Hæstiréttur íslands

Mál nr. 362/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 7

 

Föstudaginn 7. júlí 2006.

Nr. 362/2006.

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði

(Arnþrúður Þórarinsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála, en gæsluvarðhaldinu var markaður skemmri tími.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. júlí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. júlí 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 29. ágúst 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Fallist er á að fyrir hendi sé sterkur grunur um að varnaraðili hafi átt þátt í broti gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brotið gegn 164. gr., sbr. 20. gr. sömu laga. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms þykir skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fullnægt til að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi, sem verður markaður sá tími sem í dómsorði greinir.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 15. ágúst 2006 kl. 16.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. júlí 2006.

Lögreglustjórinn í Hafnarfirði hefur krafist þess með beiðni dagsettri í dag að X, [kt. og heimilisfang] verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 29. ágúst nk. kl. 16:00.

Vísað er til krafna lögreglustjórans í Hafnarfirði um gæsluvarðhald dags. 22. og 28 júní sl., sbr. úrskurði í málum héraðsdóms Reykjaness R-113 og 121/2006, sbr. dóm Hæstaréttar í máli 346/2006. 

Lögregla byggir á því að við rannsókn málsins hafi grunur um aðild kærða að málunum enn styrkst, þrátt fyrir neitun hans á sakargiftum. Framburður kærða hafi verið einkar ótrúverðugur, með hliðsjón af framburði meðkærðu, vitna og annarra gagna sem lögregla hefur aflað við rannsókn málsins. Þannig liggi fyrir í málinu upplýsingar aðila sem fóru með kærða að B að morgni 21. júní, um að kærði hafi verið með í för, yfirgefið bifreiðina er að húsinu var komið og hent grjóti inn um rúðu hússins og meðkærði hafi skotið af haglabyssu inn í húsið. Framburður aðila sem var inni í húsinu styrki framangreint. Upplýsingar um símtöl kærða fyrir verknaðinn sýni að hann hefur ítrekað verið í sambandi við íbúa hússins áður en farið er á staðinn. 

Hvað varðar síðara tilvikið, þá hafi kærði verið stöðvaður einn við akstur þeirrar bifreiðar er sást við húsið og molotov kokteilnum var hent úr einungis tólf mínútum eftir að tilkynnt var um verknaðinn og var hann þá stöðvaður á mótum C og D.

Sterkur rökstuddur grunur sé fyrir hendi þess efnis að kærði hafi átt þátt í broti gegn 211., sbr. 20. gr. og brotið gegn 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum, en brotið getur varðað ævilöngu eða 16 ára fangelsi. Verið sé að rannsaka aðild kærða að skotárás og íkveikju í raðhúsi að B í A. Hinn sterki grunur um ásetning kærða til að brjóta gegn þeim aðilum sem voru í húsnæðinu hefði styrkst enn frekar við síðara brotið. Telur lögreglustjóri brotið vera þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Er vísað til alls framangreinds, gagna málsins og ákvæða 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 kröfunni til stuðnings.

Af gögnum málsins er ljóst að fyrir liggja vitnisburðir um að kærði hafi verið einn þriggja sem farið hafi að umræddu húsi að B þegar skotárásin var gerð. Kærði hefur neitað aðild að skotárásinni en framburður hans hefur verið ótrúverðugur og breytilegur. Með vísan til framanritaðs verður fallist á það með lögreglu að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi átt þátt í broti gegn 211., sbr. 20. gr., og að sá grunur hafi styrkst við frekari rannsókn málsins.

Þá hafa vitni lýst því að degi síðar hafi sprenging orðið við umrætt hús og eldur þá gosið upp. Vitni hefur lýst því að maður hafi kastað logandi hlut í rúðu á húsinu og hafa vitni borið að á sama tíma hafi tiltekinni bifreið verið ekið á miklum hraða burt frá húsinu en einn karlmaður verið í bifreiðinni. Fyrir liggur að kærði var stöðvaður á umræddri bifreið 12 mínútum eftir að vitni tilkynntu um atburðinn. Kærði hefur neitað að hafa kastað bensínsprengjunni umrætt sinn en hefur ekki upplýst hver gæti hafa verið á ferð í bifreiðinni, sem ekið var frá húsinu tólf mínútum áður en kærði var stöðvaður í henni. Í ljósi alls framanritaðs þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi valdið framangreindri sprengingu og eldi í umræddu raðhúsi og verður að telja að af því hafi skapast almannahætta þótt betur færi en á horfðist. Eins og málið liggur nú fyrir verður að telja að kærði sé undir sterkum rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um brot gegn 164. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Með vísan til alls framanritaðs er fallist á það með lögreglustjóranum í Hafnarfirði að almannahagsmunir krefjist þess að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi. Að þessu virtu og með vísan til ákvæða 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 þykir verða að taka kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

          Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 þriðjudaginn 29. ágúst 2006.