var dagsett. Vísar sóknaraðili til 1. mgr. 7. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, málsástæðu þessari til stuðnings. Telur sóknaraðili ljóst að áritun um stöðu bréfsins miðist við 6. september 2007 og að ekki hafi verið um vanskil að ræða á þeim tímapunkti, en innborganir inn á bréfið eftir þann tíma, að upphæð 2.850.000 krónur dugi fyllilega fyrir afborgunum áranna 2008 og 2009, en þessara innborgana sé getið í aðfararbeiðni. Þá hafi gjalddagi ársins 2010 ekki verið kominn þegar aðfararbeiðni varnaraðila er dagsett. Mótmælir sóknaraðili því að varnaraðila sé fært að gjaldfella skuldabréf sem sé í skilum.
Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á því að skuldabréfið hafi verið notað með ólögmætum hætti til að knýja fram uppboð á veðandlaginu, Ingólfshvoli í ágúst 2009. Vísar sóknaraðili á ný til þess að bréfið hafi verið í skilum á umræddum tíma auk þess sem upplýsingar um skuldabréfið hafi verið rangfærðar í greiðsluáskorun, uppboðsbeiðni og kröfulýsingu varnaraðila, með sama hætti og áður hefur verið lýst.
Þá kveðst sóknaraðili hafa lagt fram kæru til lögreglu vegna ólögmætrar notkunar varnaraðila til að knýja fram uppboð á veðandlaginu Ingólfshvoli.
Sóknaraðili vísar í upphafi kröfu sinnar til 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Um fyrstu málsástæðu vísar sóknaraðili til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 90/1989 og til 1. mgr. 7. gr. laganna hvað aðra málsástæðu varðar. Í munnlegum málflutningi vísaði sóknaraðili einnig til 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989. Hvað þriðju málsástæðu varðar vísar sóknaraðili til 10. gr. laga nr. 90/1989, 157. gr. almennra hegningarlaga og 6. og 11. gr. laga um nauðungarsölu. Vegna kröfu um málskostnað vísar sóknaraðili til 129. gr. laga nr. 91/1991, einkum 3. mgr.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili mótmælir fyrstu málsástæðu sóknaraðila, um að krafa varnaraðila sé ekki í samræmi við ákvæði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 90/1989, sem rangri. Varnaraðili kveður þessa málsástæðu sóknaraðila óskiljanlega, verulega vanreifaða og illa fram setta. Sóknaraðili rökstyðji með engum hætti hvernig og í hvaða atriðum heimildarskjalinu sé ranglega lýst, né heldur hvernig kröfugerðin gangi út fyrir það sem heimildarskjalið gefur tilefni til. Varðandi þann mismun á upphæð kröfunnar sem sóknaraðili bendir á kveður varnaraðili hann vera kominn til af því að áritun Kaupþings banka á bréfið sjálft miði við stöðu bréfsins eftir síðasta greidda gjalddaga, þann 1. ágúst 2005, en fjárhæðin sem tilgreind sé í greiðsluáskorun og síðar aðfararbeiðninni sjálfri sé krafan með viðbættum samningsvöxtum fram á gjaldfellingardag, þann 1. ágúst 2006. Þá kveður varnaraðili heimildarskjalinu vera mjög nákvæmlega lýst í aðfararbeiðni auk þess sem fjárhæð peningakröfu varnaraðila sé nákvæmlega sundurliðuð.
Aðra málsástæðu sóknaraðila, um að krafan hafi verið í skilum þegar aðfararbeiðni var lögð fram, kveður varnaraðili vera ranga. Varnaraðili heldur því fram að skuldabréf það, sem aðför sú sem deilt er um í máli þessu var byggð á, hafi verið í vanskilum þegar aðfarar var krafist. Í greinargerð varnaraðila kemur fram að af áritun bréfsins sjáist að vanskil hafi orðið strax á fyrsta gjalddaga bréfsins þann 1. ágúst 2004, en greiða skyldi af bréfinu einu sinni ár hvert. Þann 6. september 2007 hafi sóknaraðili greitt fyrstu tvo gjalddaga bréfsins, en hann hafi þá verið kominn í vanskil með fyrstu fjóra gjalddagana. Engar frekari greiðslur hafi borist og varnaraðila því verið nauðugur sá kostur að setja kröfuna í innheimtu hjá lögfræðingi og hafi skuldin þá verið gjaldfelld miðað við 1. ágúst 2006. Eftir þetta hafi skuldari innt af hendi greiðslur, en þær dugi hvergi nærri til að greiða upp vanskilin. Varnaraðili hafnar þeirri fullyrðingu sóknaraðila að hann hafi greitt afborganir fyrir gjalddaga áranna 2006 og 2007, enda beri skuldabréfið þetta í engu með sér. Byggir varnaraðili á því að, eins og bréfið beri sjálft með sér og hér hefur verið lýst, hafi sóknaraðili einungis greitt upp tvo fyrstu gjalddaga bréfsins. Þannig hafi gjalddagar áranna 2006, 2007, 2008 og 2009 verið í vanskilum þegar aðfarar var krafist. Innborganir þær er sóknaraðili hafi innt af hendi hafi ekki dugað til greiðslu á vangreiddum höfuðstól, samningsvöxtum, dráttarvöxtum og annars áfallins kostnaðar af kröfunni.
Hvað þriðju málsástæðu sóknaraðila varðar, um að skuldabréfið hafi verið í skilum þegar uppboðsbeiðni varnaraðila hafi verið lögð fram í ágúst 2008, er henni mótmælt sem rangri. Vísar varnaraðili til þess sem áður er fram komið um vanskil sóknaraðila.
Um lagarök vísar varnaraðili til 7. tl. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Um málskostnað vísar varnaraðili til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, auk laga nr. 50/1988 hvað varðar kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Varnaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsyn til að fá dóm um skatt þennan úr hendi sóknaraðila.
Niðurstaða
Mál þetta varðar aðför er gerð var hjá sóknaraðila að kröfu varnaraðila á grundvelli skuldabréfs, sem áður hefur verið lýst.
Fyrsta málsástæða sóknaraðila, sem varnaraðili hefur mótmælt sem rangri, varðar formskilyrði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sem sóknaraðili telur að ekki hafa verið uppfyllt. Í ákvæðinu kemur fram að aðfararbeiðni skuli vera skrifleg, þá skuli í henni koma fram, svo ekki verði um villst, hverjir gerðarbeiðandi og gerðarþoli séu og við hverja heimild hún styðst. Þá skuli einnig tiltekið nákvæmlega hvers krafist er með aðfarargerð. Sé krafist aðfarar til fullnustu kröfu um peningagreiðslu, segir í greininni að sundurliða skuli fjárhæð kröfunnar svo sem þá er kostur. Aðfararbeiðni varnaraðila liggur frammi í máli þessu (dskj. nr. 4) og er það mat dómsins að hún uppfylli öll áðurnefnd skilyrði 1. mgr. 10. gr. aðfararlaga. Í umfjöllun um aðra málsástæðu sóknaraðila verður vikið að mismun sem er á tilgreiningu fjárhæðar kröfunnar í aðfararbeiðni varnaraðila annars vegar og áritun Kaupþings banka um stöðu skuldabréfsins á bréfinu sjálfu hins vegar, enda varðar það sem slíkt ekki formskilyrði aðfararbeiðni, samkvæmt 1. mgr. 10. gr. aðfararlaga. Með vísan til þess er að framan greinir er hafnað þeirri málsástæðu sóknaraðila að aðfararbeiðni varnaraðila uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Önnur málsástæða sóknaraðila, sem varnaraðili kveður vera ranga, snýr að því hvort varnaraðila hafi verið heimilt að gjaldfella umrætt skuldabréf á þeim tíma sem það var gert og krefjast í kjölfarið aðfarar hjá sóknaraðila. Sóknaraðili heldur því fram að bréfið hafi verið í skilum á umræddum tíma og vísar í því efni til svohljóðandi handritaðra áritunar sóknaraðila sjálfs á bréfið:
Gjalddagar 1. ágúst 2004 og 1. ágúst 2005 eru greiddir.
Gunnar Jóhannsson
sem og svohljóðandi áritunar Kaupþings banka á bréfið sjálft:
Staða skuldabréfsins eftir síðasta greidda gjalddaga
þann 6/907 er
Eftirstöðvar nafnverðs kr. 7.322.314.-
Áfallnar ógreiddar verðbætur kr. 530.649.-
Eftirstöðvar samtals kr. 7.852.963.-
Reykjavík, 10/907
KAUPÞING BANKI HF
[ólæsilegt] Bakvinnsla útibúa [fangamark, illlæsilegt]
Er það áritun þessi og skýring hennar sem ágreiningur aðila í máli þessu snýst aðallega um. Ber áritun bankans með sér stimpil með stöðluðum texta, sem inn í hafa verið ritaðar dagsetningar og fjárhæðir.
Kom skýrt fram í munnlegum málflutningi að sóknaraðili telur áritun Kaupþings banka fela það í sér að þann 6. september 2007 hafi bréfið verið í skilum og miðist fjárhæð sú sem tilgreind sé í árituninni við gjalddaga ársins 2007, sem hann telur þá hafa verið síðasta greidda gjalddaga.
Þessu hefur varnaraðili hafnað með þeim rökum að umrædd áritun bankans lýsi eingöngu stöðu bréfsins er það fluttist úr innheimtu frá bankanum til lögmanna varnaraðila. Áritunin feli ekki í sér að gjalddagar áranna 2006 og 2007 hafi verið greiddir. Þá miðist tilgreind fjárhæð á stöðu bréfsins við stöðu kröfunnar eftir síðasta greidda gjalddaga, sem varnaraðili kveður hafa verið þann 1. ágúst 2005, en ekki hafi þar verið tekið tillit til samningsvaxta fram á gjaldfellingardag, þann 1. ágúst 2006.
Óumdeilt er að gjalddagar áranna 2004 og 2005 hafa verið greiddir. Þá er einnig óumdeilt að sóknaraðili innti af hendi greiðslu að fjárhæð 2.850.000 krónur inn á þetta tiltekna skuldabréf, og er þess getið í aðfararbeiðni varnaraðila. Lýtur ágreiningur aðila einkum að því hvort gjalddagar áranna 2006 og 2007 hafi verið greiddir þegar aðfarar var krafist, og veltur sá ágreiningur eins og áður segir á túlkun aðila á áritun Kaupþings banka á skuldabréfið sjálft.
Sóknaraðili hefur lagt fram einhliða útreikninga (dskj. nr. 67) máli sínu til stuðnings auk ýmissa kvittana. Þá hefur sóknaraðili lagt fram ýmis gögn er varða nauðungarsölu þá er gerð var á grundvelli veðskuldabréfsins, auk ýmissa annarra gagna er varða viðskipti aðila, m.a. samning þeirra í milli (dskj. nr. 92) sem kveður m.a. á um hvernig háttað skuli greiðslum af veðskuldabréfum þeim er hvíla á Ingólfshvoli, m.a. skuldabréfi því er hér um ræðir. Sóknaraðili lagði fram handskrifað minnisblað (dskj. nr. 82) sem hann kveður stafa frá varnaraðila sjálfum og sýna eigi greiðslur sem inntar hafi verið af hendi af hálfu sóknaraðila. Varnaraðili hefur mótmælt dskj. nr. 67 sem og dskj. nr. 82 og þá sérstaklega að það stafi frá sér. Skjalið er óundirritað og gegn mótmælum varnaraðila verður ekki á því byggt í máli þessu. Sama gildir um dskj. nr. 67.
Fyrir liggur að aðilar máls þessa hafa átt í umfangsmiklum viðskiptum á síðustu árum. Er skuldabréf það sem mál þetta varðar þannig eitt af fleiri samhljóða veðskuldabréfum sem hvíldu á 2. veðrétti jarðarinnar Ingólfshvols. Sóknaraðili lagði fram samning sem aðilar málsins gerðu sín á milli og dagsettur er 15. október 2004. Er þess þar getið að afborgun af veðskuldum með veði í jörðinni Ingólfshvoli greiðist að vali varnaraðila eða í bland, eins og segir í 4. gr. samningsins, meðal annars með húsi á frístundalóð eða einbýlislóð, með atvinnulóð og vörum og þjónustu sem kaupa megi í gegnum vöruskiptanet Viðskiptanetsins hf. Þannig er ljóst að samkvæmt samkomulagi aðila voru afborganir af skuldabréfi því er mál þetta varðar ekki eingöngu bundnar við greiðslu í peningum.
Sóknaraðili hefur eins og áður greinir lagt fram fjölmargar kvittanir er sýna viðskipti aðila, en ekki verður af þeim ráðið hvort greiðsla þeirra var vegna afborgana af því skuldabréfi er mál þetta varðar, eða hvort um var að ræða afborganir eða greiðslur í öðrum viðskiptum aðila málsins.
Ekki verður á það fallist með sóknaraðila að áritun Kaupþings banka um stöðu bréfsins þann 6. september 2007, feli í sér kvittun fyrir greiðslu gjalddaga þess árs, né heldur ársins 2006, en gjalddagi hvers árs skyldi vera 1. ágúst ár hvert. Þá hefur sóknaraðili ekki lagt fram kvittanir sem sýna bersýnilega að áðurnefndir gjalddagar hafi í raun verið greiddir og verður gegn mótmælum varnaraðila að telja að sóknaraðila hafi ekki tekist sönnun þess að skuldabréf það er mál þetta varðar hafi í raun verið í skilum þegar aðfarar var krafist vegna þess.
Hins vegar er fallist á það með varnaraðila að áritunin feli í sér stöðu kröfunnar þann 6. september 2007, miðað við síðasta greidda gjalddaga, þann 1. ágúst 2005 sem og skýringar varnaraðila á þeim mismuni á fjárhæð kröfunnar er fram kemur í nefndri áritun annars vegar og aðfararbeiðni varnaraðila hins vegar.
Þriðja málsástæða sóknaraðila, sem varnaraðili hefur einnig mótmælt sem rangri, varðar nauðungarsölu á veðandlagi skuldabréfs þess er um ræðir í máli þessu, sem fram fór í ágúst 2009. Málsástæðan varðar aftur á móti ekki aðför þá er krafist er ógildingar á og verður þessi málsástæða sóknaraðila þegar af þeirri ástæðu ekki tekin til greina.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er kröfu sóknaraðila um ógildingu á hinni umdeildu fjárnámsgerð hafnað.
Mál þetta er rekið samkvæmt 15. kafla laga nr. 90/1989. Í 1. mgr. 95. gr. laganna kemur fram að í úrskurði skuli kveðið á um staðfestingu eða ógildingu aðfarargerðar, eða um breytingu á henni eftir því sem við á hverju sinni. Með vísan til þess er kröfu sóknaraðila um að aðfararkröfu varnaraðila um fjárnám á hendur sóknaraðila verði hafnað, vísað frá dómi án kröfu.
Samkvæmt niðurstöðu máls þessa og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/1989, ber að úrskurða sóknaraðila til að greiða varnaraðila málskostnað, 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Örn Karlsson, ólöglærður fyrirsvarsmaður sóknaraðila. Af hálfu varnaraðila var málið flutt af Unnsteini Erni Elvarssyni, héraðsdómslögmanni.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Gljúfurbyggðar ehf., þess efnis að fjárnámsgerð sýslumannsins á Selfossi, aðfarargerð nr. 033-2010-01517, sem fram fór 31. janúar 2011 hjá sóknaraðila, verði ógilt.
Vísað er frá dómi kröfu sóknaraðila, Gljúfurbyggðar ehf., um að aðfararkröfu varnaraðila, Gunnars Andrés Jóhannssonar, um fjárnám á hendur sóknaraðila, Gljúfurbyggðar ehf., verði hafnað.
Sóknaraðili, Gljúfurbyggð ehf., greiði varnaraðila, Gunnari Andrési Jóhannssyni, 200.000 krónur í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti.