Hæstiréttur íslands

Mál nr. 61/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Haldlagning
  • Frávísun frá Hæstarétti
  • Kærufrestur


                       

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000.

Nr. 61/2000.

Ákæruvaldið

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

Guðmundi Gunnarssyni

(Ólafur Sigurgeirsson hrl.)

 

Kærumál. Haldlagning. Frávísun máls frá Hæstarétti. Kærufrestur.

Kærumáli var vísað frá Hæstarétti þar sem kærufrestur var liðinn.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. febrúar 2000, sem barst réttinum 18. sama mánaðar ásamt kærumálsgögnum. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2000, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að honum yrðu afhentar tvær haglabyssur og einn riffill, sem lögregla fjarlægði af heimili hans 1. október 1999. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og haldlagningu aflétt af fyrrgreindum skotvopnum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði auk kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík 1. febrúar 2000 var höfðað opinbert mál gegn varnaraðila fyrir að hafa aðfaranótt föstudagsins 1. október 1999 geymt inni í stofu á dvalarstað sínum að Meðalholti 13 í Reykjavík þrjú skotvopn og skotfæri, óaðskilin og ekki í læstum hirslum, en er lögregla kom á staðinn hafi varnaraðili verið ölvaður með tvo syni sína, 6 og 13 ára hjá sér. Er háttsemin talin varða við ákvæði vopnalaga nr. 16/1998 og reglugerðar um skotvopn, skotfæri o.fl. nr. 787/1998.

Hinn kærði úrskurður fær stoð í 79. gr., sbr 78. gr. laga nr. 19/1991, en samkvæmt 2. mgr. 144. gr. sömu laga er frestur til að lýsa kæru til Hæstaréttar þrír sólarhringar frá því að kærandi fékk vitneskju um þá úrlausn, sem hann vill kæra. Samkvæmt endurriti úr þingbók héraðsdóms var lögmaður varnaraðila viðstaddur er úrskurðarorð var lesið í heyranda hljóði. Var því kærufrestur liðinn er kæra hans, sem dagsett er 8. febrúar 2000, barst héraðsdómi, en hún er árituð um móttöku héraðsdómarans 11. sama mánaðar. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2000.

 

Málsaðilar eru:

Sóknaraðili er Guðmundur Gunnarsson, kt. 190448-3479, Meðalholti 13, Reykjavík.

Varnaraðili er Lögreglustjórinn í Reykjavík, Hverfisgötu 113-115, Reykjavík.

Málið barst Héraðsdómi Reykjavíkur 11. janúar sl. með bréfi lögmanns gerðarbeiðanda, sem dagsett er 4. nóvember 1999. Það var tekið til úrskurðar 25. janúar sl. að afloknum munnlegum málflutningi.

Geta ber þess, að komið hefur í ljós, að lögmaður sóknaraðila sendi erindi sitt til dómsins í nóvembermánuði sl. Málið mislagðist einhverra hluta vegna og var því ekki úthlutað til dómara fyrr en 14. janúar sl. og þingfest 19. sama mánaðar.

Dómkröfur sóknaraðila eru þær, að haldi verði aflétt af eftirtöldum skotvopnum, sem fjarlægð voru af lögreglu af heimili sóknaraðila aðfararnótt föstudagsins 1. október sl. Skotvopnin eru skráð þannig í lögregluskýrslu:

1.       Haglabyssa Remotum Germany (gömul haglabyssa).

2.       P.Beretta AL 390 no. V18516E.

3.       Riffill marlin Model 1YN cal. 22 no.10678305.

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili gerir þær dómkröfur, að synjað verði kröfu sóknaraðila um afléttingu halds á tveimur haglabyssum og einum riffli, sem lögreglan haldlagði á heimili hans að Meðalholti 13 í Reykjavík þann 1. október 1999 og að honum verði gert að greiða allan málskostnað.

 

Málavextir, málsástæður og lagarök:

Málavextir eru í stórum dráttum þeir, að lögreglan var kvödd að Meðalholti 13 í Reykjavík að beiðni íbúa hússins vegna ónæðis frá sóknaraðila.  Í lögregluskýrslu, sem gerð var um atburðinn, kemur fram, að sóknaraðili hafi verið nýskilinn við eiginkonu sína og hafði tvo syni þeirra hjá sér 6 og 12 ára gamla. Af lögregluskýrslu má ráða að atburðurinn hafi átt sér stað aðfaranótt 1. október sl. kl. 01.10. Atburðarrásinni er síðan lýst í lögregluskýrslu og segir þar m.a. ,,Fórum og höfðum tal af Guðmundi. Hann var sjáanlega ölvaður og drengirnir báðir vakandi. Er við bárum upp erindi okkar brást Guðmundur illa við og sagði að það kæmi engum við hvort hann væri ölvaður með drengina. Þarna á staðnum var að sjá mikið áfengi í hillum inni í stofu. Guðmundi var gerð grein fyrir að ölvunarástand hans ætti ekki við er drengirnir væru hjá honum.  Hann virtist ekki skilja afskipti okkar og mjög ósáttur við “kerfið”.  Fengum við á staðinn Guðrúnu Hrefnu Sverrisdóttur frá barnaverndar­nefnd.  Einnig kom á staðinn móðir drengjanna, Margrét Zabanta.  Guðrún ræddi við Margréti og drengina svo og Guðmund en hann skildi ekkert.  Guðmundur sagði að kona á efstu hæð, Elínborg væri alltaf að kæra sig og mætti hún passa sig á honum….”  Síðar í skýrslunni segir: ,,Í stofu sáum við tvær haglabyssur og einn riffil í plastkassa. Önnur haglabyssan er mjög gömul en hin mjög nýleg og stóð hún óvarin upp við vegg og skotfæri við. Riffillinn var í plastkassa við stofusófa. Er við sögðumst haldleggja skotvopnin brást Guðmundur mjög illa við og reyndi að hindra okkar að taka þau. Ekki gat Guðmundur framvísað skotvopnaleyfi. Guðmundi var gerð grein fyrir að hafa hægt um sig og lofaði hann því.  Íbúðin var að sjá nokkuð snyrtileg. Byssurnar sem voru haldlagðar: Remotom Germany gömul haglabyssa, P.Beretta AL 390 no. V18516 E haglabyssa, Marlin Model 1YN cal. 22 no. 10678305 riffill með hljóðdeyfi og sjónauka. Skýrslu þessari fylgir munaskrá. Skotvopnin eru geymd í vörslu aðalvarðstjóra”.

Síðar þessa sömu nótt voru sömu lögreglumenn sendir að Meðalholti 13 í Reykjavík vegna kvörtunar um hávaða og ónæði af völdum sóknaraðila. Í lögregluskýrslu, sem gerð var um atvikið segir m.a. á þessa leið: ,,Að sögn Elínborgar hafði Guðmundur verið að ónáða hana með því að berja á hurðina að íbúð hennar, sem er á efri hæð hússins við sama stigagang, og vildi komast inn.  Einnig bærist frá íbúð hans hávær músík sem héldi vöku fyrir fólki í húsinu. Þegar við komum á staðinn heyrðist mjög hávær músík út á götu. Farið var á staðinn í ljósi þess að þegar við höfðum verið á vettvangi fyrr um kvöldið hafði Guðmundur hótað að fara með byssu og skjóta konuna sem býr á hæðinni fyrir ofan hann.”  Þá er því lýst að sóknaraðili hafi verið talsvert ölvaður, óstöðugur á fótum og framburður hans ruglingslegur. Hann hafi gefið lítið út á þau óþægindi sem hann ylli fólki í húsinu, en verið með ásakanir og hótanir í garð konunnar sem býr fyrir ofan hann og haft stöðugt í hótunum um að skjóta hana.  Því hafi verið ákveðið að handtaka hann, þar sem hann væri hættulegur sér og öðrum vegna ölvunarástands hans. Sóknaraðili var síðan færður á lögreglustöðina við Hverfisgötu og vistaður í fangageymslu þar.

Í skýrslu sem tekin var af sóknaraðila 1. október sl. og tímasett er kl. 10:59 mótmælti sóknaraðili handtökunni og ólöglegri leit lögreglu í íbúð hans, svo og haldlagningu umræddra skotvopna. Hann kannaðist ekki við að hafa haft í hótunum við nokkurn nóttina áður og kvað heimsókn lögreglu hafa verið algjörlega tilefnislausa og taldi, að börn hans hafa verið tekin frá honum nauðug.  Sóknaraðili viðurkenndi þó að hafa verið mjög ölvaður og muna óskýrt atburðarrásina.

Lögmaður sóknaraðila ritaði varnaraðila bréf dags. 6. október sl. og óskaði eftir því að fá sendar lögregluskýrslur, sem teknar voru í tilefni af haldlagningu umræddra vopna og fór jafnframt fram á það, að sóknaraðila yrðu afhentar byssurnar, enda sárvantaði hann þær, þar sem rjúpnaveiðitími færi í hönd.  Umbeðnar skýrslur voru afhentar lögmanninum, en ekki var orðið við óskum hans um afhendingu skot­vopnanna.

Sóknaraðili var boðaður til skýrslutöku hjá varnaraðila 22. desember sl. og skýrsla var tekin af honum. Hann kvaðst hafa keypt riffilinn (Marlin Model) hjá byssusmiðju Agnars á árinu 1996 eða 1997 og þá hafi hún verið með hljóðdeyfi. Taldi hann að byssan hafi verið flutt þannig inn. Hann kvaðst nota riffilinn eingöngu sem markbyssu. Hún væri vonlaust veiðivopn, þar sem kúlan færi undir hljóðhraða. Haglabyssuna af Remoton gerð kvað hann vera forngrip, sem ekki væri hægt að skjóta úr, því hlaup hennar væri bogið. Hún væri safngripur og til skrauts. Hann kvaðst hafa keypt sérstakan byssuskáp hjá Vesturröst og væri sá skápur heima hjá móður hans og ávallt læstur. Það hafi verið algjör undantekning með vörslur umræddra vopna, þegar þær voru teknar. Hann hafi ætlað á veiðar daginn eftir og ákveðið að taka riffilinn með til að skjóta í mark.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila:

Sóknaraðili byggir á því, að húsrannsókn lögreglu aðfararnótt 1. október sl. hafi verið ólögmæt og það hafi taka byssanna einnig verið. Riffillinn hafi verið í lokuðum kassa en haglabyssurnar verið óhlaðnar. Haldlagning byssanna hafi verið óþörf og geti á engan hátt tengst meintu umgengnisbroti hans gagnvart nágrönnum. Látið sé að því liggja í lögregluskýrslu, að sóknaraðili hafi brotið 21. og 23. gr. vopnalaga nr. 16/1998.  Þessu mótmælir sóknaraðili sérstaklega og bendir á, að hann hafi ekki verið að nota vopn sín, þegar þau voru tekin. Skotvopnin hafi ekkert sönnunargildi og þeirra hafi ekki verið aflað á refsiverðan hátt. Ekki sé heldur við því að búast, að hinir hald­lögðu munir verði gerðir upptækir með dómi. Eitthvert þessara atriða sé skilyrði fyrir réttmæti haldlagningar skv. 78. gr. laga nr. 19/1991 (oml.).  Sóknaraðili kveðst hafa fest kaup á vopnaskáp hjá Vesturröst, eins og framlagt skjal beri með sér og fram komi í lögregluskýrslu, sem tekin var af honum 22. desember sl.  Því sé ekki lengur nokkur ástæða fyrir haldlagningunni né hafi hún nokkurn tímann verið fyrir hendi. Þá byggir sóknaraðili á því, varðandi hljóðdeyfi, sem fylgihlutar riffilsins, að engin lagaákvæði standi því í vegi að setja megi hljóðdeyfi á riffla, hvorki í vopnalögum né reglugerð nr. 787/1998, sem sett var með heimild í lögunum sjálfum og vísar í því sambandi til Hæstaréttardóms í máli nr. 22/1997, sem kveðinn var upp 23. október það ár.  Í 82. gr. oml. segi, að aflétta skuli haldi, þegar þess sé ekki lengur þörf og í síðasta lagi þegar máli sé endanlega lokið. Í lagaákvæðinu séu síðan upp talin þau tilvik, þegar ekki skuli aflétta haldi, en þau eigi ekki við í tilviki hans.  Sóknaraðili vísar einnig í þessu sambandi til handbókar lögreglu um framkvæmd haldlagningar. Þar segi berum orðum: ,,Við haldlagningu skal þess gætt að baka mönnum ekki meiri óþægindi eða tjón en brýna nauðsyn ber til.  Haldlagning skal vara eins stutt og kostur er, sbr. upphafsorð 82 gr.”.

Sóknaraðili vísar ennfremur til Samningsviðauka nr. 1 við samning um verndum mannréttinda og mannfrelsis, sem gildi hér á landi. Í 1. gr. segi. ,,Öllum mönnum og lögaðilum ber réttur til að njóta eigna sinna í friði.  Skal engan svipta eign sinni nema hagur almennings bjóði og gætt sé ákvæða í lögum og almennra meginreglna þjóðaréttar”

Sóknaraðili telur að framganga varnaraðila gagnvart sér í þessu máli þverbrjóti tilvitnað ákvæði. Engin þörf hafi verið á að halda byssunum og taka þeirra tilefnislaus.

Málsástæður og lagarök varnaraðila:

Varnaraðili byggir á því, að lögreglan rannsaki meint brot sóknaraðila á 1. og 2. mgr. 21. gr. og 23. gr. og 38. gr. vopnalaga og 5. mgr. 33. gr. reglugerðar um skotvopn, skotfæri o.fl. nr. 787/1998, óvarlega meðferð skotvopna undir áhrifum áfengis, óvarlega og ólöglega geymslu skotvopna og ólöglega breytingu og auka­búnað á skotvopni, auk hávaða, ónæðis og hótana og brots á lögum um vernd barna og ungmenna.  Skýrslur hafi verið teknar af sóknaraðila 1. október og 22. desember sl. og af vitni 13. október sl.

Kröfunni um afléttingu halds sé mótmælt á þremur forsendum:

1.        Sóknaraðili hafi ekki löglega geymslu fyrir vopnin, sérútbúinn vopnaskáp samþykktan af lögreglustjóra, en hann sé skráður eigandi níu skotvopna, sbr. 5. mgr. 33. gr. skotvopnareglugerðar.

2.        Vopnin hafi sönnunargildi í opinberu máli sem verði væntanlega höfðað, sbr. 1. mgr. 78. gr. oml.

3.        Ætla megi, að a.m.k. hljóðdeyfir, sem sé á einni byssunni verði gerður upptækur, sbr. 1. mgr. 78. gr. oml.  og 1. mgr. 37. gr. vopnalaga.

 

Að mati varnaraðila er fyrsta málsástæðan nægileg til að synja um afléttingu halds, þar sem lögreglu sé óheimilt að afhenda vopnin, eins og hér standi á með skotvopnaeign og skotvopnageymslu sóknaraðila.

Varnaraðili heldur því fram, að haldlagning vopnanna hafi verið sjálfsögð öryggisráðstöfun, eins og atvikum var háttað, þegar skotvopnin voru tekin úr vörslu sóknaraðila. Hann hafi verið ölvaður, skotvopnin hafi verið öllum aðgengileg og passandi skotfæri verið innan seilingar, svo ekki sé minnst á það, að hann gætti barna sinna umrætt kvöld, sem af óvitaskap hefðu getað unnið sér og öðrum líkamstjóni, eins og á stóð. Sóknaraðili hafði ennfremur haft í hótunum við nágrannakonu sína og hótað henni öllu illu.

 

Forsendur og niðurstaða:

 

Dómurinn lítur svo á, að fullt tilefni hafi verið til þess, að leggja hald á umrædd skotvopn, eins og aðstæðum var háttað umrædda nótt. Því er lýst hér að framan, að sóknaraðili var mjög ölvaður, þegar hald var lagt á skotvopnin, eins og hann reyndar hefur sjálfur viðurkennt. Hann hafði haft í hótunum við nágrannakonu sína, eins og í lögregluskýrslu greinir, m.a. hótað að skjóta hana. Heimsókn lögreglu þessa umræddu nótt var ekki af tilefnislausu eins og sóknaraðili heldur fram. Kvartað hafði verið símleiðis undan ónæði sóknaraðila og var lögreglan send á staðinn af því tilefni. Hlutaðeigandi lögreglumenn urðu því að bregðast við aðstæðum og aflétta því hættu­ástandi, sem ástand sóknaraðila og afstaða gaf tilefni til.

Varnaraðili byggir synjun sína á afhendingu skotvopnanna á þremur atriðum, sem að framan er lýst. Verður fjallað um hvern þeirra þátta fyrir sig.

Fyrst verður vikið að þeim málsástæðum varnaraðila, sem merktar eru undir 2. og 3. tölulið hér að framan.

Lögmaður varnaraðila hélt því fram við munnlegan flutning málsins, að refsimál yrði höfðað á hendur sóknaraðila vegna þeirrar háttsemi hans, sem tengist þessu máli. Ákæra myndi verða gefin út á hendur sóknaraðila næstu daga. Hann kvaðst ekki geta upplýst um það með vissu, hver yrðu ákæruatriðin í því máli, en þar myndi að líkindum reyna á 21. og 23. gr. vopnalaga, svo og tilvitnað ákvæði í reglugerð nr. 787/1998. Því væri nauðsynlegt að umrædd skotvopn væru fyrir hendi, sem sönnunargögn.

Að mati dómsins er mál þetta fullupplýst að því er varðar háttsemi sóknaraðila aðfararnótt 1. október sl. og því óþarft af þeirri ástæðu einni að halda umræddum skotvopnum.  Skotvopnin, sem varnaraðili lagði hald á þessa umræddu nótt, geta á engan hátt varpað nýju og betra ljósi á málsatvik en þegar er orðið. Fullnægjandi skýrsla hefur verið gerð um það, hvaða skotvopn komu við sögu, gerð þeirra og búnað er þar lýst og hvernig vörslum þeirra var háttað.  Í 78. gr. oml. er þeim skilyrðum lýst, sem réttlæta haldlagningu eigna til langframa. Upptaka skotvopnanna er það skilyrði 78. gr. oml., sem reynt gæti á í refsimáli því, sem fyrirhugað er að höfða á hendur sóknaraðila.  Það er ekki hlutverk þessa dóms að meta, hvernig sú krafa verður til lykta leidd. Sé það hins vegar álit varnaraðila, að sóknaraðili hafi fyrirgert rétti til að hafa umrædd skotvopn undir höndum, hlýtur það að gilda um aðra byssueign hans.

Í 2. tl. í greinargerð sinni hafnar varnaraðili því að afhenda sóknaraðila hljóðdeyfi, sem fylgdi rifflinum, sem hald var lagt á.

Það eitt, að riffillinn hafði þennan búnað, réttlætir ekki, að mati dómsins, að halda öðru en hljóðdeyfinum einum.

Eins og áður er lýst, mótmælti sóknaraðili þeirri staðhæfingu varnaraðila, að óheimilt sé að nota hljóðdeyfi á byssur og byggir á því, að engin ákvæði vopnalaga, né reglugerð nr. 787/1998, leggi bann við slíkum búnaði, sbr. einnig tilvitnaðan dóm Hæstaréttar.

Lögmaður varnaraðila studdi þessa málsástæðu umbj. síns með vísan til þess, að byssa búin hljóðdeyfi sé betur fallin til voðaverka og því hættulegra vopn, en staðfesti hins vegar að beina lagaheimild bresti fyrir haldlagningu af þessari ástæðu einni.

Dómurinn hafnar þeirri málsástæðu varnaraðila að óskylt sé að afhenda sóknaraðila umrædd skotvopn, vegna þess eins, að eitt þeirra sé búið hljóðdeyfi, sem e.t.v. sé ólögmætur búnaður.

Að lokum verður fjallað um þá málsástæðu varnaraðila, sem að því veit, að sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á, að hann hafi trygga geymslu til varðveislu skotvopna sinna.

Ákvæði 23. gr. vopnalaga, sem varnaraðili vísar til er svohljóðandi: ,,Eigandi eða vörsluaðili skotvopns og skotfæra skal ábyrgjast vörslu þeirra með þeim hætti að óviðkomandi aðili nái ekki til þeirra.  Þegar skotvopn og skotfæri eru ekki í notkun skulu skotvopn annars vegar og skotfæri hins vegar geymd í aðskildum og læstum hirslum.  Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um vörslu skotvopna og skotfæra. Er m.a. heimilt að setja skilyrði um tiltekna geymslu skotvopna eftir að tilteknum skotvopnafjölda er náð.”

Reglugerð nr 787/1998 var sett með stoð í vopnalögum. Í 5. mgr. 33 gr. reglugerðarinnar er svofellt ákvæði. ,,Ef einstaklingur á fleiri en þrjú skotvopn er honum skylt að geyma þau í sérútbúnum vopnaskáp sem samþykktur er af lögreglustjóra.” 

Fyrir liggur, að sóknaraðili er eigandi að níu skotvopnum, samkvæmt skrá varnaraðila um útgefin skotvopnaleyfi honum til handa. Í lögregluskýrslu frá 22. desember sl. kvaðst sóknaraðili hafa keypt vopnaskáp hjá Vesturröst, sem hann geymi byssur sínar í, en skápurinn sé á heimili móður hans. Sóknaraðili hefur lagt fram ódagsetta yfirlýsingu frá Vesturröst, þar sem staðfest er, að hann hafi keypt vopnaskáp úr stáli fyrir átta byssur.

Í þessu sambandi byggir varnaraðili synjun sína um afhendingu á því, að sóknaraðili sé skráður fyrir níu skotvopnum, en vopnaskápur hans geti aðeins geymt átta skotvopn og auk þess hafi skápurinn ekki verið samþykktur af lögreglu­yfirvöldum, eins og áskilið sé í tilgreindu reglugerðarákvæði.

Sóknaraðili heldur því aftur á móti fram, að varnaraðili hafi engar reglur sett um gerð og búnað vopnaskápa s.s. hvaða kosti þeir verði að hafa til að hljóta samþykki. Meðan engum reglur sé til að dreifa, sé veruleg hætta á geðþóttaákvörðunum lögregluyfirvalda og sérstaklega megi búast við slíku, þegar fyrir liggur ágreiningur, svo sem í þessu máli. Lögmaður varnaraðili hefur staðfesti við munnlegan flutning málsins, að engar reglur hafi verið settar um gerð vopnaskápa.

Eins og mál þetta liggur fyrir, þykir verða að hafna kröfu sóknaraðila um afhendingu umræddra skotvopna, að svo stöddu, eða þar til fyrir liggur úttekt og samþykki varnaraðila á vopnaskáp þeim, sem sóknaraðili hefur fest kaup á, eða sóknaraðili færir með öðrum hætti fullnægjandi sönnur á það, að mati varnaraðila, að hann geti annast vörslur skotvopna sinna með lögmæltum hætti, sbr. 5. mgr. 33. gr. rgl. 787/1998.

Rétt þykir, eins og mál þetta er vaxið, að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, að varnaraðila sé gert að afhenda honum eftirtalin skotvopn: Haglabyssu, Remotum Germany (gömul haglabyssa), P.Beretta AL 390 no. V18516E, Riffil marlin Model 1YN cal. 22 no.10678305.

Málskostnaður fellur niður.