Hæstiréttur íslands
Mál nr. 650/2016
Lykilorð
- Ríkisstarfsmenn
- Niðurlagning stöðu
- Biðlaun
- Kröfugerð
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Jónsson prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. september 2016. Hann krefst þess að viðurkennt verði að niðurlagning starfs hans sem yfirlæknis heilsugæslunnar hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hafi verið ólögmæt og að stefnda verði gert að greiða sér 17.872.880 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. febrúar 2015 til 1. desember sama ár, en af 13.872.880 krónum frá 17. desember 2015 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
I
Áfrýjandi, sem er sérfræðingur í heimilislækningum, var samkvæmt gögnum málsins ráðinn til starfa hjá stefnda 1. október 1995 sem heilsugæslulæknir við Heilsugæslustöðina í Borgarnesi og mun hafa starfað hjá stefnda samfleytt síðan, þó með hléi frá 1. mars 1997 til 30. apríl sama ár. Hann var ráðinn ótímabundið til starfa sem heilsugæslulæknir hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði frá 1. september 2007 og yfirlæknir á heilsugæslustöðinni þar í bæ frá vori 2010. Um þá breytingu á starfi áfrýjanda liggur ekki annað fyrir í málinu en tilkynning þáverandi framkvæmdastjóra lækninga Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða í tölvubréfi 3. júní 2010 um að áfrýjandi hafi verið ,,settur yfirlæknir heilsugæslu HVEST“ í eitt ár. Ágreiningslaust er að hann hafi haldið áfram í því starfi þar til atvik máls þessa urðu.
Með reglugerð nr. 674/2014 um sameiningu heilbrigðisstofnana var tilkynnt ákvörðun heilbrigðisráðherra um að sameina Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Heilbrigðisstofnunina á Patreksfirði undir heiti hinnar fyrrnefndu. Sameiningin skyldi taka gildi 1. október 2014. Með bréfi forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða 6. nóvember það ár til áfrýjanda var honum tilkynnt að ákveðið hefði verið að ,,leggja niður starf þitt sem yfirlæknir heilsugæslunnar hjá Heilbrigðistofnun Vestfjarða þann 1. janúar næstkomandi. Niðurlagningin er vegna sameiningar Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða við Heilbrigðisstofnunina Patreksfirði í nýja stofnun. Frá þeim tíma að telja munt þú eiga rétt á biðlaunum í tólf mánuði samkvæmt 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, sbr. 34. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Takir þú við öðru starfi á biðlaunatímanum, hvort heldur í þjónustu ríkisins eða annars aðila, fer um frádrátt frá biðlaunagreiðslum eftir 2. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996.“
Áfrýjandi andmælti því 22. desember 2014 að heimilt væri að leggja niður starf hans þar sem lög stæðu ekki til þess að einn yfirlæknir skyldi vera á tveimur heilsugæslustöðvum, annarri á Patreksfirði en hinni á Ísafirði. Áfrýjandi hóf töku biðlauna 1. janúar 2015 og naut þeirra allt það ár. Hann réðst til starfa sem almennur læknir hjá heilsugæslunni á Ísafirði 1. janúar 2016, en kveðst hafa sótt um starfið 15. október árið á undan. Á biðlaunatímanum fékk áfrýjandi að auki greiðslur vegna svonefnds frítökuréttar, sem hann hafði áunnið sér á starfstíma sínum hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, og var þeim greiðslum dreift á biðlaunatímann.
II
Áfrýjandi krefst þess í fyrsta lagi að viðurkennt verði að niðurlagning starfs hans sem yfirlæknis hjá heilsugæslunni á Ísafirði við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hafi verið ólögmæt. Í öðru lagi krefst hann 13.872.880 króna auk dráttarvaxta vegna þess að biðlaun sem hann fékk á biðlaunatímanum hafi ekki verið réttilega ákvörðuð. Þriðji kröfuliður hans er um greiðslu miskabóta, 4.000.000 krónur, vegna hinnar ólögmætu niðurlagningar starfsins. Ekki er krafist vaxta af þeirri fjárhæð.
Krafan um miskabætur er reist á b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Skilyrði þess að miskabætur verði dæmdar er að háttsemi þess er miskanum hefur valdið hafi verið ólögmæt, auk þess sem í henni þarf að hafa falist meingerð gagnvart þeim, sem fyrir miskanum varð. Komi til þess að taka þurfi afstöðu til kröfu áfrýjanda um miskabætur ber því að leggja mat á hvort háttsemin hafi verið ólögmæt. Af því leiðir að áfrýjandi hefur ekki lögvarða hagsmuni af því að fá sérstaklega úrlausn um kröfu sína um viðurkenningu á því að niðurlagning starfs hans sem yfirlæknis hafi verið ólögmæt og verður því fyrsta kröfulið hans vísað frá héraðsdómi, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Eins og áður greinir var áfrýjanda tilkynnt er starf hans var lagt niður að hann ætti rétt til biðlauna í tólf mánuði og að um rétt hans til þeirra færi eftir 34. gr. laga nr. 70/1996. Samkvæmt 1. mgr. þeirrar lagagreinar skyldi áfrýjandi halda ,,óbreyttum launakjörum“ er starfi hans fylgdu á biðlaunatímanum. Ágreiningslaust er að biðlaun til hans voru í samræmi við þessi fyrirmæli að því frátöldu að hann telur sig einnig hafa átt rétt til greiðslu vegna gæsluvakta en því hefur stefndi mótmælt.
Um gæsluvaktir lækna með sérfræðileyfi á sjúkrahúsum og heilsugæslu utan dagvinnu giltu, á þeim tíma sem hér skiptir máli, ákvæði í kafla 4.4 í kjarasamningi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar frá 7. janúar 2015. Sá samningur tók gildi 1. júní 2014 og gilti til 30. apríl 2017. Kafli 4.4 í kjarasamningnum tók breytingum frá 1. janúar 2016, en þær breytingar hafa ekki þýðingu við úrlausn málsins. Í grein 4.4.3 í þeim hluta kjarasamningsins sem gilti á þeim tíma, sem hér skiptir máli, voru ákvæði um tvenns konar gæsluvaktir, gæsluvakt 1 og gæsluvakt 2. Í báðum tilvikum var þar kveðið á um að lækni með sérfræðileyfi sem stæði gæsluvaktir þessar væri ekki skylt að dveljast á stofnun þeirri sem hann stæði vaktina fyrir en í fyrra tilvikinu skyldi hann koma á vettvang án tafar í útkalli en í hinu síðara mætti hann vera allt að tvær klukkustundir að komast á vettvang. Í grein 4.4.4 sagði: ,,Greitt skal fyrir gæsluvaktir samkvæmt fyrirfram metnu vinnuálagi og því er ekki greitt sérstaklega fyrir mælt vinnuframlag á hverri vakt fyrir sig.“ Í kjarasamningnum voru einnig ákvæði um hvernig meta skyldi vinnuálag á gæsluvakt og flokka þær til samræmis við slíkt mat, svo og hvenær vinnuveitandi gæti endurmetið ,,hlutfall gæsluvaktarálags“. Samkvæmt ákvæðum kjarasamningsins gat læknir með sérfræðileyfi því sinnt skyldu sinni til að standa gæsluvakt með því að dvelja utan stofnunar, en sinna útköllum samkvæmt framansögðu, og fékk hann greiðslu fyrir þessar vaktir óháð því hvort um útköll var að ræða eða ekki.
Í grein 4.1.3 í kjarasamningnum var mælt fyrir um yfirvinnu- og vaktaskyldu þar sem þess var talin þörf. Þar sagði að læknir væri ,,undanþeginn skyldu til að sinna vöktum frá 55 ára aldri.“ Áfrýjandi náði þeim aldri í júní 2011 en ágreiningslaust er að hann hafi staðið gæsluvaktir til jafns við aðra einnig eftir það tímamark og þar til starf hans var lagt niður. Krafa hans um greiðslu vegna gæsluvakta er miðuð við sama fjölda eininga og hann fékk greitt fyrir vegna slíkra vakta á árinu 2014. Hefur stefndi ekki fært haldbær rök fyrir því að skipan gæsluvakta að því er áfrýjanda varðar á árinu 2015 hefði, ef starf hans hefði ekki verið lagt niður, verið á annan veg en það var á árinu 2014.
Eins og áður greinir var áfrýjanda tilkynnt 6. nóvember 2014 að starf hans sem yfirlæknir yrði lagt niður og að hann ætti rétt til biðlauna í tólf mánuði frá 1. janúar 2015. Nánar var um rétt hans til biðlauna vísað til 34. gr. laga nr. 70/1996. Stefndi telur þrátt fyrir þetta að áfrýjandi hafi ekki átt rétt á biðlaunum þar sem rof hafi orðið á ráðningu hans á árinu 1997, enda sé áskilið að starfsmaður hafi starfað óslitið í þjónustu ríkisins til þess að geta öðlast rétt til biðlauna samkvæmt 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða með lögum nr. 70/1996, sbr. og 34. gr. laganna. Í framangreindri tilkynningu forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða var því lýst yfir hver væri réttur áfrýjanda til biðlauna og fékk hann þau að auki greidd eins og stefndi taldi rétt að reikna þau. Stefndi er bundinn við þessa yfirlýsingu og verður því leyst úr kröfu áfrýjanda um fjárhæð biðlauna á grundvelli 34. gr. áðurnefndra laga. Greiðslur vegna gæsluvakta voru, á þeim tíma sem hér skiptir máli, óháðar vinnuframlagi áfrýjanda. Verða slíkar greiðslur lagðar að jöfnu við samninga um fastar yfirvinnugreiðslur óháð vinnuframlagi, sem í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa verið taldar falla undir biðlaun, sbr. til dæmis dóm réttarins í máli nr. 283/1988, sem dæmdur var 29. mars 1990 en hann er birtur á blaðsíðu 452 í dómasafni það ár. Útreikningi á þessum kröfulið hefur ekki verið andmælt sem röngum. Verður hann því tekinn til greina með þeim vöxtum sem krafist er.
IV
Áfrýjandi krefst, eins og áður greinir, í þriðja lagi miskabóta að fjárhæð 4.000.000 krónur. Þá kröfu reisir hann á því að niðurlagning á yfirlæknisstarfi hans hafi falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart sér, sbr. b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Krafa um leiðréttingu þeirra biðlauna sem áfrýjandi fékk greidd og fallist var á hér að framan er reist á þeim grundvelli að niðurlagningin hafi ekki farið í bága við lög að öðru leyti en því að fjárhæð biðlauna hafi ekki verið rétt. Krafa áfrýjanda um miskabætur vegna þess að niðurlagning starfsins hafi verið ólögmæt er í þversögn við kröfuna um leiðréttingu á biðlaunum. Vegna þessarar þverstæðu í málatilbúnaði áfrýjanda verður þriðja kröfulið hans vísað frá héraðsdómi.
Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi að því er varðar kröfu áfrýjanda, Arnar Erlendar Ingasonar, um að viðurkennt verði að niðurlagning á starfi hans sem yfirlæknis heilsugæslunnar hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hafi verið ólögmæt svo og kröfu hans um miskabætur að fjárhæð 4.000.000 krónur.
Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda 13.872.880 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.160.728 krónum frá 1. febrúar 2015 til 1. mars sama ár, af 3.076.400 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 4.141.868 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 5.208.751 krónu frá þeim degi til 1. júní sama ár, af 6.764.086 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, af 7.998.782 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár, af 9.094.918 krónum frá þeim degi til 1. október sama ár, af 10.315.758 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, af 11.277.138 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár og af 13.872.880 krónum frá 17. desember sama ár til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 2016.
Mál þetta, sem þingfest var 17. desember 2015 og dómtekið þann 14. júní sl. var höfðað með stefnu birtri 14. desember 2015.
Stefnandi er Örn Erlendur Ingason, [...], Daltungu 1, Ísafirði.
Stefndi er Ríkissjóður Íslands, [...], Arnarhváli 101, Reykjavík, vegna Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, [...], Torfsnesi Ísafirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði að uppsögn stefnanda úr starfi yfirlæknis heilsugæslunnar hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hafi verið ólögmæt.
Enn fremur er gerð krafa um greiðslu á 13.872.880 krónum, vegna vangreiddra launa á uppsagnarfresti auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 2.160.728 krónum frá 1. febrúar 2015 til 1. mars 2015, af 3.075.400 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2015, af 4.141.868 krónum frá þeim degi til 1. maí 2015, af 5.208.751 krónu frá þeim degi til 1. júní 2015, af 6.764.086 krónum frá þeim degi til 1. júní 2015, af 7.998.782 krónum frá þeim degi til 1. september 2015, af 9.094.918 krónum frá þeim degi til 1. október 2015, af 10.315.758 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2015, af 11.277.138 krónum frá þeim degi til 1. desember 2015 og af 13.872.880 krónum frá þingfestingu máls þessa til greiðsludags.
Auk þessa er gerð krafa um greiðslu miskabóta að fjárhæð 4.000.000 króna vegna ólögmætrar uppsagnar.
Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefndi krefst frávísunar á viðurkenningarkröfu stefnanda, en þó aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður látinn niður falla.
I
Málavextir
Með bréfi, dagsettu 6. nóvember 2014, var stefnanda tilkynnt af forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða að ákveðið hefði verið að leggja niður starf hans sem yfirlæknis heilsugæslunnar hjá sömu stofnun, frá 1. janúar 2015 að telja. Fram kom í bréfinu að ástæðan fyrir niðurlagningu starfsins væri sameining Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða við Heilbrigðisstofnunina á Patreksfirði. Stefnandi telur að framangreind niðurfelling á starfi hans sem yfirlæknis hafi verið ólögmæt og valdið honum miska og að önnur sjónarmið hafi ráðið för en sameining.
Nánar kom fram í bréfinu að frá 1. janúar 2015, ætti stefnandi rétt á biðlaunum í tólf mánuði, samkvæmt 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, sbr. 34. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1976. Málsaðila greinir á um hvort stefnanda hafi verið boðið starf sem almennur heilsugæslulæknir við hina nýju sameinuðu stofnun en stefnandi hætti störfum hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og hóf að taka biðlaun í samræmi við framangreint frá 1. janúar 2015 en mun hafa hafið aftur störf hjá stofnuninni í lok biðlaunatímans.
Með bréfi, dags. 22. desember 2014, mótmælti formaður stjórnar Læknafélags Íslands niðurlagningu á stöðu stefnanda og taldi hana óheimila og var vísað í því sambandi til 5. gr. reglugerðar um heilsugæslustöðvar nr. 787/2007. Með svarbréfi þann 12. febrúar 2015 frá forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða var sjónarmiðum Læknafélagsins hafnað og bent á að nýtt skipurit hafi verið staðfest af ráðherra og hafi verið farið í öllu eftir lögum nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu og ekki farið í bága við reglugerð nr. 787/2007.
Þann 18. febrúar 2015 sendi Læknafélagið erindi til heilbrigðisráðherra þar sem mótmælt var niðurfellingu á stöðu stefnanda og óskað eftir fundi með ráðherra. Var sá fundur haldinn þann 4. mars 2015, en degi áður eða þann 3. mars 2015 hafði verið birt reglugerð nr. 215/2015, þar sem meðal annars var breytt framangreindum ákvæðum 5. gr. reglugerðar um heilbrigðisstofnanir nr. 787/2007.
Í greinargerð stefnda kemur fram að láðst hafi að afmá umrætt reglugerðarákvæði þegar lög nr. 59/2010 voru sett en þau breyttu ákvæðum laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Með lögunum hafi verið aukið á sveigjanleika í starfsemi heilbrigðisstofnana á þann hátt að stjórnendur væru ekki fleiri en nauðsynlegt væri fyrir starfsemina.
Stefnandi telur að þau biðlaun sem hann fékk í tólf mánuði hafi ekki tekið mið af gæsluvöktum. Leiði ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og kjarasamningar lækna til þess að það beri að greiða stefnanda fyrir gæsluvaktir á biðlaunatíma. Stefndi telur að stefnandi hafi ekki átt rétt til biðlauna í tólf mánuði heldur eingöngu í þrjá mánuði og hvað sem öðru líði eigi stefnanda engin vangreidd laun vegna gæsluvakta.
Í málinu liggja meðal annars fyrir, auk nefndra gagna, kjarasamningur fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar, frá 7. janúar 2015, og kjarasamningur milli sömu aðila, dags. 5. mars 2006, bréf lögmanns stefnanda til ríkislögmanns, dags. 31. júlí 2015, launaseðlar stefnanda, úrskurður kjaranefndar um launakjör heilsugæslulækna frá 15. október 2002, bréf velferðarráðuneytisins, dags. 25. september 2013, um áform um sameiningu heilbrigðisstofnana, afrit skipunarbréfs forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, dags. 9. desember 2014, skipurit Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, dags. í nóvember 2014, og afrit bréfs frá Heilsugæslustöðinni Borgarnesi til Starfsmannaskrifstofu launadeildar fjármálaráðuneytisins, dags. 13. október 1995.
II
Málsástæður stefnanda
Krafa stefnanda er að viðurkennt verði að ólögmætt hafi verið að segja honum upp störfum undir því yfirskini að verið væri að leggja niður yfirlæknisstarf á heilsugæslustöðinni á Ísafirði vegna sameiningaráforma. Fram komi í 14. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu að í hverju heilbrigðisumdæmi skuli starfrækt heilbrigðisstofnun. Í 2. mgr. 10. gr. sömu laga greini að yfirlæknir sérgreina eða sérdeilda innan þeirrar stofnunar beri faglega ábyrgð á þeirri læknisþjónustu sem undir þá heyri gagnvart framkvæmdastjóra lækninga eða næsta yfirmanni samkvæmt skipuriti stofnunar. Í 17. gr. laganna eins og sú lagagrein hljóðaði upphaflega hafi komið fram að forstjórar og framkvæmdastjórnir heilbrigðisstofnana ættu að hafa samráð við yfirlækni þegar sérmál hennar væru til ákvörðunar. Hafi nefndu ákvæði verið breytt með 1. gr. laga nr. 5/2010 í þá veru að forstjórar og framkvæmdastjórnir skuli hafa samráð við faglega yfirmenn í heilsugæslunni um sérmál. Í 3. mgr. 17. gr. hafi frá upphafi verið ákvæði um að ráðherra skuli í reglugerð kveða nánar á um starfsemi heilsugæslustöðva. Í samræmi við það hafi verið sett reglugerð um heilsugæslustöðvar nr. 787/2007. Gildi sú reglugerð um starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva. Í 5. gr. þeirrar reglugerðar sé kveðið á um að á hverri heilsugæslustöð skuli starfa yfirlæknir sem beri faglega ábyrgð á þjónustu stöðvarinnar. Samkvæmt 7. gr. sömu reglugerðar skipuleggi yfirlæknir og beri faglega ábyrgð á læknisþjónustu sem veitt sé á stöðinni.
Stefnandi telur að þrátt fyrir breytingu á nefndri 17. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, þá hafi enginn reki verið gerður að breytingu á 5. gr. reglugerðarinnar fyrr en í febrúar 2015. Þá hafi þrátt fyrir nefnda lagabreytingu árið 2010 verið starfandi yfirlæknar á öllum heilsugæslustöðvum. Þannig hafi verið óheimilt að leggja niður starf stefnanda þar sem enn hafi verið skýr lagafyrirmæli um að það skuli vera starfandi yfirlæknir á hverri heilsugæslustöð. Þrátt fyrir sameiningu heilsugæslunnar á Ísafirði og á Patreksfirði voru, vegna landfræðilegra takmarkana, áfram tvær heilsugæslustöðvar í skilningi laga og reglugerðar. Heilsugæslustöð hljóti ávallt að teljast sérdeild innan heilbrigðisþjónustunnar þar sem hún sé rekin í samvinnu við sjúkrahús. Þótt 2. mgr. 17. gr. laganna hafi verið breytt árið 2010, þá geri ákvæðið engu að síður ráð fyrir að yfir heilsugæslunni sé faglegur yfirmaður. Yfir heilsugæslunni á Ísafirði hafi því borið að hafa áfram faglegan yfirmann lækninga, þótt mögulega hafi verið heimilt að leggja yfirlæknisstöðuna þar niður.
Auk framangreindra sjónarmiða telur stefnandi að raunveruleg ástæða uppsagna hans hafi verið allt önnur en fram komi í bréfi stefnda. Áður en til uppsagnar hafi komið hafi verið mikill ágreiningur milli starfandi lækna hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða annars vegar og lækningaforstjórans hins vegar vegna starfa lækningaforstjórans. Hafi þeim læknum síðar verið gert ómögulegt að starfa við stofnunina og hafi það verið ástæða þess að stefnanda hafi ekki verið boðið annað starf hjá stofnuninni. Hafi sameining Heilbrigðistofnana Patreksfjarðar og Ísafjarðar verið notuð sem átylla til að segja stefnanda upp í hefndarskyni fyrir aðkomu hans að málinu sem sneri að lækningaforstjóranum. Bendir stefnandi á að á sama tíma hafi átt sér stað sameining heilbrigðisstofnana á Norðurlandi en stefnanda ekki verið kunnugt um að nokkur staða yfirlæknis hafi verið lögð niður þar. Þá hafi verið læknaskortur á Vestfjörðum um langt skeið en þrátt fyrir það hafi stefnanda ekki verið boðið starf fyrr en í desember 2015 og hafi hann verið ráðinn aftur til heilsugæslustöðvarinnar frá 1. janúar 2016.
Kröfu sína um greiðslu miskabóta samkvæmt framangreindu byggir stefnandi á b.lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda sé um ólögmæta meingerð að ræða gagnvart stefnanda.
Krafa stefnanda um vangreidd laun byggist á ákvæði til bráðabirgða í XII. kafla laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 34. gr. þeirra laga. Samkvæmt því ákvæði eigi stefnandi að njóta óbreyttra launakjara á biðlaunatíma. Þar sem stefnandi hafi verið ráðinn í tíð eldri starfsmannalaga nr. 34/1954 eigi hann rétt á óbreyttum launakjörum í 12 mánuði. Stefnandi telur að hann eigi samkvæmt þessu rétt á að fá greidd laun í hverjum mánuði fyrir gæsluvaktir sem skilgreindar eru sem „gæsluvakt 1“. Stefnandi hafi hins vegar ekki fengið umræddar gæsluvaktir greiddar á biðlaunatímanum. Launaliðurinn „gæsluvakt 1“ byggist á ákvæðum 3.6 í kjarasamningi, en samkvæmt honum fá læknar með sérfræðileyfi á sjúkrahúsum og heilsugæslu greidda gæsluvakt. Samkvæmt kafla 4.4 í kjarasamningi lækna sé greitt fyrir gæsluvakt þar sem viðkomandi lækni er skylt að standa vaktina og koma á vettvang án tafar ef þörf er á.
Stefnandi byggir á því að hefði hann verið í starfi sínu sem yfirlæknir heilsugæslustöðvarinnar, hefði honum borið að sinna gæsluvakt og að slíkar greiðslur hefðu verið verulegur hluti launa hans. Benti stefnandi á að áður hefðu launamál lækna verið í höndum kjaranefndar og úrskurðir þeirra hefðu gildi. Í úrskurði nefndarinnar frá 15. október 2002 komi fram að öll læknisverk sem unnin séu á heilsugæslustöð tilheyri aðalstarfi heilsugæslulækna og hafi gæsluvaktir verið hluti þeirra starfa. Í síðari kjarasamningum lækna sé ekki fjallað sérstaklega um vaktir heilsugæslulækna en almennt um gæsluvaktir lækna. Stefnandi telur að laun vegna gæsluvakta í tilviki heilsugæslulækna séu hluti þeirra launa sem beri að greiða á biðlaunatímabili svo að hann fái haldið óbreyttum launakjörum.
Stefnandi byggir á því að ákvæði 34. gr. laga nr. 70/1996 um óbreytt launakjör eigi að leiða til þess að honum beri sambærileg laun og hann hefði haft ef hann hefði verið í vinnu á biðlaunatímabilinu, enda hefði hann þá sinnt vöktum eins og öll þau ár sem hann var í starfi. Gerir stefnandi þá kröfu að honum verði greiddur sami fjöldi eininga og hann fékk á starfsárinu 2014 og er sú krafa nánar sundurliðuð í stefnu og kemur fram í kröfu málsins.
Um lagarök er vísað til þess sem fram hefur komið um tilvísun til laga og reglugerða, en aðallega er vísað til kjarasamnings aðila frá 1. janúar 2015 auk eldri kjarasamnings frá 5. mars 2006.
Um málskostnað er vísað til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 65. gr. laga nr. 88/1938. Þar sem stefnandi rekur ekki virðisaukaskattsskylda starfsemi, sbr. lög nr. 50/1988, er óskað eftir því að tillit verði tekið til þess við ákvörðun málskostnaðar.
III
Málsástæður stefnda
Um þá málsástæðu stefnanda að ólögmætt hafi verið að leggja starf hans niður og af þeim sökum eigi hann rétt til miskabóta, telur stefndi að stefnandi eigi ekki lögvarða hagsmuni að því að sérstaklega verði viðurkennt með dómi að honum hafi á ólögmætan hátt verið sagt upp. Uppfylli málatilbúnaður stefnanda ekki að þessu leyti skilyrði 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og því beri að vísa viðurkenningarkröfu stefnanda frá dómi.
Verði ekki fallist á frávísunarkröfu stefnda telur stefndi að sýkna beri hann af nefndri kröfu stefnanda. Vísar stefndi til þess að með bréfi velferðarráðuneytisins frá 25. september 2013 hafi sveitarfélögum í heilbrigðisumdæmi Vestfjarða verið tilkynnt áform ráðherra um að ljúka vinnu við sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Hafi þau áform lotið að þremur umdæmum, meðal annars heilbrigðisumdæmi Vestfjarða. Hafi við þá vinnu verið lögð áhersla á hagkvæmni, gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar og ráð fyrir því gert að Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar og Vestfjarða yrðu sameinaðar undir nafni þeirrar síðargreindu. Hafi sameining tekið gildi 1. október 2014 og ráðherra skipað stofnuninni forstjóra frá sama tíma. Framangreindar sameiningar hafi verið gerðar á grundvelli reglugerðar um sameiningu heilbrigðisstofnana nr. 674/2014, og við þær breytingar hafi yfirstjórnum heilbrigðisstofnana fækkað úr ellefu í þrjár auk þess sem aðeins ein heilbrigðisstofnun hafi starfað í hverju umdæmi þótt starfsstöðvar væru víðar.
Stefndi bendir á að samkvæmt 4. mgr. 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu beri forstjóri ábyrgð á þeirri þjónustu sem stofnun veiti og að rekstrarútgjöld og afkoma sé í samræmi við fjárlög og fjármunir nýttir á árangursríkan hátt. Í ljósi þeirrar ábyrgðar hafi forstjóra borið að skipuleggja starfsemi hinnar nýju sameinuðu stofnunar og móta stefnu hennar. Hafi þær skipulagsbreytingar sem leiddu af sameiningunni falið í sér almenna fækkun yfirmanna. Alls hafi átta stöður verið lagðar niður, allt yfirmannsstöður, stöður yfirlækna, stöður framkvæmdastjóra lækninga, stöður framkvæmdastjóra hjúkrunar og stöður forstjóra í öllu tilvikum bæði á Ísafirði og á Patreksfirði. Hafi stöður við hina sameinuðu stofnun verið auglýstar til umsóknar og stefnandi hafi átt þess kost að starfa áfram sem almennur heilsugæslulæknir en hafi kosið sjálfur að fara á biðlaun og hafi þannig meðal annars gefist kostur á því að leysa út frítökurétt sem hann annars hefði ekki átt kost á. Þá hafi stefnandi við lok biðlaunatímans aftur byrjað að starfa hjá stofnuninni. Stefndi telur að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að honum hafi ekki boðist að starfa áfram á hinni sameinuðu heilbrigðisstofnun. Hafi stefnandi ekki látið á þetta atriði reyna og hafi ekki sótt um starf hjá stofnuninni, svo sem um auglýsta stöðu yfirlæknis.
Stefndi áréttar að framangreind ákvörðun um að leggja niður starf stefnanda hafi verið hluti af þeim skipulagsbreytingum sem áttu sér stað vegna tilkomu hinnar nýju heilbrigðisstofnunar. Hafi skipurit stofnunarinnar verið staðfest af ráðherra þann 8. nóvember 2014, en þar komi fram að gert sé ráð fyrir einum yfirlækni við stofnunina. Í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á lögum nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, með lögum nr. 59/2010, átti staðfesting skipuritsins sér ótvíræða lagastoð og engu breyti í því sambandi þótt láðst hafi að aðlaga ákvæði reglugerðar nr. 787/2007 að þeim breytingum fyrr en með reglugerð nr. 215/2015, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 3. mars 2015. Augljóst sé að málefnalegt teljist að hafa einn yfirlækni fyrir fleiri en einni heilsugæslu og séu fyrir því mörg fordæmi. Þá hafi það þann augljósa kost að hafa einn yfirlækni á starfssvæði heilsugæslunnar á Vestfjörðum að hægt er að samræma starfsemi allra stöðvanna. Yfirlæknir sé að jafnaði þrjár af hverjum fjórum vikum á norðanverðum fjörðunum en eina viku á Patreksfirði og hafi sú viðvera verið talin nægjanleg til þess að uppfylla faglegar kröfur sem gerðar eru til starfseminnar.
Samkvæmt framangreindu hafnar stefndi sjónarmiðum stefnanda um að ólögmætt hafi verið að leggja niður stöðu hans sem yfirlæknis og að stefnandi hafi orðið fyrir miska vegna þess. Niðurlagning stöðu stefnanda hafi verið gerð í þágu reksturs stofnunarinnar og byggt á málefnalegum forsendum en hafi ekki snert stefnanda eða frammistöðu hans í starfi eða beinst að því að leggja niður starf stefnanda sem almenns heilsugæslulæknis. Þá vísar stefndi einnig til niðurlags 1. mgr. 44. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en af því ákvæði verði ekki annað ráðið en að fækkun starfsmanna vegna hagræðingar sé lögmætur grundvöllur fyrir niðurlagningu starfs. Hafi niðurlagning starfsins ekki reynst stefnanda íþyngjandi fyrst hann kaus að fara á biðlaun allt árið 2015.
Stefndi telur að komist dómurinn að því að niðurlagning á stöðu stefnanda hafi ekki verið í samræmi við lög, þá felist ekki í því ólögmæt meingerð og bendir stefndi í því sambandi á að samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar uppfylli lægsta stig gáleysis ekki kröfur í þeim efnum, sbr. b.lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ljóst sé að 5. gr. reglugerðar um heilsugæslustöðvar nr. 787/2007, sem stefnandi reisi málatilbúnað sinn á, hafi verið felld brott u.þ.b. þremur mánuðum eftir að stefnandi lét af störfum og ákvað að fara á biðlaun.
Stefndi bendir á að stefnandi hafi fengið greidd biðlaun frá 1. janúar 2015, líkt og hann hefði fallið undir 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þrátt fyrir að síðar hafi komið í ljós að stefnandi uppfyllti ekki skilyrði þess. Nefnd ákvæði 5. mgr. eigi við um starfsmenn sem ráðnir voru til starfa fyrir 1. júlí 2006 og voru þá í föstu starfi hjá ríkinu. Þá sé það skilyrði að starfsmaður hafi starfað samfellt án rofs frá þeim tíma. Stefnandi hafi verið lausráðinn til starfa hjá ríkinu í gildistíð laga nr. 38/1954 auk þess sem rof hafi verið á ráðningu hans hjá ríkinu frá 28. febrúar 1997 til 1. maí 1997. Hafi skoðun leitt í ljós að stefnandi hafi ekki átt rétt á biðlaunum með þeim hætti sem hann fékk, heldur átti að fara um uppsögn stefnanda samkvæmt kjarasamningi. Samkvæmt grein 2.2 í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar, átti stefnandi í ljósi aldurs og starfstíma rétt til þriggja mánaða launa í uppsagnarfresti. Ekki sé því óvarlegt að leggja til grundvallar að stefnandi hafi fengið ofgreitt sem svarar til níu mánaða biðlauna á uppsagnarfresti en stefndi hefði þó ekki uppi neina gagnkröfu til heimtu þeirra fjármuna sem ofgreiddir voru.
Stefndi mótmælir því að greiðslur vegna gæsluvakta teljist til biðlauna og bendir á að með óbreyttum launakjörum í merkingu 34. gr. laga nr. 70/1996, sbr. tilvísun til 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laganna sé átt við föst mánaðarlaun fyrir dagvinnu auk fastrar ómældrar yfirvinnu og hafi stefnandi notið slíkra kjara. Ákvæðið sé túlkað með hliðsjón af ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, en þar komi fram að við niðurlagningu stöðu skyldi starfsmaður jafnan fá föst laun er starfanum fylgdu. Hafi föst laun í dómaframkvæmd verið skýrð svo að þau taki til fastra mánaðarlauna fyrir dagvinnu, fastrar ómældrar yfirvinnu, persónuuppbótar og orlofsuppbótar. Þá reiknist orlof ekki á biðlaun og vaktaálagsgreiðslur heldur ekki.
Stefndi bendir á að framlagðir launaseðlar stefnanda fyrir árið 2014 staðfesti að greiðsla fyrir gæsluvaktir sé alfarið háð útköllum og launagreiðslur til stefnanda vegna gæsluvakta háðar vinnuframlagi af hans hálfu. Engin lagastoð sé fyrir því að ákvarða stefnanda biðlaun vegna gæsluvakta með hliðsjón af launagreiðslum fyrir gæsluvaktir fyrri ára og þar af leiðandi eigi krafa stefnanda um dráttarvexti ekki við nein rök að styðjast auk þess sem fram komi í kjarasamningi grein 4.1.3 að eftir 55 ára aldur sé læknum ekki skylt að taka gæsluvaktir. Eigi sú grein við um stefnanda.
Kröfu sína um málskostnað styður stefndi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Niðurstöður
Stefndi telur að stefnandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af því að viðurkennt verði fyrir dómi að honum hafi á ólögmætan hátt verið sagt upp og beri því að vísa viðurkenningarkröfu stefnanda frá dómi.
Málið varðar verulega hagsmuni fyrir stefnanda sem telur að sú skipulagsbreyting sem átti sér stað á heilsugæslunni hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, með því að honum var sagt upp starfi sem yfirlækni, hafi beinst sérstaklega gegn honum og að í þeirri uppsögn hafi falist ólögmæt meingerð sem varði bótaskyldu. Að mati dómsins hefur ekki verið sýnt fram á það með nægjanlegum hætti að stefnandi eigi ekki þá lögvörðu hagsmuni sem hann krefst viðurkenningar á og er því ekki fallist á frávísun málsins með vísan til 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með 1. gr. laga nr. 59/2010 var ákvæðum 17. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu breytt. Í athugasemdum með lögum nr. 59/2010 segir: „Lagt er til að ákvæði um yfirlækna, yfirhjúkrunarfræðinga og deildarstjóra hjúkrunar verði felld brott úr lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007.“ Jafnframt segir í athugasemdum: „Tilgangur breytinganna er að auka svigrúm til að endurskipuleggja heilbrigðisstofnanir með því að gera kleift að sameina eða breyta stöðum stjórnenda þar sem það er talið auka skilvirkni og draga úr kostnaði.“
Með lögum nr. 59/2010, var þannig opnað fyrir þann möguleika að stöður yfirlækna yrðu felldar niður, meðal annars með því að sameina heilbrigðisstofnanir, þótt ekki væri ráðist í þær sameiningar strax eftir gildistöku laganna. Starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og staða stefnanda hélst óbreytt áfram fyrst um sinn þrátt fyrir lagabreytingarnar.
Með bréfi velferðarráðuneytisins, dags. 25. september 2013, var sveitarfélögum í heilbrigðisumdæmi Vestfjarða tilkynnt um áform ráðherra um að ljúka vinnu við sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni meðal annars þannig að Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar og Vestfjarða yrðu sameinaðar undir nafni þeirrar síðargreindu. Tók sú sameining gildi 1. október 2014 á grundvelli reglugerðar um sameiningu heilbrigðisstofnana nr. 674/2014 og var nýr forstjóri ráðinn frá sama tíma. Nýráðinn forstjóri gerði strax skipulagsbreytingar sem fólu í sér almenna fækkun yfirmanna til að draga úr kostnaði, þannig að aðeins var gert ráð fyrir einum yfirlækni við heilsugæsluna. Var skipurit stofnunarinnar í þá veru staðfest af ráðherra þann 8. nóvember 2014.
Í dómaframkvæmd hafa forstöðumönnum ríkisstofnana verið veittar rúmar heimildir til að breyta störfum, enda séu þær breytingar reistar á málefnalegum sjónarmiðum og ekki meira íþyngjandi en nauðsyn ber til.
Stefnanda var afhent bréf forstjóra, dags. 6. nóvember 2014, þess efnis að starf hans sem yfirlæknis hafi verið lagt niður með vísan til framangreinds, og ætti stefnandi rétt á biðlaunum í 12 mánuði. Ekki er upplýst í málinu hvort stefnanda hafi boðist starf sem almennur heilsugæslulæknir við hina sameinuðu stofnun eða hvort hann hafi leitað eftir því að starfa þar áfram. Fyrir liggur að stefnandi sótti ekki formlega um starf hjá sameinaðri Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og fór á biðlaun 1. janúar 2015. Telst ósannað að stefnanda hafi ekki átt þess kost að starfa áfram sem almennur heilsugæslulæknir við hina sameinuðu heilbrigðisstofnun og því er einnig ósannað hvort ákvörðunin hafi verið meira íþyngjandi er nauðsyn bar til.
Stefnandi telur að raunveruleg ástæða uppsagnar hans hafi verið allt önnur en fram komi í bréfi stefnda dags. 6. nóvember 2014, og eigi rætur að rekja til mikils ágreinings milli nokkurra lækna þar á meðal stefnanda gegn yfirmanni hjá stofnuninni. Vegna þessa ágreinings hafi aldrei staðið til að ráða stefnanda til hinnar nýju sameinuðu stofnunar. Um meintan ágreining verður ekkert fullyrt af gögnum málsins, en upplýst er í málinu að stefnandi hóf störf hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða eftir að biðlaunatíma hans lauk.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki talið að stefnandi hafi sýnt fram á að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið för þegar staða hans sem yfirlæknis var lögð niður hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og breytir engu um þá niðurstöðu þótt ráðuneyti heilbrigðismála hafi ekki breytt ákvæði 5. gr. reglugerðar nr. 787/2007, sem kveður á um störf yfirlækna hjá heilsugæslustöðvum, fyrr en í febrúar 2015.
Með vísan til framangreinds verður stefndi sýknaður af þeirri kröfu stefnanda að viðurkennt verði að uppsögn hans úr starfi yfirlæknis heilsugæslunnar hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hafi verið ólögmæt. Með vísan til sömu forsendna er stefndi sýknaður af kröfu stefnanda um greiðslu miskabóta að fjárhæð 4.000.000 króna, vegna ólögmætrar uppsagnar.
Stefndi telur að stefnandi hafi ekki átt rétt til biðlauna í 12 mánuði og hafi sú ákvörðun verið mistök þar sem stefnandi falli ekki undir 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Geti stefnandi því þegar af þeirri málsástæðu ekki átt rétt til frekari biðlauna vegna gæsluvakta. Í máli stefnda kom jafnframt fram að ekki yrði gerð krafa til heimtu þeirra fjármuna sem stefndi telur að stefnanda hafi verið ofgreiddir. Verður afstaða stefnda ekki metin á annan hátt en að viðurkenndur sé réttur stefnanda til biðlauna í 12 mánuði.
Stefnandi telur með vísan til 34. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að hann eigi rétt til óbreyttra launakjara á biðlaunum í 12 mánuði sem taki einnig yfir gæsluvaktir sem honum hafi verið skylt að sinna.
Um skyldu stefnanda til að sinna gæsluvöktum er vísað til kjarasamninga Læknafélags Íslands og fjármálaráðherra, dags. 5. mars 2006 og 7. janúar 2015. Samningarnir eru efnislega samhljóma um skilgreiningu gæsluvakta. Í lið 4.4.3 í nefndum samningum er gæsluvakt skilgreind þannig að lækni sé ekki skylt að dvelja á stofnun þeirri sem hann stendur vaktina fyrir, en hann skal koma á vettvang sé hann kallaður út. Í lið 4.1.3 í nefndum samningum er kveðið á um yfirvinnu- og vaktaskyldu í sama lið, þannig að læknum sé skylt að vinna yfirvinnu og taka vaktir þar sem þess er þörf. Læknir er þó undanskilinn vaktaskyldu frá 55 ára aldri. Í lið 4.1.4 segir að heimilt sé að haga vinnu með öðrum hætti en í kafla þessum greini með skriflegu samkomulagi lækna og forráðamanna stofnunar.
Ekki liggur fyrir í málinu skriflegt samkomulag um skyldu stefnanda til að sinna gæsluvöktum og er því eingöngu við nefnda kjarasamninga að styðjast. Samkvæmt lið 3.6.1.2 er greitt fyrir svonefnda staðarvakt og falla greiðslur fyrir þá vakt hvorki niður í orlofi né námsferðum. Sama regla virðist ekki eiga við um gæsluvaktir 1 sem um er deilt í þessu máli.
Af framangreindu verður ráðið að þrátt fyrir að umræddar gæsluvaktir 1 feli ekki í sér viðveruskyldu þá fylgi þeim sú kvöð að vera undir það búinn að vera kallaður til vinnu með skömmum fyrirvara. Þegar starf stefnanda var lagt niður og hann hóf að taka biðlaun 1. janúar 2015, losnaði stefnandi undan þeirri starfskvöð sem hann hafði þegið greiðslur fyrir. Stefnandi var á þessum tíma orðinn 55 ára og var því ekki lengur skylt að vinna umræddar vaktir, sbr. ákvæði 4.1.3 í nefndum samningum.
Greiðslur fyrir gæsluvaktir stefnanda voru háðar framangreindri skyldu og voru greiddar eftirá í samræmi við vinnuframlag stefnanda hverju sinni með sama hætti og yfirvinna. Með hliðsjón af því verður ekki séð að stefnandi eigi lögbundinn eða samningsbundinn rétt til greiðslna fyrir gæsluvaktir á biðlaunatíma, sem miða við ákveðinn fjölda eininga samkvæmt vinnuframlagi hans á árinu 2014. Gæsluvakt 1 verður því ekki talin hluti af óbreyttum launakjörum á biðlaunatíma og er stefndi, íslenska ríkið, sýknað af kröfu stefnanda um greiðslur vegna vangreiddra launa að fjárhæð 13.872.880 krónur auk dráttarvaxta. Breytir engu að mati dómsins um framangreinda niðurstöðu að í úrskurði kjaranefndar frá 15. október 2002, ákvörðun um laun og önnur starfskjör heilsugæslulækna, sem í gildi var fyrir árið 2006, hafi sagt að „öll læknisverk sem unnin eru á heilsugæslustöð tilheyri aðalstarfi heilsugæslulækna.“
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda.
Málskostnaður fellur niður.