Hæstiréttur íslands

Mál nr. 85/2016

Ákæruvaldið (Einar Tryggvason saksóknari)
gegn
Konstantin Deniss Fokin (Guðrún Björg Birgisdóttir hrl.)

Lykilorð

  • Fjársvik
  • Gæsluvarðhald
  • Upptaka
  • Skaðabætur

Reifun

K var sakfelldur fyrir fjársvik með því að hafa svikið út farmiða í flug á vegum I ehf. með því að gefa upp við greiðslu tveggja flugbókana á vef flugfélagsins, í blekkingarskyni og án heimildar, greiðslukortanúmer sem tilheyrði greiðslukorti annars manns. Við ákvörðun refsingar K var litið til þess að hann átti langan sakarferil að baki og hefði í flestum tilvikum verið um fjármunabrot að ræða. Þá væri ljóst af gögnum málsins að brotavilji K hefði verið einbeittur. Var refsing K ákveðin fangelsi í 6 mánuði en til frádráttar refsingunni kom gæsluvarðahald sem hann hafði sætt vegna rannsóknar þessa máls. Var honum auk þess gert að sæta upptöku á nánar tilgreindum munum og gert að greiða I ehf. 2212,51 evru í skaðabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. janúar 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd og að ákærða verði gert að sæta upptöku á brottfararspjaldi í flug 27. júlí 2015 frá Póllandi til Íslands með viðkomu í Hollandi, beiðnabók frá hótelkeðjunni Hyatt Regency, 243 óútfylltum brottfararspjöldum og 102 farangursmerkimiðum frá ýmsum erlendum flugfélögum og 17 óútfylltum boðsmiðum merktum United.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og að til frádráttar henni komi það gæsluvarðhald sem hann hefur sætt. Þá krefst hann þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi.

Brotaþoli Icelandair ehf. krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða. Jafnframt verður staðfest sú niðurstaða dómsins að til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 28. júlí til 26. ágúst 2015 vegna þeirra brota sem ákæra í þessu máli tekur til. Aftur á móti kemur ekki til frádráttar gæsluvarðhald ákærða frá 6. nóvember 2015, enda er það ekki til komið vegna þeirra brota, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 11. nóvember 2004 í máli nr. 313/2004.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða að gera upptækt brottfararspjald í flug 27. júlí 2015. Jafnframt krefst ákæruvaldið þess að gerð verði upptæk beiðnabók hótels, óútfyllt brottfararspjöld og farangursmiðar erlendra flugfélaga og boðsmiðar í setustofu erlends flugfélags. Til stuðnings kröfunni er vísað til þess að um sé að ræða muni sem hætta þykir á að notaðir verði til brots en eigendur þeirra hafi ekki þekktan dvalarstað á Íslandi, sbr. 1. töluliður 1. mgr. 69. gr. a. og 2. mgr. 69. gr. f. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Af hálfu ákærða er kröfunni ekki mótmælt og við munnlegan flutning málsins var ekki vefengt af hans hálfu að umræddir munir væru í eigu annarra. Samkvæmt þessu er fullnægt lagaskilyrðum fyrir upptökunni og verður krafan tekin til greina.

Ákærði krefst frávísunar einkaréttarkröfu á hendur sér með þeim rökum að krafan sé vanreifuð. Á þetta verður ekki fallist enda er krafan studd viðhlítandi gögnum. Verður héraðsdómur staðfestur um kröfuna og ákærða gert að greiða brotaþola málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um greiðslu sakarkostnaðar verður staðfest. Ákærði skal einnig greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en kröfu ákæruvaldsins um eignaupptöku.

Ákærði, Konstantin Deniss Fokin, sæti upptöku á brottfararspjaldi í flug 27. júlí 2015 frá Póllandi til Íslands með viðkomu í Hollandi auk þess sem gerð er upptæk beiðnabók frá hótelkeðjunni Hyatt Regency, 243 óútfyllt brottfararspjöld og 102 farangursmerkimiðar frá ýmsum erlendum flugfélögum og 17 óútfylltir boðsmiðar merktir United.

Ákærði greiði brotaþola, Icelandair ehf., 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 680.083 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.  

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. janúar 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. desember 2015, höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru 4. nóvember 2015 á hendur ákærða, Konstantin Deniss Fokin, eistneskum ríkisborgara, fæddum 17. september 1981;

„fyrir fjársvik, með því að hafa, sunnudaginn 26. júlí 2015, svikið út farmiða í flug hjá og á vegum Icelandair ehf., kt. 461202-3490, samtals að andvirði 2212,51 evrur sem nam kr. 327.450,- samkvæmt miðgengi Seðlabanka Íslands á kaupdegi, með því að gefa upp, við greiðslu tveggja flugbókana á vef flugfélagsins, í blekkingarskyni og án heimildar, greiðslukortanúmer sem tilheyrði greiðslukorti annars manns. Með þessari háttsemi vakti og hagnýtti ákærði sér þá röngu hugmynd starfsmanna Icelandair ehf. að greiðslur væru lögmætar og kom því til leiðar að andvirði farmiða auk breytingargjalds á öðrum þeirra var ranglega skuldfært af reikningum að baki umræddu greiðslukorti.

Ákærði komst í framhaldi yfir farmiðana og hagnýtti annan þeirra til að komast í flug hjá og á vegum Icelandair ehf. Vegna þessarar háttsemi varð Icelandair ehf. af greiðslu fyrir báða farmiðana og gat ekki selt farmiða í flugsæti þau sem bókuð höfðu verið.

Nánar tiltekið var um  að ræða eftirfarandi tilvik:

1. Við greiðslu á farmiða að andvirði 1107,32 evrur gefið upp kortanúmerið [...]. Farmiðinn, með bókunarnúmer [...], var bókaður á nafnið Konstantin Fok Deniss og var A, til heimilis í Frakklandi, sagður greiðandi. Ákærði notaði farmiðann 27. júlí 2015 til að komast í flug [...] og [...], frá Póllandi til Íslands með viðkomu í Hollandi.

(skjalaskrártilvik I-4)

2. Við greiðslu á farmiða að andvirði 1014,51 evrur  og breytingargjalds að andvirði 90,68 evrur, gefið upp kortanúmerið [...]. Farmiðinn, með bókunarnúmer [...], var upphaflega bókaður í flug [...] og [...], hinn 26. júlí 2015, frá Þýskalandi til Íslands, með viðkomu í Danmörku, á nafnið Konstantin Deniss og var B, til heimilis í Frakklandi, sagður greiðandi. Farmiðanum breytti ákærði síðar í flug [...] og [...], hinn 29. júlí 2015, frá Berlín til Íslands með viðkomu í Kaupmannahöfn.

(skjalaskrártilvik I-5)

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. 

Þess er krafist að ákærði verði, með heimild í 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009,  dæmdur til þola upptöku á brottfararspjaldi í flug sem frá er greint í 1. tl. ákæru (munanr. 413765 og 41376).  Jafnframt er þess krafist að ákærða verði, með heimild í 1. mgr. 69. gr. a. og 2. mgr. 69. gr. f. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009,  gert að sæta upptöku á eftirtöldum munum sem fundust við leit hinn 27. júlí 2015 og ætla má að séu til notkunar eða hætta sé á að verði notaðir við brot. Um er að ræða tvo bæklinga frá flugfélaginu Easy Jet (munanr. 413752 og 413764), beiðnabók frá hótelkeðjunni Hyatt Regency (munanr. 413744), þrjá stimpla er tengjast flugrekstri með áletruninni, „IB. BARCELONA DIF. TARIFA RESERVA CAMBIADA A“, „AUTORIZADO“ og „PUENTE AEREO“ (munanr. 413747), 243 óútfyllt brottfararspjöld, þar af 84 stk. merkt Iberia (munanr. 413723, 413724,413757),  27 stk. merkt United (munanr. 413725), 26 stk. merkt Royal Jordanian (munanr. 413726), 63 stk. merkt Alitalia (munanr. 413727 og 413729) og 43 stk. merkt Aeroflot Russian Airlines (munanr. 413728), 102 farangursmerkimiða, þar af 50 stk. merkt United (munanr. 413730), fimm stk. merkt Air Berlin, (munanr. 413733, 413734, 41736 og 413737), 4 stk. merkt Lufthansa (munanr. 413742), tvö stk. merkt AirEuropa, (munanr. 413731), sautján óútfyllta boðsmiða, merkt United. (munanr. 413757) og sautján nælur frá ýmsum flugfélögum, (munanr. 413758)

Í málinu liggur fyrir einkaréttarkrafa Ara Guðjónssonar hdl., f.h. Icelandair ehf., kt. 461202-3490, þar sem þess er krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða Icelandair ehf. samtals 2212,51 evrur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. júlí 2015 til þingfestingardags en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi ákærða samkvæmt mati dómsins.

Kröfur ákærða í málinu eru þær aðallega að ákærði verði sýknaður af refsikröfu ákæruvalds en til vara að ákærða verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst verjandi hæfilegrar þóknunar að mati dómsins sér til handa sem greiðist úr ríkissjóði ásamt öðrum sakarkostnaði. Hvað bótakröfu varðar krefst ákærði þess aðallega að bótakröfunni verði vísað frá dómi, en til vara að ákærði verði sýknaður af kröfunni.

I

Aðfaranótt þriðjudagsins 28. júlí 2015 var ákærði stöðvaður af tollvörðum í Leifsstöð við komu til landsins með flugi [...] frá Amsterdam, Hollandi. Í fórum ákærða fannst meðal annars nokkur fjöldi kreditkorta sem ekki báru með sér að vera í hans eigu. Enn fremur fannst í farangri ákærða mikið magn af óútfylltum brottfararspjöldum frá mismunandi flugfélögum, merkimiðar ætlaðir áhafnar­meðlimum hjá ýmsum flugfélögum og óútfylltir úttektarmiðar fyrir hótel. Kölluðu tollverðir til lögreglu vegna þessa. Eftir að hafa skoðað farangur ákærða og rætt við hann ákvað lögregla að handtaka ákærða vegna gruns um að hann hefði gerst sekur um fjársvik.

Með bréfi 28. júlí 2015 lagði Icelandair ehf. fram kæru á hendur ákærða fyrir fjársvik með því meðal annars að hafa keypt flugmiða að andvirði EUR 1107,32, jafnvirði 163.883 íslenskra króna, í gegnum vef félagsins, frá Varsjá til Amsterdam og áfram til Reykjavíkur, með kreditkorti sem ákærði hefði ekki haft heimild til að nota. Krafðist flugfélagið bóta úr hendi ákærða vegna hins meinta brots.

Icelandair ehf. lagði fram aðra kæru á hendur ákærða með bréfi 8. september 2015 fyrir fjársvik með því að hafa keypt flugmiða að andvirði EUR 1014,51, jafnvirði 150.147 íslenskra króna, í gegnum vef félagsins, frá Berlín til Kaupmannahafnar og áfram til Reykjavíkur, með kreditkorti sem ákærði hefði ekki haft heimild til að nota. Krafðist flugfélagið bóta úr hendi ákærða vegna hins meinta brots.

Hinn 9. september 2015 barst lögreglu staðfesting frá Bank of America, útgefanda greiðslukortsins sem notað var til þess að kaupa fyrrnefnda tvo flugmiða, á því að handhafi kortsins hefði hvorki keypt flugmiðana né heimilað kaupin. Tæpum mánuði síðar, hinn 2. október 2015, barst lögreglu skrifleg yfirlýsing korthafans, B, þessu til staðfestu.

II

Ákærði kom fyrir dóm við þingfestingu málsins og neitaði sök. Við upphaf aðalmeðferðar 10. desember 2015 ítrekaði ákærði þá afstöðu sína.

Í skýrslu sinni fyrir dómi greindi ákærði svo frá að 25. júlí 2015 hefði hann verið í rútu á leið frá Tallin í Eistlandi og hefði förinni verið heitið til Þýskalands með viðkomu í Riga í Lettlandi, Vilnius í Litháen og Póllandi. Lokaáfangastaður ákærða hefði ekki verið Ísland heldur Gíbraltar, þar sem ákærði kvaðst halda heimili.

Á leiðinni hefði ákærða borist símtal frá A. Spurður um nánari deili á þeirri konu sagði ákærði hana vera með tvöfalt ríkisfang, franskt og úkraínskt. Í símtalinu hefðu þau rætt viðskipti sem þau standi að saman. A hefði óskað eftir aðstoð ákærða í tilteknu máli og beðið hann um að fara til Íslands. A hefði gefið ákærða upplýsingar um flugið til Íslands, þ.m.t. tilvísunarnúmer og tímasetningu flugsins. Ákærði hefði áttað sig á því að hann myndi ekki ná fluginu miðað við áætlaðan komutíma rútunnar til Berlínar. Ákærði hefði ekki haft aðgang að internetinu í rútunni og því ekki átt þess kost að gera breytingar á fluginu. A hefði hringt aftur í ákærða nokkru síðar og tjáð honum að hún væri búin að gera breytingar á fluginu. Hefði ákærði skrifað niður hjá sér upplýsingar varðandi flugið.

Fram kom hjá ákærða að hann hefði ekki verið spenntur fyrir því að fara til Íslands en þar sem hann hefði verið með öll skjöl meðferðis varðandi viðskipti þeirra A hefði hann látið til leiðast. Nánar spurður um hver viðskipti þeirra A væru kvaðst ákærði ekki ætla að ræða það frekar. Hann nefndi þó að þau störfuðu hjá sama fyrirtæki ásamt fimm öðrum mönnum. Hina haldlögðu muni sem ákæruvaldið krefðist upptöku á sagði ákærði tengda þessum viðskiptum. Áréttaði ákærði í því sambandi að hann hygðist ekki ræða viðskipti sín og neitaði að tjá sig um uppruna munanna. Hann tók þó fram að þeirra hefði hvorki verið aflað með refsiverðum verknaði né hefði staðið til að nota þá við slíka háttsemi.

Ákærði bar að algengt væri í Evrópu að handhafar kreditkorta deildu reikningnum með öðrum aðilum. Þannig skýrði ákærði það að hann hefði verið með kort í fórum sínum við handtöku sem bæru ekki með sér að vera hans. Sagðist ákærði hafa aðgang að kortunum í gegnum netbanka.

Spurður um farmiðakaup þau sem vísað er til í ákæru bar ákærði að heimild hefði verið til staðar fyrir kaupum á fyrri flugmiðanum. Varðandi kaup á síðari miðanum sagði ákærði A hafa tjáð sér að hún hefði gert smávægileg mistök við bókunina. Ákærði hefði því ekki viljað nýta þann miða.

Ástæðu þess að nafn hans hefði ekki verið ritað með réttum hætti við bókanirnar sagði ákærði vera að hann hefði lent í vandræðum á Íslandi 2007 og því verið á svörtum lista. Hann hefði því viljað forðast að lenda í vandræðum vegna þessa fyrra máls.

Fyrir dómi fullyrti ákærði að títtnefnd A hefði bókað báða flugmiðana. Spurður út í þann framburð sinn fyrir lögreglu að hann hefði bókað miðana svaraði ákærði því til að hann hefði verið mjög þreyttur og í slæmu andlegu ástandi við skýrslutökuna. Ákærði kvaðst hafa komið þreyttur til landsins, verið handtekinn og síðan settur í gæsluvarðhald. Ástand hans hefði því ekki verið gott. Þá var á ákærða að skilja að sama misræmi í framburði í síðari skýrslutöku skýrðist einkum af því að túlkur við þá skýrslutöku hefði ekki verið að túlka á sínu móðurmáli, þ.e. rússnesku. Þetta hefði leitt til þess að orð hans voru misskilin.

III

Vitnið C, starfandi lögreglumaður er atvik máls gerðust, skýrði svo frá fyrir dómi að tollgæslan á Keflavíkurflugvelli hefði haft samband við lögreglu skömmu eftir miðnætti 28. júlí 2015 og tilkynnt að til skoðunar væri hjá lögreglu aðili, ákærði í máli þessu, sem væri með í fórum sínum muni sem tollgæslu þættu athyglisverðir. Fram kom hjá vitninu að hjá ákærða hefði fundist mikið magn kreditkorta og einnig óútfyllt brottfararspjöld frá ýmsum flugfélögum. Þá hefði ákærði jafnframt haft í fórum sínum flugbókun á nafni annars aðila.

Vitnið kvaðst ítrekað hafa spurt ákærða að því hvort hann hefði sjálfur bókað flugið fyrir sig. Hefði ákærði svarað því játandi. Þá hefði hann ekki kannast við að annar aðili hefði greitt fyrir flugmiðann. Hins vegar hefði komið fram í gögnum sem ákærði hafði meðferðis að greiðandi flugmiðans hefði verið annar aðili en ákærði. Greiðslukort þess aðila hefði ekki verið meðal þeirra korta sem ákærði var með í fórum sínum þegar hann var stöðvaður af tollgæslu.

Vitnið D lögreglumaður bar fyrir dómi að fram hefði komið hjá ákærða að greitt hefði verið fyrir flugmiða hans með greiðslukorti sem hann hefði haft í fórum sínum við komuna til landsins. Það kort hefði ekki fundist í fórum ákærða þótt ákærði hefði haft meðferðis nokkurn fjölda greiðslukorta sem ekki hefðu verið á hans nafni.

Vitnið sagði fljótlega hafa borist óformleg staðfesting frá útgefanda kortsins sem notað hefði verið til þess að kaupa flug ákærða til Íslands, Bank of America, á að um svikafærslu væri að ræða. Réttmætur korthafi hefði upplýst útgefanda um að hann hefði ekki keypt flugmiðann. Tímafrekt hefði hins vegar reynst að fá þetta staðfest með formlegum hætti þar sem ferlið sé flókið og tafsamt. Tekið hefði lögreglu nokkra mánuði að fá staðfestinguna í hendur. Þetta ferli sagði vitnið ákærða þekkja. Í tengslum við þetta hefði einnig komið fram að korthafinn hefði á umræddum tíma verið á ferðalagi um Evrópu.

Auk fyrrnefndra greiðslukorta hefði ákærði haft í fórum sínum ótrúlegt magn flugtengdra muna, brottfararspjöld, töskumiða, VIP-kort, leiðbeiningar og bæklinga. Ákærði hefði sagt muni þessa til komna vegna starfs hans, sem hann hefði hins vegar ekki verið reiðubúinn til þess að gefa frekari skýringar á. Lögregla hefði spurst fyrir um muni þessa hjá viðkomandi flugfélögum. Tvö félaganna hefðu svarað og sagt ákærða aldrei hafa unnið hjá þeim og að honum væri ekki heimilt að hafa munina í fórum sínum.

Vitnið E, stafsmaður Icelandair ehf. bar fyrir dómi að ákærði hefði verið á válista hjá Icelandair síðan 2007. Bókunum hans væri því lokað þegar þær kæmu upp þar sem hann hefði ítrekað reynt að kaupa flug á stolnum kreditkortum. Þá skuldi ákærði flugfélaginu vegna máls sem komið hafi upp 2007. Hinn 27. júlí 2015 hefði ákærði hins vegar komist fram hjá vörnum flugfélagsins, hann keypt flugmiða og flogið til Íslands. Í framhaldinu hefði komið í ljós að ákærði hefði keypt flugið með stolnu kreditkorti. Til þess að komast framhjá vörnum félagsins hefði ákærði breytt nafni sínu lítillega, keypt miðann rétt fyrir brottför. Við því hefði kerfið ekki séð í þetta skipti.

Vitnið sagði erfitt að fá upplýsingar frá bönkum í Bandaríkjunum og væri algengt að kortanúmer frá þarlendum bönkum væru notuð í tilvikum sem þessum.

Vitnið sagði kærur Icelandair ehf., dagsettar 28. júlí 2015 og 8. september 2015, sem vitnið hefði komið á framfæri við lögreglu fyrir hönd flugfélagsins, hafa verið reistar á yfirlýsingu viðkomandi korthafa þess efnis að umræddar kreditkortafærslur hefðu verið án heimildar. Sama kreditkort hefði verið notað við báðar færslurnar. Korthafinn hefði krafið greiðslurnar til baka og niðurstaðan orðið sú að Icelandair ehf. fékk enga greiðslu fyrir flugmiðana.

IV

Í málinu eru ákærða gefin að sök fjársvik með því að hafa í tvígang nýtt sér kreditkort annars manns í heimildarleysi til kaupa á flugmiðum af Icelandair ehf. Með þeirri háttsemi hafi ákærði með blekkingum vakið og hagnýtt sér þá röngu hugmynd starfsmanna Icelandair ehf. að kreditkortagreiðslurnar væru lögmætar og komið því til leiðar að andvirði farmiðanna, auk breytingargjalds á öðrum þeirra, var ranglega skuldfært af reikningum að baki fyrrnefndu greiðslukorti. Ákærði hafi í framhaldinu komist yfir farmiðana og hagnýtt annan þeirra til að komast í flug hjá og á vegum Icelandair ehf. Vegna lýstrar háttsemi ákærða hafi Icelandair ehf. orðið af greiðslu fyrir báða farmiðana.

Af hálfu ákærða hefur meðal annars verið til þess vísað að hann hafi ekki keypt umrædda tvo flugmiða sjálfur heldur viðskiptafélagi hans, kona að nafni A. Ákærði hefur hins vegar ekki getað, eða eftir atvikum viljað, segja nokkur deili á þeim einstaklingi. Þá hefur hann neitað að tjá sig um viðskiptasamband þeirra tveggja.

Við aðalmeðferð málsins upplýsti sækjandi að undir rannsókn málsins hefði lögregla kannað hvort einstaklingur að nafni A væri til. Sú eftirgrennslan lögreglu hefði ekki skilað árangri. Í kjölfarið lýsti verjandi ákærða því yfir að af hálfu ákærða væri ekki gerð krafa um að sá aðili yrði leiddur fyrir dóm í málinu sem vitni. Að þessu og öðru framangreindu athuguðu telur dómurinn ekki annað verða lagt til grundvallar við úrlausn málsins en að ósannað sé að umræddur einstaklingur sé til. Þá liggur fyrir samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu að ákærði greindi frá því í tvígang við skýrslutöku að hann hefði sjálfur keypt flugmiðana. Hið sama tjáði hann tollvörðum og lögreglumönnum er afskipti voru af honum höfð í Leifsstöð aðfaranótt 28. júlí 2015. Skýringar ákærða á hinum breytta framburði um þetta atriði í skýrslu hans fyrir dómi eru að mati dómsins ótrúverðugar og engum haldbærum gögnum studdar. Að þessu og öðru framangreindu virtu þykir sannað, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, að ákærði hafi bókað þá tvo flugmiða sem ákæra málsins tekur til.

Ákærði hefur jafnframt borið því við að heimild hafi verið til staðar fyrir því að greiða fyrir flugmiðana með kreditkorti með kortanúmerið [...], útgefnu af Bank of America. Það liggur hins vegar fyrir að 9. september 2015 barst lögreglu staðfesting frá Bank of America þess efnis að handhafi kortsins hefði hvorki keypt flugmiðana né heimilað kaupin. Tæpum mánuði síðar, 2. október 2015, barst lögreglu síðan skrifleg yfirlýsing korthafans, B, þessu til staðfestu. Ekkert haldbært hefur komið fram í málinu sem hnekkir þessu. Hefur ákæruvaldið því fært fyrir því sönnur að ákærði hafi ekki haft heimild til þess að greiða fyrir flugmiðana tvo með fyrrnefndu greiðslukorti B.

Samkvæmt öllu framansögðu telur dómurinn sannað, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, að ákærði hafi í tvígang nýtt sér kreditkort annars manns í heimildarleysi til kaupa á flugmiðum af Icelandair ehf. Jafnframt að  með þeirri háttsemi hafi ákærði með blekkingum vakið og hagnýtt sér þá röngu hugmynd starfsmanna Icelandair ehf. að kreditkorta­greiðslurnar væru lögmætar og komið því til leiðar að andvirði farmiðanna, auk breytingargjalds á öðrum þeirra, var ranglega skuldfært af reikningum að baki fyrrnefndu greiðslukorti. Hafði ákærði þannig fé af Icelandair ehf. Með háttsemi sinni braut ákærði gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo sem réttilega er vísað til í ákæru.

V

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins var ákærði með dómi Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 17. ágúst 2007, dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir fjársvik. Í málinu liggja einnig fyrir upplýsingar um sakaferil ákærða erlendis. Árið 2005 hlaut hann níu mánaða fangelsisdóm fyrir fjársvik á Spáni. Hann hlaut árið 2009 dóm í Danmörku fyrir þjófnað og ítrekuð fjársvik og var gert að sæta fangelsi í eitt ár og sex mánuði. Árið 2014 var ákærði sakfelldur fyrir fjársvik í Bretlandi og honum gert að gegna samfélagsþjónustu í 140 klst. og greiða ríflega 1800 sterlingspund í sekt. Í Þýskalandi hefur ákærði hlotið þrjá dóma. Árið 2004 var ákærði sakfelldur fyrir þjófnað og árið 2005 hlaut hann eins árs og níu mánaða fangelsisdóm fyrir þjófnað og fjársvik. Þá var hann árið 2009 sakfelldur fyrir fjársvik og ofbeldi gagnvart opinberum starfsmanni og honum gert að sæta fangelsi í tíu mánuði, skilorðsbundið til þriggja ára.

Eins og rakið er hér að framan á ákærði talsverðan sakaferil að baki. Í flestum tilvikum er um fjármunabrot að ræða, þ.m.t. fjársvik. Þá telur dómurinn ljóst af gögnum málsins að brotavilji ákærða hafi verið einbeittur í tilvikum þeim sem um ræðir í málinu. Að þessu gættu, sbr. ákvæði 5. og 6. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og að atvikum máls að öðru leyti virtum þykir refsing ákærða réttilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Til frádráttar refsingu ákærða kemur gæsluvarðhald sem hann sætti vegna rannsóknar máls þessa, sbr. 76. gr. laga nr. 19/1940, frá 28. júlí 2015 til 26. ágúst 2015 að fullri dagatölu.

VI

Svo sem rakið er í ákæru krefst ákæruvaldið upptöku á fjölmörgum munum sem fundust í fórum ákærða þegar hann var handtekinn í Leifsstöð aðfaranótt 28. júlí 2015. Til stuðnings þeirri kröfu vísar ákæruvaldið um brottfararspjald til 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en hvað aðra muni varðar til þeirrar lagagreinar, auk 2. mgr. 69. gr. f. sömu laga. Heldur ákæruvaldið því fram að ætla megi að umræddir munir hafi verið til notaðir eða hætta sé á að þeir verði notaðir við brot.

Ákærði fékk brottfararspjald í flug það sem töluliður 1 í ákæru tekur til í hendur með refsiverðri háttsemi samkvæmt áðursögðu. Skilyrði 1. mgr. 69. gr. a. almennra hengingarlaga eru því uppfyllt hvað brottfararspjaldið varðar. Verður því fallist á upptöku þess.

Ekkert liggur fyrir í málinu um það með hvaða hætti ákærði komst yfir aðra þá muni sem upptökukrafa ákæruvalds tekur til. Ákæruvaldið hefur engin gögn lagt fram sem réttlætt geta að því verði slegið föstu að umræddir munir hafi verið notaðir við brot eða hætta sé á að þeir verði notaðir í þeim tilgangi. Þá fékk sá málatilbúnaður ákæruvalds heldur enga stoð í framburði vitna fyrir dómi. Að þessu gættu þykja ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 69. gr. a. og 2. mgr. 69. gr. f. almennra hegningarlaga og verður kröfu ákæruvalds um upptöku annarra muna en brottfararspjaldsins því hafnað.

VII

Í málinu krefst Icelandair ehf. skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2212,51 evra með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. júlí 2015 til 17. nóvember 2015, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Til stuðnings kröfunni vísar kröfuhafi til þess að ákærði hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið félaginu skaðabótaskyldu tjóni með því að kaupa flugmiða af kröfuhafa með kreditkortum í eigu annarra einstaklinga. Kröfuhafi hafi verið í þeirri trú að greitt yrði fyrir flugmiðana með þeim kreditkortum sem notuð hafi verið við kaupin. Afleiðing háttsemi ákærða hafi verið sú að kröfuhafi fékk ekki greitt fyrir hina seldu flugmiða. Hann hafi því orðið fyrir tjóni sem nam kaupverði þeirra, auk breytingargjalds vegna annars miðans.

Samkvæmt framansögðu hefur dómurinn slegið því föstu að ákærði hafi gerst sekur um fjársvik er hann bókaði flugmiðana tvo hjá kröfuhafa. Upplýst er með gögnum sem ákæruvaldið lagði fram undir aðalmeðferð málsins að kreditkorta­færslurnar hafa báðar verið bakfærðar. Kröfuhafi hefur því enga fjármuni fengið fyrir flugmiðana. Er því nægjanlega sannað að ákærði hafi með hinni ólögmætu og saknæmu háttsemi sinni valdið kröfuhafa tjóni sem nemur andvirði flugmiðanna, auk breytingargjalds vegna annars þeirra. Skiptir í því sambandi engu að ákærði hagnýtti sér eingöngu annan flugmiðann. Um vexti og dráttarvexti af kröfunni fer svo sem nánar greinir í dómsorði.

VIII

Með vísan til sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða sakarkostnað málsins. Ákærði dæmist því til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Theodórs Kjartanssonar hdl., sem eftir umfangi málsins og með hliðsjón af tímaskýrslu verjanda þykir hæfilega ákveðin, að virðisaukaskatti meðtöldum, 1.329.900 krónur. Ákærði greiði enn fremur útlagðan ferðakostnað lögmannsins, samtals 211.966 krónur.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Konstantin Deniss Fokin, sæti fangelsi í sex mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 28. júlí 2015 til 26. ágúst 2015 að fullri dagatölu.

Ákærði sæti upptöku á brottfararspjaldi í flug sem hann fór í 27. júlí 2015 frá Póllandi til Íslands með viðkomu í Hollandi. Upptökukröfu ákæruvalds er að öðru leyti hafnað.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Theodórs Kjartanssonar hdl., 1.329.900 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, sem og útlagðan ferðakostnað lögmannsins, 211.966 krónur.

Ákærði greiði Icelandair ehf. 2212,51 evru með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. júlí 2015 til 17. desember 2015 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.