Hæstiréttur íslands

Mál nr. 353/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Föstudaginn 26

 

Föstudaginn 26. júní 2009.

Nr. 353/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var staðfestur

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júní 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 14. júlí 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að Hæstiréttur hafni gæsluvarðahaldi, en til vara að því verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2009.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 21. júlí 2009 kl. 16:00. 

Í greinargerð lögreglu kemur fram að þann 18. apríl 2009 hafi lögregla fengið upplýsingar um að seglskúta stefndi í átt til lands. Í tengslum við þessar upplýsingar hafi verið fylgst með ferðum þriggja manna á tveimur bílum sem hafi verið staddir á Djúpavogi, en þeir hafi verið með slöngubát með utanborðsvél með sér. Síðar hafi komið í ljós að tveir af mönnunum og báturinn hafi verið horfnir en einn mannanna hafi verið á ferð um Djúpavog. 

Hafi um kvöldið sést til ferða slöngubátsins, þar sem honum hafi verið siglt inn í höfn í Gleðivík, vestan við aðalhöfnina á Djúpavogi.  Sá mannanna sem hafði verið á ferð um Djúpavog hafi komið akandi að höfninni þar sem báturinn hafi komið að landi.  Hafi töskur verið teknar út úr bátnum og þeim komið fyrir í bifreiðinni.  Bifreiðinni hafi í framhaldinu verið ekið á brott. Við Höfn hafi bifreiðin verið stöðvuð og hafi ökumaður bifreiðarinnar verið handtekinn.  Í bifreiðinni hafi verið töskur sem inniheldu um 109 kg af efnum sem hafi gefið svörun hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem fíkniefni; amfetamín, MDMA, hass og marihuana.

Slöngubátnum hafi verið siglt úr höfninni í Gleðivík og inn í höfnina á Djúpavogi.  Fylgst hafi verið með tveimur mönnum sem hafi verið um borð í bátnum og hafi þeir síðar um kvöldið verið handteknir á bifreiðinni [...]. 

Landhelgisgæslan hóf leit að skútunni og hafi skúta fundist á siglingu á hafinu á milli Íslands og Færeyja, á svæði sem hafi komið heim og saman við fyrri upplýsingar um staðsetningu skútunnar, tímasetningar, veður og fleira. Hafi Landhelgisgæslan gefið skútunni skipun um að stöðva, en ekki var orðið við því.  Hafi skútunni því verið fylgt eftir og er varðskipið Týr kom að skútunni hafi sérsveitarmenn frá Ríkislögreglustjóra farið um borð í skútuna og handtekið þar þá þrjá menn sem hafi verið um borð, þeirra á meðal X.  Hafi skútan þá verið stödd á alþjóðlegu hafsvæði í efnahagslögsögu Færeyja og hafi færeyskum yfirvöldum verið gert viðvart um aðgerðirnar.  Unnið sé að því að afla eins nákvæmra upplýsinga um siglingaleið skútunnar og unnt sé.

                X hafi alfarið neitað sök vegna málsins. Fram hafi farið myndbending í málinu þar sem bent hafi verið á X sem einn aðila í áhöfn skútunnar.

Rannsókn lögreglu miði áfram, en rannsóknin hafi verið mjög umfangsmikil. Rannsóknin miði að því að finna út hver/hverjir séu eigendur hinna ætluðu fíkniefna sem haldlögð hafi verið. Rannsaka þurfi þætti er snúi að aðdraganda brotsins, skipulagningu og fjármögnun. Til skoðunar séu símasamskipti aðila, staðsetningar fyrir og á þeim tíma sem ætlað brot sé framið, þættir er snúi að fjármálum þeirra og fleira. Gagnaöflun sé í fullum gangi og hafi lögregla notið aðstoðar erlendra yfirvalda við ýmsa þætti er snúi að rannsókninni. Enn hafi ekki öll gögn borist lögreglu erlendis frá en þau munu berast á næstunni. Þá liggi einnig fyrir mikil vinna við úrvinnslu þeirra gagna sem þegar liggi fyrir.

Kærði þyki vera undir sterkum rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti. Þannig sé grunur lögreglu að það mikla magn fíkniefna sem haldlagt var hafi verið flutt hingað til lands á þeirri skútu sem kærði hafi verið handtekinn á og talið að ferð skútunnar hafi verið farin eingöngu í þeim tilgangi að koma fíkniefnunum til Íslands. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 21. apríl en með úrskurði héraðsdóms Austurlands frá 21. apríl nr. R-9/2009 hafi kærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2009, til 12. maí sl. Sá úrskurður hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar nr. 194/2009. Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur, nr. R-191/2009, frá 12. maí hafi kærði verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald, einnig á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, til 29. maí. Sá úrskurður hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar nr. 238/2009. Með úrskurði héraðsdóms nr. R-228/2009 þann 29. maí hafi kærða verið gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, til 9. júní, einnig á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.  Sá úrskurður hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar nr. 296/2009. Þann 9. júní hafi kærða verið gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 23. júní, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur, nr. R-254/2009. Hæstiréttur hafi staðfest niðurstöðu héraðsdóms um að kærði skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi, en hafi þó ekki fallist á þá kröfu lögreglu að kærði skyldi áfram sæta einangrun, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 316/2009.

Meint aðild kærða þyki mikil en hún sé að minnsta kosti talin tengjast flutningi fíkniefnanna hingað til lands. Einnig sé lagt til grundvallar að um sé að ræða mjög mikið magn fíkniefna. Nær öruggt þyki að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið meinta brot kærða þyki mjög alvarlegt. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar en telja verði að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus áður en máli ljúki með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Staða kærða í málinu þyki sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr. 635/2007, 376/2006, 377/2006, 378/2006, 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að uppkvaðningu dóms þegar legið hafi fyrir rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Ekki sé talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar hafi verið uppkveðnir, og sé talið að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt í því máli sem hér um ræði.

Til rannsóknar sé ætlað brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Eins og rannsóknargögn sýna er fyrir hendi sterkur grunur um að kærði eigi aðild að smygli á miklu magni fíkniefna til landsins. Er þess krafist að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grunvelli 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, en kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá 21. apríl sl. Brot það sem kærði er grunaður um getur varðað allt að 12 ára fangelsi skv. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er fallist á að gæsluvarðhald kærða sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna og því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um áframhaldandi gæsluvarðhald kærða. Er því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald en þó þannig að það standi ekki lengur en til þriðjudagsins 14. júlí 2009 kl. 16.00 með vísan til 4. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta áfram gæslu­varðhaldi, allt til þriðjudagsins 14. júlí 2009 kl. 16:00.