Hæstiréttur íslands

Mál nr. 283/2005


Lykilorð

  • Nálgunarbann
  • Hótanir


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. janúar 2006.

Nr. 283/2005.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

X

(Jón Magnússon hrl.)

 

Nálgunarbann. Hótanir.

X var gefið að sök að hafa í tvö skipti brotið gegn nálgunarbanni, með því að hafa á almannafæri nálgast eða sett sig í samband við fyrrverandi sambúðarkonu sína annars vegar og sambúðarmann hennar hins vegar. Í báðum tilvikum greindi aðila á um hvernig fundum þeirra bar saman umrædd sinn og gátu þau vitni sem til var að dreifa ekki borið um þann þátt málsins. Gegn neitun X var talið ósannað með hliðsjón af 1. mgr. 48. gr. laga um meðferð opinberra mála að X hafi brotið gegn 232. gr. almennra hegningarlaga í umrædd sinn og var hann sýknaður af þeim ákæruliðum. Þá var X einnig gefið að sök brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa haft í hótunum við nágranna sinn. X neitaði sök og stóðu orð X gegn orðum nágrannans um það hvort X hafi hótað honum á þann hátt sem lýst var í ákæru. Gegn neitun X og með hliðsjón af fyrrnefndu ákvæði var talið ósannað að X hafi gerst sekur um brotið og var hann því sýknaður.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 14. júní 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms og þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð.

I.

          Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2004 var ákærða gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, í níu mánuði þannig að honum var bannað að koma á eða í námunda við heimili A og B. Jafnframt var bann lagt við því að hann veitti þeim eftirför, nálgaðist þau á almannafæri, hringdi í þau eða setti sig á annan hátt í samband við þau. Með úrskurði sama dómstóls 20. september 2004 var nálgunarbannið framlengt í sex mánuði. Var ákærða meðal annars bannað að veita þeim eftirför, nálgast þau á almannafæri sem nemur 200 metrum og setja sig á annan hátt beint í samband við þau. Ákærði undi úrskurðinum að þessu leyti. Í tilefni af kæru vegna sakarefnisins í I. og III. kafla þeirrar ákæru sem mál þetta fjallar um var ákærða gert með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2004 að sæta gæsluvarðhaldi til 3. janúar 2005 og undi hann úrskurðinum. Gæsluvarðhaldið var framlengt þann dag með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur til 24. janúar 2005. Ákærði kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem vísaði málinu frá héraðsdómi með dómi réttarins 7. janúar í máli nr. 7/2005 á þeirri forsendu að gæsluvarðhaldsúrskurður 9. desember 2004 hafi ekki lengur verið í gildi og ákærða sleppt úr haldi þegar krafan um framlengingu gæsluvarðhaldsins var kynnt ákærða.

II.

           Í I. kafla ákæru er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn áðurgreindu nálgunarbanni 20. september 2004 með því að hafa 9. nóvember 2004 „nálgast A ... , á Neshaga þrátt fyrir að honum væri bannað að nálgast hana á almannafæri“ og þannig gerst sekur um brot gegn 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 94/2000.

          Málavöxtum er rétt lýst í þessum þætti málsins í héraðsdómi að öðru leyti en því að ákærði kvaðst hafa hitt A á horni Neshaga og Hjarðarhaga en ekki Neshaga og Hofsvallagötu.

          Ákærða og A greinir á um hvernig og hvar fundum þeirra bar saman umrætt sinn. A hefur haldið því fram að ákærði hafi hlaupið á eftir sér þar sem hún gekk eftir Neshaga í átt að Hofsvallagötu. Henni hafi brugðið mjög og hlaupið yfir götuna og yfir á gangstéttina á móti. Hann hafi hlaupið á eftir henni og tekið í barnavagninn sem hún var með og sest þarna niður á hækjur sér og sagst vilja tala við hana, en ef hún vildi það ekki myndi hann byrja að ofsækja hana á ný. Hún hafi beðið hann að fara. Hún hafi orðið mjög hrædd og farið að gráta af því að hann hafi verið svo „rosalega ógnandi“. Þá hafi einhver kona komið og spurt hvort hún ætti að ganga með henni í burtu. Konan hafi talað ensku og erfitt hafi verið að skilja hana. Konan hafi samt skynjað að eitthvað væri að. Ákærði kveður þessa frásögn A ranga. Hann hefur skýrt svo frá að hann hafi setið á hækjum sér við gatamót Nesvegar og Hjarðarhaga. Hann hafi verið að bíða þess að hitta vin sinn sem eigi söluturn á Hjarðarhaga þar skammt frá en jafnframt fylgst með ferðum strætisvagns, sem hann ætlaði að fá far með ef vagninn kæmi áður en hann hitti þennan vin. Áður en til þess kom hafi A komið gangandi fyrir hornið og farið að skamma hann fyrir að hafa komið henni í fjárhagsvandræði. Aðspurður fyrir dómi hvort hann hafi skynjað að A hafi verið í uppnámi sagði hann að auðvitað hafi henni ekki liðið vel vegna deilna um umgengni hans við börn þeirra A. Í héraðsdómi er rakinn framburður vitnisins S, en hún kveðst hafa séð ákærða og A á Nesvegi þetta sinn. Er ljóst af framburði hennar að þegar hún sá til þeirra hafi ákærði setið á hækjum sér. Hún gat ekki lýst hvar á Nesveginum þau voru, en kveðst hafa stöðvað bifreið sína þar sem henni virtist maðurinn vera að „trufla þessa konu.“ Af framburði hennar fyrir dómi má ráða að henni hafi virst A vera hrædd. Þegar hún hafi komið að þeim hafi þau bæði verið „í sjokki“. Hún hafi svo farið með A á brott frá staðnum.

          Fyrir Hæstarétti lýsti ákæruvaldið því yfir að á því væri byggt að ákærði hefði brotið nálgunarbannið með því að setja sig í samband við A greint sinn. Eins og rakið hefur verið ber ákærða og A ekki saman um hvernig fundum þeirra bar saman og hvort þeirra hafi átt frumkvæði að samskiptum þeirra. Ákærði hefur staðfastlega neitað að hafa sett sig í samband við A á þann hátt sem honum er að sök gefið. Eina vitnið í málinu sem borið gat um samskipti þeirra er S. Hún kvað ákærða hafa setið á hækjum sér er hún sá fyrst til þeirra, en ljóst er af framburði hennar að hún var ekki vitni að því er fundum þeirra bar saman. Er því ósannað gegn neitun ákærða og með hliðsjón af 1. mgr 48. gr. laga nr. nr. 19/1991 að hann hafi brotið nálgunarbannið með því að setja sig í samband við A. Verður ákærði samkvæmt framansögðu sýknaður af ákæruefninu í þessum kafla ákæru.

III.

          Ákærða er gefið að sök í II. kafla ákæru brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa 30. nóvember 2004 í sameign hússins Baldursgötu [...] í Reykjavík hótað P með orðum og ógnandi framkomu og meðal annars öskrað að honum að hann myndi „bíta af honum andlitið“. Málavöxtum og framburði vitna er réttilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ákærði hefur staðfastlega neitað sök. Segist hann hafa hitt P í kjallara hússins við íbúð sína og átt þar í orðaskiptum við hann. Vel hafi mátt vera að honum hafi legið hátt rómur en hann hafi hvorki haft í hótunum við P né ógnað honum. Neitaði hann að hafa viðhaft þau ummæli sem tilgreind eru í ákæru. Eins og fram kemur í héraðsdómi hefur P borið að ákærði hafi haft í hótunum við sig í þvottahúsi sameignarinnar, meðal annars með þeim orðum sem tilgreind eru í ákæru, og ógnað sér með þeim hætti að hann hafi óttast um velferð sína og heilbrigði. Þá hefur sambýliskona P sagt að hún hafi heyrt ógnandi rödd ákærða í kjallaranum, en hún kveðst ekki hafa heyrt orðaskil. Standa þannig orð ákærða gegn orðum P um það hvort ákærði hafi hótað P á þann hátt sem lýst er í ákæru. Gegn neitun ákærða og með hliðsjón af 1. mgr 48. gr. laga nr. 19/1991 er ósannað að ákærði hafi gerst sekur um það brot sem hann er sakaður um í II. kafla ákæru. Verður hann því sýknaður af því broti.

IV.

          Í III. kafla ákæru er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn áðurgreindu nálgunarbanni 20. september 2004 með því að hafa 9. desember sama ár „nálgast B ... , við leikskólann Laufásborg við Bergstaðastræti þrátt fyrir að honum væri bannað að nálgast hann á almannafæri“ og þannig gerst sekur um brot gegn 232. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 94/2000.

          Málavöxtum er rétt lýst í þessum þætti málsins í héraðsdómi. Ákærði kveðst  hafa gengið umrætt sinn frá heimili sínu, Baldursgötu [...], áleiðis að geðdeild Landspítalans, en þar hafi hann ætlað að biðja um innlögn. Hafi hann haft meðferðis tösku ef svo færi að hann yrði lagður inn. Er ákærði var handtekinn var hann samkvæmt munaskýrslu lögreglu með tösku meðferðis. Hann hefur lýst atburðum á þann veg að hann hafi verið á gangi eftir gangstéttinni til austurs hægra megin á Bergstaðastræti þegar hann hafi allt í einu séð B með dóttur sína við Laufásborg sömu megin götunnar. B hafi verið búinn að taka upp símann og sagt við lögreglu að ákærði væri að elta sig. Ákærði kveðst því hafa tekið þá ákvörðun að hlaupa ekki í burtu heldur bíða komu lögreglunnar, enda hefði það litið mjög illa út fyrir sig að vera á hlaupum þarna í hverfinu og vera handtekinn eins og hann væri á flótta. Hann hafi þá kallað: „B hættu þessari vitleysu, ég er ekki að elta þig.“ B hefur aftur á móti borið að hann hafi séð til ferða ákærða hinum megin götunnar og hafi hann verið að ganga í öfuga átt við sig. Vitnið K, sem stóð hjá B innan við hliðið á Laufásborg þegar hann talaði við lögreglu, hefur staðfest að ákærði hafi staðið utan við hliðið sömu megin götunnar og þeir B á meðan B hringdi. Ákærði hafi verið frekar rólegur og ekkert hafst að. Kveðst K hafa heyrt ákærða segja  eitthvað á þessa leið við B: „Ég er ekki að angra neinn“.

          Ljóst er samkvæmt vætti K að hann sá ekki hvernig fundum þeirra ákærða og B bar saman. Öðrum vitnum var ekki til að dreifa. Sú frásögn ákærða að hann hafi umrætt sinn verið á venjulegri vegferð frá heimili sínu, sem er skammt frá Laufásborg, að Landspítalanum hefur ekki verið hrakin. B er einn til frásagnar um að ákærði hafi gengið yfir götuna í átt til sín og elt sig. Frásögn ákærða um að hann hafi heyrt B hringja í lögreglu og kosið að bíða hennar í stað þess að hlaupast á brott er ekki ósennileg. Þegar framangreint er virt þykir gegn neitun ákærða og með hliðsjón af 1. mgr 48. gr. laga nr. 19/1991 ósannað að ákærði hafi nálgast eða sett sig í samband við B með þeim hætti að hann hafi brotið nálgunnarbannið. Er ákærði því sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er að sök gefin  í III. kafla ákæru.

          Þar sem ákærði hefur verið sýknaður af öllum sakargiftum í málinu ber að greiða allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara yfir sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um réttargæslulaun í héraði og málsvarnarlaun á báðum dómstigum, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvalds.

Allur sakarkostnaður málsins í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, samtals 1.023.941 króna, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, í héraði og málsvarnarlaun hans fyrir Hæstarétti, samtals 962.385 krónur.     

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 17. maí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 27. desember 2004 á hendur X kt. [...], [...], Reykjavík fyrir eftirgreind hegningarlagabrot framin í Reykjavík á árinu 2004:

I.

Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa þriðjudaginn 9. nóvember nálgast A, kt. [...], á Neshaga þrátt fyrir að honum væri bannað að nálgast hana á almannafæri samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. september 2004 og dómi Hæstaréttar Íslands frá 23. sama mánaðar.

II.

Hótanir, með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 30. nóvember í sameign hússins nr. [...] við Baldursgötu hótað P, kt. [...], með orðum og ógnandi framkomu og meðal annars öskrað að honum að hann myndi ,,bíta af honum andlitið”, en þetta var til þess fallið að valda P ótta um heilbrigði eða velferð sína.

III.

Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa fimmtudaginn 9. desember nálgast B, kt. [...], við leikskólann Laufásborg við Bergstaðastræti þrátt fyrir að honum væri bannað að nálgast hann á almennafæri samkvæmt ofangreindum úrskurði héraðsdóms og dómi Hæstaréttar, sbr. I. lið.

Eru brotin samkvæmt liðum I og III talin varða við 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 94/2000 og brot samkvæmt lið II við 233. gr. almennra hegningarlaga.

             Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

             Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af refsi­kröfu ákæruvalds og að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

Fimmtudaginn 9. desember 2004 krafðist lögreglustjórinn í Reykjavík þess að ákærða yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c- og d-liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Um grundvöll var m.a. vísað til þeirra atvika er áttu sér stað á Neshaga í Reykjavík 9. nóvember 2004 og við leikskólann Laufásborg 9. desember 2004, en bann hafi verið lagt við því með úrskurði héraðsdóms 20. september 2004 og dómi Hæstaréttar Íslands 23. september 2004 að ákærði kæmi í námunda við heimili A og B, veitti þeim eftirför, nálgaðist þau á almannafæri eða setti sig í samband við þau. Héraðsdómur féllst á kröfu lögreglustjóra og var ákærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 3. janúar 2005.

I.

Þriðjudaginn 9. nóvember 2004 kl. 12.07 var óskað eftir aðstoð lögreglu að Neshaga við Hofsvallagötu vegna gruns um brot gegn nálgunarbanni. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að er lögreglu hafi borið að garði hafi A verið mjög miður sín, en hún hafi greint frá því að hún hafi hitt ákærða á þessum stað. Hann hafi meinað henni að halda för sinni áfram og gert henni ljóst að ef hún gerði það myndi hann taka til við að skemma eigur og ofsækja fólk er tengdist henni. Hafi A beðið fólk er hafi átt leið framhjá um hjálp en enginn hafi aðstoðað hana fyrr en S hafi komið henni til hjálpar. Er þess getið að lögregla hafi ekið A að heimili hennar að Boðagranda 3 í Reykjavík. Hafi A verið með kornabarn með sér í vagni. Sambýlismaður A, B hafi tekið á móti henni á heimili hennar. Í niðurlagi skýrslunnar er tekið fram að A hafi upplýst lögreglu um að vinur ákærða væri við vinnu í Ísbúðinni við Hagamel og að ákærði hafi sennilega verið á leið þangað er fundum þeirra hafi borið saman. 

A greindi frá því að hún hafi verið á gangi á Neshaga að Hofsvallagötu þegar hún hafi heyrt fótatak fyrir aftan sig. Hafi hún litið við og séð ákærða fyrir aftan sig. Hafi hún öskrað þar sem henni hafi brugðið svo við það og í framhaldinu farið yfir götuna og yfir á gangstétt hinu megin. Á leið yfir götuna hafi ákærði gripið í barna­vagninn og beðið A um að stoppa. Hafi hún farið yfir á gangstéttina en þar hafi ákærði sagt við hana að hann vildi fá að ræða við hana í fimm mínútur. Hún hafi sagt honum að hún vildi ekki ræða við hann en ákærði hafi þá sagt að ef hún vildi ekki hlusta á hann þá myndu hefndaraðgerðir hans byrja aftur og hafi hann tekið fram að hann væri búinn að gera nýjan ,,hefndarlista”. Hafi ákærði síðan sest niður við hús­vegg og sagt henni að hann myndi ekki gera henni neitt heldur þyrfti hún eingöngu að hlusta á hann. A hafi þá greint ákærða frá því að hún ætlaði að ganga áfram en ákærði þá sagt við hana að hún ætti eftir að sjá eftir því ef hún myndi ekki ræða við hann. Hafi hún þá farið að gráta og fengið mikinn höfuðverk. Hafi hún leitt hugann að því að hrópa á hjálp er bifreið hafi stöðvað skammt frá og út úr henni komið kona sem gengið hafi til þeirra. Konan hafi spurt A hvort ekki væri allt í lagi. Kvaðst A hafa verið grátandi og fyrst svarað konunni því að allt væri í lagi en síðan hafi hún sagt svo ekki vera. Konan hafi þá sagt A að þær skyldu ganga saman í burtu. Þær hafi síðan gengið af stað í átt að Hofsvallagötu. Ákærði hafi þá kallað á eftir henni hvort hún ætlaði virkilega að ganga í burtu og A þá snúið sér við og grátandi beðið ákærða þess lengstra orða að hætta. Á horni Neshaga og Hofsvallagötu hafi A hringt í sambýlismann sinn, B og sagt honum frá því er átt hafi sér stað. Í framhaldinu hafi B hringt í lögreglu og beðið um að farið yrði á vettvang. Stuttu síðar hafi lögregla komið og rætt við A. Eftir það hafi kona sú er aðstoðað hafi A haldið á brott og lögregla ekið sér heim. Kvaðst A hafa upplifað varnaðarorð ákærða sem hótun í sinn garð. Hafi hún orðið skelfingu lostin og brugðið mikið. Hafi hún um þetta leyti verið mjög hrædd við að rekast á ákærða og verið á varðbergi eftir að hann hafi losnað úr fangelsi.

Ákærði kvaðst hafa verið staddur á horni Neshaga og Hofsvallagötu þriðjudaginn 9. nóvember 2004. Hafi ákærði verið á leið í ísbúðina við Hjarðarhaga, en vinur ákærða reki þá ísbúð. Er ákærði hafi komið þangað hafi klukkan verið um 11.40 og ekki verið búið að opna söluturninn. Hafi ákærði ákveðið að bíða þess að ísbúðin yrði opnuð en að öðrum kosti hafi ákærði ætlað að taka sér far með strætis­vagni nr. 6 sem æki þar framhjá. Hafi ákærði sest niður á horni Neshaga og Hjarðar­haga um kl. 11.46. Skyndilega hafi A komið fyrir hornið með barnavagn. Hafi hún séð ákærða og sagt snöggt ,,hæ” við ákærða. Hafi ákærði sagt ,,hæ” á móti en ákærði hafi algerlega ,,frosið” þar sem hann hafi setið. A hafi stöðvað um tveim metrum frá ákærða og sagt við hann í reiðilegum tón ,,ertu að reyna að gera mig gjaldþrota”. Hafi ákærði spurt A hvað hún væri að meina. Eftir skýringar hennar hafi A sagt að ákærði væri búinn að eyðileggja líf hennar. Hafi hún borið við að hún væri með mikinn höfuðverk. Allan þann tíma er þau hafi ræðst við hafi ákærði setið upp við vegg og hafi hann horft yfir á Hótel Sögu allan tímann. Hafi verið mikið áfall fyrir hann að hitta A en hún hafi borið því við að hún væri að flýta sér heim þar sem börnin hennar væru að bíða eftir henni. Hafi ákærði þá lýst yfir að það væru ákveðnir hlutir sem hann yrði að segja henni frá. Hafi ákærði sagt henni að hann hafi ekki gert sér grein fyrir hversu vondur hann hafi verið við hana á meðan þau hafi búið saman. Á meðan þau hafi ræðst við hafi A aldrei reynt að fara í burtu og hafi ákærði ekki reynt að halda henni á staðnum. Síðan hafi kona stöðvað bifreið sína í nágrenni við þau. Hafi hún rætt við A og síðan boðið henni að ganga með henni í burtu sem þær hafi og gert. Hafi ákærði kallað á eftir A að hann myndi aldrei hætta að elska hana. Í framhaldinu hafi ákærði staðið á fætur og gengið í átt að Hjarðarhaga, í burt frá A. Kvaðst ákærði telja að hann hafi fengið taugaáfall í kjölfar þess að hitta A. Hafi hann síðan farið inn í ísbúðina og þar fengið að hringja í vin sinn en hann hafi beðið hann um að sækja sig. Það hafi gengið eftir og hafi hann ekið ákærða til Sigurðar Arnar Hektorssonar geðlæknis, sem hafi gert ráðstafanir til að ákærði fengi róandi töflur. Eftir að hafa tekið inn róandi lyf hafi ákærða verið ekið á lögreglustöð þar sem hann hafi rætt við Sigurð Sigurbjörnsson rann­sóknarlögreglumann en hann hafi greint Sigurði frá því er átt hafi sér stað. Eftir samtal við Sigurð hafi vinur ákærða ekið honum upp á Vog þar sem ákærði hafi hitt ráðgjafa, en ákærði hafi óttast að hann myndi ,,falla” aftur við þessa atburði. Ákærði hafi síðan farið í áfengismeðferð 20. nóvember 2004. Ákærði kvaðst virða það nálgunarbann er hann hafi verið settur í gagnvart A og kvað sér ljóst að slíkt bann hafi verið í gildi 9. nóvember 2004. Ákærði kvaðst ekki kannast við að A hafi verið miður sín eða farið að gráta á Neshaganum, að hann hafi meinað henni að halda för sinni áfram er þau hafi hist eða að hafa hótað henni að ákærði myndi skaða hana eða skemma eigur hennar og ofsækja fólk er tengdist henni ef hún héldi áfram. Ákærði kvaðst þó telja að henni hafi fundist óþægilegt að hitta ákærða á Neshaganum.

Við meðferð málsins hjá lögreglu og fyrir dómi var ákærði inntur eftir bréfi er barst Sigurði Sigurbjörnssyni rannsóknarlögreglumanni, en bréfið er dagsett 10. nóvember 2004 og ber með sér undirritun ákærða. Kvaðst ákærði vera þunglyndis­sjúklingur, manio depressívur og hafa gripið til þess að læknisráði að skrifa sig frá reiði sem byggi með sér. Hafi ákærði merkt að sú aðferð gagnaðist sér. Bréf það er hann hafi ritað og merkt væri Sigurði hafi hann ritað í kjölfar þess að hann hafi hitt A á Neshaganum en hann hafi greint það að hann væri byrjaður að veikjast aftur eftir að hafa hitt hana. Bréfið væri í raun þvæla og vitleysa, ritað í reiði. Ákærði hefði í raun ekkert á móti B og fjölskyldu hans, þó svo ýmis atriði í bréfinu gætu bent til annars.

S kvaðst hafa verið á leið heim til sín 9. nóvember 2004 og ekið um Neshaga. Hafi hún séð mann sitjandi á hækjum sér upp við vegg og með hendur krosslagðar og hafi maðurinn verið að tala við konu sem hafi verið með barnavagn. Hafi S ekið framhjá fólkinu og haldið áfram í átt að Seltjarnarnesi. Hafi hún haft það á tilfinningunni að eitthvað væri ekki í lagi hjá fólkinu og því hafa ákveðið að snúa við og kanna frekar með hagi þess. Hafi hún stöðvað bifreið sína og gengið til fólksins. Konunni með barnavagninn hafi verið mjög brugðið og maðurinn enn setið á hækjum sér. Hafi hann verið óhugnanlegur í útliti, órakaður og illa til hafður. Maðurinn og konan hafi bæði litið til S þegar hún hafi gengið til þeirra og hafi S innt þau eftir því hvernig þau hefðu það. Því næst hafi hún lagt til við konuna að þær myndu ganga saman á brott og hafi konan gengið með henni af stað. Í því hafi maðurinn staðið á fætur og sagt eitthvað við konuna, sem þá hafi stöðvað. Eitthvað hafi konan sagt við manninn en S lagt til að þær myndu halda áfram. Maðurinn hafi þá staðið kyrr. Hafi S innt konuna eftir því hvaða maður væri þarna á ferð og hvort hann væri maður hennar. Því hafi konan svarað neitandi en borið að hún væri hrædd um að hann myndi skaða hana eða einhvern í hennar fjölskyldu. S kvaðst hafa gengið í átt að pósthúsi við Hofsvallagötu en þar hafi konan tekið upp síma og hringt í manninn sinn. Síðan hafi konan rétt S símann en maður konunnar hafi farið þess á leit við S að hún myndi fylgja konunni heim, en þangað myndi hann koma. Ekki kvaðst S hafa veitt athygli hvað orðið hafi um manninn á Neshaganum en þó telja að hann hafi horft á þær álengdar. Stuttu síðar hafi lögregla komið en í framhaldi af því hafi S skilið við konuna og haldið á brott. Síðar hafi hún fengið bakþanka þar sem hún hafi ekki gefið lögreglu upp nafn sitt og síma. Þess vegna hafi hún snúið til baka og gefið lögreglu upp símanúmer sitt. S kvað það greinilegt að konan hafi verið mjög hrædd við þann mann sem við hana hafi rætt.

B kvaðst hafa verið í vinnu þriðjudaginn 9. nóvember 2004 þegar sambýliskona hans, A, hafi hringt. Hafi B merkt að hún hafi verið í mjög miklu uppnámi en hún hafi verið hálf kjökrandi. Hafi hún sagt sér frá því að ákærði hafi nálgast hana þar sem hún hafi verið stödd á Neshaga við Hofsvallagötu. Þá hafi hún nefnt að kona hafi komið henni til hjálpar. Hafi B í kjölfarið rætt við konuna í síma. Eftir það hafi hann hringt í lögreglu og óskað eftir því að hún færi á vettvang. Því næst hafi hann farið heim til sín og A komið í fram­haldinu í fylgd lögreglumanna. Hafi A verið orðin talsvert rólegri er heim hafi verið komið.

Lögreglumaðurinn Guðmundur J. Guðmundsson kvaðst hafa sinnt útkalli lögreglu 9. nóvember 2004 að Neshaga og ritað frumskýrslu lögreglu vegna málsins. Hafi A verið ,,í sjokki” er lögregla hafi komið að og því hafi tekið talsverðan tíma fyrir lögreglu að átta sig á því hvað hafi gerst. Er allt hafi legið skýrt fyrir hafi ákærði verið farinn á brott. Þar sem A hafi verið mjög hrædd hafi verið ákveðið að aka henni heim til sín.

Sigurður Sigurbjörnsson rannsóknarlögreglumaður kvaðst kannast við að hafa fengið í hendur handritað bréf frá ákærða. Hafi bréfið borist á lögreglustöð og það farið um bréfabók embættisins. Þá kvaðst Sigurður hafa tekið lögregluskýrslu af ákærða 9. desember 2004. Þá hafi ákærði verið miður sín og ekki að sér eins og venjulega. Kvaðst Sigurður muna eftir því að ákærði hafi komið á lögreglustöðina 9. nóvember 2004. Hafi ákærði lýst því að hann hafi fyrr þann dag rekist á A á Neshaga. Hafi ákærði viljað gera grein fyrir því að hann hafi óvart rekist á A. Hafi hann virst hálf ,,sjokkeraður”. 

 

Ákærða var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2004, að kröfu lögreglu gert að sæta nálgunarbanni skv. heimild í a-lið 110. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. 3. gr. l. nr. 94/ 2000.  Úrskurðarorðið er svo­hljóðandi: ,,Varnaraðila, X, kt. [...], er gert að sæta nálgunar­banni í 6 mánuði frá og með uppkvaðningu úrskurðar þannig að lagt er bann við því að X komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], og B, kt. [...], [...], Reykjavík, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis G, mælt frá miðju hússins.  Einnig er lagt bann við því að X komi á eða í námunda við Y og Z, bæði í Reykjavík, í sama tíma, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis Y og Z, mælt frá miðju húsanna. Þá er X bannað að veita A og B eftirför, nálgast þau á almannafæri sem nemur 200 metrum, senda tölvupóst, bréf, böggla og aðrar póst- eða boðsendingar á heimili þeirra, vinnustaði og skóla, eða hringja í heima-, vinnu- og farsíma þeirra, þar með talið sending SMS skeyta og skila­boð á talhólf eða sím­svara téðra númera, eða setja sig á annan hátt beint í samband við þau.” Úrskurður héraðsdóms var kærður til Hæstaréttar Íslands, sem með dómi 23. september 2004 í málinu nr. 387/2004 staðfesti úrskurð héraðsdóms að öðru leyti en því að fellt var úr gildi bann við því að ákærði kæmi á eða í námunda við Y og Z í Reykjavík.

Ákærði og A eru ein til frásagnar um hvernig fundum þeirra bar saman á Neshaganum 9. nóvember. Af framburðum þeirra og atvikum virðist þó mega slá föstu að tilviljun öðru fremur virðist hafa ráðið því að leiðir þeirra skárust þennan dag. S átti leið um Neshaga og veitti ákærða og A athygli er hún ók fram hjá þeim. Þó svo hún hafi ekki þekkt þau var fas þeirra hins vegar með þeim hætti að hún ákvað að snúa bifreið sinni við og taka þau tali. Hefur hún lýst því að ákærði hafi setið á hækjum sér hjá A og að A hafi verið hrædd við hann og óttast að hann myndi vinna henni eða fjölskyldu hennar mein. Þá hefur lögreglumaðurinn Guðmundur J. Guðmundsson borið að A hafi verið ,,í sjokki” og mjög hrædd er lögregla hafi komið til hennar. Ákærði hefur áður verið úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart A, en það var áður gert með úrskurði héraðsdóms 20. janúar 2004. Ákærði braut það nálgunarbann og var með dómi héraðsdóms 7. júní 2004 dæmdur í fangelsi m.a. vegna brota á ákvæðum 232. gr. laga nr. 19/1940. Ákærða mátti því vera ljóst að honum væri allsendis óheimilt að nálgast A á almannafæri sem næmi 200 metrum, svo sem úrskurður héraðsdóms frá 20. september kveður á um. Bar honum því skilyrðislaust að halda rakleitt á brott frá henni er hann varð ferða hennar var á Neshaga. Það gerði hann hins vegar ekki og braut gegn ákvæðum 232. gr. laga nr. 19/1940 með því að vera í slíkum návistum við hana er áður er lýst og gera tilraunir til að ræða við hana. Verður hann því sakfelldur samkvæmt I. kafla ákæru.

 

II.

Þriðjudaginn 30. nóvember 2004 var óskað eftir aðstoð lögreglu að Baldurs­götu [...] í Reykjavík, en tilkynnandi gat þess að maður hafi lokað nágranna sinn inni í þvottahúsi og að hann hefð í hótunum við hann. Í frumskýrslu kemur fram að á vettvangi hafi lögregla rætt við P og J, en þau hafi gert lögreglu grein fyrir því að ákærði hafi króað P af í kjallara hússins og hótað honum. Er því lýst að lögregla hafi því næst farið niður í kjallara til að hafa tal af ákærða. Millihurð hafi verið neðst í stigaganginum við kjallarann. Er lögreglumenn hafi verið að koma niður stigann hafi millihurðin verið rifin upp og hafi ákærði komið til móts við lögreglu á ógnandi hátt með klaufhamar í hægri hendi. Hafi hann haldið hamrinum þannig að klaufin hafi snúið niður. Hafi lögreglumenn spurt ákærða að því af hverju hann tæki þannig á móti lögreglu og hafi ákærði þá sagt að hann hafi átt von á P. Hafi ákærði haldið til baka í átt að herbergi sínu og hafi hann lagt hamarinn frá sér á ganginn upp við herbergishurð sína. Með ákærða hafi verið kunningi hans T. Ákærði hafi ekki viljað kannast við að hafa átt í deilum við P og ekki viljað tjá sig um málið að öðru leyti. T hafi borið að ,,einhver læti” hafi átt sér stað en að hann hafi ekki séð hvað hafi gerst, þó svo hann hafi vitað að ákærði og P hafi deilt vegna innbrots hjá ákærða.

P kvað sér hafa borist upplýsingar um að brotist hafi verið inn hjá ákærða og að munum hafi verið stolið. Ákærði hafi kallað til lögreglu vegna innbrotsins. Hafi P ætlað í þvottahús í kjallara hússins til að aðgæta með hvort þvotti hafi verið stolið í innbrotinu. Hafi P beðið konu sína, J að standa frammi á stigapalli og fylgjast með er P færi niður þar sem hann hafi óttast ákærða. Íbúar að Baldursgötu [...] hafi átt í deilum við hann, en ákærði hafi haft í hótunum við íbúa ásamt því að vera ógnandi í framkomu. Er P hafi verið kominn inn í þvottahúsið hafi ákærði komið og lokað hann þar inni og haldið hurðinni fastri. Hafi P margbeðið ákærða um að opna hurðina. Hafi ákærði haft í stöðugum hótunum við P um líkamsmeiðingar á meðan hann hafi haldið hurðinni, öskrað á hann og verið afar ógnandi. Eftir stutta stund hafi ákærði opnað hurðina en staðið í vegi fyrir P og meinað honum að komast úr kjallaranum. Er P hafi ætlað að reyna að komast fram hjá ákærða hafi ákærði öskrað tryllingslega að hann myndi ,,bíta af honum andlitið” og drepa hann ef hann snerti hann. Á meðan á þessu hafi staðið hafi J heyrt öskrin og hrópin úr kjallaranum og þá hringt á lögreglu. P hafi síðan komist fram hjá ákærða, farið upp stigann og inn í íbúð sína. Ekki kvaðst P hafa fengið áverka við atganginn en mikill ótti hafi gripið hann sem og eiginkonu hans. Þá kvað P kunningja ákærða hafa verið með ákærða, en hann hafi þó ekki tekið þátt í atburðarásinni. Upphaf alls hafi mátt rekja til þess að brotist hafi verið inn hjá ákærða og ákærði kennt P um. Læsingar á bakdyrum hafi verið lélegar og ákærði viljað gera P ábyrgan fyrir að hafa ekki skipt um læsingu þar sem eiginkona P hafi verið formaður húsfélagsins að Baldursgötu [...]. P kvaðst viss um að samferðamaður ákærða hafi orðið vitni að allri atburðarásinni þar sem P hafi stöðugt litið yfir til hans og séð hann allan tímann. P kvað ákærða aldrei fyrr hafa hótað sér með þeim hætti er varð í kjallaranum þrátt fyrir að hann hafi lengi verið mjög ógnandi í garð P. Ákærði hafi hins vegar áður lagt hendur á íbúa í húsinu en í kjölfar þess og deilna á milli ákærða og íbúa hafi verið reynt að koma ákærða út úr húsinu. Ákærði hafi einhverju sinni hafa hótað eiginkonu sinni, J, því að láta hana eða fjölskyldu hennar aldrei í friði.

Ákærði kvað ýmsum verðmætum hafa verið stolið úr íbúð sinni að Baldurs­götu [...] í Reykjavík þriðjudaginn 30. nóvember 2004. Hafi ákærði viljað gera J, formann húsfélagsins, ábyrga fyrir því að ekki hafi verið gert við læsingu á bakhurð, en læsingin hafi átt sinn þátt í því að innbrotið hafi átt sér stað. Hafi ákærði árangurslaust gert tilraunir til að fá lykil að bakhurð og önnur tiltekin atriði lagfærð sem húsfélagið hafi átt að standa fyrir. Lögregla hafi verið kölluð til vegna verknaðarins og hafi ákærði og P átt orðaskipti í það sinnið í viðurvist lögreglu. Kvaðst ákærði ekki hafa átt önnur samskipti við ákærða þennan dag en þau er lögregla hafi orðið vitni að. Þá kvað ákærði það rangt að hann hafi hótað P með nokkru móti þennan dag og aldrei lýst því yfir að hann myndi ,,bíta af honum andlitið”. Er undir ákærða var borið að lögreglumenn hafi mætt honum í stigaganginum með hamar í hendi kvaðst hann hafa verið að negla plötu fyrir glugga í herbergi hjá sér eftir innbrotið. Hafi hann heyrt að útidyrum hafi verið lokað og talið að kunningi sinn hafi verið að koma inn í húsið. Hafi hann hlaupið fram og ætlað að leita upplýsinga um hvort kunninginn hafi orðið var grunsamlegra mannaferða.  

J kvaðst hafa verið heima hjá sér ásamt eiginmanni sínum greint sinn. Hafi hún heyrt að einhverjum munum hafi verið stolið frá ákærða þennan dag og að ákærði hafi kært verknaðinn til lögreglu. P hafi það kvöldið farið að athuga með þvott í þvottahúsi í kjallara hússins að Baldursgötu og beðið J um að vera frammi á stigaganginum á meðan hann væri í þvottahúsinu þar sem P hafi óttast að rekast á ákærða. Hafi henni fundist P vera lengi í kjallaranum og því gengið niður tröppurnar. Hafi hún þá heyrt í ákærða úr kjallaranum og hafi hann verið æfur af reiði og öskrað á P og hafi verið hótun í röddinni. Ekki hafi hún þó greint orðaskil. Ekki hafi hún heyrt í P. Hafi hún ekki þorað að fara alla leið niður í þvottahúsið þar sem hún hafi verið með þriggja ára gamlan son sinn hjá sér. Hafi hún því gripið til þess ráð að hringja í lögreglu og óska eftir aðstoð hennar, en síma hafi hún haft í hendi. Síðan hafi hún farið upp í íbúð og stuttu síðar hafi P komið upp. Hafi hann verið skelfingu lostinn og allur hvítur í andliti. Fljótlega eftir það hafi lögregla komið á staðinn. Í kjölfar þessara atburða hafi hún og P fært þvotta­aðstöðu úr kjallaranum af ótta við ákærða. Breytingar hafi síðan orðið er ákærði hafi yfirgefið húsið.

Lögreglumaðurinn Halldór Valek Jóhannsson ritaði frumskýrslu lögreglu vegna málsins og sinnti útkalli að Baldursgötu [...]. Kvaðst hann einnig hafa sinnt útkalli lögreglu að Baldursgötunni fyrr þann sama dag, en ákærði hafi þá tilkynnt um innbrot. Er lögregla hafi komið um kvöldið hafi verið rætt við P og J, en P hafi þá verið kominn úr kjallaranum. Hafi þau lýst því að P hafi farið í kjallarann til að aðgæta með þvott. Ákærði hafi þá ráðist að P með hótunum, lokað hann af og staðið í vegi fyrir að hann kæmist á brott. Í viðtölum við lögreglu hafi P virst hræddur og skelkaður vegna þeirra atburða er átt hafi sér stað. Er lögregla hafi farið niður til ákærða eftir viðtal við kærendur hafi ákærði komið út úr herbergi sínu með klaufhamar í hægri hendi. Hafi hann verið ör og ógnandi. Hafi lögreglumenn spurt hann af því af hverju hann tæki þannig á móti lögreglu og ákærði svarað því til að hann hafi átt von á öðrum. Rætt hafi verið stuttlega við félaga ákærða, en hann hafi borið að hann hafi ekki viljað skipta sér af málinu. 

T kvaðst hafa verið heima hjá ákærða að Baldursgötu [...] 30. nóvember 2004. Lögregla hafi verið kvödd til vegna innbrots hjá ákærða. Hafi T orðið vitni að því að ákærði og P hafi rætt saman. Ekki hafi hann þó heyrt orðaskil þar sem hann hafi verið úti í garði á þeim tíma en hann hafi ekki viljað skipta sér af málefnum ákærða. Hafi honum verið kunnugt um erjur ákærða við íbúa. Ekki kvaðst T hafa orðið vitni að hótunum af hálfu ákærða í garð P eða orðið þess var að ákærði hafi staðið í vegi fyrir að P kæmist á brott.

 

Lögregla var í tvígang kölluð að Baldursgötu [...] í Reykjavík þriðjudaginn 30. nóvember 2004, í síðara skiptið í tilefni þess að tilkynnt hafði verið um að maður hefði lokað nágranna sinn inni í þvottahúsi og hefði í hótunum við hann. Hefur lögreglu­maðurinn Halldór Valek Jóhannsson borið um að hafa hitt P er lögregla kom á staðinn og að P hafi virst hræddur og skelkaður vegna þeirra atburða er átt hafi sér stað. Framburður P hefur eindregið verið á þá lund að ákærði hafi lokað sig af í kjallaranum og staðið í vegi fyrir að hann kæmist á brott. Hafi hann ógnað honum með þeim hætti að P hafi óttast um velferð sína og heilbrigði. Þá hefur J borið um að hún hafi staðið vörð um för P í kjallarann og kallað til lögreglu eftir að hafa heyrt ógnandi öskur ákærða úr kjallaranum. Með vísan til framburða P, J og þess fram­burðar lögreglu­mannsins Halldórs Valek Jóhannssonar að P hafi virst hræddur og skelkaður er lögregla kom á vettvang og þess framferðis ákærða að hann tók á móti lögreglu það kvöld með hamar í hendi þykir ekki varhugavert að slá föstu að ákærði hafi ógnað P þetta kvöld í sameign hússins þannig að P hafi haft réttmæta ástæðu til að óttast um heilbrigði sitt og velferð. Ekkert hald er í framburði vitnisins T um þessi atriði, en vitnið virðist hafa leitast við að tengjast málinu sem minnst. Verður ákærði samkvæmt þessu sakfelldur samkvæmt II. kafla ákæru og eru brot hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða. 

 

III.

Fimmtudaginn 9. desember 2004 kl. 09.10 var lögregla kvödd að leikskólanum Laufásborg við Bergstaðastræti í Reykjavík. Fram kemur í frumskýrslu lögreglu að B hafi óskað eftir aðstoð lögreglu vegna ákærða. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi ákærði staðið utan við Bergstaðastræti 56. Hafi hann lýst yfir að hann hafi verið að bíða eftir lögreglu, þar sem B hafi hringt á lögreglu. Jafnframt hafi hann greint frá því að hann hafi verið á leið upp á Landspítala og gengið Bergstaðastrætið. Hafi hann skyndilega séð B hinu megin götunnar. Hafi hann gengið til hans, þar sem greinilegt hafi verið að B hafi verið að hringja á lögreglu. Hafi ákærði kallað að B skyldi ekki vera að þeirri vitleysu að hringja á lögreglu. Skömmu síðar hafi lögregla komið. Fram kemur að lögregla hafi einnig rætt við B. Að viðræðum lögreglu við ákærða og B lokinni hafi ákærði verið færður á lögreglustöð.

Lúðvík Ólafsson lækningaforstjóri var boðaður á lögreglustöð til að skoða ákærða í kjölfar handtökunnar. Í minnisblaði lækningaforstjórans til lögreglu kemur fram að ákærði hafi lýst því að heilsa sín væri fín á þeirri stundu er þeir hafi rætt saman. Hafi hann ekki talið sig finna til veikindaeinkenna og telja sig frískan, en á þeim tíma er hann hafi ritað bréf til Sigurðar Sigurbjörnssonar lögreglumanns hafi honum fundist hann vera aðeins undir streituálagi og fundist hann vera að fara í maníu um það leyti. Engin merki hafi komið fram hjá ákærða um að hann væri haldinn alvarlegum geðsjúkdómi, engin merki hafi verið um geðrof en hann hafi verið svolítið hátt uppi en alls ekki í meiriháttar maníu. Viðtalið hafi verið samfellt og hafi hann verið sjálfum sér samkvæmur að því marki sem minni hans hafi leyft. Í niðurlagi bréfsins lýsir Lúðvík því yfir að hann telji ákærða sakhæfan.

B kvaðst hafa verið á leið með dóttur sína á leikskólann umrætt sinn. Hafi hann lagt bifreið utan við Laufásborg upp við þá gangstétt sem liggi við skólann. Er hann hafi komið út úr bifreiðinni hafi hann séð svartklæddan mann á gangi hinu megin götunnar. Hafi hann séð að þar hafi ákærði verið á ferð. Er ákærði hafi orðið B var hafi hann snúið við frá gönguátt sinni og gengið í sömu átt og B. Hafi B þá flýtt sér með dóttur sína inn fyrir hlið og inn á lóð leikskólans um leið og hann hafi hringt á lögreglu. Er inn á lóð skólans hafi verið komið hafi ákærði verið kominn yfir götuna og staðið rétt hjá honum. Ákærði hafi verið ógnandi og kallað til B hvort hann væri hræddur við sig og af hverju B væri ,,svona heimskur að standa í þessu”. Í því hafi maður er B hafi kannast við komið með dóttur sína inn um hlið leikskólans. Hafi B fengið hann til að vera hjá sér þar til lögregla kæmi. Ákærði hafi verið dágóða stund við hliðið en síðan farið yfir götuna og staðið þar á gangstétt þar til lögregla hafi komið. B kvaðst ekki hafa farið rakleitt inn í leikskólann með dóttur sína þar sem hann hafi óttast að ákærði myndi skemma bifreið sína, en ákærði hafi ítrekað áður skorið á dekk bifreiðar hans. Tók B fram að hann hafi deginum á undan fengið aðvaranir frá lögreglu um að gæta sín á ákærða. Kvaðst B við það hafa orðið var um sig, en hann hafi upplifað sig hræddan við ákærða.

Ákærði var fyrst yfirheyrður af lögreglu þennan sama dag. Við þá yfirheyrslu kvaðst hann ekki vilja tjá sig um málið að svo stöddu þar sem hann fyndi það hjá sér að hann væri að byrja að veikjast. Hann væri með ofsakvíða og ætti erfitt með að anda. Lýst hann því þó að hann hafi verið á leið á Landspítala er atburðir við Laufásborg hafi átt sér stað, en hann hafi ætlað að óska eftir því að vera lagður inn á geðdeild. Ákærði gaf skýrslu um málið 15. desember 2004, á meðan hann sat í gæsluvarðhaldi. Einnig gaf hann skýrslu við aðalmeðferð málsins. Ákærði kvaðst umrætt sinn hafa farið af heimili sínu á Baldursgötu [...] og ætlað að fara upp á Landspítala. Hafi hann gengið Bergstaðastrætið í austur og á gangstétt hægra megin. Er hann hafi komið að leik­skólanum við Laufásborg hafi hann þurft að fara út af gangstéttinni vegna bifreiða sem lagt hafi verið upp á gangstéttina. Í sömu andrá hafi hann séð B við leikskólann og hafi B um leið orðið ákærða var og tekið upp síma og farið að hringja. Kvaðst ákærði hafa verið viss um að B hafi verið að hringja á lögreglu og því sagt við B ,,B ég er ekki að elta þig”. Í stað þess að hlaupa í burtu og láta líta þannig út að hafa verið að nálgast B af ásettu ráði hafi ákærði ákveðið að bíða eftir lögreglu. Hafi hann allan tímann verið mjög rólegur og hafi hann sagt við B að hann þyrfti ekki að vera hræddur við sig. Stuttu síðar hafi komið þar að maður sem B hafi beðið um að bíða hjá sér. Hafi ákærði síðan beðið eftir lögreglunni, sem komið hafi á staðinn skömmu síðar. Ákærði kvað rangt er fram hafi komið hjá B að ákærði hafi farið yfir götuna. Það hafi hann ekki gert þar sem hann hafi komið eftir Bergstaðastrætinu á hægri gangstétt. Kvaðst ákærði hafa orðið veikur eftir að hafa verið fluttur á lögreglustöðina í kjölfar þessara atburða.

K kvaðst hafa ekið barni sínu á leikskólann við Laufásborg að morgni 9. desember 2004. Er hann hafi farið út úr bifreið sinni við leik­skólann hafi hann tekið eftir B þar sem B hafi staðið innan við hlið leikskólans og verið með barn í fangi. Þegar K hafi komið að leikskólanum hafi B beðið K um að vera nálægt sér. Síðan hafi B hringt sennilega í neyðarlínuna og hafi hann heyrt B biðja um aðstoð vegna brots gegn nálgunar­banni. Hafi K þá tekið eftir því að fyrir utan hliðið hafi staðið maður sem hafi hallað sér að hliðinu og snúið sér að B. Hafi maðurinn virst rólegur. B hafi haldið áfram að skýra út aðstæður í síma en í þann mund hafi maðurinn kallað eitthvað eins og ,,ég er ekki að nálgast neinn”. Síðan hafi maðurinn gengið frá hliðinu og út á gangstétt við Bergstaðastrætið. Lögregla hafi síðan komið á staðinn og haft tal af manninum og B, auk þess sem rætt hafi verið við K. K kvað nokkuð ljóst að B hafi verið órólegur vegna mannsins og ítrekað beðið K um að bíða hjá sér. Hafi honum fundist spenna vera í loftinu. 

Lögreglumaðurinn Guðmundur Ingi Rúnarsson staðfesti frumskýrslu lögreglu vegna málsins. Kvað hann B hafa verið óttasleginn er lögreglu hafi borið að garði og augsýnilega mjög brugðið.

Lúðvík Ólafsson lækningaforstjóri staðfesti að hafa skoðað ákærða í fanga­geymslum lögreglu í kjölfar handtöku og að hafa ritað minnisblað til lögreglu vegna þeirrar skoðunar. Hafi hann rætt við ákærða í 30 til 60 mínútur. Hafi sér fundist ákærði vera að fara í maníu er viðtalið hafi átt sér stað, en hann hafi ekki verið í manísku ástandi á meðan á viðtalinu hafi staðið.

 

Í þessum þætti er í upphafi vísað til umfjöllunar um úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2004 og dóm Hæstaréttar Íslands 23. sama mánaðar í I. kafla dómsins. Með sama hætti og þar var rakið verður slegið föstu að ákærða hafi verið ljóst að honum væri óheimilt að nálgast B á almannafæri og að slíkt bann hafi verið gildi 9. desember 2004. Ákærða og B ber ekki fylli­lega saman um hvar ákærði hafi verið staddur á Bergstaðastrætinu er þeir urðu hvors annars varir þennan morgun. B hefur borið að ákærði hafi verið á gangstétt handan götunnar og komið yfir götuna er hann hafi orðið B var. Ákærði hefur á móti borið að hann hafi gengið Bergstaðastrætið til austurs á hægri gangstétt, en orðið að færa sig inn á götuna er hann hafi komið á móts við leikskólann vegna bifreiða er hafi verið lagt upp á gangstétt. Hvað sem þessu líður liggur það fyrir að B hraðaði sér inn um hlið á lóðamörkum leikskólans er hann varð ákærða var. Þá liggur fyrir játning ákærða á að hann hafi þá og í einhvern tíma þar á eftir verið í námunda við hliðið og að hann hafi kallað til B. Var hann í vel innan við 200 metra fjarlægð frá B er lögregla kom á staðinn. Svo sem fyrr var miðað við mátti ákærða vera ljóst að honum væri allsendis óheimilt að nálgast B á almannafæri sem næmi 200 metrum, svo sem úrskurður héraðsdóms frá 20. september kveður á um. Bar honum því skilyrðislaust að halda rakleiðis á brott frá honum er hann varð ferða hans var við leikskólann. Það gerði hann hins vegar ekki og braut gegn ákvæðum 232. gr. laga nr. 19/1940 með því að vera þetta nálægt honum og ávarpa hann. Verður hann því sakfelldur samkvæmt I. kafla ákæru.

 

Ákærði á nokkurn sakaferil að baki.  Hann var dæmdur árið 1992 í 7 mánaða fangelsi, þar af 5 mánaða skilorðsbundið, fyrir skjalafals og fjársvik.  Þá var hann árið 1996 dæmdur í 3ja mánaða fangelsi fyrir líkamsárásir og árið eftir í 2ja mánaða fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni, innsiglisrof, líkamsárás og eignaspjöll. Hann var tvisvar sektaður og sviptur ökurétti árið 1998 fyrir ölvun við akstur og aftur árið 2000. Loks var hann með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2004 dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir skjalafals, líkamsárás, eignaspjöll, hótanir, húsbrot og brot gegn nálgunar­banni.

Í dómi héraðsdóms 7. júní 2004 var í ítarlegri umfjöllun vikið að geðhögum ákærða. Var það niðurstaða úr geðrannsókn eftir nákvæman lestur á gögnum þess máls er þá var til meðferðar, skoðun á sjúkraskrá ákærða og eftir 3 löng viðtöl við hann að hann hafi á mánuðunum á undan ekki verið haldinn geðveiki, andlegum vanþroska eða hrörnun, rænuskerðingu eða öðru samsvarandi ástandi sem hafi gert hann alls ófæran um að stjórna gerðum sínum. Truflanir þær sem ákærði hafi átt við að stríða væru ekki af því tagi að þær kæmu í veg fyrir að viðeigandi refsing gæti borið tilætlaðan árangur. Var niðurstaða héraðsdóms að ákærði væri sakhæfur. Engar slíkar breytingar virðast hafa komið fram sem breyta þessu en Lúðvík Ólafsson lækningaforstjóri, sem skoðaði ákærða 9. desember 2004, hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákærði sé sakhæfur. Verður því við það miðað að svo sé og að ákærði hafi því fyllilega verið ábyrgur gerða sinna í þeim tilvikum þar sem hann hefur verið sakfelldur fyrir brot gegn nálgunar­banni og í því tilviki er hann hefur verið sakfelldur fyrir hótanir. Við ákvörðun refsingar verður til þess litið að ákærði var 7. júní 2004 dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir að hafa nálgast A og B, þrátt fyrir að honum hafi verið það óheimilt samkvæmt úrskurði héraðsdóms. Eru brot þau er hér eru til meðferðar því ítrekuð brot gegn nálgunarbanni, sbr. síðari málsl. 1. mgr. 232. gr. laga nr. 19/1940. Þá verður einnig litið til þess að ákærði var með þeim dómi dæmdur fyrir hótanir gagn­vart A. Framferði ákærða gagnvart A og B var alvarlegt og olli þeim vanlíðan og ótta. Þá verður litið til þess að framferði hans gagnvart P var til þess fallið að valda P ótta um líf sitt og velferð, en ákærði var 7. júní 2004 sakfelldur fyrir líkamsárás gagnvart öðrum íbúa að Baldursgötu [...]. Hafði P því réttmæta ástæðu til að óttast líkamlegt ofbeldi af hálfu ákærða. Með hliðsjón af öllu þessu er refsing hans ákveðin fangelsi í 5 mánuði. Gæsluvarðhald það er ákærði sætti á meðan á rannsókn málsins stóð kemur til frádráttar refsingu.         

 Um sakarkostnað og málsvarnarlaun fer svo sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Katrín Hilmarsdóttir fulltrúi lög­reglu­stjórans í Reykjavík.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 5 mánuði. Til frádráttar refsingu komi 30 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða, frá 9. desember 2004 til 7. janúar 2005.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.