Hæstiréttur íslands

Mál nr. 350/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 27

 

Föstudaginn 27. júní 2008.

Nr. 350/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103 gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júní 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 22. júlí 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

                                  Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 24. júní 2008.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að kærði X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 22. júlí nk. kl. 16.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að sunnudaginn 22. júní sl. hafi A leitað til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og tilkynnt um stuld á jakka sínum á kaffihúsinu Nexus við Hverfisgötu 103 í Reykjavík.  Hafi A skýrt frá því að hann hafi skilið jakka sinn eftir á stólbaki og að í jakkanum hafi verið veski með greiðslukortum sínum.  Kvað hann að greiðslukort hans hafi verið notað í heimildarleysi í verslun Elko þennan sama dag, en þá það hafi verið notað til greiðslu á fartölvu að verðmæti 205.995.

                Í gær um kl. 13:05 hafi kærði verið handtekinn í verslun BT í Skeifunni í Reykjavík, grunaður um fjársvik með því að hafa framvísað greiðslukorti ofangreinds A og þannig reynt að kaupa sjónvarpstæki að verðmæti 189.999 krónur.

                Í skýrslutöku í gærkvöld hafi kærði viðurkennt að hafa stolið jakka A og notað greiðslukort hans í Elko og þannig náð að svíkja út fartölvu, sem hann hafi svo endurselt og fengið 10 grömm af amfetamíni fyrir.  Þá hafi hann viðurkennt nú fyrr í dag að hafa reynt að svíkja út ofangreint sjónvarpstæki í verslun BT í Skeifunni með greiðslukorti A  (mál nr. 007-2008-45543 og 007-2008-45835).

                Auk ofangreindra tveggja mála hafi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu nú til meðferðar 13 mál, þar sem ákærði sé sterklega grunaður um aðild, þau séu:

007-2008-45473

                Kærði sé í því máli grunaður um hylmingu með því að hafa sunnudaginn 22. júní 2008 við Leirubakka 10 í Reykjavík, haft í vörslum sínum þrjár fartölvur, af gerðinni HP, í bakpoka sem hann hafði meðferðis og vegabréf, skráð á B, kt. [...], í buxnavasa sínum, sem fundist hafi við leit lögreglu. Við yfirheyrslu hafi kærði játað að hafa vitað að um þýfi hafi verið að ræða.

007-2008-42752

                Kærði sé grunaður um tilraun til fjársvika og þjófnað eða ólögmæta meðferð fundins fjár með því að hafa, þriðjudaginn 10. júní 2008 í bensínafgreiðslu N1 við Reykjavíkurveg, reynt að svíkja út vörur, með því að framvísa greiðslukorti C, kt. [...], og þannig reynt að skuldfæra, í heimildarleysi, andvirði varningsins á greiðslukortareikning C. Einnig hafi kærði haft í vörslum sínum debetkort í eigu Reykjavíkurverktaka og safnkort frá N1 í eigu D, sem hafi fundist við leit Lögreglu. Við yfirheyslu hafi kærði játað tilraun til fjársvika, kvaðst hann hafa fundið kortin.

007-2008-42713

                Kærði sé grunaður um tilraun til fjársvika og þjófnað eða ólögmæta meðferð fundins fjár með því að hafa, þriðjudaginn 10. júní 2008 á veitingastaðnum American Style í Hafnarfirði, reynt að svíkja út vörur að verðmæti 6.580 krónur, með því að framvísa greiðslukorti í eigu Reykjavíkurverktaka og þannig reynt að skuldfæra, í heimildarleysi, andvirði varningsins á greiðslukortareikning Reykjavíkurverktaka.  Við yfirheyrslu hafi kærði játað tilraun til fjársvika og þjófnað, kvaðst hann hafa tekið kortið úr bifreið á vinnusvæði í Garðabæ.

007-2008-42469

                Kærði sé grunaður um þjófnað með því að hafa mánudaginn 9. júní 2008 á bifreiðastæði við líkamsræktarstöðina Hress í Hafnarfirði, farið í heimildarleysi inn í bifreiðina [...] og stolið þaðan veski sem innihélt visakort, debetkort, ökuskírteini, 3000 krónur í reiðufé og farsíma af gerðinni Motorola að verðmæti um 30.000 krónur. Við yfirheyrslu hafi kærði ekki munað eftir því að hafa verið að verki í umrætt sinn en útilokar það ekki. Vitni hafi verið að þjófnaðinum sem gaf greinargóða lýsingu á geranda og átti sú lýsing við kærða. Kærði hafi svo fundist með kort frá tjónþola í þessu máli, D, daginn eftir (mál 007-2008-42752).

007-2008-41182

                Kærði sé grunaður um þjófnað með því að hafa, fimmtudaginn 5. júní 2008, í húsnæði Neytendasamtakanna að Hverfisgötu 105 í Reykjavík, stolið seðlaveski og farsíma. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök.

007-2008-37094

                Kærði sé grunaður um þjófnað með því að hafa, fimmtudaginn 22. maí 2008 í verslun 10/11 við Austurstræti í Reykjavík, stolið matvöru að verðmæti 564 krónur. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök.

007-2007-34800

                Kærði sé grunaður um eignarspjöll og tilraun til þjófnaðar með því að hafa, miðvikudaginn 14. maí 2008 á bifreiðastæði við verslunina Nettó í Mjódd í Reykjavík, brotið hægri aftur rúðu bifreiðarinnar [...] og gert sig líklegan til að fara inn í bifreiðina er kærði varð þess var að vitni var að atburðinum og í kjölfarið hlaupið á brott. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök.

007-2008-34403

                Kærði sé grunaður um þjófnað með því að hafa, þriðjudaginn 13. maí 2008 á bifreiðastæði til móts við Glitni í Mjóddinni í Reykjavík, farið í heimildarleysi inn í bifreiðina OJ-981 og stolið þaðan kassa sem innihélt 100 geisladiska með Karlakór Akureyrar. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök.

007-2008-34290

                Kærði sé grunaður um húsbrot og fíkniefnalagabrot með því að hafa, þriðjudaginn 13. maí 2008, í félagi við annan mann, brotist inn í fundarherbergi fjölbýlishússins að Kleppsvegi 50 í Reykjavík, með því að sparka upp hurð fundarherbergisins og haft í fórum sínum 0,22 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem hafi fundist við leit Lögreglu. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök.

007-2008-12649

                Kærði sé grunaður um þjófnað og fíkniefnalagabrot með því að hafa, miðvikudaginn 20. febrúar 2008, í verslun Adidas í Kringlunni í Reykjavík, stolið buxum að verðmæti 4.990 krónur og haft í fórum sínum 1,53 g af amfetamíni sem lögregla fann við leit á kærða. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök.

007-2008-12633

                Kærði sé grunaður um þjófnað með því að hafa, miðvikudaginn 20. febrúar 2008, brotist inn í [...] í Reykjavík með því að spenna upp glugga þar með skrúfjárni og stolið þaðan m.a. fartölvu af gerðinni IBM Thinkpad að verðmæti 184.659, stafrænni myndavél af gerðinni Canon að verðmæti um 39.900, stafrænni myndavél af gerðinni Samsung að verðmæti um 22.000 krónur, þráðlausri tölvumús að verðmæti um 12.000 krónur, um 30 geisladiskum að verðmæti 60.000 krónum og fjölda DVD diska. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök.

007-2008-10712

                Kærði sé grunaður um þjófnað með því að hafa, þriðjudaginn 12. febrúar 2008, í verslun Bónusvideó að Þönglabakka 6 í Reykjavík, stolið tveimur Haribo hlauppokum, Bounty súkkulaði og súkkulaðikexi, samtals að verðmæti 480 krónur. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök.

007-2008-5530

                Kærði sé grunaður um tilraun til þjófnaðar með því að hafa, miðvikudaginn 23. janúar 2008, brotist inn á heimili að [...] í Reykjavík, með því að spenna upp glugga en flúið út er hann varð húsráðanda var. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök.

                Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2007 hafi kærði hlotið 12 mánaða fangelsisdóm fyrir fjölmörg auðgunarbrot, þar af hafi 9 mánuðir verið skilorðsbundnir til tveggja ára.  Ljóst sé að verði kærði fundinn sekur um þau brot sem hann sé nú grunaður um hefur hann rofið skilorð þessa dóms.

                Rannsókn ofangreindra mála sé vel á veg komin og megi ætla að rannsókn þeirra ljúki innan þess tíma sem hér sé krafist.

                Brotaferill kærða hafi verið samfelldur.  Við rannsókn mála kærða hafi komið í ljós að hann sé í mikilli neyslu vímuefna, án atvinnu og virðist fjármagna fíkn sína með afbrotum. 

                Það sé mat lögreglustjóra að kærði muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus.  Nauðsynlegt sé því að kærði sæti gæsluvarðhaldi svo unnt verði að ljúka rannsókn mála hans og taka ákvörðun um saksókn.

                Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Í máli þessu liggur fyrir að kærði hefur fyrir skömmu hlotið 12 mánaða fangelsisdóm fyrir fjölmörg auðgunarbrot, þar af voru 9 mánuðir skilorðsbundnir til tveggja ára. Samkvæmt framlögðum gögnum er ljóst að afbrotferill kærða er nær samfelldur frá janúar þessa árs til 23. júní sl., er hann var síðast handtekinn. Hefur komið fram að kærði eigi við vanda að stríða vegna fíkniefnaneyslu og fjármagni neyslu sína með afbrotum. Fellst dómurinn á að telja megi verulega hættu á að kærði muni halda áfram afbrotum fari hann frjáls ferða sinna. Á grundvelli c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

                                             Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 22. júlí nk. kl. 16.