Hæstiréttur íslands

Mál nr. 91/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Aðför


Föstudaginn 4. mars 2011

Nr. 91/2011.

A

(Jón Magnússon hrl.)

gegn

tollstjóranum í Reykjavík

(Jóhanna Lára Guðbrandsdóttir fulltrúi)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Aðför.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á að bú A yrði tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu T. Kröfuna studdi T við árangurslaust fjárnám sem hafði að kröfu T verið gert hjá A. Fyrir Hæstarétti hélt A því fram að ekki hefðu verið uppfyllt skilyrði 2. töluliðar 62. gr. laga nr. 90/1989 um aðför um að ekki hafi verið vitað um eign sem gera mætti fjárnám í. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að samkvæmt gögnum málsins hafi T látið kanna eignir A áður en til fjárnámsins kom og hafi sú könnun leitt í ljós að A væri skráður eigandi fasteignar. Fasteignin hafi verið yfirveðsett og hafi fjárnámi því lokið án árangurs. A hélt því einnig fram að héraðsdómara hefði borið að fella fjárnámið úr gildi þar sem birting hefði verið ólögmæt og A því ekki verið sannanlega boðaður. Taldi Hæstiréttur að þar sem A hefði hvorki kært né krafist endurupptöku fjárnámsins kæmi ekki til álita að vísa málinu frá Hæstarétti á þessum forsendum. Þá var málið ekki talið vanreifað af hálfu T. Hinn kærði úrskurður var því staðfestur með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. febrúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2011, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega „að hinum kærða úrskurði verði vísað frá dómi“ en til vara að kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Fjárnám var gert hjá sóknaraðila 16. ágúst 2010 til tryggingar kröfu varnaraðila að fjárhæð 221.639 krónur. Varnaraðili kveðst áður hafa látið kanna eignir sóknaraðila og hafi sú könnun leitt í ljós að hann væri skráður eigandi fasteignarinnar Hvammsgerði 1 í Reykjavík. Fasteignamat hennar væri 34.850.000 krónur en á henni hvíldu veðskuldir að nafnverði 51.662.905 krónur. Fasteignin hafi því reynst vera yfirveðsett og hafi fjárnámi því lokið án árangurs með vísan til 2. töluliðar 1. mgr. 62. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili hvorki kærði þessa aðfarargerð né krafðist endurupptöku hennar. Af þeim sökum verður málinu ekki vísað frá Hæstarétti á þeim forsendum að lögmæt birting hafi ekki farið fram vegna aðfarargerðarinnar. Sóknaraðili reisir frávísunarkröfuna einnig á því að málið sé vanreifað af hálfu varnaraðila. Sú málsástæða er ekki studd haldbærum rökum. Að þessu athuguðu en með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar að öðru leyti verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2011.

Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 14. janúar sl.  Sóknaraðili er Tollstjóri, kt. 650269-7649, Tryggvagötu 19, Reykjavík.  Varnar­aðili er A, kt. [...], [...] [...], Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. 

Varnaraðili krefst þess aðallega að beiðni varnaraðila verði vísað frá dómi, til vara krefst hann þess að beiðninni verði hafnað.  Þá krefst hann málskostnaðar. 

Krafa sóknaraðila barst dóminum 13. október 2010.  Við fyrirtöku 1. desember andmælti varnaraðili beiðninni og fékk frest til ritunar greinargerðar.  Var málið flutt munnlega 14. janúar sl., en vegna mikilla anna og lokunar dómsins milli jóla og nýárs var ekki unnt að ljúka málflutningi fyrr. 

Sóknaraðili segir að varnaraðili standi í skuld er nemi samtals 4.957.668 krónum.  Fjárnám var reynt hjá varnaraðila 16. ágúst 2010, en gerðin reyndist árangurslaus.  Í bókun sýslumanns segir m.a.:

Gerðarþoli er ekki mættur.  Skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1989 er fullnægt til að gerðin fari fram, þótt ekki sé mætt fyrir gerðarþola.  Engin vitneskja liggur fyrir um eign sem má gera fjárnám í.  Að kröfu gerðarbeiðanda er fjárnámi lokið án árangurs ...

Sóknaraðili vísar til 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.

Varnaraðili segir í greinargerð að sér hafi borist tilkynning um árangurslaust fjárnám vegna skuldar að fjárhæð 204.632 krónur.  Við nánari athugun hafi verið upplýst að á móti þessari skuld stæðu vaxtabætur og barnabætur er dygðu til að ljúka skuldinni.  Segir varnaraðili að umrædd skuld sé til komin vegna vanskila vinnu­veitanda síns á afdregnum gjöldum.  Vegna þessa hafi 193.168 krónur verið færðar inn á viðskiptareikning sinn.  Séu engin efni til að gjaldþrotaskipti fari fram, sbr. 65. gr. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 95/2010 og lög nr. 101/2010. 

Þá segir í greinargerð varnaraðila að á hann hafi verið lögð skattsekt.  Telur varnaraðili sig hafa forsendur til að semja um þá skuld og að hann skuli eiga þess kost eins og aðrir sem slíkar sektir hafi verið lagðar á, að greiða skuldina með samkomu­lagi. 

Krafa um  frávísun er byggð á því að málið sé vanreifað af hálfu sóknaraðila, sem hafi ekki lagt fram skilmerkileg gögn og útlistun kröfugerðar. 

Kröfu um höfnun gjaldþrotabeiðni byggir varnaraðili enn fremur á því að krafan samkvæmt umræddu fjárnámi hafi verið greidd.  Kostnaður sem krafið sé um sé að verulegu leyti til kominn vegna þeirrar gerðar og kveðst varnaraðili mótmæla þeim kostnaðarliðum ýmist sem röngum eða órökstuddum. 

Í munnlegum málflutningi kom fram hjá varnaraðila að hann væri þinglýstur eigandi að fasteigninni [...] [...] í Reykjavík. 

Niðurstaða

Sú fullyrðing varnaraðila að hann hafi ekki verið boðaður til umrædds fjár­náms er ekki studd neinum gögnum.  Ber hann sönnunarbyrðina fyrir þessari stað­hæfingu sinni, en hann hefur ekki borið við að styðja hana gögnum.  Verður að leggja til grundvallar að sýslumaður hafi með réttu talið fært að ljúka fjárnámsgerðinni án þess að varnaraðili mætti til hennar. 

Málatilbúnaður varnaraðila er ekki ýkja skýr.  Þó virðist sem hann beri fyrir sig að hann skuldi ekki önnur gjöld en skattsekt og að óheimilt sé að krefjast gjald­þrotaskipta vegna hennar.  Þetta er ósannað.  Af gögnum málsins má sjá að skattsekt er stór hluti af skuld varnaraðila, en ekki skuldin öll.  Þá hefur hann ekki reynt að skýra, með tilvísun til réttarheimilda, hvers vegna ekki megi innheimta sektina eins og hverja aðra skuld.  En þar sem sektin er ekki eina skuld varnaraðila þarf ekki að leysa úr þessari málsástæðu hans.  Þá eru fullyrðingar hans um lækkun skulda og vaxta- og barnabætur ekki studdar neinum gögnum. 

Gögn sem sóknaraðili lagði fram eru að sönnu ekki yfirgripsmikil, en varnar­aðili hefur ekki hnekkt því að hann standi í skuld við sóknaraðila.  Þarf ekki á þessu stigi að komast að niðurstöðu um hve há skuldin nákvæmlega er, en víst er að gjald­fallin skuld er til staðar.  Frávísunarkröfu varnaraðila verður hafnað. 

Sú fullyrðing að varnaraðili væri þinglýstur eigandi fasteignar kom fram í munnlegum málflutningi.  Var ekki gerð nánari grein fyrir því hvers virði umrædd eign væri og hvort á henni hvíldu veðskuldir eða aðrar kvaðir.  Getur þessi fullyrðing ekki haft nein áhrif á niðurstöðu málsins. 

Þar sem árangurslaust fjárnám hefur verið gert hjá varnaraðila, og hann stendur í skuld við sóknaraðila, verður bú hans tekið til gjaldþrotaskipta. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Að kröfu sóknaraðila, Tollstjóra, er bú varnaraðila, A, kt. [...], [...] [...], Reykjavík, tekið til gjaldþrotaskipta.