Hæstiréttur íslands
Mál nr. 211/2003
Lykilorð
- Kjarasamningur
- Opinberir starfsmenn
|
|
Fimmtudaginn 6. nóvember 2003. |
|
Nr. 211/2003. |
Vesturbyggð (Kristinn Hallgrímsson hrl.) gegn Jóni Ingimarssyni (Guðni Á. Haraldsson hrl.) |
Kjarasamningur. Opinberir starfsmenn.
Deilt var um hvernig skilja bæri sameiginlega yfirlýsingu samningsaðila, sem var meðal fylgiskjala kjarasamnings. Þar sem ekki naut einhlítra skýringargagna um annað þótti verða að ganga út frá því að takmörkun sú er fólgin var í yfirlýsingunni, hafi verið ætlað að hafa efnislega þýðingu við framkvæmd samninganna. Ágreiningslaust var að tiltekna launategund var ekki að finna í kjarasamningum sem máli skiptu. Varð því samkvæmt orðanna hljóðan að telja að hún félli utan yfirlýsingarinnar. Sveitarfélagið V var samkvæmt því sýknað af kröfu launþegans J.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. maí 2003. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
I.
Stefndi mun hafa verið ráðinn kennari við grunnskóla á Bíldudal 1998. Þá var í gildi kjarasamningur milli launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands, sá fyrsti eftir flutning grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga. Gildistími samningsins var frá 1. ágúst 1997 til ársloka 2000, en á þeim tíma sömdu kennarar og einstök sveitarfélög víða um land um betri kjör en kveðið var á um í kjarasamningnum. Eftir viðræður milli áfrýjanda og nokkurra kennara við grunnskóla á Patreksfirði og Bíldudal, þar á meðal stefnda, var á fundi bæjarstjórnar áfrýjanda 12. maí 1999 samþykkt svohljóðandi tillaga: „Bæjarstjórn samþykkir eftirfarandi kaupauka til kennara og leiðbeinenda við Grunnskólann í Vesturbyggð. 1. Kennarar og leiðbeinendur fái kaupauka frá 1. maí 1999 til 31. desember árið 2000 krónur 8.500 á mánuði. 2. Kennarar og leiðbeinendur sem undirritað hafa ráðningarsamning um störf við skólann á skólaárinu 1999-2000 fái staðaruppbót 1. sept. 1999 kr. 60.000 og 1. apríl og 1. september árið 2000 kr. 40.000 hvort skipti. 3. Ofangreint miðast við 100% starf og greiðist hlutfallslega miðað við lægra starfshlutfall og fellur niður fari það niður fyrir 33%. 4. Greiðslur ná ekki til skólastjórnenda, aðstoðarskólastjóra og stundakennara. 5. Staðaruppbót samkv. 2. lið hér að framan kemur í stað húsaleigufríðinda kennara og falla því núgildandi húsaleigufríðindi kennara úr gildi hinn 1. ágúst 1999.“ Stefndi kvað í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að þau húsaleigufríðindi, sem niður skyldu falla á móti staðaruppbót samkvæmt 5. lið samþykktarinnar, hafi falist í því áfrýjandi hafi í sumum tilvikum greitt niður húsaleigu kennara, sem bjuggu í leiguhúsnæði. Hann hafi hins vegar búið í eigin húsnæði og ekki notið þeirra fríðinda. Áfrýjandi greiddi stefnda í samræmi við 1. lið samþykktarinnar til ársloka 2000 og allar þær þrjár greiðslur, sem 2. liðurinn kvað á um.
Þann 9. janúar 2001 var undirritaður nýr kjarasamningur milli launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands fyrir grunnskóla, er gilda skyldi frá 1. janúar 2001 til 31. mars 2004. Með samningnum var gerð kerfisbreyting á launakjörum kennara, sem meðal annars fólst í því að launakerfið var einfaldað og yfirborganir voru teknar inn í grunnlaun. Meginbreytingarnar, sem í samningnum fólust, skyldu þó ekki taka gildi fyrr en í upphafi skólaársins 2001/2002. Vegna þessa var svohljóðandi sameiginleg yfirlýsing samningsaðila meðal fylgiskjala kjarasamningsins: „Forsendur kjarasamnings þessa eru að þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um viðbótarráðningarkjör sem samið hefur verið um á grundvelli launategunda kjarasamnings standi til og með 31. júlí 2001 og falli þá úr gildi.“
Áfrýjandi mun hafa greitt stefnda til 1. september 2001 þá mánaðarlegu greiðslu, sem kveðið var á um í 1. lið bæjarstjórnarsamþykktarinnar frá 12. maí 1999. Stefndi taldi að í framangreindri bókun með kjarasamningnum hefði falist að áfrýjanda bæri einnig að greiða honum staðaruppbót samkvæmt 2. lið bæjarstjórnarsamþykktarinnar vegna fyrri hluta ársins 2001 með gjalddaga 1. apríl það ár. Því hafnaði áfrýjandi og höfðaði stefndi mál þetta til heimtu slíkrar greiðslu.
II.
Áfrýjandi heldur því fram að bæjarstjórn hafi á fundi sínum 12. maí 1999 tekið einhliða ákvörðun, sem ekki hafi byggst á samningi, um að greiða staðaruppbót til kennara með þremur tilteknum greiðslum á tilteknum dögum. Samþykktin hafi þannig verið takmörkuð við þessar greiðslur og verði því eðli sínu samkvæmt með engu móti skilin þannig að í henni hafi falist annað og meira eða að á henni geti verið byggður réttur til frekari greiðslna síðar. Á þetta verður ekki fallist. Ákvörðun bæjarstjórnar áfrýjanda um staðaruppbótina var tekin í framhaldi af viðræðum við kennara við grunnskóla í sveitarfélaginu. Enda þótt hún tæki einungis til þriggja greiðslna þá skyldu þær inntar af hendi á hverju þeirra þriggja missera, sem eftir lifðu af gildistíma þágildandi kjarasamnings. Þær fólu því í sér viðbótarráðningarkjör, sem skyldu standa til loka gildistíma kjarasamningsins.
Eins og að framan er rakið skyldu viðbótarráðningarkjör sem samið hafði verið um á grundvelli launategunda kjarasamnings standa samkvæmt yfirlýsingu samningsaðila til og með 31. júlí 2001. Aðila greinir á um hvernig skilja beri þetta ákvæði og hvort það takmarki þau „viðbótarráðningarkjör“, sem framlengja skyldi, þannig að staðaruppbót samkvæmt 2. lið bæjarstjórnarsamþykktarinnar falli þar utan. Í hinum áfrýjaða dómi eru rakin meginatriði úr skýrslum Birgis Björns Sigurjónssonar, sem var formaður samninganefndar launanefndar sveitarfélaga, og Eiríks Jónssonar, formanns Kennarasamband Íslands, fyrir héraðsdómi. Þar er einnig rakið efni yfirlýsingar núverandi og fyrrverandi formanns Félags grunnskólakennara.
Birgir Björn taldi að yfirlýsingin hafi einungis átt að ná til yfirborgana, sem hafi verið í formi þeirra tegunda af launum, sem kjarasamningar aðila náðu til. Þær tegundir hafi verið launaflokkar eða röðun í þá, tímakaup í dagvinnu, tímakaup í yfirvinnu og þær tegundir af álagsgreiðslum, sem í samningum séu, svo sem annaruppbót í núgildandi samningi. Kjarasamningsumboð einstakra sveitarfélaga til launanefndarinnar hafi verið takmarkað við þessar tegundir launa. Sveitarfélögin hafi gengist undir að hlíta samþykktum launanefndarinnar og kjarasamningum, sem nefndin stæði að, varðandi þessar launategundir og jafnframt skuldbundið sig til að gera ekki breytingar þar á, viðbætur né frávik. Greiðslur til kennara með öðrum hætti eða undir öðrum heitum hafi fallið utan samningsumboðsins og einnig yfirlýsingarinnar.
Megininntak í yfirlýsingu formanna Félags grunnskólakennara og skýrslu Eiríks Jónssonar er að á gildistíma kjarasamnings launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands frá miðju ári 1997 til ársloka 2000 hafi mikið kveðið að því að sveitarfélög hafi samið um eða ákveðið viðbótarráðningarkjör fyrir kennara. Flest hafi þessi ráðningarkjör miðast við gildistíma kjarasamningsins og því hafi verið nauðsynlegt að brúa bilið þar til nýtt launakerfi öðlaðist gildi 1. ágúst 2001. Samningsaðilar hafi ekki við gerð hins nýja kjarasamnings haft neina yfirsýn yfir efnisinnihald allra þeirra ákvarðana um viðbótarkjör, sem teknar höfðu verið. Þess vegna hafi aldrei komið til tals að tiltaka sérstaklega þær greiðslur, sem framlengja átti. Ætlunin með bókuninni hafi því verið sú að framlengja allar sérákvarðanir um viðbótarkjör, sem teknar höfðu verið á gildistíma síðast gildandi samnings.
Af framansögðu er ljóst að mikið ber á milli formanns samninganefndar launanefndar sveitarfélaga annars vegar og fyrrverandi og núverandi fulltrúa kennara hins vegar um hver ætlun samningsaðila hafi verið með margnefndri yfirlýsingu. Öll eru þau eða voru of nátengd þeim hagsmunum, sem málið varðar, til að ályktun um hver ætlun samningsaðilanna hafi verið verði við þær aðstæður dregin af skýrslum þeirra þannig að úrslitum ráði í máli þessu, nema því aðeins að sú ályktun verði jafnframt studd öðrum atriðum.
Samkvæmt áðurnefndri yfirlýsingu skyldu viðbótarráðningarkjör, sem samið hafði verið um á grundvelli launategunda kjarasamnings, standa til og með 31. júlí 2001. Í orðunum „launategunda kjarasamnings“ felst takmörkun á þeim viðbótarráðningarkjörum, sem framlengja skyldi. Þar sem ekki nýtur samkvæmt framansögðu við einhlítra skýringargagna um annað verður að ganga út frá því að þessari takmörkun hafi verið ætlað að hafa efnislega þýðingu við framkvæmd samninganna. Er ágreiningslaust að launategundina „staðaruppbót“ er hvorki að finna í núgildandi né áðurgildandi kjarasamningum sveitarfélaga og kennara. Verður því samkvæmt orðanna hljóðan að telja að hún falli utan yfirlýsingarinnar. Samkvæmt því verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda.
Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðst í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Vesturbyggð, er sýkn af kröfu stefnda, Jóns Ingimarssonar.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 300.000 krónur málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Ár 2002, fimmtudaginn 19. desember, er dómþing Héraðsdóms Vestfjarða sett í dómsal að Hafnarstræti 9, Ísafirði og háð þar af Erlingi Sigtryggssyni, dómstjóra.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 19. desember 2002
Mál þetta, sem var dómtekið 4. desember sl., höfðaði Jón Ingimarsson, Lönguhlíð 8, Bíldudal, hinn 13. febrúar 2002 gegn Vesturbyggð, Aðalstræti 63, Patreksfirði.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér 40.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 1. apríl 2001 til 1. júlí sama ár, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags og málskostnað.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður.
I.
Árið 1996 var rekstur grunnskóla fluttur frá ríki yfir til sveitarfélaga og voru í því sambandi, meðal annars, sett ný lög um réttindi og skyldur kennara og stjórnendur grunnskóla nr. 72/1996. Hefur stefndi eftir þetta rekið grunnskóla í sveitarfélagi sínu, þ.m.t. á Bíldudal, þar sem stefnandi er einn kennara. Stefndi hefur falið Launanefnd sveitarfélaga samningsumboð fyrir sína hönd gagnvart Kennarasambandi Íslands, er semur fyrir hönd kennara þ.á.m. stefnanda um kaup og kjör.
Á árinu 1997 var undirritaður kjarasamningur milli Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands, er skyldi gilda frá 1. ágúst 1997 til 31. desember 2000. Aðilar eru sammála um að víða um land sömdu kennarar og sveitarfélög síðan sín á milli um betri kjör hinna fyrrnefndu en kjarasamningurinn hljóðaði um. Þessir samningar um viðbótarráðningarkjör höfðu yfirleitt sama gildistíma og kjarasamningurinn.
Á gildistíma samningsins fóru fram viðræður á milli fyrirsvarsmanna stefnanda og stefnda um laun og starfskjör kennara og leiðbeinenda sem störfuðu hjá stefnda, sem leiddi til þess að á 70. fundi bæjarstjórnar stefnda, sem var haldinn 12. maí 1999, var samþykkt svohljóðandi tillaga:
Kennarar og leiðbeinendur fái kaupauka frá 1. maí 1999 til 31. desember árið 2000 krónur 8.500 á mánuði.
1. Kennarar og leiðbeinendur sem undirritað hafa ráðningarsamning um störf við skólann á skólaárinu 1999-2000 fái staðaruppbót 1. sept. 1999 kr. 60.000 og 1. apríl og 1. sept. árið 2000 kr. 40.000 hvort skipti.
2. Ofangreint miðast við 100% starf og greiðist hlutfallslega miðað við lægra starfshlutfall og fellur niður fari það niður fyrir 33%.
3. Greiðslur ná ekki til skólastjórnenda, aðstoðarskólastjóra og stundarkennara.
4. Staðaruppbót samkv. 2. lið hér að framan kemur í stað húsaleigufríðinda kennara og falla því núgildandi húsaleigufríðindi úr gildi 1. ágúst 1999.
Nýr kjarasamningur milli Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands var gerður 9. janúar 2001 og skyldi gildistími hans vera frá 1. janúar 2001 til 31. mars 2004. Í honum var gert ráð fyrir kerfisbreytingum með tilheyrandi launahækkunum, er skyldu ekki taka gildi fyrr en við upphaf skólaársins 2001-2002. Samhliða þessu var gerð sérstök bókun við samninginn, sem er svohljóðandi:
„[f]orsendur kjarasamnings þessa eru að þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um viðbótarráðningarkjör sem samið hefur verið um á grundvelli launategunda kjarasamnings standi til og með 31. júlí 2001 en falli þá úr gildi.“
Stefndi greiddi þeim kennurum og leiðbeinendum sem hjá honum störfuðu 8.500 króna kaupaukann, sbr. lið 1. í samþykkt bæjarstjórnar hér að framan, til 31. júlí 2001. Stefndi taldi sér hins vegar ekki skylt að greiða frekari staðaruppbót en samþykkt bæjarstjórnar hans hljóðaði um og greiddi stefnanda því ekki staðaruppbót 1. apríl 2001. Er deilt um það í málinu hvort staðaruppbótin hafi verið viðbótarráðningarkjör sem ofangreind bókun Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands taki til.
II.
Stefnandi byggir á því að stefndi og kennarar við grunnskóla stefnda hafi komist að samkomulagi um viðbótarráðningarkjör og þannig samið um yfirborganir til kennara umfram það sem sagði í kjarasamningi aðila. Með hinum nýja kjarasamningi hafi verið samið um áframhaldandi greiðslur viðbótarráðningarkjara til 31. júlí 2001 og því sé krafa stefnanda um greiðslu staðaruppbótar innan þeirra tímamarka, því hún hafi fallið í gjalddaga 1. apríl 2001.
Ennfremur byggir stefnandi á því að Launanefnd sveitarfélaga hafi haft umboð til að semja fyrir sveitarfélagið Vesturbyggð, sbr. upplýsingar frá Launanefnd þar um, og bendir á að samkvæmt samþykktum hennar sé hlutverk hennar að gæta hagsmuna sveitarfélaganna að því er varðar kaup og kjör og koma fram sem samningsaðili fyrir hönd sveitarfélaga í landinu eftir því sem þau gefi henni umboð til, sbr. og 4. og 5. mgr. 3. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986.
Stefnandi byggir einnig á því að ákvæði kjarasamnings séu lágmarkskjör og ráðningarsamningar er hljóði um annað séu ógildir, sbr. 24. gr. laga nr. 94/1986.
Stefnandi bendir á að stefndi hélt áfram að greiða kaupauka að fjárhæð 8.500 krónur á mánuði uns hið nýja launakerfi tók gildi. Einnig bendir stefnandi á að húsnæðishlunnindi voru ekki greidd eftir að staðaruppbót féll niður um áramótin 2000/2001, en staðaruppbót skyldi koma í stað húsnæðishlunninda.
Að öðru leyti vitnar stefnandi til reglna um Launanefnd sveitafélaga frá 28. ágúst 1998, laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 1. mgr. 10. gr. og til laga nr 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, einkum 4. og 5. mgr. 3. gr. og 24. gr.
III.
Stefndi krefst sýknu með vísan til þess að hann hafi að fullu og öllu leyti efnt allar samningsbundnar skyldur gagnvart stefnanda í samræmi við kjarasamning og þær breytingar á honum sem voru gerðar með samþykkt bæjarstjórnar stefnda 12. maí 1999. Samkvæmt því hafi stefnda aðeins borið að greiða staðaruppbótina á hinum þremur tilgreindu gjalddögum í samþykktinni. Einnig bendir stefndi á að samkvæmt efni sínu geti samþykkt bæjarstjórnar hans frá 12. maí 1999 ekki leitt til þess að að sjálfvirk framlenging greiðslna sé möguleg enda verði ekkert ráðið af samþykktinni hver fjárhæðin skyldi vera við slíkar aðstæður.
Stefndi byggir einnig á því að kjarasamningur aðila nefni hvergi staðaruppbót og því teljist þær greiðslur hans til stefnanda ekki til launategunda kjarasamnings og falli því ekki undir framlengingu viðbótarráðningarkjara sem samið var um með bókun við kjarasamninginn.
Stefndi mómælir því að greiðsla hans á mánaðarlegum 8.500 króna kaupauka til stefnanda fram yfir gildistíma samþykktar bæjarstjórnar stefnda hafi falið í sér viðurkenningu á greiðsluskyldu, því stefnda hafi verið í sjálfsvald sett hvort hann greiddi þessa upphæð eða ekki og þessar greiðslur kaupaukans baki honum ekki skyldu til að greiða stefnanda hina umþrættu staðaruppbót. Stefndi bendir á í þessu sambandi að umræddur kaupauki sé í reynd eðlislíkur greiðslu viðbótarlauna vegna verkaskiptingar og færni, sem um ræðir í grein 1.3.2 í kjarasamningi aðila. Þessi kaupauki standi því í reynd nokkuð nær því að falla undir áðurnefnda bókun samningsaðila en staðaruppbótin geri.
Stefndi mótmælir því að ákvörðun hans um að hætta greiðslu staðaruppbótar eftir gildistíma samþykktar bæjarstjórnar stefnda um hana brjóti gegn 24. gr. laga nr. 94/1986, ásamt því að þessi tilhögun sé almennt tíðkuð um meðferð sambærilegra greiðslna og samrýmist fyrirætlan samningsaðila. Þá byggir stefndi á því að samþykkt bæjarstjórnar sinnar 12. maí 1999, sem hafi verið í samræmi við niðurstöður viðræðna aðila, hafi í reynd leitt til breytingar á gildandi ráðningarkjörum starfsmanna og telur stefndi sig hafa efnt skyldur sínar samkvæmt nefndu samkomulagi og því verði engar frekari kröfur hafðar uppi á hendur honum vegna þessa. Að öðru leyti vísar stefndi til laga um kjarasamning opinberra starfsmanna nr. 94/1986 og meginreglna íslensks vinnu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Þá vísar hann til laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda við grunnskóla.
IV.
Í máli þessu er deilt um hvernig eigi að skilja bókun þá sem gerð var við kjarasamning Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands og rakin er orðrétt hér að framan. Samkvæmt orðalagi hennar virðist tilgangur hennar hafa verið að tryggja að sérsamningar um viðbótarlaun, þeirra sem kjarasamningurinn tók til, myndu haldast óbreyttir uns kerfisbreyting sem samið var um, tæki gildi við upphaf næsta skólaárs. Samkvæmt bókuninni á hún þó aðeins við um þau viðbótarráðningarkjör sem byggðu á launategundum kjarasamnings. Deila aðilar um merkingu hennar að þessu leyti.
Birgir Björn Sigurjónsson, sem var formaður samningsnefndar Launanefndar sveitarfélaga er kjarasamningurinn var gerður, gaf skýrslu hér fyrir dómi. Aðspurður taldi hann að markmið aðila með þessari bókun hefði verið að reyna að fanga allar þær yfirborganir sem í gangi voru, er kjarasamningur aðila var gerður, en að orð bókunarinnar takmörkuðust þó við þær greiðslur er féllu undir samningsumboð Launanefndar sveitarfélaga. Taldi hann að bókunin tæki aðeins til greiðslna, sem falli undir launaliði kjarasamningsins. Nefndi hann sem dæmi, um yfirborganir er falli hér undir, greiðslur fyrir óunna yfirvinnu eða röðun í hærri launaflokka en kjarasamningurinn segi til um. Aðspurður kvaðst hann telja þessi dæmi vera tæmandi talningu á þeim viðbótarráðningarkjörum sem byggðu á launategundum kjarasamnings og gætu fallið undir orðalag bókunarinnar. Kvað hann alla sem þekktu til gerðar kjarasamninga skilja orðin launategundir kjarasamnings þessum skilningi og taldi hann að staðaruppbót gæti ekki fallið þar undir.
Formaður Kennarasambands Íslands, Eiríkur Jónsson, gaf einnig skýrslu hér fyrir dómi og taldi að tilgangur umræddrar bókunar hafi verið að ná yfir þau viðbótarráðningarkjör sem hefði verið samið um frá því að kjarasamningur aðila frá 1997 var gerður og þannig tryggja óbreytt ástand hvað slík kjör varðaði, þar til kerfisbreytingar hins nýja kjarasamnings væru komnar í framkvæmd.
Stefnandi hefur lagt fyrir dóminn yfirlýsingu Finnboga Sigurðssonar, formanns félags grunnskólakennara og Guðrúnar Ebbu Ólafsdótttur, fyrrum formanns sama félags. Er yfirlýsingunni ekki mótmælt af stefnda sem óstaðfestri. Í henni segir að af hálfu Launanefndar sveitarfélaga hafi verið óskað að kerfisbreyting sem fólst í nýjum kjarasamningi kæmi ekki til framkvæmda fyrr en í upphafi nýs skólaárs 1. ágúst 2001. Flest viðbótarráðningarkjör, sem fjölmörg sveitarfélög hefðu samið um, hefðu aðeins náð til áramóta 2000/2001, eða þar til nýr kjarasamningur yrði gerður. Því hafi þurft að brúa bilið fram til 1. ágúst 2001 og hafi það verið tilefni bókunarinnar. Við gerð hennar hafi ekki verið vitað nákvæmlega um efnisinnihald þeirra viðbótarráðningarkjara sem um hefði verið samið. Því hefði ekki verið unnt að tiltaka sérstaklega þær greiðslur sem ættu að framlengjast, enda hafi það ekki komið til tals við samningagerðina. Hafi ætlun aðila verið sú að framlengja alla sérsamninga um viðbótarráðningarkjör.
Samkvæmt þessu er ekki annað að sjá en að tilgangur aðila með þessari bókun hafi verið að viðhalda til loka skólaársins þeim yfirborgunum sem í gangi voru er kjarasamingur aðila var gerður. Við túlkun bókunarinar verður að horfa til þessa markmiðs sem átti að ná með gerð hennar.
Þegar greiðslur eins og staðaruppbót samkvæmt samþykkt stefnda eru metnar verður að horfa til eðlis greiðslunnar en ekki þess nafns sem henni er gefin. Með henni var ákveðið að greiða stefnanda kaup umfram það sem kveðið var á um í þágildandi kjarasamningi. Stefnandi bar að staðaruppbótin hefði komið í stað húsaleigufríðinda sem stefndi hefði veitt þeim starfsmönnum er leigðu húsnæði á staðnum. Kvaðst hann sjálfur ekki hafa fengið greidd slík fríðindi, þar sem hann ætti íbúðarhúsnæði á staðnum. Með samþykkt stefnda var því horfið frá því að greiða húsaleigufríðindi, en í stað þess ákveðið að greiða öllum kennurum ákveðna launaviðbót, kaupauka, í samræmi við vinnuframlag þeirra. Þótt þessi kaupauki hafi verið nefndur staðaruppbót þykir ljóst að hann var yfirborgun í formi launagreiðslna en ekki yfirborgun í formi hlunnindagreiðslna.
Dómurinn telur að skilja beri bókun samningsaðila til samræmis við markmið þeirra með henni, þannig að hún taki til allra greiðslna sem hafði verið samið um að greiða til viðbótar gildandi kjarasamningi og voru í eðli sínu laun, hverju nafni sem þær voru nefndar. Samkvæmt ofansögðu fellur hin umdeilda staðaruppbót hér undir. Bar stefnda því samkvæmt bókuninni að greiða stefnanda staðaruppbótina á því tímabili sem bókunin tekur til.
Stefndi telur að ekki sé hægt að greiða staðaruppbótina þar sem ekki liggi fyrir hver fjárhæð hennar eigi að vera. Samkvæmt samþykkt stefnda átti að greiða tiltekna fjárhæð á tilteknum gjalddögum árið 2000. Af bókun Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands leiðir að honum bar að greiða sömu fjárhæð á sambærilegum gjalddögum árið 2001, uns gildistími bókunarinnar var útrunninn. Bar honum því að greiða staðaruppbót 1. apríl 2001, 40.000 krónur.
Samkvæmt þessu verða dómkröfur stefnanda teknar til greina að öllu leyti.
Eftir þessum málsúrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðst 280.000 krónur.
Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.
Dómsorð:
Stefndi, Vesturbyggð, greiði stefnanda, Jóni Ingimarssyni, 40.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr 25/1987 frá 1. apríl 2001 til 1. júlí sama ár, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags og 280.000 krónur í málskostnað.