Hæstiréttur íslands

Mál nr. 485/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann
  • Gæsluvarðhald


                               

Mánudaginn 27. júlí 2015.

Nr. 485/2015.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Guðmundur Þórir Steinþórsson fulltrúi)

gegn

X

(Helga leifsdóttir hdl.)

Kærumál. Farbann. Gæsluvarðhald.

X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem honum var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála vegna ætlaðra fjársvika og varslna barnakláms. Ekki var talið fullnægt því skilyrði a. liðar ákvæðisins að ætla mætti að X myndi torvelda rannsókn málsins, en talin var hætta á að hann myndi reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér undan málsókn áður en máls hans yrði til lykta leitt, sbr. b. lið ákvæðisins. Með vísan til þess að X hafði setið í gæsluvarðhaldi frá 17. júní 2015 og atvika málsins að öðru leyti var hins vegar talið nægilegt að honum yrði bönnuð brottför af landinu til að koma í veg fyrir að hann gæti komið sér undan málsókn, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008. Var honum því gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds þann tíma sem krafa L tók til

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.   

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júlí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 18. ágúst 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði beinist rannsókn lögreglu að tvenns konar brotum, sem varnaraðili er sakaður um, annars vegar fjársvikum, sbr. 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og hins vegar vörslum á barnaklámi, sbr. 210. gr. a. sömu laga. Í upphafi 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 segir að sakborningur verði úrskurðaður í gæsluvarðhald sé fram kominn rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, enda hafi hann náð 15 ára aldri. Samkvæmt orðanna hljóðan er það ekki gert að skilyrði fyrir því að þessu úrræði verði beitt að sakborningur hafi verið sakhæfur samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga þegar brotið var framið. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna úrskurðarins er staðfest sú niðurstaða að fyrir hendi séu skilyrði til að varnaraðili verði úrskurðaður í gæsluvarðhald, svo framarlega sem eitthvert ákvæðanna í a. til d. liðum 1. mgr. 95. gr. eigi við.

Krafa sóknaraðila um gæsluvarðhald yfir varnaraðila er reist á a. og b. liðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt a. lið verður sakborningur úrskurðaður í gæsluvarðhald ef ætla má að hann muni torvelda rannsókn máls, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði er rannsókn á ætluðu broti varnaraðila á 248. gr. almennra hegningarlaga svo til lokið. Hinn 22. júlí 2015 var síðast tekin skýrsla hjá lögreglu af varnaraðila vegna ætlaðs brots hans á 210. gr. a. sömu laga. Einnig eru meðal gagna málsins skýrslur um rannsókn á tölvum og snjallsímum sem fundust í vörslum varnaraðila. Hefur sóknaraðili ekki fært fyrir því viðhlítandi rök að varnaraðili muni, úr því sem komið er, torvelda rannsókn á þessu broti á þann hátt að fyrrgreint lagaákvæði eigi við.

 Varnaraðili er erlendur ríkisborgari og stundar hvorki atvinnu né á fjölskyldu hér á landi. Samkvæmt því verður að telja hættu á að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn áður en mál hans verður til lykta leitt, sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 17. júní 2015. Að því virtu og með vísan til atvika málsins að öðru leyti verður að telja nægilegt að honum verði bönnuð brottför af landinu til að koma í veg fyrir að hann geti komið sér undan málsókn, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008. Verður varnaraðila því gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds þann tíma sem krafa sóknaraðila tekur til.

Dómsorð:

Varnaraðila, X, er bönnuð brottför af landinu allt til þriðjudagsins 18. ágúst 2015 klukkan 16.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 22. júlí 2015.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að erlendum ríkisborgara, X, fæddum [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 18. ágúst 2015, kl. 16:00.

I

Kærði mótmælir kröfu lögreglustjóra. Fram kom í máli kærða að hann hafi játað brot sín og verið samvinnuþýður, hann vilji fá dóm hér á landi og ekki vera framseldur til heimalands sína. Jafnframt kom fram að samkvæmt 4. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, væri ekki hægt að refsa honum eftir íslenskum hegningarlögum. Þá kom fram að spurning væri um sakhæfi kærða sem væri meðal annars með asbergers heilkenni á einhverfurófi, þráhyggjuröskun og þunglyndi. Hafi ákæruvaldið vanrækt rannsókn á veikindum kærða og ekki veitt verjanda ákærða aðgang að gögnum málsins skv. 37. gr. sakamálalaga nr. 88/2008. Einnig kom fram að brotið hafi verið á réttindum kærða til þess að velja sér verjanda. Óvíst væri að kærða yrði gert að sæta óskilorðsbundnu fangelsi og nægjanlegt ætti að vera að úrskurða kærða í farbann.

II

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur til rannsóknar ætlaða refsiverða háttsemi kærða á tvíþættum grundvelli, annars vegar fjársvik í flugmiðakaupum, sbr. mál nr. [...] og hins vegar vörslur kærða á miklu magni barnaklámefnis, sbr. mál nr. [...]. Upphaf rannsóknar lögreglu má rekja til þess að lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning frá A, kt. [...], um að kærði væri á leið hingað til lands og að farmiði hans hefði verið greiddur með illa fengnu greiðslukortanúmeri, í ferðaleið með fluglegginn frá [...], 16. júní 2015 og til baka fluglegginn [...], 17. júní 2015. Andvirði farmiðans var samtals 3526,95 GBP eða 722.178 kr., mv. miðgengi Seðlabanka Íslands á kaupdegi. Er áætlað tjón A í það minnsta sömu fjárhæðar. Kærði var handtekinn á Keflavíkurflugvelli hinn 16. júní 2015 vegna þessa, er hann var á leið í flug [...] til [...] í Bandaríkjunum. Hefur hann frá þeim tíma verið í haldi vegna frekari rannsóknar málsins, sbr. úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þess efnis frá 17. og 24. júní sl.

Við handtöku voru haldlagðir þeir munir sem kærði hafði meðferðis, þeirra á meðal fartölva, tvær spjaldtölvur og tveir snjallsímar og hefur lögregla rannsakað þennan tölvubúnað undanfarnar vikur. Hvað varðar fjársvikaþátt málsins hefur lögregla fundið fjölda flugbókana á vegum kærða og greiðslukortanúmer tilheyrandi öðrum aðilum. Hefur kærði játað að hafa keypt umrædda flugmiða með illa fengnu greiðslukortanúmeri og er rannsókn þess máls svo til lokið. Hvað varðar ætlaðar vörslur kærða á barnaklámi byggir sú rannsókn á að lögregla hefur fundið þúsundir mynda og myndbanda sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfengin hátt, annars vegar í tölvubúnaði kærða og hins vegar á s.k. tölvuskýjum sem til staðar voru á tölvubúnaði hans og lögregla telur að tilheyri honum.

Lögregla hefur verið í töluverðum samskiptum við erlend löggæsluyfirvöld vegna málefna kærða. Í fyrsta lagi, hvað varðar ætluð fjársvikabrot kærða, í þeim tilgangi að afla gagna um ferðalög kærða og ætluð fjársvikabrot hans hér á landi og eftir atvikum erlendis svo og varðandi sakaferil kærða og stöðu hans á [...]. Bíður lögregla nú svara eftir formlegum leiðum um hvoru tveggja en hefur þegar fengið upplýsingar um að kærði afpláni þegar dóm á [...] og að hann hafi áður gerst sekur um áþekk brot og nú eru til rannsóknar hér á landi. Í öðru lagi, hvað varðar ætlaðar vörslur kærða á barnaklámi, bæði á tölvubúnaði hans sem og í tölvuskýjum sem lögregla telur að séu á hans vegum. Hefur lögregla nú þegar óskað aðstoðar bandarískra löggæsluyfirvalda hvað varðar aðstoð við öflun gagna vegna vistunar á slíku efni á tölvuskýinu Dropbox auk þess sem óskað hefur verið aðstoðar skoskra löggæsluyfirvalda við gagnaöflun.

Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið og með vísan til gagna málsins telur lögreglustjóri fram kominn rökstuddan grun um að kærði hafi með háttsemi sinni gerst sekur um brot á annars vegar 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem við liggur allt að sex ára fangelsi og hins vegar 210. gr. a. sömu laga, sem við liggur allt að tveggja ára fangelsi. Að mati lögreglustjóra er sýnt að þau brot sem kærði er sakaður um muni ekki hafa í för með sér sektir eða skilorðsbundna refsingu miðað við aðstæður og að lengd þess gæsluvarðhalds sem krafist er að kærða verði gert að sæta sé ekki lengri en sýnt þyki að fangelsisrefsing verði dæmd. Byggir sú afstaða annars vegar á réttarframkvæmd um viðlíka brot og hins vegar á þeim upplýsingum sem borist hafa um þau brot sem kærði hefur verið dæmdur fyrir á [...], sem lögreglustjóri ætlar að verði til refsiþyngingar, verði kærði sakfelldur fyrir þau brot sem hann er sakaður um.

Af framansögðu telur lögreglustjóri nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til rannsóknar og meðferðar hjá lögreglu og ákæruvaldi. Megi í fyrsta lagi telja einsýnt ætla að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins gangi hann laus. Í öðru lagi sé mikil hætta sé á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast og koma sér þannig undan málsókn eða fullnustu refsingar, gangi hann laus. Er á það bent að kærði, sem er erlendur ríkisborgari, virðist ekki eiga nein tengsl við landið önnur en að ætluð brot hans séu til rannsóknar hér á landi. Á hann þannig hvorki fjölskyldu né stundar atvinnu hér. Vísast m.a. til dóms Hæstaréttar frá 10. nóvember 2011 í málinu nr. 595/2011.

Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, a- og b-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 210. gr. a. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telur lögreglustjóri brýna rannsóknar- og refsivörsluhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 18. ágúst 2015, kl. 16:00.

III

Með vísan til alls framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Eiga að mati dómsins við ákvæði 7. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem meintar afleiðingar verknaðar kærða komu fram hér á landi, og heyra meint brot hans því undir íslenska lögsögu.

Ljóst er af því sem að framan er rakið, sem og rannsóknargögnum lögreglu, að rannsókn málsins er hvergi nærri lokið. Rannsóknin er viðamikil og teygir anga sína til margra landa, þaðan sem eftir er að afla gagna. Að því gættu verður að fallast á það með lögreglustjóra að gangi kærði laus megi ætla að hann kunni að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eru því uppfyllt í málinu. Miðað við dómaframkvæmd er ekki sýnt að meint brot kærða varði aðeins sektum eða skilorðsbundinni refsingu. Þá liggur fyrir að kærði er erlendur ríkisborgari sem engin tengsl hefur við Ísland svo vitað sé. Má ætla að kærði muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér undan málssókn með öðrum hætti fari hann frjáls ferða sinna. Samkvæmt því telst einnig fullnægt skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi

Samkvæmt framansögðu eru uppfyllt í málinu skilyrði a- og b-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og verður krafa lögreglustjóra því tekin til greina svo sem hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 18. ágúst nk. kl. 16:00.