Hæstiréttur íslands

Mál nr. 624/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Leigusamningur
  • Forgangskrafa


Miðvikudaginn 8. desember 2010.

Nr. 624/2010.

Opal Holding ehf.

(Helgi Bragason hdl.)

gegn

þrotabúi Festar ehf.

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Leigusamningur. Forgangskrafa.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem því var hafnað að krafa O ehf. nyti rétthæðar sem búskrafa á grundvelli 3. tölul. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti of.l. í þrotabú F ehf. F ehf. sem tekið var til gjaldþrotaskipta 5. nóvember 2009 hafði á leigu húsnæði. O ehf. lýsti yfir riftun leigusamningsins með yfirlýsingu sem birt var F ehf. O ehf. Skiptastjóri F ehf. hafnaði riftunarkröfunni. Í dómi Hæstaréttar var talið ósannað að F ehf. hafi tilkynnt O ehf. að hann byggði afnot sín af húsnæðinu eftir 1. desember 2009 á 97. gr. laganna og hygðist taka afstöðu til þess síðar að hvort hann nýtti sér heimild sína samkvæmt 1. mgr. 91. gr. laganna til að ganga inn í leigusamninginn. Var hann með yfirlýsingu sinni í tilefni af riftun O ehf. og framgöngu að öðru leyti talinn hafa tekið við réttindum og skyldum hins gjaldþrota félags samkvæmt húsleigusamningnum við sóknaraðila. Var því viðurkennd krafa O ehf.  á hendur F ehf. og að hún nyti rétthæðar á grundvelli 3. tölul. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. nóvember 2010. Sóknaraðili kveðst hafa fengið vitneskju um úrskurðinn 14. október 2010 og hefur það ekki sætt andmælum. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. september 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila, aðallega um að krafa hans að fjárhæð 33.783.013 krónur, en til vara lægri fjárhæð, í báðum tilvikum að frádreginni innborgun 17. mars 2010 að fjárhæð 3.186.899 krónur, yrði viðurkennd sem búskrafa. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að lýst krafa hans í bú varnaraðila að fjárhæð 33.783.013 krónur, en til vara lægri fjárhæð, verði viðurkennd sem búskrafa samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili ekki dregið frá kröfu sinni innborgun, 3.186.899 krónur, sem innt var af hendi 17. mars 2010, svo sem hann gerði í héraði. Í þessu felst hækkun á kröfu hans sem ekki kemst að í málinu. Er því til úrlausnar fyrir Hæstarétti sama krafa og sóknaraðili hafði uppi í héraði.

Svo sem í hinum kærða úrskurði nánar greinir var bú varnaraðila tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 5. nóvember 2009. Varnaraðili hafði þá á leigu húsnæði í eigu sóknaraðila að Grandatröð 8 og Eyrartröð 12 í Hafnarfirði. Í samráði við stærsta kröfuhafa búsins, Landsbanka Íslands hf., mun skiptastjóri hafa ákveðið að halda starfsemi varnaraðila áfram og reyna að selja fyrirtækið í rekstri.

Sóknaraðili mótmælir því sem segir í forsendum hins kærða úrskurðar, að strax hafi komið fram hjá skiptastjóra varnaraðila að hann gæti ekki tekið afstöðu til þess hvort hann gengi inn í leigusamninginn um fasteign sóknaraðila og að hann byggði tímabundin afnot af fasteigninni á heimild í 97. gr. laga nr. 21/1991. Þessi fullyrðing hafi fyrst komið fram í greinargerð varnaraðila fyrir héraðsdómi og sé henni mótmælt sem rangri. Skiptastjóri varnaraðila hafi þvert á móti lýst yfir því í orði og verki að hann hefði heimild til að ganga inn í leigusamning aðila, sem hann hafi og gert. Hafi hann með þeim hætti nýtt sér eign sóknaraðila til að skapa mikil verðmæti fyrir varnaraðila og tekið fram við lögmann sóknaraðila að það væri vilji hans að reksturinn yrði áfram á sama stað í Hafnarfirði og sú hefði verið ósk bæjaryfirvalda þar. Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðili hafi með aðgerðum sínum gefið skýrlega til kynna að hann nýtti sér heimild 1. mgr. 91. gr. laga nr. 21/1991. Þannig hafi hann gengið inn í gagnkvæman leigusamning aðila og þar með ákvæði samningsins um uppsagnarfrest, enda geti hvorki talist eðlilegt né sanngjarnt að þrotabú geti gengið inn í gagnkvæman samning og notið af því mikils ágóða fyrir búið en hafnað því að virða sínar skyldur samkvæmt samningnum.

Með yfirlýsingu 25. nóvember 2009, sem birt var varnaraðila 27. sama mánaðar, lýsti sóknaraðili yfir riftun leigusamningsins um Grandatröð 8 og Eyrartröð 12 í Hafnarfirði. Var þess krafist að varnaraðili rýmdi húsnæðið „þegar í stað og eigi síðar en þriðjudaginn 1. desember 2009“. Við þessu brást varnaraðili með tölvubréfi, sem skiptastjóri hans sendi lögmanni sóknaraðila 30. nóvember 2009. Þar sagði meðal annars svo: „Ég hef móttekið bréf þitt dags. 25. nóvember s.l. ... Mun ég senda þér ítarlegt svar fljótlega þar sem ég rökstyð höfnun riftunarkröfunnar.“ Hinn 1. desember sendi lögmaður sóknaraðila skiptastjóra varnaraðila tölvubréf, þar sem sagði meðal annars: „... hjálagt er reikningur v/ nóvember og desember sem ég bið þig að greiða inn á ... Ég verð svo í sambandi við þig þegar ég hef fengið neðangreint svar þitt.“ Ekkert liggur fyrir í málinu um að skiptastjórinn hafi sent boðað svar með rökstuðningi fyrir því að hann hafnaði riftunarkröfu sóknaraðila. Sóknaraðili byggir á því að svar varnaraðila 30. nóvember 2009 jafngildi yfirlýsingu af hans hálfu um að hann nýtti sér rétt þrotabúsins samkvæmt 1. mgr. 91. gr. laga nr. 21/1991 til að taka við réttindum og skyldum þrotamanns eftir gagnkvæmum samningi.

Í hinum kærða úrskurði er lagt til grundvallar að „fram hafi komið strax hjá skiptastjóra að hann gæti ekki tekið afstöðu til þess hvort hann gengi inn í leigusamninginn og að hann byggði sín tímabundnu afnot á heimild í 97. gr. gjaldþrotaskiptalaganna.“ Þessu mótmælir sóknaraðili sem röngu svo sem fyrr sagði. Vísar hann til þess að hvergi komi fram í gögnum málsins að varnaraðili hafi tilkynnt sóknaraðila að hann gæti ekki tekið afstöðu til þess hvort hann gengi inn í leigusamninginn og að hann byggði á 97. gr. laganna. Segir hann það þvert á móti koma fram í tölvupóstinum 30. nóvember 2009 að varnaraðili hygðist hafna riftunarkröfu og ganga inn í leigusamning aðila.

Líta verður svo á að varnaraðili hafi hafnað riftunarkröfu sóknaraðila með orðsendingunni 30. nóvember 2009. Sóknaraðili hefur við málflutning sinn unað þeirri afstöðu varnaraðila. Sú aðstaða er uppi í málinu að varnaraðili hafði ekki heimild til að segja samningnum upp með „sanngjörnum fresti“ samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991, þar sem leigusamningnum hafði verið þinglýst. Sóknaraðili byggði ekki kröfur sínar í héraði á þessu ákvæði laganna enda hafði hann sjálfur lýst yfir riftun samningsins en varnaraðili mótmælt henni. Skiptir ákvæðið því ekki máli fyrir úrlausn á ágreiningi málsaðila. Ósannað er að varnaraðili hafi tilkynnt sóknaraðila að hann byggði afnot sín af húsnæðinu eftir 1. desember 2009 á 97. gr. laga nr. 21/1991 og hygðist taka afstöðu til þess síðar hvort hann nýtti heimild sína samkvæmt 1. mgr. 91. gr. laganna til að ganga inn í leigusamninginn. Verður samkvæmt þessu fallist á með sóknaraðila að varnaraðili teljist, með yfirlýsingu sinni 30. nóvember 2009 og framgöngu að öðru leyti, hafa tekið við réttindum og skyldum hins gjaldþrota félags samkvæmt húsaleigusamningnum við sóknaraðila.

Krafa sóknaraðila í héraði nam umsaminni leigu, 2.539.346 krónum á mánuði án virðisaukaskatts, í 13 mánuði frá febrúar 2010 til og með mars 2011, samtals 33.011.498 krónur. Við þetta bættist „þóknun með vsk“ 753.945 krónur, þannig að krafan nam samtals 33.783.013 krónum. Frá þessari fjárhæð dró sóknaraðili við kröfugerð sína 3.186.899 króna innborgun frá 17. mars 2010,. Fyrir liggur að nefnd greiðsla er húsaleiga fyrir febrúar 2010 að meðtöldum virðisaukaskatti.

Einu efnislegu andmælin sem varnaraðili hefur haft uppi um fjárhæð kröfu sóknaraðila lúta að því að fjárhæð leigunnar sé ósanngjörn. Hann hefur ekki gert neina sérstaka grein fyrir grundvelli þessara andmæla og heldur ekki stutt þau gögnum. Þeim verður því ekki sinnt frekar. Verður krafa sóknaraðila tekin til greina á þann hátt sem í dómsorði greinir með þeirri fjárhæð að greiðslan 17. mars 2010 er dregin frá höfuðstól kröfunnar sem viðurkennd verður.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Viðurkennd er krafa sóknaraðila, Opal Holding ehf., 30.596.114 krónur á hendur varnaraðila, þrotabúi Festar ehf. Krafan nýtur rétthæðar samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. september 2010.

I.

Mál þetta var tekið til úrskurðar þann 7. september sl. að loknum munnlegum málflutningi. 

Sóknaraðili er Opal Holding ehf., Hvaleyrarbraut 33, Hafnarfirði, en varnaraðili er Þrb., Festi ehf., kt. 530489-1249.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans til skiptastjóra varnaraðila, dagsett 18.01.2010 að fjárhæð 33.783.013 krónur verði viðurkennd sem búskrafa. Til vara að lægri fjárhæð, að mati réttarins, verði viðurkennd sem búskrafa. Í báðum tilfellum að frádreginni innborgun frá 17.03.2010, 3.186.899 krónum. Sóknaraðili krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði alfarið hafnað en til vara að lýst krafa hans verði lækkuð umtalsvert og að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu. 

II.

Helstu málsatvik sem eru óumdeild eru þau að þann 5. nóvember var bú varnaraðila tekið til skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness. Skiptastjóri ákvað í samráði við stærsta kröfuhafa búsins að halda starfsemi hins gjaldþrota félags áfram sem óbreyttri fyrst um sinn og reyna að selja fyrirtækið í rekstri en reksturinn fór að mestu fram í húsnæði búsins að Óseyrarbraut og á sjó en að hluta til að Grandatröð 8 sem er í eigu sóknaraðila. Fljótlega eftir upphaf skipta hafði fyrirsvarsmaður sóknaraðila samband við skiptastjóri og krafði hann um greiðslu á leiguskuld sem hafði gjaldfallið fyrir upphaf skipta. Kvaðst skiptastjóri hafa hafnað kröfunni og bent honum á að lýsa kröfu í búið og fékk lögmaður sóknaraðila sömu svör. Í framhaldi af þessum samskiptum lýsti sóknaraðili yfir riftun leigusamnings um Grandatröð 8 og fá umráð hússins. Skiptastjóri gat ekki á sömu stundu tekið afstöðu til þess hvort búið gengi inn í leigusamninginn og kvaðst byggja tímabundin afnot af húsnæðinu á heimild í 97. gr. gjaldþrotaskiptalaganna nr. 21/1991. Í fyrstu var það ætlun skiptastjóra að hafna riftun samningsins og boðaði hann þá fyrirætlan í skeyti til lögmanns sóknaraðila en hvarf frá því eftir nánari skoðun enda taldi hann það þarflaust eins og á stóð. Á gamlársdag 2009 var síðan gengið frá sölu á eignum þrotabúsins og tók kaupandinn við rekstrinum strax daginn eftir. Ekki er um það deilt að sóknaraðila var fullkunnugt um eigendaskiptin og hafa verið lagðir fram tölvupóstar eins og á dómskjali nr. 19 sem staðfesta þetta. Í framhaldinu varð ekki af samningum kaupanda og sóknaraðila um áframhaldandi leigu á húsnæðinu og lauk rýmingu þess um miðjan janúar. Þann 8. febrúar 2010 fór fram úttekt á ástandi hússins á vegum Aðalskoðunar og voru gerðar ýmsar athugasemdir sem leiddu til þess ljóst var að húsið fengi ekki rekstrarleyfi til matvælaframleiðslu. Krafðist sóknaraðili þess að varnaraðili bætti úr þessu og léti síðan þrífa húsið og sótthreinsa. Varnaraðili varð við þessu og lauk framkvæmdum þann 26. febrúar sl. með athugasemdalausri úttekt Aðalskoðunar og tók sóknaraðili á móti saltfiski til geymslu í húsinu sama dag. Varnaraðili greiddi sóknaraðila umsamda leigu að fullu fyrir febrúarmánuð. Varnaraðili samþykkti kröfu sóknaraðila sem almenna kröfu og mótmælti sóknaraðili þeirri afstöðu með bréfi þann 4. mars 2010

II.

Sóknaraðili vísar til þess að um sé að ræða kröfu samkvæmt leigusamningi milli aðila ásamt vélum og tækjum og að fjárhæð kröfunnar séu leigugreiðslur fyrir febrúar 2010 til mars 2011, 33.783.013 krónur eða út uppsagnarfrest samkvæmt samningnum að frádreginni innborgun þann 17. febrúar 2010, 3.186.899. Lítur sóknaraðili svo á að varnaraðili hafi yfirtekið réttindi og skyldur samkvæmt samningnum enda hafi hann hafnað riftun hans. Í samningnum sé ákvæði um leigutíma til 1. september 2010 og þá taki við 6 mánaða uppsagnarfrestur. Telur sóknaraðili að krafa hans um greiðslu á leigu út samningstímann samkvæmt samningnum séu eðlilegar og sanngjarnar enda hafi varnaraðili náð að skapa mikil verðmæti fyrir þrotabúið með því að nýta sér ákvæði 15. kafla gjaldþrotaskiptalaganna. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur skiptastjóri ekki viljað semja við sóknaraðila um lausn málsins og stefnt á að hætta að greiða leigu um leið og hann hættir að nýta hið leigða húsanæði sóknaraðila. Telur sóknaraðili að kröfur hans fái m.a. stoð í ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga. Í 96. gr. gjaldþrotaskiptalaga segi að þrotabú geti sagt upp samningi um leigu eða annað varanlegt réttarsambands með venjulegum eða sanngörnum hætti þótt lengri uppsagnartími sé ákveðinn í samningnum eða hann óuppsegjanlegur, nema samningnum sé þinglýst eða hann skráður opinberlega með hliðstæðum hætti. Umræddum samningi var þinglýst og er aðalkrafan um greiðslu út samningstímann en leigusamningurinn er tímabundinn og án uppsagnarréttar og því skylda búsins að greiða út hinn umsamda leigutíma. Til stuðnings varakröfu um lægri leigufjárhæð bendir sóknaraðili á að uppsagnarfrestur tímabundins leigusamnings um atvinnuhúsnæði er 6 mánuðir, sbr. 3. mgr. 56. gr. húsaaleigulaga nr. 36/1994.

III.

Varnaraðili byggir á því að þrotabúinu hafi verið heimilt að nýta umrætt húsnæði tímabundið gegn því að krafa sóknaraðila um húsaleigu nyti rétthæðar í samræmi við 3. mgr. 110. eins og 97. gr. laganna mælir fyrir um. Kveður varnaraðili sóknaraðila ekki hafa beint til sín áskorun samkvæmt 2. mgr. 91. gr. gjaldþrotaskiptalaganna heldur hafi hann lýst yfir riftun samningsins vegna vanskila varnaraðila. Kveðst sóknaraðili aldrei hafa lýst því yfir að búið gengi inn í réttindi og skyldur samkvæmt leigusamningnum og telur ekkert í athöfnum hans eða yfirlýsingum verði skilið með þeim hætti. Hann hafi bent sóknaraðila og lögmanni hans á að það væri væntanlegs kaupanda að semja við sóknaraðila um framhald leigu ef svo bæri undir. þá ályktun þá Dregur varnaraðili þá ályktun af ákvæðum 97. og 1. mgr. 91. gr. gjaldþrotaskiptalaganna að þrotabúi aðila sem haft hefur fasteigna á leigu til rekstrarins en getur ekki þegar í stað tekið afstöðu til þess hvort það nýtir sér heimild 1. mgr. 91. gr. þá öðlist viðsemjandinn við þrotabúið rétt til leigugreiðslu frá og með úrskurðardegi sem nýtur verndar sem búskrafa samkvæmt 3. mgr. 110. gr. gjaldþrotaskiptalaganna. Þannig geti þrotabúið nýtt eignina áfram um sinn gegn því að greiða leigu. Þessa heimild hafi skiptastjóri þrotabúsins nýtt sé og greitt fullt gjald fyrir afnotin samkvæmt samningnum en það leiði ekki til þess að þrotabúið hafi verið bundið af leigusamningnum varðandi gildistíma og uppsagnarfrest. Þróuðust mál þannig að sóknaraðili fékk afnot húsnæðisins þann 3. febrúar 2010 og eins og rakið er áður í málavaxtalýsingu krafðist sóknaraðili úrbóta á húsnæðinu. Varnaraðili varð við þessu og lauk framkvæmdum þann 26. febrúar sl. með athugasemdalausri úttekt Aðalskoðunar. Varnaraðili greiddi sóknaraðila umsamda leigu að fullu fyrir febrúarmánuð og sóknaraðili hóf að nýta húsið áður en febrúar var liðinn.

Niðurstaða.

Eins rakið hefur verið snýst ágreiningurinn í máli þessu um það hvort varnaraðili hefur á einhvern hátt gengið inn í umræddan leigusamning með athöfnum sínum eða athafnaleysi og þar með orðið bundinn við að borga leigugreiðslur samkvæmt honum út uppsagnarfrest og að þær leigugreiðslur fengju stöðu sem búskröfur samkvæmt 3. mgr. 110. gr. gjaldþrotaskiptalaganna.

Ljóst er að varnaraðila var heimilt samkvæmt 91. gr. laganna að taka við réttindum og skyldum samkvæmt samningnum með þeim afleiðingum að greiðslur sem mælt er fyrir um smátt og smátt nýtu réttar samkvæmt 3. mgr. 110. gr. laganna. Einnig er óumdeilt að sóknaraðili skoraði ekki á varnaraðila að taka afstöðu innan hæfilegs frests hvort það vildi nýta sér þessa heimild eins og greinin gerir ráð fyrir að hann hafi mátt gera. Því hefur ekki verið andmælt að fram hafi komið strax hjá skiptastjóra að hann gæti ekki tekið afstöðu til þess hvort hann gengi inn í leigusamninginn og að hann byggði sín tímabundnu afnot á heimild í 97. gr. gjaldþrotaskiptalaganna. Yfirlýsing sóknaraðila um riftun leigusamningsins og boðun varnaraðila um höfnun hennar hefur ekki þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Eins og háttar til í máli þessu þykja fyrirmæli 97. gr. gjaldþrotaskiptalaganna leiða til þess að sóknaraðili eigi rétt til leigugreiðslna, með rétthæð eftir 3. tl. 110. gr., frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp þann 5. nóvember og til þess tíma að þrotabúið gaf yfirlýsingu þann 31. desember 2009 um að búið væri að selja umræddan rekstur og aðrir tækju við. Fyrir liggur í málinu, sbr. dómskjal nr. 19, að sóknaraðila var fullkunnugt um þetta. Upplýst er í málinu að sóknaraðili greiddi leigu samkvæmt samningnum út febrúarmánuð 2010. Eins og fram er komið í úrskurðinum hefur sóknaraðili fengið greitt alla leigu sem hann sem hann getur gert kröfu um að hafi stöðu sem búskrafa og kemur því varakrafa hans ekki frekar til umfjöllunar.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er kröfu sóknaraðila alfarið hafnað.

Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðili dæmdur til þess að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu sóknaraðila ,Opal Holding ehf., er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila þrotabúi Festi ehf. 350.000 krónur í málskostnað.