Hæstiréttur íslands
Mál nr. 93/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 27. mars 2009. |
|
Nr. 93/2009. |
Gísli Guðmundsson(Guðrún Helga Brynleifsdóttir hrl.) gegn Skólavörðustíg 45 ehf. (Brynjar Níelsson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
G höfðaði mál gegn S ehf. til greiðslu skuldar. Með úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, var talið að grundvöllur að reikningskröfu G væri svo óljós og vanreifaður að dómur yrði ekki á lagður, sbr. d- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 12. febrúar 2009 með heimild í 3. mgr. 153. gr., sbr. 4. mgr. 150. gr. og 1. mgr. 149. gr. laga nr. 91/1991 og krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað, sem hann krefst úr hendi sóknaraðila í héraði og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Gísli Guðmundsson, greiði varnaraðila, Skólavörðustíg 45 ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2009.
Mál þetta sem dómtekið var 20. janúar 2009 er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Gísla Guðmundssyni, Bergsmára 13, Kópavogi, gegn Skólavörðustíg 45 ehf., Skólavörðustíg 45, Reykjavík, með stefnu birtri 29. desember 2006.
Dómkröfur stefnanda eru þær að hið stefnda einkahlutafélag verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 15.425.390 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2008 um vexti og verðtryggingu af 15.425.390 kr. frá 30. janúar 2003 til greiðsludags.
Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. s.l. er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, auk málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt mati dómsins.
Með úrskurði uppkveðnum 23. janúar 2007 var stefnanda gert að leggja fram málskostnaðartryggingu að fjárhæð 1.200.000 kr.
Málsatvik og málsástæður stefnanda
Stefnandi starfar sem húsasmiður í Reykjavík. Stefnandi tók að sér í desember 2001 fyrir stefnda, sem þá var eigandi að Hótel Leifi Eiríkssyni að Skólavörðustíg 45 í Reykjavík, að stækka hótelið um 17-18 herbergi með því að breyta hluta hússins nr. 46 við Skólavörðustíg, sem er gengt nr. 45 handan götunnar, í hótelherbergi. Stefnukrafa sé vegna vinnu og efnisútláta stefnanda í þágu stefnda á árinu 2002. Stefnandi byggir á því að ekki hafi verið samið um ákveðið endurgjald heldur myndi það ráðast af endanlegu umfangi verksins að teknu tilliti til þess tíma sem það tæki og efniskaupum stefnda. Á vegum stefnda var opnaður reikningur í Húsasmiðjunni hf., sem stefnandi gat tekið út á hluta af því efni sem til þurfti og stefndi sá síðan um greiðslu á. Allt var rifið út úr húsinu og allt var endurnýjað og kveðst stefnandi að auki hafa lagt til lausafé þannig að hann afhenti stefnda í lok verks nánast fullbúin hótelherbergi. Stefnandi kveðst hafa unnið að lokafrágangi allt til ársloka 2002. Við verklok hafi verið ljóst að heildarendurgjald fyrir verkið hafi numið 37.391.310 kr. með virðisaukaskatti. Stefndi hafi þegar greitt samtals 21.965.920 kr. með peningum, innborgunum á reikning stefnda og með afhendingu tveggja bifreiða. Stefnda hafi verið afhentir reikningar frá janúar til júní 2002 samtals að fjárhæð 16.397.556 kr. Við lok verksins hafi verið gerður lokareikningur að fjárhæð 20.993.754 kr. sem höfðu þá verið greiddar samtals 5.568.364 kr. inn á. Í málinu liggi fyrir afrit þessa lokareiknings og nemi stefnukrafan eftirstöðvum hans. Fyrirsvarsmaður stefnda, Þórir Rafn Halldórsson, hafi margoft lofað stefnda greiðslu, síðast fyrir málshöfðun þann 28. desember 2006. Stefndi hafi ekki fengist til uppgjörs þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir stefnanda um slíkt. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.
Vísað er til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í 45., 47. og 54. gr. laga nr. 50/2000 og lögum nr. 42/2000. Um gjalddaga kröfunnar sé einkum vísað til meginreglu 49. gr. laga nr. 50/2000. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum. Krafan um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing er vísað til 32. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er tekið fram að forsaga málsins sé sú að stefndi hafi leitað til stefnanda um gerð kostnaðaráætlunar vegna fyrirhugaðs útboðs við breytingar á húsnæði stefnda á Skólavörðustíg 46, en stefndi hugðist útbúa 19 ný herbergi sem viðbót við hótel Leif Eiríksson sem er handan við götuna. Ástæða þess að stefndi leitaði til stefnanda var sú að stefnandi hafði reynslu á þessu sviði en hann hafði nýlokið við að innrétta 55 hótelherbergi að Brautarholti 22.
Stefnandi hafi gert kostnaðaráætlun, dags. 10. febrúar 2001. Samkvæmt því mati hafi heildarkostnaður við innréttingar verið 23-24 milljónir króna. Inni í því mati sé öll vinna ásamt þeim efniskostnaði sem talinn sé upp í matinu. Í stað þess að stefndi leitaði tilboða hafi orðið samkomulag með aðilum um að stefnandi fengi verkið og greitt yrði samkvæmt kostnaðaráætluninni. Samningur hafi verið gerður með því að forsvarsmaður stefnda ritaði undir kostnaðaráætlunina ásamt votti. Stefnandi hóf vinnu við verkið í janúar 2002 og lauk því um miðjan maí á sama ári. Verkáætlun hafi breyst á verktímanum þannig að innréttuð voru 18 herbergi í stað 19 eins og samningur aðila sagði til um. Stefndi hafi greitt stefnanda á verktímanum jafnt og þétt eins og sundurliðað sé af stefnanda, samtals um 22 milljónir króna. Einnig hafi stefndi greitt efnisúttektir í Húsasmiðjunni vegna verksins tæplega 6.000.000 kr. Samtals hafi stefndi því greitt stefnanda tæplega 28.000.000 kr. sem sé langt umfram umsamið verð.
Við lok verksins hafi stefndi óskað eftir lokaúttekt Byggingarfulltrúans í Reykjavík svo hægt væri að leigja út herbergin en þau höfðu verið bókuð vegna NATO-fundar vikuna 10. 17. maí 2002. Samkvæmt færslubók byggingarfulltrúa var farið í vettvangsskoðun 7. maí 2002. Innréttingu allra herbergjanna hafi þá verið lokið en 2 þjónustuherbergi og wc á stigagangi voru ekki alveg fullkláruð. Þá lágu ekki fyrir allar teikningar þannig að lokaúttekt gat ekki farið fram. Þar sem verkinu var nánast lokið hafi verið gefin undanþága á notkun herbergjanna þessa viku.
Stefnandi hafi síðan klárað verkið samkvæmt athugsemdum byggingarfulltrúa um miðjan maí 2002. Þegar kom að lokauppgjöri milli aðila um mitt sumar 2002 hafi stefnandi krafist umtalsvert hærri fjárhæðar en um var samið þó samt miklu lægri en dómkrafan sé í máli þessu. Þessu hafnaði stefndi enda taldi hann sig hafa greitt langt yfir umsamið verð með peningagreiðslum og úttektum stefnanda hjá Húsasmiðjunni og óskaði sundurliðunar á kröfunni. Í stað þess að sundurliða kröfu sína eða gefa út reikning hafi stefnandi neitað að afhenda teikningar sem byggingarstjóri svo hægt væri að framkvæma lokaúttekt og gefa út rekstarleyfi nema stefndi greiddi honum 1.000.000 kr. til viðbótar við það sem þegar hafði verið greitt. Það varð til þess að rekstur hótelsins var á bráðabirgðaleyfi þar til að Byggingarfulltrúinn í Reykjavík gaf út endanlegt rekstarleyfi 2003 án þess að teikningar væru lagðar fram. Samskipti lögmanns stefnda við byggingarfulltrúa séu rakin í gögnum málsins.
Málsatvikalýsing í stefnu sé í öllum aðalatriðum röng. Stefnandi hafi ekki unnið að lokafrágangi til ársloka 2002. Engin verk hafi verið unnin af honum eftir maí 2002, sbr. framlagða sundurliðun hans sjálfs, sem barst stefnda ekki fyrr en á árinu 2003. Þá hafi engir reikningar borist stefnda frá stefnanda, hvorki vegna vinnu frá janúar til júní né framlagður reikningur frá 30.12.2002. Stefndi heldur því fram að þessir reikningar hafi aldrei verið gefnir út og reikningurinn frá 30.12.2002 sé tilbúningur eftir á til þess að lengja fyrningarfrest. Skorað sé á stefnanda að sýna fram á með staðfestingu endurskoðanda að umræddur reikningur hafi verið færður í bókhald stefnanda á þessum tíma.
Þar sem stefndi hafi aldrei fengið reikninga frá stefnanda fyrir það sem hann hafði greitt hafi hann lent í vandræðum með að fá innskatt vegna virðisauka. Hafi hann þurft að sýna Tollstjóranum í Reykjavík öll gögn um greiðslur til stefnanda til að fá innskattinn til baka. Hafi farið í það mikill tími og valdið verulegum óþægindum fyrir stefnda.
Þá sé alrangt að forsvarsmaður stefnda hafi lofað stefnanda greiðslu. Engar viðræður um uppgjör hafi farið fram síðan á árinu 2003. Málavaxtalýsing í stefnu sé því hreinn uppspuni á köflum.
Sýknukröfu byggir stefndi annars vegar á því að hann hafi greitt umsamið verð til stefnanda fyrir verkið og í raun meira til. Stefndi hafi greitt stefnanda eftir því sem verkinu miðaði með hliðsjón af umsömdu verði. Eftir verklok í maí hafi komið í ljós með úttektum stefnanda hjá Húsasmiðjunni að stefndi hafði greitt meira en umsamið verð. Í kjölfarið hafi orðið ágreiningur með aðilum um uppgjör og hafi stefnandi þá krafist frekari greiðslna án þess að sundurliða kostnað við verkið. Þessu hafnaði stefndi og neitaði þá stefnandi að afhenda teikningar svo lokaúttekt á verkinu gæti orðið í þeim tilgangi að knýja stefnda til frekari greiðslu. Stefndi hafi aldrei fengið nokkra reikninga vegna verksins og framlagðan reikning hafi stefndi ekki séð fyrr en við þingfestingu máls þessa. Aðra reikninga sem vitnað sé til í stefnu hafi stefndi aldrei séð. Reikningurinn sé að fjárhæð 20.993.754 kr. sem sé lægri fjárhæð en stefndi hafi greitt. Sá reikningur beri ekki með sér að vera lokareikningur enda sé ekki vísað til nokkurra innágreiðslna eða fyrri reikninga. Stefnandi hafi ekki lagt fram aðra reikninga eða sýnt fram á frekari kröfur á hendur stefnda. Eins og málatilbúnaði stefnanda sé háttað hafi hann ekki sýnt fram á að hann eigi ógreidda kröfu á hendur stefnda vegna þessa verks.
Verði talið að stefnandi eigi einhverja kröfu á stefnda byggir stefndi sýknukröfu hins vegar á því að hún sé fyrnd. Verklok hafi sannanlega verið í maí 2002 eins og gögn málsins sýni. Samkvæmt dómaframkvæmd byrji fyrningarfrestur að líða við verklok en ekki við dagsetningu reiknings. Verklok hafi verið í maí 2002 en málinu hafi ekki verið stefnt fyrr en í árslok 2006. Fyrningarfestur kröfunnar sé 4 ár, sbr. 3. gr. fyrningalaga nr. 14/1905 og teljist fyrningarfestur vera frá þeim degi sem krafan varð gjaldkræf, sbr. 5. gr. sömu laga.
Um lagarök vísar stefndi að öðru leyti til meginreglna samninga- og kröfuréttar. Um málskostnaðarkröfu vísar stefndi til 130. gr. laga um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Stefndi byggir á því í málinu að samkomulag hafi orðið með aðilum um það að stefndi tæki að sér verkið og greitt yrði fyrir það samkvæmt þeirri kostnaðaráætlun sem stefnandi gerði fyrir stefnda vegna breytinga á húsnæðinu Skólavörðustíg 46, dags. 10. janúar 2001. Stefnandi neitar því og byggir á því, eins og fram er komið, að endurgjald skyldi ráðast af endanlegu umfangi verksins. Kostnaðaráætlun sú sem hér um ræðir ber og hvorki með sér að vera verksamningur né tilboð í verk.
Við endurupptöku málsins í þinghaldi 26. júní sl. var bókað að dómari teldi þörf á því að stefnandi legði fram reikninga til að sýna fram á útlagðan kostnað og vinnu við stækkun á hóteli stefnda. Af þessu tilefni hefur stefnandi lagt fram ljósrit reikninga og yfirlit með þeim til stuðnings kostnaðaryfirliti stefnanda, sem fyrir liggur í málinu. Reikningar þessir eru ekki í samræmi við þá tilgreindu liði í kostnaðaryfirlitinu sem þeir taka til og engin gögn eru lögð fram um launakostnað stefnanda vegna þeirra starfsmanna hans sem að verkinu unnu. Grundvöllur reikningskröfu stefnanda að þessu leyti er því svo óljós og vanreifaður að dómur verður ekki á lagður, sbr. d- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Verður því ekki hjá því komist að vísa máli þessu sjálfkrafa frá dómi.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað sjálfkrafa frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.