Hæstiréttur íslands

Mál nr. 644/2017

Þrotabú Harlem ehf. (Diljá Mist Einarsdóttir lögmaður)
gegn
Coca - Cola European Partners Ísland ehf. (Heimir Örn Herbertsson lögmaður), Dagnýju Ósk Aradóttur og Steindóri Grétari Jónssyni (Árni Ármann Árnason lögmaður)

Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Óvenjulegur greiðslueyrir
  • Ábyrgð

Reifun

Fallist var á kröfu þrotabús H ehf. um riftun á greiðslu félagsins til C ehf. að tiltekinni fjárhæð. Var talið að greiðslan hefði verið innt af hendi með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og að C ehf. hefði ekki sýnt fram á að greiðslan hefði virst venjuleg eftir atvikum. Þá var einnig fallist á kröfu þrotabús H ehf. um að C ehf., D og S yrði óskipt gert að endurgreiða fjárhæðina, enda þótti C ehf. ekki hafa sýnt fram á að atvikum væri þannig háttað að því hefði tekist að fá fullnustu kröfunnar, án tillits til gjaldþrotaskiptanna, ef greiðslan hefði ekki verið innt af hendi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Sigurður Tómas Magnússon landsréttardómari og Skúli Magnússon héraðsdómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. október 2017. Hann krefst þess að rift verði greiðslu 25. júní 2014 á skuld Harlem ehf. við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. að fjárhæð 12.451.379 krónur. Hann krefst þess einnig að stefndu verði óskipt gert að greiða sér aðallega þá fjárhæð með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. júní 2014 til greiðsludags, en til vara 3.061.450 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt sama lagaákvæði af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 15. júlí 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast hvert fyrir sitt leyti staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins gerðu stefndu Dagný Ósk Aradóttir Pind og Steindór Grétar Jónsson fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags samning 24. nóvember 2012 við Þýska barinn ehf. um kaup á rekstri síðarnefnda félagsins að Tryggvagötu 22 í Reykjavík, en þar mun það hafa starfrækt samnefnt veitingahús. Eftir samningnum tóku kaupin meðal annars til innréttinga í húsnæðinu, tækja og lausafjármuna, en að auki var þess getið að eigandi húsnæðisins hafi samþykkt að gera nýjan leigusamning um það við væntanlegt félag stefndu. Kaupverðið skyldi nema samtals 13.500.000 krónum, en þar af átti að greiða 405.849 krónur með peningum 26. nóvember 2012, 7.500.000 krónur með yfirtöku viðskiptaskuldar við Vífilfell hf., sem nú ber heiti stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf., og 5.594.151 krónu með yfirtöku skuldar við leigusala húsnæðisins, Eik fasteignafélag hf.

Áður en framangreindur kaupsamningur var gerður höfðu stefndu Dagný og Steindór gert fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags samning 20. nóvember 2012 við Eik fasteignafélag hf. um leigu á húsnæðinu að Tryggvagötu 22, en samkvæmt fyrirsögn hans var hann „viðaukasamningur við leigusamning“. Þar var húsnæðinu lýst sem veitinga- og skemmtistað á jarðhæð og í kjallara, en húsaleiga skyldi greidd 1. hvers mánaðar og fjárhæð hennar bundin vísitölu neysluverðs. Í samningnum voru ekki ákvæði um leigutíma, en á hinn bóginn tekið fram að leigutakinn nyti forleiguréttar að honum loknum. Lagt var bann við framsali leiguréttar án samþykkis leigusala og skyldi það sama eiga við um eigendaskipti að hlutum í leigutakanum. Þá voru ákvæði í samningnum um heimild leigusala til riftunar vegna vanefnda leigutaka, auk þess sem tekið var fram að samningurinn félli úr gildi ef leigutakinn yrði tekinn til gjaldþrotaskipta eða leitaði nauðasamnings. Samningi þessum var þinglýst 23. október 2013.

Félagið, sem stefndu Dagný og Steindór gerðu framangreinda samninga fyrir, var eftir gögnum málsins stofnað 24. nóvember 2012 og fékk það heitið Harlem ehf. Samkvæmt tilkynningu um stofnun félagsins, sem barst fyrirtækjaskrá 3. desember sama ár, voru stefndu Dagný og Steindór stofnendur og var tilgangur þess sagður vera rekstur kráa og dansstaða ásamt almennri veitingasölu og þjónustu, svo og lánastarfsemi og kaup og sala fasteigna. Hlutafé var 500.000 krónur. Tilgreint var að í stjórn félagsins hefðu verið kjörnir Villý Þór Ólafsson sem formaður og stefndi Steindór sem meðstjórnandi, en sá fyrrnefndi mun á þessum tíma hafa verið sambúðarmaður stefndu Dagnýjar. Þá var henni veitt prókúruumboð fyrir félagið ásamt stefnda Steindóri, sem gegna átti stöðu framkvæmdastjóra þess.

Harlem ehf. gerði 12. desember 2012 ýmsa samninga við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf., sem sneru að rekstri veitingastaðarins að Tryggvagötu 22. Þar var í fyrsta lagi um að ræða viðskiptasamning, sem marka átti ramma um vörukaup Harlem ehf. af stefnda til endursölu á veitingastaðnum, og átti hann að gilda til fimm ára, en í honum voru meðal annars ákvæði um vanefndir, sem heimilað gætu riftun hans. Í annan stað var gerður svonefndur samningur um þjónustuvörur, en með honum tók stefndi að sér að leggja Harlem ehf. endurgjaldslaust til bjórdælur, gosvélar, kæla og klakavélar til að nota fyrir vörur frá stefnda. Í þriðja lagi voru gerðir samningar um viðskiptakjör, þar sem annars vegar var kveðið á um afslætti, sem Harlem ehf. skyldi njóta við kaup á vörum frá stefnda, og hins vegar um ráðstöfun á afsláttunum, sem verja ætti til greiðslu á skuldum félagsins við stefnda samkvæmt lánssamningi og vegna vöruúttekta. Í fjórða lagi var um að ræða samstarfssamning um markaðsráðstafanir, en samkvæmt honum skuldbatt Harlem ehf. sig meðal annars til að láta starfsmenn sína nota við vinnu sína fatnað, sem bæri vörumerki stefnda, koma fyrir auglýsingaskiltum með vörumerkjum stefnda innanhúss og utan, hafa vörur frá stefnda sýnilegar á veitingastaðnum og standa að kynningum á þeim. Fyrir þetta skyldi stefndi greiða tilteknar fjárhæðir að minnsta kosti einu sinni á ári. Í fimmta lagi var gerður samningur um lán stefnda til Harlem ehf. að fjárhæð 12.000.000 krónur, sem skyldi endurgreitt á fimm árum með jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti. Í samningnum var ekki mælt fyrir um að lánið bæri vexti að öðru leyti en því að greiða ætti dráttarvexti yrði afborgun ekki innt af hendi innan fimmtán daga frá gjalddaga. Greiða skyldi afborganir með peningum, en Harlem ehf. var þó heimilað að standa skil á þeim með afsláttum af vörukaupum frá stefnda. Þá var tekið fram að yrðu eigendaskipti að veitingastað félagsins bæri því að tryggja að kaupandi tæki við skyldum þess samkvæmt samningnum, en félagið skyldi ábyrgjast efndir kaupandans á honum þar til stefndi leysti það undan þeirri ábyrgð með sérstakri yfirlýsingu. Tækist félaginu ekki að tryggja þetta væri stefnda heimilt að gjaldfella eftirstöðvar lánsins, sem bæri þá að greiða upp innan 30 daga. Auk þessara samninga rituðu stefndu Dagný og Steindór undir yfirlýsingu um óskipta sjálfskuldarábyrgð sína á öllum skuldum Harlem ehf. við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. að fjárhæð allt að 15.000.000 krónur, sem bundin yrði vísitölu neysluverðs með tiltekinni grunntölu.

Samhliða framangreindum samningum gerðu Harlem ehf., stefndi Coca-Cola European Partners Ísland ehf. og Eik fasteignafélag hf. 12. desember 2012 svonefndan viðaukasamning við leigusamning. Í samningi þessum var mælt svo fyrir að aðilar hans væru samþykkir því að þessum stefnda yrði heimilt „að yfirtaka öll réttindi leigutaka hvað varðar leigusamning ... komi til þess að leigusamningnum verði rift, hann ógiltur eða honum sagt upp vegna a) vanskila, riftunar, ógildingar eða uppsagnar á viðskiptasamningi, b) riftunar, ógildingar eða uppsagnar á leigusamningi, eða c) verði gert árangurslaust fjárnám í búi leigutaka á leigutímanum.“ Kæmi til verulegra vanefnda á skyldum Harlem ehf. við stefnda samkvæmt viðskiptasamningi þeirra skyldu þær „jafngilda verulegri vanefnd á leigusamningi aðila sem heimilar leigusala riftun“ og bæri leigusala eftir kröfu stefnda að rifta leigusamningi af þeim sökum. Yrði leigusamningnum sagt upp eða rift á þennan hátt að frumkvæði stefnda skyldi hann ábyrgjast frá þeim tíma greiðslu húsaleigu til leigusala þar til hann fengi húsnæðið afhent á ný. Segði á hinn bóginn leigusali upp leigusamningnum eða rifti skyldi stefndi ekki bera slíka ábyrgð nema hann neytti heimildar til að yfirtaka réttindi leigutaka. Tæki stefndi yfir leigusamninginn á framangreindan hátt skyldi hann sem leigutaki njóta sömu kjara og mælt væri fyrir um í samningnum. Yrði stefnda jafnframt heimilt að framselja réttindi sín sem leigutaki til þriðja manns til að hafa þar sambærilegan rekstur og húsnæðið væri nýtt til og skyldi þá stefndi losna undan skuldbindingum sínum við leigusala, en slíkt framsal yrði þó háð samþykki leigusala, sem skylt væri að veita nema til kæmu „haldgóðar ástæður til að synja“. Eintakið af þessum samningi, sem liggur fyrir í málinu, ber með sér að hann hafi verið afhentur sýslumanni til þinglýsingar 20. desember 2012, en hafi síðan á ótilgreindum degi verið áritaður af Eik fasteignafélagi hf. um að fallið væri frá ósk um þinglýsingu, sem varð þannig ekki af.

Í málinu liggja ekki fyrir reikningsskil eða önnur gögn um rekstur eða afkomu Harlem ehf. á tímabilinu eftir að framangreindir samningar voru gerðir. Fyrirtækjaskrá var tilkynnt 1. apríl 2014 að stefndi Steindór hefði látið af störfum sem framkvæmdastjóri Harlem ehf. og jafnframt vikið úr sæti aðalmanns í stjórn félagsins, en þess í stað orðið varamaður í henni. Fyrrnefndur Villý Þór Ólafsson yrði áfram stjórnarmaður í félaginu, tæki við starfi framkvæmdastjóra og væri honum veitt prókúruumboð fyrir það. Hann undirritaði sama dag af hálfu Harlem ehf. samning við félagið 22 niðri ehf. um kaup þess á rekstri Harlem ehf. að Tryggvagötu 22. Þar kom fram að kaupin næðu meðal annars til allra vörubirgða, innréttinga og tækja í eigu seljanda á veitingastaðnum, svo og að seljandinn hefði greitt upp allar skuldir við leigusala, sem hefði samþykkt kaupandann sem nýjan leigutaka og myndi gera húsaleigusamning við hann. Kaupverð var samtals 24.000.000 krónur, en þar af átti að greiða 1. og 2. apríl 2014 alls 4.369.807 krónur með innborgunum á bankareikning Harlem ehf. Að öðru leyti átti kaupandinn að greiða kaupverðið með því að taka yfir skuldir seljandans við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf., 12.451.379 krónur, leigusalann Eik fasteignafélag hf., 3.720.272 krónur, og Sánd ehf., 3.458.542 krónur. Afhenda átti veitingastaðinn nýjum eiganda samdægurs, en kaupverð skyldi að fullu greitt 2. maí 2014. Í málinu hefur komið fram að Sánd ehf. hafi verið í eigu stefnda Steindórs og átt kröfu á hendur Harlem ehf. vegna hljóðkerfis, sem hafi verið notað á veitingastaðnum, svo og að fyrrgreind skuld Harlem ehf. við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf., sem 22 niðri ehf. tók að sér að greiða, hafi annars vegar átt rætur að rekja til vörukaupa Harlem ehf., 3.716.658 krónur, og hins vegar til eftirstöðva skuldar samkvæmt áðurnefndum lánssamningi, 8.734.721 króna.

Eftir framangreind kaup gerði 22 niðri ehf. 25. júní 2014 ýmsa samninga við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf., sem að efni til voru hliðstæðir áðurnefndum samningum Harlem ehf. við þann sama frá 12. desember 2012. Meðal þeirra var samningur um lán stefnda til 22 niðri ehf. að fjárhæð 12.245.816 krónur. Telur áfrýjandi að með láni þessu hafi verið gerð upp skuld Harlem ehf. við stefnda að fjárhæð 12.451.379 krónur, sem 22 niðri ehf. hafði skuldbundið sig til að taka yfir með kaupsamningnum við Harlem ehf. frá 1. apríl 2014.

Samkvæmt gögnum málsins barst héraðsdómi 28. október 2014 krafa frá Gildi lífeyrissjóði um að bú Harlem ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta, en árangurslaust fjárnám mun hafa verið gert hjá félaginu 15. september sama ár. Krafa þessi var tekin til greina með úrskurði 7. janúar 2015 og gaf skiptastjóri út innköllun til lánardrottna, sem birt var fyrra sinni 15. sama mánaðar. Innan kröfulýsingarfrests, sem lauk þannig 15. mars 2015, bárust skiptastjóra kröfur að fjárhæð samtals 20.481.609 krónur. Á fyrsta skiptafundi í áfrýjanda, sem haldinn var 31. mars 2015, kom meðal annars fram að engar eignir hefðu fundist við skiptin, en skiptastjóri teldi á hinn bóginn hugsanlegt að rifta greiðslum, sem Harlem ehf. hafi innt af hendi í tengslum við sölu á rekstri sínum. Hefði verið leitað eftir því hvort Gildi lífeyrissjóður myndi vegna eignaleysis áfrýjanda takast á hendur ábyrgð á kostnaði af rekstri riftunarmála, en svar hefði ekki enn fengist við því og var skiptafundi við svo búið frestað til 24. apríl 2015. Ekki liggja fyrir í málinu frekari gögn um svör lífeyrissjóðsins við málaleitan áfrýjanda, en skiptastjóri beindi á hinn bóginn yfirlýsingu til stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. 10. ágúst 2015 um riftun á greiðslu skuldar Harlem ehf. við hann að fjárhæð 12.451.379 krónur, sem hann hafi fengið með yfirtöku 22 niðri ehf. á skuldinni. Því andmælti sá stefndi með bréfi 2. september 2015 og höfðaði áfrýjandi í kjölfarið mál þetta 25. og 28. sama mánaðar.

II

Svo sem lýst var að framan mun áfrýjandi ekki hafa átt eignir við lok kröfulýsingarfrests til að standa straum af kostnaði af rekstri þessa máls á hendur stefndu og taldi skiptastjóri sig réttilega þurfa af þeim sökum að leita eftir ábyrgð eins eða fleiri lánardrottna áfrýjanda til að láta verða af málsókn. Skiptastjóri átti þess því ekki kost að höfða málið fyrr en slík ábyrgð hafði fengist, en ljóst er af áðursögðu að það hafi ekki gerst fyrr en eftir skiptafund 31. mars 2015. Málið var þannig höfðað innan sex mánaða frá því að ábyrgð lá fyrir og þar með innan þess frests, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Samkvæmt kaupsamningi Harlem ehf. við 22 niðri ehf. 1. apríl 2014 átti síðarnefnda félagið að greiða hluta af kaupverði veitingastaðarins að Tryggvagötu 22 með því að taka að sér skuld þess fyrrnefnda við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. að fjárhæð 12.451.379 krónur. Í málinu liggur ekkert fyrir um að þessi stefndi hafi samþykkt slíka skuldskeytingu áður en hann gerði fyrrgreinda samninga við 22 niðri ehf. 25. júní 2014. Hann hefur ekki mótmælt þeirri staðhæfingu áfrýjanda að 22 niðri ehf. hafi staðið við þessa skuldbindingu sína með því að gera við hann lánssamning síðastnefndan dag. Líta verður svo á að með þessari ráðstöfun hafi þessi stefndi fengið uppgerða skuld Harlem ehf. við sig að fjárhæð 12.451.379 krónur. Greiðsla þessi fór þannig fram innan sex mánaða fyrir frestdag við gjaldþrotaskipti á áfrýjanda, sem var eins og fyrr segir 28. október 2014. Greiðsla, sem fengin er með viðtöku greiðsluskuldbindingar þriðja manns, verður að teljast innt af hendi með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Standa atvik í málinu ekki til þess að líta svo á að greiðslan, sem áfrýjandi leitar eftir að fá rift, hafi virst venjuleg eftir atvikum, en um það hefur stefndi Coca-Cola European Partners Ísland ehf. sönnunarbyrði. Er því fullnægt skilyrðum þessa lagaákvæðis til að verða við kröfu áfrýjanda um riftun greiðslunnar.

Í málinu liggur ekki annað fyrir en að greiðslan, sem innt var af hendi í framangreindu horfi, hafi orðið stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. að notum, þótt enn virðist ekki hafa reynt á hvort 22 niðri ehf. muni að fullu gera skil á skuld sinni samkvæmt lánssamningi þeirra frá 25. júní 2014, sem ekki er að öllu leyti komin í gjalddaga eftir ákvæðum hans. Þegar metið er samhliða þessu hvort greiðslan hafi valdið áfrýjanda tjóni, sbr. 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, verður að gæta að því að stefndi Coca-Cola European Partners Ísland ehf. naut samkvæmt fyrrgreindum lánssamningi við Harlem ehf. frá 12. desember 2012 réttar til að gjaldfella kröfu sína ef eigendaskipti yrðu að veitingastað síðarnefnda félagsins án þess að því tækist að tryggja að nýr eigandi tæki þá skuld að sér. Eftir samningi stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. við Harlem ehf. og Eik fasteignafélag hf. frá sama degi hefði stefndi undir þeim kringumstæðum getað brugðist við greiðslufalli Harlem ehf. með því að knýja fram riftun á leigusamningi um húsnæðið, þar sem félagið rak veitingastað sinn, taka yfir réttindi sem leigutaki að húsnæðinu og ráðstafa því síðan til nýs leigjanda, eftir atvikum með áskilnaði um sérstaka greiðslu úr hendi hans. Með þessu naut þannig stefndi Coca-Cola European Partners Ísland ehf. á óbeinan hátt eins konar tryggingar fyrir greiðslu kröfu sinnar. Fram hjá því verður á hinn bóginn ekki litið að kaupsamningur Harlem ehf. við 22 niðri ehf. frá 1. apríl 2014 náði að vísu meðal annars til aðstöðu til að reka veitingahús að Tryggvagötu 22, sem háð var tilvist húsaleigusamnings, en að öðru leyti til margvíslegra lausafjármuna og óefnislegra verðmæta, sem ekki tengdust því húsnæði sérstaklega. Í þeim munum og verðmætum naut stefndi Coca-Cola European Partners Ísland ehf. engra tryggingarréttinda. Í ljósi ákvæðis 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 verður þessi stefndi að bera sönnunarbyrði fyrir því hvort eitthvað og þá eftir atvikum hversu mikið af 24.000.000 króna kaupverðinu samkvæmt samningnum frá 1. apríl 2014 hafi komið fyrir aðstöðu í skjóli húsaleigusamningsins, sem hann hafði þó ekki einn forræði á óháð afstöðu leigusalans Eikar fasteignafélags hf. Þá sönnunarbyrði hefur stefndi að engu leyti axlað. Að öllu framangreindu virtu verður því að taka til greina aðalkröfu áfrýjanda um að þessum stefnda verði gert að greiða honum 12.451.379 krónur. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 getur sú krafa ekki borið dráttarvexti fyrr en að liðnum mánuði frá því að áfrýjandi krafðist fyrst greiðslunnar með áðurnefndu bréfi 10. ágúst 2015 og verða þeir vextir því dæmdir eins og í dómsorði greinir.

Eins og fyrr var rakið efndi 22 niðri ehf. ekki skuldbindingu sína samkvæmt kaupsamningnum frá 1. apríl 2014 til að taka að sér skuld Harlem ehf. við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. með því að gerast nýr skuldari samkvæmt lánssamningnum milli síðargreindu félaganna tveggja frá 12. desember 2012, heldur gerði 22 niðri ehf. nýjan lánssamning við þennan stefnda 25. júní 2014 og greiddi þannig upp skuld Harlem ehf. Eftir ákvæðum lánssamningsins frá 12. desember 2012 bar Harlem ehf. enga ábyrgð á kröfu stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. á hendur 22 niðri ehf. samkvæmt yngri lánssamningnum. Stefndu Dagný og Steindór losnuðu af þessum sökum undan skuldbindingum sínum samkvæmt fyrrnefndri yfirlýsingu frá 12. desember 2012 um sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skulda Harlem ehf. við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. með greiðslunni, sem rift er samkvæmt framansögðu. Ekki getur orkað tvímælis að þeim hafi þegar greiðslan fór fram verið kunnugt um aðstæðurnar, sem riftunin er reist á. Er því fullnægt skilyrðum 1. mgr. 147. gr. laga nr. 21/1991 til að dæma þau til að greiða áfrýjanda fyrrgreinda fjárhæð óskipt með stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. Af gögnum málsins verður ekki séð að áfrýjandi hafi krafið þau um greiðslu þessa fyrr en með birtingu héraðsdómsstefnu 25. september 2015 og verður þeim því ekki gert að greiða dráttarvexti fyrr en frá þeim degi, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Stefndu verða dæmd í sameiningu til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Rift er greiðslu 25. júní 2014 á skuld Harlem ehf. við stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. að fjárhæð 12.451.379 krónur.

Stefndi Coca-Cola European Partners Ísland ehf. greiði áfrýjanda, þrotabúi Harlem ehf., 12.451.379 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. september 2015 til greiðsludags. Þar af greiði stefndu Dagný Ósk Aradóttir Pind og Steindór Grétar Jónsson áfrýjanda óskipt með stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. sömu fjárhæð með dráttarvöxtum frá 25. september 2015 til greiðsludags.

Stefndu greiði óskipt áfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                                           

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júlí 2017.

Mál þetta var höfðað af þrotabúi Harlem ehf. þann 28. september 2015 gegn Vífilfelli hf., Stuðlahálsi 1, Reykjavík, en 25. september 2015 gegn stefndu Dagnýju Ósk Aradóttur Pind, Skarphéðinsgötu 6, 105 Reykjavík og Steindóri Grétari Jónssyni, Njálsgötu 22, 101 Reykjavík. Málið var dómtekið í lok aðalmeðferðar 2. júní sl. Við upphaf aðalmeðferðar upplýsti lögmaður stefnda Vífilfells hf. að félagið hefði breytt um nafn og héti nú Coca - Cola European Partners Ísland ehf. í dómnum verður þó fram að niðurstöðu fjallað um stefnda sem Vífilfell.

Stefnandi gerir þá kröfu að rift verði með dómi greiðslu á skuld Harlem ehf., við stefnda Vífilfell hf. að fjárhæð samtals 12.451.379 krónur sem fór fram með afhendingu eða sölu til 22 niðri ehf. á rekstri veitingarstaðarins Harlem ásamt aðstöðu, nafni og réttindum, sem og öllum birgðum á staðnum, innréttingum og tækjum, gegn því að móttakandi verðmætanna, félagið 22 niðri ehf., yfirtæki m.a. skuld Harlem ehf. við stefnda Vífilfell hf. tilgreindrar fjárhæðar sem hluta kaupverðs, en 22 niðri ehf. greiddi fjárhæðina beint til stefnda í formi lánssamnings þann 25. júní 2014 á grundvelli kaupsamnings dags. 1. apríl 2014.

Þá kveðst stefnandi krefjast þess aðallega að stefndu verði dæmd sameiginlega til að greiða stefnanda 12.451.379 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 25. júní 2014 til greiðsludags. Til vara að stefndu verði dæmd sameiginlega til að greiða stefnanda 3.061.450 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 612.290 krónum frá 15. júlí 2014 til 15. október 2014, af 1.224.580 krónum frá 15. október 2014 til 15. janúar 2015, af 1.836.870 krónum frá 15. janúar 2015 til 15. apríl 2015, af 2.449.160 krónum frá 15. apríl 2015 til 15. júlí 2015 og af 3.061.450 krónum til greiðsludags.

Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefndu sameiginlega.

Stefndu krefjast öll sýknu. Þá krefjast þau málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Stefndu kröfðust öll í fyrstu frávísunar málsins en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði dómsins 18. mars 2016.

I.

Stefnandi, sem var félag stofnað um rekstur skemmtistaðarins Harlem við Tryggvagötu í Reykjavík, var tekinn til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 7. janúar 2015. Frestdagur við skiptin er 28. október 2014. Innköllun birtist fyrra sinni 15. janúar 2015 og kröfulýsingarfresti lauk 15. mars 2015. Fyrsti skiptafundur var haldinn 31. mars 2015.

Viðskiptasamband Harlem ehf. og stefnda Vífilfells hf. hófst 12. desember 2012, þegar gerður var viðskiptasamningur vegna reksturs á veitingastaðnum. Vegna rekstrarerfiðleika Harlem ehf. á fyrri hluta ársins 2014 varð greiðsludráttur á viðskiptaskuldum við stefnda Vífilfell hf. Stefndi kveðst þó ekki hafa áttað sig á alvarleika málsins fyrr en upplýsingar bárust um að forsvarsmenn Harlem ehf. vildu hætta rekstri. Vegna framangreindra samningsskuldbindinga og yfirtökuréttar stefnda á því húsnæði sem veitingastaðurinn var rekinn í þurfti að koma til samþykki stefnda fyrir aðilaskiptum á húsaleigusamningnum. Stefndi Vífilfell hf. gerði aðilum ljóst að slíkt samþykki yrði ekki veitt nema nýr rekstraraðili tæki yfir þær skuldbindingar sem Harlem ehf. hafði stofnað til við hann.

Þann 1. apríl 2014 var undirritaður kaupsamningur f.h. Harlem ehf. við félagið 22 niðri ehf., um kaup þess félags á rekstri Harlem ehf. Hið selda var tilgreint sem rekstur veitingastaðar Harlem ehf. ásamt réttindum. Einnig allar birgðir á staðnum, innréttingar og tæki. Í samningnum kom fram að hluti kaupverðsins væri greiddur með yfirtekinni viðskiptaskuld við Vífilfell hf. að fjárhæð 12.451.379,00 krónur.

Í þessu fólst að 22 niðri ehf. tók yfir lánssamning stefnanda að fjárhæð 8.734.721 króna og almenna viðskiptaskuld að fjárhæð 3.716.658 krónur.

Stefndi Vífilfell hf. gerði nýjan lánssamning við 22 niðri ehf. til fimm ára þann 25. júní 2014. Félagið 22 niðri ehf. hefur nú þegar greitt stefnda Vífilfelli hf. 3.061.450 krónur af þessu nýja láni.

Til tryggingar á öllum kröfum stefnda Vífilfells ehf. á hendur Harlem ehf., undirrituðu stefndu Dagný Ósk Aradóttir Pind og Steindór Grétar Jónsson yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð og náði ábyrgðin til 15.000.000 króna.

 

Með bréfi til stefnda Vífilfells hf., 10. ágúst 2015, rifti skiptastjóri ofangreindri greiðslu á skuld stefnanda en kröfum búsins var hafnað með bréfi lögmanns Vífilfells hf. 2. september 2015.

Hvorki stefndi Vífilfell hf. né aðrir stefndu lýstu kröfu í þrotabúið.

Stefndu Dagný Ósk og Steinþór Grétar fullyrða að skiptastjóri hafi aldrei óskað eftir skýringum frá þeim vegna greiðslna af áðurgreindu skuldabréfi og þeim þannig fyrst orðið kunnugt um kröfur stefnanda eftir að stefnur voru birtar á lögheimilum þeirra þann 25. september 2015.

II.

Stefnandi telur almenn skilyrði til riftunar fyrir hendi. Ljóst sé að nái riftun fram að ganga aukist möguleikar kröfuhafa á að fá fullnustu krafna sinna og einnig sé ljóst að greiðsla til stefnda Vífilfells hf. á skuld Harlem ehf. hafi ekki verið í samræmi við greiðslur til annarra kröfuhafa og hafi því leitt til mismununar kröfuhafa og orðið félaginu til tjóns.

Stefnandi byggir kröfu um riftun á því að greiðsla á skuld Harlem ehf. við stefnda Vífilfell að fjárhæð 12.451.379 krónur hafi verið innt af hendi 25. júní 2014 með því að stefndi Vífilfell hf. hafi í raun tekið við greiðslunni í formi skuldaviðurkenningar nýs aðila, 22 niðri ehf., og því hafi hún farið fram á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, sem var þann 28. október 2014. Félagið 22 niðri ehf. hafi þannig gert lánssamning við stefnda Vífilfell vegna greiðslu skuldar Harlem ehf. í samræmi við efni kaupsamnings frá 1. apríl 2014. Þetta sé í samræmi við þá meginreglu kröfuréttar um að greiðsla teljist hafa verið innt af hendi þegar hún sé komin til kröfuhafa. Byggt er á því að greiðslan sé öll riftanleg þar sem um hafi verið að ræða óvenjulegan greiðslueyri, hvort heldur ef litið sé til yfirtöku þriðja aðila á lánssamningi eða nýs lánssamning þriðja aðila til greiðslu á skuld. Þá byggir stefnandi á því að greidd hafi verið fjárhæð sem hafi skert greiðslugetu Harlem ehf. verulega, enda geti greiðslan ekki hafa virst eðlileg eftir atvikum. Byggt er á því að ekki skipti máli þótt félagið 22 niðri ehf. hafi átt aðild að því að koma greiðslunni í kring, enda hafi verið samið um það strax að þeir greiddu stefnda Vífilfelli hf.

Stefnandi byggir einnig á því að ofangreind ráðstöfun hafi á ótilhlýðilegan hátt verið stefnda Vífilfelli hf. til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og að hún hafi leitt til þess að eignir Harlem ehf. voru ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum, sbr. 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og fleira. Þá hafi Harlem ehf. verið ógjaldfært eða orðið það vegna umræddrar ráðstöfunar og stefndi Vífilfell hf. hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg. Varðandi skilyrði 141. gr. laganna, bendir stefnandi á að Harlem ehf. hafi verið með skráningu í vanskilaskrá á þessum tíma og stefndi Vífilfell hf. virðist hafa haft áhyggjur af fjárhagsstöðu Harlem ehf., en við uppflettingu 20. febrúar 2014 hafi gjaldfallin viðskiptaskuld Harlem ehf. við stefnda Vífilfell numið 3.716.658 krónur. Vegna tilkynningaskyldu samkvæmt samningi aðila bar Harlem ehf. að tilkynna um breytingar og því sé ljóst að stefndi Vífilfell hf. hafi haft fulla vitneskju um efni kaupsamnings Harlem ehf. og 22 niðri ehf.

Í bréfi f.h. stefnda Vífilfells 2. september 2015, þar sem riftun stefnanda var mótmælt sé m.a. vísað til þess að stefndi hafi notið „samningsbundins yfirtöku- og forgangsréttar til leigusamnings um það húsnæði sem rekstur Harlem var stundaður í“. Í viðaukasamningur við leigusamning aðila komi fram að stefnda sé veitt heimild til að yfirtaka réttindi Harlem ehf. varðandi leigusamning, komi til þess að leigusamningi verði rift, hann ógiltur eða honum sagt upp vegna vanskila, riftunar, ógildingar eða uppsagnar á viðskiptasamningi eða ef gert er árangurslaust fjárnám í búi Harlem ehf. á leigutímanum. Sama gildi varðandi verulegar vanefndir á skyldum Harlem ehf. við stefnda samkvæmt viðskiptasamningi þeirra. Um ekkert slíkt hafi hins vegar verið að ræða, heldur hafi Harlem ehf. selt rekstur sinn o.fl. og var kaupverðið meðal annars greitt með yfirtekinni viðskiptaskuld Harlem ehf. við stefnda. Í stað þess að kaupverðið rynni til staðarins og yrði síðar til reiðu til fullnustu kröfuhöfum, hafi það runnið til stefnda Vífilfells hf.

Varðandi kröfu á hendur stefndu Dagnýju Ósk og Steindóri Grétari byggir stefnandi á því að þau hafi losnað undan sjálfskuldarábyrgð sinni vegna umræddrar riftanlegrar ráðstöfunar, sbr. 1. mgr. 147. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og fleira, en stefnandi telur að stefndu hafi vitað eða mátt vita um aðstæðurnar sem riftunarkrafan byggist á þegar þau losnuðu frá skuldbindingu sinni. Þar að auki séu stefndu nákomin þrotabúinu, sbr. 4. tl. 3. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 147. gr. laganna, en stefndu voru stofnendur félagsins og höfðu þar prókúruumboð, auk þess sem stefndi Steindór Grétar hafi verið meðstjórnandi og framkvæmdastjóri félagsins. Þá hafi stefnda Dagný Ósk lýst því yfir við fyrirsvarsmann eins af kröfuhöfum stefnanda í samtali þann 7. maí 2014 að hún borgaði frekar „skuld sem [hún væri] í persónulegri ábyrgð fyrir en að borga aðra skuld“. Vegna vitneskju stefndu um þær aðstæður sem leiddu til þess að umræddar ráðstafanir voru ótilhlýðilegar kveðst stefnandi einnig byggja á 141. gr. laga nr. 21/1991. Ábyrgð stefndu Dagnýjar Óskar og Steindórs Grétars nái til 15.000.000 króna án virðisaukaskatts og séu þau því krafin in solidum um endurgreiðslu fjármunanna ásamt stefnda Vífilfelli hf.

Hvað varðar kröfu um endurgreiðslu er byggt á 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og fleira.

Dráttarvaxta er krafist frá 25. júní 2014 varðandi aðalkröfuna, en varðandi varakröfuna er miðað við dagsetningar afborgana lánssamnings 22 niðri ehf. og stefnda Vífilfells hf.. Krafa um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafan um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Varakrafa stefnanda er reist á sömu málsástæðum og lagarökum og aðalkrafa, en þar er aðeins krafist endurgreiðslu á afborgunum sem 22 niðri ehf. hafði þegar innt af hendi af lánssamningi 22 niðri ehf. og stefnda Vífilfells hf. Varakrafa stefnanda var óbreytt við aðalmeðferð málsins þrátt fyrir að í málinu liggi fyrir að innborganir hafi numið 5.510.610 krónum í júlí 2016. 

III.

Stefndi Vífilfell hf. mótmælir því að skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. fyrir riftun séu uppfyllt á þann hátt sem byggt er á af hálfu stefnanda.

Stefndi bendir á að kaupsamningur sá sem stefnandi grundvallar riftunarkröfu sína á var gerður 1. apríl 2014. Þótt stefndi hafi ekki vitað af tilvist eða efni þessa kaupsamnings feli hann í sér staðfestingu á því að á þessum tímapunkti hafði 22 niðri ehf. tekið yfir rekstur í húsnæði stefnanda að Tryggvagötu 22 í Reykjavík, með leyfi stefnda. Sú ráðstöfun sem fólst í því að 22 niðri ehf. tæki yfir rekstur í húsnæðinu gegn yfirtöku á skuldum stefnanda við stefnda hafi því átt sér stað nærri 7 mánuðum fyrir frestdag. Þegar af þeirri ástæðu séu skilyrði 134. gr. ekki uppfyllt. Í því sambandi skipti ekki máli þótt skjalagerð vegna þessarar ráðstöfunar hafi lokið síðar.

Þá sé því mótmælt að greitt hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri. Óvenjulegur greiðslueyrir sé fyrir hendi þegar kröfuhafi samþykkir aðra greiðslu en upphaflega var samið um, t.d. tekur við lausafé í stað peninga.  Í máli þessu sé ekki um neitt slíkt að ræða.

Stefnandi hafi staðið í skuld við stefnda, að hluta til vegna lánafyrirgreiðslu stefnda og að hluta til vegna reikningsviðskipta með drykkjarvörur til endursölu. Samkvæmt viðskiptasamningi aðila, hafi stefndi getað rift samningnum ef til kæmu verulegar vanefndir stefnanda, sbr. 9. gr. samningsins. Veruleg vanefnd fólst m.a. í vanskilum með greiðslur afborgana af vörukaupum eða viðskiptaskuldum sem stæðu lengur en í 30 daga, ef stefnandi leitaði nauðasamninga, gert væri hjá honum árangurslaust fjárnám eða bú hans tekið til gjaldþrotaskipta. Við riftun hafi stefnda verið heimilt að gjaldfella allar skuldbindingar stefnanda, lán og aðrar kröfur. Samkvæmt 10. gr. viðskiptasamnings hvíldi sú skylda jafnframt á stefnanda, ef til eigendaskipta kæmi á veitingastaðnum Harlem, að tryggja að nýr rekstraraðili tæki við skyldum stefnanda samkvæmt samningnum, sbr. 10. gr. Samkvæmt 14. gr. myndaði viðskiptasamningurinn og tilgreind fylgiskjöl hans eina heild, þar á meðal       voru lánasamningur og viðaukasamningur við leigusamning.

Samkvæmt framangreindu hafi ekki skipt máli hvort afborganir af lánasamningi kæmust í veruleg vanskil eða greiðslur vegna vörukaupa, í báðum tilvikum hafi stefndi getað rift samningnum og gjaldfellt allar skuldbindingar.

Stefndi vísar til viðaukasamnings við leigusamning um húsnæðið sem gerður var með  með aðild og samþykki leigusala. Í honum hafi í 1. mgr. I. kafla verið vísað til viðskiptasamnings stefnanda og stefnda. Viðaukasamningurinn hafi mælt fyrir um heimild stefnda til að yfirtaka öll réttindi stefnanda hvað varðar leigusamning kæmi til þess að leigusamningi yrði sagt upp, hann ógiltur eða honum rift vegna m.a. vanskila, riftunar, ógildingar eða uppsagnar á viðskiptasamningnum milli stefnanda og stefnda sem og riftunar, ógildingar eða uppsagnar á leigusamningi. Mælt er fyrir um að veruleg vanefnd á viðskiptasamningi jafngilti verulegri vanefnd á leigusamningi.

Því hafi verið alveg ljóst að í vegna greiðsluerfiðleika hjá stefnanda hafi stefndi verið í þeirri samningsbundnu stöðu að geta tekið yfir húsaleigusamning stefnanda og fengið hann borinn útúr eigninni ef á þyrfti að halda. Augljóst sé að enginn rekstrar-grundvöllur sé fyrir veitingastað sem ekki hefur yfir húsnæði að ráða. Til viðbótar við framangreint hafi viðaukasamningurinn tryggt stefnda forleigurétt að húsnæðinu.

Stefndi kveðst benda á að handhöfn leiguréttinda að húsnæði sem nýta má undir veitingarekstur sé fjárhagslega verðmæt. Réttur stefnda til leigunnar og möguleiki stefnda til að framselja þann rétt til nýs rekstraraðila hafi gert stefnda kleyft að gera þá kröfu til slíks aðila að slíkur greiddi stefnda fyrir réttinn. Slíkar greiðslur fyrir aðgang að leiguréttindum séu stundum kallaðar lyklagjald. Stefndi hefði getað farið þá leið að setja verðmiða á leiguréttinn sem samsvaraði mati stefnda á verðmæti hans miðað við markaðskjör.  Þess í stað hafi stefndi einfaldlega farið þá leið að setja þann verðmiða á réttinn sem samsvaraði skuld fyrri rekstraraðila við hann. Í tilviki þessa máls hafi 22 niðri ehf. fengið framseldan til sín leigusamning, sem leigutaki, með samþykki stefnda sem hafði stjórn á því hver fengi þann rétt til sín á eftir stefnanda. Gegn afhendingu leiguréttindanna greiddi 22 niðri ehf. fyrir með yfirtöku skulda stefnanda við stefnda sem gerður var nýr lánasamningur um.  Ekkert sé óvenjulegt við þann greiðslueyri. 

Enginn annar kröfuhafi hafi átt þann rétt til leigunnar sem stefndi átti. Það sé einfaldlega svo að kröfur sumra kröfuhafa séu betur tryggðar en annarra. Tryggingarréttindi stefnda hafi verið þinglýst og því mátt vera öllum viðsemjendum stefnanda kunnug.

Stefndi hafnar því að yfirtaka 22 niðri ehf. á skuldum stefnanda við stefnda hafi skert greiðslugetu stefnanda.  Stefndi hafi ekki tekið við neinum verðmætum úr hendi stefnanda nema leiguréttinum sem stefndi átti samningsbundinn tryggingarétt í og ekki var hægt að ráðstafa nema með samþykki stefnda. Leiguréttindin sem um ræðir hafi aldrei getað verið verðmæti í hendi þrotabúsins, en slík réttindi falla niður við gjaldþrot samkvæmt b lið XIV. kafla leigusamningsins sjálfs. Verðmæti sem þrotabúið átti ekki og gat aldrei átt hafi því verið notað til að jafna kröfu eins kröfuhafa sem af þeim sökum lýsti ekki kröfu í búið.  Staða þrotabúsins hafi því sannarlega ekki verið verri heldur þvert á móti betri fyrir vikið ef eitthvað er.

Hvað sem öðru líði, telur stefndi að yfirtaka 22 niðri ehf. á skuldum stefnanda við stefnda hafi verið venjuleg eftir atvikum. 

Allt framangreint feli í sér að skilyrði 134. gr. fyrir riftun séu ekki uppfyllt í málinu.

Stefndi mótmælir því að ráðstöfun sú sem krafist er riftunar á af hálfu stefnanda hafi á ótilhlýðilegan hátt verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og að hún hafi leitt til þess að eignir Harlem ehf. hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum, sbr. 141. gr. laga nr. 21/1991. Vísar stefndi til framangreinds rökstuðnings. Þá er því mótmælt að Harlem hafi orðið ógjaldfært vegna ráðstöfunarinnar. 

Ráðstöfun sem feli í sér brot á jafnræði kröfuhafa er að jafnaði ótilhlýðileg. Hin umþrætta ráðstöfun feli ekki í sér neitt slíkt brot enda var staða stefnda sem kröfuhafa ekki sambærileg stöðu annarra kröfuhafa sbr. framangreint.

Þá blasi við að ráðstöfunin hafi ekki leitt til þess að eignir þrotamannsins væru ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiddu til skuldaaukningar. Ráðstöfunin hafi þvert á móti leitt til skuldalækkunar og forsenda hennar hafi verið ráðstöfunarréttur stefnda yfir leiguréttindum stefnanda sem þrotabúið átti ekki og gat aldrei átt né ráðstafað.

Stefndi mótmælir því að hann hafi haft fulla vitneskju um efni kaupsamnings Harlem ehf. og 22 niðri ehf.  Fullyrðing stefnanda um þetta sé ósönnuð.  Í því sambandi breyti engu þótt stefndi hafi fylgst með skráningum varðandi stefnanda á vanskilaskrá.  Það sé eðlilegur þáttur í eftirliti stefnda með þeim viðskiptavinum sínum sem skulda honum fé.  Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi verið ógjaldfær þegar til þess kom að 22 niðri ehf., með samþykki stefnda, tók við leiguréttindum stefnanda og samdi við stefnda um endurgjald fyrir það í formi yfirtöku á skuldum stefnanda. Um þetta beri stefnandi sönnunarbyrðina og hafi ekki axlað þá byrði.

Stefndi mótmælir endurgreiðslukröfum stefnanda. Endurgreiðslukrafan sé reist á 142. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt því ákvæði skal sá sem hag hafði af riftanlegri ráðstöfun, ef riftun fer fram með stoð í 131. - 138. gr. laganna greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins.

Hér kveðst stefndi benda í fyrsta lagi á að "greiðsla" 22 niðri ehf. á skuldum stefnanda, sem fólst þá í yfirtöku á skuldunum, geti aldrei talist hafa komið stefnda að notum nema að því marki sem 22 niðri hefur greitt lánið raunverulega niður.  Til viðbótar liggi svo ekkert fyrir í málinu um að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni.

Stefnandi beri einnig sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni þannig að samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laganna skuli sá sem hag hafði af riftanlegri ráðstöfun, ef riftun fer fram skv. 139. eða 141. gr. laganna greiða bætur eftir almennum reglum. Slíkt tjón sé með öllu ósannað.

Verði ekki fallist á kröfu stefnda um algera sýknu af kröfum stefnanda telur stefndi felast í sýknukröfunni krafa um lækkun dómkrafna, sem byggð sé á öllum framangreindum málsástæðum.

Vaxtakröfu stefnanda er mótmælt. Engar forsendur standi til þess, fari svo að einhverjar kröfur stefnanda verði teknar til greina, að telja þær bera vexti fyrr en frá dómsuppsögudegi enda augljóst hvað sem öðru líði að verulegur vafi leiki á um grundvöll kröfu stefnanda og rökstuðningur fyrir grundvelli tölulegrar kröfugerðar sé engin.

Um lagarök vísar stefndi til fyrri lagatilvísana og um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. og 130. gr.

IV.

Stefndu, Dagný og Steindór, byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. eml. enda hafi þau engan hag haft af hinni riftanlegu ráðstöfun í skilningi 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

Þannig sé ósannað að stefndu, Dagný og Steindór hafi losnað undan sjálfsskuldarábyrgð sinni gagnvart stefnda, Vífilfelli, vegna hinnar meintu riftanlegu ráðstöfunar, ábyrgðinni hafi ekki verið sagt upp eins og nauðsynlegt sé samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni. Því sé ekki loku fyrir það skotið að stefndi, Vífilfell, muni reyna að gera fjárkröfur á hendur stefndu, Dagnýju og Steindóri, verði félagið dæmt til þess að endurgreiða þrotabúinu fjármuni.

Stefndu kveða að í stefnu málsins sé fjárkrafa stefnanda á hendur stefndu, Dagnýju og Steindóri,  grundvölluð á því að þau hafi losnað undan sjálfsskuldarábyrgð sinni, sbr. 1. mgr. 147. gr. laganna, gagnvart stefnda, Vífilfelli hf., vegna tiltekinnar ráðstöfunar sem fullyrt sé að sé riftanleg m.a. á grundvelli 134. gr. laganna. Hin meinta riftanlega ráðstöfun hafi falist að mati skiptastjóra í því að félagið 22 niðri ehf. greiddi skuld Harlem ehf. við Vífilfell hf.

Stefndu benda á að yfirtaka 22 niðri ehf. á áðurgreindri viðskiptaskuld átti sér stað þann 1. apríl 2014 og hafi greiðslan ekki farið fram á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, sem var þann 28. október 2014 og sé því ekki riftanleg. Engu máli skipti þó aðilar hafi ekki gengið frá nýjum láns- eða viðskiptasamningum fyrr en síðar. Af gögnum málsins megi ráða að stefndi, Vífilfell, hafi verið samþykkt ráðstöfuninni enda beitti félagið engum vanefndaúrræðum.

Stefndu, Dagný og Steindór, mótmæla því að ráðstöfunin feli í sér greiðslu með óvenjulegum greiðslueyri. Af gögnum málsins megi sjá að stefndi, Vífilfell, hafi haft tvenns konar tryggingar fyrir efndum Harlem ehf. vegna skuldbindinga þess við félagið. Annars vegar sjálfsskuldarábyrgð stefndu, Dagnýjar og Steindórs og hins vegar naut félagið samningsbundins yfirtöku- og forgangsréttar til leigusamnings um það húsnæði sem rekstur Harlem var stundaður í, sbr. viðauka við leigusamning.

Þegar rekstur Harlem hafi stöðvast hafi verið samið um að félagið 22 niðri ehf. tæki umrædd leiguréttindi yfir gegn því að standa skil á greiðslum til stefnda, Vífilfells hf. sem jafngilda skuldbindingum fyrri rekstraraðila, þ.e. Harlem ehf. Nákvæmlega sami háttur var hafður á þegar óstofnað einkahlutafélag sem varð Harlem ehf. tók yfir skuldbindingar Þýska barsins ehf. við stefnda, Vífilfell, þann 24. nóvember 2012.

Stefndu, Dagný og Steindór, mótmæla því að ráðstöfunin hafi skert greiðslugetu Harlem ehf. Áðurgreindur yfirtöku- og forgangsréttur stefnda, Vífilfells, til leigusamnings um það húsnæði sem rekstur Harlem var stundaður í hafi ekki verið og hafi aldrei getað verið á hendi stefnanda enda falli leiguréttindi af því sem sem Harlem ehf. átti tilkall til niður við gjaldþrot gagnvart þrotabúinu.

Þá hafna stefndu Dagný og Steindór, því að greiðslan hafi ekki verið eðlileg eftir atvikum. Í því sambandi benda þau á að stefndi, Vífilfell, var í fullum rétti að framselja, með samþykki leigusala, þau leiguréttindi sem félagið naut til 22 niðri ehf. gegn greiðslu frá því félagi sem jafngilti töpuðum skuldbindingum Harlem ehf. gagnvart stefnda, Vífilfelli hf. Þá hafi sambærilegar greiðslur átt sér stað áður í tengslum við breytingar á rekstri í húsnæðinu.

Stefndu benda á að hefði 22. niðri ehf. ekki yfirtekið framangreinda viðskiptaskuld við stefnda, Vífilfell, sem endurgjald fyrir leiguréttindi, þá hefði ekki verið til staðar neitt andlag í formi reksturs og viðskiptavildar sem Harlem ehf. hefði getað selt, enda hefði þá Vífilfell ehf. nýtt sér forgangsrétt sinn til leigu, sbr. 1. gr. viðaukasamnings við leigusamning og framselt svo réttindin til þriðja aðila.

Stefndu mótmæla því að skilyrðum 141. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt en þar sé gert að skilyrði að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg og að uppfylla þurfi öll skilyrði ákvæðisins.

Stefndu, Dagný og Steindór, hafna því að greiðslan sem krafist var riftunar á hafi verið stefnda, Vífilfelli til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Sem rök fyrir framangreindu vísa stefndu, Dagný og Steindór, til framangreindra röksemda.

Stefndu, hafna því einnig með vísan til framangreinds að greiðslan sem krafist er riftunar á hafi leitt til þess að eignir Harlem hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum.

Þá telja stefndu að stefnandi hafi með engu móti sýnt fram á að hann hafi verið ógjaldfær á þeim tíma sem hin meinta riftanlega greiðsla fór fram. Um það beri hann sönnunarbyrði. Stefndu, benda á að þær skráningar sem félagið hafði í vanskilaskrá á þessum tíma hafi ekki verið vegna alvarlega vanskila heldur hafi annars vegar verið um að ræða skráningu vegna áritaðrar stefnu og hins vegar vegna greiðsluáskorunar, í báðum tilvikum vegna lágra fjárkrafa. Í ljósi framangreinds telja stefndu, ósannað að Harlem ehf. hafi verið ógjaldfært eða hafi orðið ógjaldfært við hina hina meintu riftanlegu ráðstöfun.

Stefndu, krefjast sýknu af aðalkröfu stefnanda á þeim grundvelli að skilyrði 1. mgr. 147. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt. Það sé fortakslaust skilyrði samkvæmt ákvæðinu að þriðji maður hafi losnað frá skuldbindingu en ósannað er að það eigi við í tilviki stefndu, Dagnýjar og Steindórs.

Í yfirlýsingu um sjálfsskuldarábyrgð vegna skulda við Vífilfell hf. sem stefndu, Dagný og Steindór rituðu undir segir eftirfarandi: „Sjálfsskuldarábyrgðin stendur frá útgáfudegi og þar til henni hefur verið sagt upp“. Stefnandi hafi engin gögn lagt fram um að stefndi, Vífilfell, hafi sagt upp áðurgreindri sjálfskuldarábyrgð og því sé ósannað að stefndu, hafi losnað undan sjálfsskuldarábyrgðinni.

Stefndu, krefjast sýknu af endurgreiðslukröfu stefnanda enda liggi ljóst fyrir að þau hafi með engu móti haft hag af hinni meintu riftanlegu ráðstöfun.

Ef fallist verði á kröfur stefnanda er á því byggt af hálfu stefndu, Dagnýjar og Steindórs, að atvik þessa mál séu með þeim hætti að fella skuli kröfuna niður eða lækka hana með vísan til 145. gr. laga nr. 21/1991.

Þá telja stefndu að sýkna beri þau af fjárkröfu stefnanda þar sem meint tjón stefnanda sé ofmetið. Í þessu sambandi sé bent á að aðalkrafa stefnanda nemur 12.451.379 krónum auk vaxta þrátt að fyrir gögn málsins staðfesti að 22. niðri ehf. hafi aðeins greitt kr. 3.061.450,- til stefnda, Vífilfells en stefndu telja að meint fjártjón stefnanda geti aldrei numið hærri fjárhæð en þeirri sem 22 niðri ehf. hafi greitt til stefnda, Vífilfells, þegar mál þetta var höfðað.

Stefndu mótmæla því að endurgreiðslukrafan skuli bera dráttarvexti. Inntak endurgreiðslureglu 142. gr. sé skýrt, að sá sem þola þurfi riftun, verði að endurgreiða þrotabúinu fé, þ.e. peningagreiðslu, sem svari til þeirra verðmæta sem hann fékk, þ.e. í formi peninga eða annars, s.s. niðurfelldra ábyrgða. Af þessu megi sjá að engin lagaheimild sé fyrir greiðslu vaxta af kröfum á grundvelli 142. gr. laganna.

Ef fallist verður á vexti þá mótmæla stefndu upphafstíma dráttarvaxta skv. kröfu stefnanda. Stefnandi hafi aldrei sent stefndu, Dagnýju og Steindóri, innheimtubréf eða riftunaryfirlýsingu, sem stefndu hafa getað tekið afstöðu til fyrr en stefna var birt þann 25. september 2015.  Ef dómurinn fallist á fjárkröfu stefnanda þá byggja stefndu, á því að ekki séu efni til að fallist á dráttarvaxtakröfu hans fyrr en í fyrsta lagi frá þingfestingardegi stefnu.

Stefndu krefjast sýknu af varakröfu stefnanda með vísan til framangreindra röksemda þ.e. þeirra sem um varakröfuna geta gilt. Hið sama á við um vaxtakröfur stefnanda.

V.

Í niðurstöðu verður með tilvísun til stefnda einungis átt við stefnda Vífilfell hf., nú Coca-Cola European Partners Ísland ehf., nema annað sé tekið fram.

Af framlögðum skjölum málsins og framburði fyrir dómi, verður að mati dómsins ráðið með nokkuð skýrum hætti að þau viðskipti sem urðu til þess að nýr aðili tók við greiðslu á skuld Harlem við stefnda hefðu aldrei litið dagsins ljós nema með samþykki stefnda. Aðilaskipti í rekstrinum voru þannig samkvæmt lánasamningi Vífilfells og Harlem háð því að tryggt væri að nýr aðili tæki við öllum skuldbindingum hins fyrri gagnvart stefnda. Jafnframt skyldi fyrri eigandi rekstrarins ábyrgjast efndir nýs eiganda allt þar til stefndi leysti hann með sérstakri yfirlýsingu undan þeirri skyldu. Þá var stefnda samkvæmt viðaukasamningi í lófa lagið að yfirtaka leigusamning um húsnæðið ef ekki yrði tryggð yfirtaka á viðskiptaskuld við hann og samþykkis aflað. Ekki er hægt að líta svo á að sökum þess að stefndi beitti ekki vanefndaúrræðum í málinu heldur samþykkti framsal, hafi hann misst einhver þau réttindi sem framangreindir samningar veittu honum.

Fallist verður á að leiguréttur eins og sá sem um ræðir í málinu sé verðmætur og jafnframt að hann sé grundvallaratriði í rekstri sem þessum. Fyrrum forsvarsmaður stefnanda tók reyndar svo djúpt í árinni að segja staðinn verðlausan án leiguréttarins. Þannig skiptir sköpum að mati dómsins fyrir starfsemi eins og hér um ræðir að í gildi sé leigusamningur um húsnæði á vænlegum stað. Ekki er sjáanlegur ágreiningur í málinu um þetta en stefnandi hefur þó haldið því fram að önnur verðmæti sem seld voru með kaupsamningnum 1. apríl 2014 hafi verið talsverð en ekkert liggur þó nákvæmlega fyrir um skilin þarna á milli. Fyrrum fyrirsvarsmaður stefnanda sagði reyndar í skýrslutöku hjá skiptastjóra 15. janúar 2015, að engin eignaaukning hafi orðið frá því Harlem keypti reksturinn og fram að sölu. Það endurspeglast reyndar ekki í samanburði á kaup- og söluverði, en á þeim mun kunnu að vera aðrar skýringar.

Hitt liggur fyrir að kaupandi rekstrarins og nýr leigutaki var reiðubúinn að tryggja sér  leiguréttinn með því að yfirtaka þá skuld sem Harlem stóð í við stefnda við gerð kaupsamningsins og því má líta svo á að það hafi í raun verið kaupverð réttarins. 

Þetta skiptir máli því ekki verður betur séð en að verðmæti sem fólust í leigusamningum hafi aldrei getað nýst þrotabúinu og leitt til eignaaukningar í félaginu kröfuhöfum til hagsbóta nema stefndi hefði samþykkt slíka ráðstöfun, en í því hefði verið fólgin örlætisgerningur stefnda gagnvart stefnanda umfram skyldu. Þá verður litið til þess að ef stefndi hefði ekkert aðhafst og synjað um yfirtöku nýs aðila þá hefði leigusamningurinn fallið niður við gjaldþrotaskipti skv. beinu ákvæði í samningnum. Því er ekki hægt að líta svo á að þessir löggerningar hafi orðið búinu til tjóns. Öðru máli hefði gegnt ef tekist hefði að sanna að leigurétturinn væri minna virði en greitt var í raun fyrir hann en slíkur mismunur hefði þá að óbreyttu átt að ganga til þrotabúsins. Engin slík sönnun hefur verið reynd en telja verður með vísan til framangreinds að sönnunarbyrði um þetta hvíli á stefnanda. Því verður litið svo á að eðlilegt verð hafi verið greitt fyrir leiguréttinn enda stefnukröfur í raun ekki byggðar á hinu gagnstæða. Þá hefur engum málsástæðum verði hreyft um að hægt sé að vefengja með einhverju móti þá samninga sem grundvölluðu réttarstöðu stefnda.

Þegar af framangreindum ástæðum verður stefndi Coca - Cola European Partners Ísland ehf. sýknaður af kröfum stefnanda. Er þá jafnframt óhjákvæmilegt að sýkna einnig meðstefndu Dagnýju Ósk og Steinþór Grétar, sbr. 1. mgr. 147. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.v enda verið komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið um að ræða riftanlega greiðslu til stefnda Vífilfells hf.

Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 130. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er óhjákvæmilegt að dæma stefnanda til að greiða stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf., áður Vífilfell hf. málskostnað sem telst hæfilegur 800.000 krónur. Jafnframt greiði stefnandi stefndu Dagnýju Ósk og Steinþóri Grétari 400.000 krónur til hvors. Við ákvörðun málskostnaðar er litið til tímaskýrslu, fjölda þinghalda og þess að málið var flutt sérstaklega um frávísunarkröfu stefndu.

Af hálfu stefnanda flutti málið Diljá Mist Einarsdóttir héraðsdómslögmaður. Af hálfu stefnda Coca-Cola European Partners Ísland ehf. flutti málið Heimir Örn Herbertsson hæstaréttarlögmaður og af hálfu stefndu Dagnýjar Ósk og Steinþórs Grétars, Ólafur Hvanndal Ólafsson héraðsdómslögmaður.  

Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en aðilar og dómari voru sammála um að ekki væri þörf á endurflutningi málsins.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Coca-Cola European Partners Ísland ehf., Dagný Ósk Aradóttir Pind og Steindór Grétar Jónsson eru sýknuð af kröfum þrotabús Harlem ehf.

Stefnandi greiði stefnda Coca - Cola European Partners Ísland ehf. 800.000 krónur í málskostnað og stefndu Dagnýju Ósk Aradóttur Pind og Steindóri Grétari Jónssyni hvoru um sig 400.000 krónur í málskostnað.