Hæstiréttur íslands

Mál nr. 71/2001


Lykilorð

  • Umboðssvik
  • Fjárdráttur
  • Brot í opinberu starfi
  • Skilorð


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. maí 2001.

Nr. 71/2001.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Eggert Haukdal

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Umboðssvik. Fjárdráttur. Brot í opinberu starfi. Skilorð.

E var oddviti hreppsnefndar. Hann var ákærður fyrir umboðssvik og fjárdrátt í opinberu starfi. Brotin voru í ákæru talin fólgin í því að E hefði misnotað aðstöðu sína til að gefa út skuldabréf í nafni hreppsins, án þess að hreppsnefnd samþykkti, og verja meginhluta lánsfjárins til greiðslu á öðru skuldabréfi, sem var rekstri hreppsins óviðkomandi. Þá var hann talinn hafa dregið sér fé með því að hafa látið færa til inneignar á viðskiptareikning sinn tiltekna fjárhæð, sem hafði verið gjaldfærð hjá sveitarsjóði sem kostnaður vegna vegagerðar í hreppnum án reikninga að baki þeirri færslu. Hæstiréttur sýknaði E af ákæru fyrir umboðssvik og taldi ósannað að auðgunarásetningur hefði legið að baki gjörðum hans. Hins vegar var E sakfelldur fyrir fjárdrátt, þar sem ljóst þótti, að tilteknar bókhaldsfærslur hafi leitt til lækkunar á skuld hans við hreppinn. Sem oddvita hafi honum hlotið að vera kunnugt um þennan frágang reikninga og ekki getað dulist, hver áhrif hans væru. Var E dæmdur til að sæta fangelsi í tvo mánuði skilorðsbundið. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.

Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar 19. febrúar 2001 að tilhlutan ákærða. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist, að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru, þó þannig að 1. liður í II. kafla ákæru verði hluti af I. kafla, og refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara mildari refsingar en ákveðin var í héraðsdómi.

Ákæruvaldið hefur lagt fyrir Hæstarétt gögn um uppgjör á fjórum skuldabréfum, sem voru í öndverðu hvert að fjárhæð 226.900 krónur og tryggð með veði í Eystra-Fíflholti. Þá hefur verið lagt fram bréf umdæmisstjóra Vegagerðarinnar á Selfossi til Einars Sveinbjörnssonar löggilts endurskoðanda frá 27. apríl 2001, þar sem staðfest er, að kostnaður við vegaframkvæmdir á svonefndum Þúfuvegi í apríl 1996, 1.578.919 krónur, hafi að hluta til verið færður á viðhald vega og að hluta á safnvegi í Vestur-Landeyjum.

Af hálfu ákærða hefur verið lögð fram greinargerð Guðbjörns Jónssonar 5. apríl 2001 um færslur í bókhaldi Vestur-Landeyjahrepps á 500.000 krónum vegna framkvæmda á Þúfuvegi og bréf Jóns Þ. Hilmarssonar löggilts endurskoðanda til verjanda ákærða 7. apríl 2001 um sama efni. Þá hefur ákærði lagt fram greinargerð Guðrúnar Bogadóttur 21. mars 2001 um samskipti hennar og Magnúsar Benediktssonar löggilts endurskoðanda.

I.

Eins og að framan greinir hefur ákæruvaldið breytt kröfugerð sinni fyrir Hæstarétti á þann veg, að 1. liður í II. kafla ákæru um ætlaðan fjárdrátt verði hluti af  I. kafla um ætluð umboðssvik. Jafnframt er því lýst, að heildarákærufjárhæð lækki í 1.535.000 krónur, þar sem ákærufjárhæð umboðssvikabrotsins hækki ekki sem nemur lækkun fjárdráttarfjárhæðar II. kafla úr 1.177.360 krónum í 500.000 krónur. Það er því ekki lengur sjálfstætt ákæruefni, að ákærði hafi dregið sér fé með því að hafa á árunum 1994, 1995 og 1996 lækkað skuld á viðskiptareikningi Eystra-Fíflholts um 677.360 krónur undir þeim formerkjum, að verið væri að millifæra þær á rekstur hreppsins sem útgjöld vegna ábyrgðar. Eftir framangreinda breytingu á kröfugerð ákæruvaldsins getur það ekki komið til sérstakrar úrlausnar fyrir Hæstarétti, hvort þessi ætlaða háttsemi ákærða hafi falið í sér refsinæm umboðssvikabrot, sbr.1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

II.

Málavöxtum er skilmerkilega lýst í héraðsdómi. Gögn málsins bera með sér, að kaupsamningur Birgis Sævars Péturssonar og Vestur-Landeyjahrepps um jörðina Eystra-Fíflholt frá 19. apríl 1986 var ekki lagður fyrir hreppsnefnd, en nefndin hafði á fundi 4. sama mánaðar samþykkt að neyta forkaupsréttar að jörðinni og ganga inn í kaupsamning Birgis Sævars við Þorkel Steinar Ellertsson. Sá samningur liggur ekki fyrir í málinu. Með bréfi Brynjólfs Bjarnasonar oddvita Vestur-Landeyjahrepps til ríkissaksóknara 7. janúar 2000 var því lýst, að hreppsnefnd hefði á fundi 6. apríl 1999 samþykkt, að ekki væri ástæða til frekari aðgerða vegna kæru níu íbúa hreppsins á hendur ákærða. Jafnframt var sagt í bréfi oddvita, að hreppsnefndin hefði hafnað því á fundi 1. desember 1999 að setja fram skaðabótakröfu í málinu, þar sem hreppurinn hefði ekki orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna aðgerða fyrrverandi oddvita.

Án tillits til þess hvort Vestur-Landeyjahreppur var að lögum bundinn við þá ábyrgðaryfirlýsingu, sem fram kom í áðurnefndum kaupsamningi um Eystra-Fíflholt 19. apríl 1986, liggur ekki fyrir, að hreppurinn hafi skaðast fjárhagslega vegna aðgerða ákærða í tengslum við jarðarkaupin, en ósannað er, að auðgunarásetningur hafi legið að baki þeim gjörðum hans, er I. kafli ákæru lýtur að, sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms ber að sýkna ákærða af þessum hluta ákærunnar. 

III.

Eins og rakið er í héraðsdómi og ráðið verður af framlögðu bréfi umdæmisstjóra Vegagerðarinnar á Selfossi kom ekki til þess, að Vestur-Landeyjahreppur þyrfti að inna af hendi 500.000 krónur vegna framkvæmda við Þúfuveg, eins og hreppsnefndin hafði þó samþykkt á fundi sínum 3. apríl 1996. Fjárhæð þessa átti því ekki að gjaldfæra í bókhaldi hreppsins. Fyrir liggur hins vegar, að hún var án nokkurra gagna færð hreppnum til gjalda vegna vegamála og í fyrstu til inneignar á viðskiptareikningi með heiti Ræktunarsambands Landeyja en þaðan til inneignar á viðskiptareikningi 29-63-416, er hafði að geyma viðskipti ákærða og hreppsins. Upphafsstaða hans eða saldo 1. janúar 1996 nam 168.650 krónum. Í árslok voru færðar til skuldar 500.841 króna sem „Saldó 1/1 Eggert Haukdal” og um leið til inneignar áðurnefndar 500.000 krónur af reikningi Ræktunarsambandsins. Viðskiptareikningur 416 var jafnaður út miðað við árslok 1996 og var þá stofnaður nýr viðskiptareikningur ákærða, 29-63-430. Á hann voru skráðar nær allar færslur ársins 1996 af reikningi 416 en þó ekki framangreindar fjárhæðir, sem gengu hvor á móti annarri með þeim afleiðingum, að skuld ákærða að fjárhæð 500.841 króna jafnaðist að mestu út, áður en fært var yfir á hinn nýja viðskiptareikning. Mismuninum, 841 krónu, virðist hafa verið eytt með færslum á reikningi 416, sem ekki eiga sér fulla samsvörun á reikningi 430.

Samkvæmt framansögðu er ljóst, að umræddar bókhaldsfærslur leiddu til lækkunar á skuld ákærða við hreppinn, áður en stofnaður var viðskiptareikningur 430. Sem oddvita hlaut ákærða að vera kunnugt um þennan frágang reikninga og gat ekki dulist, hver áhrif hans væru. Hefur hann því orðið sekur um þá háttsemi, er greinir í II. kafla ákæru og þar er réttilega færð til refsiákvæða.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er fallist á ákvörðun hans um refsingu ákærða og sakarkostnað. Ákærði skal greiða helming áfrýjunarkostnaðar, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Eggert Haukdal, greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talinn helming málsvarnarlauna verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, er samtals nema 250.000 krónum.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 6. febrúar 2001.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 5. janúar sl., er höfðað með svofelldri ákæru, dags. 15. febrúar 2000, á hendur ákærða, ,,Eggert Haukdal, kt. 260433-7419, Bergþórshvoli II, Vestur-Landeyjum, Rangárvallasýslu

fyrir eftirgreind auðgunarbrot, í opinberu starfi sem oddviti Vestur-Landeyjahrepps.

I.

Fyrir umboðssvik í opinberu starfi, með því að hafa hinn 27. desember 1994, misnotað aðstöðu sína til að gefa út í nafni hreppsins, án þess að hreppsnefnd samþykkti, skuldabréf til Búnaðarbanka Íslands, að fjárhæð kr. 1.035.000, með sjálfskuldarábyrgð ákærða og tveggja annarra hreppsnefndarmanna, og eignfæra þá fjárhæð á viðskiptareikning á nafni Eystra-Fíflholts. Lánsfénu varði ákærði að meginhluta til greiðslu á skuldabréfi, útgefnu 19.6.91 að fjárhæð kr. 622.000, sem var rekstri hreppsins óviðkomandi.

Telst þetta varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 138. gr. sömu laga.

II.

Fyrir fjárdrátt í opinberu starfi, með því að hafa dregið sér af fjármunum hreppsins samtals kr. 1.177.360, á þann hátt sem hér greinir:

1.          Á árunum 1994, 1995 og 1996, lækkað skuld, sem ákærði hafði stofnað til á viðskiptareikningi Eystra-Fíflholts, um kr. 677.360, með því að millifæra á rekstur hreppsins sem útgjöld vegna ábyrgðar, heimildarlaust og án vitundar hreppsnefndarinnar, sem hér greinir:

31.12.1994            kr.250.000

31.12.1995            kr.200.000

31.12.1996            kr.227.360   kr.677.360

2. Á árinu 1996 látið færa til inneignar á viðskiptareikning sinn kr. 500.000, sem höfðu verið gjaldfærðar hjá sveitarsjóði sem kostnaður vegna vegagerðar í hreppnum, án reikninga að baki þeirri færslu. Mótfærslan var í fyrstu færð á Ræktunarsamband Vestur-Landeyja, en síðan millifærð sem inneign ákærða á viðskiptareikning hans.

Teljast þessi brot varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 138. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

Þá krefst sækjandi þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu ákærða er þess krafist að ákærði verði sýknaður af öllu kröfum ákæruvaldsins og sakarkostnaður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða að mati dómsins.

II.

Ákærði var oddviti Vestur-Landeyjahrepps í tæp þrjátíu ár, en sagði af sér embætti í lok ársins 1998 í kjölfar málefna þeirra sem ákæra í máli þessu er sprottin af. Hann hefur haldið því fram að mál þetta sé tilkomið vegna kaupa hreppsins á jörðinni Eystra-Fíflholti, en hreppsnefnd samþykkti á hreppsnefndarfundi á árinu 1985 að ,,nota forkaupsrétt sinn samkvæmt 6. gr. jarðalaga no 65,1976”. Á árinu 1986 var samþykkt með þremur atkvæðum, en tveir sátu hjá, að neyta forkaupsréttar að jörðinni og ganga inn í kaupsamning Þorkels Steinars Ellertssonar við Birgi S. Pétursson um jörðina. Í kaupsamningi þessum, sem dags. er 19. apríl 1986, er m.a. ákvæði um að sveitarsjóður Vestur-Landeyjahrepps sé ábyrgur fyrir öllum skuldbindingum samningsins gagnvart seljanda, þó að sveitarsjóður endurselji jörðina, þar á meðal greiðslu fasteignatryggðs veðskuldabréfs sem skyldi gefið út við afsal. Sveitarsjóður seldi Þorvaldi Elíssyni jörðina 3. júní 1987, en kaupin gengu til baka 8. september sama ár. Sveitarsjóður gerði kaupsamning 22. september 1987 við Guðmund Örn Ólafsson um jörðina. Hreppsnefnd tók málið fyrir á fundi 23. september 1987 og var samþykkt með 4 atkvæðum, en einn sat hjá, að selja Guðmundi Erni jörðina og gengi hann inn í kaupsamning hreppsins við Birgi og Þorvald Elísson. Guðmundur Örn seldi síðan jörðina Hafsteini Alfreðssyni og Guðrúnu Jóhannsdóttur með kaupsamningi dags. 31. maí 1990.  Á hreppsnefndarfundi 5. júní 1990 var samþykkt að falla frá forkaupsrétti að jörðinni. Í málinu er fram komið að Guðmundur Örn Ólafsson lenti í verulegum vanskilum með greiðslu kaupverðs jarðarinnar, en ákærði heldur því fram að á sveitarsjóð hafi af þeim sökum fallið ábyrgðir samkvæmt kaupsamningnum og lúti ákæruatriði máls þessa að greiðslu þeirra ábyrgða af hálfu sveitarsjóðs.

Í málinu hefur verið lögð fram yfirlýsing frá Búnaðarbanka Íslands, Hellu, dags. 23. desember 1994, þar sem segir: ,,Það staðfestist hér með, að lán að fjárhæð 1.035.000 sem V-Landeyjahreppur mun fá hér í Búnaðarb. Íslands, Hellu mun ráðstafast til uppgreiðslu á skuld V-Landeyjahrepps, vegna Eystra-Fíflholts, skv. skuldabréfi nr:13008 sem hér hefur verið í vanskilum frá 10.12.91. Sú skuld er miðað við 27.12.´94 að fjárhæð kr: 982.342.40 reiknuð með samningsvöxtum í stað dráttarvaxta. Einnig mun andvirði bréfsins notað til að greiða kr: 18.838.30 sem er vegna framlengingar víxils, sem einnig var v/Eystra Fíflholts.

Skuldabréfið nr:13008 pr.19.12.´91 var upphaflega kr: 622.000.00”.

Þá hefur einnig verið lögð fram önnur yfirlýsing Búnaðarbankans, dags. 9. nóvember 2000, þar sem segir að andvirði skuldabréfs nr. 13008 að upphæð 622.000 krónur, útg. og keypt 19. júní 1991, hafi verið notað til greiðslu á skuldabréfi nr. 12695, upphaflega að upphæð 571.000 krónur, útgefið 4. desember 1989. Greiðandi og útgefendur hafi verið þeir sömu.

Á fundi hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps 11. nóvember 1998 var samþykkt tillaga þess efnis að unninn skyldi nýr ársreikningur fyrir árið 1997 og að Einar Sveinbjörnsson löggiltur endurskoðandi hjá KPMG endurskoðun hf. á Selfossi yrði fenginn til verksins. Tillagan var samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum og ritar ákærði undir hana sjálfur.

Í greinargerð Einars Sveinbjörnssonar, dags. 10. febrúar 1999, kemur m. a. fram að oddviti hafi ,,upplýst að á árunum 1991 og 1994 hafi hann greitt samtals 1.207.449 kr. vegna ábyrgðarskuldbindingar sem hann hafi ritað í nafni Vestur-Landeyjahrepps með vitund tveggja hreppsnefndarmanna, en án formlegrar heimildar hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps. Fjárhæð þessi var skuldfærð í viðskiptareikning undir nafninu Eystra-Fíflholt. Á árunum 1994 til 1996 voru gjaldfærðar hjá sveitarfélaginu 679.269 kr. sem kostnaður vegna ábyrgðar og sem laun án þess að séð verði að um útgjöld sveitarfélagsins hafi verið að ræða og var fjárhæðin færð í kredit á viðskiptareikning Eystra-Fíflholts og lækkaði því staða hans um þá fjárhæð. Þessar fjárhæðir hafa nú verið bakfærðar í hinum leiðrétta ársreikningi ársins 1997. Á árinu 1996 voru gjaldfærðar 500.000 kr. hjá sveitarsjóði vegna vegagerðarframkvæmda og var fjárhæðin í fyrstu færð sem skuld við Ræktunarsamband V-Landeyja, en síðan millifærð sem inneign oddvita á viðskiptareikning hans. Ekki verður séð að um útgjöld sveitarfélagsins hafi verið að ræða, en ljósrit af fylgiskjali með færslu þessari fylgir hér með merkt fylgiskjal 1. Oddviti hefur óskað eftir að gjaldfærsla þessi verði bakfærð í leiðréttum ársreikningi 1997. Samkvæmt bókhaldi hreppsins hefur oddviti fengið greiðslur umfram reiknuð og gjaldfærð laun á árunum 1996 og 1997 að fjárhæð 1.327.418 kr. án þess að séð verði að samþykki hreppsnefndar hafi legið fyrir og voru þessar greiðslur skuldfærðar á viðskiptareikning oddvita.”

Í kjölfar greinargerðar þessarar sendu níu íbúar Vestur-Landeyjahrepps bréf til Ríkislögreglustjóra, dags. 23. febrúar 1999, þar sem þeir fóru þess á leit að fram færi opinber rannsókn á því hvort ákærði hafi gerst sekur um brot gegn ,,almennum hegningarlögum, bókhaldslögum, sveitarstjórnarlögum, stjórnsýslulögum og skattalögum”. Þá var óskað eftir því að rannsakað yrði hvort kjörnir hreppsnefndarmenn hefðu sinnt störfum sínum, sem eftirlitsskyldir aðilar, samkvæmt sveitarstjórnarlögum.

Með bréfi Brynjólfs Bjarnasonar, oddvita Vestur-Landeyjahrepps, dags. 7. janúar 2000, var upplýst að á fundi hreppsnefndar 6. apríl 1999 hafi legið fyrir bréf frá Ríkislögreglustjóra um afstöðu hreppsnefndar til ofangreindrar kæru. Hreppsnefndin samþykkti á fundi sínum að ekki væri ástæða til frekari aðgerða í málinu. Þá er upplýst í bréfi þessu að á fundi hreppsnefndarinnar 1. desember 1999 hafi legið fyrir bréf Ríkislögreglustjóra vegna hugsanlegrar skaðabótakröfu Vestur-Landeyjahrepps á hendur ákærða. Tekin hafi verið ákvörðun um að setja ekki fram skaðabótakröfu á hendur ákærða, þar sem hreppurinn hefði ekki orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna aðgerða ákærða.

Ríkislögreglustjóri tók málið til rannsóknar, sem leiddi til ákæru í máli ákæruvaldsins á hendur Eggert Haukdal, dags. 15. febrúar sl. Dómur í máli hans var kveðinn upp 24. mars sl. Þeim dómi áfrýjaði ákærði til Hæstaréttar. Með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 28. september sl., var hinn áfrýjaði dómur og málsmeðferð í héraði dæmd ómerk og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Fram hefur komið að ákærði greiddi á tímabilinu febrúar 1998 til desember 1998 2.800.000 krónur til Vestur-Landeyjahrepps.

III.

Fyrir dómi margítrekaði ákærði varðandi ákærulið I að það væri grundvallaratriði að þegar Vestur-Landeyjahreppur keypti Eystra-Fíflholt, hefðu því fylgt ábyrgðir fyrir hreppinn.  Þegar hreppurinn hefði endurselt Guðmundi Erni Ólafssyni jörðina, hefði hreppurinn enn verið í ábyrgðum, þar sem bankastofnanir hefðu neitað að aflétta ábyrgðum.  Hann kvað skuldabréf þau sem um ræðir, annars vegar að fjárhæð 571.000 krónur og hins vegar að fjárhæð 622.000 krónur, bæði tengd kaupum og sölu á Eystra-Fíflholti.  Hann kvað bankaútibússtjóra Búnaðarbankans á Hellu hafa staðfest að andvirði þess bréfs sem ákæra lýtur að, að fjárhæð 1.035.000 krónur hafi verið ráðstafað til þess að greiða upp skuld Vestur- Landeyjahrepps vegna Eystra-Fíflholts, þ. e. skuldabréf upphaflega að fjárhæð 622.000 krónur og það bréf hafi verið notað til þess að greiða skuldabréf upphaflega að fjárhæð 571.000 krónur, sem útgefið var 4. desember 1989. Ákærði gat ekki skýrt hvers vegna skuldabréf að fjárhæð 571.000 krónur, útgefið í desember 1989, var ekki að finna í ársreikningum hreppsins.  Ákærði svaraði ekki beinlínis þeirri spurningu hvort ætlun hans hafi verið að hann greiddi þessi skuldabréf úr eigin vasa, en sagði: ,,Ég er hins vegar þannig gerður að þegar maður stóð frammi fyrir því að allt brást, að ég skammaðist mín að sumu leyti fyrir að velta þessu á sveitina sem hann [Guðmundur Örn] stóð ekki við. Þetta er bara hreinskilnisleg játning.” Ákærði kvað Guðmund Örn hafa fengið góð meðmæli frá ábyggilegum aðilum. Þá kom fram hjá ákærða að hann hafi gengist í persónulegar ábyrgðir vegna kaupa Guðmundar Arnar á vélum og öðru viðkomandi búrekstri hans. Hann kvað alla hreppsnefndarmenn hafa átt eða mátt vita af greiðsluerfiðleikum Guðmundar Arnar Ólafssonar.

Hann kvað hreppsnefnd hafa samþykkt kaupin á Eystra-Fíflholti.  Hann kvað það rangt sem fram kemur í ákæru að skuldabréf að fjárhæð 622.000 krónur sé hreppnum óviðkomandi.

Aðspurður varðandi ákærulið II.1, um það hvers vegna ekki hafi verið fjallað um þessar ábyrgðir hreppsins á hreppsnefndarfundum, kvað ákærði löggiltan endurskoðanda hafa annast bókhaldið fyrir hreppinn og honum hafi ákærði treyst.  Ákærði hafi því ekki verið vel að sér um bókhaldið og hvernig það hafi verið fært.  Ákærði kvaðst hafa greitt hreppnum á árinu 1998 2.800.000. Hann  hafi staðið í þeirri trú að hann skuldaði hreppnum þessa fjárhæð en sæi nú að það hafi verið á misskilningi byggt. Ástæða þessa hafi verið sú að hann hafi ruglast vegna fullyrðinga Einars Sveinbjörnssonar endurskoðanda og Birgis Sigmundssonar lögreglufulltrúa um að hann hafi tekið sér þessar fjárhæðir úr sjóðum hreppsins.

Um ákærulið II. 2, kvaðst ákærði vísa til þess sem hann áður hafði sagt, að ráðinn hefði verið löggiltur endurskoðandi til að sjá um bókhald hreppsins og færsla og frágangur á bókhaldi væri verk endurskoðandans.  Færslan hefði verið án sinnar vitneskju.

Vitnið Birgir Sigmundsson, lögreglufulltrúi hjá efnahagsbrotadeild lögreglunnar, kvað rannsókn þá sem hann stóð að í máli þessu byggða á skýrslu Einars Sveinbjörnssonar endurskoðanda.  Kvað hann sinn þátt málsins hafa verið þann að draga saman í stuttu máli það sem talið var vera ólögmætt.  Hann kvað Jón H. Snorrason saksóknara hafa komið að þessu máli líka, sem og Ragnar Björnsson, sem reki í dag sjálfstæða bókhaldsskrifstofu.  Aðspurður um hvaða ástæður lægju því að baki að ekki hafi verið leitast við að afla ljósrita af eldri skuldabréfum, þ. e. að fjárhæð 571.000 krónur og 622.000 krónur, kvaðst vitnið telja að erfitt hafi verið að finna þessi gögn, en kvaðst ef til vill hafa í þeim efnum treyst á skoðun Einars Sveinbjörnssonar, endurskoðanda. Hann kvað skýrlega hafa komið fram hjá ákærða á ýmsum stigum málsins að allt málið tengdist Eystra-Fíflholti með einum eða öðrum hætti.  Hann kvað  lögfræðing embættisins hafa tekið ákvörðun um það hversu langt aftur í tíma rannsókn skyldi ná, auk þess sem málið hafi að sínu mati legið nægilega ljóst fyrir.

Vitnið Magnús G. Benediktsson, löggiltur endurskoðandi, kvað starf sitt hafa verið fólgið í því að stilla upp bókhaldinu eftir að búið hafi verið ,,að færa það í gagnið eftir árinu” og stillt upp ársreikningi.

Hann kvaðst muna eftir óformlegum fundi með ákærða og Einari Sveinbjörnssyni endurskoðanda eftir að hreppsnefnd samþykkti tillögu um að endurgera ársreikning ársins 1997.  Hann kvaðst hafa fært allar færslur í samráði við ákærða.  Hann kvaðst ekki hafa vitað um tilvist skuldabréfa sem út voru gefin 1989 og 1991.  Hann kvaðst hafa spurt ákærða að því hvernig skuldabréf að fjárhæð 1.035.000 krónur hefði komið til og hefði ákærði svarað því þannig að það hafi verið vegna kröfu sem fallið hafi á hreppinn vegna Eystra-Fíflholts.  Þá kvað hann lækkanir á skuld sem myndast hefði á viðskiptareikningi Eystra-Fíflholts hafa verið gerðar að beiðni ákærða og í samráði við hann.   Hann kvaðst ekki hafa vitað betur en að hreppsnefndin hefði samþykkt að þessi skuld yrði afskrifuð og að um væri að ræða skuld sem hreppsnefndin tæki á sig.  Aðspurður um 500.000 króna færslu sem færð var til lækkunar á viðskiptaskuld ákærða hjá hreppnum kvað hann ákærða hafa sagt að hann ætlaði að koma með reikning fyrir þeirri færslu. 

Vitnið kvaðst ekki hafa verið lögformlegur endurskoðandi hreppsins, heldur hafi það einungis gert reikningsskil fyrir hreppinn.  Hann hafi stillt upp ársreikningum, en síðan hafi ákærði tekið við og gengið frá málinu við skoðunarmenn.  Hann kvaðst einungis hafa endurskoðað fyrir eitt ár, þ. e. árið 1997.  Aðspurður um hver hafi opnað reikning undir nafni Ræktunarsambands Vestur-Landeyja, kvaðst hann telja líklegt að hann hafi gert það í samráði við ákærða, enda hefði hann aldrei fært færslu sem þessa án samráðs við ákærða og nefndi í þessu sambandi að hann hefði ekki haft hugmynd um ,,þennan Þúfuveg.”  Hann kvað fjárhæðina 500.000 krónur fyrst hafa verið færða sem skuld við Ræktunarsambandið, síðan hafi fjárhæðin verið tekin þaðan út og færð inn á viðskiptareikning ákærða, eins og hann hafi tekið að sér að greiða skuldina og kvaðst vitnið hafa staðið í þeirri trú að ákærði ætlaði að gera það.  Grundvöllur þessara bókhaldsfærslna hafi verið frásögn ákærða. 

Vitnið kvaðst ekki hafa vitað um forsögu þess að skuldabréf að fjárhæð 1.035.000 krónur var tekið.  Hann kvað ákærða hafa sagt sér í ársbyrjun 1998 að ekki hafi verið staðið rétt að lántöku þannig að hreppurinn gæti ekki talið það til sinnar skuldar.  Þá hafi vitnið farið fram á við ákærða að hann greiddi þessa skuld, sem hann hafi og gert.  Vitnið staðfesti skýrslu sína fyrir lögreglu sem og fundargerð Einars Sveinbjörnssonar um fund þeirra tveggja og ákærða.   Hann kvaðst ekki vita til þess að einhverjar færslur hafi komið ákærða á óvart á þeim fundi. 

Vitnið Einar Sveinbjörnsson, endurskoðandi hjá KPMG endurskoðun, staðfesti framangreinda skýrslu sína. Vitnið kvaðst hafa fengið bókhaldið, fylgiskjöl, hreyfingalista og ársreikning vegna ársins 1997 frá Magnúsi G. Benediktssyni, endurskoðanda.  Hann kvaðst fljótlega hafa orðið þess var að ýmislegt var ekki eins og átti að vera. Þess vegna hafi hann hitt að máli ákærða og Magnús G. Benediktsson og hafi þeir farið yfir ýmis atriði.  Hann hafi séð að einkum hafi verið um að ræða gjaldfærslur sem átt hafi sér stað á þremur árum og tengdust bókhaldsreikningi, sem nefndur var í bókhaldi sem Eystra-Fíflholt, og ekki hafi verið rétt bókhaldsleg meðferð á.  Einnig gjaldfærsla á 500.000 krónum sem nefnt var vegna framlags til Þúfuvegar.  Hann kvað að ekki hafi verið unnt að leggja fram nein gögn vegna þessara 500.000 króna og könnun sín hafi leitt í ljós að þær framkvæmdir sem átt hafi sér stað við Þúfuveg hafi alfarið verið greiddar annars vegar af Vegagerð ríkisins og hins vegar af Sýsluvegasjóði Rangárvallasýslu.  Vestur-Landeyjahreppur hafi ekki greitt neitt af þeim kostnaði, þó svo að fundargerð beri með sér að heimild sé að finna til þess konar greiðslu.

Við vinnu greinargerðar sinnar kvaðst vitnið ekki hafa skoðað kaup og sölu á jörðinni Eystra-Fíflholti. Hann kvað skuldabréfin, upphaflega að fjárhæð 571.000 krónur og 622.000 krónur, aldrei hafa verið færðar sem skuld hjá sveitarfélaginu í bókhaldi hreppsins, þrátt fyrir að Vestur-Landeyjahreppur væri talinn skuldari.  Hann kvað ákærða hafa rætt um að skuldabréf þessi væru vegna ábyrgðarskuldbindinga vegna Eystra-Fíflholts, en jafnframt hafi hann tjáð sér að aldrei hafi staðið til að hreppurinn skaðaðist á einn eða annan hátt vegna þessara ábyrgða. Hann kvaðst ekki hafa leitað sérstaklega eftir gögnum frá Búnaðarbankanum vegna útgáfu skuldabréfanna. Hann kvaðst hafa kannað það hvers vegna Eystra-Fíflholt hafi verið viðskiptamaður í bókhaldi hreppsins með því að skoða þau gögn sem þar lágu að baki.  Við þá skoðun hafi hann ekki séð nein merki þess að þau tengdust Eystra-Fíflholti.  Hann kvaðst ekki hafa séð í bókhaldsgögnum að formlega hafi verið samþykkt í sveitarstjórn að taka lán að fjárhæð 1.035.000 krónur.  Hann kvaðst ekki hafa merkt það sérstaklega á fundi sínum með ákærða og  Magnúsi G. Benediktssyni endurskoðanda  að það hafi komið ákærða á óvart að færslur hafi farið fram í bókhaldi með þeim hætti sem gert var.   Hann sagði hins vegar að sér væri það ljóst að ákærði hafi ekki vitað með hvaða hætti þær færslur voru gerðar.  Hins vegar hafi framangreind færsla upp á 500.000 krónurnar verið ákærða ljós, að því er vitninu skildist.

 Aðspurður um framkvæmdakostnað að fjárhæð 500.000 krónur, sem samþykkt hafði verið að greiddur yrði úr sjóði hreppsins vegna Þúfuvegar, kvað hann  unnt að rekja það af bókhaldsgögnum að með lokafærslum ársins 1996 hefðu 500.000 krónur verið gjaldfærðar á reikning nr. 10-22-444-1 sem gjöld vegna vegamála. Mótfærslan hefði verið viðskiptareikningi 29-63-417 til inneignar en hann beri nafn Ræktunarsambands Landeyja.  Færslan væri gerð samkvæmt fylgiskjali nr. 289 sem sé handskrifaður listi um ýmsar færslur.  Eftir fylgiskjali nr. 290 væri upphæðin hins vegar færð af reikningi Ræktunarsambandsins og til inneignar  reikningi nr. 29-63-416 sem ber nafnið ,,Viðskiptamenn” en að sögn vitnisins innhéldi sá reikningur viðskipti ákærða og hreppsins.  Að lokum væru síðan fjölmargar fjárhæðir, bæði í debet og kredit, færðar af reikningi 29-63-416 ,,Viðskiptamenn” og til reiknings 29-63-430, sem beri nafn Eggerts Haukdals, og sé fyrri reikningurinn þar með settur á 0.  Þessar færslur væru gerðar samkvæmt fylgiskjölum nr. 291, 292, 293, 294 og 296 og sagði vitnið að þar með væru færsluáhrif upphaflegu 500.000 króna færslunnar komnar viðskiptareikningi ákærða nr. 29-63-430 til inneignar og þar með til lækkunar á skuld hans við sveitarfélagið, sem ella hefði verið þeim mun hærri. 

Vitnið Jón Þ. Hilmarsson endurskoðandi kvaðst hafa kynnt sér nokkuð af þeim bókhaldsgögnum sem liggja frammi í málinu.  Auk þess ritaði hann ásamt Gunnari G. Schram lagaprófessor greinargerð sem lögð var fram af hálfu ákærða.  Fram kom hjá Jóni að  ákærði hefði  ekki getað hagnast þótt skuldabréf að fjárhæð 1.035.000 krónur hefði verið eignfært á viðskiptareikning á nafni Eystra- Fíflholts.  Vitnið kvaðst  telja lögreglumanninn sem rannsakað hefði málið hafa verið á villigötum.  Hann kvað þessar bókhaldsfærslur ekki geta verið ákærða í hag, fremur í óhag.  Aðspurður um framlag vegna Þúfuvegar, kvaðst hann ekki geta fundið neitt það fylgiskjal sem áskilið er samkvæmt bókhaldslögum að eigi að fylgja þessari færslu.  Hann kvað skjölin bera með sér að færslan hafi farið fram í lok ársins 1996 og farið inn á viðskiptareikning ákærða, honum til góða.  Hann kvað færsluna hins vegar ekki hafa verið gerða með neinni leynd, þannig að ef hreyfingalistar og dagbók væru lesin, ætti að vera auðvelt að koma auga á hana.

Vitnið Erna Sigurðardóttir kvaðst hafa verið starfsmaður Búnaðarbankans á Hellu í 26 ár og væri nú skrifstofustjóri þar.  Hún kvað Vestur-Landeyjahrepp hafa verið viðskiptamann í bankanum.  Hún kvað það liggja fyrir í gögnum bankans að þau þrjú skuldabréf sem tóku við hvert af öðru, hið fyrsta frá 1989 að fjárhæð 571.000 krónur, annað frá 1991 að fjárhæð 622.000 krónur og hið síðasta frá 1994 að fjárhæð 1.035.000 krónur hefðu öll verið vegna Eystra-Fíflholts. Hún kvaðst minnast þess að hafa heyrt frá útibússtjórum Búnaðarbankans að Guðmundur Örn Ólafsson hefði ,,aldrei getað klárað sínar skuldbindingar” vegna Eystra-Fíflholts og þess vegna hafi hreppurinn ekki losnað undan ábyrgð vegna kaupa Guðmundar Arnar á jörðinni.

Vitnið Haraldur Júlíusson sat í hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps frá 1986-1994. Hann kvað hreppinn hafa keypt jörðina Eystra-Fíflholt á árinu 1986.  Þá hafi komið fjölskylda frá Klausturhólum í Grímsnesi og búið á jörðinni til 1987, en síðar hafi Guðmundur Örn Ólafsson keypt jörðina.  Einhver ,,leyndarhjúpur” hafi legið yfir dvöl fjölskyldunnar frá Klausturhólum á Eystra-Fíflholti og hann hafi ekki vitað um að neinir löggerningar hafi verið gerðir milli hreppsins og þeirra ábúenda þann tíma sem þau dvöldu á jörðinni.  Hann kvað ákærða ávallt haft lagt ríka áherslu á að ,,það kæmi aldrei króna á hreppinn af þessum jarðarmálum” og kvað það hafa verið það orðalag sem ákærði hafi notað vegna þessara jarðarkaupa.  Hann hafi yfirleitt fengið lítil svör þegar hann hafi verið að spyrjast fyrir um ábyrgðir hreppsins vegna þessa.  Hann kvaðst minnast hreppsnefndarfundar 7. apríl 1986, en þar hafi verið rætt um að hreppurinn neytti forkaupsréttar að Eystra-Fíflholti.  Hann minntist þess þó ekki að honum hefði verið sýndur kaupsamningur, en ákærði hefði greint frá efni hans og kaupverði.

Vitnið Hrefna Magnúsdóttir, tók sæti sem aðalmaður í hreppsnefnd á árinu 1991.  Hún kvaðst ekki minnast þess að til umræðu hafi komið í hreppsnefnd veitingar ábyrgða eða lántökur.  Hún kvað sér þó vera kunnugt um að Vestur-Landeyjahreppur hefði neytt forkaupsréttar að jörðinni Eystra-Fíflholti á árinu 1986.  Hún kvaðst ekki kannast við að rætt hafi verið á hreppsnefndarfundum eftirmál eignarhalds hreppsins á Eystra-Fíflholti. Hún kvaðst ekki hafa séð skuldabréf, útgefið af Vestur-Landeyjahreppi til Búnaðarbanka Íslands 19. júní 1991 að fjárhæð 622.000 krónur.  Hún kvaðst ekki heldur hafa átt viðræður við ákærða utan hreppsnefndarfunda um kaupin á Eystra-Fíflholti.  Þá kvaðst hún ekki hafa orðið þess vör að Guðmundur Örn Ólafsson, kaupandi jarðarinnar Eystra-Fíflholts, hefði lent í fjárhagslegum örðugleikum.

Vitnið Sigmundur Felixson sat í hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps frá miðju ári 1994 til ársins 1998.  Aðspurður um kaup hreppsins á jörðinni Eystra-Fíflholti kvaðst hann hafa vitað um ,,ábyrgð sem hvílt hefði á hreppnum í Búnaðarbanka.”  Það hafi verið skuldabréf sem tekið hafi verið við kaup hreppsins á jörðinni og hafi verið greitt af því.  Hann kvaðst hafa séð það skuldabréf.  Hann kvað bréfið hafa verið útgefið áður en hann hafi tekið sæti í hreppsnefnd.  Hann kvaðst einnig hafa vitað um útgáfu nýs bréfs til uppgjörs við Búnaðarbankann á eldra bréfinu og væri hann ábyrgðarmaður á því bréfi, þ.e. skuldabréfi upphaflega að fjárhæð 1.035.000 krónur.  Hann kvað ekki hafa verið fjallað um þessa lántöku á hreppsnefndarfundi, en þó hafa staðið í þeirri trú að hreppurinn hafi átt að greiða skuldina.  Hann kvað ákærða hafa talað um að hann tæki á sig ,,vanda Fíflholtsmálsins”, ef hann fengist ekki greiddur af ábúanda, Guðmundi Erni Ólafssyni.  Hann kvað hreppsnefndarmenn og raunar flesta hreppsbúa hafa vitað um vanefndir Guðmundar Arnar Ólafssonar vegna kaupa á jörðinni.

Vitnið Vilborg Alda Jónsdóttir sat í hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps  á árunum 1986-1994.  Hún kvaðst minnast þess að fjallað hafi verið um í hreppsnefnd kaup og sölu á jörðinni Eystra-Fíflholt.  Hún kvaðst ekki minnast þess að í kjölfar sölu hreppsins á jörðinni hefði verið rætt um að ábyrgðir og skuldir sem hefðu átt að greiðast af kaupandanum Guðmundi Erni Ólafssyni, féllu á hreppinn.  Hún kvaðst ekki kannast við skuldabréf þau sem henni voru sýnd í réttinum, að fjárhæð 571.000 krónur og 622.000 krónur.  Þá kvaðst hún ekki minnast umræðna utan hreppsnefndarfunda um að upp hefði komið vandi vegna kaupa á Eystra-Fíflholti.

Vitnið Jón Gunnar Vogfjörð Karlsson sat í hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps frá 1986-1994.  Hann kvaðst ekki minnast þess að komið hefði til umræðu á hreppsnefndarfundum að hreppurinn þyrfti að taka á sig skuldbindingar vegna kaupa á Eystra-Fíflholti.  Hann kvaðst minnast þess að hafa skrifað undir skuldabréf að fjárhæð 622.000 krónur, en ekki að hafa skrifað undir skuldabréf að fjárhæð 571.000 krónur.  Hann kvaðst muna eftir því að ákærði hefði talað um að fyrrnefnda bréfið að fjárhæð 622.000 krónur væri tengt kaupum á Eystra-Fíflholti.  Vitnið Brynjólfur Bjarnason sat í hreppsnefnd frá 1994 og er nú oddviti í Vestur-Landeyjahreppi.  Hann kvaðst hafa setið hreppsnefndarfund þegar hreppurinn ákvað að kaupa Eystra-Fíflholt og hafa verið því samþykkur. Hann kvaðst ekki minnast þess að skuldabréf að fjárhæð 1.035.000 krónur, hafi verið kynnt á fundi hreppsnefndar og ekki kannast við sérstakar umræður eða fyrirspurnir í hreppsnefnd um mál tengd Eystra-Fíflholti.  Hann kvaðst hins vegar kannast við að samþykkt hefði verið að greidd yrði tiltekin fjárhæð úr sjóðum hreppsins til vegagerðar, 500.000 krónur, en samkvæmt því sem fram hefði komið við endurskoðun á reikningum, hefði sú fjárhæð ekki verið greidd úr hreppssjóði.  

Vitnið Hjörtur Hjartarson sat í hreppsnefnd í Vestur-Landeyjahreppi frá haustinu 1995 til síðasta vors.  Hann kvaðst minnast bókunar varðandi ársreikning hreppsins árið 1997 dags. 11. nóvember 1998.  Aðdragandi þeirrar bókunar hafi verið sá að hann hafi leitað upplýsinga um fjármál sveitarfélagsins og hafi hann ekki talið sig fá þær.  Hann hafi beint ákveðnum spurningum til oddvita og meirihluta hreppsnefndar.  Hann kvaðst ekki hafa staðið að samþykkt ársreiknings ársins 1997, ákveðnir liðir í honum hafi verið áberandi ,,skakkir”.  Hann hafi leitað til löggilts endurskoðanda hreppsins, Magnúsar Benediktssonar og hann hafi svarað sér skriflega um að hann hafi áritað reikninginn og þar með væru tölur réttar.  Þá kvaðst vitnið ekkert annað hafa getað gert en leitað til lögmanns og þá fyrst hafi  Félagsmálaráðuneytið tekið á þessu máli.  Í framhaldi af því hafi Einar Sveinbjörnsson verið ráðinn sem endurskoðandi.  Hann kvað athugasemdir sínar aðallega hafa lotið að því að óreiða hafi verið á bókhaldi og upplýsingar hafi vantað inn í bókhaldið um ýmsa hluti.  Hann kvaðst ekki hafa leitað upplýsinga um kaup hreppsins á  Eystra-Fíflholti.  Hann kvað Einar Sveinbjörnsson hafa hitt hreppsnefndina og farið vel yfir greinargerð sína og skýrt hana.  Ákærði hefði ekki verið á þeim fundi.  Fundurinn hefði verið í fyrri hluta desembermánaðar.

Vitnið Indriði Theodór Ólafsson sat í hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps á árunum 1994-1998.   Hann kvaðst ekki muna til þess að rætt hafi verið á fundum um kaup hreppsins og hugsanleg eftirmál þeirra á jörðinni Eystra-Fíflholti.  Hann kvaðst kannast við að hafa gerst ábyrgðarmaður á skuldabréfi að fjárhæð 1.035.000 krónur.  Hann kvaðst telja að útgáfa þess hafi eitthvað tengst félagsheimilinu, en kvaðst þó ekki þora að fullyrða það.  Hann kvaðst hins vegar geta fullyrt að ekki hafi  verið rætt um að útgáfa skuldabréfsins væri í tengslum við Eystra-Fíflholt.  Hann kvaðst þó vita til þess að hreppurinn hefði keypt Eystra-Fíflholt á sínum tíma.  Hann kvaðst einnig vita til þess að hreppurinn hefði selt Guðmundi Erni Ólafssyni jörðina síðar.  Hann kvaðst ekki muna til þess að vegna útgáfu slíkra skuldabréfa, sem að ofan greinir, væri umfjöllun á hreppsnefndarfundum.

Vitnið Guðmundur Örn Ólafsson, er keypti jörðina Eystra-Fíflholt af Vestur-Landeyjahreppi með kaupsamningi dags. 22. september 1987, kvaðst ekki geta gefið miklar upplýsingar um greiðslu kaupverðs og yfirteknar áhvílandi veðskuldir, og nefndi að langt væri um liðið frá kaupunum.  Í framburði hans kom þó fram að hann hafði lent í vanskilum með greiðslu afborgana.

Vitnið Birgir Sævar Pétursson, sem seldi Vestur-Landeyjahreppi jörðina Eystra-Fíflholt með kaupsamningi 19. apríl 1986, gaf einnig skýrslu fyrir dómi, en ekki þykir ástæða til að rekja hans framburð sérstaklega.

Magnús G. Benediktsson og þeir hreppsnefndarmenn sem skýrslur gáfu við meðferð málsins fyrir dómi, voru yfirheyrðir hjá lögreglu sem grunaðir.

IV.  Niðurstöður

Ákæruliður I.

Undir þessum ákærulið er ákærði sakaður um umboðssvik í opinberu starfi, með því að hafa misnotað aðstöðu sína til að gefa út 1.035.000 króna skuldabréf í nafni hreppsins, án þess að hreppsnefnd samþykkti, með sjálfsskuldarábyrgð ákærða og tveggja hreppsnefndarmanna og eignfæra þá fjárhæð á viðskiptareikning Eystra-Fíflholts og að hafa varið meginhluta lánsfjárins til uppgreiðslu á skuldabréfi, sem upphaflega var að fjárhæð 622.000 krónur, rekstri hreppsins óviðkomandi.

Ákærði hefur haldið því fram við yfirheyrslur fyrir dómi, að þessar lántökur hafi stafað af þeim vanda sem hreppurinn komst í við kaup og sölu á jörðinni Eystra-Fíflholti.

Skuldabréf að fjárhæð 1.035.000 krónur gaf ákærði út hinn 27. desember 1994 í nafni hreppsins, með sjálfsskuldarábyrgð tveggja hreppsnefndarmanna, þeirra Sigmundar Felixsonar og Indriða Th. Ólafssonar.  Ekkert liggur fyrir í bókunum hreppsnefndar um að lántaka þessi hafi verið borin undir hreppsnefnd og þar samþykkt. Sigmundur Felixson og Indriði Th. Ólafsson báru báðir fyrir dómi að þeir minntust þess ekki að lántakan hafi komið til tals á hreppsnefndarfundi.  Sigmundur Felixson kvaðst hafa staðið í þeirri trú að bréfið hefði verið útgefið vegna uppgjörs á eldra skuldabréfi sem útgefið hafi verið vegna ábyrgða hreppsins í tengslum við kaup hreppsins á Eystra-Fíflholti.   Indriði Th. Ólafsson kvaðst hins vegar geta fullyrt að hann hefði aldrei heyrt að útgáfa bréfsins væri í tengslum við Eystra-Fíflholt, en kvaðst hins vegar minna að lántaka þessi hefði eitthvað tengst félagsheimilinu Njálsbúð.

Af gögnum málsins má ráða að fjárhæð þessi var eignfærð hreppnum á viðskiptareikning á nafni Eystra-Fíflholts. Einnig er komið fram, m. a. með framburði ákærða sjálfs, að lánsfénu var að meginhluta varið til uppgreiðslu á skuldabréfi upphaflega að fjárhæð 622.000 krónur, útgefnu 19. júní 1991.  Fram er komið í málinu að andvirði þess skuldabréfs var varið til uppgreiðslu á skuldabréfi, upphaflega að fjárhæð 571.000 krónur,  útgefnu 4. desember 1989.  Greiðandi og útgefendur voru þeir sömu á báðum síðastnefndu bréfunum.  Þessara tveggja skuldabréfa var þó ekki getið í ársreikningum hreppsins. Ekkert þeirra vitna sem í hreppsnefnd sátu með ákærða minntist þess að rætt hefði verið á hreppsnefndarfundum um að hugsanlegt væri að á sveitarsjóð féllu ábyrgðir vegna kaupa hreppsins á Eystra-Fíflholti.

Eins og að framan er rakið gekk Guðmundur Örn Ólafsson inn í kaupsamning Vestur-Landeyjahrepps að jörðinni Eystra-Fíflholti. Hins vegar verður að miða við að Vestur-Landeyjahreppur hafi ábyrgst efndir Guðmundar Arnar á kaupverði jarðarinnar, samkvæmt samþykktum hreppsins á árinu 1986 og 1987. Fram er komið að Guðmundur Örn lenti í vanskilum með greiðslu kaupverðsins.

Samkvæmt yfirlýsingum Búnaðarbanka Íslands, Hellu, dags. 23. desember 1994 og 9. nóvember 2000 og framburði Ernu Sigurðardóttur, skrifstofustjóra bankans, var andvirði framangreinds skuldabréfs að fjárhæð 1.035.000 krónur varið til greiðslu á eftirstöðvum áðurgreinds skuldabréfs, upphaflega að fjárhæð 622.000 krónur. Andvirði síðastnefnds bréfs hafi verið varið til greiðslu á skuldabréfi upphaflega að fjárhæð 571.000 krónur og hafi það bréf verið vegna Eystra-Fíflholts. Þá staðfestu nokkrir hreppsnefndarmenn þann framburð ákærða að hann hafi margoft lýst því yfir að hann myndi gera allt til að koma í veg fyrir að ábyrgðir vegna Eystra-Fíflholts lentu á hreppnum.

 Skýringar ákærða við rannsókn og meðferð málsins eru nokkuð misvísandi um tilvist og útgáfu þessara skuldabréfa og engar bókhaldsfærslur eru um fyrri bréfin tvö. Þrátt fyrir þetta þykir í ljósi framanritaðs, sérstaklega tilgreindra yfirlýsinga Búnaðarbanka og vitnisburðar skrifstofustjóra bankans, mega miða við að skuldabréf  að fjárhæð 1.035.000 krónur og skuldabréf að fjárhæð 622.000 krónur hafi tengst kaupum hreppsins á Eystra-Fíflholti, þannig að á hreppnum hafi hvílt sú ábyrgð að greiða bréfin, sbr. og samþykkt hreppsins á hreppsnefndarfundi 1986, þar sem samþykkt var að ganga inn í kaupsamning dags. 19. apríl 1986.

Í ljósi ákvæða 45. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála og að öllu framangreindu virtu þykir varhugavert að telja sannað að auðgunartilgangur hafi legið að baki útgáfu þessara skuldabréfa, heldur hafi andvirði bréfanna verið notað til þess að standa við skuldbindingar hreppsins. Ber því að sýkna ákærða af þessum hluta ákæru.

Ákæruliður II. 1

Telja verður upplýst að millifærðar hafi verið samtals 667.360 krónur til lækkunar á fjárhæð þeirri sem eignfærð hafi verið á viðskiptareikning Eystra-Fíflholts og færðar á móti sem rekstrarútgjöld hreppsins, án þess að séð verði af bókhaldsgögnum, öðrum gögnum málsins, eða framburði vitna fyrir dómi að fyrir því hafi verið heimild.    

Tengsl skuldabréfa þeirra sem getið er í I. kafla ákæru og færslna þeirra sem getið er í þessum ákærulið, verða að teljast augljós.  Sannað er, m. a. með framburði Magnúsar G. Benediktssonar endurskoðanda, að lækkanir á skuld þessari áttu sér stað að beiðni ákærða og í samráði við hann.  Með millifærslum þessum stuðlaði ákærði að því að lækka skuld sem var eignfærð á Eystra Fíflholt. Ekki verður annað séð en að bókhaldsfærslur þessar hafi verið til þess fallnar að leyna þeirri háttsemi sem ákærði viðhafði samkvæmt ákærulið I. Eins og fram hefur komið undir ákærulið I telur dómurinn auðgunartilgang ákærða ekki nægilega sannaðan.

Með hliðsjón af framansögðu og rannsóknargögnum að öðru leyti telur dómurinn einnig varhugavert að fullyrða, að ákæruvaldinu hafi tekist að færa fram, gegn neitun ákærða, lögfulla sönnun fyrir því að ákærði hafi í auðgunarskyni dregið sér fé samkvæmt þessum ákærulið, svo að varði við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 143. gr. sömu laga.   Því ber að sýkna ákærða af þessum ákærulið.

Ákæruliður II. 2

Á hreppsnefndarfundi 26. nóvember 1994 var samþykkt að Vestur-Landeyjahreppur legði fram 300.000 krónur sem framlag við lagfæringu Þúfuvegar.  Á árinu 1996 var samþykkt á hreppsnefndarfundi að auka framlag hreppsins þannig að það yrði 500.000 krónur.  Upplýst er í málinu að hreppurinn greiddi ekki þessa fjárhæð vegna títtnefndra vegaframkvæmda.

Hjá lögreglu kvaðst ákærði ekki geta skýrt þær færslur sem ákæruliður þessi lýtur að, en benti á að hann hefði þegar endurgreitt þessa fjárhæð og hann tæki á sig alla ábyrgð á þessum skuldum við hreppinn.  Við síðari meðferð málsins fyrir dómi vildi ákærði einungis vísa til þess að færslur þessar hafi verið á ábyrgð Magnúsar G. Benediktssonar, endurskoðanda, sem ráðinn hefði verið til að endurskoða bókhald hreppsins. 

Þær færslur sem hér um ræðir áttu sér stað á árinu 1996, en eins og áður segir voru reikningar hreppsins ekki endurskoðaðir af endurskoðanda, heldur stillti Magnús aðeins upp bókhaldi hreppsins.  Fram kom í máli Magnúsar fyrir dóminum að hann hafi fært þessar færslur að fyrirmælum ákærða og hafi hann staðið í þeirri trú að ákærði skilaði síðar inn fylgiskjölum vegna þeirra. 

Engin gögn hafa komið fram vegna þessara færslna. 

Af bókhaldsgögnum málsins, sem og af framburði endurskoðendanna Magnúsar G. Benediktssonar og Einars Sveinbjörnssonar, er ljóst að ákærði lét færa þessa fjárhæð, sem ætluð var til lagfæringar á Þúfuvegi, án allra fullnægjandi gagna, sem gjöld hreppsins vegna vegamála.  Í fyrstu á móti til inneignar Ræktunarsambandi Vestur-Landeyja á viðskiptareikning Ræktunarsambandsins í bókhaldi hreppsins.   Síðan er mótfærslunni beint af viðskiptareikningi Ræktunarsambandsins og inn á almennan viðskiptareikning sem innihélt viðskipti ákærða og hreppsins og þaðan loks inn á sérstakan viðskiptareikning í nafni Eggerts Haukdal þar sem hún kom til lækkunar á skuld ákærða við hreppinn.  Upplýst er að færslur þessar eru allar gerðar á sama tíma, í árslok 1996, og eru með þeim hætti sem líklegur er til þess að villa um fyrir óbókhaldsfróðum aðilum.

Samkvæmt þessu telst sannað að fyrir ákærða vakti að auðgast á þessum bókhaldsfærslum og hefur hann því gerst sekur um þá háttsemi sem í ákærulið þessum greinir og réttilega er færð til refsiákvæða.

Refsing

Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Við ákvörðun refsingar í máli þessu ber annars vegar að taka  sérstaklega tillit til 138. gr. almennra hegningarlaga þar sem ákærði gegndi trúnaðarstörfum og hafði sem oddviti á hendi fjárreiður Vestur-Landeyjahrepps.  Hins vegar ber að líta á það, ákærða til hagsbóta að hann er 67 ára gamall maður og hefur ekki áður sætt refsingu.  Þá lét ákærði af starfi oddvita vegna máls þessa og hefur greitt Vestur-Landeyjahreppi tæplega þrjár milljónir króna vegna viðskilnaðar síns sem oddviti hreppsins.  Auk þessa hefur rannsókn málsins og meðferð tekið nokkuð langan tíma án þess að ákærða verði um það kennt. 

Að öllu þessu virtu er refsing ákærða hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingar og skal hún niður falla að liðnu einu ári frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, skal ákærði greiða helming sakarkostnaðar, þar með talinn helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, sem ákveðast 400.000 krónur.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómstjóri ásamt  Ingveldi Einarsdóttur héraðsdómara og Geir Geirssyni löggiltum endurskoðanda.  Dómsuppkvaðning hefur dregist um rúma viku vegna anna dómsformanns.

Ólafur Börkur Þorvaldsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Eggert Haukdal, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnu einu ári frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði helming sakarkostnaðar, þar með talinn helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Ragnars Aðalsteinssonar, hæstaréttarlögmanns, sem ákveðast 400.000 krónur.