Hæstiréttur íslands

Mál nr. 255/2008


Lykilorð

  • Hjón
  • Fjárskipti
  • Lífeyrisréttindi


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. janúar 2009.

Nr. 255/2008.

M

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

K

(Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.)

og gagnsök

Hjón. Fjárskipti. Lífeyrisréttindi.

M krafðist þess að lífeyrisréttindum hans yrði haldið utan skipta við fjárslit milli hans og K vegna hjónaskilnaðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. K krafðist á hinn bóginn fjárgreiðslu úr hendi M, enda væri ósanngjarnt að þessum réttindum væri haldið utan skipta, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Fyrir Hæstarétti andmælti M því sérstaklega að K gæti á grundvelli þessa lagaákvæðis dregið undir skiptin séreignarréttindi hans í lífeyrissjóðum. Hæstiréttur leit til þess að dómkrafa K í stefnu til héraðsdóms hafði verið byggð á útreikningi á verðmæti lífeyrisréttinda málsaðila sem þau höfðu sameiginlega látið gera. Í þeim útreikningi voru séreignarréttindi M reiknuð með. Hann hafði því haft tilefni til að koma með varnir sem að þessu lutu í greinargerð sinni í héraði. Það hafði hann ekki gert og var heldur ekki séð af gögnum málsins að þær hefðu komið fram síðar við meðferð málsins í héraði. Skilyrðum 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var ekki talið fullnægt og komu þessar varnir því ekki til álita fyrir Hæstarétti. Taldi Hæstiréttur að þegar litið væri á tímalengd samanlagðs sambúðartíma aðila, verkaskiptingu þeirra á milli þann tíma, aðrar aðstæður og mismunar á verðmæti lífeyrisréttinda þeirra við lok hjúskaparins, yrði að fallast á það með héraðsdómi að ósanngjarnt teldist í skilningi 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga að halda lífeyrisréttindum aðila utan skipta. Var talið að fjárgreiðsla til K ætti að miðast við helmingstilkall hennar til mismunar á útreiknuðu verðmæti lífeyrisréttinda málsaðila. Þegar haft var í huga að K yrði talinn njóta skattfrelsis af greiðslu M og að hún nyti hagræðis af því að fá eingreiðslu vegna lífeyrisréttindanna var niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð kröfu og upphafstíma dráttarvaxta staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 5. mars 2008, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 16. apríl 2008. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 7. maí 2008. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu gagnáfrýjanda og að málskostnaður verði felldur niður.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 11. júní 2008. Hún krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 10.831.527 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. mars 2006 til greiðsludags. Til vara krefst hún staðfestingar héraðsdóms. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í VIII. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993 er að finna ákvæði um eignir hjóna. Þar er í 57. gr. undir fyrirsögninni „persónubundin réttindi“ kveðið svo á að reglur um hjúskapareignir eigi við um réttindi sem eigi megi afhenda eða séu að öðru leyti persónulegs eðlis, að svo miklu leyti sem þær komi ekki í bága við sérreglur þær sem um þau réttindi gildi. Samkvæmt 54. gr. laganna verður eign maka hjúskapareign nema sérstakar heimildir standi til annars. Er tekið fram að þetta eigi meðal annars við um eignir sem maki flytur í búið við hjúskaparstofnun. Samkvæmt þessum reglum teljast lífeyrisréttindi hjóna til hjúskapareigna, þar með talið þau lífeyrisréttindi sem viðkomandi hefur aflað sér áður en til hjúskapar var stofnað. Samkvæmt þessu verður fallist á það með héraðsdómi að við úrlausn á ágreiningi málsaðila verði litið til áunninna lífeyrisréttinda þeirra allt frá júlí 1975 til loka maí 2005 en þau eru sammála um að miða fjárskipti sín við síðarnefnda tímamarkið. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður einnig fallist á að krafa gagnáfrýjanda geti einungis tekið til ellilífeyris en ekki annarra lífeyrisréttinda.

Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga getur maki krafist þess að ekki skuli falla undir fjárskipti milli hjóna „réttindi í opinberum lífeyrissjóðum eða einkalífeyrissjóðum, svo og krafa til lífeyris eða líftryggingarfjár sem hefur ekki endurkaupsvirði ...“. Við gerð skilnaðarsamnings milli málsaðila 6. júní 2006 hafði gagnáfrýjandi gert kröfu um að lífeyrisréttindi aðila yrðu tekin til skipta. Aðaláfrýjandi hafði á hinn bóginn krafist þess að þeim yrði haldið utan skipta. Í samninginn var í tilefni af þessu sett svofellt ákvæði: „Ágreiningur er um rétt konu til hlutdeildar í lífeyrisréttindum mannsins og mun verða rekið um það sérstakt mál fyrir dómstólum.“ Í framhaldi af gerð samningsins höfðaði gagnáfrýjandi mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Hún byggir kröfu sína á ákvæði sem er að finna í síðari málslið 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga svohljóðandi: „Nú þykir ósanngjarnt gagnvart hinum makanum að verðmætum eða réttindum skv. 2. ... tölul. sé haldið utan skipta og er þá heimilt að bæta honum það með fjárgreiðslum ...“.

Aðaláfrýjandi hefur fyrir Hæstarétti sérstaklega andmælt því að gagnáfrýjandi geti á grundvelli framangreindra lagaákvæða dregið undir skiptin séreignarréttindi hans í lífeyrissjóðum, en í fyrirliggjandi útreikningum á mismun lífeyrisréttinda aðila eru slík réttindi reiknuð með. Dómkrafa gagnáfrýjanda í stefnu til héraðsdóms var byggð á útreikningi á verðmæti lífeyrisréttinda málsaðila sem þau höfðu sameiginlega látið gera. Í þessum útreikningi voru séreignarréttindi aðaláfrýjanda reiknuð með. Hann hafði því tilefni til að koma með varnir sem að þessu lutu í greinargerð sinni í héraði. Það gerði hann ekki og verður heldur ekki séð af gögnum málsins að þær hafi komið síðar fram við meðferð málsins í héraði. Skilyrðum 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er ekki fullnægt og koma þessar varnir því ekki til álita fyrir Hæstarétti.

Þegar litið er á tímalengd samanlagðs sambúðartíma aðila, verkaskiptingu þeirra á milli þann tíma, aðrar aðstæður sem lýst er í forsendum hins áfrýjaða dóms og mismunar á verðmæti lífeyrisréttinda þeirra við lok hjúskaparins, verður fallist á með héraðsdómi að ósanngjarnt teljist í skilningi nefnds ákvæðis 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga að halda lífeyrisréttindum aðila utan skipta. Eins og orðalagi framangreindra lagaákvæða er háttað verður talið að fjárgreiðsla til gagnáfrýjanda samkvæmt 2. mgr. 102. gr. eigi að miðast við helmingstilkall hennar til mismunar á útreiknuðu verðmæti lífeyrisréttinda málsaðila. Þegar haft er í huga að gagnáfrýjandi verður talinn njóta skattfrelsis af greiðslu aðaláfrýjanda samkvæmt 2. tl. 28. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og að hún nýtur hagræðis af því að fá nú eingreiðslu vegna lífeyrisréttindanna þykir mega staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um fjárhæð kröfu gagnáfrýjanda og upphafstíma dráttarvaxta.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gangáfrýjanda málskostnað sem ákveðst í einu lagi í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, M, greiði gagnáfrýjanda, K, 4.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. desember 2007 til greiðsludags og samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2007.

I

Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 29. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af , með stefnu birtri , á hendur

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 10.831.527 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. marz 2006 til greiðsludags.  Til vara krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða aðra lægri fjárhæð að mati dómsins, með dráttarvöxtum frá 15. marz 2006 til greiðsludags.  Þá er krafizt málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda.  Til vara krefst hann verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda.  Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda sér að skaðlausu, ásamt virðisaukaskatti, samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.

II

Málavextir

Stefnandi og stefndi kynntust árið 1972 en hófu sambúð árið 1976.  Aðilar giftu sig 4. ágúst 1984 og eiga saman þrjú börn fædd 1984, 1989 og 1991.  Málsaðilar slitu samvistum í byrjun júní 2005 og flutti þá stefndi út af heimili þeirra.  Var gengið frá skilnaðarsamningi hinn 6. júní 2006, þar sem gengið er endanlega frá eignaskiptum, að undanskildum ágreiningi aðila um kröfu stefnanda til hlutdeildar í lífeyrisréttindum mannsins.

Stefnandi er með BS próf í landafræði og próf í uppeldis- og kennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands með kennsluréttindi í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla.  Einnig er hún með Dipl. Ed. gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum í stærðfræði frá sama skóla.  Þá stundaði stefnandi nám í tölvunarfræðum í eitt ár í Svíþjóð.

Stefndi er með embættispróf í læknisfræði frá Háskóla Íslands og sérfræðinám í heimilislækningum frá Svíþjóð.

Meðan á hjúskap aðila stóð var stefnandi að mestu heimavinnandi á meðan börnin voru ung, en stefndi var í fullri vinnu, eftir að námi hans lauk.  Liggur ekki annað fyrir en að fullt samkomulag hafi verið með aðilum um þá verkaskiptingu. 

Aðilar bjuggu í Svíþjóð frá 1983 til 1987, þar sem stefndi stundaði framhaldsnám sitt.  Eftir heimkomuna bauðst stefnda staða sem heilsugæslulæknir á [...], svokölluð HÍ-staða, þar sem aðeins einn læknir þjónar læknishéraði, og fluttu aðilar þangað, þar sem þau bjuggu í 10 ár.  Á þeim tíma fæddust tvö yngri börn aðila. 

Árið 1997 fluttust aðilar til Reykjavíkur, þar sem stefndi fékk vinnu sem heilsugæzlulæknir.  Fyrstu tvö árin var stefnandi heimavinnandi, en fór að starfa við kennslu við [...]skóla í Kópavogi árið 1999, þar sem hún hefur starfað síðan. 

Á sambúðartíma aðila fyrir hjónaband var stefnandi útivinnandi allt til ársins 1983, að aðilar fluttu til Svíþjóðar, en stefndi var í námi á þeim tíma.  Eftir að aðilar gengu í hjónaband vann stefnandi stopult, og þá yfirleitt hlutastarf, en stefndi vann fulla vinnu og voru tekjur hans allmiklu hærri en tekjur stefnanda.  Ávann hann sér þannig einnig mun hærri lífeyrisréttindi en stefnandi, og snýst ágreiningur aðila í máli þessu um hlutdeild stefnanda í þeim réttindum.

Lögmenn beggja málsaðila leituðu til Vigfúsar Ásgeirssonar tryggingastærðfræðings hjá Talnakönnun hf. í desember 2005 og fóru þess að leit, að fundið yrði núvirði lífeyrisréttinda málsaðila.  Niðurstaða þeirrar skoðunar var sú, að stefndi hefði í störfum sínum á hjúskapar- og sambúðartíma aðilanna, aflað sér verulegra lífeyrisréttinda í eftirlaunasjóðum. Greiðslur stefnda með mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóði hafa myndað fyrir hann inneign, sem svarar til kr. 28.659.814, en réttindi stefnanda svara til kr. 6.996.760.  Nemur mismunurinn kr. 21.663.054.  Sé eingöngu miðað við ellilífeyrisréttindi svarar inneign stefnda til kr. 23.262.945, en inneign stefnanda til kr. 6.268.196.

Með bréfi, dagsettu 15. febrúar 2006, sem voru drög að skilnaðarsamningi, setti stefnandi fram fjárkröfu varðandi lífeyrisréttindi, að fjárhæð kr. 10.831.500., sem byggði á helmingaskiptingu þess mismunar sem var á heildarlífeyrisréttindunum aðila samkvæmt útreikningi Vigfúsar Ásgeirssonar.  Var þeirri kröfu hafnað.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að hún eigi rétt til fjárgreiðslu að fjárhæð kr. 10.831.527, sem sé helmingur af verðmæti áunninnar lífeyrisinneignar stefnda, að frádregnum helmingi af áunnum lífeyrisréttindum stefnanda, eins og verðmætið var á viðmiðunardegi skipta, sbr. 104. gr. laga nr. 20/1991.  Lífeyrisréttindi stefnanda séu kr. 6.996.760, en stefnda kr. 28.659.810.  Mismunurinn nemi kr. 21.663.050, og helmingur þess sé kr. 10.831.525, sem sé stefnukrafa málsins.  Stefnandi byggir á því, að um verulega eign sé að ræða og telja verði ósanngjarnt að þessari inneign verði haldið utan skipta við skilnað málsaðilanna.  Um fjárhæð kröfunnar vísar stefnandi til útreiknings Vigfúsar Árnasonar tryggingafræðings á dskj. nr. 3, en aðilar hafi verið sammála um að óska eftir því við hann, að hann reiknaði út núvirði áunninna lífeyrisréttinda miðað við 16. september 2005, þegar krafa um skilnað að borði og sæng var fyrst tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík.

Stefnandi byggir kröfu sína á 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, þar sem hún telji ósanngjarnt af hálfu stefnda að halda áunnum lífeyrisréttindum sínum utan skipta, enda séu aðstæður málsaðila eftir fjárskiptin þá mjög ólíkar og halli þar verulega á stefnanda.

Stefnandi byggir á því, að hún hafi í gegnum tíðina haft verulega takmarkaðri möguleika en stefndi til að afla sér lífeyrisréttinda, ekki sízt vegna þess að starfsval stefnda, sem m.a. hafi tengzt búsetu fjölskyldunnar, hafi takmarkað starfsmöguleika stefnanda. Þá byggir stefnandi á því, að aðilar hafi haft þá verkaskiptingu á sambúðar- og hjúskapartímanum, að stefnandi væri að mestu heimavinnandi og sinnti börnum og störfum á heimili, til þess að stefndi gæti stundað nám sitt og vinnu ótruflaður.  Nám og vinna stefnda hafi ávallt haft forgang á heimili málsaðila.  Þannig telji stefnandi, að hún hafi lagt sitt af mörkum til þess að stefndi gæti sinnt vinnu sinni af þeirri kostgæfni, sem nauðsynleg var, og þar með áunnið sér hin miklu lífeyrisréttindi.

Stefnandi byggir á því, að það sé réttlætis- og sanngirnismál við skilnað aðilanna, að krafa hennar nái fram að ganga.  Aðilar málsins hafi báðir lagt sitt af mörkum til eignamyndunarinnar með framangreindri verkaskiptingu í hjúskapnum.  Framlag stefnanda til þeirrar eignamyndunar, sem sé fyrir hendi í lífeyrissjóðum stefnda, hafi verið óbeint, því án vinnuframlags og ábyrgðar stefnanda á heimilinu og börnunum hefði stefnda ekki verið unnt að gegna þeim stöðum, sem hann hafi verið í, sem hafi skapað honum hinn áunna lífeyrisrétt.  Stefnandi telji ósanngjarnt, ef tekjumyndunin ein ætti að ráða úrslitum í þessu sambandi, með þeim afleiðingum, að lífsafkoma stefnda, þegar ellilífeyrisaldri verði náð, verði margfalt betri en stefnanda.  Stefnandi sé tekjulág og eigi aðeins eftir um 10 ár á vinnumarkaði, en horfa verði til þess, að sambúð og hjúskapur málsaðila hafi staðið lengstan hluta starfsævi beggja.

Stefnandi byggir á því, að framkvæmdavenja sé orðin fyrir því, að hjón skipti áunnum lífeyrisréttindum við skilnað, og hafi lífeyrissjóðir brugðizt við því með því að útbúa sérstakt eyðublað um skiptingu ellilífeyrisréttinda í samræmi við 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. eyðublað á dskj. nr. 4.  Þar sé sérstaklega gert ráð fyrir því, að aðilar geti skipt þeim réttindum, sem áunnizt hafi, meðan hjúskapur eða sambúð varði.  Sú staðreynd, að lífeyrissjóðirnir hafi nú sérstakt eyðublað, sé tilkomin vegna þess að litið sé á lífeyrisinneignir sem hverja aðra eign, sem myndazt hafi í hjúskap, og henni sé unnt að skipta til helminga eins og öðrum eignum.  Stefnandi byggir á því, að lífeyrissjóðir hafi með þessu fallizt á, að sanngjarnt sé að skipta lífeyrissjóðsinneignum með sama hætti og öðrum eignum við hjúskaparslit.  Þá byggir stefnandi á því, að Hæstiréttur hafi staðfest það í dómum, í máli nr. 253/2001 og máli nr. 170/2002, að maki eigi rétt til skiptingar áunninna lífeyrisréttinda.

Stefnandi sé starfandi kennari, en stefndi starfi sem læknir.  Stefnandi byggir á því, að það sé staðreynd, að augljós munur sé á aflahæfi og tekjum stefnanda og stefnda.  Stefndi hafi haft atvinnutekjur, sem hafi verið langt umfram meðallaun í landinu og muni því njóta ríkulegra eftirlaunagreiðslna, þegar komi að töku þeirra.  Verulegur munur sé á launagreiðslum og lífeyrisréttindum aðila, en stefndi sé í öruggu starfi með háar tekjur og veruleg lífeyrisréttindi.  Í ljósi mismunar á launagreiðslum aðila og aldurs sé ljóst, að lífsbarátta stefnanda sé og verði mun harðari en stefnda.  Tekjur stefnda séu verulegar og hann því á allan hátt mun betur í stakk búinn til að takast á við lífið eftir skilnað.  Ósanngjarnt væri annað en að viðurkenna hlutdeild stefnanda í lífeyrisréttindum stefnda, sem stefnandi hafi átti hlutdeild í að afla með störfum á heimilinu og við uppeldi barnanna.  Einnig beri að líta til þess, að sambúðin hafi staðið í um það bil þrjátíu ár, sem sé meira en helmingur af starfsævi aðila.

Þá byggir stefnandi á því, að hefðu starfsmöguleikar stefnda ekki haft forgang á hjúskapartíma aðila, þá hefði stefnandi hugsanlega getað lokið námi sínu í tölvunarfræðum og starfað sem slíkur, með verulega hærri laun en hún geti aflað í dag sem kennari.  Stefnandi hafi fórnað þeim starfsmöguleika, þar sem verkaskipting aðila hafi verið sú, að nám og vinna stefnda skyldi hafa forgang.  Stefnandi telji lágmark nú við skilnað aðilanna, að hún njóti þeirra lífeyrisréttinda, sem áunnizt hafi á hjúskapartímanum, til jafns við stefnda.

Stefnandi telji öll lagaskilyrði fyrir hendi til að beita heimildarákvæði 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga og ákvarða henni fjárgreiðslu, sem nemi helmingi af verðmæti lífeyris­inneignar stefnda, að frádregnum helmingi af lífeyrisinneign hans, í þeim tilgangi að jafna þann aðstöðumun, sem stefnandi muni annars búa við í reynd eftir hjúskap við stefnda.

Stefnandi byggir á því, að þau hjúskaparlög, sem í gildi séu, byggi öll á þeirri meginreglu, að hjón skuli standa jafnfætis hvort öðru í hjúskapnum.  Í 2. gr. hjúskapar­laga nr. 31/1993 segi, að hjón séu í hvívetna jafn rétthá í hjúskap og beri jafnar skyldur hvort gagnvart öðru og börnum sínum.  Þetta sjónarmið um að jafnstaða skuli ríkja með hjónum sé ríkjandi sjónarmið í hjúskaparlögunum.  Stefnandi telji óeðlilegt, að önnur sjónarmið ríki um áunnin lífeyrisréttindi hjóna.  Það sé réttlætismál, að krafa stefnanda nái fram að ganga, þar sem aðilar hafi báðir lagt fram framlög til eignarmyndunar heimilisins með verkaskiptingu, sem hafi falizt í því, að stefnandi hafi séð um vinnu innan veggja heimilisins, á meðan stefndi hafi verið útivinnandi allan þann tíma, sem á hjúskapnum stóð.

Stefnandi styður kröfu sína við útreikning Talnakönnunnar hf. frá 23. desember 2005, en samkvæmt honum sé höfuðstólsverðmæti inneignar stefnda í eftirlaunasjóðum kr. 28.659.814, en stefnanda kr. 6.996.760, en þær tölur séu núvirtar til 16. september 2005, sem sé sá dagur, þegar skilnaðarkrafan var fyrst tekin fyrir.  Inneignin hafi öll orðið til á hjúskapartíma aðilanna, og sé ekki tekið tillit til lífeyrisréttinda, sem aðilar hafi áunnið sér í hjúskap.  Því sé ljóst, að munurinn sé mun meiri. 

Stefnandi byggir á því, að þáttur hennar í myndun lífeyrisréttinda stefnda sé verulegur, í ljósi þess, að hún hafi alfarið séð um rekstur sameiginlegs heimilis og uppeldis barnanna.  Því beri að miða við þessa upphæð við úrlausn málsins.

Krafa stefnanda byggir á því, að það sé ósanngjarnt að halda lífeyrisréttindum stefnda utan skipta og vísar um það til 2. mgr. 102. gr. hjúskapalaga nr. 31/1993, sbr. og túlkun ákvæðisins í dómum Hæstaréttar frá 18. desember 2001 í máli réttarins nr. 253/2001 og frá 26. apríl 2002 í máli réttarins nr. 170/2002.  Þá vísar stefnandi til ákvæða 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.  Um varnarþing er vísað til 37. gr. laganna og um sönnunargögn til 42. gr. laga 76/2003.  Krafa um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr.

Málsástæður stefnda

Öll lífeyrisréttindi eða ellilífeyrisréttindi.

Stefndi mótmælir stefnufjárhæð stefnanda og kveðst telja hana ranga.  Stefnandi byggi stefnukröfu sína ranglega á kr. 28.659.810, sem nái yfir öll lífeyrisverðmæti stefnda, þ.m.t. verðmæti líftryggingar, örorkutryggingar, barnalífeyris og makalífeyris.  Allt séu þetta tryggingarverðmæti, sem ekki komi til skipta við hjónaskilnað.

Stefndi kveðst krefjast þess, að stefnandi haldi sig við ellilífeyrisréttindin eingöngu.  Um þau snúist þessi deila, enda sé þeirra einvörðungu getið í 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.  Stefnandi gefi sér því rangar forsendur.  Til að mynda kæmi verðmæti líftryggingar aldrei til skipta milli hjóna, þótt og ef stefndi hefði keypt sér slíka tryggingu.

Af þessum sökum sé þess krafizt, að stefnandi haldi sig eingöngu við ellilífeyrisréttindin, eins og þau séu uppsett í töflu Talnakönnunar hf., dags. 07.09.2006, þannig að deila málsaðila varði aðeins ellilífeyrisréttindi stefnda, að fjárhæð kr. 23.678.951 og ellilífeyrisréttindi stefnanda að fjárhæð kr. 11.387.549.

Lífeyrisréttindi frá giftingu 1984.

Stefndi vísar til dskj. nr. 3, þar sem fram komi í bréfi Vigfúsar Ásgeirssonar, að stefnandi telji sig eiga réttindi, sem nemi 28 milljónum og 660 þúsund krónum.  Þessu sé mótmælt sem röngu, þar sem öll lífeyrisréttindi stefnda séu notuð til að byggja upp kröfugerð stefnanda.  Stefnanda hafi eingöngu getað verið heimilt að byggja kröfu sína á verðmæti ellilífeyrisréttinda, sem séu 23 milljónir og 263 þúsund krónur.  Stefnandi haldi því fram, að hún eigi sem svari 6 milljónum og 997 þúsundum vegna lífeyrisréttinda samkvæmt sömu gögnum, sem aftur leiði til þess að mismunur þessara réttinda sé 21 milljón og 663 þúsund krónur.  Helmingur þeirrar fjárhæðar sé 10 milljónir og 832 þúsund.

Stefnukröfu þessari sé mótmælt sem bæði of hárri og rangri.  Stefnandi geti ekki byggt kröfugerð sína á verðmæti allra lífeyrisréttinda sinna og stefnda, eins og áður sé getið, og sé þess krafizt, að stefnandi haldi kröfugerð sinni einvörðungu við ellilífeyrisréttindin.

Lífeyrisréttindi frá sambúðartíma 1975.

Stefndi byggir á því, að miða eigi við upphaf sambúðar, sem var í júlí 1975.  Samkvæmt útreikningum Vigfúsar Ásgeirssonar á vegum Talnakönnunar hf., dags. 7. sept. 2006, á núvirði lífeyrisréttinda málsaðila, miðað við 16. sept. 2005, fyrir tímabilið 1. júlí 1975 til 31. maí 2005, séu ellilífeyrisréttindi stefnda 23 milljónir og 679 þúsund krónur, en stefnanda 11 milljónir og 388 þúsund krónur.  Mismunur þessara réttinda sé 12 milljónir og 291 þúsund krónur.  Helmingur þessarar fjárhæðar sé 6 milljónir og 145 þúsund krónur.  Stefnukrafan sé því alltof há og sé henni mótmælt sem rangri.  Vísist um þetta til 14. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, en þar segi m.a., að makar geti samið sín á milli um ellilífeyrisréttindi og nái samkomulag aðeins til ellilífeyrisgreiðslna og verðmætis ellilífeyrisréttinda beggja aðila.  Deila málsaðila hér geti því aldrei snúizt um annað en hlutdeild í ellilífeyrisréttindum.

Lífeyrisréttindi stefnanda eftir 67 ára aldur.

Stefndi mótmælir þeirri staðhæfingu að stefnandi sé tekjulág og eigi aðeins 10 ár eftir á vinnumarkaði.

Samkvæmt skattframtali 2006 hafi stefnandi haft tæpar 3 milljónir í árstekjur eða um 250 þúsund krónur á mánuði árið 2005.  Ekki geti það talizt lágar tekjur.  Stefndi andmæli því sem framkvæmdavenju, að hjón skipti áunnum lífeyrisréttindum við skilnað.  Engin gögn liggi frammi um það í málinu, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997.  Það ákvæði mæli aðeins fyrir um heimild, en ekki skyldu, um jafna skiptingu áunninna réttinda.

Af umræðum um frumvarpið megi ráða, að þingmönnum hafi þótt varasamt, að hægt væri að skipta lífeyrisréttindum milli hjóna með samningi, sem væri óuppsegjanlegur af beggja hálfu (Ágúst Einarsson, 27. fundur, stjfrv. 249, þskj. 294).  Slíkt sé andstætt meginreglum samninga- og kröfuréttarins,

Þá sé því mótmælt, að Hæstiréttur hafi staðfest í dómi í máli nr. 253/2001, að maki eigi rétt til skiptingar áunninna lífeyrisréttinda, eins og stefnandi haldi fram í stefnu.

171 þúsund krónur frá 67 ára aldri.

Stefndi mótmælir því, að lífsbarátta stefnanda sé og verði harðari en stefnda.  Stefnandi hafi nú þegar sýnt það með tekjum sínum á framtali 2006, að laun hennar séu vel yfir meðallagi.  Með útreikningi Vigfúsar Ásgeirssonar í Talnakönnun hf., dags. 6. sept. 2006, hafi komið fram, að elli lífeyrisréttindi hennar muni nema samtals um 171 þúsund krónur frá 67 ára aldri.  Hafi verið miðað við samtals ellilífeyrisréttindi K í sept. 2005, eins og komi fram í dskj. nr. 3, og áætlaðri viðbót, miðað við, að stefnandi greiði til A-deildar LSR til 67 ára aldurs af 250.000 króna mánaðarlaunum á verðlagi í sept. 2005.

Stefnandi heilsuhraust og vel menntuð

Stefnandi búi við góða heilsu, með góða menntun og sé vel í stakk búin til að mæta lífinu eftir skilnað.  Hún hafi sótt mörg námskeið í stærðfræði og uppeldisfræðum og unnið með skipulögðum hætti að því að gera sig sjálfstæðan og óháðan einstakling.  Nám hennar hafi því skilað henni betur út í lífið og aukið tekjumöguleika hennar verulega.  Aflahæfi hennar verði eins og bezt sé á kosið fyrir konu í þessari stöðu og á þessum tímamótum í lífinu.

Rúmar 2 milljónir aukalega í makalífeyri.

Ekki megi gleyma því, að stefnandi hafi borið meira úr býtum við skilnaðinn, eða sem svari rúmum 2 milljónum aukalega í makalífeyri, sem hafi verið eingreiðsla, en hefði annars átt að greiðast á næstu 12 mánuðum.

Það sæti furðu að krefjast hlutdeildar í lífeyrisréttindum stefnda, lífeyrisréttindum, sem stefnandi hafi engan beinan þátt átt í að afla, því það hafi alltént ekki verið hún og hefði aldrei getað orðið hún, sem innti þau verk af hendi, sem urðu til þess, að þessi réttindi urðu til.  Það séu einkennileg sanngirnissjónarmið, svo ekki sé meira sagt.

Ýmis andmæli og athugasemdir.

Stefndi mótmælir því sem málsástæðu í stefnu, að hann hafi staðið í vegi fyrir því, að stefnandi hafi getað lokið námi sínu í tölvunarfræðum og þ.a.l. getað nú aflað sér verulegra hærri launa en sem kennari.  Þessi fullyrðing sé ósönnuð með öllu, enda hafi stefnandi engin gögn lagt fram máli sínu til stuðnings.  Stefndi hafi þvert á móti hvatt stefnanda til að afla sér menntunar í tölvunarfræðum í Svíþjóð og til að halda henni við og nýta hana með öllum ráðum.  Hann hafi aldrei staðið í vegi fyrir því, að stefnandi aflaði sér menntunar í því, sem hugur hennar hafi staðið til.

Stefndi mótmælir því, að verkaskipting á heimilinu á sambúðartíma hafi verið með þeim hætti, að það hamlaði stefnanda að sækja sér menntun.  Staðreyndir tali sínu máli, sbr. námið í tölvunarfræðum í Svíþjóð og kennsla meðfram dvölinni þar, bæði fyrr og síðar.

Stefnandi hafi sjálf tekið ákvarðanir um starfsvettvang, og ekki verði annað séð en að hún hafi afbragðs afkomumöguleika. Hún geti valið úr kennarastöðum sem stærð­fræði­­kennari, en sú grein innan skólakerfisins sé afar eftirsótt og ætíð há laun í boði fyrir hæfa kennara á þessu sviði.  Þetta megi ráða af auglýsingum dagblaða, er nær dregur skólastarfi á hverju hausti.

Með vísan til 2. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 sé þess krafizt, að lífeyrisréttindi stefnda komi ekki til skipta.  Réttindi hans séu alfarið bundin persónu hans, og þeim beri að halda utan við skiptin.

Stefndi kveðst byggja á því, að það sé ósanngjarnt, að konan fái hlutdeild í lífeyrisréttindum, sem hann hafi einn áunnið sér á sambúðartíma.

Stefndi hafi lagt fram gögn, sem sýni, að stefnandi hafi unnið launavinnu meira og minna utan heimilis á sambúðartíma frá 1975 til 2005.

Stefndi hafi hvatt stefnanda til að nýta sér lagaheimildir árið 2000 til að auka lífeyrisréttindi sín enn frekar með viðbótarlífeyri úr 10% í 14 %, en hún hafi ekki haft áhuga á því.  Hann hafi meira að segja boðizt til að hjálpa henni fjárhagslega til öflunar viðbótarlífeyris, en hún hafi hafnað því boði.

Aðstæður metnar heildstætt.

Lífeyrisréttindi stefnda séu ætluð til nota sem mánaðarlegur lífeyrir eftir 65 - 70 ára lífaldur.  Horfa verði heildstætt á aðstæður aðila og til þess hversu mikið stefnandi hafi borið úr býtum við fjárskiptin.   Hún hafi þegar fengið helming allra eigna, eða um 23 milljónir, og síðan eingreiðslu upp á rúmar 2 milljónir.

Undantekningarákvæði 102 gr. hjúsk.laga.

Staðfest sé í dómum Hæstaréttar, að 2. mgr. 102 gr. hjúskaparlaga sé undantekningarkvæði frá 2. tl. 1. mgr. 102. gr. sömu laga, þ.e. að lífeyrisréttindi komi ekki til skipta við hjúskaparslit.  Bent sé á dóm Hæstaréttar nr. 253/2001, þar sem segi m.a., að samkvæmt athugasemdum frumvarps með 2. mgr. 102 gr. hjúsk.laga sé tekið fram, að í einstaka tilviki kunni að reynast ósanngjarnt að halda persónubundnum réttindum utan skipta.  Telja verði, að sérstakar aðstæður þurfi að vera fyrir hendi til að réttindin komi undir skiptin, og beri að skýra undanþáguheimild þröngt.

Aðstæður í dómi Hæstaréttar nr. 170/2002 séu ekki sambærilegar við aðstæður stefnanda.  Þar hafi varnaraðili, konan, engrar menntunar notið og engra tekna aflað á 18 ára sambúðartímabili.

Í máli því, sem hér sé til umfjöllunar, gegni allt öðru máli.  Konan hafi aflað sér staðgóðrar menntunar og verið meira og minna útivinnandi, eins og skattframtöl og yfirlit um áunnin lífeyrisréttindi beri með sér.  Að auki hafi hún fengið makalífeyri, að fjárhæð kr. 2.053.556, til viðbótar og getað keypt sér strax við fjárskiptin rúmgóða og nýja íbúð í [...], Kópavogi.  Þá sjái hún fram á að njóta a.m.k. 171 þúsund króna í mánaðarlegum lífeyri við 67 ára aldur.

Nettó verðmæti eigna.

Horfa verði til þess, að nettó verðmæti annarra eigna málsaðila séu tæpar 48 milljónir og hafi þessar eignir komið til helmingaskipta.  Öll sanngirnisrök mæli því með því að halda lífeyrisréttindum utan skipta og sýkna stefnda.

Framtíðaraflahæfi.

Sérstaklega verði að gæta að framtíðaraflahæfi stefnanda.  Beri í því sambandi að taka tillit til aldurs hennar, heilsufars, menntunar, starfsreynslu og tekjumöguleika.  Allir séu þessir þættir jákvæðir fyrir stefnanda.  Hún hafi verið 54 ára við sambúðarslit.  Hún sé heilsuhraust, með góða praktíska menntun (Dipl. Ed. gráðu í uppeldis og menntunarfræðum í stærðfræði) og með langa starfsreynslu og ekki sízt eftirsóknarverða menntun sem stærðfræðikennari.  Ætla megi, að hún eigi eftir að vinna a.m.k. 11-13 ár til viðbótar í fullu starfi og afla sér viðbótarlífeyrisréttinda við þau, sem hún hafi nú þegar áunnið sér.  Eins og áður greini eigi stefnandi von á 171 þúsund krónum á hverjum mánuði eftir 67 ára aldur, samkvæmt útreikningi Tölvukönnunar hf..  Það verði að teljast verulega góð framtíð í lífeyrismálum, miðað við sambærilegan ellilífeyri TR, sem sé um 90 þúsund á mánuði til ellilífeyrisþega, og séu þá innifalin tekjutrygging og tekjutryggingarauki.

Litlar fjarvistir stefnda frá heimili,- þátttaka í húshaldi.

Lífeyrisréttindi stefnda hafi orðið til með 4% iðgjaldi hans sjálfs og 6% framlagi vinnuveitanda, auk 2% viðbótar stefnda og 2% viðbótar vinnuveitanda, eða samtals 14%, síðan árið 2000.

Stefndi geri þá kröfu, að ekki verði litið svo á, að framlag vinnuveitanda hafi skert þær tekjur stefnda, er hann lagði til sameiginlegs bús, og ekki verði talið, að stefndi hafi haft það langar eða miklar fjarvistir frá heimili sínu, að það réttlæti hlutdeild stefnanda í lífeyrisréttindum hans.  Stefndi hafi ætíð, hvern dag, tekið fullan þátt í rekstri og húshaldi vegna heimilis og uppeldi barna og haldið við eignum eftir þörfum.

Skattskurður.

Þá sé kröfu stefnanda mótmælt á þeim grunni, að ekki hafi verið gerð grein fyrir þeim skattskurði, sem stefndi muni verða fyrir við töku lífeyris.  Megi ætla, að hann muni, af mánaðarlegum lífeyri, þurfa að greiða tekjuskatt og útsvar, sem geti numið allt að 40% að meðtöldum félagsgjöldum, sjúkrasjóði, orlofsheimilasjóði og starfsmenntasjóði, allt af höfuðstól.  Sé gerð krafa um lækkun kröfu stefnanda hlutfallslega á þeim grunni.

Eingreiðsluhagræði.

Þá verði að horfa til eingreiðsluhagræðis stefnanda, fallist dómurinn á hlutdeild hennar í lífeyrisréttindum stefnda, og þess, að fjárhæðin myndi ekki stofn til greiðslu tekjuskatts og útsvars, og beri því að lækka fjárhæð að tiltölu.  Um það vísist til meginreglna í skaðabótarétti,  að draga a.m.k. 40% hluta frá reiknuðu eingreiðsluverðmæti.

Af þessu öllu framangreindu leiði, að telja verður ósanngjarnt, að lífeyrisréttindi stefnda komi til skipta sem hjúskapareign hans og sé af þeim ástæðum krafist sýknu, eða verulegar lækkunar eftir atvikum.

Stefndi vísar til 57. gr. sbr. 54. gr. og 2. tl. 1. mgr. 102. gr., hjúskaparlaga nr. 31/1993, 3. mgr. 14, gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.  Einnig vísar stefndi til almennra reglna kröfuréttarins.  Málskostnaðarkröfu byggir stefndi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988, en stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur.

IV

Forsendur og niðurstaða

Aðilar gáfu skýrslu fyrir dómi sem og Vigfús Ásgeirsson tryggingastærðfræðingur, Guðrún Angantýsdóttir kennari, Sigríður Guðmarsdóttir sóknarprestur, Brynja Vilhelmína Eggertsdóttir fulltrúi Ríkisútvarpsins, og Helena Reykjalín Jónsdóttir, starfsmaður í heimilisþjónustu.

Samkvæmt 54. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 verður eign maka hjúskapareign, nema sérstakar heimildir standi til annars, og skiptist til helminga milli maka við hjúskaparslit, sbr. 103. gr. laganna.  Í 57. gr. laganna er fjallað um persónubundin réttindi og kveðið á um, að reglur um hjúskapareign eigi við um réttindi persónulegs eðlis, svo fremi sem þær fari ekki í bága við sérreglur, sem um þau réttindi gildi, enda séu þessi réttindi ekki séreign lögum samkvæmt. 

Stefnandi byggir kröfu sína á 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga.  Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. greinarinnar getur maki krafizt þess, að réttindum í lífeyrissjóðum verði haldið utan skipta, en samkvæmt 2. mgr. greinarinnar, sem stefnandi byggir kröfur sínar á, er heimilt að bæta hinum makanum með fjárgreiðslum, þyki það ósanngjarnt gagnvart honum, að réttindunum sé haldið utan skipta.

Aðilar höfðu verið í hjúskap í tæp 22 ár, þegar hjúskap þeirra lauk með skilnaði.  Þar á undan höfðu þau búið saman í um 8 ár.  Þorrann af hjúskapartíma þeirra, einkum meðan börn þeirra voru ung, var stefnandi heimavinnandi, en samkomulag var með aðilum um það fyrirkomulag, enda gegndi stefndi fullu og mjög krefjandi starfi sem læknir, og þurfti hann iðulega að sinna vöktum utan hefðbundins vinnutíma.  Fyrir kom þó á þessum tíma, að stefnandi vann hlutastörf eða tók að sér skammtímaverkefni.  Vegna þessa fyrirkomulags aðila aflaði stefnandi sér mun minni lífeyrisréttinda en stefndi.

Við mat á því, hvort skilyrði séu til þess að beita undanþáguákvæði 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga verður að líta heildstætt á allar aðstæður aðila.  Stefnandi er nú 56 ára en stefndi 55 ára.  Aðilar eru báðir útivinnandi í dag.  Stefnandi starfar við kennslu, en stefnandi sem læknir.  Liggur ekki annað fyrir en að báðir aðilar hafi óskerta starfsorku. Er stefndi hátekjumaður með veruleg lífeyrisréttindi, sem hann mun að óbreyttu geta aukið næstu 12 árin, sé miðað við starfslok við 67 ára aldur.  Stefnandi getur einnig aukið við réttindi sín næstu 11 árin, miðað við sömu aldursmörk við starfslok, en í mun minna mæli en stefndi, en tekjur hennar eru um einn fimmti hluti af tekjum stefnda, sé litið til skattframtala síðustu ára.

   Í málinu hafa verið lagðir fram útreikningar Vigfúsar Ásgeirssonar trygginga­stærð­fræðings á réttindaverðmætum aðila í lífeyrissjóðum.  Útreikningar þessir hafa ekki verið vefengdir tölulega.  Í útreikningunum er annars vegar miðað við áunnin réttindi allt frá upphafi sambúðar aðila á árinu 1976, en hins vegar frá stofnun hjúskapar aðila á árinu 1984.  Þá eru annars vegar reiknuð út öll réttindi aðila í lífeyrissjóðum og hins vegar réttindi vegna ellilífeyris einungis. 

Verður hér einungis skoðaður munur á réttindum aðila vegna ellilífeyris einungis, enda hafa ekki verið færð fram nein rök fyrir því, að ósanngjarnt kunni að vera að halda öðrum lífeyrisréttindum utan skipta, sem jafnvel koma aldrei til útborgunar.

Munur á verðmætum réttinda aðila til ellilífeyris frá upphafi sambúðar þeirra nemur kr. 12.291.402, en munurinn frá upphafi hjúskapar þeirra nemur kr. 16.994.749.  Fjárskiptum aðila, ef frá er skilinn ágreiningur þeirra, sem fjallað er um í máli þessu, lauk með helmingaskiptum eigna og skulda.  Námu heildarverðmæti hvors aðila um sig kr. 23.976.872.  Af þessu má sjá, að verðmæti ellilífeyrisréttinda stefnda umfram réttindi stefnanda eru hátt í fjórðungur af andvirði heildareignar búsins, sé miðað við upphaf sambúðartíma, en tæp 30% heildareignarinnar, sé miðað við hjúskapartíma eingöngu.

Þegar allt framangreint er virt verður að fallast á með stefnanda, að ósanngjarnt er að halda lífeyrisréttindum stefnda utan skipta, og er skilyrðum 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga þannig fullnægt, svo að jafna megi þann aðstöðumun, sem stefnandi býr við, eftir að hjúskap hennar og stefnda lauk.

Stefnandi gerir kröfur um, að við útreikning á mismun lífeyrisréttinda aðila verði miðað við tímabilið frá því að aðilar gengu í hjónaband og þar til því lauk.  Af hálfu stefnda er þessu mótmælt og gerð sú krafa, að miðað skuli við tímabilið frá því að sambúð aðila hófst og til loka hjúskapar.

Svo sanngjörn niðurstaða fáist í máli þessu, verður að líta til heildarellilífeyrisréttinda aðila, en sé einungis miðað við tímabilið frá stofnun hjúskapar þeirra, er ljóst, að það gefur ekki rétta mynd af þeim aðstöðumun.  Hins vegar er ekki fallizt á, að makalífeyrir, sem stefnandi fékk sem eingreiðslu við hjúskaparslitin, hafi áhrif á þetta mat, enda um að ræða greiðslu vegna framfærsluskyldu stefnanda meðan skilnaður að borði og sæng varir, sbr. 50. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. og skilnaðarsamning aðila á dskj. nr. 7. Umframlífeyrisréttindi stefnda nema samkvæmt þessu kr. 12.291.402.  Með vísan til dómafordæma Hæstaréttar verður að líta til þess, að af mánaðarlegum lífeyri ber að greiða tekjuskatt og útsvar.  Að öllu þessu virtu þykir hæfilegt, að lífeyrisréttindi stefnda, að fjárhæð kr. 8.000.000 verði talin til hjúskapareignar hans og komi til skipta eftir almennum reglum.  Ber stefnda samkvæmt því að greiða stefnanda kr. 4.000.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla l. nr. 38/2001 frá uppkvaðningu dóms þessa til greiðsludags.  Þá ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 700.000, og hefur þá verið tekið tillit til útlagðs kostnaðar og virðisaukaskatts.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, M, greiði stefnanda, K, kr. 4.000.000, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá uppkvaðningu dóms þessa, 13. desember 2007, til greiðsludags og kr. 700.000 í málskostnað.