Hæstiréttur íslands

Mál nr. 113/2010


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Örorkubætur
  • Almannatryggingar
  • Sjúkrakostnaður
  • Annað fjártjón
  • Stjórnarskrá
  • Gjafsókn
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta


Fimmtudaginn 25. nóvember 2010.

Nr. 113/2010.

Rebekka Anna Allwood

(Karl Ó. Karlsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf. og

Ingibjörgu Pálsdóttur

(Skarphéðinn Pétursson hrl.)

Bifreiðar. Líkamstjón. Örorkubætur. Almannatryggingar. Sjúkrakostnaður. Annað

fjártjón. Stjórnarskrá. Gjafsókn. Frávísun máls að hluta.

R varð fyrir bifreið 6. nóvember 2002, þegar hún var 13 ára gömul, og hlaut hún alvarleg meiðsli af völdum slyssins. Í málinu hafði R einkum uppi kröfur á hendur V hf. og I vegna uppgjörs bóta fyrir varanlega örorku og um greiðslu sjúkrakostnaðar auk annars fjártjóns. Við uppgjör bóta kom meðal annars upp ágreiningur um áhrif fjármagnstekna á tekjutengdar bætur sem R fengi í framtíðinni frá TR og þar með fjárhæð til frádráttar á bótum frá V hf. Samkvæmt útreikningi tryggingastærðfræðings, sem fór yfir forsendur uppgjörs V hf. á bótum til handa R, myndu tekjutengdar bætur R frá TR skerðast vegna fjármagnstekna hennar af þeim bótum sem hún fengi frá V hf. Því bæri að taka tillit til væntrar skerðingar á greiðslum frá TR vegna fjármagnstekna við útreikning á frádrætti frá bótum til R úr hendi V hf. R reisti kröfu sína vegna uppgjörs bóta á því að meta bæri árslaun hennar sérstaklega vegna óvenjulegra aðstæðna á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hæstiréttur hafnaði þeirri kröfu og taldi að um útreikning bóta til R færi eftir 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. R hélt því einnig fram í málinu að óheimilt væri að draga frá bótum til hennar fyrir varanlega örorku ætlað eingreiðsluverðmæti framtíðarbóta frá TR, samkvæmt þágildandi ákvæði 1. málsliðar 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, og gerði kröfu um að um uppgjör á bótum til hennar færi samkvæmt núgildandi ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 53/2009. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að haga yrði ákvörðun skaðabótanna eftir þágildandi lögum enda væri lagaheimild, til þess að beita núgildandi ákvæði með afturvirkum hætti, ekki til að dreifa. Þá gerði R, svo sem fyrr greinir, kröfu um greiðslu sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns á grundvelli 1. gr. skaðabótalaga, til þess að mæta framtíðarkostnaði hennar af hjálpartækjum og sjúkraþjálfun sem væri henni nauðsynleg. Um þetta segir meðal annars í dómi Hæstaréttar að R hefði ekki lagt fram læknisfræðileg gögn um framtíðarþörf á endurhæfingu og matsgerð um kostnað af henni svo og annarri aðstoð sem þörf væri á sem ekki yrði greidd af sveitarfélagi eða íslenska ríkinu. Væri þessi kröfuliður svo vanreifaður að dómur yrði ekki á hann lagður og væri honum því vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. febrúar 2010. Hún krefst þess aðallega að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 44.403.236 krónur með 4,5% ársvöxtum af 40.896.795 krónum frá 6. nóvember 2004 til 24. febrúar 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til 10. febrúar 2007, af 41.372.111 krónum frá þeim degi til 20. nóvember 2008 og af 44.403.236 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 20.414.927 krónur með 4,5% ársvöxtum af 16.908.486 krónum frá 6. nóvember 2004 til 24. febrúar 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af sömu fjárhæð frá þeim degi til 10. febrúar 2007, af 17.383.802 krónum frá þeim degi til 20. nóvember 2008 og af 20.414.927 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Að því frágengnu að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 5.283.927 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.777.486 krónum frá 6. nóvember 2004 til 24. febrúar 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af sömu fjárhæð frá þeim degi til 10. febrúar 2007, af 2.252.802 krónum frá þeim degi til 20. nóvember 2008 og af 5.283.927 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda og að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

I

 Áfrýjandi lenti í umferðarslysi 6. nóvember 2002 þegar hún varð fyrir bifreiðinni OX 389, sem ekið var norður Vesturlandsveg á móts við gatnamót Áslands í Mosfellsbæ og krefur stefndu um bætur af því tilefni. Áfrýjandi slasaðist mjög alvarlega við slysið og hlaut fjöláverka.

Við uppgjör bóta kom meðal annars upp ágreiningur um frádrátt heimilisuppbótar svo og áhrif fjármagnstekna á tekjutengdar bætur sem áfrýjandi fengi í framtíðinni frá Tryggingastofnun ríkisins og þar með fjárhæð þeirra til frádráttar á bótum frá stefndu. Uppgjör bótanna fór fram með fyrirvara 29. júní 2006 á grundvelli útreiknings Ragnars Þ. Ragnarssonar tryggingastærðfræðings 12. mars sama ár, sem stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hafði aflað. Áfrýjandi fékk síðan Vigfús Ásgeirsson tryggingastærðfræðing til þess að fara yfir forsendur uppgjörsins. Í útreikningi hans 22. nóvember 2006 kom meðal annars fram að hann teldi ekki skilyrði til þess að draga heimilisuppbót frá bótum áfrýjanda þar sem hún ætti ekki rétt á þeim. Þá taldi hann að tekjutengdar bætur áfrýjanda frá Tryggingastofnun ríkisins myndu skerðast vegna fjármagnstekna hennar af þeim bótum sem hún fengi frá stefndu. Við útreikning á þeim bótum frá Tryggingastofnun ríkisins sem draga mætti frá bótum til áfrýjanda úr hendi stefndu bæri því að taka tillit til væntrar skerðingar á greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins vegna fjármagnstekna og verður ráðið af útreikningnum að skerðingin nemi 1.777.486 krónum. Með bréfi 10. janúar 2007 krafði áfrýjandi stefndu um bætur í samræmi við útreikning Vigfúsar. Fyrir liggur að stefndu öfluðu á ný útreiknings Ragnars Þ. Ragnarssonar og taldi hann þá í útreikningi sínum 12. desember 2007 að ekki bæri að reikna frádrátt vegna heimilisuppbótar í framtíðinni. Uppgjör á grundvelli þessa útreiknings fór þó ekki fram við áfrýjanda fyrr en 8. apríl 2009 en áfrýjandi hafði höfðað mál þetta á hendur stefndu í nóvember 2008. Áfrýjanda voru þá greiddar 9.396.139 krónur að meðtöldum vöxtum og innheimtukostnaði.

II

Áfrýjandi reisir kröfur sínar meðal annars á því að meta beri árslaun hennar sérstaklega vegna óvenjulegra aðstæðna á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Áfrýjandi hafi slasast þegar hún var 13 ára og hafi hún þá verið framúrskarandi nemandi og við henni hafi blasað annað og meira en að vera á lágmarkslaunum til frambúðar. Vegna aldurs hafi hún aldrei öðlast tækifæri til að starfa á vinnumarkaði.

Í 8. gr. skaðabótalaga er tekið fram að bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skuli ákveða á grundvelli örorkustigs samkvæmt 5. gr. laganna. Bætur skuli ákveðnar eftir reglum 5. til 7. gr. þeirra. Í athugasemdum við 7. gr. frumvarps til laga um breyting á skaðabótalögum, sem varð að lögum nr. 37/1999 og breytti 8. gr. skaðabótalaga, er tekið fram að launaviðmið barna yngri en 18 ára verði lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. þeirra. Ákvörðun bóta til áfrýjanda lýtur því reglum 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og er það í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar, sbr. meðal annars dóm frá 10. júní 2004 í máli nr. 331/2003. Með þessu athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um að um útreikningur bóta til áfrýjanda fari eftir ákvæðum 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

III

Áfrýjandi reisir kröfur sínar jafnframt á því að óheimilt sé að draga frá bótum til hennar fyrir varanlega örorku ætlað eingreiðsluverðmæti framtíðarbóta frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt þágildandi 1. málslið 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Annars vegar bendir áfrýjandi á að réttur til bóta úr almannatryggingum sé háður óvissu og hins vegar að svo geti farið að hún þurfi að flytja til föður síns sem búi erlendis en við það falli niður réttur hennar til greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins.

Samkvæmt ótvíræðum orðum þágildandi 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eins og henni var breytt með 4. gr. laga nr. 37/1999, ber að kröfu stefndu að draga frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns greiðslu sem tjónþoli fær frá almannatryggingum. Verður því ekki fallist á þessa málsástæðu áfrýjanda.

Með 1. gr. laga nr. 53/2009 var ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga breytt. Frá þeim bótum sem Tryggingastofnun ríkisins greiði dragast hér eftir aðeins eingreiddar örorkubætur samkvæmt 5. mgr. 34. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns. Áfrýjandi krefst þess að nefndu lagaákvæði verði beitt um uppgjör bóta til sín fyrir varanlega örorku.

Þegar áfrýjandi varð fyrir slysinu 6. nóvember 2002 stofnaðist skaðabótakrafa hennar á hendur stefndu. Í samræmi við almennar reglur verður að haga ákvörðun skaðabótanna eftir þágildandi lögum, enda er hvorki stoð í lögum nr. 53/2009 fyrir því að þau verði látin taka til uppgjörs skaðabótakröfu, sem orðið hefur til fyrir gildistöku þeirra, né verður slík niðurstaða leidd af öðrum réttarreglum, en óhjákvæmilega var þörf á skýrri lagaheimild til þess að til greina kæmi að ljá slíkri lagareglu afturvirk áhrif. Þá verður ekki litið svo á að umræddur frádráttur samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 53/2009, hafi farið í bága við 65. gr., 72. gr. eða 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. dóma Hæstaréttar 18. september 2003 í máli 520/2002 og 12. maí 2010 í máli nr. 449/2009.

Þá reisir áfrýjandi kröfur sínar á því að stefndu hafi við útreikning á frádrætti ekki tekið tillit til áhrifa fjármagnstekna af ávöxtun slysabóta áfrýjanda til skerðingar á tekjutengdum bótum frá Tryggingastofnun ríkisins og gerir hún kröfu á um greiðslu 1.777.486 króna á þessum grundvelli.

Fallist er á með áfrýjanda að við útreikning á frádrætti á bótum úr almannatryggingum samkvæmt 4. mgr. 5. gr. þágildandi skaðabótalaga beri að taka tillit til þess að tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins skerðast vegna fjármagnstekna áfrýjanda af þeim bótum sem hún fær frá stefndu. Áfrýjandi hefur lagt fram útreikning Vigfúsar Ásgeirssonar tryggingarstærðfræðings en af honum verður ráðið að skerðing á greiðslum Tryggingastofnunar ríkisins vegna fjármagnstekna áfrýjanda muni nema 1.777.486 krónum. Stefndu hafa ekki lagt fram mat dómkvadds manns til að hnekkja þessum útreikningi en þau bera sönnunarbyrði fyrir réttmæti frádráttar frá bótum sem þau eru réttilega krafinn um. Verður framangreind krafa áfrýjanda því tekin til greina.

IV

 Auk þess, sem að framan greinir, gerir áfrýjandi kröfu um greiðslu sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns að fjárhæð 3.000.000 króna með vísan til 1. gr. skaðabótalaga til þess að mæta framtíðarkostnaði af hjálpartækjum og sjúkraþjálfun sem sé henni nauðsynleg svo heilsa hennar versni ekki.

Fyrir liggur að áfrýjandi muni hafa margvíslegan kostnað sem fallið getur undir sjúkrakostnað og annað fjártjón. Áfrýjandi hefur á hinn bóginn ekki lagt fram læknisfræðileg gögn um framtíðarþörf á endurhæfingu og matsgerð um kostnað af henni metinn til núvirðis, svo og annarri aðstoð sem þörf er á og ekki er greidd af sveitarfélagi eða íslenska ríkinu. Er þessi kröfuliður svo vanreifaður að dómur verður ekki á hann lagður og er honum því vísað frá héraðsdómi.

Áfrýjandi krefst þess loks að stefndu verði gert að greiða sér 506.441 krónu vegna kostnaðar af öflun fyrrgreinds útreiknings Vigfúsar Ásgeirssonar. Héraðsdómur féllst á þennan lið með því að taka tillit til hans við ákvörðun gjafsóknarkostnaðar áfrýjanda og eru ekki efni til að hreyfa við þeirri ákvörðun.

Eftir úrslitum málsins verður stefndu gert að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem verður ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir og rennur í ríkissjóð. Við ákvörðun hans er tekið tillit til útlagðs kostnaðar vegna áðurnefnds útreiknings tryggingastærðfræðings, svo og þess að stefndu greiddu hluta af kröfu áfrýjanda eftir að mál þetta var höfðað.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað eru staðfest. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

            Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf. og Ingibjörg Pálsdóttir, greiði óskipt áfrýjanda, Rebekku Önnu Allwood, 1.777.486 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 6. nóvember 2004 til 24. febrúar 2006 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

            Kröfu áfrýjanda á hendur stefndu um greiðslu 3.000.000 króna á grundvelli 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er vísað frá héraðsdómi.

            Stefndu greiði óskipt samtals 1.300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2009.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 11. nóvember 2009, var höfðað 18. nóvember 2008.  Stefnandi er Rebekka Anna Allwood, Áslandi 10, Mosfellsbæ en stefndu eru Vá­trygginga­félag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík og Ingibjörg Pálsdóttir, Brautarholti 1, Kjalarnesi.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndu verði gert að greiða stefnanda skaðabætur in solidum að fjárhæð 44.403.236 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 40.896.795 krónum frá 6. nóvember 2004 til 24. febrúar 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 40.896.795 krónum frá þeim degi til 10. febrúar 2007, en af 41.372.111 krónum frá þeim degi til þingfestingardags, en af 44.403.236 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða stefnanda skaðabætur in solidum að fjárhæð 20.414.927 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 16.908.486 krónum frá 6. nóvember 2004 til 24. febrúar 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 16.908.486 krónum frá þeim degi til 10. febrúar 2007, en af 17.383.802 krónum frá þeim degi til þingfestingardags, en af 20.414.927 krónum frá þeim degi til greiðslu­dags.

Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða stefnanda skaða­bætur in solidum að fjárhæð 5.283.927 krónum með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.777.486 krónum frá 6. nóvember 2004 til 24. febrúar 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verð­tryggingu, af 1.777.486 krónum frá þeim degi til 10. febrúar 2007, en af 2.252.802 krónum frá þeim degi til þingfestingardags, en af 5.283.927 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar, hver sem úrslit málsins verða, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, eins og málið sé ekki gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefndu eru aðallega að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda.  Til vara krefjast þau þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar.  Þá krefjast stefndu málskostnaðar.

II

Málavextir eru þeir að stefnandi lenti í umferðarslysi þann 6. nóvember 2002, þegar hún sem gangandi vegfarandi varð fyrir bifreiðinni OX-389, sem ekið var norður Vesturlandsveg á móts við gatnamót Áslands í Mosfellsbæ.  Ökumaður bifreiðarinnar var stefnda Ingibjörg Pálsdóttir.

Stefnandi slasaðist alvarlega við slysið og hafa afleiðingar þess haft víðtæk áhrif á líf hennar, en hún var 13 ára þegar hún lenti í slysinu.  Stefnandi lá lengi á sjúkrahúsi í kjölfar slyssins, fyrst í um það bil fjórar vikur á gjörgæsludeild, síðan í um fjóra mánuði á barnadeild LSH í Fossvogi og níu mánuði á Grensásdeild frá 2. apríl 2003 til 13. febrúar 2004, auk þess sem stefnandi var til meðferðar við Endurhæfingar­miðstöð­ina á Reykjalundi frá 12. júlí til 5. ágúst 2004.

Að beiðni lögmanns stefnanda og stefnda Vátryggingafélags Íslands var Örorkunefnd falið að meta afleiðingar slyssins með tilliti til ákvæða skaðabótalaga.  Samkvæmt álitsgerð Örorku­nefndar 24. janúar 2006 er varanlegur  miski stefnanda metinn 90% og varanleg örorka hennar metin 100%.  Tímabil þjáningarbóta var metið frá 6. nóvember 2002 til 6. nóvember 2004, þar af taldist stefnandi hafa verið rúmliggjandi í eitt ár. Stefnandi var ekki talin hafa orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni og stöðugleikapunktur var talinn vera 6. nóvember 2004.

Í kjölfar niðurstöðu Örorkunefndar fór fram tjónsuppgjör milli stefnanda og stefnda Vá­trygginga­félags Íslands hf. og var gengið til uppgjörs skaðabóta þann 29. júní 2006.  Við uppgjör bóta voru stefnanda meðal annars ákvarðaðar bætur vegna varanlegrar örorku samkvæmt 5.-8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Samkvæmt tjónsútreikningi námu bætur fyrir varanlega örorku samtals 29.765.208 krónum miðað við lágmarksárslaunaviðmið skaðabóta­laga, stuðulinn 17,371 og 100% metna örorku.  Frá þannig ákvörðuðum bótum dró stefndi Vátryggingafélag Íslands hf.  reiknað eingreiðsluverðmæti bóta frá Tryggingastofnun ríkisins samtals að fjárhæð 21.498.773 krónur og greiddi vátryggingafélagið stefnanda mismuninn eða 8.266.435 krónur.  Voru bætur mótteknar af hálfu stefnanda með fyrirvara um alla þætti uppgjörsins.  Frádráttur stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. byggði á útreikningi Ragnars Þ. Ragnarssonar tryggingastærðfræðings, dagsettum 12. mars 2006.  

Í framhaldi af uppgjöri bóta óskaði lögmaður stefnanda eftir því að Talnakönnun hf. yfirfæri forsendur framangreinds útreiknings Ragnars Þ. Ragnarssonar á eingreiðslu­verðmæti bóta frá Tryggingastofnun ríkisins og að metin yrðu áhrif vaxtatekna af mótteknum skaðabótum á rétt stefnanda til greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins.  Í áliti sínu, undirrituðu af Vigfúsi Ásgeirssyni, dagsettu 22. nóvember 2006, var niðurstaða Talnakönnunar hf. að frádrátturinn hefði verið ofreiknaður hjá Ragnari og að eingreiðsluverðmæti greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins væri 15.131.000 krónur.

Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. 10. janúar 2007 var framangreindur útreikningur Talnakönnunar hf. sendur félaginu og skorað á stefnda Vátryggingafélag Íslands hf. að greiða mismuninn, eða 6.840.753 krónur, auk dráttarvaxta, kostnaðar við útreikninginn og þóknun eða samtals 8.127.583 krónur.  Stefndi Vátrygginga­félag Íslands hf. lagði fram nýjan útreikning frá Ragnari Þ. Ragnarssyni trygginga­stærðfræðingi, sem dagsettur er 12. desember 2007, og gerir ráð fyrir að frádráttur ætlaðra eingreiðslubóta frá Tryggingastofnun eigi að vera 16.908.486 krónur.  Greiddi stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. mismuninn á þessum tveimur útreikningum Ragnars, eða 4.590.287 krónur, hinn 3. apríl 2009.  Stefnandi byggir á því að ef umræddur frádráttur eigi rétt á sér eigi hann ekki að vera hærri en 15.131.000 krónur.

Ekki er ágreiningur milli aðila um uppgjör á þjáningabótum samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga eða bætur vegna varanlegs miska samkvæmt 4. gr. laganna.  Þá er ekki ágreiningur um bótaskyldu stefndu eða afleiðingar slyssins á heilsu stefnanda.  Snýst ágreiningur aðila að meginstefnu til um við hvaða tekjur skuli miða í útreikningi bóta vegna varanlegrar örorku.  Þá er ágreiningur um hvort draga skuli frá bótum greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, og ef niðurstaðan verður sú að draga skuli þær greiðslur frá, þá er ágreiningur um fjárhæð þeirra.  Þá greinir aðila á um kröfur stefnanda um annað fjártjón samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga.

III

Stefnandi kveður meginhlutverk skaðabótareglna vera að veita þeim sem verður fyrir tjóni fjárhagslega uppreisn þannig að hann verði eins settur fjárhagslega og ef tjónið hefði ekki orðið.  Í þessu felist skylda tjónvalds að greiða þeim sem fyrir tjóni verður peninga sem bæti tjónþola tjónið að fullu.  Með bótum fyrir varanlega örorku sé leitast við að bæta tjón sem tjónþoli verði fyrir vegna missis atvinnutekna til frambúðar, sbr. orðalag 5. gr. skaðabótalaga.  Sé stefndu því skylt að bæta stefnanda það tjón í samræmi við ákvæði skaðabótalaga.  Beiting frádráttar með þeim hætti sem stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. geri, vegna ætlaðs eingreiðsluverðmætis bóta frá Trygg­inga­stofnun ríkisins, leiði til þess að stefndu uppfylli ekki þær skyldur sem á þeim hvíli samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar og ákvæðum skaðabótalaga.  Um sé að ræða ólögmæta skerðingu á rétti stefnanda til bóta vegna missis framtíðartekna sem hún eigi lögmætt tilkall til og njóti verndar 72. gr., sbr. einnig 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. gr. 1. samningsviðauka við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.  Réttindi stefnanda njóti enn fremur sérstakrar verndar á grundvelli samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem í daglegu tali sé nefndur Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem undirritaður hafi verið af Íslands hálfu 26. janúar 1990 og fullgiltur hinn 28. október 1992 og hafi hann öðlast gildi hvað Ísland varðar 27. nóvember 1992.

Um grundvöll bótaábyrgðar vísi stefnandi til XIII. kafla umferðarlaga, nr. 50/1987, en samkvæmt 88. gr. laganna skuli sá sem ábyrgð beri á skráningarskyldu ökutæki, bæta það tjón sem hlýst af notkun þess enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns.  Samkvæmt 90. gr. sömu laga beri skráður eða skrán­ingar­skyldur eigandi (umráðamaður) ökutækis ábyrgð á því og sé fébótaskyldur samkvæmt 88. og 89. gr. laganna.  Í 1. mgr. 91. gr. sé kveðið á um að greiðsla á bóta­kröfu vegna tjóns sem hlýst af notkun skráningarskylds ökutækis skuli vera tryggð með ábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu vátryggingafélagi.  Er slys stefnanda varð hafi ökutækið OX-389 verið vátryggt hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. og hafi skráður eigandi þess verið stefnda Ingibjörg Pálsdóttir.

Við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku stefnanda samkvæmt 5.-8. gr. skaðabóta­laga nr. 50/1993, samkvæmt uppgjöri við stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. hinn 29. júní 2006, hafi verið lagt til grundvallar margfeldi  lágmarks­árslaunaviðmiðs skaðabótalaga, 1.713.500 krónur, stuðulsins 17,371 og 100% metinnar örorku.  Hafi bætur vegna varanlegrar örorku þannig numið 29.765.208 krónum á stöðugleikapunkti hinn 6. nóvember 2004.  Ágreiningur standi um það hvaða árs­launa­viðmið eigi að leggja til grundvallar útreikningi varanlegrar örorku og hvort draga eigi frá þannig ákvörðuðum bótum reiknað eingreiðsluverðmæti ætlaðra fram­tíðar­bóta stefnanda frá Trygg­inga­stofnun ríkisins og ef svo er með hvaða hætti eigi að eingreiðsluvirða ætlað­ar framtíðarbætur frá Tryggingastofnun ríkisins.

Aðalkrafa stefnanda byggi á því að ekki fái staðist í tilviki stefnanda að leggja til grundvallar ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku lágmarksárslaunaviðmið skaða­bóta­laga samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Beita beri þeirri reglu sem fram komi í 2. mgr. 7. gr. sömu laga og ákvarða árslaunaviðmið stefnanda sérstaklega. Þegar stefnandi varð fyrir hinu alvarlega slysi hafi hún verið 13 ára gömul, framúrskarandi nemandi, félagslega mjög hæf og fjölhæf í íþróttum. Framtíð hennar hafi verið björt og fyrirséð að við henni hafi blasað annað og meira hlutskipti en að vera á lágmarkslaunum til frambúðar.  Sé sá mælikvarði að miða við lágmarkslaun skaðabótalaga rangur, óréttmætur og andstæður 65. gr. og 72. gr.  sbr. 75. gr.  stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. gr. 1. samningsviðauka við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mann­réttinda­sáttmála Evrópu. 

Stefnandi sé einstaklingur sem aldrei hafi öðlast tækifæri til þess að afla sér tekna á vinnumarkaði aldurs síns vegna og muni aldrei öðlast slíkt tækifæri vegna afleiðinga slyssins.  Í slíku tilviki verði að beita öðrum og sanngjarnari mælikvarða og í það minnsta að miða við að stefnandi hefði getað aflað sér meðaltekna miðað við ófag­lærðan einstakling á vinnumarkaði.  Umfjöllun í lög­skýringa­gögnum um innbyggt 30% álag í stuðli ungra barna gangi of skammt með tilliti til framangreinds að mati stefnanda.  Geri stefnandi hófstillta kröfu um að við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku verði lögð til grundvallar meðallaun verka­fólks á árinu 2004, þegar stöðugleika hafi verið náð samkvæmt fyrirliggjandi mati, að viðbættu 7% mótframlagi atvinnu­rekanda í lífeyrissjóð.  Samkvæmt Hagstofu Íslands hafi meðalmánaðarlaun verka­fólks á því ári numið 241.000 krónum eða 2.892.000 krónum á ársgrundvelli.  Að teknu tilliti til mótframlags í lífeyrissjóð nemi árslauna­viðmiðið þannig 3.094.440 krónum.  Verði ekki fallist á framangreindar forsendur sé þess krafist að árslauna­viðmið verði metið að álitum.

Þá sé á því byggt að ekki fái staðist í tilviki stefnanda að draga frá bótum fyrir varanlega örorku útreiknað ætlað eingreiðsluverðmæti framtíðarbóta frá Trygginga­stofnun ríkisins samkvæmt 1. ml. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Sam­kvæmt greindu ákvæði beri að draga frá bótum vegna líkamstjóns bætur sem tjónþoli fái frá almannatryggingum.  Hæstiréttur hafi túlkað ákvæðið svo að miða beri fram­tíðar­frádrátt vegna greiðslna af félagslegum toga við þann tíma sem tjónþoli geti ekki vænst frekari bata, þ.e. við stöðugleikapunkt.  Í tilviki stefnanda sé það tímamark 6. nóvember 2004, en á þeim degi hafi stefnandi verið rúmlega 15 ára gömul og lögum samkvæmt enginn réttur til staðar varðandi greiðslur frá almannatryggingum, enda stefnandi barn. 

Þá vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 53/2009 en með beinni tilvísun til nefndra laga og með tilvísun til þeirra sjónarmiða löggjafans sem búi að baki ákvæðinu, þar á meðal hvernig ákvarða skuli fullar bætur til handa mikið slösuðum einstaklingum, þá beri ekki að draga frá skaðabótum úr hendi stefndu rétt stefnanda til bóta úr almanna­tryggingum. Eins og að framan greini sé frádrátturinn óréttmætur, ólögmætur og andstæður stjórnarskrá og alþjóðasamningum.

Jafnvel þó að litið yrði svo á að stefnandi ætti á stöðugleikapunkti í vændum tiltekin réttindi frá almannatryggingum, þá sé sá réttur háður óvissuþáttum og fullvíst miðað við ástand og horfur á stöðugleikapunkti að stefnandi muni aðeins njóta slíkra greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins í mjög skamman tíma.  Stefnandi hafi bæði íslenskan og breskan ríkisborgararétt og sé hún handhafi græna kortsins í Banda­ríkjunum.  Foreldrar stefnanda séu John Allwood, breskur ríkisborgari, einnig handhafi græna kortsins, fæddur 13. september 1958 og Ólöf Þráinsdóttir, íslenskur ríkisborgari, fædd. 30. ágúst 1945.  Foreldrar stefnanda séu skilin að lögum og sé faðir stefnanda búsettur í Bandaríkjunum.  Móðir stefnanda búi á Íslandi og annist nú um stefnanda á heimili þeirra í Mosfellsbænum.  Fyrirséð sé að stefnandi muni ávallt þurfa á aðstoð að halda og þegar tekið sé mið af aldri móður stefnanda þá séu líkur til að þess verði ekki langt að bíða að hún geti ekki lengur annast um þarfir dóttur sinnar eða muni þurfa verulega aðstoð við það.  Svo gæti þá farið að stefnandi þyrfti að flytjast búferlum frá Íslandi til Bandaríkjanna í umsjá föður síns, en við það muni réttur stefnanda til greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins falla niður vegna skilyrðis um búsetu á Íslandi, sbr. 12. gr. þágildandi laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, sbr. nú 18. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og 1. gr. þágildandi laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, sbr. nú 1. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Ísland hafi gert samninga við nokkur ríki um gagnkvæman rétt til þeirra greiðslna sem almannatryggingar veiti, en Bandaríkin séu ekki á meðal þeirra ríkja.

Byggi stefnandi á því að frádráttur útreiknaðs eingreiðsluverðmætis ætlaðra greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins í hennar tilviki feli, með vísan til framangreinds, í sér að stefnandi sé í raun bundin ólögmætum átthagafjötrum.  Frádrátturinn brjóti í heild sinni gegn réttindum stefnanda sem varin séu af framangreindum ákvæðum stjórnar­skrár­innar og mannréttindasáttmála Evrópu, sem og ákvæðum barnasáttmála Sam­ein­uðu þjóðanna.

Þá sé gerð krafa um greiðslu 3.000.000 króna eða aðra lægri fjárhæð að álitum, með vísan til 1. gr. skaðabótalaga, til þess að mæta framtíðarkostnaði stefnanda hvað varðar hjálpartæki og kostnað til þess að geta lifað lífinu lifandi með þeirri reisn sem möguleg sé.  Í því sambandi beri meðal annars til þess að líta að stefnandi og foreldrar hennar hafi lagt í verulegan kostnað bæði innanlands og erlendis til að bæta lífsgæði hennar.  Meðal annars hafi stefnandi dvalið ásamt móður sinni í þrjá mánuði á Balí í ársbyrjun 2006 þar sem hún hafi fengið meðferð sem skilað hafi umtalsverðum árangri og hafi framfarir verið stöðugar og meiri eftir þá meðferð.  Framfarir lýsi sér í auknu jafnvægi og hreyfifærni og aukinni andlegri getu.  Stefnandi sé í sérdeild Borgarholts­skóla og hái það henni í námi hversu lélegt skammtímaminnið sé og jafnframt hafi hún takmarkað úthald við einbeitingu þannig að námslotur verði að vera stuttar.  Illa hafi gengið að fá hjálpartæki við hæfi en stefnandi eigi erfitt með að nota hendurnar vegna spasma og ataxiu og geti því ekki stundað heimanám án mikillar aðstoðar.  Til að bæta lífsgæði stefnanda enn frekar muni hún þurfa hjálpartæki og áframhaldandi meðferð hjá sálfræðingum svo og sérkennslu eða verulegan aukastuðning við nám. Fyrirsjáanlegt sé því að áfram verði mikill kostnaður í því að auka lífsgæði stefnanda með því að aðstoða hana við að auka færni sína.  Að mati meðferðaraðila yrði það mjög til bóta ef hún gæti farið aftur til útlanda í meðferð í nokkra mánuði en slíkt muni augljóslega verða mjög kostnaðarsamt.

Til viðbótar framangreindu geri stefnandi kröfu til þess að stefndu greiði útlagðan kostnað vegna öflunar útreiknings Vigfúsar Ásgeirssonar tryggingastærðfræðings að fjárhæð 506.441 króna.

Aðalkrafa stefnanda sundurliðist samkvæmt framangreindu:

Bætur vegna varanlegrar örorku:

3.094.440 kr. * 17,371 * 100%

kr. 53.753.517

Frádráttur: Innb. VÍS 29.6. 2006

kr.  -8.266.435

Frádráttur: Innb. Vís 8.4.2009

kr.   -4.590.287

Samtals

kr.   40.896.795

Framtíðar sjúkrakostnaður/annað fjártjón

kr.     3.000.000

Útlagður kostnaður v/útr. tryggingastærðfr.

kr.        506.441

Aðalkrafa samtals

kr.  44.403.236

Varakrafa stefnanda um bætur vegna varanlegrar örorku grundvallist á lágmarks­árslaunaviðmiði skaðabótalaga, sbr. uppgjörsmáta stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. hinn 29. júní 2006.  Líkt og í aðalkröfu sé byggt á því að ekki fái staðist í tilviki stefnanda að draga frá bótum fyrir varanlega örorku útreiknað ætlað ein­greiðslu­verðmæti bóta frá Tryggingastofnun ríkisins og vísar stefnandi til rökstuðnings aðalkröfu hvað þetta snertir.  Þá vísar stefnandi til rökstuðn­ings aðalkröfu varðandi annað fjártjón og útlagðan kostnað.

Varkrafa stefnanda sundurliðast svo:

Bætur vegna varanlegrar örorku:

1.713.500 kr. * 17,371 * 100%

kr.  29.765.208

Frádráttur: Innb. VÍS 29.6. 2006

kr.  -8.266.435

Frádráttur: Innb. VÍS 8.4.2009

kr.   -4.590.287

Samtals

kr.  16.908.486

Framtíðar sjúkrakostnaður/annað fjártjón

          3.000.000

Útlagður kostnaður v/útr. tryggingastærðfr.

             506.441

Samtals varakrafa

kr.  20.414.927

Verði ekki á það fallist að horfa beri alfarið framhjá greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins, sé ljóst að forsendur tryggingastærðfræðings stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. hafi reynst rangar.  Stefndu beri sönnunarbyrðina fyrir því hvort og að hvaða marki beri að beita frádrætti frá skaðabótakröfu stefnanda samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.  Hvernig sem á málið sé litið sé ljóst að litlar sem engar líkur séu á því og ósannað að stefnandi muni njóta þeirra framtíðarbótagreiðslna sem stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. miði frádrátt sinn við.  Slíkur frádráttur sé undantekning frá meginreglu skaðabótaréttar um fullar bætur og að tjónþoli skuli verða eins settur og ef tjón hefði ekki orðið.

Þrautavarakrafa stefnanda byggi á sama uppgjörsviðmiði og varakrafan.  Ef beita eigi frádrætti við uppgjör bóta vegna varanlegrar örorku beri að miða við forsendur og niðurstöður útreiknings Vigfúsar Ásgeirssonar tryggingastærðfræðings, hvað þann frádrátt varðar.  Þannig nemi frádráttur eingreiðsluverðmætis greiðslna frá Trygginga­stofnun ríkisins á stöðugleikapunkti 15.131.000 krónum.  Hafi í útreikningi Ragnars Þ. Ragnarssonar ekki verið tekið fullt tillit til áhrifa fjármagnstekna af ávöxtun slysabóta til skerðingar á tekjutengdum greiðslum. 

Verði ekki fallist á útreikninga Vigfúsar gerir stefnandi kröfu um að frádrátturinn verði metinn að álitum og myndi dómvenju um skerðingarhlutfall vegna áhrifa fjár­magns­tekna, sem myndast við ávöxtun móttekinna skaðabóta, til skerðingar á ein­greiðslu­verðmæti tekjutengdra greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins, í líkingu við þá venju sem til staðar sé varðandi áhrif skatt- og eingreiðsluhagræðis, eftir atvikum að teknu tilliti til aldurs tjónþola á stöðug­leikapunkti.

Líkt og í fyrri kröfum geri stefnandi kröfu um framtíðar sjúkrakostnað/annað fjártjón og til þess að stefndi greiði útlagðan kostnað vegna útreiknings tryggingastærð­fræðingsins.

Sundurliðist þrautavarakrafan svo:

Bætur vegna varanlegrar örorku:

1.713.500 kr. * 17,371 * 100%

kr.  29.765.208

Frádráttur: eingreiðsluverðmæti bóta TR skv. útr. VÁ

kr.  -15.131.000

Frádráttur: Innb. VÍS 29.6. 2006

kr.  -8.266.435

Frádráttur: Innb. VÍS 8.4.2009

kr.   -4.590.287

Samtals

kr.  1.777.486

Framtíðar sjúkrakostnaður/annað fjártjón

kr.  3.000.000

Útlagður kostnaður v/útr. tryggingastærðfr.

kr.  506.441

Þrautavarakrafa samtals

kr.  5.283.927

Um lagarök að öðru leyti en að framan greinir vísar stefnandi til 3., 4. og 15 .gr skaðabótalaga nr. 50/1993, XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi málskostnað.  Kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað styður hann við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Upphafsdag dráttarvaxta kveður stefnandi miðast annars vegar við 24. febrúar 2006 hvað varðar bætur vegna varanlegrar örorku, eða þegar mánuður var liðinn frá því að stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. hafi borist matsgerð örorkunefndar, og við 10. febrúar 2007 hvað áfallinn kostnað varðar að hluta, eða þegar mánuður var liðinn frá því að stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. hafi borist kröfubréf og útreikningur Vigfúsar Ásgeirssonar tryggingastærðfræðings og loks við þingfestingardag hvað varðar eftirstöðvar áfallins kostnaðar og kröfu um greiðslu framtíðar sjúkrakostnaðar/annars fjártjóns.

IV

Stefndu byggja aðalkröfu sína um sýknu á því að stefnandi hafi fengið tjón sitt að fullu bætt og eigi hún því ekki fjárkröfu á stefndu.

Stefndu telja það vera mikla einföldun að halda því fram að meginhlutverk skaðabótareglna sé að gera tjónþola eins settan fjárhagslega og ef tjónið hefði ekki orðið.   Þrátt fyrir að þessi skilningur kunni að vera réttur fræðilega þá séu á honum margar undantekningar, meðal annars á grundvelli skaðabótalaga.  Hafi bæði fræði­menn og Hæstiréttur fallist á þann skilning að fullar bætur í skilningi uppgjörs bóta vegna líkamstjóns séu þær sem löggjafinn eða réttarskipunin ákveði að séu fullar bætur.  Hafi þessi skilningur ekki verið talinn brjóta í bága við 65., 72. eða 75. gr. stjórnar­skrár Íslands og beri því að hafna tilvísunum stefnanda í þau ákvæði.  Breyti því hvorki lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu né barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna neinu í þeim efnum.

Stefndu hafni alfarið að beita eigi hærra árslaunaviðmiði en lágmarkslaunum sam­kvæmt 8. gr., sbr. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Liggi ekki annað fyrir en að stefnandi, sem var 13 ára barn á tjónsdegi, skuli metin með ómarktæka tekjusögu og því falli hún undir lágmarksviðmiðunarlaun laganna.  Sé þess sérstaklega getið í athugasemd með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 37/1999 og breyttu meðal annars 7. gr. skaðabótalaganna, að við mat á varanlegri örorku barna skuli miða við lág­marks­launin. 

Hafi stefnandi fulla sönnunarbyrði um að meta eigi hana samkvæmt sérreglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og hafi sú sönnun ekki tekist.  Þá hafni stefndu tilvísunum stefnanda til eðli máls, mannréttindareglna og Evrópuréttar sem órökstuddum og van­reifuð­um og verði dómur ekki byggður á þeim málsástæðum enda engin laga­heimild til þess að meta árslaunaviðmið að álitum.

Þá sé óumdeilt að ákvæði 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna hafi verið skýrt svo að um brúttólaun sé að ræða og því leggist ekki framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð við þá fjárhæð.

Þá mótmæli stefndu kröfu stefnanda um greiðslu 3.000.000 króna vegna framtíðar­sjúkra- og umönnunarkostnaðar.  Hafi stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. þegar greitt stefnanda margvíslegan kostnað vegna fjártjóns hennar í kjölfar slyssins og megi þar nefna sjúkrakostnað, breytingar á húsnæði stefnanda o.fl., alls að fjárhæð 4.345.669 krónur.  Þá sé hér um að ræða áætlaðan framtíðarkostnað sem sé ósannaður og beri þar að auki ekki að bæta í skilningi lagaákvæðisins og fordæma Hæstaréttar Íslands.  Þá sé heldur engin heimild til þess að meta þennan kostnað að álitum.

Hvað viðvíkur kostnaði vegna útreikninga Vigfúsar Ásgeirssonar trygginga­stærð­fræðings að fjárhæð 506.441 krónu, þá falli sá kostnaður heldur ekki undir bótaskyldan útlagðan kostnað hjá stefndu. Stefnandi hafi staðið ein að þeirri álitsgerð og hafi greitt fyrir hana, án aðkomu stefndu.  Slíkur kostnaður sé ekki bættur nema með samþykki stefndu, sbr. matsgerðir lækna o.fl. Eðlilegra væri að þessi kostnaður félli undir málskostnað og þá sérstaklega gjafsókn stefnanda.  Hafni stefndu greiðslu samkvæmt þessum lið.

Óumdeilt ætti að vera að greiðslur frá almannatryggingum dragist frá bótum í skilningi 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.  Hafi sá skilningur verið staðfestur af Hæstarétti Íslands og jafnframt að slíkur frádráttur brjóti ekki í bága við Stjórnarskrá Íslands.  Byggi stefndu á því að stefnandi hafi ekki hnekkt þeim viðmiðum sem lögð hafi verið til grundvallar útreikningi tryggingastærðfræðingsins Ragnars Þ. Ragnarssonar og því hafi stefndu verið rétt að miða við hann og hafi því fullar bætur verið greiddar. 

Varakröfur stefnanda séu haldnar sömu annmörkum og aðalkrafa varðandi frávik frá skaðabótalögum og fordæmum Hæstaréttar og beri því einnig að hafna þeim.

Þannig verði ekki vikið frá reglum skaðabótalaga varðandi umfang fjártjóns, árslauna­viðmið, meginregluna um frádrátt vegna greiðslna úr almannatryggingum sem og öðrum uppgjörsreglum laganna, nema til komi lagabreyting.  Sé því sjónarmiðum stefnanda og skírskotunum til óréttlætis, sanngirnis og einstaklings hæfileika stefnanda til dæmis hafnað sem röngum viðmiðum og ólögmætum.  Þá hafni stefndu alfarið að lög nr. 52/2009 komi hér til skoðunar enda ekki um það að ræða að lögunum verði beitt afturvirkt auk þess sem sú málsástæða sé of seint fram komin.  Þá geti það ekki skipt máli að stefnandi kunni að flytjast búferlum til útlanda.  Sé margdæmt að þessi sjónarmið standist stjórnarskrána og verði því að fylgja hinum almennu og hlutlægu reglum laganna.  Beri því að sýkna stefndu.

Varðandi varakröfu sína þá kveðast stefndu hafna einstökum tölulegum bótakröfum stefnanda og vísi um það til sömu málsástæðna og raktar séu fyrir sýknu.  Stefndu geri hins vegar ekki ágreining um álitsgerðina í málinu.  Eina krafa sem stefnandi geti hugsanlega átt til frekari bóta sé við hvaða þætti eigi að styðjast við útreikning á frádrætti bóta samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.

Í fyrsta lagi hafni stefndu því að þau beri sönnunarbyrðina fyrir því hvað eigi að falla undir frádráttinn.  Mjög skýrt sé að stefnandi beri alla sönnunarbyrði fyrir því að afsanna að stefnandi eigi ekki rétt á tilteknum greiðslum.  Ef um engar greiðslur sé að ræða og því um undantekningu frá meginreglunni að ræða, beri stefnandi að leggja fram ótvíræð gögn frá viðkomandi stofnun sem sanni slíka fullyrðingu.

Stefndu viðurkenni hins vegar að það sé augljóst mál að miklu breyti fyrir frádráttinn, hvaða greiðslur stefnandi njóti úr almannatryggingakerfinu.  Sé engan veginn nægjanlegt að leggja fram hvaða greiðslur stefnandi hafi fengið, því þekkt sé að menn fái ekki, og sæki jafnvel ekki alltaf um þær greiðslur sem þeir eigi rétt á.  Þá geti bætur fallið niður einhver ár eða verið enduráætlaðar.  Þannig verði almennt að miða við að tjónþolar með mikla örorku eigi rétt á örorkulífeyri, tekjutryggingu og tekju­tryggingar­auka.

Í skilningi skaðabótalaga sé hér um áætlaðar bætur að ræða sem miðist við forsendur laganna.  Sú staðreynd að í framtíðinni kunni bætur að falla niður, bætast við, lækka eða breytast skipti því engu máli varðandi forsendur útreikningsins og tímamark útgreiðslu bóta. Geti tjónþolar þannig fengið hvort sem er hærri eða lægri bætur en áætlað sé við uppgjör.  Hér sé því um að ræða frádrátt sem byggi á áætlun tugi ára fram í tímann og segi því í raun lítið um raunbætur til tjónþola.  Þannig geti sumir tjónþolar til dæmis haft háar tekjur eftir örorkumat, án þess að til komi endurskoðun á bótunum sem þeir hafi fengið greiddar og miðaðar hafi verið við hærri örorku.  Þessu verði þó ekki breytt nema með lagabreytingu, hversu mikið sem hægt sé að rökstyðja gagnrýni á fyrirkomulagið.

Í umfjöllun um sýknu og málsástæður sem þar séu raktar sé ljóst að stefndu hafni alfarið aðalkröfu og varakröfu, einnig áætluðum framtíðarkostnaði og kostnaði við álitsgerð. 

Þá telja stefndu að dráttarvaxtakrafa stefnanda sé í heild vanreifuð þar sem einungis sé vísað ósundurgreint til III. kafla laga nr. 38/2001 en ekki getið vaxtafótar eða vísað til 1. mgr. 6. gr. laganna, sbr. skýr fordæmi Hæstaréttar þar um.  Beri því að vísa kröfunni ex officio frá dómi.  Verði dráttarvaxtakröfunni ekki vísað frá dómi sé þess krafist að þeir verði ekki dæmdir fyrr en mánuði eftir þingfestingu, þar sem veruleg óvissa sé um bótauppgjörið. Þá hafi vextir af stærstum hluta kröfu stefnanda þegar verið greiddir.

Um lagarök vísa stefndu einkum til skaðabótalaga nr. 50/1993, almennra reglna skaðabótaréttar um saknæmi, orsakasamhengi og sönnunarbyrði.  Krafa um máls­kostnað sé reist á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt vísist til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

V

Eins og rakið hefur verið snýst meginágreiningur í máli þessu um það við hvaða árslaun skuli miða í útreikningi á bótum vegna varanlegrar örorku og um hvort rétt sé að draga frá bótum eingreiðsluverðmæti bóta frá Tryggingastofnun ríkisins.  Ekki er ágreining­ur um bótaskyldu stefndu eða afleiðingar umrædds slyss á heilsu stefnanda.

Samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 7. gr. laga nr. 37/1999 skal ákvarða bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, á grundvelli örorkustigs samkvæmt 5. gr. og skulu bætur ákveðnar eftir reglum 5.-7. gr. 

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skulu árslaun til ákvörðunar bóta vegna varanlegrar örorku teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til líf­eyris­sjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir tjónsdag, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við.  Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna skulu árslaun þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.  Þá segir í 3. mgr. 7. gr. að þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. skuli ekki miða við lægri árslaun en þar er tilgreint í töflu.  Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hefur greitt stefnanda bætur vegna varanlegrar örorku og lagt til grundvallar í útreikningi bótanna lágmarks­árslaunaviðmið 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna.  Er óumdeilt að sú fjárhæð sé 1.713.500 krónur og margfeldisstuðull 6. gr. laganna sé í tilviki stefnanda 17,371.  Þá er ekki ágreiningur um að varanleg örorka stefnanda er 100%.  Stefnandi telur hins vegar að beita eigi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna og ákvarða árslaunaviðmið sérstaklega.  Gerir hún kröfu um að við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku skuli lögð til grundvallar meðallaun verkafólks á árinu 2004 að viðbættu 7% mótframlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð.  Þannig nemi árslaunaviðmiðið 3.094.440 krónum.  Verði ekki fallist á þetta eigi að meta árslaun að álitum.  

Samkvæmt framangreindum ákvæðum skaðabótalaganna þykir ljóst að börn og aðrir sem ekki nýta vinnugetu sína á vinnumarkaði þurfa almennt að sæta því að við útreikning á bótum vegna varanlegrar örorku verði miðað við lágmarkslaunaviðmið það sem fram kemur í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Til að ákvæði 2. mgr. 7. gr. laganna eigi við þurfa óvenjulegar aðstæður að vera fyrir hendi og að ætla megi að annar mælikvarði sé réttari.  Stefnandi var 13 ára þegar hún slasaðist og því ekki með tekjusögu.  Stefnandi var nemandi í grunnskóla þegar hún lenti í umræddu slysi og því allsendis óljóst á þeim tíma hver starfsvettvangur hennar kæmi til með að verða.  Þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á eða rökstutt með fullnægjandi hætti að aðstæður hennar hafi verið óvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eða að réttara hefði verið að nota annan mælikvarða en þann sem tilgreindur er í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna við útreikning á bótum vegna varanlegrar örorku og verður því ekki fallist á að skilyrði 2. mgr. 7. gr. laganna séu fyrir hendi.  Ber því að reikna bætur fyrir varanlega örorku á grundvelli 3. mgr. 7. gr. laganna eins og stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. gerði og hefur þegar greitt stefnanda.  Verður ekki séð að lágmarks­tekjuviðmið ákvæðisins séu röng og óréttmæt og andstæð atvinnufrelsis-, eigna­verndar- og jafnræðisreglum stjórnarskrárinnar eða mannréttindasáttmála Evrópu eins og stefnandi heldur fram enda eru lögin sett með stjórnskipulegum hætti með það í huga að fjárhagsskaði tjónþola verði bættur að fullu og samkvæmt þeim er farið eins með alla tjónþola sem eins háttar til að þessu leyti.

Þá eru fullyrðingar stefnanda um að umfjöllun í lögskýringargögnum um innbyggt 30% álag í stuðli ungra barna gangi of skammt engum haldbærum rökum studdar.  Hvað snertir framlag í lífeyrissjóð þá hefur ákvæði 3. mgr. 7. gr. um lágmarkslaun verið skýrt svo að það séu brúttólaun og að ekki eigi að bætast við þær fjárhæðir sem þar eru tilgreindar framlag í lífeyrissjóð heldur sé það hluti af fjárhæðunum, sbr. dóm Hæstaréttar frá árinu 2003 í máli nr. 223/2003.

Þá er ágreiningur um hvort draga skuli frá bótum fyrir varanlega örorku útreiknað ætlað eingreiðsluverðmæti framtíðarbóta frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt 1. ml. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga en þar sagði, áður en ákvæðinu var breytt með lögum nr. 53/2009, að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns dragist greiðslur sem tjónþoli fær frá almannatryggingum. Má skilja málatilbúnað stefnanda svo að þar sem stefnandi hafi á stöðugleikapunkti 6. nóvember 2004 ekki átt neinn rétt frá almanna­tryggingum, enda hafi hún á þeim tíma verið barn, eigi frádráttur þessi ekki rétt á sér.  Ekki er ágreiningur um að miða beri framtíðarfrádrátt vegna þessara greiðslna við þann tíma sem tjónþoli getur ekki vænst frekari bata, sem í tilviki stefnanda var 6. nóvember 2004.  Þá liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að stefnandi á rétt á bótum frá Tryggingastofnun ríkisins og verður því ekki fallist á framangreind rök stefnanda.

Þá byggir stefnandi á því að líkur séu á því að stefnandi muni flytjast búferlum til Bandaríkjanna og að þá muni greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins falla niður.  Feli því umdeildur frádráttur í sér að stefnandi sé í raun bundin ólögmætum átthaga­fjötrum.  Brjóti hann í heild sinni gegn réttindum stefnanda sem varin séu af stjórnar­skrá og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Af orðalagi umdeilds ákvæðis verður ekki annað ráðið en að draga eigi greiðslur sem stefnandi fær frá Tryggingastofnun ríkisins frá bótum sem hún fær vegna líkamstjóns og er ekki gert ráð fyrir að neinar undantekningar séu frá því.  Verður ekki séð að frádráttur þessi brjóti í bága við atvinnufrelsis- eignaverndar- og jafnræðisreglur stjórnarskrár eða mannréttinda­sáttmála Evrópu og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, enda er miðað við að bótareglur skaðabótalaga leiði til þess að tjónþoli fái fullar bætur vegna tjónsins sem um ræðir þrátt fyrir frádráttinn.  Þá verður ekki séð að með þessum reglum verði stefnandi sett í átthagafjötra og vangaveltur hennar um búferlaflutninga í framtíðinni breyta engu þar um.

Stefnandi byggir og á því lög nr. 53/2009 og þau sjónarmið sem búi að baki þeim, þar á meðal hvernig ákvarða skuli fullar bætur til handa mikið slösuðum einstaklingum, leiði til þess að ekki eigi að draga frá skaðabótum úr hendi stefndu rétt stefnanda til bóta úr almannatryggingum.  Við aðalmeðferð málsins mótmælti lögmaður stefndu þessari málsástæðu sem of seint fram kominni.  Í þinghaldi 8. júní 2009 var bókað um þessa málsástæðu stefnanda og var henni þá ekki mótmælt sem of seint fram kominni af hálfu stefndu.  Með vísan til 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður að telja að stefnandi hafi komið fram með þessa málsástæðu jafnskjótt og tilefni var til enda lögin sett í lok apríl 2009 og næsta fyrirtaka í málinu eftir 16. apríl 2009 var 8. júní 2009. Með lögum þessum var umdeildu frádráttarákvæði breytt þannig að í stað orðanna „greiðslur sem tjónþoli fær frá almannatryggingum“ í 4. mgr. 5. gr. laganna kemur „eingreiddar örorkubætur almannatrygginga, sbr. 5. mgr. 34. gr. laga nr. 100/2007.“  Lög þessu voru sett 27. apríl 2009 en umrætt slys varð 6. nóvember 2002.  Verður þessum lögum því ekki beitt við útreikning bóta vegna þess slyss.

Að því virtu sem nú hefur verið rakið ber að draga eingreiðsluverðmæti þeirra greiðslna sem stefnandi fær frá Tryggingastofnun ríkisins frá bótagreiðslum til hennar.

Stefnandi byggir á því að umræddur frádráttur eigi ekki að vera hærri en 15.131.000 krónur og byggir það á útreikningi Talnakönnunar hf. sem stefnandi fékk til að yfirfara fyrri útreikning Ragnars Þ. Ragnarssonar tryggingastærðfræðings 12. mars 2006.  Eru í útreikningum Talnakönnunar hf. gerðar athugasemdir við að ekkert tillit hefði verið tekið til væntanlegra fjármagnstekna af bótagreiðslum frá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. auk þess sem reiknað hafi verið með að stefnandi fengi bætur strax á stöðugleikapunkti, en þá hafi hún ekki verið orðin 16 ára.  Þá gerði hann athugasemdir við að reiknað hafi verið með frádrætti vegna heimilisuppbótar sem stefnandi eigi ekki rétt á.  Með nýjum útreikningi 12. desember 2007 leiðrétti Ragnar útreikninga sína og verður ekki annað séð en að hann taki fullt tillit til athugasemda Talnakönnunar hf. varðandi heimilisuppbót og tímabil örorkulífeyris auk þess sem hann lækkar tekjutryggingarauka úr 20.540 krónum í 16.021 krónu og sýnist þannig hafa tekið tillit til áhrifa vaxtatekna á tekjutryggingarauka.  Niðurstaða Ragnars er sú að ætlað­ar bætur frá stöðugleikapunkti séu eftirfarandi:

Örorkulífeyrir 2005.07-2056.03

Mánaðarlega                  21.249

Árlega                           254.988

Margfeldi                       21,129

Höfuðstólsverðmæti  5.387.641

Til frádráttar:

Hlutfall 0,67

Fjárhæð                     3.609.720

Aldurstengdur örorkulífeyrir 2007.04-2056.03

Mánaðarlega                  21.249

Árlega                           254.988

Margfeldi                       19,475

Höfuðstólsverðmæti  4.965.891

Til frádráttar:

Hlutfall 0,67

Fjárhæð                     3.327.147

Tekjutrygging 2005.07-2056.03

Mánaðarlega                   42.878

Árlega                            512.136

Margfeldi                        21,129

Höfuðstólsverðmæti 10.820.922

Til frádráttar:

Hlutfall 0,67

Fjárhæð                     7.250.017

Tekjutryggingarauki 2005.07-2056.03

Mánaðarlega                   16.021

Árlega                            192.252

Margfeldi                        21,129

Höfuðstólsverðmæti  4.062.093

Til frádráttar:

Hlutfall 0,67

Fjárhæð                     2.721.602

Samtals er því fjárhæð frádráttar 16.908.486 krónur.

Þá kemur fram í útreikningi þessum að miðað sé við 4,5% ársvexti að frádregnum 10% fjár­magns­tekjuskatti, samtals 4,05% og lífslíkur fari eftir reynslu áranna 1996-2000.

Eins og rakið hefur verið hefur nýr útreikningur Ragnars Þ. Ragnarssonar verið lagður fram þar sem hann tekur tillit til athugasemda Talnakönnunar hf. að töluverðu leyti.  Hins vegar verður ekki með vissu ráðið af álitsgerð Talnakönnunar hf. hversu stóran þátt fjármagnstekjur eiga í niðurstöðunni.  Þá er til þess að líta að umrædd álitsgerð Talnakönnunar hf. er sett fram til þess að fara ofan í fyrri útreikninga Ragnars en það hefur ekki verið gert varðandi nýrri útreikningana.  Hefur þeim útreikningum ekki verið hnekkt.  Þykja stefndu því hafa sýnt fram á að fjárhæð frádráttar vegna greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins sé 16.908.486 krónur eins og stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. miðaði við í uppgjöri sínu til stefnanda.

Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd til greiðslu framtíðar sjúkrakostnaðar að fjárhæð 3.000.000 króna og byggir það á 1. gr. skaðabótalaga en þar segir að sá sem ber bótaábyrgð á líkamstjóni skuli greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkra­kostnað og annað fjártjón sem af því hlýst.  Stefnandi vísar um þetta til þess að krafan sé sett fram til þess að mæta framtíðarkostnaði stefnanda vegna hjálpartækja og til að bæta lífskjör hennar.  Ljóst er að stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hefur greitt margvíslegan kostnað vegna fjártjóns stefnanda í kjölfar slyssins, meðal annars sjúkrakostnað.   Stefnandi hefur hins vegar engin haldbær gögn lagt fram kröfu þessari til stuðnings og verður hún að bera hallann af þeim sönnunarskorti.  Verður kröfuliður þessi því ekki tekinn til greina. 

Þá verður ekki séð að kostnaður vegna öflunar álitsgerðar Talnakönnunar hf. geti fallið undir umrætt ákvæði laganna og verður því að hafna þeim kröfulið.  Hins vegar þykir rétt, í ljósi þess að umræddur útreikningur nýttist stefnanda, til að fá þá kröfu, sem stefndu vildu draga frá bótum, lækkaða, að kostnaður við öflun álitsgerðarinnar teljist til gjafsóknarkostnaðar stefnanda.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verða stefndu sýknuð af öllum kröfum stefnanda í máli þessu enda óumdeilt að stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hefur greitt stefnanda fullar bætur miðað við lágmarkstekjuviðmið 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga að frádregnum greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir eftir atvikum rétt að málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 1.751.441 króna, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, sem þykir hæfilega ákveðin 1.245.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði.

Af hálfu stefnanda flutti málið Karl Ó. Karlsson hrl., en af hálfu stefndu flutti málið Skarphéðinn Pétursson hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Ingibjörg Pálsdóttir og Vátryggingafélag Íslands hf., eru sýknuð af öllum kröfum stefnanda, Rebekku Önnu Allwood.

Málskostnaður fellur niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 1.751.441 króna, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar að fjárhæð 1.245.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.