Hæstiréttur íslands

Mál nr. 66/2014


Lykilorð

  • Manndráp
  • Tilraun
  • Þjófnaður
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Sakhæfi
  • Skaðabætur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 13. nóvember 2014.

Nr. 66/2014.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Hrannari Páli Róbertssyni

(Kristján Stefánsson hrl.

Páll Rúnar M. Kristjánsson hdl.)

(Magnús Björn Brynjólfsson hrl. réttargæslumaður)

Manndráp. Tilraun. Þjófnaður. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Sakhæfi. Skaðabætur.

H var sakfelldur fyrir tilraun til manndráps með því að hafa veist að A og stungið hann einu sinni með hníf í bakið þannig að hnífurinn gekk inn í vinstra lunga A með þeim afleiðingum að hann hlaut stungusár aftan á brjóstkassa, lunga hans féll saman og hann hlaut blæðingu í lungnavefjum. Að virtri geðrannsókn sem H sætti undir meðferð málsins og með hliðsjón af málsatvikum að öðru leyti var talið nægilega í ljós leitt að hann hefði borið skynbragð á eðli afbrotsins og verið fær um að stjórna gerðum sínum þegar hann veittist að A. Á grundvelli játningar H var hann einnig sakfelldur fyrir þjófnaði úr tveimur verslunum og bifreið og umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. Var refsing H ákveðin fangelsi í fimm ár og sex mánuði og hann sviptur ökurétti ævilangt. Þá var H gert að greiða skaðabætur til A að fjárhæð 1.000.000 krónur og B að fjárhæð 13.799 krónur, en síðargreind fjárhæð kom ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. janúar 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms og þess málinu verði vísað heim í hérað til meðferðar að nýju. Til vara krefst hann sýknu af ákæru 4. október 2013 og refsimildunar. Þá krefst hann þess að einkaréttarkröfu A verði vísað frá dómi.

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. maí 2013 til 16. september sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína.

 Ómerkingarkrafa ákærða er einkum reist á því að héraðsdómur hefði með réttu átt að vera skipaður þremur dómurum, rannsókn lögreglu hafi verið áfátt í tilteknum atriðum og að svo mikill vafi leiki á um hvort hann hafi verið sakhæfur þegar hann framdi þann verknað, sem honum er gefin að sök í ákæru 4. október 2013, að rannsaka þurfi það atriði frekar, auk þess sem kveðja hefði átt sérfróða meðdómendur til setu í héraðsdómi til að leysa úr síðastgreindu álitaefni. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi sætti ákærði geðrannsókn á grundvelli 2. mgr. 77. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var það niðurstaða Q geðlæknis sem framkvæmdi hana að ákærði hafi á þeim degi þegar hann framdi verknaðinn ekki verið haldinn þeim einkennum sem talin eru upp í 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Staðfesti læknirinn niðurstöðu sína fyrir dómi. Það álitaefni hvort ákærði hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum í merkingu lagagreinarinnar umrætt sinn lýtur endanlegri úrlausn dómstóla og eru þeir ekki í því efni bundnir af áliti læknisfróðra manna. Að þessu virtu og með hliðsjón af málsatvikum að öðru leyti er nægilega í ljós leitt að ákærði hafi borið skynbragð á eðli þess afbrots sem hann er ákærður fyrir og verið fær um að stjórna gerðum sínum þegar hann veittist að brotaþolanum A á þann hátt sem lýst er í ákærunni. Aðrar röksemdir fyrir kröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms eru haldlausar og verður hún því ekki tekin til greina.

Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu, refsingu og ökuréttarsviptingu ákærða. Í ljósi hinnar lífshættulegu atlögu ákærða að brotaþola verða bætur til hans ákveðnar 1.000.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Ákærði hefur ekki krafist þess hér fyrir dómi að breyting verði gerð á ákvæði héraðsdóms um bætur til handa B og verður ekki við því hróflað, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að ákærði, Hrannar Páll Róbertsson, greiði A 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. maí 2013 til 16. september sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 756.685 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Magnúsar Björns Brynjólfssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2013.

                Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 10. september 2013, á hendur:

                ,,Hrannari Páli Róbertssyni, kt. [...],

                [...], [...],

fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2013, nema annað sé tekið fram:

I.

Þjófnaði:

1.       Föstudaginn 15. febrúar í verslun C við [...] stolið áfengispela að verðmæti kr. 3.779.

(M. 007-2013-8283)

2.       Þriðjudaginn 23. apríl í verslun D við [...] stolið matvöru samtals að verðmæti kr. 1.707.

(M. 007-2013-20448)

3.       Miðvikudaginn 8. maí brotist inn í bifreiðina [...] með því að brjóta rúðu bifreiðarinnar með grjóti og stolið þaðan 5.000 kr. í reiðufé.

(M. 007-2013-23525)

Teljast brot þessi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Umferðarlagabrot með því að hafa miðvikudaginn 13. febrúar ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 30 ng/ml, MDMA 390 ng/ml og metýlfenídat 10 ng/ml) suður [...] í Reykjanesbæ og austur [...] uns lögregla stöðvaði akstur bifreiðarinnar við [...].

(M. 008-2013-1604)

Teljast brot þessi varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006 og 3. gr. laga nr. 24/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.

Einkaréttarkrafa:

Vegna ákæruliðar I. 1 gerir E, hdl., f.h. B, kt. [...], kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr.3.799, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. febrúar 2013 til 8. apríl 2013. Eftir það er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laganna til greiðsludags. Að auki er krafist lögmannskostnaðar kr. 19.896, auk vsk. Krafist er viðbótarkostnaðar komi til aukinnar vinnu undir rekstri málsins.“

                Hinn 4. október 2013 gaf ríkissaksóknari út ákæru á hendur ákærða þar sem ákært er

„fyrir tilraun til manndráps,

með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 20. maí 2013, á svölum í F, í húsnæði G, [...], [...], veist að A og stungið hann einu sinni með hníf í bakið þannig að hnífurinn gekk inn í vinstra lunga A með þeim afleiðingum að hann hlaut 3 cm. langt stungusár vinstri megin aftan á brjóstkassa, lunga hans féll saman og hann hlaut blæðingu í lungnavefjum.

Telst þetta varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 2. mgr. 218. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A kt. [...] er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum kr. 2.374.845 með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá 20. maí 2013 til greiðsludags en að mánuði liðnum frá birtingu bótakröfu er krafist dráttarvaxta af sömu fjárhæð skv. 6. gr., sbr. 5. gr. og 9. gr. vaxtalaga til greiðsludags. Réttargæsluþóknunar er krafist úr hendi kærðu, brotaþola að skaðlausu, skv. framlögðum reikningi eða eftir mati dómsins.“

Málin voru sameinuð.

Verjandi ákærða krefst sýknu af ákæru 4. október 2013 og að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún sæti lækkun. Að öðru leyti er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þess er krafist að sakarkostnaður verðir greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun að mati dómsins.

Ákæra dagsett 10. september 2013

Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að ákærði hafi gerst sekur um brot þau sem í þessari ákæru greinir og eru brotin réttfærð til refsiákvæða í ákærunni.

Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta.

Ákæra dagsett 4. október 2013

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar barst tilkynning kl. 11:20, mánudaginn 20. maí 2013, um hnífsstungu í F að [...] í [...]. Er lögreglan kom á vettvang var verið að hlúa að A en árásarmaðurinn sem sagður var ákærði var á efri hæð hússins. Er handtaka átti ákærða hélt hann gítar fyrir ofan höfuð sér og kastaði honum frá sér er hann varð lögreglu var. Segir í skýrslunni að ákærði hafi sagt að hann hefði ætlað að drepa A.

Í skýrslunni er haft eftir A að ákærði hafi stungið hann fyrirvaralaust í bakið. Sjúkrabifreið flutti A á slysadeild.

Lagt var hald á árásarvopnið á vettvangi.

Teknar voru lögregluskýrslur af ákærða undir rannsókn málsins og verða þær raktar síðar eins og ástæða þykir.

A greindi frá því við yfirheyrslur hjá lögreglu að ákærði hefði stungið hann fyrirvaralaust með hnífi í bakið eins og lýst er í ákærunni.

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi.

Ákærði neitar sök og kvað hnífinn hafa rekist í A og að ekki hafi verið ásetningur sinn að stinga hann. Hann kvaðst muna lítið hvað gerðist en hann kvaðst hafa verið búinn að vera í mikilli fíkniefnaneyslu dagana á undan og hann hafi ekki áður verið í sams konar ástandi. Nánar spurður um ástand sitt þennan dag, kvað hann það ef til vill hafa verið sambærilegt og það var í þau skipti er ákærði hefur verið lagður inn á geðdeild en fyrir liggur að þau skipti eru nokkur og verður vikið að því síðar.

Ákærði kvaðst hafa verið staddur á Umferðarmiðstöðinni að morgni þessa dags. Hann mundi ekki eftir því að hafa rætt við neinn þar. Hann hefði hringt í móður sína og beðið hana að aka sér í F við [...] sem hún gerði en hann kvaðst hafa verið mjög reiður út í mann sem hefði gert eitthvað á hlut ákærða. Hann kvaðst hafa farið í [...] þeirra erinda að gera þessum manni eitthvað. Er hann kom þangað hefði hann sótt hníf í eldhúsið og ætlað að hitta annan mann og leita hann uppi. Er hann var á leið niður stiga þeirra erinda sá hann A úti á svölum en hann þekki A nokkuð og lýsti hann því. Hann kvað ekkert ósætti milli þeirra A. Ákærði kvaðst hafa farið út á svalirnar til A og ætlað að hræða hann. Hann kvaðst hafa verið í þannig ástandi að hann hefði ekki hugsað um það hvort háttsemi hans með hnífinn væri hættuleg og alvarlegar afleiðingar kynnu að hljótast af eins og í ákæru greinir. Hann mundi ekki hvað A sagði en eftir að ákærði bað A um sígarettu, hafi A sagt „drullaðu þér í burtu“, eða eitthvað álíka en hann mundi þetta ekki vel að sögn. Hann kvaðst þá hafa gengið að A haldandi á hnífnum til að hræða hann. Ahafi þá snúið sér snöggt að ákærða og hnífurinn hefði þá rekist í hann.

Samkvæmt læknisvottorði A, gekk hnífurinn 12 cm inn í hann. Spurður hvort ákærði hefði beitt afli á móti A er hann stóð upp, eins og ákærði bar, kvaðst hann ekki muna þetta. Þetta hefði gerst mjög hratt. Það sem rakið var sé það sem ákærði muni eftir þessu.

Ákærði kveðst hafa afhent H, starfsmanni F, hnífinn eftir þetta og kvaðst hann hafa verið í sjokki og farið á efri hæð hússins þar sem hann var er lögreglan kom skömmu síðar. Hann kvað alla atburðarásina hafa varað nokkrar mínútur. Hann kvaðst við handtöku hafa verið mjög ruglaður vegna neyslu.

Fram kemur í frumskýrslu að ákærði hafi sagt lögreglunni að hann ætlaði að drepa A. Fyrir dómi mundi ákærði ekki eftir þessum ummælum sínum. Hann hefði ekki ætlað að drepa A eða nokkurn mann.

Við skýrslutöku hjá lögreglunni kemur fram að ákærði hefði ætlað að hræða manninn sem var úti á svölum á F. Hann kvaðst hafa verið á útleið og skyndiákvörðun hefði valdið því að hann fór út á svalirnar, eins og rakið var að ofan. Hjá lögreglunni kemur fram að ákærða hafi verið illa við A. Spurður um þetta fyrir dómi, kvaðst ákærði ekki muna nákvæmlega hvað hann hugsaði er hann fór út á svalirnar. Nánar spurður kvaðst hann hafa verið í mikilli neyslu dagana á undan. Spurður um það hversu vel hann myndi atburðinn, kvaðst hann muna hann í „myndbrotum“ en hann myndi þetta ekki fullkomlega.

Vitnið A kvaðst hafa verið staddur í F á þeim tíma sem í ákæru greinir. Hann hefði sótt sér kaffibolla og farið út á svalir að reykja. Þar stóð hann og sneri baki í svalahurðina og horfði til sjávar er hann heyrði svaladyrnar opnast. Hann hefði ekki veitt því neina sérstaka athygli þar sem að jafnaði sé mikill straumur fólks út á svalirnar. Skyndilega fann hann eitthvað koma í bak sér og þá stóð ákærði fyrir aftan hann og öskraði „ég ætla að drepa þig, ég ætla að drepa þig“. Er A sneri sér við sá hann ákærða halda á blóðugum hnífi. Þá gerði hann sér grein fyrir því að hann hefði verið stunginn. Hann sjokkeraðist við þetta að sögn og fannst undarlegt að ákærði hefði gert sér þetta. Hann kvað ákærða þá hafa reynt að leggja til hans að framanverðu en A kvaðst hafa gripið stól og borið fyrir sig en sér hefði staðið mikil ógn af ákærða. Hann hefði ýtt stólnum að honum og við það hrökklaðist ákærði inn í húsið. A náði síðan að loka hurðinni en skömmu síðar kom H, starfsmaður F, hlaupandi niður og náði hnífnum af ákærða sem fór þá á efri hæð hússins. Lögreglan kom skömmu síðar.

A kvaðst hafa hitt ákærða um einni mínútu áður en hann fór út á svalirnar og boðið honum góðan dag. Ákærði hefði ekki tekið undir og verið „voðalega út undan sér“. Hann kvað aldrei hafa verið illindi milli þeirra ákærða og kvaðst A alltaf hafa verið góður við hann.

A lýsti afleiðingum árásarinnar, m.a. stöðugum verk vegna drensárs en læknir hefði sagt sér að taugar hefðu farið í sundur og töluverðan tíma gæti tekið að það lagaðist. Lýsti A þessu nánar. Hann kvað framburð ákærða um það sem gerðist rangan en vitninu var kynntur efnislega framburður ákærða.

Vitnið H var starfsmaður F á þeim tíma sem hér um ræðir. Hann kvaðst hafa gengið út úr matsalnum og litið út á svalir og séð ákærða þar ásamt A. Þá hafi A kallað „hann stakk mig, hann stakk mig“. H kvaðst hafa talið A hafa verið að grínast. Hann hefði gengið rólega í áttina að svölunum en hraðað sér er A kallaði aftur. Er hann kom út á svalirnar hélt ákærði á blóðugum hníf sem hann otaði að H sem kvaðst hafa kallað í I, annan starfsmann, og hringdi hún strax í lögregluna sem kom stuttu síðar. Hann kvaðst hafa náð hnífnum af ákærða. H kvað ástand ákærða hafa verið þannig að hann skildi ekki hvað hann sagði úti á svölunum. Hannes kvað ákærða hafa verið „út úr heiminum“. Ákærði hafi alltaf verið rólegur er H átti samskipti við hann en fram kom hjá Hannesi að hann þekkti ákærða sem iðulega hefði komið í F. Hann hefði aldrei séð ákærða áður í svona ásigkomulagi og þekkti hann ekki sem sama mann og fyrr.

Vitnið, I, var starfsmaður F á þessum tíma. Hún lýsti því er H kom að máli við hana í eldhúsinu og greindi henni frá því að maður hefði verið stunginn með hnífi. Hún lýsti viðbrögðum sínum en hún sá ekki það sem gerðist á svölunum. Hún kvað ákærða hafa komið í F um morguninn eftir að móðir hans hafði hringt og sagt ákærða reiðan en móðir ákærða hefði sótt hann á Umferðarmiðstöðina og ekið honum í F. Hún kvað ákærða hafa verið mjög öran og reiðan er hann kom þennan dag. Hún lýsti því er hann hringdi eitthvað og var mjög æstur í símanum og sagði að hann ætlaði að drepa þennan mann. I kvaðst ekki vita við hvern hann ræddi eða við hvern hann ætti en svo virtist sem þessi maður hefði gert eitthvað á hlut ákærða fyrir mörgum árum síðan, að hennar sögn, en fram kom að maður þessi hefði ekki verið í F. Símtalið hefði átt sér stað um 10 til 15 mínútum áður en atburðurinn sem í ákæru greinir gerðist. Nánar spurð um þetta kvað hún ákærða margsinnis hafa sagt um morguninn að hann ætlaði að drepa einhvern. Hún kvaðst ekki hafa áttað sig á ákærða og hvort hann var að tala við sjálfan sig er hann hafði orð á þessu. Hún kvaðst oft áður hafa haft samskipti við ákærða í F og hann hafi verið ljúfur sem lamb, eins og vitnið bar. Ákærði væri venjulega mjög rólegur og hún hefði aldrei áður séð hann í svona ásigkomulagi eins og þennan morgun. Ákærði hafi verið allt annar maður.

Vitnið J lýsti samskiptum þeirra ákærða klukkan rúmlega 8 að morgni dagsins sem hér um ræðir. Ákærði hefði verið í mjög skrýtnu ástandi. Niðurstaða samtals þeirra hafi verið sú að ákærði hefði spurt vitnið hvort hann vildi koma með að drepa mann en fram kom að sá hefði gert ákærða eitthvað. Ákærði fór stuttu síðar. J kvað lítið hafa verið hægt að ræða við ákærða, ástand hans hefði verið þannig.

Vitnið K lögreglumaður lýsti komu sinni og fleiri lögreglumanna í F á þeim tíma sem hér um ræðir. Er hún kom þangað var verið að hlúa að A. Ákærði var á efri hæð hússins og kom hann á móti lögreglunni með gítar á lofti. Hann hefði farið að fyrirmælum lögreglu er hann var handtekinn. Ákærði hefði greint frá því að hann hefði ætlað að drepa A og hann hefði verið fremur leiður yfir því að það tókst ekki og bað hann lögregluna um að ljúka verkinu fyrir sig. Hún kvað A hafa greint frá því að hann hefði horft til hafs þaðan sem hann stóð úti á svölum og ekki vitað fyrr en ákærði stakk hann að tilefnislausu. Engin leiðindi hefðu verið á milli þeirra.

Vitnið L lögreglumaður kom á vettvang á þessum tíma. Hún kvað lögregluna hafa hitt A úti á svölum en ákærði hefði verið handtekinn á efri hæð hússins. A hefði greint frá því að hann hefði staðið úti á svölum og horft til hafs og ekki vitað fyrr en hann var stunginn í bakið. Enginn aðdragandi var að því. Hann sagði þá ákærða vini og hnífstungan hefði komið sér á óvart. Ákærði hefði verið rólegur er lögreglan kom og hlýtt fyrirmælum. Hann hefði sagt að hann hefði ætlað að drepa A og hann hefði beðið lögregluna um að aðstoða sig við það.

Vitnið M lögreglumaður kom á vettvang á þessum tíma. Er lögreglan kom var A úti á svölum og starfsfólk hjá honum. Ákærði var á efri hæðinni og er hann sá lögregluna stóð hann á fætur og greip gítar og sveiflaði í kringum sig. Ákærði hefði farið að fyrirmælum lögreglunnar er hann var handtekinn en hann hafi sýnilega verið undir áhrifum fíkniefna eða lyfja. Hún kvað ákærða hafa verið mjög ruglaðan og er hann var leiddur út hafi hann beðið lögregluna um að gefa sér stuð með hjartastuðtæki. Ákærði hefði sagst hafa ætlað að drepa A og hann hefði beðið lögregluna um að aðstoða sig við það.

Vitnið N lögreglumaður kom á vettvang á þessum tíma. Hún lýsti handtöku ákærða á efri hæð hússins. Ákærði hefði verið dálítið ógnandi við komu lögreglunnar og sveiflað gítar um sig en hann hefði farið að fyrirmælum lögreglu. Við handtöku sagðist ákærði hafa ætlað að drepa A en honum hefði ekki tekist að ljúka því og bað hann lögreglu um að gera það.

Vitnið O lögreglumaður kom á vettvang þar sem A var úti á svölum. Ákærði var með gítar á lofti er lögreglan kom að honum á efri hæðinni. Hann hafi hlýtt fyrirmælum lögreglu við handtöku. Hún mundi ekki eftir því hvort ákærði sagði eitthvað við handtökuna.

Vitnið P lögreglumaður rannsakaði vettvang og fyrir liggur skýrsla hennar um rannsóknina sem hún staðfesti og skýrði fyrir dóminum. Hún skýrði rannsóknarvinnu sína og greindi frá því að frásögn A af því sem gerðist, m.a. að hann hefði snúið sér við eftir hnífsstunguna, samrýmist vel því sem fram kom við vettvangsrannsóknina og skýrði hún þetta nánar. Þessi niðurstaða styddist einnig við rannsókn á fatnaði A. Hún rannsakaði hnífinn sem um ræðir. Hún skýrði að á ljósmyndum af hnífnum mætti ráða hversu langt hnífurinn gekk inn í A en þetta sjáist á húðfitu á hnífnum og sjáist á ljósmyndum sem liggja frammi og skýrði hún þetta.

Fyrir liggur læknisvottorð A, dagsett 21. maí 2013. R, sérfræðilæknir á slysadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss, ritaði vottorðið. Í vottorðinu er svofelldur kafli um rannsóknir:

„Tekin tölvusneiðmynd af brjóstkassanum skömmu eftir komu sem sýnir samfall á hluta vinstra lunga og blæðingu í lungnavefnum sem nær um það bil 6 cm inn í lungað. Allt í allt virðist hnífurinn hafa gengið 12 cm inn í líkama A frá fyrirborði baks.“

Þá er svofelldur kafli um samantekt og álit:

„Fjörtíu og átta ára gamall karlmaður sem verður fyrir alvarlegri líkamsárás. Stunginn einu sinni í brjóstkassann aftan til með hnífi og gekk hnífurinn langt inn í vinstra lunga. Um er að ræða áverka sem auðveldlega hefðu getað valdið dauða A. Meðferð fólgin í ísetningu á brjóstholskera og eftir meðferð á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítalans.“

R skýrði og staðfesti læknisvottorðið fyrir dóminum. Hann kvað hnífinn hafa stöðvast í tveggja cm fjarlægð frá hjarta A og heppni hefði ráðið því að hnífurinn skyldi ekki hafa hafnað í hjartanu sem hefði dregið verulega úr lífslíkum A. Hann kvað mega ráða af öllu að hnífnum hefði verið stungið í A af mikilli ákveðni og töluvert afl þurfi til að fara í gegnum fatnað, húð og brjóstvegg áður en hnífurinn gekk djúpt inn í lungað. Til þessa hafi þurft töluvert afl. Hann skýrði það álit sitt að líklegt megi telja að A hafi staðið kyrr er hann hlaut áverkann en ekki verið á ferð. Hann kvað langsótta þá skýringu að áverkinn hefði hlotist eins og ákærði bar. Hann lýsti meðferð A á sjúkrahúsinu.

Q vann geðrannsókn á ákærða. Skýrsla hans er dagsett 25. júní 2013. Kafli í skýrslunni ber heitið samantekt og niðurstöður og er hann svofelldur:

„Tuttugu og fimm ára einhleypur karlmaður, sem er grunaður um að hafa stungið mann í bakið hinn 20. maí síðastliðinn.

Hrannar er með langa sögu af margskonar erfiðleikum. Sem barn var hann greindur með ofvirkni og athyglisbrest og strax 10 ára gamall fékk hann sín fyrstu einkenni um kvíða og þunglyndi. Um svipað leyti var hann [...]. Hrannar byrjaði 12 – 13 ára gamall í neyslu ýmissa efna. Í byrjun voru það kannabisefni, síðar áfengi og í framhaldi af því fjölbreytt neysla, bæði örvandi og róandi efna, auk sterkra verkjalyfja.

Hrannar hefur í raun búið „á götunni“ frá 14 – 15 ára aldri. Hann lauk ekki grunnskólanámi. Hann var greindur með [...] fyrir nokkrum árum. Hrannar hefur oftsinnis verið lagður inn á hinar ýmsu meðferðarstofnanir án þess að séð verði að nokkur árangur hafi náðst.

Hrannar kvaðst hafa hlotið eina 12 dóma og hann er nú í fimmta skipti í fangelsi.

Í gögnum geðdeildar Landspítalans kemur fram að Hrannar hefur af og til haft aðsóknarhugmyndir, hefur séð skugga og heyrt raddir. Þessi einkenni hafa alltaf komið í kjölfar mikillar neyslu og oft horfið eftir nokkra daga í fráhvarfsmeðferð. Læknar þeir sem hafa stundað Hrannar hafa alltaf talið að geðrofseinkenni þessi hafi alltaf verið orsökuð af hinni miklu neyslu.

Hinn umrædda dag, það er hinn 20. maí síðastliðinn var Hrannar búinn að vera í mikilli og blandaðri neyslu í þrjá mánuði samfellt. Hann fór vestur á [...] í F G að morgni 20. maí. Hrannar kvaðst hafa verið mikið á þeim stað.

Í viðtali hinn 25. maí talar Hrannar um að hann hafi á þeim degi verið mjög reiður út í allt og alla. Hann kvaðst hafa verið að bíða eftir kunningja sínum, sagði að sá aðili hafi farið mjög illa með sig (Hrannar) og Hrannar kveðst hafa ætlað að jafna um sakirnar við þennan félaga sinn. Hrannar neitar að ræða frekar um þennan einstakling.

Hrannar segir að það hafi nánast verið fyrir tilviljun að hann réðst á A, hann hafi bara verið þarna og reiði Hrannars beindist að A.

Að mati undirritaðs er það ekki útilokað að þessi reiði hafi verið hluti af geðrofseinkennum sem hafi komið fram í framhaldi af mikilli neyslu Hrannars á undanförnum mánuðum. Niðurstöður mælinga í blóði á amfetamíni og MDMA, staðfesta mikla neyslu á þessum efnum. Langvarandi neysla þessara efna getur valdið geðrofseinkennum. Einkum einkennum, sem aðsóknarhugmyndir (paranoid) eru ráðandi einkenni.

Í viðtali við Hrannar nokkrum dögum síðar var ekki hægt að fá fram nein einkenni geðrofs og hann neitaði því reyndar að hafa haft nein slík einkenni á undanförnum dögum.

Í bréfi Fanneyjar Bjarkar Frostadóttur fulltrúa, sem dagsett er 22. maí 2013, er farið fram á að undirritaður framkvæmi „geðrannsókn á Hrannari Páli svo unnt sé að meta hvort hann teljist sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða eftir atvikum hvort ætla megi að refsing muni bera árangur í skilningi 16. gr. sömu laga“.

Eftir langt viðtal við Hrannar Pál Róbertsson, kt. [...] og mat á gögnum málsins er það álit undirritaðs að Hrannar hafi á umræddum degi, 20. maí ekki verið haldinn þeim einkennum sem eru talin upp í 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem hafi orðið til þess að hann hafi verið alls ófær á þeim tíma að stjórna gerðum sínum. Með vísan til 16. gr. sömu laga er ekkert læknisfræðilegt sem kemur í veg fyrir að refsing kynni að geta borið árangur reynist hann sekur að mati dómsins.

Undirritaður leggur áherslu á að ljóst er að Hrannar Páll Róbertsson var undir langvarandi áhrifum ýmissa lyfja þegar áður nefndur atburður átti sér stað.“

                Q geðlæknir skýrði og staðfesti rannsókn sína fyrir dóminum. Hann kvað ákærða hafa lagst inn á geðdeild nokkrum sinnum og þá verið talað um að hann hefði verið með paranoid hugmyndir sem hefðu yfirleitt horfið á einum til tveimur dögum. Í skýrslu Q kemur fram að föðurafi ákærða hafi um árabil verið með [...] og alvarlegan sjúkdóm hafi einnig verið að finna hjá öðrum einstaklingum tengdum ákærða. Þessu er lýst nánar í skýrslu Q. Með hliðsjón af þessu sé ekki alveg útilokað að geðrofssjúkdómur sé undirliggjandi hjá ákærða.

Q kvað niðurstöðu sína þá að fíkniefnaneysla ákærða hafi framkallað þau einkenni sem greindust í fari hans. Q lýsti því að árás ákærða hafi ekki verið plönuð heldur hefði hún orðið vegna þess að A var þar sem hann var á þessum tíma og ákærði hefði átt í smá útistöðum við hann.

                Í skýrslu Q er því lýst að ákærði hafi í ársbyrjun 2007 verið í bráðu geðrofsástandi sem talið var neyslutengt. Þá segir í skýrslunni að á árunum 2008 og 2009 hefði verið talað um aðsóknarhugmyndir en í bæði skiptin er talið að þær séu tengdar neyslu efna. Fyrir liggur að ákærði hefur, í þau skipti sem hann hefur verið lagður inn á geðdeild, aldrei fylgt því eftir með meðferð en geðrofsástand hans hefur ávallt verið talið tengjast fíkniefnanotkun hans. Q var spurður hvort hugsanlegt væri að ákærði ætti við geðrofssjúkdóm að stríða. Hann kvað það ekki alveg útilokað og að grynnra kynni að vera á sjúkdómnum og einkenni framkölluðust af neyslunni. Q skýrði það álit sitt að geðrofseinkenni í fari ákærða hefðu tengst neyslu hans. Hann kvað hins vegar ekki hægt að útiloka það að ákærði hafi verið haldinn geðrofssjúkdómi á þessum tíma og neytt fíkniefna á sama tíma. Hafi svo verið breytti það niðurstöðunni varðandi sakhæfið.

                Q kvaðst, við nánari skoðun á þessu, hafa komist að þeirri niðurstöðu að neysla ákærða framkallaði þau áhrif sem um ræðir og niðurstaða hans um sakhæfi stæði. Hann benti á, til stuðnings þessu áliti sínu, að ákærði verði einkennalaus og geðrofseinkenni hverfi nokkrum dögum eftir að neyslu sé hætt og efni hverfi úr líkamanum. Því séu yfirgnæfandi líkur á því að neysla ákærða sé orsök geðrofseinkenna.

Niðurstaða ákæru dagsettrar 4. október 2013

Ákærði neitar sök og kvað hnífstunguna hafa orðið fyrir slysni, eins og hann lýsti. Framburður ákærða um flest er ótrúverðugur og fær enga stoð í öðru því sem fram er komið í málinu. Þá kom fram hjá ákærða að hann myndi atburðinn ekki vel. Verður framburður ákærða því ekki lagður til grundvallar niðurstöðunni.

                Vitnisburður A er trúverðugur og fær stoð í vitnisburði H og í tæknirannsókn lögreglunnar og vitnisburði P sem rannsakaði vettvang. Þá styður læknisvottorð A og vitnisburður R sérfræðilæknis vitnisburð A eins og rakið hefur verið. Þá báru lögreglumenn sem komu á vettvang að A hefði lýst hnífstungunni sem tilefnis- og fyrirvaralausri en vitnið A hefur frá upphafi borið á sama veg um atburðinn.

Að þessu virtu og öðrum gögnum málsins er sannað með trúverðugum vitnisburði A, með stoð í læknisvottorði og vettvangsrannsókn og vitnisburði sem tiltekinn var að framan, en gegn neitun ákærða, að hann hafi framið þann verknað sem í ákærunni greinir.

Ákærði stakk hnífnum í bak A svo hann gekk 12 cm inn í brjóstholið og stöðvaðist í tveggja cm fjarlægð frá hjarta A. Samkvæmt vitnisburði R var heppni því að þakka að hnífurinn gekk ekki inn í hjarta A sem hefði skert lífslíkur hans eins og rakið var. Með vísan til þessa, og til alls þess sem rakið hefur verið, var hending sem réð því að ekki fór verr, en hnífurinn sem ákærði beitti er með 19,6 cm löngu blaði og hefði samkvæmt því getað gengið inn í hjarta A.

Að öllu ofanrituðu virtu er það mat dómsins að bani hafi verið langlíklegasta afleiðing háttsemi ákærða og gat honum ekki dulist þetta. Auk þessa er vísað til frásagna vitna sem höfðu eftir ákærða ásetning hans um að drepa mann. Þetta sýnir hugarástand ákærða á þessum tíma þótt ásetningur hans hafi verið þokukenndur.

Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir manndrápstilraun sem varðar við 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga eins og í ákærunni greinir.

Eins og rakið var að framan hafði ákærði verið í mikilli fíkniefnaneyslu dagana fyrir atburðinn. Blóðsýni, tekið úr ákærða eftir atburðinn, var rannsakað. Samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, dagsettri 29. júlí 2013, mældist amfetamín og MDMA í blóði ákærða og einnig kannabis. Í matsgerðinni segir, að styrkur amfetamíns í blóðinu sé eins og finnist í blóði þeirra sem misnoti amfetamín. Þá segir að viðkomandi hafi verið undir örvandi áhrifum amfetamíns og MDMA er blóðsýnið var tekið.

Samkvæmt þessu var ákærði undir örvandi áhrifum fíkniefna er hann framdi brotið sem í ákæru ríkissaksóknara greinir og kann þetta að skýra ástand ákærða á verknaðarstundu en dagana á undan hafði hann verið í mikilli fíkniefnaneyslu. Þetta ástand ákærða hefur ekki áhrif á sakhæfi hans.

Að þessu virtu, og með vísan til geðheilbrigðisrannsóknar ákærða og vitnisburðar Q geðlæknis, er það mat dómsins að ákærði sé sakhæfur.

Ákærði á að baki langan sakaferil. Hann hefur frá árinu 2005 hlotið 13 refsidóma fyrir þjófnað, nytjastuld, umferðarlagabrot, fíkniefnabrot, vopnalagabrot, húsbrot og eignaspjöll. Tveir síðustu refsidómarnir eru annars vegar dómur frá 4. maí 2012, 6 mánaða fangelsi fyrir vopnalagabrot, umferðarlagabrot og nytjastuld, og hins vegar dómur frá 19. desember 2012, er ákærði hlaut 12 mánaða fangelsi fyrir þjófnað, nytjastuld og umferðarlagabrot.

Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu virtu og að teknu tilliti til sakaferils ákærða þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 5 ár og 6 mánuði.

Með vísan til tilvitnaðra ákvæða umferðarlaga í ákæru, dagsettri 10. september 2013, er áréttuð ævilöng ökuréttarsvipting ákærða.

Ákærði er bótaskyldur vegna þjófnaðarins sem lýst er í ákærunni frá 10. september 2013. Er hann dæmdur til að greiða B 3.799 krónur auk vaxta eins og í dómsorði greinir og 10.000 krónur vegna kostnaðar við að halda kröfunni fram.

Bótakrafa A sundurliðast þannig: Krafist er 2.000.000 króna í miskabætur, 100.000 króna vegna áætlaðs læknis- og sjúkrakostnaðar og málskostnaðar að fjárhæð 274.875 krónur. Samtals 2.374.845 krónur.

Kröfuliðnum um áætlaðan kostnað hefur verið andmælt og er hann ódómtækur og honum vísað frá dómi.

A á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þykja miskabæturnar hæfilega ákvarðaðar 700.000 krónur auk vaxta svo sem nánar greinir í dómsorði en dráttarvextir reiknast frá 16. september 2013 en þá var mánuður liðinn frá því að krafan var birt fyrir ákærða.

Ákærði greiði 741.379 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.

Ákærði greiði 251.000 króna réttargæsluþóknun Magnúsar Björns Brynjólfssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttargæslumanns A.

Ákærði greiði 552.200 króna málsvarnarlaun Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns.

Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.

                Dagmar Ösp Vésteinsdóttir aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Hrannar Páll Róbertsson, sæti fangelsi í 5 ár og 6 mánuði.

Áréttuð er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða.

Ákærði greiði B, kt. [...], 3.799 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. febrúar 2013 til 30. október 2013 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði 10.000 krónur vegna kostnaðar við að halda kröfunni fram.

Ákærði greiði A 700.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. maí 2013 til 16. september 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 741.379 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.

Ákærði greiði 251.000 króna réttargæsluþóknun Magnúsar Björns Brynjólfssonar hæstaréttarlögmanns.

Ákærði greiði 552.200 króna málsvarnarlaun Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns.

Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.