Hæstiréttur íslands
Mál nr. 242/2008
Lykilorð
- Sjúklingatrygging
- Almannatryggingar
|
|
Fimmtudaginn 11. desember 2008. |
|
Nr. 242/2008. |
Valgerður Halldórsdóttir(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn Tryggingastofnun ríkisins (Skarphéðinn Þórisson hrl.) |
Almannatryggingar. Sjúklingatrygging.
V gerði kröfu um að felld yrði úr gildi ákvörðun T, þar sem synjað var umsókn hennar um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000. Óumdeilt var að V greindist með algert sjónhimnulos á hægra auga í nóvember 2002. Þá lá einnig fyrir að í október sama ár greindi V, deildarlækni og hjúkrunarfræðingi, sem bæði voru samstarfsmenn hennar á augndeild Landspítala, frá því að hún hefði flygsur fyrir auga. Aðilar voru ekki á einu máli um hvað þeim fór nákvæmlega á milli. Talið var að samskipti þeirra hefðu ekki talist falla undir rannsókn eða sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsi, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 111/2000 og að V hefði heldur ekki getað talist hafa verið notandi heilbrigðisþjónustu í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 74/1974 um réttindi sjúklinga og þess vegna ekki sjúklingur sem rétt gæti átt til bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000. Þá var heldur ekki talið að dreifibréf vegna lækningaþjónustu við starfsmenn væri til þess fallið að styðja dómkröfu hennar í málinu. Var T því sýknað af kröfu V.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. apríl 2008. Hún krefst þess að ákvörðun stefnda, sem henni var tilkynnt í bréfi 9. janúar 2006, um að synja umsókn hennar um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, verði felld úr gildi. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi byggir kröfu sína á samtali við samstarfsmann sinn á augndeild Landspítala, háskólasjúkrahúss, nafngreindan lækni, sem átt hafi sér stað þegar bæði voru þar við störf í október 2002. Fallist verður á með stefnda að þessi samskipti geti ekki talist falla undir rannsókn eða sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsi, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 111/2000 og að áfrýjandi geti heldur ekki talist hafa verið notandi heilbrigðisþjónustu í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga og þess vegna ekki sjúklingur sem rétt getur átt til bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000, sbr. nefnda 1. mgr. 1. gr. þeirra laga. Áfrýjandi hefur til stuðnings kröfu sinni vísað til dreifibréfs vegna lækningaþjónustu við starfsmenn sem nefnt er í hinum áfrýjaða dómi. Telur hún að lækninum sem hún átti samtalið við hafi borið samkvæmt dreifibréfinu að beina henni á göngudeild eða sjá á annan hátt til þess að hún væri skráð inn sem sjúklingur á spítalann. Ekki er unnt að fallast á með áfrýjanda að málflutningur um þetta sé til þess fallinn að styðja dómkröfu hennar í málinu. Af framangreindu leiðir að hinn áfrýjaði dómur verður staðfestur.
Með
vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð
einkamála verður áfrýjandi dæmd til að greiða stefnda málskostnað fyrir
Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Áfrýjandi, Valgerður Halldórsdóttir, greiði stefnda, Tryggingastofnun ríkisins 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms
Reykjavíkur 30. janúar 2008.
Mál
þetta er höfðað með stefnu birtri 27. júní 2007, þingfest 28. s.m. og dómtekið
17. janúar 2008.
Stefnandi er Valgerður Halldórsdóttir, Frostaskjóli 37, Reykjavík.
Stefndi
er Tryggingastofnun ríkisins, Laugavegi 114, Reykjavík.
Endanlegar
dómkröfur stefnanda eru þær að felld verði úr gildi ákvörðun stefnda, Tryggingastofnunar
ríkisins, þar sem synjað er umsókn stefnanda um bætur úr sjúklingatryggingu
samkvæmt lögum nr. 111/2000. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur
til að greiða málskostnað.
Stefndi
krefst sýknu og greiðslu málskostnaðar.
Stefndi
krafðist frávísunar málsins í greinargerð. Á dómþingi 15. október 2007 féll
stefnandi frá síðari hluta 1. tl. kröfugerðar sinnar. Á dómþingi 23. nóvember
sl. féll stefnandi síðan frá dómkröfum samkvæmt 2. tl. Féll stefndi þá frá
frávísunarkröfu sinni. Þar sem málið eftir breytta kröfugerð varðar eingöngu
stefnda, Tryggingastofnun ríkisins, hefur aðild málsins til varnar verið
breytt í samræmi við það.
Málsatvik:
Stefnandi
er hjúkrunarfræðingur og vann sem slíkur árið 2002 á augndeild Landspítala háskólasjúkrahúss.
Dag einn í október 2002 fór stefnandi að eigin sögn að sjá stórar flygsur fyrir
hægra auga. Stefnandi kveðst samdægurs hafa leitað til Alfreðs Harðarsonar
deildarlæknis á augndeild Landspítala háskólasjúkrahúss og sagt honum frá
einkennum sínum. Kveðst stefnandi hafa spurt Alfreð sérstaklega að því hvort
hann teldi þörf á skoðun vegna einkennanna. Hafi Alfreð gert lítið úr
fyrirspurn stefnanda. Hafi stefnandi spurt hann sérstaklega að því hvort ekki
ætti að fá augnlækni til að skoða augað. Því hafi Alfreð Haraldsson svarað
eitthvað á þá leið: ,,Til hvers Valgerður, það er ekkert að þér. Það fá allir
svona flygsueinkenni. Ég er sjálfur með svona og það fá það allir. Þetta er
allt í lagi. Þetta bara hættir, það er ekkert að þér.” Stefnandi hafi treyst
orðum læknisins og ekkert verið aðhafst frekar. Stefndi heldur því fram að
Alfreð Harðarson hafi á þessum tíma verið að sinna sjúklingi er hann hafi hitt
stefnanda inni í herbergi hjúkrunarfræðinga. Þar hafi stefnandi, ásamt öðrum
hjúkrunarfræðingi Auði Berglindi Ómarsdóttur, verið að ræða um flygsur fyrir
augum. Alfreð hafi verið á hraðferð og lítillega tekið þátt í umræðum þeim sem
þar fóru fram á léttum nótum áður en hann hafi snúið aftur til fyrri starfa. Um
málsatvik þessi er deilt en þau skipta mestu um niðurstöðu málsins.
Þann 11.
nóvember 2002, eða um mánuði eftir að stefnandi kvaðst hafa orðið vör við
flygsueinkenni sín og rætt þau við Alfreð Harðarson, vaknaði hún að morgni
dags. Kveður hún allt hafa verið svart fyrir hægra auga. Stefnandi fór til
vinnu samdægurs þar sem hún fór þess á leit við Ingimund Gíslason augnlækni að
hann skoðaði sig. Fyrir liggur í málinu að Ingimundur skoðaði stefnanda í
framhaldinu og lét hann stefnanda skrá sig inn sem sjúkling áður en sú skoðun
fór fram. Við umrædda skoðun greindist stefnandi með algjört sjónhimnulos á
hægra auga. Sjónhimna var farin af ,,maculasvæðinu” og gekkst stefnandi undir
aðgerð vegna þess daginn eftir.
Á dskj.
nr. 10 liggur frammi yfirlýsing Auðar Berglindar Ómarsdóttir, sem rituð er 7. júlí
2003. Þar lýsir Auður yfir að í nóvember 2003 hafi hún verið viðstödd er
stefnandi hafi borið undir Alfreð að hún væri með flygsur fyrir hægra auga.
Geti Auður Berglind ekki með góðri samvisku sagt að hún myndi samtalið vel. Hún
myndi þó að Alfreð hafi komið í dyragættina á herbergi hjúkrunarfræðinga og
hafi stefnandi minnst á að hún væri með flygsur fyrir auganu. Hafi þær spurt
Alfreð hvort hann ætlaði ekki að skoða stefnanda. Í framhaldinu hafi talið
borist að því hvort ekki væri um að ræða ,,floaters” í auganu og einhvern
veginn hafi samtalið ,,eyðst” og ekkert orðið úr skoðun. Þá liggur fyrir á
dskj. nr. 11 bréf Alfreðs Harðarsonar deildarlæknis frá 8. júlí 2003 þar sem
hann rekur atvik. Fram kemur að daginn sem kvartað hafi verið undan flygsum hafi
Alfreð verið búinn að vera starfandi á augndeildinni í sex til sjö mánuði. Hafi
hann verið að sinna öðrum störfum á göngudeild augndeildar. Hafi hann haldið á
sjúkragögnum sjúklings sem hann hafi verið að taka sjúkrasögu af. Þá annað
hvort gangi hann inn á Berglindi og stefnanda eða þær kalli til hans, þar sem
þær sitji í herbergi hjúkrunarfræðings. Hafi þær verið að tala um flygsur fyrir
augum og þá frekar á léttum nótum eins og oft hjá þeim þar sem Alfreð myndi að
eitthvað hafi verið hlegið. Hafi Alfreð sagt að hann fengi stundum sjálfur
flygsur fyrir augun sem hann sæi í vissum birtuskilyrðum. Einnig hafi hann sagt
að margir væru með það sama. Hafi Alfreð ekki hugsað frekar út í þetta þá.
Stefnandi
kveður meðferðir vegna sjónhimnuloss hafa gengið erfiðlega og hafi hún þurft að
gangast undir samtals sex aðgerðir vegna þessa fram til dagsins í dag og á
tímabili verið óvinnufær. Vegna afleiðinga sjónhimnulossins er stefnandi
algerlega blind á hægra auga og vinnugeta hennar verulega skert. Fyrir atvikið
var stefnandi í 70% starfi en í dag er stefnandi í 40% starfi.
Stefnandi
ritaði yfirlækni augndeildar Landspítala háskólasjúkrahúss bréf 14. maí 2003
þar sem hún kom á framfæri óánægju sinni og óskaði eftir því mál hennar yrði
skoðað nánar. Í svarbréfi Friðberts Jónassonar yfirlæknis frá 15. maí 2003 til
stefnanda kom fram að Einar Stefánsson prófessor myndi fara yfir málið með
formlegum hætti. Með bréfi dagsettu 19. júní 2003 leitaði stefnandi einnig til
embættis landlæknis vegna málsins. Embætti landlæknis aflaði gagna vegna
málsins en leitað var m.a. til Alfreðs Harðarsonar og Auðar Berglindar
Ómarsdóttur í tengslum við hvað fram væri komið um atburðarrásina. Í endanlegri
álitsgerð embættisins frá 17. mars 2004 voru
athugasemdir og ábendingar stefnanda ekki teknar til greina.
Með
bréfum 16. og 27. apríl 2004 leitaði stefnandi því næst til Nefndar um
ágreiningsmál skv. lögum um heilbrigðisþjónustu. Í álitsgerð nefndarinnar frá
23. febrúar 2005 kemur fram að nefndin treysti sér ekki til að skera úr um hver
bæri ábyrgð á því að stefnandi hafi ekki leitað sér frekari lækninga í kjölfar
atviksins í október 2002. Stefnandi leitaði til embættis ríkislögmanns með
bréfi 12. apríl 2005 þar sem hún leitaði eftir afstöðu embættisins til
bótaréttar. Í svari embættisins frá 10. maí 2005 er bótaskyldu hafnað en
stefnanda bent á að tilkynna atvikið til stefnda á grundvelli laga um
sjúklingatryggingu. Í kjölfarið sótti stefnandi um bætur úr sjúklingatryggingu
þann 30. september 2005 en var hafnað 9. janúar 2006 á þeim forsendum að samtal
stefnanda við Alfreð Harðarson lækni teldist ekki meðferð eða rannsókn samkvæmt
1. gr. laga um sjúklingatryggingu. Stefnandi væri ekki sjúklingur í skilningi
sömu greinar, þar sem að samtalið hafi ekki verið skráð á nokkurn hátt.
Stefnandi kærði niðurstöðu stefnda til Úrskurðarnefndar almannatrygginga þann
7. apríl 2006. Með úrskurði nefndarinnar frá 17. maí 2006 var synjun stefnda á
bótaskyldu staðfest. Stefnandi ritaði embætti ríkislögmanns á ný bréf 21.
desember 2006 þar sem hún ítrekaði að viðurkennd yrði bótaskylda stefnda og
leitaði eftir að endurskoðuð yrði ákvörðun stefnda og Úrskurðarnefndar
almannatrygginga um að atvikið ætti ekki undir lög um sjúklingatryggingu.
Embætti ríkislögmanns ítrekaði höfnun á bótakröfu með bréfi 22. desember 2006.
Kom fram í bréfinu það álit ríkislögmanns að embættið endurskoðaði ekki
niðurstöðu þeirra stjórnsýsluaðila sem afstöðu tækju til greiðsluskyldu á
grundvelli laga um sjúklingatryggingu. Þeirri niðurstöðu yrði ekki hnekkt nema
eftir atvikum með dómi. Hefði mál stefnanda ekki fengið efnislega meðferð hjá
stefnda.
Við
aðalmeðferð málsins gaf skýrslu fyrir dómi stefnandi, Alfreð Harðarson læknir
og Auður Berglind Ómarsdóttir hjúkrunarfræðingur.
Stefnandi
kvað umrædda atburði hafa átt sér stað í lok vinnudags í október 2002. Hafi hún
verið að ganga frá á augndeild Landspítala háskólasjúkrahúss er hún hafi
skyndilega fengið flygsur yfir auga. Hafi henni brugðið en vitað af Auði
Berglindi Ómarsdóttur hjúkrunarfræðingi inni í herbergi hjúkrunarfræðinga. Hafi
hún farið til hennar og sagt henni frá flygsunum. Auður Berglind hafi þá séð
til ferða Alfreðs Harðarsonar deildarlæknis frammi á gangi. Hafi hún sagt við
hann að hann skyldi skoða stefnanda. Alfreð hafi í framhaldi komið inn í
herbergið. Hafi stefnandi tjáð Alfreð að hún sæi flygsur. Alfreð hafi sagt við
stefnanda að þetta væri ekki merkilegt og að allir fengju þetta. Hafi þau rætt
saman í dágóðan tíma. Hafi hann tjáð henni að einkennin færu. Hafi stefnandi
fylgt Alfreð eftir fram á gang og spurt hann hvað hún ætti að gera og hvort hún
ætti ekki að leita til sérfræðings. Hafi hann spurt til hvers, það væri ekki
til neins. Hafi stefnandi í framhaldi gefist upp og farið aftur inn í herbergi
hjúkrunarfræðinga til Auðar Berglindar og spurt hana hvað hún ætti að gera.
Einkennin hafi þá verið horfin, en þau hafi horfið er hún hafi rætt við Alfreð
frammi á gangi. Samtal stefnanda og Alfreðs hafi ekki verið á léttum nótum.
Stefnandi kvaðst á þessum tíma ekki
hafa vitað um reglur er í gildi hafi verið um svonefndar gangalækningar.
Stefnandi kvað Auði Berglindi hafa orði vitni að samtalinu við Alfreð en
stefnandi hafi rætt við hann í herbergi fyrir hjúkrunarfræðinga, auk þess sem
Auður Berglind hafi verið rétt hjá er stefnandi hafi rætt við Alfreð frammi á
gangi.
Alfreð
Harðarson kvaðst umræddan dag hafa verið að sinna sjúklingi í skoðun. Hafi hann
komið fram og heyrt stefnanda og Auði Berglindi ræða saman í herbergi
hjúkrunarfræðinga. Hafi þær verið að hlæja. Stefnandi hafi sagt að hún væri með
flygsur fyrir auga. Hafi Alfreð sagt að hann fengi sjálfur stundum flygsur
fyrir augu. Hafi hann bætt því við að sennilega væru allir fái slíkt. Í
framhaldi hafi hann farið út úr herberginu. Alfreð kvaðst ekki kannast við að
Auður Berglind hafi kallað sérstaklega á hann og beðið hann um að koma inn í
herbergið. Þá kvaðst Alfreð ekki kannast við að hafa verið beðinn um að skoða
stefnanda. Alferð kvaðst kannast við að stefnandi hafi sagt við hann í tengslum
við þá aðgerð er stefnandi hafi farið í að stefnandi hafi haldið því þá fram að
hún hafi beðið Alfreð um að skoða sig. Hafi Alfreð þá reynt að muna hvort svo
hafi verið en hann ekki minnst þess. Gæti hann þó ekki útilokað að stefnandi
hafi beðið Alfreð um að skoða sig. Stefnandi hafi ekki sagt að hún hefði
áhyggjur af þessum flygsum eða að um væri að ræða ný einkenni. Þá kvaðst Alfreð
í viðræðum við stefnanda daginn eftir fyrstu aðgerð stefnanda hafa sagt að
honum fyndist leiðinlegt að hann myndi ekki betur eftir orðaskiptum þeirra í
október 2002. Alfreð kvaðst á þessum tíma hafa vitað um dreifibréf er lækningaforstjóri
hafi sent frá sér varðandi gangalækningar. Alfreð kvaðst hafa tekið saman
minnisblað um þessi samskipti sem væri frá 8. júlí 2003. Hafi það verið gert
að beiðni Einars Stefánssonar prófessors sem hafi verið með málið á sinni
könnu.
Auður
Berglind Ómarsdóttir kvaðst dag einn í október 2002 ásamt stefnanda hafa verið
inni á vaktherbergi hjúkrunarfræðinga. Komið hafi verið undir lok vaktar en
vaktaskipti hafi verið um kl. 16.00. Stefnandi hafi rætt um að hún hefði
einkenni fyrir augum, en hún hafi talað um að hún sæi flygsur. Hafi Auður
Berglind séð Alfreð Harðarson lækni koma gangandi og hún kallað í hann. Í
framhaldi hafi verið rætt um málið en fundurinn allur verið á ,,léttum nótum”.
Hafi Alfreð verið spurður hvort hann vildi ekki kíkja á. Þá hafi verið rætt um
hvort ekki gæti verið um að ræða svokallaða ,,floaters”. Umræðan hafi síðan
sennilega eyðst. Auður Berglind kvaðst hins vegar muna það að hún hafi kallað á
Alfreð inn í herbergið vegna kvörtunar stefnanda. Ekki kvaðst Auður Berglind
vilja fullyrða hve langt samtalið í herberginu hafi verið en það hafi getað
staðið í 5 til 10 mínútur.
Málsástæður og lagarök
stefnanda
Stefnandi
byggir kröfu sína á 1. mgr. 1. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000. Í
greininni komi fram að sjúklingar eigi rétt til bóta samkvæmt lögunum enda
verði þeir fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni hér á landi í tengslum við
rannsókn eða sjúkdómsmeðferð m.a. á sjúkrahúsi. Stefnandi vísi til 2. gr. laga
nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga varðandi hugtakið sjúklingur, en þar sé
sjúklingur skilgreindur sem notandi heilbrigðisþjónustu. Í 3. mgr. sömu
lagagreinar sé meðferð skilgreind sem rannsókn, aðgerð eða önnur þjónusta sem
læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður veiti til að greina, lækna, endurhæfa,
hjúkra eða annast sjúkling. Stefnandi hafi álitið sig sjúkling og notanda
heilbrigðisþjónustu í samskiptum sínum við Alfreð Harðarson. Hafi hún leitað
til hans með algerlega sambærilegum hætti og hún hafi gert mánuði síðar þegar
hún hafi leitað til Ingimundar Gíslasonar augnlæknis. Viðbrögð læknanna hafi
verið gerólík. Alfreð hafi brotið reglur stefnda um gangalækningar og
læknaþjónustu við starfsmenn en hafi engu að síður svarað fyrirspurn hennar með
faglegum hætti sem hún hafi litið á sem læknisráð og treyst. Ingimundur hafi
hins vegar látið hana skrá sig strax inn á göngudeild sem sjúkling, eins og
reglur hafi gert ráð fyrir. Þessi munur á skráningu í október annars vegar og
11. nóvember hins vegar, sem stefndi geri mikið úr í niðurstöðu sinni, helgist
því einvörðungu af því hvernig læknarnir, sem stefnandi hafi leitað til sem
sjúklingur, með nákvæmlega sama hætti í bæði skiptin, hafi brugðist við. Annar
hafi fylgt reglunum en hinn ekki.
Stefnandi
telji sig hafa orðið sjúkling og notanda heilbrigðisþjónustu um leið og hún
hafi borið einkenni sín undir Alfreð Harðarson deildarlækni, leitaði eftir
áliti hans og spurt sérstaklega að því hvort ekki væri ástæða til að fara í
skoðun vegna þessa. Með því að tjá sig og taka afstöðu til einkenna stefnanda
hafi Alfreð Harðarson sett fram greiningu á einkennum stefnanda sem byggð hafi
verið á faglegri þekkingu hans. Stefnandi telji að sú staðreynd að Alfreð
Harðarson hafi ekki séð til þess að hún yrði með formlegum hætti skráð sem
sjúklingur, eins og reglur hafi boðið honum að gera, geti ekki leitt til þess
að því sé hafnað að líta á hana sem sjúkling og notanda heilbrigðisþjónustu í
þessum samskiptum.
Stefnandi
telji að Alfreð Harðarson hafi ekki brugðist rétt við heilsufarslegri
fyrirspurn hennar og þar með brotið skýr fyrirmæli Landspítala
háskólasjúkrahúss sem fram komi í dreifibréfi frá 3. janúar 2001. Jafnframt
hafi hann brotið reglur um gjaldtöku fyrir læknisþjónustu starfsmanna frá 1.
janúar 2002. Í dreifibréfi sem yfirstjórn Landspítala háskólasjúkrahúss hafi
sent 3. janúar 2001 í beinu samhengi við gildistöku laga um sjúklingatryggingu
sé kveðið á um mikilvægi þess að framfylgt sé reglum um færslu sjúkraskrár um
alla veitta þjónustu innan spítalans. Þar hafi einnig verið gerð krafa til þeirra
heilbrigðisstarfsmanna sem liðsinni starfsfélögum sínum, að þeir beindu allri
slíkri starfsemi á göngudeildir þar sem viðkomandi sjúklingur væri skráður og
færð formleg sjúkraskrá. Móttakendur þessa bréfs hafi eingöngu verið læknar,
sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfar. Stefnandi leggi áherslu á það að
hjúkrunarfræðingar hafi almennt ekki fengið umrætt dreifibréf og þar af
leiðandi hafi stefnandi ekki haft vitneskju um áðurnefndar starfsreglur og því
ekki hægt að ætlast til að hún færi eftir þeim, líkt og Úrskurðarnefnd
almannatrygginga geri í rökstuðningi sínum.
Þá hafi
Landspítali háskólasjúkrahús sett reglur um gjaldtöku fyrir læknisþjónustu
starfsmanna um ári síðar eða 1. janúar 2002. Þar komi fram að starfsmenn skuli
greiða fyrir læknisþjónustu sem nemi 40% miðað við fullt gjald. Þá sé ennfremur
sett fram skilyrði um að öll þjónusta sem veitt sé til starfsmanna verði unnin
á viðkomandi göngudeild og að öll samskipti milli læknis og sjúklings verði
skráð með hefðbundnum hætti. Stefnandi byggi á því að reglurnar leggi skýra
skyldu á herðar heilbrigðisstarfsmanns sem samstarfsmaður leiti til, með öðrum
orðum að heilbrigðisstarfsmaðurinn sjái til þess að gjald sé innheimt fyrir
þjónustuna og öll þjónusta sé skráð með formlegum hætti.
Ofangreindar
reglur séu ótvíræðar um það hvar ábyrgðin liggi. Læknir eigi að hafa þekkingu á
reglunum og ávallt framfylgja þeim. Í þessu samhengi hafi Alfreð Harðarson
deildarlæknir átt að hafa þekkingu á að láta stefnanda skrá sig inn sem
sjúkling er hann hafi fengið fyrirspurn frá stefnanda og fylgja því eftir með
formlegum hætti líkt og reglurnar kveði á um. Þá hafi Alfreð Harðarson ekki
gætt þess að stefnandi yrði skráð inn sem sjúklingur þannig að hún yrði krafin
um gjald fyrir þjónustuna. Þvert á móti hafi Alfreð gefið faglegt álit á
einkennum stefnanda og fullyrt að kvartanir hennar væru tilefnislausar.
Stefnandi telji umrædd vinnubrögð vera mistök af hálfu Alfreðs Harðarsonar sem
stefnandi geti ekki borið ábyrgð á, líkt og Úrskurðarnefnd almannatrygginga
láti hana gera. Enda telji stefnandi það koma skýrt fram í gögnum málsins að
hún hafi litið á viðbrögð Alfreðs Harðarsonar við kvörtunum sínum sem læknisráð
og þar með sem heilbrigðisþjónustu. Stefnandi leggi áherslu á rétt viðbrögð
Ingimundar Gíslasonar augnlæknis sem hafi tekið á móti stefnanda rétt um mánuði
síðar og bent henni á að skrá sig inn sem sjúkling áður en hann hafi veitt
henni læknisfræðilega ráðgjöf. Þá hafi stefndi komið sér undan því að taka
afstöðu til þess hvort starfsreglur hafi verið brotnar er stefnandi hafi leitað
til Alfreðs.
Stefnandi
mótmæli sérstaklega að samanburður á henni og Alfreð Harðarsyni deildarlækni
leiði til þess að litið sé á hana sem reyndan hjúkrunarfræðing og á hann sem
reynslulítinn deildarlækni. Stefnandi hafi unnið í u.þ.b. ár á augndeild
Landspítala háskólasjúkrahúss en Alfreð í u.þ.b. sjö mánuði er atvikið hafi átt
sér stað. Þess heldur sé hvergi minnst á reynslu aðila í lögum um
sjúklingatryggingu og engar hömlur settar á ábyrgð eftir því hvort
heilbrigðisstarfsmaðurinn eða sjúklingurinn hafi reynslu eða ekki. Hér sé
einungis verið að reyna koma ábyrgðinni yfir á stefnanda vegna mistaka Alfreðs
Harðarsonar.
Stefnandi
telji þannig að um leið og hún hafi borið kvörtunina undir Alfreð Harðarson
hafi hún orðið sjúklingur eða notandi heilbrigðisþjónustu í skilningi 1. gr.
laga nr. 111/2000, sbr. 2. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga, sem hafi
orðið fyrir tjóni í tengslum við rannsókn og sjúkdómsmeðferð. Blinda á hægra
auga stefnanda sé tjón í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð. Fyrir liggi
að stefnandi hafi leitað eftir læknisráðgjöf og sú staðreynd að læknirinn hafi
brotið fyrirmæli Landspítala háskólasjúkrahúss um formlega skráningu á
samstarfsmanni og reglur um gjaldtöku fyrir læknisþjónustu starfsmanna megi
ekki bitna á stefnanda og leiða til þess að hún, í skilningi laga um
sjúklingatryggingu, teljist ekki sjúklingur eða notandi heilbrigðisþjónustu.
Stefnandi
leggi jafnframt áherslu á að samskipti hennar og Alfreðs Harðarsonar hafi ekki
verið óformleg og í flýti líkt og stefndi
fullyrði í niðurstöðum sínum og Úrskurðarnefnd almannatrygginga
staðfesti. Því síður hafi hún tekið viðbrögðum læknisins sem óformlegu spjalli
á léttu nótunum. Jafnframt andmæli stefnandi því að þau svör sem hún hafi
fengið hafi verið gefin á hlaupum, þvert á móti hafi verið um samtal að ræða
þar sem hvorugur aðilinn hafi verið að flýta sér. Þá andmæli stefnandi því að
samtalið hafi farið fram á gangi líkt og stefndi byggir á í skjölum sínum enda
slíkt í andstöðu við frásögn Alfreðs Harðarsonar sjálfs, eins og fram komi í
dskj. nr. 11. Orðalag í þessu dómskjali sé augljóst, en Alfreð hafi komið inn í
herbergi hjúkrunarfræðinga til að hlusta á heilsufarslegar kvartanir stefnanda.
Við þessum kvörtunum hafi hann brugðist með því að gefa læknisfræðilega ráðgjöf
sem stefnandi hafi tekið fullt mark á þar sem hann hafi tekið þá afstöðu að
ekki væri þörf á nánari skoðun vegna einkennanna.
Stefnandi
telji að Alfreð Harðarson hafi ekki brugðist við heilsufarslegri kvörtun hennar
í samræmi við fyrirliggjandi fyrirmæli. Hann hafi hvorki skoðað hana né talið
ástæðu til að augnlæknir skoðaði hana. Þá hafi hann talið stefnanda trú um að
einkenni þau sem hún lýsti væru ekki alvarleg og engin ástæða væri til að
bregðast sérstaklega við þeim. Þessi einkenni hafi hins vegar verið alvarleg og
full ástæða til að láta rannsaka nánar. Stefnandi hafi treyst á faglegt álit
Alfreðs Harðarsonar með þeim afleiðingum að hún hafi greinst með algjört
sjónhimnulos um mánuði síðar og misst sjón á hægra auga. Vegna þessara mistaka
Alfreðs Harðarsonar við læknismeðferð telji stefnandi sig hafa orðið fyrir
heilsutjóni sem komast hafi mátt hjá. Atvikið falli þannig skýrt undir ákvæði
1. tl. 2. gr. laga nr. 111/2000 og sé stefnanda mikið í mun að fá efnislega
úrlausn í máli sínu. Í ljósi ofangreindra raka krefjist stefnandi þess að felld
verði úr gildi ákvörðun stefnda, þar sem synjað hafi verið umsókn stefnanda um
bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000.
Málsástæður og lagarök
stefnda
Stefndi
byggir kröfu sína um sýknu á því að stefnandi hafi ekki verið sjúklingur í
skilningi laga nr. 111/2000 í samskiptum sínum við Alfreð Harðarson
deildarlækni á Landspítala háskólasjúkrahúsi í október 2002. Forsenda þess að
teljast vera sjúklingur í skilningi laga nr. 111/2000 sé formlegt
samningssamband milli sjúklings og læknis. Í þessu samhengi sé átt við að
viðkomandi þurfi að panta tíma hjá lækni, greiða fyrir þjónustu hans og að
læknir skoði sjúkling og haldi sjúkraskrá. Samskipti stefnanda og stefnda hafi
verið mjög óformleg, tilviljunarkennd og óljós. Ljóst sé að Alfreð Harðarson
deildarlæknir hafi komið inn í herbergi hjúkrunarfræðinga og talað við
stefnanda. Samtal þeirra hafi verið stutt og þess eðlis að ekki sé annað hægt
en að draga þá ályktun að það hafi verið óformlegt og tilviljanakennt. Engin
hefðbundin læknisskoðun hafi farið fram né rannsókn og telji stefndi afar
langsótt að stefnandi geti fallið undir skilgreininguna sjúklingur í skilningi
ofangreindra laga. Stefndi leggi ennfremur áherslu á umgjörð samskipta milli
stefnanda og Alfreðs Harðarsonar, en af frásögn bæði Alfreðs og Auðar
Berglindar Ómarsdóttur hjúkrunarfræðings megi sjá að umrædd samskipti hafi
verið samtal milli starfsmanna en ekki sjúklings og starfsmanns líkt og
stefnandi haldi fram.
Stefnandi
hafi búið yfir starfsreynslu, hafi haft greiðan aðgang að læknum á deildinni og
haft alla burði til að fá formlega ráðgjöf vegna einkenna sinna. Stefnandi hafi
ekki getað ætlast til að fá faglega úrlausn við óformlegri fyrirspurn sinni til
samstarfsmanns sem hafi haft takmarkaða reynslu. Þá leggi stefndi áherslu á að
þar sem stefnandi hafi verið starfsmaður á augndeild Landspítala
háskólasjúkrahúss hafi henni átt að vera fullljóst að heimildir verði ekki til
nema þær séu skráðar. Stefndi bendi á þá vitneskju stefnanda að ekkert hafi
verið skráð um samtalið og hafi hún því ekki getað ætlast til að vera
skilgreind sem sjúklingur í skilningi laganna. Stefnandi hafi hvorki verið
skoðuð né rannsökuð og hún sjálf borið ábyrgð á því að fylgja vangaveltum sínum
um umrædd einkenni ekki eftir.
Stefndi
leggi áherslu á þá málsástæðu að stefnandi hafi ekki verið sjúklingur í þeim
tilviljunarkenndu samskiptum sem átt hafi sér stað. Stefndi líti svo á að
umrædd samskipti hafi einungis verið venjuleg samskipti samstarfsfólks á sama
vinnustað. Í ljósi þessa mótmæli stefndi þeirri málsástæðu stefnanda að Alfreð
Harðarson hafi brotið skýr fyrirmæli dreifibréfs og reglna um læknisþjónustu um
skráningar í sjúkraskrá. Stefnandi hafi auðveldlega getað pantað skoðun hjá
sérfræðingum á vinnustað sínum og fengið greiningu á einkennum sínum. Það að
hún hafi ekki látið verða af því beri hún sjálf ábyrgð á.
Niðurstaða:
Óumdeilt
er að stefnandi greindist með algert sjónhimnulos á hægra auga 11. nóvember
2002. Þá liggur jafnframt fyrir að í október s.á. greindi stefnandi
samstarfsfólki sínu, þeim Alfreð Harðarsyni deildarlækni og Auði Berglindi
Ómarsdóttur hjúkrunarfræðingi, frá því í herbergi hjúkrunarfræðinga á augndeild
Landspítala háskólasjúkrahúsi, að hún hefði flygsur fyrir auga. Hvað stefnanda
og þeim Alfreð og Auði Berglindi fór nákvæmlega í milli eru aðilar ekki á einu
máli um. Niðurstaða þessa máls ræðst af því hvað talið verði sannað um efni
títtnefnds samtals og þá sérstaklega hvort talið verði að í viðtali stefnanda
og Alfreðs Harðarsonar deildarlæknis hafi falist greiningarþjónusta af hálfu
læknis sem leitt hafi til þess að stefnandi hafi verið notandi
heilbrigðisþjónustu á þessum tíma í skilningi 2. gr. laga nr. 74/1997.
Samkvæmt
1. mgr. 1. gr. laga nr. 111/2000 eiga rétt til bóta samkvæmt lögunum
sjúklingar, sbr. 2. gr. laga um réttindi sjúklinga, sem verða fyrir líkamlegu
eða geðrænu tjóni hér á landi í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð á
sjúkrahúsi, heilsugæslustöð eða annarri heilbrigðisstofnun, í sjúkraflutningum
eða hjá heilbrigðisstarfsmanni sem starfar sjálfstætt og hlotið hefur
löggildingu heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra til starfans. Svo sem 1.
mgr. 1. gr. laga nr. 111/2000 ber með sér er um skilgreiningu á því hver sé
sjúklingur vísað til 2. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997. Samkvæmt
téðri 2. gr. er sjúklingur skilgreindur sem notandi heilbrigðisþjónustu.
Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi til laga um réttindi sjúklinga sem lagt var
fram á 121. löggjafarþingi Íslendinga er í 2. gr. með sjúklingi átt við hvern
þann einstakling, heilbrigðan eða sjúkan, sem notar heilbrigðisþjónustu. Þegar
sjúklingur hafi samskipti við starfsmenn heilbrigðisþjónustu verði virk
réttindi sem frumvarpið fjalli um.
Svo sem
áður var vikið að eru aðilar ekki á einu máli um hvers eðlis samtal stefnanda
og Alfreðs Harðarsonar deildarlæknis hafi verið er stefnandi hafi í október
2002 greint Alfreð frá því að hún væri með flygsur fyrir auga. Stefnandi heldur
því afdráttarlaust fram að hún hafi leitað ráða hjá Alfreð varðandi flygsueinkennin
og m.a. spurt hann að því hvað hún ætti að gera og hvort rétt væri að hún
leitaði til sérfræðings vegna þess. Svör Alfreðs hafi verið slík að þau hafi
ekki gefið henni tilefni til að aðhafast frekar í málinu. Alfreð á hinn bóginn
kveðst ekki muna eftir því að hafa ráðlagt stefnanda með neinum hætti. Kveðst
hann telja að þau hafi meira átt óformlegt spjall þar sem flygsueinkenni
stefnanda hafi borið á góma. Þá hefur Auður Berglind Ómarsdóttir
hjúkrunarfræðingur staðfest að hún hafi kallað á Alfreð inn í herbergi
hjúkrunarfræðinga vegna þeirra einkenna stefnanda að hún hefði flygsur fyrir
auga. Hefur hún staðhæft að Alfreð hafi verið spurður að því hvort hann ætlaði
ekki að skoða stefnanda. Ekki rekur Auði Berglindi minni til samtalsins að öðru
leyti.
Samkvæmt
1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sker dómari úr því hverju
sinni eftir mati á þeim gögnum sem hafa komið fram í máli hvort staðhæfing um
umdeild atvik teljist sönnuð, enda bindi fyrirmæli laga hann ekki sérstaklega
um mat í þessum efnum.
Að mati dómsins hefur ekki komið fram í málinu með ótvíræðum hætti að stefnandi hafi í október 2002 á augndeild Landspítala háskólasjúkrahúss spurt Alfreð Harðarson deildarlækni sérstaklega að því hvað hún ætti að gera og hvort hún ætti að leita til sérfræðings vegna einkenna sinna. Framburður Alfreðs og Auðar Berglindar styður það engan veginn. Framburður þeirra tveggja og öll umgjörð málsins veitir fremur vísbendingu um að stefnandi, Alfreð og Auður Berglind hafi átt óformlegar samræður sem samstarfsfólk í herbergi hjúkrunarfræðinga um flygsueinkenni stefnanda. Í ljósi reglna um að sá sem ber fyrir sig staðhæfingu um umdeild atvik hafi í upphafi sönnunarbyrðina fyrir staðhæfingum sínum er það niðurstaða dómsins að fella sönnunarbyrðina í þessum efnum á stefnanda, enda ekkert fram komið sem gerir staðhæfingu stefnanda það sennilega að rétt sé að færa sönnunarbyrðina í þessum efnum yfir á stefnda. Fram hjá því verður heldur ekki litið að stefnandi var á þessum tíma hjúkrunarfræðingur á augndeild Landspítala háskólasjúkrahúss og hafði starfað þar sem slíkur um hríð. Hafi hún orðið vör við einkenni í augum er hún hafði ástæðu til að óttast átti hún umsvifalaust að leita til læknis með þau einkenni með því að fá tíma hjá lækni til sérstakrar skoðunar. Er það niðurstaða dómsins að ekki sé talið sannað að samtal stefnanda og Alfreðs Harðarsonar deildarlæknis hafi verið greiningarviðtal læknis sem hafi gert stefnanda að notanda heilbrigðisþjónustu og þar með að sjúklingi í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 111/2000. Í ljósi þess verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.
Rétt
þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Af hálfu stefnanda flutti málið Dögg Pálsdóttir hæstaréttarlögmaður, en af hálfu stefnda Skarphéðinn Þórisson ríkislögmaður.
Dóminn
kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi,
Tryggingastofnun ríkisins, er sýkn af kröfum stefnanda, Valgerðar
Halldórsdóttur.
Málskostnaður
fellur niður.