Hæstiréttur íslands
Mál nr. 133/2005
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Tilraun
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 6. október 2005. |
|
Nr. 133/2005. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari) gegn Ólafi Lýði Ragnarssyni (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kynferðisbrot. Tilraun. Miskabætur.
Ó var sakfelldur fyrir tilraun til nauðgunar en hann var 24 ára þegar hann framdi brotið. Fallist var á með héraðsdómi að árás hans hafi verið fólskuleg og að hann hafi beitt konuna talsverðu líkamlegu ofbeldi. Hins vegar var við ákvörðun refsingar litið til þess að brotið var ekki fullframið, Ó hafði að eigin frumkvæði komið til lögreglu og gefið skýrslu um brot sitt, og þegar greitt þær miskabætur sem dæmdar voru í héraði. Þegar allt þetta var virt þótti refsing Ó hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 23. mars 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms á sakfellingu en þyngingar á refsingu. Jafnframt er krafist 1.000.000 króna í miskabætur til handa brotaþola auk vaxta og dráttarvaxta eins og í héraðsdómi greinir.
Ákærði lýsti yfir áfrýjun héraðsdóms til mildunar á refsingu og lækkunar á fjárhæð miskabóta. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti féll hann frá kröfu um lækkun miskabóta og unir niðurstöðu héraðsdóms um þær.
Brotaþoli mun þegar hafa fengið greiddar bætur úr ríkissjóði samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms á grundvelli ákvæða laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota og hefur ákærði endurgreitt ríkissjóði bæturnar, sbr. 19. gr. laganna. Verður að skilja miskabótakröfu ákæruvalds hér fyrir dómi þannig að hún lúti að greiðslu á 400.000 króna bótum umfram það sem kveðið var á um í héraðsdómi og ákærði hefur samkvæmt framansögðu að fullu greitt. Með vísan til dómvenju og þess að fram kom í skýrslu Þórunnar Finnsdóttur sálfræðings 26. janúar 2005 að brotaþola hefur tekist vel að vinna úr sálrænum afleiðingum verknaðarins eru ekki efni til að verða við kröfu um að ákveða brotaþola hærri miskabætur en gert var í héraðsdómi.
Í hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir tilraun til nauðgunar og brot hans heimfært undir 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlega nr. 19/1940 eins og henni var breytt með 2. gr. laga nr. 40/1992, sbr. 20. gr. laganna. Ákærði var 24 ára er hann framdi brotið. Fallist er á með héraðsdómi að árás ákærða hafi verið fólskuleg. Þá beitti hann konuna talsverðu líkamlegu ofbeldi. Til þess er hins vegar að líta við ákvörðun refsingar að brotið var ekki fullframið, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 19/1940. Þá kom ákærði að eigin frumkvæði til lögreglu og gaf skýrslu um brot sitt, sbr. 9. tölulið 1. mgr. 74. gr. laganna. Hann hefur og, eins og að framan er rakið, þegar greitt þær miskabætur sem dæmdar voru í héraði. Þegar allt þetta er virt þykir með hliðsjón af fordæmum Hæstaréttar refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins í héraði, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði. Með vísan til 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður ákærði dæmdur til að greiða helming sakarkostnaðar fyrir Hæstarétti, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns brotaþola, að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ólafur Lýður Ragnarsson, sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákærði er sýkn af kröfu um greiðslu frekari miskabóta til handa brotaþola, A.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði, 405.500 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 199.200 krónur og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, 174.300 krónur.
Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins 461.422 krónur, þar með talinn helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur og þóknunar til réttargæslumanns brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 1. febrúar sl., er höfðað með ákæruskjali ríkissaksóknara 18. nóvember 2004 hendur Ólafi Lýð Ragnarssyni, kt. [...], Reykjavík, fyrir tilraun til nauðgunar með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 12. september 2004, við félagsheimilið Aratungu í Árnessýslu, veist að A, kennitala [...], dregið hana á hárinu niður kjallaratröppur, haldið henni þar fastri og reynt að þröngva henni til samræðis.
Er háttsemin talin varða við 194. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992.
Af hálfu A er krafist miskabóta að fjárhæð 1.000.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 og dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 6. gr. vaxtalaga.
Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu verjanda ákærða er þess krafist að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði. Þá er þess krafist að skaðabótakrafa A verði lækkuð.
Fimmtudaginn 16. september 2004 lagði A fram kæru hjá lögreglu á hendur ákærða fyrir tilraun til nauðgunar. Skýrði hún frá því að hún hafi farið í réttir í Biskupstungum laugardaginn 11. september 2004. Það kvöld hafi hún farið á heimili vinkonu sinnar, B. Um miðnætti hafi kærasti A komið þangað ásamt vini sínum. Hópurinn hafi í kjölfarið farið á réttarball í samkomuhúsinu Aratungu. Um kl. 2.00 um nóttina hafi A verið frammi í anddyri í námunda við salerni. Mikil biðröð hafi verið við þau og hún þá ákveðið að pissa utan dyra á bak við samkomuhúsið. Hafi hún farið bak við húsið og sest þar á hækjur sínar, eftir að hafa girt niður um sig sokkabuxur og nærbuxur. Skyndilega hafi komið að henni maður, sem hafi fyrirvaralaust togað í hár hennar og dregið hana á hárinu niður í kjallaratröppur við hlið hússins. Kvaðst hún telja að maðurinn hafi einnig tekið um munn sinn, án þess þó að geta fullyrt að hann hafi haldið um hann á meðan hann hafi dregið hana niður tröppurnar. Á meðan á þessu hafi staðið hafi hún verið með nærbuxur og sokkabuxur á hælum sér og því ekki náð fótfestu. Kvaðst A hafa ,,blokkerast“ en reynt að hugsa hvernig hún gæti komist í burtu. Eftir að hafa verið dröslað niður tröppurnar hafi hún reynt að veita mótspyrnu með því að reyna að setjast og gera sig þunga. Hafi maðurinn haldið um munn hennar og nef svo hún gæti ekki öskrað og hafi henni legið við yfirliði sökum andnauðar. Að auki hafi breitt axlarband á tösku hennar verið fyrir nefi hennar. Hafi maðurinn sagt við hana að hann myndi leyfa henni að anda ef hún yrði stillt. Þá hafi hann sagt henni að beygja sig fram því ,,þá tæki þetta styttri tíma og að hún myndi þá meiða sig minna“. Þetta væru þær setningar sem hún myndi greinilega. Hafi A verið hrædd og í ,,sjokki“, en hún hafi fundið að maðurinn var miklu sterkari en hún. Rödd hans hafi verið skipandi og hafi maðurinn virst vera reiður. Hafi hún gert tilraunir til að bíta í hann og klóra. Þá hafi hún náð í stein sem hún hafi reynt að slá hann með. Kvaðst hún viss um að maðurinn hafi ætlað að nauðga sér. Hafi hann náð að þukla á rassi hennar, en ekki getað þreifað á öðrum stöðum þar sem hún hafi verið í sitjandi stöðu. Manninn hafi hún ekki séð greinilega þar sem hann hafi haldið henni fastri og staðið fyrir aftan hana. Úti hafi verið myrkur en sennilega hafi engin lýsing verið í tröppunum. Kvaðst hún telja að hún hefði ekki haft afl til að veita mótspyrnu öllu lengur þar sem hún hafi verið orðin mjög þreytt. Kvaðst hún ekki gera sér grein fyrir hve lengi maðurinn hafi haldið sér í tröppunum en allt í einu hafi dyravörður komið að þeim og hafi maðurinn þá hlaupið á brott. Hafi hún beðið dyravörðinn um að hjálpa sér. Hafi hún fengið taugaáfall og grátið. Hár hennar hafi verið reitt og tætt, sokkabuxurnar rifnar og hafi eina hugsun hennar verið að komast í burtu. Dyravörðurinn hafi fylgt henni til fundar við kærasta sinn. Hafi hún greint honum frá því er fyrir hafi komið og hafi þau í kjölfarið farið á heimili B. Þangað hafi B komið og hafi hún greint henni frá því er fyrir hana hafi komið. Hafi B farið að Aratungu til að ræða við dyravörðinn um árásina. Næsta dag hafi A farið til Reykjavíkur og í framhaldi af því hafi hún farið á Neyðarmóttökuna. Kvaðst A vera talsvert marin eftir árásina, á handleggjum, hálsi og fótum. Einnig hafi hún verið með talsverðan hálsríg eftir atlöguna. Á sunnudeginum hafi B greint frá því að maðurinn hafi haft samband og að hann vildi ræða við A. Hafi manninum þá verið kunnugt um að dyravörðurinn hafi borið kennsl á hann.
Í rannsóknargögnum málsins liggur frammi skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á A, en skoðunin fór fram á Neyðarmóttöku 12. september 2004. Í skýrslunni kemur fram að A hafi verið útgrátin við komu, í uppnámi en skýr. Hafi hún verið alsett hrufli á útlimum, einkum lærum og handleggjum og merki hafi verið á lærum um að hún hafi verið dregin á maganum eða hliðinni niður steyputröppur. Framkvæmd hafi verið almenn læknisskoðun og áverkar teiknaðir á mynd og ljósmyndaðir. Eftir eigi að koma út fjölmargir marblettir og áverkar.
Við aðalmeðferð málsins greindi A frá atvikum með sama hætti og er hún lagði fram kæru hjá lögreglu. Kvaðst hún ekki gera sér grein fyrir hvort til einhverra orðaskipta hafi komið á milli sín og ákærða í þann mund er ákærði hafi komið að henni. Ef til einhverra orðaskipta hafi komið hafi þau á engan hátt hafa getað orsakað þá atburðarás er í hönd hafi farið. Kvað hún ekki hafa farið milli mála í sínum huga að ákærði hafi haft þá fyrirætlan að nauðga sér í kjallarainnganginum. Kvaðst hún hafa orðið mjög myrkfælin eftir atburðina og t.a.m. ekki getað verið ein að kvöldi til. Auk þess hafi hún sofið mjög illa og átt erfitt með einbeitingu. Hafi sér þótt mjög óþægileg sú tilhugsun að vita til þess að ákærði hafi eftir atburðina verið að reyna að ná sambandi við sig.
Í skýrslu Þórunnar Finnsdóttur sálfræðings kemur fram að A hafi mætt í 6 viðtöl hjá sálfræðingnum, það fyrsta þrem dögum eftir árásina. Hafi hún ekki verið fær um að slaka á síðan atburðir hafi átt sér stað, en hún hafi upplifað mikla ógnun og ótta. Myndir frá því er átt hafi sér stað hafi leitað stöðugt á hana, hún verið í stöðugri varnarstöðu og hrokkið til við minnsta áreiti. Hafi hún verið lystarlaus, átt erfitt með að kyngja, verið með verk í maga og kastað upp. Hafi hún fundið fyrir stöðugum verkjum í líkamanum. Tilfinningar hafi sveiflast á milli depurðar, reiði og tómleikatilfinningar. Hafi hún átt erfitt með að einbeita sér og verið hrædd við einveru. Þau einkenni samsvari greiningarviðmiðunum bráðastreitu. Smám saman hafi dregið úr hinum sálrænu einkennum hjá A. Tveim vikum eftir árásina hafi hún enn verið myrkfælin og hafi atburðurinn leitað daglega á huga hennar og valdið óþægindum. Sex vikum eftir atburði hafi A fengið bakslag eftir ofsahræðslukast sem hún hafi vaknað upp við um miðja nótt. Hafi það komið til þar sem eitthvað hafi lagst yfir vit hennar og hún endurupplifað köfnunartilfinningu. Eftir viðtal 9. nóvember 2004 hafi ekki verið talin þörf á frekari sálfræðimeðferð, þar sem A hafi tekist að vinna vel úr sálrænum afleiðingum árásarinnar. A hafi síðan mætt í viðtal 24. janúar 2005, en hún hafi nokkrum dögum áður fengið tilkynningu um réttarhöld í máli hennar. Hafi henni verið mjög brugðið og verið gagntekin kvíða og stöðugri spennu, sem hafi birst í eirðarleysi, einbeitingarleysi og svefnleysi. Til að meta áhrif áfallsins á hlutlægan hátt hafi verið notaður IES kvarði, sem mæli þrjár víddir áfallastreituröskunar. Hafi hin sálrænu einkenni samsvarað einkennum sem séu þekkt í kjölfar alvarlegra áfalla. Sálfræðimeðferð hafi skilað góðum árangri, en þar hafi bjargráð A skipt verulegu máli.
Þriðjudaginn 14. september 2004 mætti ákærði á lögreglustöðina í Reykjavík. Kvaðst hann þangað kominn að eigin frumkvæði til að gefa skýrslu vegna ,,ódæðis“ sem hann hefði framið á dansleik í Aratungu aðfaranótt 12. september 2004. Er haft eftir ákærða að hann hafi verið á réttardansleik og hafi hann verið talsvert undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Kvaðst hann minnast þess að hafa verið staddur fyrir utan samkomuhúsið þegar hann hafi rekist á stúlku er hafi verið ein á ferð. Hana hafi ákærði ekki þekkt. Kvaðst ákærði telja að hann hafi ekkert talað við stúlkuna en kvaðst minnast þess að hafa ráðist á hana og togað í hár hennar, auk þess sem hann hafi lamið hana. Kvaðst hann hafa dregið stúlkuna á hárinu niður í niðurgrafinn inngang á bakhlið samkomuhússins og að hann hafi þar sagt henni þá fyrirætlan sína að nauðga henni. Kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa káfað á henni kynferðislega eða reynt að taka hana úr fötum. Til einhverra átaka hafi komið á milli hans og stúlkunnar sem hafi endað er dyravörður hafi komið að. Við það hafi ákærði lagt á flótta. Kvaðst hann viss um að hann hafi ekki komið fram vilja sínum kynferðislega, en kvað hugsanlegt að stúlkan gæti verið með töluverða áverka eftir sig. Þriðjudaginn 5. október 2004 var ákærði boðaður í skýrslutöku hjá lögreglu. Við þá skýrslugjöf kvaðst hann vilja vísa í fyrri skýrslu sína hjá lögreglu um atvik en þó vilja bæta því við að hann hafi haft í hótunum við stúlkuna en kvaðst ekki muna í hverju hótanirnar hafi verið fólgnar. Kvaðst ákærði þó viss um að hann hafi ekki nauðgað stúlkunni og ekki káfað á henni kynferðislega.
Fyrir dómi skýrði ákærði frá atvikum með þeim hætti að hann hafi verið illa á sig kominn að kvöldi laugardagsins 11. september 2004, sökum þreytu og mikillar áfengis- og fíkniefnaneyslu. Hafi ákærða liðið illa inni í samkomuhúsinu og því ákveðið að fara út úr húsinu. Er ákærði hafi komið fyrir horn samkomuhússins hafi hann séð stúlku vera að pissa undir húsvegg. Hafi ákærði vikið sér að henni, en við það hafi stúlkan tryllst og hrópað á ákærða að ,,drulla sér burt“. Hafi ákærði við þessar aðstæður ,,tapað sér“ og ráðist á stúlkuna. Hafi hann rifið í hár hennar og sagt henni að slíkan munnsöfnuð viðhefðu menn ekki. Hafi ákærði viljað hræða stúlkuna og með því ná sér niður á henni. Í þeim tilgangi hafi hann rifið í hár hennar og dregið hana að og niður kjallaratröppur á bakhlið hússins. Á þeim tíma hafi stúlkan verið með buxurnar á hælum sér en þær hafi hún ekki náð að draga upp. Fyrir neðan stigann hafi ákærði ýtt stúlkunni niður og um leið hafi hann haldið um hár hennar. Kvað ákærði sér ekki ljóst í hvaða tilgangi hann hafi farið með stúlkuna niður tröppurnar. Hafi engin orðaskipti átt sér stað á milli þeirra, en stúlkan hafi öskrað og hrópað á hjálp. Hafi ákærði þá ætlað að láta staðar numið og hafi hann reynt að fá stúlkuna til að hætta að öskra. Í þeim tilgangi hafi hann haldið henni niðri í horni fyrir neðan tröppurnar. Er hún hafi ekki látið af öskrum hafi hann séð að hún myndi ekki hætta og að hann yrði að leggja á flótta. Í sama mund hafi dyravörður komið fyrir horn samkomuhússins. Eftir að hafa hlaupið burt hafi ákærði farið heim til bróður síns, þar hann hafi lagst upp í rúm og sofnað. Kvaðst ákærði gera sér grein fyrir að hann hafi gengið of langt í atlögu sinni gagnvart stúlkunni. Hafi hann hins vegar lent í vandræðum við að koma sér út úr þeirri stöðu er upp hafi verið komin. Sér hafi liðið illa eftir þessa atburði og af þeim ástæðum hafi hann ákveðið að fara að eigin frumkvæði til lögreglu til að greina frá atvikum. Ákærði kvaðst hafa reynt að ná sambandi við A fyrir tilstilli B til að fá upplýsingar um líðan A, auk þess sem hann hafi ætlað að reyna að ,,leysa málið“. Fyrir dómi kvað ákærði rangt eftir sér haft í lögregluskýrslu 14. september 2004. Kvaðst hann efast um að hann hafi við það tilefni sagt að hann hafi ætlað að nauðga A, þó svo hann hafi látið ýmislegt flakka í viðræðum við hana. Þá kvaðst ákærði við yfirheyrslur lögreglu 5. október 2004 ekki hafa lesið fyrri lögregluskýrslu sína vel áður en hann hafi gefið yfirlýsingu um tilvísun í hana. Ákærði kvað rangt hjá A að hann hafi skipað henni að beygja sig fram í tröppunum. Hins vegar kvaðst hann viðurkenna að hafa þvingað hana niður. Þá kvaðst ákærði vilja taka fram að hann hafi verið lagður af stað á flótta er dyravörðurinn hafi komið að tröppunum.
G kvaðst hafa starfað sem dyravörður á réttardansleik í Aratungu aðfaranótt sunnudagsins 12. september 2004. Eftir miðnætti hafi vitnið farið venjubundna eftirlitsferð umhverfis samkomuhúsið. Fyrir aftan húsið hafi vitnið heyrt öskur, en hrópað hafi verið eftir hjálp. Öskrin hafi komið frá niðurgröfnum inngangi í kjallara samkomuhússins. Þegar vitnið hafi komið að grindverki við tröppurnar hafi það kallað. Í því hafi ungur maður, sem vitnið hafi kannast við frá fyrri tíð, litið upp. Er hann hafi orðið mannaferðanna var hafi hann hlaupið í burtu. Tók vitnið sérstaklega fram að maðurinn hafi ekki lagt á flótta fyrr en vitnið hafi beint orðum til hans. Í tröppunum hafi verið stúlka er hafi kallað til vitnisins og beðið um hjálp. Hafi vitnið ákveðið að hjálpa frekar stúlkunni heldur en að hlaupa á eftir manninum. Stúlkan hafi verið í miklu ,,sjokki“ og grátandi er vitnið hafi komið að henni. Hafi hún sagt að maðurinn hafi dregið sig á hárinu niður í kjallarainnganginn og að hann hafi ætlað að nauðga sér þar. Kvaðst vitnið hafa veitt því athygli að buxur stúlkunnar hafi verið dregnar niður. Vitnið hafi aðstoðað hana við að náð sambandi við sitt samferðafólk. Síðar um nóttina hafi vitnið, ásamt B, farið heim til bróður ákærða þar sem ákærði hafi verið sofandi.
B kvaðst hafa komið heim af réttardansleiknum í Aratungu um kl. 3.00 aðfaranótt 12. september. A hafi verið þar útgrátin og illa haldin að öllu leyti. Eftir að A hafi greint frá því er fyrir hafi komið hafi vitnið farið að samkomuhúsinu í Aratungu og rætt við G, dyravörð. Hafi G þegar látið upp það álit sitt að ákærði væri sennilega sá er ráðist hafi á A. Hafi vitnið og G farið heim til bróður ákærða og fundið þar ákærða sofandi uppi í rúmi. Hafi G borið kennsl á ákærða sem þann mann er ráðist hafi á A. Ákærði hafi haft samband á sunnudeginum 12. september og leitað eftir því að fá að ræða við A. Hafi vitninu fundist beiðnin óþægileg.
Arnar Hauksson læknir staðfesti fyrir dómi skýrslu sína um réttarlæknisfræðilega skoðun á A og Þórunn Finnsdóttir sálfræðingur staðfesti sálfræðiskýrslu sína varðandi A. Loks staðfesti Guðni Pétursson lögreglumaður þátt sinn í rannsókn málsins. Kvað hann lögregluskýrslur hafa að geyma þá lýsingu á atvikum er ákærði hefði sjálfur gefið.
Niðurstaða:
A hefur fyrir dómi lýst hvernig ákærði hafi dregið sig á hárinu, með nærbuxur og sokkabuxur um ökkla, niður niðurgrafinn kjallarainngang á bakhlið samkomuhússins í Aratungu. Þar hafi ákærði haldið sér nauðugri og þvingað sig til að beygja sig niður. Á sama tíma hafi hann haldið fyrir vit sín, en það hafi leitt til þess að hún hafi átt mjög erfitt með að draga andann. Hafi þróttur hennar farið þverrandi og hún verið við að gefast upp er dyravörður hafi gengið fram á þau, en það hafi leitt til þess að ákærði hafi flúið af vettvangi. Hefur A lýst þeirri skelfingu er hún hafi búið við allan þennan tíma og hvernig hún hafi barist um og hrópað á hjálp og reynt að varna því að ákærði næði að beita sig kynferðislegu ofbeldi. Ákærði hefur að sama skapi lýst háttsemi sinni þessa nótt. Hefur hann borið því við að hann hafi ,,tapað sér“, dregið A á hárinu niður tröppurnar og haldið henni þar. Er frásögn hans fyrir dómi ekki að öllu leyti í samræmi við skýrslu hjá lögreglu í kjölfar atburða, en þar skýrði hann frá því að hann hafi hrópað að A að hann ætlaði að nauðga henni. Fyrir það hefur hann synjað fyrir dómi.
A hefur verið trúverðug í frásögn sinni af atburðum. Hefur hún gefið einkar greinargóða lýsingu á atburðarásinni, sem hefur að öllu leyti verið samhljóða hjá lögreglu og fyrir dómi. Skýrslugjöf hennar fyrir dómi bar þess glögg merki að hún hafi orðið fyrir erfiðri lífsreynslu. Það framferði ákærða, að draga A á hárinu, klæðalausa að neðan, á afvikinn stað þar sem mannaferða var síst von, ber skýr merki um að fyrir honum hafi vakað að beita hana kynferðislegu ofbeldi. Til átaka hefur komið á milli þeirra, en A bar umtalsverða yfirborðsáverka á fótum og handleggjum eftir atlöguna. Vitnum ber saman um að A hafi borið þess augljós merki að hafa orðið fyrir harðskeyttri árás. Verður ekki við annað miðað en að tilviljun hafi ráðið því að ákærða tókst ekki ætlunarverk sitt, en með framburði A og vitnisins G er í ljós leitt að ákærði hafi ekki látið af atlögu sinni fyrr en hann varð mannaferða var. Sálfræðivottorð Þórunnar Finnsdóttur sálfræðings ber með sér að A hafi átt við sálræna erfiðleika að stríða eftir atburðina. Að mati dómsins var árás ákærða til þess fallin að vekja hjá A ótta um velferð sína og kynfrelsi. Með hliðsjón af þessu verður talið sannað að fyrir ákærða hafi vakað að þröngva A til samræðis í kjallarainnganginum, en að hann hafi horfið frá þeim áformum sínum vegna utanaðkomandi truflunar. Var háttsemi ákærða greint sinn tilraun til nauðgunar, sem felld er undir 1. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. laganna.
Ákærði er fæddur 1980. Á sakavottorð er getið sátta og viðurlagaákvarðana vegna brota á umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Skipta úrlausnir þessar ekki máli fyrir niðurstöðu um refsingu í þessu máli. Fyrir dóminn hafa verið lagðar ljósmyndir af samkomuhúsinu í Aratungu og nánasta umhverfi þess. Árás ákærða var fólskuleg, en honum var ljóst að A átti erfitt um varnir í þeirri stöðu er hún var í með nærbuxur og sokkabuxur um ökkla. Aðfarir ákærða fólu í sér mikið líkamlegt ofbeldi, en hann hefur dregið A á hárinu talsverðan spöl, þar til að tröppum að kjallarainnganginum var komið og síðan hefur hann þröngvað henni niður tröppurnar. A hefur átt erfitt uppdráttar eftir árásina, þó svo líðan hennar sé nú betri. Að engu leyti afsakar það gerðir ákærða að hann skyldi sýna það frumkvæði að tilkynna lögreglu um verknaðinn, enda gerði hann þar minna úr framferði sínu en efni stóðu til. Í ljósi eðlis brots ákærða og afleiðinga er refsing hans ákveðin fangelsi í 2 ár.
Helga Leifsdóttir héraðsdómslögmaður hefur krafist þess fyrir hönd A, að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna auk vaxta. Til stuðnings miskabótakröfunni er vísað til þess að A hafi upplifað mikla reiði í garð ákærða fyrir að hafa ráðist á hana. Andlegar, líkamlegar og félagslegar afleiðingar árásarinnar fyrir A hafi verið gríðarlegar, sem ekki sjái fyrir endann á, en þær séu alfarið á ábyrgð ákærða. Ákærði hafi með athöfnum sínum brotið gróflega gegn líkama, persónu og kynfrelsi A, með þeim stórfelldu neikvæðu afleiðingum sem jafnvel muni fylgja henni alla ævi. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Hin harða atlaga ákærða að A hefur valdið henni miska, svo sem sálfræðivottorð Þórunnar Finnsdóttur ber með sér. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Þykja þessar bætur hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Þá fjárhæð greiði ákærði A, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 12. september 2004 til 5. nóvember 2004, en dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Í ljósi niðurstöðu málsins greiði ákærði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, sem og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, svo sem í dómsorði er kveðið á um.
Af hálfu ákæruvalds flutti málið Ragnheiður Harðardóttir saksóknari.
Símon Sigvaldason héraðsdómari, sem dómsformaður, kvað upp dóminn ásamt meðdómendunum Arnfríði Einarsdóttur og Páli Þorsteinssyni héraðsdómurum.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Ólafur Lýður Ragnarsson, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærði greiði A, kt. [...], 600.000 krónur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 12. september 2004 til 5. nóvember 2004, en dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 160.000 krónur, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, 140.000 krónur.