Hæstiréttur íslands

Mál nr. 263/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómari
  • Vanhæfi


Miðvikudaginn 10

 

Miðvikudaginn 10. júní 2009.

Nr. 263/2009.

Hjörtur J. Hjartar

(Sigmundur Hannesson hrl.)

gegn

Árna B. Sigurðssyni og

FS 13 ehf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

 

Kærumál. Dómarar. Vanhæfi.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu H um að dómari málsins viki sæti. Ekki var talið að sýnt hefði verið fram á atvik sem valdið geta því að héraðsdómarinn yrði talinn vanhæfur til að fara með málið vegna ákvæðis g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari viki sæti í máli sem varnaraðilar hafa höfðað gegn sóknaraðila og fleirum. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að dómaranum verði gert að víkja sæti í málinu.  Þá krefst hann  kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Það veldur ekki vanhæfi héraðsdómara að hann hafi áður dæmt í máli er varðaði launakröfu sóknaraðila á hendur varnaraðilanum  FS 13 ehf. og að málsatvik er dómari þurfti að taka afstöðu til við úrlausn þessa fyrra máls kunni að hafa þýðingu við úrlausn þess máls sem nú er til meðferðar fyrir dómi. Verður ekki fallist á að sýnt hafi verið fram á atvik, sem valdið geta því að héraðsdómarinn verði talinn vanhæfur til að fara með málið vegna ákvæðis g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2009.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 4. maí sl., er höfðað af Árna B. Sigurðssyni, Fellsmúla 11, Reykjavík og FS13 ehf., Fellsmúla 11, Reykjavík á hendur Ágústi Þórhallssyni, Háabergi 17, Hafnarfirði, Hirti J. Hjartar, Fáfnisnesi 1, Reykjavík, Standhól ehf., Stórhöfða 23, Reykjavík, Róbert Melax, Bretlandi og KPMG hf. Borgartúni 27, Reykjavík, með stefnu birtri 23. apríl 2008.

Dómkröfur stefnenda eru þessar:

Að öllum stefndu verði gert að greiða stefnanda FS13 ehf., in solidum, € 2.312.398,24 (evrur),- auk dráttarvaxta skv.  1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu  sem hér segir;  af € 50.492,41 frá 12.12.2007 til 17.12.2007 en af €  520.798,61 frá þ.d. til 19.12.2007 en af € 658.815,32 frá þ.d. til 07.01.2008 en af € 1.312.398,24 frá þ.d. til þingfestingardags en af € 2.312.398,24 frá þ.d. til greiðsludags.

Að stefnda KPMG hf. verði gert að greiða stefnanda FS13 ehf. € 307.840,-   og kr. 2.940.000,- ásamt með dráttarvöxtum frá 1.1.2008  til greiðsludags.

Að stefndu öðrum en Róberti Melax gert að greiða stefnanda Árna B. Sigurðssyni €1.000.000,- en til vara skaðabætur að álitum ásamt dráttarvöxtum skv. 1.mgr. 6.gr. laga nr. 38/2001 frá 1.1.2008 til greiðsludags en til þrautavara að viðurkennd verði bótaskylda stefndu, in solidum, gagnvart stefnanda.

Að stefnda Róberti Melax verði gert að greiða stefnanda Árna B. Sigurðssyni €2.169.000,- en til vara skaðabætur að álitum ásamt dráttarvöxtum skv. 1.mgr.6.gr. laga nr. 38/2001 frá 1.1.2008 til greiðsludags en til þrautavara að viðurkennd verði bótaskylda stefnda gagnvart stefnanda.

Að auki er í öllum tilvikum krafist málskostnaðar úr hendi stefndu skv. framlögðum málskostnaðarreikningi sem byggist á gjaldskrá lögmanns stefnanda.

Stefndu krefjast allir sýknu í máli þessu og málskostnaðar, auk þess sem stefndi KPMG hf. krefst frávísunar málsins.

Í þessum þætti málsins er tekin til úrlausnar krafa stefnda, Hjartar J. Hjartar, að Sigrún Guðmundsdóttir dómari víki sæti í máli þessu, sbr. g-lið 5. gr. laga um meðferð einkamála sbr. 6. gr. s.l. Stefnendur krefjast þess að kröfu stefnda, Hjartar, verði hrundið og að þeim verði tildæmdur málskostnaður. Aðrir stefndu hafa ekki látið ágreining þennan til sín taka.

Krafan byggir á því að dómari málsins Sigrún Guðmundsdóttir hafi einnig dæmt í málinu E-03998/2008:  Hjörtur J. Hjartar gegn FS13 ehf. hinn 11. desember sl.  Með því hafi dómarinn orðið vanhæf til að dæma í þessu máli.

Stefndi tekur fram að þrjú mál á milli málsaðila séu til meðferðar hjá dómstólum.  Það er málið nr. S-1489/2008 sem er til meðferðar í Hæstarétti, þar sem óskað var eftir leyfi til áfrýjunar þess í mars s.l., en svar hefur ekki borist við þeirri beiðni.  Í öðru lagi launamálið sbr. málið nr. E-3998/2008, en því máli hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands.  Svo bótamálið þ.e. mál þetta sem er nr. E-3100/2008. 

Eins og að framan greinir byggir stefndi, Hjörtur, á því að dómarinn hafi einnig dæmt málið nr. E-3998/2008. Með dómi í því máli hafi dómarinn gert sig vanhæfa. Sérstaklega er vísað til eftirfarandi ummæla í forsendum dómsins: „Enginn fótur mun hafa verið fyrir þessari tilkynningu og vegna þessarar athafnar stefnanda hefur verið gefin út ákæra á hann og er hún nú til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur“ og  „varðandi laun frá 1.-12. desember þá athugast að stefnandi hélt sjálfur um stjórnvölinn hjá stefnda og var því í lófa lagið að greiða sér laun fyrir þetta tímabil, hafi hann á annað borð litið svo á að hann ætti rétt til launa.“

Stefnendur telja að krafa stefnda hafi ekki við rök að styðjast.  Þeir benda á að um allt önnur atvik sé deilt í málum þessum. Annars vegar sé um að ræða launamál og hins bótamál og ekki hafi í launamálinu verið tekin afstaða til annars en launadeilunnar. Dómarinn verði ekki sjálfkrafa vanhæfur þótt hann dæmi í málum sömu aðila. Máli sínu til stuðnings er vísað til dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 467/1994, 191/1999, 513/2008 og 305/2000.

Niðurstaða.

Dómari gætir að hæfi sínu af sjálfsdáðum.  Í 5. gr. laga nr. 91/1991 segir í g-lið að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru tilvik eða aðstæður sem fallin eru til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.

Mál það sem hér er til umfjöllunar er skaðabótamál. Í stefnu segir:  „Gagnvart stefnda Hirti er byggt á því, í fyrsta lagi, að hann hafi tekið þátt í hinni refsiverðu háttsemi með Ágústi með því að standa að gerð hinna fölsuðu yfirlýsinga um lögmæti hluthafafundar og nýrrar stjórnar félagsins til fyrirtækjaskrár RSK og í öðru lagi, með því að  nýta sér hina ólöglegu skráningu hjá RSK, m.a. eftir að fyrirtækjaskrá RSK hafði afturkallað skráninguna og lagt bann við notkun skráningarvottorðs,  til þess að svipta FS13 ehf. og FS13 d.o.o. fjármunum sínum og færa þá að stærstum hluta til félaga í eigu stefnda Róberts Melax, Standhóls ehf. og Ernir d.o.o. Þá hafi Hjörtur ennfremur valdið stefnanda fjártjóni með því að samþykkja f.h. félaganna ólögmætar riftunaryfirlýsingar Standhóls ehf. og danska félagsins 3D Tech ap/s til þess eins að semja um sömu hagsmuni í nafni króatísks félags í eigu Róberts Melax sem starfsmaður þess félags. Að auki hafi hann selt eigur FS13 d.o.o og tekið sér þá fjármuni og ýmislegt lausafé s.s. tölvur, síma og fleira til eigin brúks án heimildar. Þá hafi Hjörtur ekki skilað bókhaldi félaganna, hann haldi því enn frá stefnanda með tilheyrandi afleiðingum fyrir hann.“

Mál það er dæmt var 11. desember sl. varðaði launakröfu stefnda, Hjartar á hendur stefnanda FS13 ehf. fyrir desember 2007 til febrúar 2008. Því er sakarefni þessara mála ekki það saman. Að mati dómarans er fráleitt að með tilgreindum ummælum í forsendum dómsins frá 11. desember 2008 hafi dómarinn orðið vanhæf til að dæma mál þetta. Það er mat dómarans að ekki séu fyrir hendi þau atvik eða aðstæður sem leitt geti til þess að óhlutdrægni hennar verði með réttu dregið í efa. Krafa stefnenda um málskostnað bíður efnisdóms.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari víkur ekki sæti í málinu.

Málskostnaðarkrafa stefnenda bíður efnisdóms.