Hæstiréttur íslands
Mál nr. 404/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 12. júní 2012. |
|
Nr. 404/2012.
|
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Óli Á. Hermannsson fulltrúi) gegn X (Súsanna Björg Fróðadóttir hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júní 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. júní 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. júní 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að beitt verði vægari úrræðum. Að því frágengnu krefst hún þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. júní 2012.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess fyrir dóminum í dag, að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun allt til föstudagsins 22. júní 2012 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu segir að hinn 25. maí 2012, kl. 16:38, hafi A, kt. [...], komið til landsins með flugi frá Kaupmannahöfn, Danmörku. Tollgæslan í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafi haft afskipti af A og kærasta hennar, B, fæddum [...], dönskum ríkisborgara.
Þegar tekið hafi verið Itemiser stroksýni úr tösku sem A hafi haft meðferðis hafi komið fram há svörun við kókaíni. Er stungið hafi verið í töskuna hafi mátt sjá hvítt duft, ætlað kókaín.
Tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi rannsakað meint fíkniefni. Í töskunni hafi verið falin 569,15 g af meintu kókaíni. Efnin séu nú til rannsóknar og sé beðið matsgerðar frá rannsóknarstofnun Háskóla Íslands. Meint fíkniefni hafi verið falin í harðplasti á hliðum töskunnar.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi upplýsingar um að X og Y, kt. [...], kærasti kærðu, eigi aðild að innflutningi meintra fíkniefna. A sé móðir kærðu.
Kærða hafi ásamt Y verið handtekin þann 25. maí sl. vegna rannsóknar málsins.
Kærða hafi verið yfirheyrð vegna málsins og hafi hún viðurkennt að eiga aðild að innflutningi fíkniefnanna.
Lögregla sé einnig rannsaka tengsl kærðu við innflutning á 347 g af kókaíni sem lögregla haldlagði 8. desember 2011, mál lögreglu 008-2011-[...]. Lögregla hafi grun um að kærða hafi komið að þeim innflutningi. Kærða hafi verið yfirheyrð vegna aðildar sinnar að því máli. Kærða hafi viðurkennt að hafa vitað af þeim innflutningi en segir að hún hafi ekki tekið þátt í skipulagningu hans. Gögn hafi verið borin undir kærðu við yfirheyrslur, sem lögregla telur að bendi til aðildar kærðu að innflutningi fyrrnefndra 347 g af kókaíni þann 8. desember 2011, og hafi kærða neitað að tjá sig um þau gögn eða svarað að hún hafi verið í neyslu kókaíns á þeim tíma.
Kærða hafi einnig viðurkennt við yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa afhent aðila 140 g af kókaíni þegar hún var síðast í Kaupmannahöfn, sem sá aðili hafi átt að flytja til Íslands.
Lögregla hafi sterkan grun um að fleiri aðilar hafi átt aðild að innflutningi ofangreindra meintra fíkniefna og sé beðið eftir að handtaka þeirra eigi sér stað svo hægt sé að yfirheyra þá vegna gruns lögreglu um aðild þeirra að innflutningunum.
Rannsókn þessa máls sé í fullum gangi og njóti algers forgangs hjá fíkniefnadeild lögreglustjórans á Suðurnesjum en málið sé mjög umfangsmikið. Beðið sé eftir gögnum erlendis frá og að aðilar verði handteknir sem lögreglu gruni að séu viðriðnir innflutning og tilraun til innflutnings á fíkniefnum til Íslands. Meðal þess sem rannsaka þurfi séu ferðir kærðu og tengsl hennar við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og eða erlendis, auk annarra atriða. Lögregla telur magn hinna meintu fíkniefna, sem þegar hafi fundist, eindregið benda til þess að hin meintu fíkniefni hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og að háttsemi kærðu kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk ákvæða laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telur að ætla megi að kærða kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hún laus.
Þess er krafist að kærðu verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/ 1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun allt til föstudagsins 22. júní 2012 kl. 16.00.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærða undir rökstuddum grun um aðild að innflutningi mikils magns kókaíns. Rannsókn málsins er í fullum gangi og er málið umfangsmikið. Fyrir hendi er grunur um að fleiri aðilar tengist máli þessu og er þeirra nú leitað. Þá bíður lögreglan eftir gögnum erlendis frá. Haldi kærða óskertu frelsi sínu gæti hún torveldað rannsókn málsins, s.s. með því að hafa áhrif á samseka. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærða, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. júní nk. kl. 16:00.
Kærða sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.