Hæstiréttur íslands
Mál nr. 132/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Erfðaskrá
|
|
Miðvikudaginn 5. mars 2014. |
|
Nr. 132/2014.
|
B og C (Jón G. Briem hrl.) gegn D (Pétur Guðmundarson hrl.) |
Kærumál. Dánarbússkipti. Erfðaskrá.
Komist var að niðurstöðu um ógildi erfðaskrár A sökum þess að hún uppfyllti ekki þá lágmarkskröfu sem fólgin væri í 2. mgr. 45. erfðalaga nr. 8/1962 um að arfleiðandi undirritaði erfðaskrá eða kannaðist við undirritun sína fyrir lögbókanda eða tveimur vottum, sbr. einnig 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Talið var að erfðaskrá sem ekki uppfyllti þessar lágmarkskröfur færi í bága við skilyrði laga og gæti ekki orðið fullnægjandi grundvöllur ráðstöfunar arfs væri hún rengd.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. febrúar 2014, þar sem metin var ógild erfðaskrá, sem A gerði 9. október 2009. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að fyrrgreind erfðaskrá verði metin gild. Þá krefjast þær málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti. Kemur krafa hennar um málskostnað í héraði því ekki frekar til álita fyrir Hæstarétti.
A, fædd árið 1928, gerði 9. október 2009 erfðaskrá, þar sem mælt var fyrir um að 1/3 hluti eigna hennar skyldi renna að jöfnu til tveggja dætra hennar, sóknaraðila í máli þessu. Aðrar eignir skyldu á hinn bóginn ganga til allra þriggja aðila málsins sem lögerfingja hennar samkvæmt fyrirmælum erfðalaga nr. 8/1962. Á erfðaskrána var fært svofellt arfleiðsluvottorð: „Undirritaðir, sem höfum verið kvaddir til þess að vera vottar að framanritaðri arfleiðslugerð vottum hér með að, A ... ritaði að okkur viðstöddum nafn sitt undir erfðaskrána, sem hún kvað hafa að geyma hinsta vilja sinn. Gerði hún það heil heilsu andlega og líkamlega, allsgáð og af fúsum og frjálsum vilja. Þetta erum við reiðubúnir að staðfesta með eiði ef krafist verður.“ Þrátt fyrir þennan texta vottorðsins ritaði aðeins einn vottur undir það. Af arfleiðsluvottorðinu verður hvorki ráðið hver hafi kvatt vottinn til né heldur hvar og hvenær erfðaskráin var undirrituð, sbr. 1. mgr. og 3. mgr. 42. gr. erfðalaga.
A lést [...] 2012. Eftir kröfu varnaraðila var dánarbú hennar tekið til opinberra skipta 22. febrúar 2013. Við skipti dánarbúsins kom upp ágreiningur meðal erfingja um réttindi til arfs samkvæmt erfðaskrá A sem ekki tókst að jafna og beindi skiptastjóri ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms. Með hinum kærða úrskurði var svo sem áður greinir komist að niðurstöðu um ógildi erfðaskrárinnar.
Í 1. mgr. 40. gr. erfðalaga er kveðið á um að erfðaskrá skuli vera skrifleg og arfleiðandi undirrita hana eða kannast við undirritun sína fyrir lögbókanda eða tveimur vottum. Þá segir í 2. mgr. 45. gr. sömu laga að þegar erfðaskrá, sem er undirrituð af arfleiðanda og ber áritun votta, fullnægir ekki ákvæðum 40. gr. til 43. gr. laganna að öðru leyti og erfingi telur að ógilda beri erfðaskrá samkvæmt 34. gr., 37. gr. eða 38. gr., þá verði sá, sem vill byggja rétt á henni, að hrinda staðhæfingu þess, sem rengir, með vætti arfleiðsluvotta eða öðrum sönnunargögnum. Í 2. mgr. 45. gr. erfðalaga felst sú lágmarkskrafa að arfleiðandi undirriti erfðaskrá eða kannist við undirritun sína fyrir lögbókanda eða tveimur vottum. Erfðaskrá sem ekki uppfyllir þessar lágmarkskröfur fer í bága við skilyrði laga og getur ekki orðið fullnægjandi grundvöllur ráðstöfunar arfs sé hún rengd. Þegar af þeirri ástæðu og með vísan til þess að varnaraðili hefur gætt ákvæðis fyrri málsliðar 47. gr. erfðalaga um vefengingu erfðaskrár A verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Sóknaraðilar greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, B og C, greiði óskipt varnaraðila, D, 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. febrúar 2014.
Mál þetta, sem þingfest var 4. október 2013, var tekið til úrskurðar 23. janúar 2014. Sóknaraðilar eru B, kt. [...], og C, kt. [...]. Varnaraðili er D, kt. [...]. Máli þessu var beint til dómsins af skiptastjóra með vísan til 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl., vegna ágreinings um gildi erfðaskrár móður aðila, A.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að erfðaskrá A, dags. 9. október 2009, verði metin gild. Einnig er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Varnaraðili krefst þess að umrædd erfðaskrá verði metin ógild við skipti á umræddu dánarbúi. Auk þess er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
I.
Aðilar eru dætur A sem lést [...] 2012. Aðilar deila um gildi skjals, dags. 9. október 2009, sem undirritað er af A og ber fyrirsögnina „erfðaskrá“. Í skjalinu er annars vegar ákvæði um útför hinnar látnu og hins vegar ákvæði um að sóknaraðilar skyldu erfa að jöfnu einn þriðja hluta allra eigna hinnar látnu. Það sem eftir stæði, þ.e. tveir þriðju hlutar eignanna, ætti að skiptast að öðru leyti milli lögerfingja, en það væru sóknaraðilar og varnaraðili í máli þessu. Þá er í skjalinu „arfleiðsluvottorð“ sem einn aðili skrifaði undir, Guðmundur Þórðarson hdl.
Guðmundur Þórðarson hdl. gaf vitnaskýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins og skýrði frá því að A hefði komið á skrifstofu hans og viljað gera erfðaskrá. Ástæða þess hefði verið sú að hún hafi viljað umbuna ákveðnum erfingjum umfram aðra. Vitnið hefði tekið niður nauðsynlegar upplýsingar, útbúið skjalið og farið síðar til A þar sem hún bjó að [...]. Þar hefði hún ritað undir skjalið og vitnið hefði verið eini votturinn á skjalinu. Jafnframt sagði vitnið að það hefði ekki farið með skjalið til sýslumanns heldur hefði A séð um að gera það.
Þá komu fyrir dóm sem vitni Hjörtur Þór Hauksson læknir og staðfesti hann vottorð, dags. 26. apríl 2013, um andlega og líkamlega heilsu A í október 2009. Einnig kom fyrir dóm Guðmunda Óskarsdóttir hjúkrunarfræðingur, en hún staðfesti yfirlýsingu sína, dags. 11. apríl 2013, um andlega heilsu A, á þeim tíma sem hún gerði erfðaskrána.
II.
Til stuðnings kröfum sínum vísa sóknaraðilar til dóms Hæstaréttar í máli nr. 135/1991 en þar segi að reglur um form erfðaskráa séu „settar til þess að arfleiðsluviljinn komi skýrlega fram og að staðreyna megi hann eftir andlát arfláta“. Í dóminum komi enn fremur fram að formi erfðaskrár hefði verið ábótavant en lagt hafi verið heildstætt mat á gallana, aðdraganda erfðaskrárinnar og fleira. Niðurstaðan hafi verið sú að erfðaskráin var metin gild. Telja sóknaraðilar að galli á erfðaskrá í máli því sem hér er til úrlausnar, að vottur sé aðeins einn, eigi ekki sjálfkrafa að leiða til ógildingar erfðaskrárinnar og að aðstæður verði að meta heildstætt hverju sinni.
Þá benda sóknaraðilar á að í ritinu Erfðaréttur eftir Pál Sigurðsson, frá árinu 1998, bls. 246, fjalli hann um kosti þess að lögbókandi votti erfðaskrá í stað almennra votta. Sá vottur sem hafi vottað erfðaskrána falli vel að lýsingu Páls, en votturinn sé lögmaður og sem slíkur opinber sýslunarmaður. Byggja sóknaraðilar á því að hann hafi almennt ekki minni þekkingu á erfðamálum en sýslumaður eða fulltrúi hans. Þótt votturinn sé ekki lögbókandi sé hæfi hans til vottunar síst lakara. Einnig benda sóknaraðilar á að erfðaskráin hafi verið varðveitt hjá sýslumanninum í Kópavogi frá 27. nóvember 2009. Þá kveða sóknaraðilar að votturinn uppfylli öll skilyrði þess að geta verið almennur vottur, samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 41. gr. erfðalaga.
Enn fremur segja sóknaraðilar að varnaraðili hafi ekki byggt á því að arfleiðsluvottorðið sjálft sé haldið göllum, enda komi allt fram í því sem arfleiðsluvottum beri að staðfesta samkvæmt 42. gr. erfðalaga.
Verði erfðaskráin metin gild, eins og sóknaraðilar gera kröfu um, komi ákvæði 2. mgr. 45. gr. erfðalaga til skoðunar. Vegna umrædds formgalla við vottunina flytjist sönnunarbyrðin um gildi hennar frá þeim sem rengir erfðaskrána til þess sem vill byggja rétt á henni. Sóknaraðilar telja að varnaraðili hljóti að byggja á 2. mgr. 34. gr. erfðalaga við rengingu erfðaskrárinnar, þ.e. að erfðaskráin sé aðeins gild ef sá sem gerir hana sé svo heill heilsu andlega að hann sé fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt. Hafi sóknaraðilar lagt fram fjögur skjöl með vitnisburðum aðila, sem hafi þekkt A, um andlegt hæfi hennar. Um sé að ræða læknisvottorð Hjartar Þórs Haukssonar, dags. 26. apríl 2013, yfirlýsingu Guðmundu Óskarsdóttur hjúkrunarfræðings, dags. 11. apríl 2013, staðfestingu E, vinar A, dags. 8. apríl 2013, og tölvupóst Guðmundar Þórðarsonar hdl., dags. 5. apríl 2013. Byggja sóknaraðilar á því að með þessum skjölum sé sannað að A hafi verið svo heil heilsu andlega að hún hafi verið fær um að gera umrædda erfðaskrá.
III.
Í greinargerð varnaraðila er byggt á því að samkvæmt 1. mgr. 40. gr. erfðalaga nr. 8/1962 skuli erfðaskrá vottuð af lögbókanda eða tveimur vottum. Umrædd erfðaskrá hafi einungis verið vottuð af einum almennum votti, en það sé svo veigamikill annmarki að hann leiði einn og sér til ógildingar erfðaskrárinnar. Samkvæmt dómaframkvæmd og umfjöllun fræðimanna sé það ófrávíkjanlegt formskilyrði að lögbókandi eða tveir vottar votti erfðaskrá.
Í 1. mgr. 1. gr. laga um lögbókandagerðir nr. 86/1989 segir að lögbókandagerðir séu valdsmannsathafnir sem sýslumenn framkvæmi hver í sínu umdæmi, og nefnist sýslumaður lögbókandi við aðrar gerðir. Í 2. mgr. 1. gr. sé að finna undantekningu á því að lögbókandi sé annar en sýslumaður, en forstöðumenn sendiráða Íslands geti undir ákveðnum kringumstæðum verið lögbókendur í sínu umdæmi. Aðrar undantekningar sé ekki að finna í lögum. Þá segi í hjúskaparlögum, varðandi vottun kaupmála, að undirritun skuli staðfest af lögbókanda, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða fulltrúa þeirra eða af tveimur vottum. Því sé ljóst að gerður sé greinarmunur á lögbókandavottun og lögmannsvottun.
Með vísan til alls framangreinds telur varnaraðili einsýnt að engin rök standi til annars en að taka kröfu hans að fullu til greina.
Í málflutningsræðu lögmanns varnaraðila við aðalmeðferð málsins kom enn fremur fram að aðila- og vitnaskýrslur væru með öllu óþarfar, enda væri erfðaskráin ógildanleg þar sem brýnustu formskilyrði væru brotin. Þá var því mótmælt að hinn raunverulegi vilji hinnar látnu hafi komið fram í erfðaskránni. Að lokum var því mótmælt að það hefði einhver áhrif að eintak erfðaskrárinnar hafi verið vistað hjá sýslumanninum í Kópavogi, enda væri megintilgangur vottunar erfðaskrár ekki að tryggja að erfðaskrá væri vistuð með öruggum hætti.
Um lagarök vísar varnaraðili til ákvæða erfðalaga nr. 8/1962, laga um lögbókandagerðir nr. 86/1989, laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og almennra reglna erfðaréttar.
Krafa um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
IV.
Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. erfðalaga nr. 8/1962 skal erfðaskrá vera skrifleg, og skal arfleifandi undirrita hana eða kannast við undirritun sína fyrir notario publico (lögbókanda) eða tveimur vottum. Þá er í 41. gr. ákvæði um hæfi votta og í 42. gr. er mælt fyrir um hvað eigi að koma fram í vottorði. Er þar m.a. sérstaklega kveðið á um að vottar eigi að vera viðstaddir samtímis þegar arfleifandi undirritar erfðaskrá eða kannast við undirritun sína.
Skjalið sem aðilar deila um fullnægir ekki formskilyrðum erfðalaga nr. 8/1962 þar sem það er aðeins undirritað af einum votti og er hann ekki lögbókandi. Verður vottinum hér á engan hátt jafnað við að lögbókandi hafi vottað erfðaskrána, enda gilda um lögbókandagerðir sérstök lög, nr. 86/1989. Þá hefur það enga þýðingu í máli þessu að skjalinu var þinglýst, enda er ekki mælt fyrir um það í erfðalögum að erfðaskrám þurfi að þinglýsa. Dómur Hæstaréttar sem sóknaraðilar vísa til í greinargerð sinni, í máli nr. 135/1991, hefur ekki fordæmisgildi hér, enda segir sérstaklega í dóminum að erfðaskráin hafi verið vottuð af „tveimur óvilhöllum vottum“.
Ákvæði 42. gr. erfðalaga nr. 8/1962, um að staðfesting fari fram fyrir tveimur vottum, er byggt á því að vottunum er ætlað að votta um hinsta vilja og andlega hagi arfleifanda. Með því að hafa vottana tvo verður sönnun nægilega tryggð. Um þetta eru gerðar strangar kröfur og hafi báðir vottar t.d. ekki verið samtímis viðstaddir undirritun þegar arfleifandi kennist við erfðaskrá hefur slík erfðaskrá verið dæmd ógild, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni 1976, bls. 197. Samkvæmt téðum dómi er ekki nægilegt að einn vottur sé viðstaddur undirritun erfðaskrár og votti hana. Dómaframkvæmd hefur verið á sömu leið á Norðurlöndum, sbr. t.d. ND 1978:241 og U 1926:189.
Samkvæmt öllu framansögðu er formgallinn á umræddu skjali svo verulegur að óhjákvæmilegt er að meta erfðaskrá, sem A undirritaði og er dagsett 9. október 2009, ógilda.
Að kröfu varnaraðila og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að úrskurða sóknaraðila til að greiða varnaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 180.000 krónur, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Erfðaskrá sú sem A undirritaði og dagsett er 9. október 2009 er metin ógild.
Sóknaraðilar, B og C, greiði varnaraðila, D, óskipt 180.000 krónur í málskostnað.