Hæstiréttur íslands

Mál nr. 435/2007


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. maí 2008.

Nr. 435/2007.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari)

gegn

X og

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

Y

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni.

X og Y voru ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot framið í ágóðaskyni. Var X gefið að sök að hafa flutt til landsins 3.778,50 g af kókaíni ætlað til söludreifingar, falið í bifreið sem kom til landsins með flutningaskipi í nóvember 2006. Þá var X og Y gefið að sök að hafa í sameiningu fjarlægt ætlað fíkniefni úr bifreiðinni og Y að hafa tekið við vörslum þess í því skyni að afhenda það til söludreifingar, en lögregla hafði þá lagt hald á efnið og komið fyrir gerviefni í þess stað. X og Y neituðu báðir sök. Talið var að þrátt fyrir að framburður X og Y væri með nokkrum ólíkindablæ hefði ákæruvaldinu ekki tekist að færa sönnur fyrir sakargiftum á hendur þeim. Voru X og Y því sýknaðir af refsikröfu ákæruvaldsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 3. ágúst 2007 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst sakfellingar samkvæmt ákæru, refsiákvörðunar og upptöku á bifreiðinni [...].

Ákærðu krefjast staðfestingar héraðsdóms.

Í hinum áfrýjaða dómi eru raktar skýrslur ákærðu. Þótt þær séu í ýmsu með ólíkindablæ verður ekki komist hjá að fallast á forsendur héraðsdómara fyrir því að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að færa sönnur fyrir sakargiftum á hendur ákærðu.  Hinn áfrýjaði dómur verður því staðfestur.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Þorsteins Einarssonar og Sveins Andra Sveinssonar, 373.500 krónur til hvors.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 2007.

             Málið er höfðað með ákæru útgefinni 11. maí 2007 á hendur:

             ,,X, kennitala [...],

             [...], Reykjavík, og

             Y, kennitala [...],

             [...], Reykjavík,

             fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot framið í ágóðaskyni:

             1. Gegn ákærða X, með því að hafa seinni hluta árs 2006, ásamt óþekktum samverkamanni, flutt hingað til lands 3.778,50 g af kókaíni, ætlað til söludreifingar, falið í bifreið af gerðinni Mercedes Benz með framleiðslunúmerið WDB9023221P661304 sem kom til landsins með flutningaskipinu Helgafelli frá Cuxhaven í Þýskalandi, hinn 15. nóvember 2006. Ákærði annaðist tollafgreiðslu bifreiðarinnar og tók hana síðan í sínar vörslur þann 7. febrúar 2007 í þeirri trú að í henni væru falin framangreind fíkniefni, en lögregla hafði þá lagt hald á efnið og komið fyrir gerviefni í þeirra stað. Ákærði, í félagi við meðákærða Y, fjarlægði efnið úr bifreiðinni og tók meðákærði síðan við vörslum þess, sbr. 2. tölulið.

             2. Gegn ákærða Y, með því að hafa, þann 9. febrúar 2007 að B, í félagi við meðákærða X, fjarlægt ætluð fíkniefni úr bifreiðinni og hafa síðan tekið við vörslum efnanna í því skyni að afhenda þau til söludreifingar.

             Teljast brot ákærðu varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974 og nr. 32/2001.

             Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og að gerð verði upptæk 3.778,50 g af kókaíni, sem haldlagt var við rannsókn málsins, með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

             Einnig er þess krafist að ofangreind bifreið af gerðinni Mercedes Benz, nú með skráningarnúmerið [...], sem haldlögð var við rannsókn málsins verði gerð upptæk með vísan til 7. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni, sbr. 7. gr. laga nr. 10/1997.“

             Verjandi ákærða X krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og málsvarnarlauna að mati dómsins.

             Verjandi ákærða Y krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og málsvarnarlauna að mati dómsins.

             Málavextir.

             Málavextir eru í stuttu máli þeir að föstudaginn 17. nóvember sl., fundu tollverðir fíkniefnin sem í ákæru greinir falin í miðstöðvarkæli bifreiðarinnar sem lýst er í ákærunni. Bifreiðin hafði verið flutt til landsins á nafni A með ms. Helgafelli frá Cuxhaven í Þýskalandi hinn 15. nóvember sl. Eftir þetta fékkst heimild til að hlusta síma hjá A og að hlusta samtöl og annað í bifreiðinni sem hér um ræðir. Sími ákærða X var einnig hlustaður frá 21. nóvember s.l. Gerviefni var komið fyrir í bifreiðinni í stað fíkniefnanna og sérstakt fingrafaraduft sett á pakkana eins og síðar verður rakið. Eins og áður var rakið, var hlustaður sími hjá ákærða X og fleirum, auk þess sem beitt var hefðbundnum rannsóknaraðgerðum. Hinn 7. febrúar sl. annaðist ákærði X tollafgreiðslu bifreiðarinnar sem flutt var að B daginn eftir, 8. sama mánaðar. Ákærðu komu báðir að B daginn eftir, 9. febrúar, og þá var gerviefnið fjarlægt úr bifreiðinni en ákærðu hafa borið hvor á sinn hátt um þann þátt málsins.

             Ákærði X var handtekinn 9. febrúar sl., og hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan.

             Ákærði Y var handtekinn 1. mars sl., og hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 2. s.m.

             Undir rannsókn málsins neituðu báðir ákærðu staðfastlega að eiga með saknæmum hætti hlut að máli þessu.

             Nú verður rakinn framburður ákærðu fyrir dómi og vitnisburður og rannsóknargögn eftir því sem að ástæða þykir. Ákæruliðir eru reifaðir saman.

             Ákærði X neitar sök. Hann kvað það eina rétta í ákærulið 1 að hann hafi annast tollafgreiðslu bílsins hinn 7. febrúar sl. eins og lýst er, en sér hafi ekki verið kunnugt um fíkniefnin sem voru flutt til landsins, falin í bílnum.

             Ákærði X kvað aðdraganda málsins þann að ónafngreindur maður hafi komið að máli við sig sumarið 2006 og boðið sér bílinn sem hér um ræðir að hluta til upp í skuld en ákærði kvaðst hafa smíðað palla fyrir þennan mann og átt inni hjá honum peninga fyrir það verk. Kvaðst ákærði hafa greint manninum frá því að þetta yrði að vera bíll sem ákærði gæti notað í vinnu. Ákærði kvaðst í fyrstu hafa verið í vafa um það hvort hann ætti að taka við bílnum en ákvað að kanna hvort bifreið þessarar tegundar væri góð söluvara. Ákærði kveðst hafa spurt C bílasala að því og eftir að hafa komist að því að svo var hafi hann ákveðið að þiggja boðið og taka við bílnum. Um sumarið kvaðst ákærði X hafa afhent hinum ónafngreinda manni gögn um A, en til stóð að A yrði skráður fyrir bílnum. Ástæðuna kvað ákærði þá að sjálfur væri hann gjaldþrota og gæti af þeim sökum ekki átt neitt eins og hann komst að orði en ónafngreindi maðurinn hafi sagt ákærða að hann yrði að útvega nafn sem nota mætti fyrir innflytjanda bílsins. Ákærði kveðst hafa rætt um þetta við A sem hafi samþykkt þetta fyrirkomulag.

             Ákærði hafi hins vegar ekki haft hugmynd um að fíkniefni væru falin í bílnum. Við handtöku kveðst ákærði hafa áttað sig á því að hann hefði verið svikinn í þessum viðskiptum og hann hafi ákveðið að nafngreina ekki viðsemjanda sinn en ákærði kvað afstöðu sína taka mið af hagsmunum hans sjálfs og fjölskyldunnar. Hann þori ekki að taka þá áhættu sem því fylgi að nafngreina manninn er standi að baki fíkniefnainnflutningnum sem mál þetta snýst um.

             Ákærði lýsti því að hann hafi fært í tal við lögreglu að ef lögregla gæti tryggt öryggi sonar ákærða, væri hann fús til að vinna með henni. Fram hafi komið hjá lögreglunni að hún starfaði ekki þannig.

             Ákærði X kvaðst síðan hafa talið málið úr sögunni. Ekkert hafi gerst í málinu fyrr en í nóvember sl., þegar maðurinn kom í heimsókn til ákærða og greindi honum frá því að bíllinn væri á leiðinni til landsins og hann gæti fengið hann. Ákærði þyrfti aðeins að leysa bílinn úr tolli. Ákærði kvaðst hafa þurft að leggja út meira en 500.000 krónur, bæði í aðflutningsgjöld og í opinber gjöld vegna bílsins. Ákærði greindi frá því að honum hafi fundist bíllinn dýr en verðmæti hans hafi verið um 1.500.000 krónur að mati bílasala. Ákærði kvað hafa dregist að leysa bílinn úr tolli en gögn vegna bílsins hafi ekki borist fyrr en í desember sl. Hringt hafi verið í tollinn og þau svör fengist að ekki væri búið að afgreiða bílinn en ákærði kvað ekkert hafa legið á.

             Ákærði X lýsti því er bíllinn var leystur úr tolli. Hann hafi beðið A um að millifæra greiðslurnar sem inna þurfti af hendi allt í því skyni að einfalda og flýta fyrir tollafgreiðslunni. Eftir að ákærði vissi að bíllinn hefði verið tollafgreiddur, kvaðst hann hafa pantað Vökubíl til að fara með hann á verkstæði vegna ökurita. Er starfsmaður Vöku kom á verkstæðið með bifreiðina, kom í ljós að ekki þurfti ökurita í bílinn. Bíllinn var þá fluttur í bifreiðaskoðun í Hafnarfirði þar sem hann var skoðaður. Ákærði lýsti því að nokkrar athugasemdir hafi verið gerðar við skoðunina.

             Ákærði X lýsti því að eftir þetta hafi hann haft samband við C og fengið leyfi hans til að skrá bílinn á hans nafn en ákærði kvaðst um þetta leyti hafa verið kaupa bíl af C og komið hafi til greina að greiða hluta kaupverðsins með hinum nýinnflutta bíl.

             Daginn eftir, 8. febrúar, kvaðst ákærði hafa leyst bílinn úr skoðunarstöðinni og fengið mann að nafni D til aka bílnum austur gegn 5.000 króna þóknun. Áður en ákærði fór með bílinn austur, kvaðst hann  hafa rætt við E í [...] og beðið hann um gera við bílinn eða líta á hann fyrir sig. Hafi E heimilað ákærða að geyma bílinn fyrir austan en ákærði var þar með geymsluaðstöðu fyrir. Eftir að bíllin var kominn austur 8. febrúar kvaðst ákærði hafa farið aftur til Reykjavíkur en að kvöldi þess dags hafi ónafngreindi maðurinn komið að máli við ákærða og spurt um bílinn. Hafi ákærði greint honum frá því hvar bíllinn var en jafnframt sagt að þetta væri sinn bíll. Maðurinn hafi þá orðið þá dálítið reiður áð sögn ákærða sem greindi frá því að bíllinn væri í ólagi og ákærði væri ekki sáttur. Auk þessa kvaðst ákærði hafa greint manninum frá því að hann hefði fengið mann fyrir austan fjall til að laga bílinn eða líta á hann. Maðurinn hafi þá strax boðist til að útvega ákærða mann til að líta á bílinn. Hafi hann spurt ákærða hvort hann væri reiðubúinn til að hitta þennan mann á Selfossi klukkan 11.00 daginn eftir. Ákærði kvaðst hafa þegið þetta og hafi mótstaður verið ákveðinn þar sem ákærði hitti meðákærða Y daginn eftir en ákærði kvaðst aldrei hafa séð meðákærða áður. Þeir meðákærði hafi síðan ekið sem leið lá í [...] þar sem ákærði opnaði vélageymslu og bakkaði út dráttarvél sem þar var fyrir en Benz-bifreiðinni hafi verið ekið inn í staðinn. Eftir það hafi ákærði bent Y á verkfæri sem hann gæti notað. Eftir þetta kvaðst ákærði X hafa unnið við bát sem hann átti og þarna var staðsettur en ákærði kvaðst hafa sett á bátinn nýja skrúfu þennan dag, auk þess sem hann hafi hugað að mótorunum í bátnum, og lýsti ákærði því.

             Ákærði X kvað meðákærða hafa unnið við bílinn inni í skemmunni en ákærði verið fyrir utan nema er hann hafi komið inn annað slagið til að sækja verkfæri.

             Meðal gagna málsins er hljóðupptaka frá samskiptum ákærðu í og við bílinn í skemmunni fyrir austan fjall. Upptakan er mjög slitrótt og óskýr og hefur hún verið borin undir báða ákærðu sem báðir hafa staðfest að þar heyrist samskipti þeirra. Ákærði X kvað þá hafa rætt um daginn og veginn en ekkert þar tengist pakkanum sem var í bílnum. Ákærði X kvaðst ekki hafa séð meðákærða fjarlægja pakkana úr bílnum og hann kvaðst hvorki hafa handleikið pakkana né séð þá.

             Ljósmyndir sem teknar voru af höndum ákærða X hinn 9. febrúar sl. sýna að á báðum höndum hans var efni sem lögreglan hafði komið fyrir á pökkunum, en efnið er ósýnilegt nema undir sérstöku ljósi.

             Ákærði X kvað efnið hafa komið á hendur sínar af öðrum orsökum en þeim að hann hafi handleikið pakkana. Hann kvaðst á staðnum hafa handleikið öll plaststykkin sem tekin hafi verið úr bílnum, þurrkað af þeim og komið fyrir í bílnum eftir á. Þá hafi hann handleikið ull sem var í miðstöð bílsins. Þá kvaðst hann hafa tekið til verkfæri eftir meðákærða þurrkað af þeim og raðað á sinn stað. Loks kvað hann ákærðu hafa kvatt með handabandi.

             Eftir þetta kveðst ákærði hafa farið og rætt við F bónda á staðnum, eins og hann geri ávallt, síðan lagt af stað í bæinn og verið handtekinn.

             Ákærði Y neitar sök. Hann kvaðst hafa fjarlægt gerviefnin úr bifreiðinni í félagi við meðákærða X og tekið við vörslum efnisins eins og í ákæru greinir en þetta hafi ekki verið gert í því skyni að afhenda efnið til söludreifingar. Neitun ákærða Y er á því reist að hann hafi verið fenginn til þess að fjarlægja gerviefni úr bifreiðinni í því skyni til að henda þeim. Hann hafi frá upphafi vitað að búið væri að fjarlægja fíkniefnin úr bílnum og vitað að háttsemi sín hafi ekki verið saknæm.

             Ákærði Y kvað aðdragandann hafa verið þann að hinn 7. febrúar sl., hafi ónafngreindur maður komið að máli við sig og spurt hvort ákærði vildi taka að sér að fjarlægja pakkningar úr bifreiðinni sem hér um ræðir. Ákærði kvaðst ekki þora að nafngreina manninn sökum ótta við hefndaraðgerðir. Fram hafi komið hjá manninum að fíkniefni hafi verið flutt inn í bílnum en lögreglan væri búin að leggja hald á efnið og gerviefni hafi verið sett í stað fíkniefnapakkanna en til stóð að afhenda eiganda bílinn og ekki væri hægt að afhenda hann með gervipakkningunum í. Þessar skýringar hafi ákærði fengið hjá hinum ónafngreinda manni auk þess sem ákærði kvaðst hafa lesið í DV að búið væri leggja hald á fíkniefnin sem flutt voru til landsins í bílnum sem hér um ræðir. Þá hafi ónafngreindi maðurinn sýnt ákærða blaðaumfjöllunina til að gefa honum til kynna að hann væri að sækja gerviefni í bílinn en ekki fíkniefni. Ákærði kvaðst því hafa verið viss um að hann fjarlægði gerviefni úr bílnum.

             Fram kom hjá ákærða að ónafngreindi maðurinn hefði spurt ákærða um atriði sem vörðuðu innflutning og tollafgreiðslu bifreiða. Þetta hafi átt sér stað líklega einhverjum mánuðum áður. Ástæðuna kvað ákærði þá að hann þekkti nokkuð til reglna varðandi bílainnflutning.

             Ekki hafi komið fram hjá manninum hver hefði átt fíkniefnin eða komið þeim fyrir í bílnum. Þá hafi ekki komið fram hjá honum hvort meðákærði X ætti einhvern þátt að málinu og þá hver hans þáttur væri og kvaðst ákærði ekki geta borið neitt þar um.

             Ákærði Y kvaðst hafa tekið að sér að fjarlægja gerviefnin úr bifreiðinni gegn 15.000 króna þóknum. Ákærði hefði átt að hitta mann sem var meðákærði X daginn eftir, 9. febrúar kl. 11.00, á fyrir fram ákveðnum stað á Selfossi. Ákærði kveðst ekki hafa þekkt meðákærða fyrir. Eftir fund þeirra á Selfossi hafi þeir ekið sem leið lá í [...] og að skemmu nokkurri þar sem meðákærði bakkaði út dráttarvél og keyrði síðan Benz bifreiðina hálfa inn í skemmuna. Á  leiðinni út aftur hafi meðákærði opnað vélarhlíf á bílnum og bent á miðstöðvarhús og sagt: „Þetta er þarna.“ Ákærði kvað ónafngreinda manninn hafa verið búinn að greina frá því að gerviefnið væri í miðstöð bílsins. Ákærði kvað hafa komið fram hjá meðákærða X að hann hafi vitað að fjarlægja átti efnið til að henda því. Hann hljóti því að hafa vitað að búið væri að fjarlægja fíkniefnin.

             Eftir þetta kvaðst ákærði hafa hafist handa við að fjarlægja gerviefnin og meðákærði hafi verið í kringum hann. Ákærði kvað bát hafa verið á staðnum. Ákærði lýsti því síðan að í ljós hafi komið að pakkningarnar hafi verið inni í bílnum en ekki fram í þar sem fyrst var leitað. Ekki hafi tekið langan tíma að fjarlægja efnið en meðákærði hafi verið að „sniglast“ í kringum ákærða meðan á þessu stóð.

             Ákærði Y lýsti því er hann fór með pakkningarnar með gerviefninu fram fyrir bílinn. Meðákærði hafi þá komið með pappakassa og hafi hann sett pakkana í kassann. Því næst hafi meðákærði skorið niður plast, breitt yfir pakkningarnar og lokað kassanum. Þessu næst hafi meðákærði spurt hvort ákærði gæti lagað bílinn eða komið bílnum saman.

             Ákærði Y kvað báða ákærðu hafa komið hlutum bílsins saman á ný en ákærði hafi farið brott stuttu síðar eftir að hafa komið kössunum með gerviefninu fyrir í skotti bifreiðar sinnar og ekið heim á leið.

             Aðspurður hvers vegna hann hafi ekki hent efninu fyrir austan eða á leiðinni heim til sín í stað þess að flytja það í bæinn, kvaðst ákærði ekki hafa verið að brjóta neitt af sér og ekkert hafi legið á að losna við pakkningarnar.

             Eftir heimkomu hafi hann geymt efnið í bílnum við heimili sitt í tvær til þrjár klukkustundir uns hann sótti kassann og fór með inn til sín þar sem hann kvaðst hafa sturtað efninu niður í salernið og hent umbúðunum í ruslageymsluna. Aðspurður kvaðst hann hafa bragðað á innihaldi pakkanna meðan hann var að henda innihaldinu en þetta hafi hann gert í forvitnisskyni til að athuga hvað lögreglan hefði sett í pakkana í stað fíkniefnanna. Hann hafi síðan verið handtekinn rúmum þremur vikum síðar.

             Vitnið A kvað þá ákærða X hafa rætt um það að kaupa saman vinnubíl og flytja til landsins. Stuttu síðar hafi X sagst vera búinn að finna bíl í Þýskalandi en A kvaðst ekki hafa fallist á þau kaup. X hafi þá rætt um að kaupa bílinn einn og hafi hann fengið leyfi hjá A til flytja bílinn inn á hans nafni og fengið ljósrit af vegabréfi sínu í þessu skyni. Síðan hafi ekkert gerst í málinu fyrr en mörgum mánuðum síðar er A bárust gögn um að hann væri innflytjandi bílsins sem í ákæru greinir. Hann hafi þá haft samband við ákærða X sem hafi sagst hafa hætt við innflutning fyrri bílsins og fundið þennan bíl í staðinn. A kvaðst hafa spurt ákærða að því hvort fíkniefni tengdust bílainnflutningnum en ákærði sagt að svo væri ekki. A kvaðst ekki vita neitt um aðild ákærða X að málinu.

             Vitnið C kvaðst hafa heimilað ákærða X að skrá bifreiðina sem í ákæru greinir á sitt nafn en þetta hafi hann gert sökum þess að ákærði X var gjaldþrota og hafi ekki viljað skrá bílinn á sitt nafn. C kvaðst áður hafa verið skráður eigandi bifreiðar fyrir ákærða af sömu sökum. C gat ekkert borið um málið að öðru leyti.

             C kvaðst ekki gera athugasemdir við upptökukröfu ákæruvaldsins á bílnum en þótt hann væri skráður eigandi væri ákærði X raunverulegur eigandi bílsins.

             Vitnið E kvaðst hafa þekkt ákærða X í mörg ár en ákærði hafði aðstöðu til að geyma muni á heimili vitnisins að B. E lýsti því að maður hefði komið með ákærða daginn eftir að komið var með bílinn austur í því skyni að laga en þennan dag kvaðst E hafa verið að heiman. Hann kvað ákærða X áður hafa fært í tal við sig að laga bílinn en E gat ekki sinnt því. Hann kvað ákærða X hafa skipt um skrúfu á bát sem geymdur var á sama stað.

             Vitnið Húnbogi Jóhannsson rannsóknarlögreglumaður lýsti rannsókn málsins. Hann greindi frá því að enginn grunur hafi verið um ætlað fíkniefnabrot ákærðu fyrr en eftir að fíkniefnin fundust. Húnbogi lýsti því að aðstæður á þeim stað þar sem gerviefnið var fjarlægt úr bifreiðinni hafi verið þannig að lögreglan gat ekki verið nær vettvanginum. Hafi þetta leitt til þess að ákærði Y hafi ekið á brott og ekki hafi tekist að upplýsa hver hann var fyrr en 1. mars sl., en þá var hann handtekinn. Húnbogi greindi frá því að grunur hafi beinst að fleirum en ákærðu undir rannsókn málsins.

             Húnbogi kvað ekkert hafa komið fram við hlustun á síma ákærða X er tengdist fíkniefnainnflutningnum sem hér um ræðir. Hins vegar hafi verið rætt um bílinn í síma. Þá hafi ekkert komið fram við leit á heimili ákærða X og/eða í bíl hans sem hafi verið til þess fallið að styðja grunsemdir lögreglunnar um fíkniefnabrot hans.

             Húnbogi skýrði hljóðupptöku úr bifreiðinni sem tekin var upp í [...] er efnið var fjarlægt. Endurrit samtala ákærðu tekur aðeins fáar mínútur þótt upptakan hafi verið mun lengri. Langir kaflar hafi verið þannig að aðeins heyrðist í mönnum við störf. Húnbogi sagði að sig minnti að hann hafi heyrt að skipt hafi verið um skrúfu á bát sem var að B.

             Húnbogi greindi frá því að er rannsókn málsins var hætt, hafi verið talið að ekki yrði komist lengra með rannsóknina. Talið var að baki ákærðu væru „peningamenn“ sem hvorugur ákærðu vildi nafngreina.

             Vitnið, Hörður Lilliendahl rannsóknarlögreglumaður, mundi eftir því að ákærði X hafi rætt það við lögreglu að gefa upp nafn hins ónafngreinda manns gegn því að öryggi sona hans yrði tryggt. Ekki hafi orðið af þessu en komið hafi í ljós að ákærði X hafi verið hræddur um sig og sína.

             Hörður skýrði hvers vegna ákærði Y var ekki handtekinn 9. febrúar s.l., en aðstæður á vettvangi leiddu til þess að hann komst í burtu.

             Hörður kvað ekkert hafa komið fram í símhlustun hjá ákærða X sem tengdi hann beint við málið, t.d. um að fíkniefni hafi verið í bílnum sem fluttur var til landsins.

             Vitnið, Kristján Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður, kvaðst hafa leitað fingrafara á mælaborði bifreiðarinnar sem hér um ræðir. Þá kvaðst hann hafa rannsakað bílhlutana sem teknir hefðu verið úr bílnum í því skyni að kanna hvort á þessum hlutum væri að finna efni sem sett hafði verið á pakkana sem innihéldu gerviefnin. Komið hafi í ljós að efnið var í litlum mæli inni í stokknum þar sem efnunum hafði verið komið fyrir og í kringum opið þar sem efnin voru. Verkfæri á staðnum hafi ekki verið skoðuð með tilliti til þessa. Kristján lýsti því að þótt magn efnisins væri lítið á hlut sem snertur væri settist efnið engu að síður á hendur viðkomandi.

             Vitnið, Ómar Pálmason sérfræðingur í tæknideild lögreglunnar, greindi frá því að hann hafi ekki sett efni á pakkana sem hér um ræðir en hann lýsti vinnulagi við að setja efni á pakka eins og í þessu tilviki. Hann lýsti ráðstöfunum sem gerðar eru til að reyna að koma í veg fyrir smit. Meðal ráðstafana sé að gengið er rækilega úr skugga um það að efnið sé ekki utan á pökkunum sjálfum. Efnið sé ávallt sett inn í viðkomandi pakka þannig að það berist ekki á þann sem handleikur pakkann fyrr en sá hinn sami opnar hann. Smit geti þannig ekki borist fyrr en eftir að pakkinn hefur verið opnaður. Ómar lýsti því að hann teldi ólíklegt að smit efnisins hafi borist á hendur ákærða X eftir að hann hefði t.d. handleikið verkfæri sem ákærði Y hefði notað á staðnum. Ómar lýsti því að hann teldi smit á höndum ákærða X tilkomið vegna beinnar snertingar hans við pakkana.

             Fram kom hjá Ómari að hann gat ekki borið um líkindi þess að efnið smitaðist milli manna eða muna sökum þess að hann kom ekki á vettvang og kom efninu ekki fyrir í pakkanum.

             Vitnið, Ágúst Evald Ólafsson lögreglufulltrúi, kvaðst hafa sett litarefnið á pakkana með gerviefninu. Hann kvaðst hafa komið efninu fyrir á pökkunum eftir að þeim hafði verið komið fyrir í bílnum. Hann hafi þannig sett efnið utan á pakkana, ekki inn í þá. Hann lýsti því hvernig hann stóð að verki til að reyna að forðast að efnið bærist á aðra hluti. Ágúst kvað þannig nægjanlegt að taka pakkana upp til að fá efnið á sig, ekki hafi þurft að opna pakkana til þess.

             Vitnið, Ásgeir Karlsson aðstoðaryfirlögregluþjónn, lýsti ákvörðun sem tekin var um áframafhendingu fíkniefnanna sem hér um ræðir. Hann lýsti slæmum áhrifum fjölmiðlaumfjöllunar á rannsókn málsins. Á þessum tíma hafi ekki verið annað mál til rannsóknar sambærilegt þessu og því ljóst að umfjöllun í DV gat ekki átt við annað mál að sögn Ásgeirs.

             Vitnið, Jakob Kristinsson dósent, rannsakaði fíkniefnin sem að hér um ræðir. Hann skýrði og staðfesti rannsókn sína á efnunum og skýrði styrkleika þeirra sem hann kvað mikinn.

             Tómas Zoëga geðlæknir vann geðsókn á ákærða X. Tómas kom fyrir dóminn, skýrði og staðfesti rannsókn sína.

             Niðurstaða.

             Ákæruliðir 1. og 2.

             Ákærðu hafa, hvor um sig, frá upphafi rannsóknar málsins borið efnislega á sama veg og hefur framburður þeirra verið stöðugur um flest. Við fyrstu sýn kann framburður þeirra að virðast ótrúverðugur og reifarakenndur á köflum. Það er mat dómsins að svo sé ekki. Engin fyrirliggjandi gögn, hvorki vitnisburður né önnur sönnunargögn, leiða til þess að við sönnunarmat eigi að hafna framburði ákærðu. Við blasir að ekki hefur tekist að upplýsa málið og fær það álit dómsins stoð í vitnisburði hluta rannsakenda og að virtum gögnum málsins í heild. Ákærðu verða ekki látnir bera hallann af þessu. Verður nú vikið nánar að þessu.

             Ákærði X neitar sök. Eftir að fíkniefnin fundust í bifreiðinni, 17. nóvember 2006, hófst rannsókn þar sem stefnt var að því að leiða í ljós hver væri eigandi og innflytjandi fíkniefnanna sem hér um ræðir. Fljótlega beindist grunur að ákærða X og fleirum og voru símar hlustaðir, m.a. sími ákærða X sem var hlustaður frá 21. nóvember 2006, fram að handtöku hans 9. febrúar sl. Ekkert kom fram við þá hlustun sem tengir ákærða X við fíkniefnainnflutninginn sem hér um ræðir.

             Leit á heimili hans, í bíl hans, rannsókn tölvugagna og skoðun farsíma í hans eigu leiddi heldur ekkert í ljós sem rennt gæti stoðum undir sakarefni á hendur honum.

             Ákærði X annaðist tollafgreiðslu bifreiðarinnar eins og í ákæru greinir og hann hefur sjálfur borið um þótt hann neiti því að hafa gert það í þeirri trú að fíkniefnin sem flutt voru til landsins væru þá falin í bifreiðinni en ákærði hefur staðfastlega neitað að hafa vitað um fíkniefnin eins og áður var rakið. Ákærði lét færa bifreiðina á mælaverkstæði og síðan til skoðunar á skoðunarstöð. Þá leitaði hann eftir því við E að hann annaðist viðgerð á bílnum fyrir austan fjall og hefur E borið um þetta fyrir dóminum. Þessar staðreyndir benda fremur til þess að ákærða hafi ekki verið kunnugt um pakkana sem komið hafði verið fyrir í bílnum enda líklegra að ákærði hefði fjarlægt pakkana áður en til þessara tilfæringa með bílinn kom, hefði ákærði vitað af pökkunum.

             Ákærði X hefur frá upphafi borið að maður, sem hann vill ekki nafngreina, hafi keypt og flutt bílinn til landsins og sá standi að baki innflutningi fíkniefnanna. Komið hefur fram hjá báðum ákærðu að þeir þekkja þennan mann sem hvorugur vill nafngreina af ástæðum sem áður voru raktar. Báðir ákærðu hafa borið að þeir hafi ekki þekkst fyrir og að þeir hafi fyrst hist á Selfossi 9. febrúar sl.

             Hljóðupptaka frá því er gerviefnin voru fjarlægð úr bifreiðinni að B hinn 9. febrúar s.l. virðist allt að því 90 mínútur að lengd. Samræður ákærðu standa aðeins yfir í fáar mínútur af heildarupptökunni og tímanum sem unnið var við að fjarlægja gerviefnið úr bifreiðinni. Hljóðupptakan er mjög slitrótt, óskýr á köflum og samhengislaus að því er virðist. Þannig virðast engar samræður ákærðu hafa átt sér stað mestan hluta tímans er aðeins heyrist í mönnum við störf eins og vitnið Húnbogi Jóhannsson bar um.

             Það er mat dómsins að ekkert verði ráðið af hinni sundurlausu og slitróttu hljóðupptöku um ætluð fíkniefnabrot ákærðu.

             Ákærði X hefur borið að hann hafi mestan tímann sem ákærði Y vann við bílinn, verið utandyra að gera við bát sem hann átti þar. Hann bar að samræður ákærðu hafi einkum átt sér stað er hann kom inn í skemmuna til að sækja verkfæri. Fyrir liggur vitnisburður E um að ákærði X hafi þennan dag skipt um skrúfu í bát sínum. Að þessu öllu virtu sýnist hljóðupptakan geta bent til þess að framburður ákærða X sé réttur varðandi það sem fram fór í og við bifreiðina í greint sinn þótt ákærði Y hafi borið á annan veg.

             Enginn vitnisburður liggur fyrir um sök ákærða X í málinu.

             Hvorugur ákærðu hefur borið um saknæman þátt hins nema ef vera kynni að unnt væri að virða þannig framburð ákærða Y um að ákærði X hafi vitað um staðsetningu efnisins í bílnum og að fjarlægja hafi átt efnið til að fleygja því og hann hljóti því að hafa vitað að áður hafi verið búið að fjarlægja fíkniefnin úr bifreiðinni.

             Eins og rakið var hafa ákærðu borið hvor með sínum hætti um þetta og framburður annars þeirra verður ekki lagður til grundvallar sakfellingu hins enda ekkert í gögnum málsins til þess fallið að styðja mjög afmarkaðan framburð ákærða, Y, að þessu leyti til að unnt sé að leggja framburð hans til grundvallar sakfellingu ákærða X. Málið er þannig í raun óupplýst að þessu leyti.

             Þá bar ákærði Y um að ákærði X hefði handleikið pakka eftir að þeir voru fjarlægðir úr bílnum. Ákærði X hefur neitað þessu eins og rakið var og telur að efnið sem hann hafði á höndunum við rannsókn hinn 9. febrúar sl., hafi komið á sig af allt öðrum orsökum.

             Vitnið Ómar Pálmason bar um það hvernig venja er að setja efni á fíkniefnapakka í tilvikum eins og því sem hér um ræðir. Ljóst er af vitnisburði Ágústs Evalds Ólafssonar að efnið var ekki sett á pakkana eins og bar að gera, sé tekið mið af vitnisburði Ómars sem er sérfræðingur á þessu sviði. Það að koma efninu fyrir eins og gert var er almennt séð til þess fallið að efnið geti smitast út, bæði frá þeim einstaklingi sem handlék pakkana og einnig á annan hátt, svo sem frá verkfærum sem kunna að hafa verið notuð við að fjarlægja pakkana. Verkfærin voru ekki rannsökuð með tilliti til þessa en ákærði X kvaðst hafa þrifið verkfærin sem ákærði Y notaði við að fjarlægja pakkana í bifreiðinni. Sýnist þannig alls ekki útilokað að ákærði, X, kunni að hafa fengið efnið á sig með öðrum hætti en með beinni snertingu við pakkana sem fjarlægðir voru úr bílnum í B.

             Þá er það álit dómsins að jafnvel þótt talið væri sannað að ákærði X hefði handleikið eitthvað af pökkunum, dygði það ekki til sakfellingar eins og á stendur.

             Það er þannig álit dómsins að ósannað sé gegn staðfastri neitun X frá upphafi að hann hafi tekið þátt í að fjarlægja pakkana úr bílnum eins og ákært er fyrir í niðurlagi 1. liðar ákæru.

             Eins og rakið var, hefur ákærði X frá upphafi neitað sök og borið efnislega á sama veg um flest varðandi málið.

             Að öllu þessu virtu, af öðrum gögnum málsins, gegn eindreginni neitun ákærða og með vísan til 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, er ósannað að ákærði X hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í ákæru greinir og ber að sýkna hann.

             Ákærði Y neitar sök. Vísa má til þess sem rakið var að framan um samskipti ákærðu, ónafngreinda manninn og að framburður hvorugs ákærðu sé til þess fallinn að styðja sakfellingu hins. Þannig hefur ákærði X ekki borið um að ákærði Y hafi átt hlut að máli þessu með saknæmum hætti.

             Enginn vitnisburður liggur fyrir um saknæman þátt ákærða Y í málinu.

             Ákærði Y ber að hann hafi vitað að gerviefni voru í pökkunum sem hann fjarlægði úr bílnum að B hinn 9. febrúar sl. Hann kvaðst hafa lesið um þessa staðreynd í DV og kvað ónafngreinda manninn sem fékk hann til verksins hafa greint sér frá þessu og jafnframt sýnt blaðagreinar þessu til staðfestingar.

             Fyrir liggur að fréttir um haldlagningu fíkniefnanna sem hér um ræðir birtust í DV 24. nóvember og 1. desember sl. og samkvæmt vitnisburði Ásgeirs Karlssonar, stjórnanda rannsóknarinnar, gátu upplýsingarnar ekki átt við um annað mál en það sem hér um ræðir.

             Ákærði flutti gerviefnið á heimili sitt og fleygði því eins og hann hefur borið um og áður var rakið.

             Ákæruvaldið telur að það að ákærði bragðaði á efninu áður en hann sturtaði því niður sanni eða gefi til kynna að ákærða hafi ekki verið ljóst að um gerviefni hafi verið að ræða heldur hafi hann tekið efnið í sínar vörslur í því skyni að afhenda það til söludreifingar eins og lýst er í ákærulið 2.

             Ákærði hefur borið að hann hafi bragðað á efnunum í forvitnisskyni og til að kanna hvaða efni lögreglan hefði sett í stað fíkniefnanna.

             Það er álit dómsins að ekki sé unnt að virða það sem sönnun að ákærði bragðaði á efnunum áður en hann sturtaði þeim niður enda hefur ákærði Y frá skýrslutöku 8. mars sl., borið um að hafa vitað hvers kyns var og styðja blaðagreinar sem raktar voru framburð ákærða að þessu leyti.

             Þá liggur ekkert annað fyrir meðal gagna málsins sem gerir það að verkum að ekki beri að leggja framburð ákærða til grundvallar varðandi það að hann hafi ekki haft ásetning til að fremja fíkniefnabrot.

             Að öllu þessu virtu, af öðrum gögnum málsins, gegn eindreginni neitun ákærða og með vísun til 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, er ósannað að ákærði Y hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í ákæru greinir og ber að sýkna hann.

             Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, eru dæmd upptæk 3.778,50 g af kókaíni.

             Samkvæmt 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 7. gr. laga nr. 10/1997, er heimilt að gera upptæka hvers konar muni sem notaðir hafa verið eða ætlaðir eru til ólögmætrar meðferðar efna sem lögin taka til. Skráður eigandi bifreiðarinnar [...] gerði ekki athugasemdir við upptökukröfuna en hins vegar er á það að líta að bæði hann og ákærði X bera á sama veg um það að ákærði X sé eigandi bifreiðarinnar. Ber að líta á að svo sé þrátt fyrir skráninguna. Það er mat dómsins að skýra beri tilvitnuð lagaákvæði svo að til að beita upptöku eins og hér er gerð krafa um þurfi að hafa átt sér stað saknæmt athæfi eiganda bílsins. Ákærði X er sýknaður af refsikröfu í málinu og hefur mótmælt upptökukröfunni. Eru því ekki lagaskilyrði fyrir upptökukröfunni eins og á stendur og er henni hafnað en líta ber svo á að kröfunni sé beint að ákærða X þótt það komi ekki skýrt fram í ákærunni.

             Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar 1.538.222 krónur í málsvarnarlaun til Þorsteins Einarssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða, X, og 1.340.118 krónur í málsvarnarlaun til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða Y. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þóknunin er í báðum tilvikum fyrir verjandastörf lögmannanna frá upphafi rannsóknar málsins. Auk þessa greiði ríkissjóður 41.700 króna aksturskostnað til Þorsteins Einarssonar hæstaréttarlögmanns og 72.000 króna aksturskostnað til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns.

             Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

             Ákærðu X og Y eru sýknaðir af refsikröfu ákæruvaldsins.

             Upptöku á bifreiðinni [...] er hafnað.

             Upptæk eru dæmd 3.778,50 g af kókaíni.

          Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar 1.538.222 krónur í málsvarnarlaun til Þorsteins Einarssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða X, og 1.340.118 krónur í málsvarnarlaun til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða Y. Þá greiði ríkissjóður Þorsteini Einarssyni hæstaréttarlögmanni 41.700 króna aksturskostnað og Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni 72.000 krónur í aksturskostnað.