Hæstiréttur íslands

Mál nr. 150/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Þorgeir Þorgeirsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun meðan á því stendur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. mars 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. mars 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2017.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. mars nk. kl 16:00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að embættið rannsaki nú tilraun til manndráps eða eftir atvikum alvarlega líkamsárás X gegn A, utan við Leifasjoppu við Iðufell í Reykjavík, síðastliðna nótt.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hafi lögreglu laust eftir miðnætti í nótt borist til­kynning um aðila sem gengi berserksgang á bifreiðarstæðinu við söluturninn Leifa­sjoppu við Iðufell í Reykjavík og hefði hann m.a. sparkað í bifreið sem þar væri. Skömmu seinna hafi borist önnur tilkynning þess efnis að aðilinn væri hugsanlega vopnaður hníf. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi hún hitt fyrir meintan geranda X. X hafi verið handtekinn en hafi lítið viljað tjá sig við lögreglu. Hafi hann neitaði að vera sá sem tilkynnt hefði verið um að hefði sparkað í bifreið en hafi kannast við að hafa verið með umrædda bifreið í láni hjá vini sínum. Þá hafi X kannast við að á bílastæðið hefði komið maður sem hefði ráðist á sig en sá aðili væri farinn. Segir í greinargerðinni að X hafi verið í annarlegu ástandi og greinilega undir áhrifum áfengis og eða fíkniefna.

Þegar lögreglan hafi verið að ræða við X á vettvangi hafi eigandi umræddrar bifreiðar gefið sig á tal við lögreglu. Aðilinn hafi sagt lögreglu að skömmu áður á bílastæðinu hefði X stungið A, kunningja sinn, í höfuðið og hefði vitnið séð það gerast. Sagði vitnið að A hefði verið að aðstoða vitnið við að fá bifreið sína hjá X sem hefði tekið hana í leyfisleysi kvöldinu áður. Hafi X mælt sér mót við vitnið við Leifasjoppu en vitnið ekki þorað að fara þangað eitt til að ræða við X og A boðist til að koma með vitninu. X hafi á vettvangi verið beðinn um að skila vitninu lyklunum en þá hafi hann brjálast og ráðist á A og þeir tekist á. X hafi síðan skyndilega dregið upp hníf og stungið A í höfuðið. Kvaðst vitnið í framhaldi hafa náð lyklunum úr bifreiðinni og eftir það farið með A inn í húsnæði skammt frá. Þegar rætt hafi verið við húsráðanda umrædds húsnæðis hafi lögregla verið upplýst um að brotaþoli hefði verið keyrður á slysadeild skömmu áður af vinkonu.

Á slysadeild hafi verið rætt stuttlega við A og fái frásögn hans samræmst framburði eiganda bifreiðarinnar. Kvaðst hann hafa verið beðinn um að koma með bifreiðareigandanum að Leifasjoppu til að hitta X sem hafi verið með bíl þess fyrrnefnda í leyfisleysi. Hafi X komið en neitað að afhenda eigandanum lykla bifreiðinnar. Kvaðst A hafa verið rólegur en X hafi hinsvegar verið mjög æstur og hafi ekki virst vita hvað hann var að segja. X hafi svo ætt út úr bílnum, ráðist á sig og slegið hann í vinstra gagnaugað. X sem væri mikið hærri en hann, hafi látið sig svo falla ofan á sig þannig að hann hafi lenti á bakinu eða bakhliðinni á jörðinni. Hann hafi náð að losa sig og staðið upp, hafi snúist í hringi og séð að X hafi haldið á hníf sem hann hafi stungið sig í höfuðið með. Í framhaldi hafi byrjað að spítast blóð úr höfðinu á sér. X hafi eftir þetta rifist við eiganda bifreiðarinnar og barið bílinn sundur og saman. A hafi að lokum hringt í vinkonu sína og fengið hana til að skutla sér á slysadeild.

Segir í greinargerð að við komu á slysadeild hafi A reynst vera með alvar­lega stunguáverka á höfði og slagæðarblæðingu úr höfuðleðri. Samkvæmt bráða­birgða áverkavottorði sýndi tölvusneiðmynd áverka á höfuðkúpu sem virtist ná í gegnum fulla þykkt höfuðkúpunnar. Við nánari skoðun hafi síðan komið í ljós að áverkinn náði í gegnum beinþykktina en ekkert inn fyrir kúpuna sjálfa og hefur ekki valdið skemmd eða blæðingum í heila. Er það mat vakthafandi yfirlæknis á heila og taugadeild LSH að ef hins vegar eggvopnið hefði gengið inn í heilavefinn hefði ekki verið að sökum að spyrja og áverkinn getað leitt til mikils varanlegs tjóns og jafnvel dauða.

X hafi verið yfirheyrður á lögreglustöð í morgun. Hann neiti sök. Sagðist X kannast við að hafa mælt sér mót við eiganda bifreiðarinnar fyrir utan Leifa­sjoppu. Með eigandanum hafi einnig komið A sem hafi að sögn X ráðist á sig vopnaður hníf. Þeir hafi lent í átökum og þar sem x hafi verið að reyna að koma í veg fyrir að A myndi stinga sig með hnífnum hefði hnífurinn farið í höfuð A þar sem A hélt á honum sjálfur. A hefði í framhaldi af stungunni farið að vettvangi og tekið hnífinn með sér.

Samkvæmt greinargerðinni er það mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum rann­sókn­argæslu sé fullnægt í máli þessu, enda sé kærði undir rökstuddum grun um brot gegn 211. gr. sbr 20 gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Þá sé rannsókn málsins hvergi nærri lokið. Kærði neiti sök og lýsir atvikum með öðrum hætti en brotaþoli og vitni, taka þurfi ítalegri skýrslu af brota­þola málsins, yfirheyra þarf vitni sem tengjast málinu. Þá hafi árásarvopnið ekki enn fundist og að lokum þurfi að yfirfara og sannreyna gögn og framburði aðila. Því sé afar brýnt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun þannig að hann hafi ekki tækifæri til að torvelda rannsókn málsins, m.a. með því að hafa áhrif á fram­burð vitna sem tengist málinu eða koma undan sönnunargögnum.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b- liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða:

Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð lögreglu og rannsóknargögnum málsins er á það fallist að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið alvarleg hegningarlagabrot sem fangelsisrefsing er lögð við, sem hafi átt sér stað síðastliðna nótt. Kærði neitar sök, en viðurkennir að hafa lent í átökum við ætlaðan brotaþola þar sem hnífur hafi komið við sögu. Rannsókn málsins er skammt á veg komin og á m.a.  eftir að taka gleggri skýrslur af ætluðum brotaþola og vitnum sem tengjast málinu. Er á það fallist að aðstæður séu þannig að ætla megi að kærði muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða koma undan gögnum, fái hann að ganga laus. Skilyrðum 1. málsliðar og a-liðar 2. málsliðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fullnægt. Ber því að fallast á kröfu sækjanda um gæsluvarðhald eins og hún er sett fram. Þá ber að fallast á kröfu sækjanda þess efnis að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. mars nk. kl 16:00 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.