Hæstiréttur íslands

Mál nr. 60/2004


Lykilorð

  • Hlutafélag
  • Ábyrgð stjórnarmanna
  • Gjaldþrotaskipti
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. júní 2004.

Nr. 60/2004.

Jóhannes Rúnar Jóhannesson og

Þorbjörn Stefánsson

(Ásgeir Þór Árnason hrl.

Lúðvík Steinarsson hdl.)

gegn

Austurbakka hf.

(Helgi Birgisson hrl.

Guðjón Ólafur Jónsson hdl.)

 

Hlutafélög. Ábyrgð stjórnarmanna. Gjaldþrotaskipti. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.

 

Þegar bú Í hf. var tekið til gjaldþrotaskipta voru ógreiddir reikningar vegna vöruúttekta félagsins hjá A. A krafðist skaðabóta úr hendi J, fyrrverandi stjórnarformanns Í hf., og Þ, fyrrverandi framkvæmdastjóra Í hf., þar sem hann taldi þá hafa átt viðskipti við sig eftir að þeim hafi verið orðið skylt að gefa félagið upp til skipta. Talið var að ekki lægju fyrir næg gögn í málinu til þess að unnt væri að meta hvort J og Þ hafi verið orðið skylt vegna ákvæða 64. gr. laga nr. 21/1991 að krefjast gjaldþrotaskipta á búi þess fyrr en raun varð á. Var málið svo vanreifað að þessu leyti að óhjákvæmilegt var að vísað því sjálfkrafa frá héraðsdómi.   

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 2. febrúar 2004. Þeir krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjendum gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins mun félag, sem síðar fékk heitið Íslensk útivist hf., hafa verið stofnað í nóvember 1995. Áfrýjandinn Þorbjörn Stefánsson var ráðinn framkvæmdastjóri félagsins haustið 1998, en áfrýjandinn Jóhannes Rúnar Jóhannesson var kjörinn formaður stjórnar þess 15. september 1999. Í október á sama ári tók til starfa verslun í eigu félagsins í verslunarmiðstöðinni Kringlunni í Reykjavík með heitinu Nanoq, þar sem einkum voru seldar útivistarvörur og íþróttavörur.

Fyrir liggur að Íslensk útivist hf. átti bankaviðskipti sín að mestu við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Í tengslum við þau gaf félagið út til sparisjóðsins tryggingarbréf 17. febrúar 2000, þar sem honum var veitt allsherjarveð í öllum vörubirgðum, sem félagið átti eða kynni að eignast, til tryggingar hvers konar skuldum, sem það kynni að standa í við hann, að fjárhæð allt að 200.000.000 krónur. Þá gaf félagið út annað tryggingarbréf til sparisjóðsins 18. sama mánaðar, þar sem settar voru að veði allar innréttingar, sem nánar voru tilteknar, í verslun félagsins til tryggingar skuldum þess að fjárhæð allt að 300.000.000 krónur. Þessum tryggingarbréfum var þinglýst 2. mars sama ár.

Á stjórnarfundi í Íslenskri útivist hf., sem haldinn var 23. mars 2000, var kynntur ársreikningur félagsins fyrir árið 1999. Reyndist tap af rekstrinum hafa numið um 91.400.000 krónum eða um 35.000.000 krónum meira en áætlað hafði verið. Kom þar fram að eigið fé félagsins í árslok 1999 hafi verið um 55.000.000 krónur og rýrnað um 91.000.000 krónur á því ári. Var af þessum sökum ákveðið að leggja til við hluthafafund að hlutafé í félaginu yrði aukið um 50.000.000 krónur, en áður mun það hafa numið 140.500.000 krónum. Á stjórnarfundi 4. apríl 2001 voru kynnt drög að ársreikningi fyrir árið 2000. Samkvæmt þeim varð rekstrartap á því ári um 225.000.000 krónur, en áætlað hafði verið að það yrði um 61.000.000 krónur. Á hluthafafundi 30. sama mánaðar var samþykkt tillaga stjórnar um að lækka hlutafé í félaginu um helming, svo og að bjóða út nýja hluti fyrir allt að 200.000.000 krónur. Af gögnum málsins verður ráðið að í ágúst 2001 hafi verið lokið að safna nýju hlutafé að fjárhæð samtals 190.000.000 krónur og við það látið sitja. Samkvæmt fundargerð frá stjórnarfundi 10. október 2001 hafði tap samkvæmt bráðabirgðauppgjöri fyrir fyrstu níu mánuði þess árs orðið um 117.000.000 krónur. Sagði í fundargerðinni að „greiðslustaðan er mjög slæm og ekkert bendir til að úr rætist“. Var áfrýjendum þar falið að koma fram með tillögur til að bæta úr því.

Í framhaldi af framangreindu leitaði Íslensk útivist hf. eftir því með bréfi til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 8. nóvember 2001 að meðal annars yrði hækkuð heimild til yfirdráttar á bankareikningi félagsins og frestað afborgunum af skuldum í sex mánuði, en sparisjóðurinn fengi þá veðrétt í „ráðstöfunarreikningi vegna greiðslukorta“, auk þess sem félagið myndi leita samninga við aðra lánardrottna um frestun greiðslna. Sparisjóðurinn tilkynnti félaginu 15. sama mánaðar að samþykkt hafi verið að hækka yfirdráttarheimild á reikningi þess í samtals 105.000.000 krónur fram til 2. febrúar 2002, en þá myndi heimildin lækka í 40.000.000 krónur. Yrði þá jafnframt veittur handveðréttur yfir bankareikningi, sem færslur af kreditkortum gengju inn á, ásamt því að félagið gæfi yfirlýsingu um að það myndi virða yfirráðarétt sparisjóðsins „yfir ráðstöfun posafærslna debetkorta.“ Gaf félagið í framhaldi af þessu út yfirlýsingu til sparisjóðsins 11. desember 2001 um handveðrétt hans yfir nánar tilteknum bankareikningi þess fyrir hvers konar skuldum, sem það stæði í við hann.

Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, mun Íslensk útivist hf. hafa átt viðskipti við stefnda allt frá því að verslun félagsins tók til starfa á árinu 1999, en stefndi mun reka heildverslun, sem flytur meðal annars inn og selur útivistarvörur og íþróttavörur. Í desember 2001 munu vanskil hafa orðið á greiðslum Íslenskrar útivistar hf. á reikningum vegna vöruúttekta hjá stefnda. Féllst þá stefndi á að taka við víxlum samþykktum af félaginu til greiðslu á þeirri skuld. Óumdeilt er að félagið stóð í skilum með greiðslu þessara víxla. Um vorið 2002 munu aftur hafa orðið vanskil af hendi félagsins á reikningum frá stefnda, sem af þeim sökum heimilaði ekki frekari vöruúttektir þess. Var efnt af því tilefni til fundar áfrýjandans Þorbjörns og annars starfsmanns Íslenskrar útivistar hf. við starfsmenn stefnda 18. apríl 2002, þar sem samkomulag tókst um að félagið greiddi þessi vanskil með þremur víxlum, sem það samþykkti til greiðslu 21. maí, 18. júní og 4. júlí 2002, samtals að fjárhæð 19.160.460 krónur. Var félaginu í framhaldi af því heimilað að taka aftur út vörur hjá stefnda í reikningsviðskiptum. Liggur fyrir að félagið nýtti sér þessa heimild með vöruúttektum hjá stefnda á tímabilinu frá 18. apríl til 3. maí 2002 samkvæmt þrettán reikningum, samtals að fjárhæð 9.220.905 krónur. Í lok síðastnefnds mánaðar skilaði félagið vörum til stefnda að andvirði 17.200 krónur. Stofnaði félagið þannig til skuldar við stefnda á framangreindu tímabili að fjárhæð 9.203.705 krónur, en tekið var fram á reikningum hans að gjalddagi skuldar væri á útgáfudegi þeirra og eindagi 30 dögum síðar.

Í framhaldi af áðurnefndum fundi stjórnar Íslenskrar útivistar hf. 10. október 2001 munu hafa byrjað viðræður við stjórnendur Kaupáss hf. um hugsanlega sameiningu fyrrnefnda félagsins við rekstur þess síðarnefnda á versluninni Intersport í Reykjavík. Áfrýjendur kveða þessar viðræður hafa orðið árangurslausar og þeim verið slitið í lok janúar 2002. Í byrjun næsta mánaðar hófust samningaumleitanir milli Íslenskrar útivistar hf. og Baugs hf. um sameiningu á rekstri fyrrnefnda félagsins við verslanir, sem það síðarnefnda rak í Reykjavík með heitinu Útilíf. Af hálfu Íslenskrar útivistar hf. mun áfrýjandinn Jóhannes hafa öðrum fremur komið að viðræðum um þetta og aðallega átt þær við Jón Björnsson, sem þá var framkvæmdastjóri sérvörusviðs Baugs hf., en bæði félögin nutu aðstoðar löggiltra endurskoðenda sinna við þær. Liggja fyrir í málinu gögn um þessar samningaumleitanir. Í þeim virðist meðal annars hafa verið gengið út frá því að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis myndi verða við ósk Íslenskrar útivistar hf. um að fella niður skuldir félagsins að fjárhæð 200.000.000 krónur gegn því að fá hlut í félaginu sömu fjárhæðar, en við aðalmeðferð málsins í héraði staðfesti starfsmaður sparisjóðsins í vitnisburði sínum að þessi ósk félagsins hafi fengið þar jákvæðar viðtökur. Í lok apríl 2002 lágu orðið fyrir fjárhagslegar áætlanir um rekstur og efnahag ef til umræddrar sameiningar kæmi, auk þess sem drög höfðu verið gerð að samningi um þetta efni. Voru þessi gögn lögð fyrir stjórn Baugs hf., sem mun hafa fjallað um þau á fundi 3. maí 2002. Í aðilaskýrslu áfrýjandans Jóhannesar fyrir héraðsdómi kom fram að Jón Björnsson hafi tjáð honum nokkrum dögum síðar að stjórn Baugs hf. hafi ekki lokið umfjöllun sinni um þetta, en Jón hafi þá sagt að „hann væri ekki mjög bjartsýnn á þetta dæmi“, sem komið hafi áfrýjandanum á óvart. Kvaðst áfrýjandinn aftur hafa átt samtal við Jón 11. maí 2002, þar sem komið hafi fram að stjórn Baugs hf. hafi á fundi daginn áður hafnað fyrirliggjandi tillögum. Mun viðræðum um þetta þar með hafa lokið.

Fyrir liggur í málinu að um þær mundir, sem viðræðunum milli Íslenskrar útivistar hf. og Baugs hf. lauk, hafi forráðamenn fyrrnefnda félagsins ákveðið að eiga ekki frekari reikningsviðskipti til vöruúttekta fyrir verslun þess, auk þess sem áfrýjandinn Þorbjörn stofnaði eftir fyrirmælum áfrýjandans Jóhannesar bankareikning við Búnaðarbanka Íslands hf. 8. maí 2002 fyrir fé, sem notað yrði til að standa straum af svokölluðum vörslusköttum. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis mun síðan 1. júní 2002 hafa fellt niður heimild Íslenskrar útivistar hf. til yfirdráttar á bankareikningi. Í framhaldi af því urðu eigendaskipti að verulegum hlut í Íslenskri útivist hf. og var Þyrping hf. orðinn eini hluthafinn í félaginu í lok júní 2002. Í tengslum við þetta gekk áfrýjandinn Jóhannes úr stjórn félagsins 26. þess mánaðar. Á hluthafafundi í Íslenskri útivist hf. 8. júlí 2002 var ákveðið að krefjast gjaldþrotaskipta á búi félagsins, sem fallist var á með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 10. sama mánaðar.

Óumdeilt er í málinu að stefndi fékk ekki greidda áðurnefnda reikninga á hendur Íslenskri útivist hf. vegna vöruúttekta frá 18. apríl til 3. maí 2002. Í málinu krefur stefndi áfrýjendur um skaðabætur, sem svara til fjárhæðar þessara reikninga að teknu tilliti til fyrrgreindra vöruskila félagsins í lok maí 2002, eða alls 9.203.705 krónur.

II.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi reisir stefndi kröfu sína á hendur áfrýjendum á því að þegar fyrrgreind reikningsviðskipti Íslenskrar útivistar hf. fóru fram við stefnda á tímabilinu frá 18. apríl til 3. maí 2002 hafi staða félagsins verið orðin slík að það hafi ekki lengur haft ráðstöfunarrétt yfir eignum sínum eða tekjum af vörusölu vegna þeirra veðréttinda, sem það hafði stofnað til við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Félagið hafi allt frá árinu 1999 verið rekið með stórfelldu tapi og engar horfur verið á að breytingar yrðu í því efni. Allt frá handveðsetningu innistæðu á bankareikningi félagsins til sparisjóðsins í desember 2001 hafi áfrýjendum sem forráðamönnum þess átt að vera ljóst að það gæti ekki staðið í skilum við lánardrottna sína og yrði því áframhaldandi rekstur aðeins til tjóns fyrir þá. Fjárhagur félagsins hafi þannig á þessum tíma verið orðinn slíkur að skylt hafi verið að leita eftir gjaldþrotaskiptum á búi þess. Í stað þess að sinna þeirri skyldu hafi áfrýjendur haldið rekstri félagsins áfram allt þar til í júní 2002 og stofnað á því tímabili meðal annars til þeirra reikningsskulda við stefnda, sem skaðabótakrafa hans í málinu snýr að. Þá hafi Íslensk útivist hf. með þessum viðskiptum fengið afhentar vörur frá stefnda, sem um leið hafi fallið undir veðréttindi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í vörubirgðum félagsins og aukið þannig tryggingarréttindi hans. Telur stefndi að félagið hafi í viðskiptum þeirra vísvitandi haldið leyndum upplýsingum um þetta atriði og fjárhagsstöðu þess að öðru leyti. Hafi áfrýjendur sem forráðamenn félagsins með öllu þessu sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi og bakað sér með því skaðabótaskyldu við stefnda.

Samkvæmt 2. mgr., sbr. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. er skuldara, sem er bókhaldsskyldur, skylt að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu ef hann getur ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga, enda verði ekki talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans líði hjá innan skamms tíma. Skylda sú, sem hér um ræðir, ræðst eftir hljóðan ákvæðisins eingöngu af fyrirsjáanlegri getu skuldarans til að standa í skilum með greiðslu skuldbindinga sinna þegar þær falla í gjalddaga. Takist skuldara það, hvort sem er með því að verða sér úti um fé með aflahæfi sínu eða með því að ganga á eignir sínar eða taka fé að láni, er honum hvorki rétt né skylt samkvæmt ákvæðinu að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu. Gildir þá einu út af fyrir sig hvort tap hafi orðið af atvinnurekstri hans eða andvirði eigna hrökkvi ekki fyrir skuldum.

Í málinu liggja ekki fyrir gögn um skuldbindingar Íslenskrar útivistar hf. við aðra en stefnda á einstökum tímabilum, hvenær gjalddagi þeirra var og um hvaða fjárhæðir var að tefla. Hefur heldur ekkert verið lagt fram til samanburðar um tekjuöflun félagsins á sömu tímabilum, stöðu á bankareikningum þess, heimild til yfirdráttar á þeim, hvort það hafi átt eignir, sem ganga hefði mátt á til að afla fjár, eða hvort það hafi annars átt kost á lánsfé. Liggur því ekkert fyrir í málinu til þess að unnt sé að meta hvort forráðamönnum félagsins hafi verið orðið skylt vegna ákvæða 64. gr. laga nr. 21/1991 að krefjast gjaldþrotaskipta á búi þess fyrr en raun varð á, hvort sem er í desember 2001, þegar stefndi telur þessa skyldu hafa verið komna til, í lok apríl og byrjun maí 2002 þegar félagið stofnaði til þeirra skulda, sem krafa stefnda varðar, eða á einhverju öðru tímamarki. Niðurstaða um áðurgreindar málsástæður, sem stefndi ber fyrir sig um skaðabótakröfu sína, ræðst af því hvort áfrýjendum hafi við stofnun þeirra skuldbindinga Íslenskrar útivistar hf., sem krafa stefnda er reist á, eða á einhverju fyrra stigi mátt vera ljóst að félagið myndi ekki geta staðið í skilum við stefnda og aðra lánardrottna þess. Er málið því svo vanreifað að þessu leyti að óhjákvæmilegt er að vísa því sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2003.

I

             Mál þetta, sem dómtekið var hinn 16. desember sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Austurbakka hf., Köllunarklettsvegi 2, Reykjavík, á hendur Jóhannesi Rúnar Jóhannessyni, Vesturströnd 25, Seltjarnarnesi, og Þorbirni Stefánssyni, Móaflöt 31, Garðabæ, með stefnu birtri hinn 12. febrúar 2003 og þingfestri 13. febrúar sama ár.

             Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða honum 9.203.705 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 3. júní 2002 til 13. febrúar 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

             Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

             Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða hvorum fyrir sig málskostnað, að mati dómsins.

             Til vara krefjast stefndu þess, að krafa stefnanda verði stórlega lækkuð og málskostnaður látinn falla niður.

II

         Íslensk útivist hf., áður Verzlunarfélagið Njörður hf., var stofnuð í nóvember 1995.  Í október 1999 hóf félagið rekstur verslunar með útivistar- og íþróttavörur í Kringlunni í Reykjavík, undir heitinu Nanoq.  Stefndi, Þorbjörn, var ráðinn framkvæmdastjóri  félagsins í apríl 1999 og stefndi, Jóhannes Rúnar, tók við stjórnarformennsku í félaginu haustið 1999, en hann hafði áður verið meðstjórnandi. 

             Frá upphafi var verslunin rekin með miklu tapi og mun meira en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. 

             Á stjórnarfundi í Íslenskri útivist hf. 23. mars 2000 var farið yfir ársreikning félagsins 1999 og reyndist heildartap þess árs nema 91.400.000 krónum, sem var 35.000.000 króna lakari afkoma en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. 

             Á stjórnarfundi 4. apríl 2001 lágu fyrir drög að ársreikningi 2000 og var rekstrarniðurstaða hans 225.000.000 króna tap í stað 61.000.000 króna, samkvæmt áætlun.  Reyndist vörusala hafa orðið um 100.000.000 krónum undir áætlun og rekstarliðir hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. 

             Á stjórnarfundi 10. október 2001 var kynnt bráðabirgðauppgjör fyrir fyrstu 9 mánuði ársins 2001, sem gerði ráð fyrir kr. 117.000.000 króna tapi og 133.000.000 króna tapi allt árið.  Er bókað í fundargerð: "Greiðslustaðan er mjög slæm og ekkert bendir til þess að úr rætist, var rætt um stöðuna nokkuð og stjórnarformanni og framkvæmdastjóra falið að koma með tillögur."

             Aðalviðskiptabanki Íslenskrar útivistar hf. var Spron.  Með tryggingarbréfi, dags. 17. febrúar 2000, veitti Íslensk útivist hf. Spron allsherjarveð í öllum vörubirgðum, sem það þá átti eða kynni að eignast, fyrir skuldum allt að 200.000.000 króna.  Með tryggingarbréfi, dags. 18. febrúar 2000, veðsetti Íslensk útivist hf. Spron innréttingar í húsnæði verslunarinnar í Kringlunni til tryggingar skuldum, að fjárhæð allt að 300.000.000 krónur.  Þann 19. október 2001 lögðu stjórnendur Íslenskrar útivistar hf. fram endurskoðaða rekstraráætlun vegna ársins 2002 fyrir Spron og jafnframt rekstraráætlun fyrir árið 2003 og greiðsluáætlun fyrir árin 2001 og 2002.  Hinn 11. desember 2001 var Spron sett að handveði innstæður á hlaupareikningum Íslenskrar útivistar hf. nr. 1150-26-51870 og 1150-26-51420 eins og þær væru á hverjum tíma.  Um svipað leyti opnaði þáverandi framkvæmdastjóri Íslenskrar útivistar hf., stefndi Þorbjörn, bankareikning í öðrum banka, þar sem innkoma í reiðufé er lögð inn. Sá reikningur mun síðar hafa verið notaður til að standa skil á vörslusköttum sem Íslenskri útivist hf. bar að standa skil á.

             Stefnandi er heildverslun, sem m.a. flytur inn og selur útvistar- og íþróttavörur.  Í apríl 2002 var Íslensk útivist hf. komin í um 19 milljóna króna skuld við stefnanda, sem ákvað þá að loka fyrir frekari viðskipti við félagið.  Íslensk útivist hf. sótti eftir að opna viðskipti að nýju til að fá inn vor- og sumarvöruna.  Hinn 18. apríl 2002 féllst stefnandi á að taka við 3 víxlum af Íslenskri útivist hf. til greiðslu skuldarinnar, þ.e. 4.836.446 krónur með gjalddaga 21.05.2002, 7.127.918 krónur með gjalddaga 18.06.2002 og 7.196.096 krónur með gjalddaga 04.07.2002.  Í framhaldi af því voru Íslenskri útivist hf. afhentar nýjar vörur fyrir 9.220.905 krónur.  Engin af framangreindum víxlum fékkst greiddur og ekkert fékkst greitt fyrir hina nýju vöru.

             Á hluthafafundi í Íslenskrar útivistar hf., sem haldinn var 26. júní 2002, lýsti Halldór Jónsson hdl., lögmaður Þyrpingar hf., því yfir, með vísan til gjaldþrotalaga, að það væri ábyrgðarhluti, m.a. vegna ábyrðar stjórnarmanna, að halda rekstrinum áfram. Í framhaldi af því var óskað gjaldþrotaskipta á félaginu, sem úrskurðað var gjaldþrota 10. júlí 2002.

             Kröfulýsingarfresti í þrotabú Íslenskrar útivistar hf. lauk 30. september 2002 og var neðangreindum kröfum lýst í búið:       

1. Sértökukröfur skv. 109. gr. gþl.                                      kr                                         5.256.601

2. Veðkröfur skv. 111. gr. gþl.                                                                                kr. 352.620.088

3. Forgangskröfur skv. 112. gr, gþl.                                   kr.                                     54.812.223

4. Almennar kröfur skv. 113. gr. gþl.                                 kr.                                    148.802.344

                                                                                                Samtals                 kr. 561.491.256

 

             Ekki var tekin afstaða til almennra krafna, þar sem skiptastjóri taldi fullvíst að ekkert kæmi upp í greiðslu þeirra.  Gerir skiptastjóri ráð fyrir, að samtals fáist á bilinu 330-340 milljónir króna fyrir eignir þrotabúsins.  Lýstar kröfur stefnanda í þrotabúið nema 27.716.465 krónum og munu þær ekki fást greiddar af eignum þess.

         Við aðalmeðferð málsins gáfu stefndu skýrslu.  Gerðu þeir þar grein fyrir þeim aðgerðum sem forráðamenn Íslenskrar útivistar hf. höfðu gripið til, og hugðust grípa til, í því augnamiði að koma rekstri félagsins á réttan kjöl frá því haustið 2001 og fram á vor 2002.  Kom þar fram, að áður en Íslensk útivist hf. hafi ráðist í að setja á fót útivistar- og íþróttavöruverslunina Nanoq í Kringlunni árið 1999, hafi verið unnin ítarleg rekstraráætlun fyrir verslunina.  Hafi það verið mat forráðamanna Íslenskrar útivistar hf., á þeim tíma, að rekstur félagsins myndi skila viðunandi arði þegar frammí sækti, en gert hafi verið ráð fyrir taprekstri í upphafi.

Upphafleg rekstraráætlun hafi ekki staðist að öllu leyti, en kostnaður hafi þar verið vanáætlaður.  Hinn 7. ágúst 2001 hafi verið undirritaður samningur við Þyrpingu hf. (nú Fasteignafélagið Stoðir hf.) um kaup Þyrpingar hf. á nýju hlutafé í Íslenskri útivist hf. að nafnverði 90.000.000 króna á genginu 1, ennfremur hafi verið samið um lækkun á leigu fyrir húsnæði verslunarinnar, sem hafi verið í eigu Þyrpingar hf.  Þá hafi eldri hluthafar jafnframt aukið hlutafjáreign sína um 100.000.000 króna.  Við þessar aðgerðir hafi eiginfjárstaða Íslenskrar útivistar hf. batnað um 190.000.000 króna, og hafi það verið álit forráðamanna félagsins, þar á meðal stefndu, að með þessum aðgerðum væri rekstur félagsins tryggður, þótt greiðslustaðan væri áfram erfið, enda hafi aðgerðir þessar verið gerðar í nánu samráði við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, viðskiptabanka félagsins.

Á stjórnarfundi í Íslenskri útivist hf. 10. október 2001 hafi verið lagt fram bráðabirgðauppgjör fyrir fyrstu níu mánuði þess árs.  Hafi þar komið fram að sala hefði aukist um 13,6% frá fyrra ári en fyrirséð væri um áframhaldandi hallarekstur, sérstaklega væri greiðslustaðan mjög slæm.  Á þessum fundi hafi stefndu verið falið að koma með tillögur til úrbóta.

Í framhaldi af þeim fundi hafi forráðamenn Íslenskrar útivistar hf., átt fundi með fulltrúum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis vegna slæmrar greiðslustöðu félagsins auk þess sem þeir hafi átt samræður við forráðamenn Kaupáss hf., þeim Ingimar Jónssyni, framkvæmdastjóra, og Ásmundi Stefánssyni, stjórnarformanni, um að sameina reksturinn Intersport-versluninni við Höfðabakka.  Hafi sparisjóðurinn fallist á, með bréfi dags. 15. nóvember 2001, að hækka yfirdrátt félagsins og fresta afborgunum af lánum, enda yrðu haldnir mánaðarlegir fundir með aðilum.  Gefnar yrðu nákvæmar upplýsingar um stöðu félagsins, auk þess sem áfram yrði unnið að krafti að framtíðarlausn á rekstri þess, í samræmi við hugmyndir forráðamanna, m.a. með sameiningu við aðra rekstraraðila á markaðinum eða sölu félagsins.

Hins vegar hafi viðræðum við fulltrúa Kaupáss hf. um mögulegan samruna Íslenskrar útivistar hf. og Intersports verið slitið í lok janúar 2002, án þess að af þeim samruna yrði.  Í framhaldi af því hafi forráðamenn Íslenskrar útivistar hf. hafið viðræður við Baug um að sameina reksturinn verslunum Útilífs í Glæsibæ og Smáralind, sem séu í eigu Baugs Group hf., allt í samráði við og með vitneskju Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis.  Forráðamenn Baugs hafi frá upphafi verið mjög jákvæðir til samstarfs og hinn 7. febrúar 2002 hafi verið gerð sérstök verkefnaáætlun um viðræður aðila næstu fjórar vikur.  Af hálfu Baugs Group hf. hafi Jón Scheving Thorsteinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs, og Jón Björnsson, framkvæmdastjóri sérvörusviðs, tekið þátt í viðræðunum auk Stefáns Hilmarssonar, löggilts endurskoðanda félagsins, en af hálfu Íslenskrar útivistar hf. hafi stefndi, Jóhannes Rúnar, og Sigfús Ingimundarson, stjórnarmaður, komið að málinu auk Jóns Sigurðar Helgasonar, löggilts endurskoðanda félagsins.  Samningamenn hafi í fyrstu verið einhuga um, að samruni þessara rekstrareininga væri fýsilegur kostur.  Gengið hafi verið út frá því, að sameinað félag yrði að hálfu leyti í eigu Baugs, en aðrir hluthafar yrðu eldri hluthafar Íslenskrar útivistar hf. auk Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, sem gefið hafi vilyrði fyrir því að breyta a.m.k. 200.000.000 krónum af skuldum í hlutafé.  Í aprílmánuði 2002 hafi síðan aðilar varpað á milli sín uppkasti að kaupsamningi.  Þegar Íslensk útivist hf. greiddi eldri skuldir við stefnanda með víxIum og stofnaði til skuldbindinga þeirra, sem séu undirrót þessa máls, hafi þessar viðræður við Baug staðið sem hæst.

Umdeild víxilgreiðsla hafi átt sér stað á fundi á starfsstöð stefnanda hinn 18. apríl 2002, en af hálfu Íslenskrar útivistar hf. hafi sótt fundinn stefndi, Þorbjörn, og Anna Dagmar Arnarsdóttir, skrifstofustjóri, en Valdimar Olsen, fjármálastjóri stefnanda, ásamt Þórhildi Árnadóttur, innheimtustjóra, f.h. stefnanda.  Á fundinum hafi komið fram, að stefnanda væri kunnugt um greiðsluvandræði Íslenskrar útivistar hf. og að samningaviðræður stæðu yfir við Baug um sameiningu við Útilíf.  Hafi og legið fyrir, að Íslensk útivist hf. hefði áður gengið frá vanskilum við stefnda með sama hætti.

Framkvæmdastjórn Baugs Group hf. hafi tekið væntanlegan samruna Íslenskrar útivistar hf. og Útilífs fyrir á fundum sínum í byrjun maímánaðar 2002.  Málið hafi síðan verið lagt fyrir stjórnarfund Baugs Group hf. 10. maí, ásamt sérstöku minnisblaði Jóns Björnssonar, til ákvörðunar um framhald þess, en hafi ekki náð þar fram að ganga og hafi Jón Björnsson tilkynnt stefnda, Jóhannesi Rúnari, þá niðurstöðu símleiðis, laugardaginn 11. maí 2002.

Vegna óvissu um framhald málsins hjá Baugi hf., og til öryggis, hafi stefndi, Þorbjörn, stofnað sérstakan reikning vegna vörsluskatta í Búnaðarbanka Íslands, hinn 8. maí 2002, þar sem inn hafi verið lagðir fjármunir vegna staðgreiðslu.

Stefndi, Jóhannes Rúnar, hafi tilkynnt meðstefnda, Þorbirni, niðurstöðu Baugs Group hf. samdægurs og hafi stefndi, Þorbjörn, þá gefið starfsfólki sínu fyrirmæli um að stöðva öll frekari vöruinnkaup Íslenskrar útivistar hf., að svo stöddu.

Leitað hafi verið nýrra leiða, til þess að koma rekstri félagsins í rétt horf, enda forráðamenn félagsins þess fullvissir, að það myndi takast.  Hafnar hafi verið samningaviðræður við Guðmund Ágúst Pétursson, stórkaupmann, einn birgja félagsins.  Guðmundur hafi haft uppi áhugaverðar hugmyndir um endurskipulagningu rekstrarins og hugðist jafnframt leggja nýtt hlutafé til félagsins.  Hann hafi m.a. haft stuðning stefnanda við fyrirætlanir sínar.  Hins vegar hafi Guðmundur gert kröfu til þess, að hann mætti einn eignast allt hlutafé félagsins og það orðið úr, að allir hluthafar, aðrir en Þyrping hf., hafi selt honum allt hlutafé sitt, sbr. bókun þar um á stjórnarfundi 12. júní 2002 og kaupsamning.  Þyrping hf. hafi hins vegar neytt forkaupsréttar síns, samkvæmt samþykktum félagsins, og því hafi fyrirætlanir Guðmundar orðið að engu.

Hinn 1. júní 2002 hafi Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis fellt niður yfirdráttarheimild á reikningi Íslenskrar útivistar hf. eftir að laun vegna maímánaðar hefðu verið greidd.  Félaginu hafi því ekki reynst unnt að greiða gjaldfallnar skuldir með sama hætti og verið hafði, en síðasta greiðsla til stefnanda vegna eldri víxilskuldbindinga átti sér stað hinn 3. maí 2002 og var að fjárhæð kr. 5.879.764.

Stefndi, Jóhannes Rúnar, hafi sagt sig úr stjórn Íslenskrar útivistar hf. á hluthafafundi, sem haldinn var 26. júní 2002.  Föstudaginn 5. júlí 2002 hafi að mati Þyrpingar hf., hins nýja eiganda alls hlutafjár í Íslenskri útivist hf., orðið útséð um að ráðagerðir tækjust til björgunar félaginu.  Af því tilefni hafi verið ákveðið á stjórnarfundi í Þyrpingu hf., sunnudaginn 8. júlí, að óska eftir gjaldþrotaskiptum á búi Íslenskrar útivistar hf.

             Stefndi, Jóhannes, kvað stjórnarmenn Nanoq hafa fylgst með gangi viðræðnanna, sem og Spron.  Hann kvað ársreikning fyrir árið 2001, hafa verið til í drögum í febrúar 2002, sem gefið hafi rétta mynd af stöðunni, en hins vegar hefðu verið duldar eignir í fyrirtækinu, t.d. einkaumboð.  Hann kvað, að hvorki hefði verið formlega né óformlega rætt um að óska eftir gjaldþrotaskiptum hjá félaginu meðan á þessum viðræðum stóð.  Að hans mati hefði stefnandi hins vegar fengið greiddan sinn reikning, ef Guðmundur hefði fengið að reka fyrirtækið. 

Stefndi, Þorbjörn, kvaðst ekki hafa tekið þátt í viðræðum við Baug, en þó tekið þátt í áætlanavinnu vegna þeirra viðræðna, með stjórnarformanni.  Aðspurður kvaðst hann hafa kynnt sér drög að ársreikningi félagsins fyrir árið 2001, í lok febrúar eða byrjun mars 2002.   Taldi hann ársreikning félagsins ekki gefa rétta mynd, þar sem duldar eignir væru ekki þar með, svo sem viðskiptavild og góð umboð.  Hann kvað, að í upphafi viðskipta stefnanda og Íslenskrar útivistar hafi verið gerð samningsdrög, fyrst og fremst um afslátt og greiðslukjör viðskipta aðila, sem verið hafi mánaðarúttekt með nokkurra daga greiðslufresti.  Staðið hafi verið við þetta samkomulag fram til ársins 2001 og í nóvember 2001 hafi þeir ekki getað greitt og því óskað eftir fundi til að semja um greiðslur fram yfir áramót.  Allir þeir víxlar hafi verið greiddir á réttum tíma, á tímabilinu febrúar fram í mars-apríl 2002.  Stefndi kvaðst hafa beðið um fundinn með stefnanda 18. apríl 2002, þar sem greiðslustaða félagsins hafi verið mjög þung og félagið verið í vanskilum við stefnanda, og óskað eftir að breyta þessum skuldum í víxilskuldir.  Samið hafi verið um að setja þessar greiðslur á víxla, og opna fyrir frekari viðskipti.  Á fundinum hafi verið rætt um að greiðslustaða Íslenskrar útivistar hefði verið mjög slæm.  Stefnandi hafi hins vegar ekki verið upplýstur um handveðsetningar eða aðrar veðsetningar, vöruveðsetningu og innréttingaveðsetningu.  Taldi hann að stefnandi hafi vitað um viðræðurnar við Baug, þar sem Guðmundur Ágúst Pétursson hafi vitað af þessum viðræðum, og Guðmundur hefði haft náin tengsl við forstjóra stefnanda á þessum tíma.  Aðspurður kvaðst stefndi aldrei hafa gefið til kynna að eigendur Íslenskrar útivistar, sem væru mjög fjársterkir, ábyrgðust greiðslur.  Þá kvað hann aðspurður, aldrei hafa verið rætt um að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta meðan á viðræðum við Baug stóð eða áður. 

Sigfús Ingimundarson, stjórnarmaður í Íslenskri útivist hf. gaf og skýrslu við aðalmeðferð málsins.  Lýsti hann atvikum með svipuðum hætti og stefndu.  Hann kvað áætlanir um rekstur félagsins ekki hafa staðist.  Kvaðst hann hafa séð ársreikning félagsins fyrir árið 2001 í mars eða aprílmánuði 2002, en menn hafi þó vitað af stöðunni, þó ekki væri kominn ársreikningur.  Hann kvaðst hafa tekið þátt í einum fundi um sameiningu fyrirtækisins við Baug, en það hafi verið opnunarfundur á þeim viðræðum.  Hann hafi fylgst með viðræðunum og hafi menn talið að búið væri að semja um allt, einungis eftir að fá formlegt samþykki frá stjórn Baugs.  Eftir neitun Baugs hafi verið hafnar viðræður við banka félagsins og Guðmund Ágúst Pétursson, sem keypt hafi fyrirtækið fyrir nokkur þúsund krónur.  Fram til þess að Guðmundur hafi keypt hlutabréfin, eða í maílok, hafi verið ræddur sá möguleiki að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta.

Jón Björnsson, framkvæmdastjóri hjá Baugi Group hf., gaf og skýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins.  Hann kvað viðræður um möguleika á sameiningu fyrirtækja Íslenskrar útivistar og Útilífs hafa hafist í janúar febrúar 2002.  Honum og stefnda, Jóhannesi, hafi verið falið það, að kanna hvort unnt væri að sameina þessi félög.  Vinna þeirra hafi falist í því að setja saman viðskiptaáætlun.  Niðurstaða þeirra hafi verið sú, að sameinað fyrirtæki gæti skilað hagnaði í framtíðinni, en til þess þyrfti að koma inn fé í fyrirtækið.  Ljóst hafi verið, að bæði félögin hefðu þurft að gefa eitthvað eftir.  Talað hafi verið um jafna eignaraðild, ef af samruna yrði.  Hann kvaðst ekki hafa vitað, á þessum tíma, hvort eigendur hafi verið tilbúnir til þess að taka á sig skuldir, þar sem málið hafi aldrei komist á það stig, og skuldir félagsins aldrei verið ræddar.  Hann kvaðst fyrst hafa séð efnahagsreikning Nanoq upp úr miðjum mars­mánuði 2002.  Þá hafi málið þurft að fara fyrir stjórn Baugs, til þess að hann fengi heimild til þess að ganga til þessara samninga.

Jón S. Helgason, endurskoðandi Nanoq, gaf og skýrslu fyrir dóminum.  Hann kvað rekstur félagsins frá stofnun og alla tíð hafa verið erfiðan og undir væntingum.  Hafi hann gert stjórnendum grein fyrir þessu jafnt og þétt.  Hann kvað aðspurður að er ársreikningur hafi legið fyrir í mars hafi ekki verið mikil von fyrir fyrirtækið miðað við sömu rekstrarforsendur.  Í byrjun marsmánaðar hafi hann komið að því að skoða hugsanlega sameiningu félagsins og Útilífs ásamt endurskoðanda Baugs.  Niðurstöður þeirra hafi verið þær, að auka þyrfti eigið fé í Nanoq, til þess að forsendur væru fyrir því að fá Baug inn.  Hann kvaðst síðan hafa frétt af því að Baugur hefði slitið þessum viðræðum í byrjun maí.  Hafi hann síðan engin afskipti haft af rekstri félagsins.

Stefán Hilmarsson, endurskoðandi, gaf og skýrslu við aðalmeðferð málsins, en hann er endurskoðandi Baugs Group hf.  Hann kvaðst hafa tekið þátt í viðræðum Íslenskrar útivistar hf. og Baugs er honum hafi verið falið, í byrjun mars árið 2002, að kanna fjárhagslegan styrk félags eftir sameiningu Útilífs og Íslenskrar útivistar.  Tillögum hafi verið skilað í lok apríl 2002.  Forsendur sem lágu til grundvallar hafi verið þær, að aukning yrði á eigin fé.  Skuldum yrði breytt í hlutafé, þannig að ekki yrðu miklar vaxtaberandi skuldir á hinu sameinaða félagi.  Baugur myndi breyta skuldum sínum í Útilífi, að fjárhæð 350 milljónir, í hlutafé og hinir gera sambærilega skuldbreytingu hjá sér og koma með 350 milljónir inn í félagið.  Talað hafi verið um, að viðskiptabanki Íslenskrar útivistar breytti skuldum í hlutafé.  Hafi verið talið að með því gæti félagið skilað hagnaði.  Tillaga hans um endurskipulagningu, dagsett 16. mars, hafi verið send Jóni Björnssyni, einum af stjórnendum Baugs, sem séð hafi um að koma þeim áfram til sinna manna.  Hann kvað tillögurnar hafa fengið ágætan hljómgrunn hjá Baugi. 

Lárus Sigurðsson, útibússtjóri Spron, gaf og skýrslu við aðalmeðferð málsins, en sparisjóðurinn var viðskiptabanki Íslenskrar útivistar.  Kvað hann, að í upphafi viðskipta hafi verið sett til tryggingarnar, veð í lausafé og birgðum félagsins.  Hann kvað Spron hafa fylgst grannt með rekstri fyrirtækisins, en skilyrði um eigið fé í þessum viðskiptum hafi ekki verið fyrir hendi.  Hlutafé hafi verið aukið á árinu 2000 um 150 milljónir og 2001 um 190 milljónir, að kröfu þeirra.  Tilefni samninga sem gerðir hafi verið í nóvember 2001, hafi verið fjárþröng fyrirtækisins.  Bankinn hafi leitað leiða til að tryggja áframhaldandi rekstur, en jólasala hafi verið að fara í gang.  Gerðar hafi verið skilmálabreytingar á skuldum félagsins, aðeins greiddir vextir í næstu 6 mánuði, og yfirdráttur félagsins aukinn, svo unnt væri að sinna jólainnkaupum.  Félagið hafi veitt handveð í hlaupareikningum þess, og peningar sem söfnuðust inn á þann reikning hafi verið notaðir til að greiða kröfur Spron, eftir því sem þær féllu í gjalddaga.  Á þessum tíma hafi átt að leita leiða til að tryggja áframhaldandi rekstur félagsins.  Hafi verið rætt um að fá inn aukið hlutafé frá núverandi eigendum eða öðrum sem kæmu þá inn í reksturinn.  Spron hafi vitað, á þessum tíma, að félagið væri í viðræðum við fjársterka aðila, Baug og Kaupás, um sameiningu, eða að þau félög kæmu inn í reksturinn, sem eigendur.  Hafi Spron fylgst með þessum viðræðum, en Spron hafi átt reglulega fundi með forsvarsmönnum félagsins.  Beiðni hafi komið um að Spron breytti hluta af skuldum félagsins í hlutafé, eða 200 milljónum króna, sem bankinn hafi tekið jákvætt í.  Bankanum hafi verið tilkynnt að viðræðum við Baug væri slitið um mánaðamótin maí júní.  Yfirdrætti á reikningi félagsins hafi verið lokað 1. júní 2002, með tilkynningu til félagsins, án fyrirvara.  Aðspurður kvað hann Spron ekki hafa fengið greiddar kröfur sínar að fullu við gjaldþrot félagsins.  Félag tengt Spron hafi keypt reksturinn og selt síðan Baugi.  Spron hefur þurft að afskrifa um það bil 40-50 milljónir vegna viðskipta við félagið. 

Einnig gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins Valdimar Olsen, framkvæmdastjóri stefnanda, Árni Þór Árnason, forstjóri stefnanda og Þórhildur Árnadóttir, innheimtustjóri hjá stefnanda.

             Í framburði Valdimars Olsen, fjármálastjóra stefnanda, kom fram, að hann hafi lítið þekkt til fjárhagsstöðu stefnda í apríl 2002.  Kvað hann stefnda hafa verið stóran viðskiptaaðila hjá stefnanda og hafi viðskiptin gengið ágætlega.  Viðskipti Íslenskrar útivistar við stefnanda hafi staðið frá upphafi, en félagið hafi keypt af stefnanda Nike vörur, en stefnandi sé umboðsaðili þeirrar vöru á Íslandi.  Í upphafi viðskiptanna hafi verið gerð drög að samningi milli Íslenskrar útivistar og stefnanda, þar sem kveðið hafi verið á um að vörur skyldu greiddar innan mánaðar, en gætu þó dregist í nokkra daga.  Viðskipti aðila hafi byrjaði ágætlega, en greiðslur hafi síðan farið að dragast aðeins.  Um haustið 2001 hafi stefnandi lokað fyrir viðskipti við félagið, vegna vanskila, sem hafi verið leyst með því, að gefnir hafi verið út víxlar, sem greiddir hafi verið.  Vorið 2001 hafi félagið skuldað stefnanda töluvert og hafi stefnandi gengið eftir því að þau viðskipti yrðu gerð upp.  Forsvarsmenn Nanoq hafi komið á fund hjá stefnanda og óskað eftir að leysa málið með því að þeir gæfu út víxla fyrir skuldinni, eins og þeir hefðu áður gert.  Fyrirgreiðslan hafi verið nauðsynleg til þess að fá nýjar vörur.  Fyrirsvarsmenn Nanoq hafi sagt, að reksturinn væri þungur og ekki ósvipaður og fyrir áramót.  Stefnanda hafi hins vegar ekki verið kynnt, að félagið væri á barmi gjaldþrots eða sagt frá veðsetningum, sem væru í birgðum og reikningum.  Stefnanda hafi og ekki verið kynntar samningaviðræður við Baug eða við Kaupás.  Aðspurður kvað hann, að á fyrrgreindum fundi hafi ekki verið óskað eftir sérstökum upplýsingum frá Íslenskri útivist, beðið um ársreikninga eða tryggingar, eða meðmæli frá viðskiptabanka félagsins.  Hann kvað vörur, sem afhentar hefðu verið frá 18. apríl til 3. maí 2001, hafa verið pantaðar löngu áður, sérstaklega til Nanoq, en venja sé að panta vörur með 6 til 8 mánaða fyrirvara.

Þórhildur Árnadóttir, innheimtustjóri hjá stefnanda, kvað Íslenska útivist hafa verið í mánaðarviðskiptum við stefnanda og venja sé, að lokað sé fyrir viðskipti ef ekki sé greitt, án þess að senda sérstaka tilkynningu þar um.  Í upphafi viðskipta Íslenskrar útivistar og stefnanda hafi verið rætt um bankatryggingu, en bent hafi verið á, af fyrirsvarsmönnum félagsins, að það fjársterkir aðilar stæðu að Nanoq að þess þyrfti ekki.  Hún kvaðst hafa verið viðstödd umræddan fund, sem boðað hefði verið til vegna beiðni stefnda, Þorbjarnar, um fyrirgreiðslu og hafi hann óskað eftir samskonar aðstoð eins og gert hefði verið fyrir jólin.  Hún kvaðst hafa athugað hvort Íslensk útivist væri á vanskilaskrá eða á lista hjá Lánstrausti, en svo hafi ekki verið.  Kvað hún stefnda, Þorbjörn, hafa sagt að þetta væri í síðasta skipti sem stefnandi þyrfti að aðstoða sig á þennan hátt.  Henni hafi ekki verið kunnugt um greiðsluvandræði Nanoq.  Henni hafi ekki verið kynntar viðræður stefnda við Baug eða Kaupás.  Kvað hún stefnanda hafa verið ókunnugt um veðsetningar í eignum og viðskiptum Nanoq.

Árni Þór Árnason, forstjóri stefnanda, bar, að honum hefði verið kunnugt um umræddan fund, þar sem hann hefði verið spurður hvort hann væri tilbúinn til að taka við víxlum, sem greiðslu.  Honum hafi ekki hafa verið kunnugt um viðræður félagsins við Baug fyrr en í júní 2002, og hafi hann frétt í maílok að lager Nanoq væri veðsettur banka.  Vegna viðskiptanna í apríl 2002 kvaðst hann ekki hafa leitað eftir upplýsingum um stöðu fyrirtækisins.

Anna Dagmar Arnarsdóttir, fjármálastjóri hjá Nanoq frá því í lok mars 2002, gaf og skýrslu við aðalmeðferð málsins, en hún var viðstödd fundinn í Austurbakka 18. apríl 2002.  Kvað hún, að á þeim fundi hefði verið talað um samskipti fyrirtækjanna, vegna greiðslna á reikningum stefnanda.  Á fundinum hefði og verið talað um sameiningu félagsins og Baugs, þar sem fram hefði komið, að stefnandi hefði frétt af þeim áformum.  Þá hafi verið ákveðið að ganga frá víxlum og afgreiða vörusendingu.  Hins vegar hafi ekki verið rætt um greiðsluvandræði Íslenskrar útivistar eða veðsetningar í eignum félagsins.

Við aðalmeðferð málsins gáfu og skýrslu fjármálastjóri Íslenskrar útivistar frá 1. apríl 2001 til 1. apríl 2002 og innkaupastjóri félagsins, en ekki þykir ástæða til að greina nánar frá framburði þeirra hér.

III

             Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að þegar Íslensk útivist hf., hafi falast eftir áframhaldandi viðskiptum við stefnanda í apríl 2002, með því að greiða eldri skuldir með víxlum, þá hafi rekstri þess verið þannig komið, að Spron hafi haft handveð í hlaupareikningum félagsins auk veða í vörubirgðum og innréttingum.  Hafi Íslensk útivist þá verið svipt ráðstöfunarrétti yfir nánast allri innkomu vegna sölu félagsins.  Það sem ekki hafi runnið til Spron hafi verið haldið til hliðar til að greiða vörsluskatta.

             Íslensk útivist hafi frá upphafi verslunarrekstrar í Kringlunni í október 1999, verið rekin með botnlausu tapi.  Eigið fé þess hafi brunnið upp og ekkert hafi bent til þess að neinna breytinga yrði að vænta.

             Hinn 19. október 2001 hafi eftirfarandi rekstrar- og greiðsluáætlun fyrir Íslenska útivist hf., legið fyrir:

             Rekstraráætlun 2001               tap af rekstri 153.681.000 krónur

             Rekstraráætlun 2002               tap af rekstri 89.832.000 krónur

             Rekstraráætlun 2003               tap af rekstri 61.858.000 krónur

Greiðsluáætlun 2001                            innborgun umfram útborganir 23.934.000 krónur, þ.e. hlutafé frá þyrpingu og Hofi 156.190.000 krónur.

Greiðsluáætlun 2002                            útborganir umfram innborganir 9.181.000 krónur.

             Drög að rekstrarreikningi ársins 2001, dagsettur 31. desember 2001, hafi sýnt tap að fjárhæð 198.201.896 krónur miðað við 225.555.958 króna tap árið 2000.

             Þrátt fyrir framangreindar upplýsingar um rekstur og handveð í hlaupareikningum félagsins í desember 2001 hafi stefndu haldið áfram rekstri þess til júní 2002.  Þó að félagið hafi átt eignir hafi þær að mestu verið veðsettar og ekki aðrar eignir eða handbært fé til staðar til að standa í skilum við lánadrottna.  Stefnandi telur augljóst að í desember 2001 hafi stefndu átt að vera ljóst, að félagið gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar við lánardrottna og að áframhaldandi rekstur myndi aðeins auka tap félagsins og leiða til tjóns fyrir kröfuhafa.  Á þessum tíma hafi fjárhag félagsins verið svo komið, að skylt hafi verið, samkvæmt 64. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991, að gefa það upp til gjaldþrotaskipta, en í þess stað hafi rekstri þess verið haldið áfram í hálft ár.

             Stefnandi telur, að með því að stofna til viðskipta milli Íslenskrar útivistar hf. og stefnanda í apríl og maí við þær aðstæður, sem lýst hafi verið, hafi stefndu, sem stjórnarformaður og framkvæmdastjóri, brugðist skyldum sínum gagnvart stefnanda, svo og gagnvart Íslenskri útivist hf.

             Sú ráðstöfun Íslenskrar útivistar hf., að samþykkja víxla að fjárhæð um 19 milljónir til greiðslu á eldri skuldum stefnanda og með því tryggja sér kaup á nýjum vörum frá honum fyrir rúmar 9,2 milljónir króna varði við skilasvikaákvæði hegningarlaga.  Þessi ráðstöfum hafi falið í sér ívilnun fyrir Spron, því að með henni hafi tryggingarréttindi, sem Spron hafi átt í vörubirgðum Íslenskrar útivistar hf., aukist.  Stefndu hafi hlotið að gera sér grein fyrir, að viðskipti þeirra við stefnanda í apríl og maí árið 2002 hafi verið til þess fallin að valda tjóni.  Stefnandi telur og, að stefndu hafi vísvitandi leynt sig því hvernig hag Íslenskrar útivistar hafi verið komið þegar falast hafi verið eftir áframhaldandi viðskiptum og með því nýtt sér þá staðreynd, að fyrirsvarsmönnum stefnandi hafi ekki verið kunnugt um hina vonlausu stöðu Íslenskrar útivistar hf.  Hafi stefndu þannig brotið gegn 248. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

             Af hálfu stefndu hafi ekki verið neinar raunhæfar ráðagerðir um að endurskipuleggja rekstur félagsins og snúa tapinu við og fara að reka fyrirtækið með hagnaði.  Þegar í október 2001 hafi þeim verið ljóst að greiðslustaðan væri mjög slæm og að ekkert benti til þess að úr myndi rætast.  Þeim hafi mátt vera ljóst, þegar þeir gáfu út víxla fyrir 18 milljónum króna og keyptu af stefnanda fyrir rúmlega níu milljónir króna, nokkrum vikum fyrir gjaldþrot, að engin von hafi verið til þess að félagið losnaði undan gjaldþroti og það gæti því ekki staðið í skilum á gjalddögum.

             Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína á því, að stefndu hafi mátt vera ljóst, er stofnað hafi verið til skuldbindinga í nafni Íslenskrar útivistar hf. við stefnanda í apríl og maí 2002, að engar líkur hafi verið til þess, að unnt væri að halda rekstri áfram og þar með greiða skuldbindingar þess.  Stefndu hafi þannig valdið stefnanda tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti, sem þeir beri persónulega ábyrgð á.

             Bótakröfu sína byggir stefnandi á þeim viðskiptum, sem Íslensk útivist hf. hafi átt við hann í apríl og maí 2002, eftir að félagið hafi gert upp eldri 18 milljón króna skuld með víxlum í því skyni að opna fyrir frekari viðskipti.  Um hafi verið að ræða neðangreind vörukaup, sem myndi fjárhæð skaðabótakröfunnar:

  1.  Reikningur, dags. 18.04.02        nr. 425368                                               kr.                                 1.092.058

   2.   Reikningur dags. 18.04.02                        nr. 425369                              kr.                                    199.174

   3.   Reikningur dags. 02.05.02                        nr. 426820                              kr.                                      79.451

   4.   Reikningur dags. 02.05.02                        nr. 426821                              kr.                                    265.506

   5.   Reikningur dags. 02.05.02                        nr. 426822                              kr.                                    260.970

   6.   Reikningur dags. 02.05.02                        nr. 426823                              kr.                                      55.930

   7.   Reikningur dags. 02.05.02                        nr. 426824                              kr.                                      57.584

   8.   Reikningur dags. 02.05.02                        nr. 426825                              kr.                                    486.397

   9.   Reikningur dags. 02.05.02                        nr. 426826                              kr.                                    166.490

10.    Reikningur dags. 02.05.02                        nr. 426827                              kr.                                    254.444

11.    Reikningur dags. 03.05.02                        nr. 427108                              kr.                                 4.341.275

12.    Reikningur dags. 03.05.02                        nr. 427109                              kr.                                 1.345.859

13.    Reikningur dags. 03.05.02                        nr. 430558                              kr.                                    615.767

14.    Kreditreikningur dags. 28.05.02               nr. 382641                              kr.                                     -17.200 

                                                                                                                              kr.                                 9.203.705

Kreditreikningur samkvæmt tl. 14 hafi verið gefinn út vegna gallaðrar vöru og komi því til lækkunar kröfu stefnanda.

Um lagarök vísar stefnandi til 9. kafla hlutafélagalaga, þar sem fjallað sé um skyldur stjórnarmanna og framkvæmdastjóra.

             Um skaðabótaábyrgð stefndu vísar stefnandi til 134. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, en samkvæmt því ákvæði beri stjórnarmenn persónulega ábyrgð á tjóni, sem þeir valdi félaginu, hluthöfum eða öðrum í störfum sínum, hvort sem er af ásetningi eða gáleysi, sbr. almennu skaðabótaregluna.  Stefndu hafi með störfum sínum sem stjórnendur Íslenskrar útivistar hf. valdið stefnanda fjárhagslegu tjóni, sem þeim beri að bæta samkvæmt áðurnefndri skaðabótareglu.

             Um skyldu til þess að stöðva rekstur félagsins og gefa það upp til gjaldþrotaskipta vísar stefnandi til 64. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991.

             Þá telur stefnandi að stefndu hafi í athöfnun sínum sem stjórnendur Íslenskrar útivistar hf. brotið gegn 248. gr. og 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

             Kröfu um vexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 6. gr. og 8. gr. þeirra laga.

         Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra laga.

IV

             Stefndu byggja sýknukröfu sína á því, að stefnandi hafi átt viðskipti þau, sem séu undirrót krafna í máli þessu, við hlutafélag.  Eftir meginreglum félagaréttar, sbr. og 2. mgr. 1. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995, verði stefnandi því að sæta því, að félagið eitt sé skuldbundið vegna viðskiptanna og hann eigi því ekki kröfu á hendur öðrum, hvorki framkvæmdastjóra, stjórnarmönnum né hluthöfum, þó að hlutafélagið hafi ekki reynst gjaldfært þegar til átti að taka.

Þegar stofnað hafi verið til viðskiptanna hafi stefnanda verið kunnugt um að hann átti þau við hlutafélag, sem eftir ákvæðum hlutafélagalaga, bar takmarkaða ábyrgð.  Byggja stefndu á því meginsjónarmiði, að viðsemjandi hlutafélags, sem ákveði að lána því fjármuni, verði sjálfur að bera áhættuna af því, að félaginu reynist ekki unnt að greiða skuldir sínar vegna gjaldþrots.

Stefnandi reisi skaðabótakröfu sína á því, að stefndu hafi farið fram með saknæmum og ólögmætum hætti gagnvart sér, með því að stofna til skuldbindinga í nafni Íslenskrar útivistar hf. í apríl og maí 2002, þegar þeim hafi ekki getað dulist, að félagið myndi ekki greiða þær skuldbindingar.  Stefnandi byggir á því, að fjárhag Íslenskrar útivistar hf. hafi þá verið svo komið, að skylt hafi verið að gefa bú félagsins upp til gjaldþrotaskipta skv. 64. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991.

Þessum grundvallarmálsástæðum stefnanda mótmæla stefndu sérstaklega. Ekki hafi verið skylt, að lögum, að gefa bú Íslenskrar útivistar hf. upp til gjaldþrotaskipta, hvorki á því tímabili sem hér skiptir máli, þ.e, frá 18. apríl til 5, maí 2002, þegar vörur hafi verið mótteknar frá stefnanda, né fyrr.  Stefndu hafi á greindu tímabili ekki getað gert sér grein fyrir því, að stefnandi myndi ekki fá vörur sínar greiddar.  Þvert á móti hafi þeir verið þess fullvissir, á greindu tímabili, að stefnandi myndi fá vörur sína greiddar.

Bókhaldsskyldum aðila sé skylt, skv. 2. mgr. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta, þegar svo er orðið ástatt fyrir honum sem segir í 1. mgr. 

Á því er byggt, að sú lagaskylda hafi ekki hvílt á stefndu á tímabilinu frá 18. apríl til 3. maí 2002 að gefa bú Íslenskrar útivistar hf. upp til gjaldþrotaskipta. Ekki hafi þá verið uppfyllt síðara skilyrði 1. mgr. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 um "illikvidited" og stefndu, sem forráðamenn Íslenskrar útivistar hf., á þeim tíma, hafi því ekki farið fram með ólögmætum hætti, hvorki með athöfn eða athafnaleysi, gagnvart stefnanda er nýjar vörur hafi verið fengnar til félagsins.

Á þeim tíma sem hér skipti máli hafi staðið sem hæst viðræður við Baug Group hf. um sameiningu Íslenskrar útivistar hf. og Útilífsverslananna, en slík sameining hefði haft umtalsverða hagræðingu í för með sér.  Fyrir hafi legið vilyrði viðskiptabanka Íslenskrar útivistar hf. um að breyta umtalsverðum hluta krafna sinna í hlutafé, og fleiri möguleikar til endurskipulagningar á rekstri Íslenskrar útivistar hf. hafi getað komið til, eins og t.d., að hluthafar legðu til nýtt hlutafé og að samningar tækjust við aðra lánardrottna um að breyta skuldum í hlutafé.  Þá hafi legið fyrir hugmyndir um að hagræða í rekstri félagsins, eins og t.d. með því að minnka það verslunarrými, sem verið hafi í leigu, og jafnframt hafi legið fyrir tölulegar staðreyndir um batnandi rekstrarafkomu.  Þegar virtar séu þær aðgerðir, sem forráðamenn Íslenskrar útivistar hf. hafi gripið til vegna rekstrarvanda félagsins, þær viðræður sem staðið hafi yfir við Baug Group hf. og aðrir möguleikar, sem kynnu að verða félaginu til bjargar, verði ekki séð, að stefndu hafi af ásetningi eða gáleysi orðið þess valdir, að stefnandi hafi ekki fengið síðustu vörusendingar sínar til Íslenskrar útivistar hf. greiddar.

Stefndu hafi unnið að málefnum félagsins að fullum heilindum og trúað því og treyst að greiðsluvandræði þess myndu leysast.  Stefndu hafi því mátt, á tímabilinu 18. apríl til 3. maí 2002, taka við vörum frá stefnanda í nafni Íslenskrar útivistar hf., enda þá alveg nægjanlegar líkur til þess, að þær fengjust greiddar.

Þá telja stefndu rétt að taka fram, að þeir hafi engan persónulegan ávinning haft af móttöku Íslenskrar útivistar hf. á vörum frá stefnanda á greindu tímabili.  Stefndi, Jóhannes, hafi ekki átt hlut í Íslenskri útivist hf. og stefndi, Þorbjörn, einungis átt 0,18% hlut í félaginu.

Við mat á hugsanlegri sök stefndu, þegar virt sé skaðabótaábyrgð í máli þessu, verði að leggja strangt sakarmat til grundvallar.  Ekki sé rétt að líta til raunverulegrar niðurstöðu með rekstur Íslenskrar útivistar hf. heldur beri að líta til aðstöðunnar á þeim tíma er vörusendingar frá stefnanda hafi verið mótteknar.  Líta verður til þess, sem ætla hafi mátt, að góður og gegn forráðamaður félags í sömu stöðu myndi gera á því tímamarki.  Við það mat verði að hafa að leiðarljósi, að forráðamönnum félaga sé ætlað að hafa val um framvindu viðskipta félagsins og þeim sé alls ekki ætlað að leggja árar í bát þótt á móti blási.  Í þessu efni verði að ætla mönnum nokkurt svigrúm og leggja verði almennan mælikvarða viðskipta til grundvallar.  Forráðamenn félaga verði ekki látnir sæta skaðabótaábyrgð fyrir rangar ákvarðanir, sem teknar hafi verið í hita leiksins, eða rangt mat á framtíðarhorfunum.  Barátta forráðamanna Íslenskrar útivistar hf., til að afstýra gjaldþroti hafi því verið lögmæt.

Stefndu byggja ennfremur á þeirri málsástæðu, að þeir hefðu mátt treysta því, þegar vörukaup þau áttu sér stað, sem mál þetta snýst um, að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis myndi áfram styðja við rekstur félagsins, eins og verið hafði fram að þeim tíma, og eftir atvikum yfirtaka reksturinn með einhverjum hætti og greiða skuldir við birgja, enda langstærsti kröfuhafi félagsins.  Vilyrði sparisjóðsins um að breyta hluta skuldanna í hlutafé, ef sameining við Útilíf hefði orðið að veruleika, renni stoðum undir þá málsástæðu.

Þá byggja stefndu á því, að stefnanda hafi verið kunnugt um greiðsluerfiðleika Íslenskrar útivistar hf. hinn 18. apríl 2002 og því afhent vörur á eigin áhættu.  Þessir

greiðsluerfiðleikar hafi komið til tals á fundi aðila 18. apríl þegar samið hafi verið um uppgjör eldri skulda með samþykkt víxla.  Íslensk útivist hf. hafi áður ennfremur gert samning við stefnanda á svipuðum nótum.

Gera verði þá kröfu til aðila í viðskiptum, sem hyggjast selja vörur með lánakjörum, að hann hafi sjálfur frumkvæði að því að kanna greiðslugetu skuldara, eftir atvikum með því að kynna sér efnahag og rekstur viðsemjandans og þinglýstar heimildir eða krefjast trygginga.  Hinn 18. apríl 2002 hafi stefnandi getað kallað eftir upplýsingum um efnahag Íslenskrar útivistar hf., en þá hafi flest allar eigur félagsins verið veðsettar með þinglýstum gerningum.  Stefnanda hafi verið í lófa lagið að kynna sér þessi gögn, áður en hann afhenti Íslenskri útivist hf. vörurnar.  Stefnandi verði því sjálfur að bera tjón sitt vegna óaðgæslu sinnar.

Stefndu byggja ennfremur á þeirri málsástæðu, að þegar hluthafar Íslenskrar útivistar hf., aðrir en Þyrping hf., hafi selt Guðmundi Ágústi Péturssyni, stórkaupmanni, allt hlutafé sitt í félaginu, hafi ekki verið skylt að gefa bú þess upp til gjaldþrotaskipta, eftir reglu l. mgr., sbr. 2. mgr. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o. fl. nr. 21/1991, enda hafi stjórnarmenn þá mátt láta reyna á, hvort hugmyndir Guðmundar til lausnar á fjárhagsvanda félagsins myndu ganga eftir.  Á því er ennfremur byggt, að hið sama hafi átt við hinn 26. júní 2002, þegar stefndi Jóhannes hafi sagt sig úr stjórn félagsins í kjölfar þess, að Þyrping hf. hafði eignast allt hlutafé þess.  Stefndu telja, að allt fram til þess, er Þyrping hf. hafi ákveðið að óska eftir gjaldþrotaskiptum á búi Íslenskrar útivistar hf., hinn 8. júlí 2002, hefði mátt forða félaginu frá gjaldþroti og þar með hefði stefnandi fengið greitt fyrir vörur þær, sem hann afhenti á tímabilinu frá 18. apríl til 3. maí s.á.  Stefndu hafi hins vegar engu getað um það ráðið, hvaða stefnu málefni félagsins tóku, eftir að Þyrping hf. eignaðist allt hlutafé þess.  Þeir geti því ekki borið ábyrgð á meintu tjóni stefnanda, sem leitt hafi af þeirri ákvörðun Þyrpingar hf. að stöðva reksturinn.

Þegar niðurstaða gjaldþrotaskipta Íslenskrar útivistar hf. sé virt, telja stefndu, að áframhaldandi rekstur félagsins hafi verið vel mögulegur hinn 8. júlí 2002.  Hafa beri í huga, að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hafi haft forgöngu um, að veðsettar eignir væru seldar sérstöku nýju rekstrarfélagi, á verði, sem aðeins hafi dugað til þess að fullnægja sjóðnum, sem veðhafa, en auk þess hafi hinu nýja rekstrarfélagi verið afhent aðstaða öll í Kringlunni til áframhaldandi verslunarreksturs, án þess að endurgjald hafi komið fyrir, sem nokkru næmi.  Að mati stefndu, hafi með þessum aðgerðum veruleg verðmæti horfið úr þrotabúinu, sem að réttu lagi hefðu a.m.k. dugað til að greiða allar kröfur stefnanda.

Á reikningum stefnanda sé tilgreint neðanmáls, að vörurnar séu eign stefnanda þar til þær séu að fullu greiddar.  Stefndu færi því fram þá málsástæðu, að þeir hafi verið í góðri trú um eignarréttindi stefnanda og það sé ekki við þá að sakast þó að stefnandi hafi ekki hirt um að tryggja þessi eignarréttindi sín nánar, og ekki verði séð, að stefnandi hafi lýst kröfu í þrotabú Íslenskrar útivistar hf. sem sértökukröfu á grundvelli þessara meintu eignarréttinda, en við gjaldþrotið hafi aðeins verið seldar vörur fyrir 1.793.562 krónur af heildarinnkaupunum frá 18. apríl til 3. maí 2002.

Varakröfu sína um lækkun dómkröfu byggja stefndu á því, að með því að afhenda Íslenskri útivist hf. vörur í reikning frá 18. apríl til 3. maí, hafi stefnandi sjálfur sýnt óaðgæslu, sem meta verði til eigin sakar.  Hann verði því sjálfur að bera meginhluta tjóns síns.  Gera verði þá kröfu til stefnanda, sem sé eitt stærsta heildsölufyrirtæki landsins og skráð í Kauphöll Íslands hf., að vanda til allra lánveitinga.  Stefnanda hafi því borið að kynna sér efnahag viðsemjandans og kynna sér þinglýsingarbækur um lausafjárveð, og hann hafi eftir atvikum getað krafist sérstakra trygginga fyrir greiðslu.  Stefnukröfu ber að lækka með vísun til reikningsyfirlits stefnanda á dómskjali nr. 43, en þar komi fram, að reikningsskuld Íslenskrar útivistar hf. við stefnanda hafi verið 8.259.245 krónur við gjaldþrot.

Loks vísa stefndu til almennrar lækkunarheimildar í 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og lækkunarheimildar í 3. mgr. 134. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995.  Við beitingu lækkunarheimilda beri að hafa í huga, að stefndu hafi sjálfir engan fjárhagslegan ávinning haft af móttöku Íslenskrar útivistar hf. á vörum frá stefnanda og álagningar stefnanda.

Um lagarök vísa stefndu vísa til almennra reglna félagaréttar, laga um hlutafélög nr. 2/1995, laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og skaðabótalaga nr. 50/1993.

Kröfu um málskostnað byggja stefndu til XXI. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

V

Mál þetta er rekið sem skaðabótamál á hendur stefndu, sem stjórnarformanni og framkvæmdastjóra Íslenskrar útivistar hf. á þeim grundvelli, að þeir hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi, sem leitt hafi til tjóns fyrir stefnanda.  Hafi stefndu valdið stefnanda tjóni með því að fá afgreiddar vörur 18. apríl 2002, er þeim hafi átt að vera ljóst að félagið gat ekki staðið við skuldbindingar sínar við lánardrottna, en fjárhag félagsins hafi verið þannig komið, að skylt hafi verið að gefa það upp til gjaldþrotaskipta, samkvæmt 64. gr. laga nr. 21/1991. 

Stefndu hafa mótmælt bótaskyldu.  Byggja þeir á því, að viðskiptin hafi verið við hlutafélag, eins og stefnanda hafi verið kunnugt, og verði stefnandi því sjálfur að bera áhættuna af því, að félaginu reynist ekki unnt að greiða skuldir sínar vegna gjaldþrots.

             Þá byggja stefndu á því, að á umræddum tíma hafi ekki verið skylt, samkvæmt 2. mgr. sbr. 1. mgr. 64. gr. gjaldþrotalaga, að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta.  Stefndu hafi á greindu tímamarki verið þess fullvissir að stefnandi fengi vörur sínar greiddar.  Forráðamenn hafi á umræddum tíma gripið til ýmissa aðgerða til að leysa greiðsluvanda félagsins og bjarga því frá gjaldþroti.  Hafi þeir meðal annars átt í viðræðum við Baug Group um sameiningu Íslenskrar útivistar hf. og verslunarinnar Útilífs. 

             Einnig byggja stefndu á því, að á umræddum tíma hafi þeir mátt treysta því, að Spron myndi styðja við rekstur félagsins, eins og verið hafði.

Af því sem að framan hefur verið rakið má ljóst vera, að fjárhagsstaða Íslenskrar útivistar var á umræddum tíma mjög slæm og hafði verið lengi.  Var fjárhag félagsins svo komið, að stjórn þess hafði lengi verið ljóst, eða a.m.k. frá því í október 2001, að rekstri Nanoq yrði ekki haldið áfram að óbreyttu.  Er umrædd viðskipti urðu höfðu viðræður staðið í nokkurn tíma um sameiningu verslunarinnar Útilífs og Nanoq, en ekkert lá þá fyrir um hvort af þeim samruna yrði og ýmislegt þar óljóst, m.a. vegna skulda Íslenskrar útivistar hf.  Forsvarsmönnum Íslenskrar útivistar hf. var og ljós hin mjög svo bága fjárhagsstaða félagsins, en ársreikningar þess fyrir árið 2001 lágu fyrir í mars-apríl árið 2002.  Þá liggur og fyrir að frá áramótum 2001/2002 og fram til vors jukust erfiðleikar félagsins, sem stjórnendum félagsins var kunnugt um. 

Af gögnum málsins var fjárhagsstaða félagsins með þeim hætti, er umrædd viðskipti áttu sér stað, að forráðamönnum félagsins var löngu orðið skylt að gefa bú félagsins upp til gjaldþrotaskipta, og þreifingar um sameiningu félagsins við önnur félög breyttu þar engu um.  Þá liggur og fyrir, að allar eignir félagsins, sem og bankareikningar þess voru veðsettar Spron og hafði Spron veitt Íslenskri útivist yfirdráttarheimild á reikning félagsins í sex mánuði frá áramótum 2001/2002, til þess að halda rekstri áfram.  Félagið var því í raun svipt öllum ráðstöfunarrétti yfir fjármunum félagsins.  Með þessari veðsetningu urðu því vörur þær sem stefnandi seldi Íslenskri útivist þar með veðsettar Spron frá því að þær komu inn í verslunina.  Við þessar aðstæður mátti þeim vera ljóst að vörur þessar yrðu aldrei greiddar af félaginu og var því um sviksamlegt atferli stefndu að ræða að gera umdeildan samning við stefnanda og leyna hann fjárhagsstöðu félagsins.  Með þessari framgöngu sinni bökuðu stefndu sér skaðabótaábyrgð á tjóni því sem þeir ollu stefnanda.  Þegar af þeirri ástæðu að um sviksamlegt athæfi stefndu var að ræða kemur varakrafa stefnanda ekki til álita.  Ber því að taka til greina dómkröfu stefnanda, um að stefndu greiði stefnanda andvirði vörukaupanna, en ekki er ágreiningur um upphafsdag vaxta.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.

             Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

             Stefndu, Jóhannes Rúnar Jóhannesson og Þorbjörn Stefánsson, greiði in solidum stefnanda, Austurbakka hf., 9.203.705 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 3. júní 2002 til 13. mars 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

             Stefndu greiði in solidum stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.