Hæstiréttur íslands

Mál nr. 360/2016

Ákæruvaldið (Einar Tryggvason saksóknari)
gegn
Aðalsteini Árdal Björnssyni (Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Gripdeild
  • Líkamsárás
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Ökuréttarsvipting
  • Aðalmeðferð
  • Ómerkingarkröfu hafnað

Reifun

A var sakfelldur fyrir átta þjófnaðarbrot, gripdeild, líkamsárás og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Fyrir Hæstarétti krafðist A ómerkingar héraðsdóms þar sem hann taldi sig ekki hafa átt kost á að halda uppi vörnum í málinu með réttmætum hætti, þar sem héraðsdómari hefði ákveðið að láta aðalmeðferð fara fram þrátt fyrir fjarveru hans. Vísaði Hæstiréttur til þess að A hefði tekið afstöðu til sakargifta í öðru þinghaldi og í því hefði einnig tímasetning aðalmeðferðar verið ákveðin. Var því talið að A hefði kosið að nýta sér ekki rétt sinn til að vera viðstaddur aðalmeðferð málsins og jafnframt til að neita að gefa skýrslu um sakarefnið sbr. 1. mgr. 166. gr. og 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Við ákvörðunar refsingar var litið til sakaferils A en hann hafði nítján sinnum verið dæmdur fyrir sambærileg brot en á hinn bóginn var litið til þess að flest brot hans hefðu verið smávægileg.Var refsing A ákveðin fangelsi í 10 mánuði auk þess sem áréttuð var ævilöng ökuréttarsvipting hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. maí 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, til vara sýknu af ákæru 19. janúar 2016, en að því frágengnu að refsing verði milduð.

Ákærði reisir ómerkingarkröfu sína á því að hann hafi ekki átt kost á að halda uppi vörnum í málinu með réttmætum hætti, þar sem héraðsdómari hafi ákveðið að láta aðalmeðferð fara fram þrátt fyrir fjarveru ákærða. Af þeim sökum hafi vörnum hans verið áfátt, sbr. b. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá er því haldið fram að framangreind ákvörðun héraðsdómara hafi ráðist af persónulegri afstöðu hans til ákærða og dómarinn því ekki verið sjálfstæður og óvilhallur.

Samkvæmt bókun í þingbók héraðsdóms var ákærði ekki mættur við þingfestingu málsins 25. janúar 2016 þrátt fyrir löglega birt fyrirkall. Málið var tekið fyrir öðru sinni 12. febrúar sama ár án þess að ákærði mætti til þings, en þá var honum skipaður verjandi að hans ósk. Í lok þinghaldsins var bókað að málið yrði tekið fyrir 26. febrúar 2016 og myndi sækjandi láta handtaka ákærða og færa hann fyrir dóm þann dag. Þegar málið var næst tekið fyrir 18. febrúar 2016 var ákærði mættur og honum skipaður nýr verjandi, sem kominn var til þings. Í þinghaldinu játaði ákærði fimm þjófnaðarbrot samkvæmt ákæru 22. desember 2015 og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, en neitaði gripdeild og einu þjófnaðarbroti. Þá neitaði ákærði að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru 19. janúar 2016. Í lok þinghaldsins var bókað að aðalmeðferð málsins færi fram 1. mars 2016.

Við upphaf aðalmeðferðar umræddan dag var bókað í þingbók að ákærði væri ekki mættur og að verjandi hans hefði ekki upplýsingar um hvar hann væri. Við svo búið hófst aðalmeðferð með því að skýrslur voru teknar af vitnum. Að loknum skýrslutökum ákvað héraðsdómari að fram skyldi fara munnlegur flutningur málsins, þar sem ákærða hafi verið fullkunnugt um að aðalmeðferð færi fram fyrrnefndan dag.  Lýsti sækjandi sig því sammála, en verjandi mótmælti að málflutningur færi fram áður en ákærði gæfi skýrslu. Í framhaldi af því var málið flutt munnlega og dómtekið.

Í 2. málslið 1. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir að ákærði eigi rétt á að vera viðstaddur aðalmeðferð máls. Þá er kveðið á um í 2. mgr. 113. gr. sömu laga að ákærði geti ýmist neitað að gefa skýrslu um sakarefnið eða neitað að svara einstökum spurningum þar að lútandi. Eins og áður greinir kom ákærði fyrir dóm 18. febrúar 2016 og tók afstöðu til sakargifta að viðstöddum verjanda sínum. Í sama þinghaldi var ákveðið að aðalmeðferð málsins færi fram 1. mars sama ár. Þrátt fyrir vitneskju sína um þá tímasetningu mætti ákærði ekki til þings þann dag og hefur hann engar skýringar gefið á fjarveru sinni. Við þessar aðstæður verður að líta svo á að ákærði hafi kosið að nýta sér ekki rétt sinn til að vera viðstaddur aðalmeðferð málsins og jafnframt til að neita að gefa skýrslu um sakarefnið.

Samkvæmt b. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, skal þess gætt að hver sá sem borinn er sökum um refsiverðan verknað fái nægan tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína. Ákærði naut sem fyrr greinir aðstoðar verjanda að eigin vali, sem gætti hagsmuna hans við meðferð málsins. Þá verður að telja að ákærði hafi haft nægan tíma til að undirbúa vörn sína í málinu, sem er einfalt í sniðum, frá því hann tók afstöðu til sakargifta 18. febrúar 2016 þar til aðalmeðferð fór fram 1. mars sama ár. Að framansögðu virtu var vörn ákærða ekki áfátt. Loks er haldlaus fullyrðing ákærða um að huglæg afstaða héraðsdómara til ákærða hafi ráðið ákvörðun hans um að láta aðalmeðferð fara fram án nærværu hans. Samkvæmt þessu er ómerkingarkröfu ákærða hafnað.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Aðalsteinn Árdal Björnsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 398.307 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2016.

                Mál þetta, sem dómtekið var 1. mars síðastliðinn, var höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Fyrri ákæran er gefin út 22. desember 2015 á hendur ákærða, Aðalsteini Árdal Björnssyni, kt. [...], Rauðavaði 13, Reykjavík, „fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2015:

I.

                Þjófnaði:

1.       Aðfaranótt mánudagsins 29. júní í verslun Iceland við Vesturberg 76 í Reykjavík, stolið matvöru að verðmæti kr. 1.996.

2.       Sunnudaginn 19. júlí í verslun Cintamani við Bankastræti 5 í Reykjavík, stolið úlpu að verðmæti kr. 98.990.

3.       Þriðjudaginn 11. ágúst í verslun Bónuss við Fiskislóð 2 í Reykjavík, stolið matvöru samtals að verðmæti kr. 3.783.

4.       Sunnudaginn 23. ágúst inni á Center Hótel Plaza við Aðalstræti 4 í Reykjavík, stolið fjórum listaverkum, samtals að verðmæti kr. 540.000.

5.       Laugardaginn 19. september í félagi við óþekktan mann í verslun Krónunnar við Nóatún 17 í Reykjavík, stolið matvöru og snyrtivöru, samtals að verðmæti kr. 6.269.

6.       Föstudaginn 25. september í félagi við A í skartgripaverslun Jens við Grandagarð 31í Reykjavík, stolið tveimur veskjum, samtals að verðmæti kr. 19.200

                Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Gripdeild, með því að hafa þriðjudaginn 21. júlí, í verslun Icewear við Þingholtsstræti 2 í Reykjavík, tekið fatnað að verðmæti kr. 39.980 og hlaupið út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar.

Telst brot þetta varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

III.

Umferðarlagabrot með því að hafa þriðjudaginn 1. september ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 115 ng/ml, metamfetamín 25 ng/ml og metýlfenídat 15 ng/ml) austur Bústaðaveg í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn.

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006 og 3. gr. laga nr. 24/2007.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.“

                Síðari ákæran er gefin út af lögreglustjóra 19. janúar síðastliðinn gegn ákærða, „fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2015:

I.

Þjófnað og líkamsárás með því að hafa að kvöldi föstudagsins 24. júlí í verslun Nettó í Mjódd í Reykjavík stolið matvöru samtals að verðmæti kr. 5.431 og er B, kt. [...], starfsmaður verslunarinnar, hafði afskipti af honum slegið hann í andlitið með frosinni nautalund með þeim afleiðingum að hann hlaut tannarliðhlaup.

Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 217. gr. og 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

II.

Þjófnað með því að hafa þriðjudaginn 15. desember í verslun Debenhams í Smáralind í Kópavogi, stolið vörum að verðmæti kr. 11.666.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði hefur játað sök samkvæmt fyrri ákærunni nema hvað hann neitar sök í 3. lið I. kafla og í II. kafla. Þá neitar hann sök samkvæmt síðari ákærunni. Ákærði krefst sýknu af þeim ákæruliðum þar sem hann neitar sök en vægustu refsingar vegna hinna. Þess er krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin laun verjenda á rannsóknarstigi og fyrir dómi.

II

                Nú verða málavextir reifaðir varðandi þá ákæruliði þar sem ákærði neitar sök. Að öðru leyti er vísað til ákærunnar, sbr. 3. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008.

                Með bréfi 3. september 2015 kærðu Hagar hf. ákærða til lögreglu fyrir að stela matvöru úr versluninni sem í 3. lið I. kafla fyrri ákærunnar getur og á þeim degi sem þar er nefndur. Í kærunni segir að náðst hafi myndir af ákærða stela kjöti að verðmæti 3.783 krónur. Starfsmenn verslunarinnar hafi þekkt ákærða, enda sé hann þekktur vegna fyrri mála. Lögreglumenn þekktu einnig ákærða á myndunum. Hann var yfirheyrður og kvaðst vera maðurinn á myndunum en hann myndi ekki eftir þessu þar eð hann hefði verið í rugli á þessum tíma. Ákærða var bent á að á myndunum sæist hann greinilega taka kjöt í versluninni og setja í hliðartösku. Hann ítrekaði að hann myndi ekki eftir þessu, „en ég er ekki að rengja þetta“, er haft eftir honum.

                Málavextir varðandi II. kafla fyrri ákærunnar eru þeir að nefndan dag var tilkynnt um þjófnað úr versluninni sem í ákæru getur. Tveir lögreglumenn fóru að svipast um eftir þjófnum og komu að ákærða í miðbænum þar sem hann var með flíkur úr versluninni. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð. Við yfirheyrslu hjá lögreglu viðurkenndi hann að hafa tekið flíkurnar.

                Málavextir varðandi fyrri kafla síðari ákærunnar eru þeir, samkvæmt lögregluskýrslu, að brotaþoli, sem var öryggisvörður í versluninni, hafði afskipti af ákærða nefndan dag vegna þess að hann hafði ekki greitt fyrir súkkulaðistykki. Ákærði skilaði þá súkkulaðinu og ætlaði út en brotaþoli vildi kanna hann nánar og kom við bringu hans. Þar fann hann eitthvað hart viðkomu. Í því tók ákærði fram frosið kjötstykki og barði brotaþola í andlitið. Brotaþoli leitaði á slysadeild og samkvæmt vottorði þaðan bar hann þá áverka er í ákæru getur. Ákærði var yfirheyrður af lögreglu og neitaði sök. Hann kvaðst hafa ætlað að kaupa súkkulaðið en hefði verið að kanna hvað kjötið kostaði. Þá neitaði hann að hafa barið brotaþola.

                Málavextir varðandi síðari kafla síðari ákærunnar eru þeir samkvæmt lögregluskýrslu að öryggisverðir töldu ákærða hafa stolið varningi í versluninni og höfðu samband við lögreglu. Ákærði var yfirheyrður af lögreglu og kvaðst hafa verið að skoða jólagjafir og máta föt.

III

                Ákærði kom fyrir dóm 18. febrúar síðastliðinn og tók afstöðu til ákæruefnanna eins og að framan var rakið. Þá var ákveðin aðalmeðferð 1. mars. Ákærði mætti ekki við aðalmeðferðina og vissi verjandi hans ekki hvar hann var. Dómarinn ákvað að aðalmeðferðin færi engu að síður fram og var málið dómtekið að henni lokinni.

                Lögreglumaður sem rannsakaði málið sem 3. ákæruliður I. kafla fyrri ákærunnar fjallar um, staðfesti skýrslu sína. Hann kvað kæru hafa komið frá versluninni ásamt myndaupptöku. Hann kvaðst hafa þekkt manninn á myndunum sem ákærða. Lögreglumaðurinn staðfesti að ákærði hefði þekkt sjálfan sig á myndunum en borið fyrir sig minnisleysi. Þá bar hann að margir aðrir lögreglumenn hefðu þekkt ákærða á myndunum.

                Lögreglumaður, sem hafði afskipti af ákærða vegna ákæruefnis II. kafla fyrri ákærunnar, bar að hafa handtekið ákærða í miðbænum og hefði hann haft undir höndum flíkur sem stolið var í versluninni sem nefnd er í ákærukaflanum. Ákærði var handtekinn og viðurkenndi að hafa stolið flíkunum.

                Annar lögreglumaður, sem hafði afskipti af ákærða vegna ákæruefnis II. kafla fyrri ákærunnar, bar að hafa handtekið ákærða í miðbænum og hefði hann haft undir höndum flíkur sem stolið var í versluninni sem nefnd er í ákærukaflanum. Ákærði var handtekinn og viðurkenndi að hafa stolið flíkunum, að því er lögreglumanninn minnti.

                Brotaþoli, sem var öryggisvörður í versluninni sem um getur í fyrri kafla síðari ákærunnar, kvaðst hafa séð ákærða stinga súkkulaðistykki inn á sig í þetta skipti. Hann kvaðst hafa stöðvað hann á leiðinni út er hann var kominn fram hjá kössunum. Þar hefði ákærði tekið frosna nautalund, sem hann var með inni á sér, og slegið hann í andlitið með henni. Brotaþoli kvað tennur hafa losnað og ein væri ekki í lagi í dag.

                Starfsmaður verslunarinnar, sem um getur í fyrri kafla síðari ákærunnar, kvað brotaþola hafa kallað á sig nefnt kvöld. Þá hafi tveir menn gengið fram hjá kössunum og hefðu þeir verið stöðvaðir. Annar þeirra hefði rétt brotaþola súkkulaðistykki og gosflösku en brotaþoli hefði ýtt í peysu mannsins að framan og spurt „hvað er þetta?“ Þá hefði maðurinn tekið fram frosna nautalund og slegið brotaþola í andlitið. Starfsmaðurinn kvað sig og annan starfsmann hafa lagt ákærða í gólfið við innganginn og haldið honum þar til lögreglan kom. Starfsmaðurinn kvaðst hafa séð ákærða ganga fram hjá kössum án þess að greiða fyrir vörurnar og eins hefði hann séð hann taka þær upp úr vösunum. Hann kvað brotaþola hafa verið með brotna tönn og blóðugan eftir höggið.

                Öryggisvörður í versluninni, sem nefnd er í II. kafla síðari ákærunnar, kvað upplýsingar hafa borist um grunsamlegan mann þennan dag. Öryggisverðir hefðu fundið manninn í myndavél og séð að hann hefði stungið hlut í vasa. Síðan hefði hann farið á bak við vegg og þaðan hefði horfið pakkning. Þá hefði hann farið og tekið tvennar gallabuxur og farið í mátunarklefa en komið til baka með einar. Öryggisvörðurinn kvað starfsfélaga sinn hafa komið á móti manninum fyrir utan hlið þar sem öryggisbúnaður hefði gefið hljóðmerki. Farið hefði verið með manninn í herbergi og þar hefði verið rætt við hann og hefði hann neitað öllu. Hann hefði hins vegar verið í gallabuxum undir eigin buxum. Þá hefði hann tekið upp fjölnotaverkfæri og eins hefði hann verið með gleraugnahreinsisett. Lögreglan hefði svo komið og haft tal af manninum.

                Annar öryggisvörður bar að aðrir öryggisverðir hefðu komið auga á grunsamlegan mann í versluninni. Hann kvaðst hafa skoðað mynd og strax borið kennsl á ákærða og þekkt hann af þjófnuðum. Hann kvaðst hafa séð ákærða beygja sig niður með pakkningu en þegar hann rétti sig upp hefði pakkningin verið horfin. Hann kvaðst hafa farið að svipast um með starfsfélaga sínum. Þá hefði komið fram að ákærði hefði farið inn í mátunarklefa með tvennar gallabuxur en aðeins komið út með einar. Öryggisvörðurinn kvaðst hafa séð ákærða koma að dyrum og þar hefði vöruverndarbjalla hljómað. Hann kvaðst hafa haft tal af ákærða sem hefði framvísað pakkningu og sagt að þetta hefðu verið mistök. Hann kvaðst hafa beðið ákærða að koma með sér enda vitað að hann hefði tekið fleiri hluti. Í bakpoka ákærða fannst fjölnotaverkfæri sem hann hafði stolið og notað til að klippa þjófavörn af buxum er hann hafði líka stolið og var í, undir eigin buxum. Loks hefði ákærði stolið gleraugnahreinsisetti. Ákærði hefði gefið þá skýringu að hann væri illa haldinn af athyglisbresti.

                Læknirinn sem ritar framangreint vottorð staðfesti það. Hann kvað áverka brotaþola geta stafað af því að hann hefði verið barinn með frosnu kjötstykki.

IV

                Ákærði verður sakfelldur fyrir þau brot í fyrri ákærunni þar sem hann hefur játað sök fyrir dómi enda er játning hans í samræmi við gögn málsins. Brot ákærða eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

                Ákærði neitar sök í tveimur ákæruliðum fyrri ákærunnar. Hér að framan var gerð grein fyrir framburði lögreglumanns sem rannsakaði mál samkvæmt fyrri liðnum. Þá kemur fram hér að framan að starfsmenn verslunarinnar og lögreglumenn þekktu ákærða á myndbandi vera að stela matvöru eins og hann er ákærður fyrir. Ákærði þekkti einnig sjálfan sig á myndbandinu hjá lögreglu og rengdi ekki það sem á hann var borið en kvaðst ekki muna eftir þessu. Samkvæmt þessu telur dómurinn sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi framið brot það sem honum er gefið að sök í þessum ákærulið og verður hann sakfelldur fyrir það. Brot hans er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

                Ákærði neitar einnig sök í II. kafla fyrri ákærunnar. Tveir lögreglumenn hafa komið fyrir dóm og borið að hafa handtekið ákærða með þýfið og að hann hafi viðurkennt þjófnaðinn fyrir þeim. Samkvæmt þessu telur dómurinn sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi framið brot það sem honum er gefið að sök í þessum ákærulið og verður hann sakfelldur fyrir það. Brot hans er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

                Í fyrri kafla síðari ákærunnar er ákærði ákærður fyrir þjófnað og líkamsárás. Tvö vitni hafa komið fyrir dóm og borið að ákærði hafi stolið varningi eins og rakið var. Þá hafa þau einnig borið að hann hafi slegið öryggisvörð í andlitið með frosinni nautalund. Framburður vitnanna og læknisvottorð sanna að öryggisvörðurinn fékk við þetta áverka eins og greinir í ákærunni. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir það sem honum er gefið að sök í þessum ákærukafla og eru brot hans rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

                Í síðari kafla síðari ákærunnar er ákærði ákærður fyrir þjófnað. Tvö vitni hafa komið fyrir dóm og borið að ákærði hafi stolið varningi eins rakið var. Með framburði þeirra, gegn neitun ákærða, er sannað að hann hafi gerst sekur um þjófnað eins og hann er ákærður fyrir og er brot hans rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

Ákærði er fæddur í maí 1978. Hann á að baki sakaferil frá árinu 1998. Hefur hann nítján sinnum verið dæmdur fyrir brot á almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Hefur ákærði verið dæmdur til langrar fangelsisvistar og jafnan þurft að afplána eftirstöðvar reynslulausnar vegna rofa á skilyrðum þeirra. Hann var síðast dæmdur í 6 mánaða fangelsi 11. október 2013. Refsing ákærða verður ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga. Er refsing hans hæfilega ákveðin 10 mánaða fangelsi og er þá haft í huga að flest brot hans eru smávægileg. Ákærði var sviptur ökurétti ævilangt með dómi 9. febrúar 2011 og verður sú svipting áréttuð.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað eins og í dómsorði segir og málsvarnarlaun verjanda síns og verjanda síns á rannsóknarstigi, en launin eru ákvörðuð með virðisaukaskatti í dómsorði.

                Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, Aðalsteinn Árdal Björnsson, sæti fangelsi í 10 mánuði.

                Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.              

                Ákærði greiði 172.398 krónur í sakarkostnað, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 245.520 krónur og verjanda síns á rannsóknarstigi, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 102.300 krónur.