Hæstiréttur íslands
Mál nr. 106/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 5. mars 2007. |
|
Nr. 106/2007. |
Þrotabú Óseyjar hf. (Bjarni S. Ásgeirsson hrl.) gegn Viðjum ehf. (Sigurmar K. Albertsson hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Þrotabú Ó hf. krafði V ehf. um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar vegna viðskipta Ó hf. við síðargreinda félagið í tengslum við smíði á skipi. Í stefnu var krafan greind í þrjá liði. Laut hún að stærstum hluta að verklaunum og kostnaði vegna smíði skipsins en jafnframt að eftirstöðvum kaupverðs þess og um greiðslu framkvæmdaábyrgðar. Í úrskurði héraðsdóms, sem var staðfestur af Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að óljóst væri af gögnum málsins hvaða kostnað Ó hf. hefði haft af smíði skipsins. Þá var ekki talið ljóst af málatilbúnaði þrotabúsins hver væri grundvöllur ætlaðrar greiðsluskyldu V ehf. á eftirstöðvum kaupverðs skipsins og umræddri framkvæmdaábyrgð. Samkvæmt þessu þóttu verulegir gallar vera á málatilbúnaði þrotabúsins og málinu því vísað sjálfkrafa frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. febrúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2007, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, þrotabú Óseyjar hf., greiði varnaraðila, Viðjum ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2007.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 24. febrúar 2006 og tekið til úrskurðar 16. janúar sl. Stefnandi er þrotabú Óseyjar hf., Reykjavíkurvegi 60, Hafnarfirði. Stefndi er Viðjar ehf., Sóltúni 26, Reykjavík.
Í þessum þætti málsins krefst stefndi þess að málinu verði vísað frá dómi og stefnandi úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið og honum úrskurðaður málskostnaður fyrir þennan þátt málsins.
I
Skipasmíðastöðin Ósey hf. var tekin til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóm 28. apríl 2005 en hafði haft heimild til greiðslustöðvunar frá 9. mars 2005. Stefndi er dótturfélag Kaupþings banka hf. sem var viðskiptabanki Óseyjar hf. og hefur lýst kröfum í stefnanda að fjárhæð 659.269.604 krónur. Sakarefni málsins lýtur að ýmsum ráðstöfunum stefnda tengdum nýsmíði 36,5 m skips (auðkennd B-13) sem Ósey hf. tók að sér fyrir Stjörnan kf. í Færeyjum samkvæmt samningi 8. mars 2003. Er nauðsynlegt að rekja nokkuð samskipti stefnda, Kaupþings banka hf. og Óseyjar hf. tengd umræddri nýsmíði.
Í stefnu, svo og greinargerð stefnda, kemur fram að Ósey hf. gerði alls þrjá lánasamninga við Búnaðarbanki Íslands hf. (nú Kaupþing banki hf.) vegna umræddrar nýsmíði og veitti félaginu framkvæmdaábyrgð vegna verksins að fjárhæð 40.000 milljónir. Bankinn fékk svo gagnábyrgð hjá Tryggingadeild útflutningsins/Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins fyrir sömu fjárhæð. Í júní og júlí 2004 lá fyrir að nýsmíði B-13 yrði ekki lokið nema til kæmi viðbótarfjármögnun en upphaflegur afhendingardagur skipsins hafði átt að vera 24. maí 2004. Samkvæmt stefnu gáfu fyrirsvarsmenn bankans í skyn að hann myndi standa með Ósey hf. í þessum erfiðleikum, en leituðu jafnframt eftir viðbótargreiðslutryggingum. Segir í stefnu að á þessum grundvelli hafi fyrirsvarsmenn Óseyjar hf. ekki talið sig eiga annarra kosta völ en að verða við kröfum bankans og undirritað þær viðbótargreiðslutryggingar sem farið var fram á, þar á meðal framsöl krafna og trygginga sem krafist sé riftunar á í málinu. Einnig hafi eigendur Óseyjar hf. lagt fram persónulegar ábyrgðir á skuldum félagsins. Samtals hafi bankinn fengið nýjar tryggingar og framsöl fyrir um 200 milljónir króna á tímabilinu 19. júlí til 6. september 2004. Í stefnu er svo greint frá því að í ágúst 2004 hafi undirverktökum og birgjum Óseyjar hf. verið tilkynnt að bankinn og dótturfélag bankans, stefndi, myndu bera ábyrgð á kostnaði verksins auk þess sem fyrirsvarsmenn Óseyjar hf. hafi samþykkt að fulltrúi bankans, Alfreð Túliníus, tæki við sem verkefnisstjóri með verkefninu.
Af gögnum málsins verður ráðið að í september 2004 hafi hinn færeyski kaupandi skipsins hugleitt að grípa til vanefndaúrræða vegna dráttar á afhendingu þess en hann hafði áður fallist á að afhending frestaðist fram í ágúst 2004. Hinn 8. október 2004 barst bankanum símbréf frá lögmanni hins færeyska kaupanda þar sem gerð var krafa um greiðslu framangreindrar ábyrgðar að fjárhæð 40 milljónir króna. Bankinn greiddi hinum færeyska kaupanda ábyrgðarfjárhæðina 19. sama mánaðar sem flutti hana yfir til stefnda sama dag í því skyni að félagið gæti lokið byggingu skipsins.
Hinn 12. október 2004 var gerður samningur, þar sem stefndi keyptu nýsmíðina B-13 og yfirtók réttindi og skyldur Óseyjar hf. samkvæmt samningnum við hinn færeyska kaupanda. Samkvæmt kaupsamningnum, sem dagsettur er 12. október 2004, var kaupverðið 192.527.936 krónur og skyldi það greiðast með yfirtöku á skuldum Óseyjar hf. við bankann að fjárhæð 192.434.000 krónur sem tryggðar væru með tryggingabréfi á 1. veðrétti skipsskrokksins. Stefndi skuldbatt sig til að ljúka smíði skipsins og afhenda hinum færeyska kaupanda. Í kaupsamningnum sagði eftirfarandi í 3. mgr. 8. gr.:
Skal kaupandi nýta þá greiðslu kaupverðs til að greiða upp þær skuldir seljanda við Kaupþing Búnaðarbanka hf. sem tryggðar eru með veði í skipinu svo afhenda megi skipið fullbúið til hins færeyska kaupanda í samræmi við ákvæði samnings hans við seljanda.
Aftan á samninginn var eftirfarandi ritað:
Kaupþing Búnaðarbanki hf. samþykkir fyrir sitt leyti þá skuldskeytingu sem lýst er í framangreindum samningi og er forsenda greiðslu kaupverðs skv. samningnum. Jafnframt samþykkir bankinn fyrir sitt leyti, sem veðhafi, það framsal á greiðslu smíðaverðs skipsins sem felst í 8. gr. samnings þessa enda standi veðréttur bankans í hinum framseldu greiðslum óhaggaður eftir sem áður. Það er skilyrði og forsenda fyrir samþykki bankans að þessu leyti, að hinni framseldu greiðslu kaupverðs skipsins verði ráðstafað til að greiða upp hinar yfirteknu skuldir skv. framangreindu.
Aðilum ber saman um að stefndi hafi lokið smíði skipsins og afhent það hinum færeyska kaupanda 18. nóvember 2004. Ekki er ágreiningur um að eftir 12. október 2004 var verkið unnið í aðstöðu Óseyjar hf. og af starfsmönnum félagsins undir stjórn Alfreðs Túliníusar. Samkvæmt stefnu voru ýmsir reikningar vegna verksins þó gefnir út á Ósey hf. Jafnramt virðist mega ráða af stefnu að ýmsar greiðslur vegna verksins, þar á meðal laun starfsmanna, hafi á þessum tíma verið skuldfærðar sem yfirdráttur á reikning Óseyjar hf. nr. 14399 hjá bankanum. Samkvæmt greinargerð stefnda munu þessar greiðslur hafa numið 23.858.060 krónum og er í því sambandi vísað til framlagðra reikningsyfirlita. Samkvæmt greinargerð stefndu fyrirtækið beint 52.149.302 krónur. Vísar stefndi til framlagðra bókhaldsgagna félagsins í því sambandi. Þá mun reikningur Óseyjar hf. nr. 1259 hjá bankanum hafa verið yfirdreginn um 56.905.524 krónur samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð stefnda.
Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu var fyrirsvarsmönnum Óseyjar hf. lofað því af fyrirsvarsmönnum bankans að Ósey hf. fengi uppgert andvirði skipsins eftir að fram hefði farið lokauppgjör. Því er lýst að 18. nóvember 2004 hafi umrætt uppgjör farið fram og stefndi þá fengið greiddar 22.170.000 danskar krónur. Þetta uppgjör hafi hins vegar farið fram án samráðs við fyrirsvarsmenn Óseyjar hf.
II
Með hliðsjón af þeim ástæðum sem stefndi teflir fram til stuðnings frávísunarkröfu sinni er nauðsynlegt að rekja í stuttu máli sundurliðun og grundvöll kröfu stefnanda. Dómkröfu stefnanda er skipt í þrennt: 1. Krafa um verklaun og kostnað að fjárhæð 181.080.636 krónur sem sundurliðað er sérstaklega síðar; 2. Krafa um greiðslu eftirstöðva kaupverðs að fjárhæð 71.000.000 krónur; 3. Krafa um greiðslu framkvæmdaábyrgðar að fjárhæð 40.000.000 krónur. Samtals er því kröfufjárhæð stefnanda kr. 292.080.636 krónur.
Fyrsti kröfuliðurinn er byggður á 1. mgr. 8. gr. samnings aðila 12. október 2004 þar sem segir að stefndi skuldbindi sig til að ljúka smíði skipsskrokksins í samræmi við smíðalýsingu og smíðakröfur í fyrrgreindum skipasmíðasamningi. Hafi því átt að ljúka við smíði skrokksins alfarið á kostnað stefnda, en Ósey hf. verið ráðið til að vinna mestan hluta þess verks sem eftir var, eins og verið hafði fram að undirritun samningsins. Ósey hf. hafi unnið verkið í útseldri tímavinnu í samræmi við gildandi gjaldskrá félagsins, bæði að því er varðaði vinnulaun starfsmanna og gjald fyrir tæki og áhöld, enda ekki samið sérstaklega um tilboð eða annað slíkt úr hendi stefnanda. Í stefnu kemur fram að þegar verkinu var lokið hafi framkvæmdastjóri Óseyjar hf., hinn 18. janúar 2005, krafið um greiðslu á grundvelli yfirlits yfir verklaun og kostnað, en engin viðbrögð borist frá stefnda eða Kaupþingi banka hf. Stefnandi vísar til þess að þar sem í ljós hafi komið að stefndi hygðist ekki greiða fyrir umrædda vinnu hafi fyrirsvarsmenn Óseyjar hf. ekki talið neinn grundvöll fyrir því að veita stefnda bestu kjör á tímagjaldi. Við endanlega uppgjörsniðurstöðu hafi tímagjald því verið hækkað. Þá kemur fram að stefnandi líti svo á að stefndi viðurkenni kröfuna eins og hún var sett fram 18. janúar 2005 og vísar til eftirfarandi sundurliðunar:
- Dagvinna 12/10/04-25/11/04 (6.107 klst * 3.510 kr.) 21.435.570 kr.
- Eftirvinna 12/10/04-25/11/04 (2.612 klst * 5.580 kr.) 14.574.960 kr.
- Verkstjórn (15% af vinnu) 5.401.579 kr.
- Vélar og tæki (6.833 klst. * 720 kr.) 4.919.760 kr.
- Rafsuða (942 klst. * 4.600 kr.) 4.333.200 kr.
- Teiknivinna (364 klst. * 4.500 kr.) 1.638.000 kr.
- Rennivinna (138 klst. * 4.800 kr.) 662.400 kr.
- Lagnavinna (442 klst. * 9.500 kr.) 4.199.000 kr.
- Akstur (276 ferðir * 600 kr.) 165.600 kr.
- Lóder (186 klst. * 5.200 kr.) 967.200 kr.
- Gas og súr (120 klst. * 4.800 kr.) 576.000 kr.
- Tryggingar 1.175.693 kr.
- Færeyjarferð 586.340 kr.
- Spilbúnaður 34.571.159 kr.
- Efni og verktakar 62.980.290 kr.
Samtals efni og útlagt með vsk. (liðir 12, 13 og 15) 64.742.323 kr.
Samtals vinna og spilbúnaður án vsk. (liðir 1-11 + 14) 93.444.428 kr.
Virðisaukaskattur á vinnu og spilbúnað (liðir 1-11 + 14) 22.893.885 kr.
SAMTALS 181.080.636 kr.
Í stefnu eru einstakir liðir skýrðir með svofelldum hætti:
- Dagvinnuliðurinn er skv. tímaskrá og fjárhæð fyrir hverja vinnustund, án virðisaukaskatts, er í samræmi við gjaldskrá.
- Sama og varðandi lið 1.
- Skv. gjaldskrá, en verkstjórn er reiknuð sem 15% af vinnuliðum 1-2.
[...]
- Tímafjöldi er skv. tímaskrá/verkbókhaldi, en fjárhæð er byggð á gjaldskrá vegna notkunar á ýmsum minni tækjum er ekki koma fram í liðum 5-8. Tækja/vélaleiga er jafnaðarfjárhæð, þ.e. skv. gjaldskrá getur gjaldfærsla vegna minni véla og tækja verið frá 500 kr., en vegna fjölda tíma er stefndi látinn njóta vafans og jafnaðarfjárhæð notuð.
- Skv. tímaskrá/verkbókhaldi og gjaldskrá.
- Sama og 5.
- Sama og 5 og 6.
- Sama og 5-7.
- Samkvæmt skrá yfir fjölda ferða, en skv. gjaldskrá er gjald fyrir akstur frá 500 kr. eftir því hvert ekið er. Er í þessum liðum jafnaðargjald að ræða stefnda til hagsbóta.
- Skv. tíma- og gjaldskrá.
- Sama og 10.
- Skv. reikningi frá tryggingarfélagi yfir þann tíma sem skipið var við bryggju. Skipið var sjósett 5. ágúst 2004 og fór frá bryggju 20. nóvember 2004. Heildarverð trygginga vegna þess tíma er skipið lá við bryggju var 3.248.626 kr. Hluti stefnda í þeirri fjárhæð er í hlutfalli við reikningsfjárhæð eða 1.175.693 kr.
- Skv. yfirliti, en stefndi óskaði eftir því að stefnandi sendi tvo menn, Kristján Jóhannsson og Daníel Sigurðsson, í þá ferð sem fólst í úttekt á skipunum í Færeyjum.
- Skv. verðtilboði til Þorgeirs og Ellerts, en þar var um að ræða eins spil og fór í nýsmíði B-13. Fjárhæð þessi er í samræmi við fjárhæð spils er Hermann Eyjólfsson starfsmaður stefnda og Kaupþings banka hf. hafði samþykkt.
- Skv. framlögðum reikningum og yfirliti yfir reikninga. Þess ber þó að geta að sumir reikningarnir eru dagsettir fyrir 12. október 2004, en þeir eru vegna efnis og tækja sem ekki voru komin í skipsskrokkinn þegar stefndi keypti hann. Því voru þeir ekki inn í kaupverði stefnda. Höfðu þeir reikningar ekki verið greiddir þegar stefndi keypti skrokkinn og falla því ekki undir 1. gr. samningsins.
Annar liður í stefnukröfu er, sem fyrr segir, krafa um greiðslu kaupverð að fjárhæð 71 milljón króna. Stefnandi vísar til þess að samkvæmt samningnum 12. október 2004 hafi stefndi greitt Ósey hf. 192.527.936 krónur fyrir skipsskrokkinn. Endanlegt kaupverð hafi átt að vera 263.527.936 krónur og sé mismunurinn því 71 milljón króna sem hefði átt að greiðast upp í kröfur bankans samkvæmt ákvæðum samningsins.
Síðasti liðurinn í kröfu stefnanda lýtur að greiðslu framkvæmdaábyrgðar að fjárhæð 40.000.000 króna, líkt og áður greinir. Um þennan kröfulið segir orðrétt eftirfarandi í stefnu:
Við upphaf skiptameðferðar þrotabús stefnanda komu fram vísbendingar um að ekkert uppgjör hafi farið fram á efnislegri kröfu að baki framkvæmdaábyrgð nr. 0322-8884 að fjárhæð kr. 40.000.000,-, er greidd var af hálfu Kaupþings banka hf. til kaupanda skipsins með ávísun þann 19. október 2004. Virðist einnig sem greiðsla hafi verið greidd beint til kaupanda skipsins þrátt fyrir að umrædd framkvæmdaábyrgð hafi verið framseld til Norðoya Sparikassi með yfirlýsingu þess efnis þann 28. apríl 2003. Var sú yfirlýsing móttekin af Kaupþingi banka hf., þá Búnaðarbanka Íslands hf. [...] Stefnandi telur að þar sem stefndi var fullkomlega grandsamur um að framkvæmdaábyrgðin hafi verið greidd til kaupanda skipsins, þá hafi hann átt að taka þá ábyrgð inn í endanlegt uppgjör sem gert var um skipið í ljósi skyldu sinnar til viðtöku kaupverðsins. Byggir stefnandi bæði á því að stefndi beri kröfuréttarlega - sem og sjálfstætt ennfremur skaðabótalega - ábyrgð á því gagnvart stefnanda.
Þá er því lýst í stefnu að framkvæmdaábyrgðin hafi ekki falið í sér „sjálfstæðan efnisrétt“ heldur verið trygging kaupandans ef kæmi til vanefnda á samningi um skipasmíðina. Hinn færeyski kaupandi hafi aldrei gert kröfur vegna vanefnda við smíðina og móttekið skipið athugasemdalaust. Kemur fram í stefnu að hinum færeyska kaupanda beri að endurgreiða ábyrgðina. Er einnig vísað til þess að hann hafi engar kröfur gert í stefnanda vegna ætlaðra vanefnda Óseyjar hf. Þá segir að vísbendingar séu í gögnum málsins um að hluti framkvæmdaábyrgðarinnar hafi gengið til stefnda til lúkningar smíði skipsins en þetta sé algerlega á skjön við allan tilgang ábyrgðarinnar. Hafi svo verið, þá megi hins vegar vera ljóst að stefnandi eigi skýlausa kröfu á hendur stefnda undir þessum kröfulið um endurgreiðslu þeirra fjármuna. Er sérstaklega skorað á stefnda að upplýsa allt er lýtur að samskiptum við hinn færeyska kaupanda að þessu leyti, svo og upplýsingar um ráðstöfun framkvæmdaábyrgðarinnar.
III
Frávísunarkrafa stefnda byggist á því að annmarkar séu á einstökum kröfuliðum og undirliðum þeirra. Er í greinargerð stefnda fylgt kröfuliðum eins og þeir eru settir fram hér áður.
Að því er varðar fyrsta kröfuliðinn telur stefndi að liðurinn sé byggður á samantekt sem kemur fram í beiðni um heimild til greiðslustöðvunar og verði að skoða hann í því ljósi. Þá séu undirgögn lögð fram í heilli skjalamöppu og séu skjölin eitthvað yfir fjórða hundraðið. Í fyrsta lagi sé lögð fram tímaútskrift, þar sem tíundaður er tímafjöldi allt frá 12. október 2004 er stefndi yfirtók smíðina. Allt sé þetta á skjön við framsetningu í stefnu en þar sé sagt með réttu að stefndi hafi lagt allt fé til launa starfsmanna og hafi það meðal annars verið gert með auknum yfirdrætti af reikningi við Kaupþing banka hf. sem lagði til fé. Þá veki það athygli að fyrrum framkvæmdastjóri virðist vera á launaskránni, en hann hafi ekki komið að smíðaverki B-13 frá ágúst 2004 og þar til yfir lauk. Hér hefði verið nauðsynlegt að taka saman þær launagreiðslur sem stefndi innti af hendi og bera saman við meinta kröfu stefnanda.
Að því er varðar gögn að baki kostnaði (sbr. tölulið 15 í kröfuliðnum) vísar stefndi til þess að kostnaðurinn sé studdur við skjal sem sé um 400 bls. og virðist vera raðað saman á tilviljunarkenndan hátt og allt tínt til sem fundist hafi í starfstöð Óseyjar hf. Engin samtala sé vegna fjárhæða og ekki sé raðað eftir kröfuhöfum né nokkru öðru kerfi. Inn á milli skjalanna séu meðal annars kreditreikningar sem óljóst sé hvaða tilgangi þjóna. Þá séu ýmsir reikningar dagsettir fyrir yfirtöku stefnda á smíðinni þann 12. október 2004 án þess að það sé skýrt nema mjög lauslega í stefnu. Niðurlag og jafnvel blaðsíður virðist vanta á ýmis skjöl og mörg séu ólæsileg. Stefndi hefur sjálfur endurraðað umræddum gögnum eftir nafni fyrirtækja og eftir fjárhæðum hvers reiknings og lagt fram sem sérstakt dómskjal. Í greinargerð hans segir að við samanburð á útborgunum af reikningi 1499, sem Kaupþing banki hf. fjármagnaði, komi í ljós að fjölmargir reikningar séu þegar greiddir. Sama sé uppi á teningnum vegna reiknings 14399. Þá sé enn eftir að bera saman kröfugerðina við það sem stefndi sjálfur lagði út vegna smíðinnar og sé efalaust þar að finna marga greidda reikninga. Stefndi telur að þeir reikningar sem fram komi í umræddu skjali stefnanda fá heldur engan stuðning í kröfuskrá. Krafan sé því ekki rökstudd á nokkurn hátt og framsetning hennar andstæð 80. gr. laga nr. 91/1991.
Að því er varðar annan lið stefnukröfu vísar stefndi til þess að stefndi og Kaupþing banki hf. hafi staðið allan straum af kostnaði við smíði B-13 og raunar gott betur og því rökrétt að þeir taki til sín kaupverðið. Stefndi hafi einnig stefnt Kaupþingi banka hf. vegna sömu kröfu þótt upplýsingar hafi verið gefnar um að kaupverðið hafi runnið til stefnda. Með kröfuliðum 1 og 2 sé stefnandi því bæði að krefjast kaupverðsins og krefja stefnda um allan kostnað við smíðina. Slíkt sé ekki rökrétt en þessum kröfulið verði svarað með fyllri hætti með rökum vegna sýknukröfu varðandi sama lið. Vísað er til 25. gr. laga nr. 91/1991 svo og 80. gr. laganna vegna þessa kröfuliðar.
Að því er varðar þriðja lið stefnukröfu vísar stefndi til þess að þessi krafa sé einnig höfð uppi í máli stefnanda gegn Kaupþingi banka hf. Stefndi leggi sjálfur fram gögn um að krafa þessi sé umþrætt og mál vegna fjárhæðarinnar sé til meðferðar við Héraðsdóm Reykjavíkur. Þá virðist vera hér á ferðinni talsverður misskilningur. Ósey hf. hafi aldrei reitt þetta fé af hendi heldur Kaupþing banki hf. en féð hafi síðar verið notað til að klára smíði B-13. Ósey hf. hafi því ekki heldur verið aðili að samningi Kaupþings banka hf. og ábyrgðarveitanda. Stefndi komi þessi viðskipti því ekki við á nokkurn hátt.
IV
Stefnandi hafnar því að gallar séu á málinu sem leiða eigi til frávísunar. Hann vísar í fyrsta lagi til þess að á honum hvíli engin skylda til að stefna stefnda og Kaupþingi banka hf. í einu og sama málinu. Um sé að ræða tvo sjálfstæða lögaðila sem sækja megi hvorn í sínu dómsmálinu. Hann telur að varnir stefnda lúti í meginatriðum að efnisatriðum og geti ekki leitt til frávísunar. Hann mótmælir því að skjöl hafi verið lögð fram án tilgangs eða með óskipulegum hætti. Hann bendir einnig á að engar reglur séu til um hvernig haga beri uppröðum skjala og þess háttar. Hann mótmælir því að krafa hans byggi á samantekt sem lögð var fram vegna beiðni um heimild til greiðslustöðvunar, svo sem haldið sé fram af stefnda. Þá er því mótmælt að dómskjal, sem eru reikningar vegna útlagðs kostnaðar, sé raðað saman á tilviljunarkenndan hátt eða allt hafi verið tínt til sem fannst í starfsstöð Óseyjar hf.
V
Niðurstaða
Í máli þessu setur stefnandi fram kröfu um greiðslu ákveðinnar fjárhæðar úr hendi stefnda sem greind er í þrjá liði. Lýtur fyrsti liðurinn að verklaunum og kostnaði Óseyjar hf. vegna smíði skipsins B-13 eftir að það hafði verið selt stefnda 12. október 2004. Annar liðurinn svarar til mismunar kaupverðs B-13 samkvæmt samningnum 12. október 2004 og endanlegs kaupverðs sem stefndi fékk greitt samkvæmt upphaflegum samningi Óseyjar hf. og hins færeyska kaupanda. Að lokum svarar þriðji liðurinn til fjárhæðar framkvæmdaábyrgðar sem Kaupþing banki hf. greiddi hinum færeyska kaupanda 19. október 2004.
Í fyrsta lið stefnukröfu er gerð krafa um greiðslu 181.080.636 króna sem sundurliðuð er í 15 undirliðum. Í stefnu er því lýst að laun starfsmanna Óseyjar hf. hafi eftir 12. október 2004 verið greidd í gegnum tékkareikning félagsins nr. 14399 hjá Kaupþing banka hf. Með hliðsjón af því að reikningurinn var yfirdreginn fóru greiðslur launa í raun þannig fram að stofnað var til skuldar hjá Kaupþing banka hf., móðurfélagi stefnda, með greiðslunum. Gögn málsins bera með sér að sami háttur hafi verið hafður við ýmsar aðrar greiðslur tengdar nýsmíðinni B-13 á þessum tíma. Að lokum liggur fyrir að stefndi greiddi sjálfur, milliliðalaust, ýmsa þá reikninga sem stefnandi byggir kröfu sína á. Samkvæmt þessu er óljóst af þeim gögnum, sem stefnandi hefur lagt fram, hvaða kostnað Ósey hf. hafði af umræddri nýsmíði þannig að yfirlýstur grundvöllur umrædds kröfuliðs stefnanda liggi fyrir með viðhlítandi hætti.
Að því er varðar annan lið í stefnukröfu, þ.e. kröfu um greiðslu 71 milljónar, liggur fyrir að Ósey hf. seldi stefnda nýsmíðina B-13 með samningi 12. október 2004. Er ekki á því byggt í þessu máli að sá samningur hafi verið ógildur eða honum hafi verið rift með einhverjum hætti. Með hliðsjón af því að í umræddum samningi fólst að stefndi öðlaðist rétt til kaupverðs skipsins úr hendi hins færeyska kaupanda er óljóst hvernig stefnandi, sem þrotabú Óseyjar hf., telur sig eiga rétt til þessarar greiðslu. Í málatilbúnaði stefnanda virðist hér vísað til þess að stefndi hafi skuldbundið sig til að ráðstafa söluandvirði B-13 til greiðslu tiltekinna skulda hjá Kaupþing banka hf., sbr. 3. mgr. 8. gr. samningsins 12. október 2004. Þessi málsástæða stefnanda kallar hins vegar á það að stefnandi sýni fram á tjón vegna ætlaðra vanefnda stefnda á 3. mgr. 8. gr. samningsins. Í málinu er þó engin grein gerð fyrir því hvort Ósey hf. hafi þurft að greiða þær veðskuldir sem vísað er til í umræddu ákvæði samningsins eða hvort og að hvaða marki stefnandi hafi eða kunni að greiða þessar skuldir við gjaldþrotaskiptin. Eins og málið liggur fyrir dómara virðist mun líklegra að við þær aðstæður sem stefnandi lýsir, þ.e. ef stefndi hefur vanrækt skyldu sína samkvæmt 3. mgr. 8. gr. samningsins við Ósey hf., sé það Kaupþing banki hf., móðurfélag stefnda, sem hafi orðið fyrir tjóni sem nemi umræddri fjárhæð, a.m.k. að því marki sem umræddar veðskuldir munu ekki greiðast við gjaldþrotaskiptin. Hvernig sem á þennan kröfulið er litið er það álit dómara að grundvöllur ætlaðrar greiðsluskylda stefnda sé óljós og krafan órökstudd í málatilbúnaði stefnanda.
Að því er varðar þriðja lið stefnukröfu liggur fyrir að Kaupþing banki hf. greiddi hinum færeyska kaupanda skipsins framkvæmdatryggingu að fjárhæð 40.000.000 króna hinn 19. október 2004 svo sem áður greinir. Jafnframt liggur fyrir að hinn færeyski kaupandi flutti fjárhæðina til stefnda sem hafði á þessum tíma keypt skipið og tekið að sér að ljúka smíði þess. Af gögnum málsins verður ráðið að aldrei kom til þess að Ósey hf. endurgreiddi Kaupþing banka hf. með einhverjum hætti umrædda ábyrgð, enda er hún meðal lýstra krafna bankans við gjaldþrotaskipti stefnanda. Er því óljóst með hvaða hætti stefnandi, sem þrotabú Óseyjar hf., telur sig eiga rétt til umræddrar greiðslu. Ekki er síður óljóst hvernig stefnandi telur að ábyrgð stefnda sé háttað að þessu leyti. Stefnandi virðist í þessu sambandi helst vísa til þess að stefndi og/eða Kaupþing banki hf. hafi vanrækt að innheimta umrætt fé af hinum færeyska kaupanda sem hluta af söluverði skipsins og ráðstafa því til greiðslu skulda Óseyjar hf. samkvæmt 3. mgr. 8. gr. samningsins 12. október 2004. Dómari bendir á að jafnvel þótt á þetta yrði fallist hefur stefnandi með engum hætti útskýrt í málatilbúnaði sínum hvers vegna stefnda beri að greiða honum tilgreinda fjárhæð. Vísast til þess sem áður segir að í málinu er engin grein gerð fyrir því hvort Ósey hf. hafi greitt þær veðskuldir sem vísað er til í umræddu samningsákvæði eða hvort og að hvaða marki stefnandi hafi greitt, eða kunni að greiða, þessa skuld. Að því er varðar tilvísun stefnda til skaðabótareglna utan samninga er alfarið óútskýrt með hvaða hætti stefndi bakaði honum tjón með saknæmum og ólögmætum hætti.
Samkvæmt öllu framangreindu eru gallar á málatilbúnaði stefnanda svo verulegir að ekki verður hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi úrskurðaður til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilegur, eftir umfangi málsins, 50.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til þess að mál þetta er rekið samhliða máli nr. E 1989/06. Við ákvörðun málskostnaðar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnda flutti málið Sigurmar K. Albertsson hrl.
Af hálfu stefnanda flutti málið Ólafur Rafnsson hdl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, þrotabú Óseyjar hf., greiði stefnda, Viðjum ehf., 50.000 krónur í málskostnað.