Hæstiréttur íslands

Mál nr. 164/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Mánudaginn 10. mars 2014.

Nr. 164/2014.

 

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Snorri Sturluson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt c. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. mars 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 24. mars 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. mars 2014.

                Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði X, kennitala [...], til að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 31. mars 2014, kl. 16:00.

                Kærði mótmælir kröfunni. Hann krefst þess að henni verði hafnað.

                Í greinargerð með kröfunni kemur fram að kærði hafi verið handtekinn þann 16. febrúar sl. við [...] í Reykjanesbæ grunaður um líkamsárás, húsbrot, eignaspjöll og vopnalagabrot þá snemma um morguninn. Kærði hafi margsinnis komið við sögu lögreglu og sé nú undir sterkum grun um 3 líkamsárásir, 2 eignaspjöll, vopnalagabrot og fíkniefnalagabrot á rúmlega 2 dögum eða frá 15. febrúar síðastliðinn. Jafnframt sé kærði með til rannsóknar fleiri mál þar sem kærði er undir sterkum grun að hafa framið rán, sérstaklega hættulega líkamsárás og hótunarbrot á síðustu mánuðum.

                Kærði hafi hlotið marga fangelsisdóma fyrir samskonar brot og nú eru til rannsóknar. Kærði hafi frá árinu 2007, 5 sinnum verið dæmdur fyrir líkamsárásir. Þann 11. apríl 2011 hafi kærði lokið afplánun 12 mánaða fangelsisdóms vegna ráns. Þann 26. nóvember 2011 hafi kærði verið dæmdur fyrir frelsissviptingu. Auk þessa hafi kærði verið dæmdur fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna, akstur sviptur ökuréttindum, þjófnaði, og margsinnis fyrir vörslu fíkniefna.

                Þykir að mati lögreglu ljóst að kærði hafi einbeittan brotavilja og virðist ekkert lát vera á brotastarfsemi hans. Eftirfarandi mál séu til rannsóknar hjá embættinu og embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og munu líklega sæta ákærumeðferð á næstunni:

008-2013-10384 meiriháttar líkamsárás við skemmtistaðinn [...] í Reykjansbæ. Mál þetta sé fullrannsakað og hafi verið sent ríkissaksóknara til meðferðar.

007-2014-1662 rán, málið sé til rannsóknar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.

008-2014-1756   líkamsárásir og eignaspjöll við [...] í Reykjanesbæ þann 15. febrúar 2014, rannsókn málsins sé á lokastigi.

008-2014-1780  hótanir og vopnalagabrot að [...], Reykjanesbæ þann 16. febrúar 2014, rannsókn málsins sé á lokastigi.

008-2014-1788/1792 akstur sviptur ökuréttindum og undir áhrifum ávana- og fíkniefna ásamt vörslu fíkniefna þann 16. febrúar 2014, rannsókn málsins er á lokastigi.

                Séu brot þessi þess eðlis að telja verði nauðsynlegt að stöðva brotastarfsemi hans, þá sérstaklega þar sem brotahrina kærða ógni hagsmunum annarra. Með vísan til framangreinds og ferils kærða telji lögregla yfirgnæfandi líkur á því að kærði muni halda brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi.

                Þann 17. febrúar síðastliðinn hafi lögreglustjórinn á Suðurnesjum farið fram á gæsluvarðhald yfir kærða vegna þessara mála og hafi Héraðsdómur Reykjaness úrskurðað í máli R-56/2014 að kærði skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 til dagsins í dag. Fyrrnefndur úrskurður hafi verið kærður til Hæstaréttar Íslands. Þann 24. febrúar síðastliðinn hafi Hæstiréttur staðfest í máli nr. 129/2014 að kærði skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. sakamálalaga nr. 88/2008. Í dómi Hæstaréttar komi fram kærði sé undir rannsókn og grun um að hafa framið líkamsárásir þann 11. ágúst 2013, 10. janúar 2014 og 15. febrúar og 16. febrúar 2014. Einnig hafi verið vísað sakaferil kærða sem fimm sinnum hafi verið dæmdur fyrir líkamsárásir og á árinu 2010 hafi hann hlotið 12 mánaða fangelsisdóm fyrir ránsbrot. Væri því skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fullnægt. Að mati lögreglustjórans á Suðurnesjum hafi ekkert komið fram við rannsókn ofangreindra mála sem breyti mati Hæstaréttar frá dómi nr. 129/2014 frá 24. febrúar síðastliðinn.

                Vísist til gagna málsins, úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness frá 17. febrúar síðast í máli R-56/2014 og dóms Hæstaréttar í málinu nr. 129/2014.

                Sakarefni málanna séu talin varða við 217., 218., 233., gr., 252. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 45. gr. a og 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. 2. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og brot á vopnalögum nr. 16/1998, en brot gegn ákvæðunum geta varðað fangelsi allt að 10 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála síðan 17. febrúar síðastliðinn.

                Samkvæmt framangreindu og rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið þrjár líkamsárásir, tvö eignaspjöll, vopnalagabrot og fíkniefnalagabrot á ríflega tveimur dögum frá 15. febrúar síðastliðinn. Þá bera gögn málsins með sér að kærði eigi allnokkurn sakarferil að baki og hefur frá árinu 2007 verið dæmdur fyrir líkamsárásir, umferðarlagabrot, rán og fíkniefnalagabrot. Í greinargerð lögreglustjóra er rakin brotastarfsemi kærða frá 15. febrúar síðastliðinn. Rannsókn á málum kærða er ólokið í fjórum tilvika en mál er varðar meiriháttar líkamsárás í ágúst 2013 er lokið og hefur verið sent ríkissaksóknara til meðferðar. Við brotum þessum liggur fangelsisrefsing ef sök sannast. Með vísan til rannsóknargagna málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við. Þá þykir mega ætla að kærði haldi brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna. Er því fallist á það með lögreglustjóra að skilyrðum c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé uppfyllt og er krafan tekin til greina, en þó þannig að gæsluvarðhaldi verður markaður skemmri tími en krafist er eins og greinir í úrskurðarorði.  

Úrskurð þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 24. mars nk. kl. 16.00.