Hæstiréttur íslands

Mál nr. 144/2013


Lykilorð

  • Ómerking
  • Heimvísun
  • Meðdómsmaður


                                     

Fimmtudaginn 19. september 2013.

Nr. 144/2013.

Kári Stefánsson

(Árni Ármann Árnason hrl.)

gegn

Elmax ehf.

(Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

Ómerking. Heimvísun. Meðdómendur.

K áfrýjaði dómi þar sem hann var dæmdur til greiðslu reikninga vegna vinnu E ehf. á raflögnum í nýbyggingu í hans eigu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í málinu væri deilt um staðreyndir sem bornar hefðu verið fram sem málsástæður og sérkunnáttu væri þörf til að leysa úr. Hefði héraðsdómara því borið samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að kveðja til sérfróða meðdómsmenn sem hefðu slíka kunnáttu til að taka sæti í dómi. Þar sem það hafði ekki verið gert varð að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. mars 2013. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar á ný, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi tók stefndi að sér fyrir áfrýjanda að kanna hvort lagnaleiðslur fyrir rafmagn við nýbyggingu að Fagraþingi 5 í Kópavogi væru opnar og óskemmdar. Jafnframt tók stefndi að sér að framlengja rör í kjallaravegg byggingarinnar. Verk þetta vann stefndi í júlí og ágúst 2011 og fyrir það gerði hann áfrýjanda reikninga 18. ágúst og 16. september sama ár samtals að fjárhæð 1.102.491 króna. Með bréfum 20. og 21. september 2011 mótmælti áfrýjandi reikningunum og óskaði skýringa á tímafjölda við verkið og þeim verkþáttum sem reikningarnir tóku til. Einnig gerði áfrýjandi þá kröfu að verkið yrði tekið út af óháðum fagmanni eftir nánara samkomulagi aðila.

Með bréfi 30. september 2011 fór áfrýjandi þess á leit að nafngreindur húsasmíðameistari og matstæknir færi yfir verkið og skilaði skriflegri greinargerð. Í málinu hefur komið fram að fyrirsvarsmenn stefnda áttu fund með þeim manni en hann skilaði skýrslu 11. nóvember 2011 um verkið. Þar kom fram það álit að stefndi hefði átt að ljúka verkinu með því að skila skriflegri skýrslu með nánari upplýsingum um þær lagnir sem væru skemmdar. Að hluta til kæmi vinna við verkið því ekki að notum. Verkið væri aftur á móti fullnægjandi þar sem bönd hefðu verið dregin í lagnir sem væru óskemmdar og fyrir það ætti að greiða. Var komist að þeirri niðurstöðu að hæfileg verklaun væru 310.351 króna og innti áfrýjandi þá greiðslu af hendi til stefnda 24. apríl 2012. Stefndi andmælir því að hann hafi fallist á að þessi úttekt færi fram og því hafi hennar verið aflað einhliða af hálfu áfrýjanda. Jafnframt mótmælir stefndi niðurstöðum úttektarinnar og telur hana ekkert gildi hafa í málinu.

Eftir að héraðsdómur gekk aflaði áfrýjandi matsgerðar 5. apríl 2013 um verkið og sanngjarnt endurgjald fyrir það. Samkvæmt henni var kostnaður við verkið talinn nema 533.255 krónum. Stefndi andmælir matsgerðinni og telur að hún sé ekki reist á réttum forsendum.

Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að reikningar stefnda hafi ekki verið í neinu samræmi við það verk sem unnið var. Telur áfrýjandi fjölda vinnustunda langt umfram það sem eðlilegt verði talið miðað við umfang verksins. Þá heldur áfrýjandi því fram að stefndi hafi ekki lokið verkinu eða skilað því af sér með fullnægjandi hætti.

Í máli þessu er deilt um staðreyndir sem bornar eru fram sem málsástæður og sérkunnáttu er þörf til að leysa úr. Því bar héraðsdómara samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að kveðja til sérfróða meðdómsmenn sem hafa slíka kunnáttu til að taka sæti í dómi. Þar sem það var ekki gert verður að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.  

Dómsorð:

          Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

          Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 28. nóvember síðastliðinn, var höfðað 14. mars sl. af Elmax ehf., Fléttuvöllum 15, Hafnarfirði, gegn Kára Stefánssyni, Þingholtsstræti 6, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.102.491 krónu auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu  nr. 38/2001 af 540.507 krónum frá 18. september 2011 til 16. október sama ár en af 1.102.491 krónu frá þeim degi til greiðsludags að frádreginni innborgun 24. apríl 2012, að fjárhæð 310.351 króna, sem dregst frá kröfunni þann dag. Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til kostnaðar stefnda af virðisaukaskatti af lögmanns­þjónustu.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Málavextir eru þeir að stefndi fól stefnanda að athuga hvort allar lagnaleiðir fyrir rafmagn væru opnar og óskemmdar í nýbyggingu við Fagraþing 5 í Kópavogi. Þetta kom fram á verkfundi 18. júlí 2011 og er bókað þannig í fundargerð.

Verkið var unnið af hálfu stefnanda í júlí og ágúst sama ár. Stefnandi gaf út tvo reikninga vegna vinnunnar. Stefndi taldi reikningana of háa og mótmælti þeim. Hann heldur því fram að málsaðilar hafi komið sér saman um að fá óvilhallan matsmann til að meta verkið en því er mótmælt af hálfu stefnanda að nokkurt samkomulag hafi verið milli málsaðila um slíkt.

Stefndi hefur lagt fram álitsgerð matstæknis frá 11. nóvember 2011 sem gerð var vegna beiðni hans 30. september sama ár. Í beiðninni er því lýst að leggja þurfi mat á vinnu rafvirkja sem farið hafi fram í tilefni af verkbeiðni stefnda á verkfundi í júlí s.á. Í álitsgerðinni var heildarkostnaður vegna vinnu stefnanda talinn vera 310.351 króna.

Af hálfu stefnanda er því mótmælt að matsgerðin hafi nokkra þýðingu fyrir úrlausn málsins. Hún sé ekki leyfilegt sönnunargagn í málinu og óheimilt sé að leggja hana til grundvallar við úrlausn þess.   

Stefndi greiddi stefnanda 310.351 krónu 24. apríl 2012 sem hann taldi fullnaðar­greiðslu fyrir vinnu stefnanda. Á þetta er ekki fallist af hálfu stefnanda. Í málinu er deilt um það hvort stefndi hafi greitt stefnanda sanngjarnt verð fyrir vinnuna. Stefndi telur að ágallar hafi verið á verkinu en draga hafi þurft aftur í meirihluta röra fyrir raflagnir þar sem stefnandi hafi ekki hirt um að merkja þær réttilega. Því er mótmælt af hálfu stefnanda. Dreginn hafi verið spotti í lengstu og flóknustu lagnir og allar lagnir, sem hafi verið lokaðar, hafi verið merktar í enda þeirra eða í dósir. 

Málsástæður og lagrök stefnanda

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að stefnandi sé löggilt rafverktakafyrirtæki. Stefndi sé húsbyggjandi og hafi hann ráðið stefnanda til starfa við framkvæmdir við nýbyggingu. Vegna þeirrar vinnu hafi verið gefnir út tveir reikningar, annars vegar reikningur nr. 0001590, frá 18. ágúst 2011 að fjárhæð 540.507 krónur, og hins vegar reikningur nr. 0001611, frá 16. september s.á. að fjárhæð 561.984 krónur. Verkið hafi verið unnið í júlí og ágúst s.á. Stefnandi hafi lagt fram skjal þar sem tímar komi fram sundurliðaðir, samtals um 100 klukkustundir. Stefndi hafi ekki hnekkt þessum reikningum.

Af hálfu stefnanda sé því mótmælt að matsgerð, sem stefndi hafi kallað eftir einhliða, hafi nokkra þýðingu í málinu. Matsgerðin hafi ekkert sönnunargildi og því sé mótmælt að hún verði lögð til grundvallar við úrlausn málsins. Stefnda hafi ekki verið önnur leið fær en sú að biðja um dómkvadda matsmenn til að leggja mat á verkið en hann beri hallann af því að hafa ekki gert það.

Mótmæli stefnda við reikningunum séu óskýr en hann hafi ekki mótmælt þeim að efni til og hvorki fundið að gæðum verksins né þeim hraða sem það hafi verið unnið á. Stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því, sem kaupandi þjónustunnar, að gæðum hennar hafi verið áfátt. Stefnandi hafi merkt rör þar sem voru stíflur og gert grein fyrir niðurstöðum verksins með stuttri skriflegri skýrslu, sem hann hafi skilað til stefnda, og með því að ganga um húsið með fulltrúum stefnda. Verkinu hafi verið skilað og byggingar­stjóri hafi engar athugasemdir gert eða gefið frekari fyrirmæli um framkvæmd verksins. Verkið hafi verið unnið í samræmi við fyrirmæli stefnda og góða verklags­hætti. Um hafi verið að ræða fjölda lagna í 600 fermetra hús og dregnir hafi verið bandspottar í lengstu og flóknustu lagnaleiðirnar sem voru í lagi. Tímagjaldið sé hóflegt og ekki véfengt.    

Stefndi hafi ekki greitt reikningana. Birtar hafi verið innheimtuviðvaranir af Vakta sf. Í kjölfar þeirra hafi ekki verið greitt og hafi stefnda verið birt innheimtubréf 20. febrúar 2012 vegna skuldarinnar þar sem stefnda hafi verið veittur 15 daga frestur til að greiða skuldina, ella yrði gripið til löginnheimtu. Innheimtuaðgerðir stefnanda hafi ekki borið árangur og hafi honum því verið nauðugur einn kostur að stefna stefnda til greiðslu skuldarinnar.

Stefnandi vísi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en reglan fái m.a. lagastoð í VI. kafla laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Um gjalddaga kröfunnar sé einkum vísað til meginreglu 49. gr. sömu laga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styðji stefnandi við reglur III. kafla, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing sé vísað til 32. gr. sömu laga.

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er vísað til þess að hann sé að byggja einbýlishús að Fagraþingi 5 í Kópavogi. Hann hafi ráðið stefnanda til þess að athuga hvort allar lagnaleiðir vegna rafmagns í steypu væru opnar og óskemmdar. Verkið hafi sérstaklega verið tiltekið í fundargerð verkfundar sem fram hafi farið á verkstað 14. júlí 2011. Í verkfundargerð sé bókað undir tl. 4, stafliður b – Viðskilnaður verks frá fyrri verktaka:

„Rafmagn : Á þessu stigi felst vinna rafverktaka (fyrir utan lagnir í lóð), í að athuga hvort að allar lagnaleiðir vegna rafmagns í steypu séu opnar og óskemmdar. Rafverktaki mun fara í að ganga úr skugga um að svo sé. Önnur vinna rafverktaka vinnst á seinni stigum verksins.“

Á fundinn hafi mætt Jóhann Sigurðsson fyrir hönd stefnanda. Fundinn hafi að auki setið arkitekt hússins, Hlédís Sveinsdóttir hjá EON ehf., byggingarstjóri ásamt full­trúum trésmíða-, pípulagna- og gluggasmíðameistara hússins. Arkitektastofan EON ehf. hafi haft yfirumsjón með byggingu hússins fyrir hönd stefnda og sé eftirlitsaðili á verkinu fyrir hann.  

Frá upphafi hafi legið fyrir að aðkoma stefnanda að verkinu á þessu stigi hafi átt að vera takmörkuð við þetta verk. Alltaf hafi legið fyrir að á seinni stigum yrði leitað tilboða frá nokkrum rafverktökum í alla rafmagnsvinnu við húsnæðið, enda ljóst að heildarkostnaður við slíkt yrði mikill. Ætlunin hafi verið sú að leyfa stefnanda að gera tilboð ásamt öðrum rafverktökum.

Athugun á lögnum sé gerð í þeim tilgangi að ljóst sé hvaða lagnir þurfi að hreinsa og lagfæra og hvaða lagnir séu í lagi. Venjubundin aðferð við það sé að girni sé skotið í gegnum rör með þar til gerðri vél. Yfirleitt hafi menn geislafjöður á endanum sem sé með sendi. Ef fjöðrin stoppi á leiðinni sé notað þar til gert mælitæki til að finna staðinn þar sem fjöðrin stoppar. Oft sé fjöðrinni skotið beggja megin frá til að ljóst sé að aðeins ein stífla sé í rörinu. Stíflustaðurinn sé merktur með málningarúða eða einhverju þess háttar þannig að síðar verði hægt að brjóta þar upp og lagfæra lögnina. Umræddan búnað, fjöðrina og mælitækið, sé hægt að taka á leigu hjá Samtökum rafverktaka. 

Stefnandi hafi jafnframt verið fenginn til að aðstoða jarðvinnuverktaka við eitt lítið við­vik sem komið hafi upp, en þurft hafi að framlengja eitt rör sem komið hafi út úr kjallaravegg. Rörin hafi verið til staðar en leggja hafi þurft til sam­setningar­hólka, eins og fram komi í matsgerð.

Seinnipart ágústmánaðar hafi stefndi fengið sendan reikning nr. 1590, að fjárhæð 540.507 krónur, dagsettan 18. ágúst 2011. Í kjölfarið hafi Gunnar Árnason, fram­kvæmda­stjóri EON ehf., farið fram á rökstuðning og útskýringar á reikningnum þar sem hann hafi talið hann frekar háan. Viðhlít­andi skýringar hafi hins vegar ekki borist. Stefnda hafi svo borist annar reikningur, dag­settur 16. september s.á., vegna vinnu í ágúst, að fjár­hæð 561.984 krónur.

Í kjölfarið hafi Gunnar Árnason sent stefnanda tvö bréf fyrir hönd stefnda þar sem reikningum hafi verið mótmælt. Jafnframt hafi verið gerð krafa um að samkomulag næðist um óháðan aðila sem fenginn yrði til að meta þá vinnu sem stefnandi hefði unnið. Stefndi hafi jafnframt talið nauðsynlegt að fá óháðan aðila á verkstað sem fyrst, með tilliti til þess að aðstæður á verkstað myndu fljótt breytast. Með því móti yrði fljótt erfitt að átta sig á hvaða aðstæður hefðu verið uppi nokkrum vikum eða mánuðum áður. Gunnar Árnason hafi verið í sambandi við Ottó Tómas Ólafsson, annan eiganda stefnanda, fyrir hönd stefnda varðandi ákvörðun á matsmanni. Aðilar hafi komið sér saman um að fá Böðvar Pál Ásgeirsson, löggiltan matsmann, mats­tækni og húsa­smíða­meistara, í verkið.  

Stefndi hafi útbúið verkbeiðni í lok september 2011. Við gerð matsins hafi matstæknir fundað með hlutaðeigandi aðilum eftir þörfum og veitti þeim tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Matstæknir hafi hitt fyrirsvars­menn stefnanda a.m.k. tvisvar á framkvæmdarstað við gerð matsins. Hvorki stefndi né fulltrúi hans hafi verið viðstaddir þá fundi til þess að fyrirsvarsmenn stefnanda gætu komið á framfæri sínum sjónarmiðum og athugasemdum, hindrunar­laust og án afskipta stefnda eða fulltrúa hans. Forsvarsmenn stefnanda hafi aldrei mótmælt umræddu mati, forsendum þess eða framkvæmd. Stefndi hafi gengið út frá því og talið að aðilar væru sammála um að stefndi myndi greiða samkvæmt niðurstöðu mats­gerðarinnar og að málinu yrði þannig lokið.

Matstæknirinn hafi skilað matsgerð sinni í nóvember 2011. Í henni komi fram að við gerð hennar hafi fyrirsvarsmaður stefnanda upplýst matstækninn um að þeir hafi skotið í gegnum allar lagnir hússins. Hann hafi sagt að sumar lagnir væru í lagi og aðrar ekki. Dregnir hafi verið spottar í gegnum lengstu lagnirnar. Tekið sé fram í matsgerðinni að ekki væri ljóst hvort ídrátturinn væri að beiðni verkkaupa eða ekki. Í matsgerðinni komi jafnframt fram að stefnandi hefði ekki notast við áðurnefnda fjöður með sendibúnaði, þannig að hægt væri að sjá hvar stíflur væru en stefnandi hefði talið það of kostnaðarsamt. Jafnframt hafi komið fram að stefnandi hefði ekki merkt við þær lagnir sem voru í lagi og þær sem voru í ólagi, hvorki við stútana né utan á lagnirnar sjálfar. Hann hafi heldur engri skýrslu skilað um hvaða lagnir væru í lagi og hverjar ekki. Eftir að stefnandi lauk verki sínu hafi stefndi því bara getað vitað að það væri í lagi með þær lagnir sem stefnandi dró í og að sumar af hinum lögnunum væru í lagi og aðrar ekki. Því hafi legið fyrir að aðrir rafvirkjar, sem færu að endingu í að vinna í rafmagni hússins, yrðu að skjóta í öll rörin aftur, utan þeirra sem voru með ídregnum spotta.

Með hliðsjón af öllu ofangreindu hafi matstæknirinn talið að heildarkostnaður við aðgerðir stefnanda væri hæfilega ákveðinn 310.351 króna með virðisaukaskatti.

Stefnanda hafi verið tilkynnt um matsgerðina 18. nóvember 2011. Honum hafi verið send matsgerðin ásamt bréfi þar sem tilkynnt var af hálfu stefnda að hann myndi greiða stefnanda í samræmi við niðurstöðu hennar, eða alls 310.351 krónu. Jafnframt hafi verið bent á að kostnaður við matsgerðina væri 100.400 krónur og að kostn­aðurinn ætti að skiptast jafnt á milli aðila. Með tölvupósti eftirlitsaðila, EON ehf., til stefnanda 23. nóvember s.á. hafi verið farið fram á að fá upplýsingar um banka­reikning stefnanda svo hægt væri að greiða samkvæmt niðurstöðu mats­gerðarinnar. Stefnandi hafi hins vegar ekki fengist til að gefa upp bankareiknings­númer, en hafi þó ekki mótmælt niðurstöðu matsins. 

Í janúar 2012 hafi stefnda borist innheimtuviðvaranir og síðar innheimtubréf. Vegna þessa hafi stefndi sent bréf til innheimtuaðilans þar sem kröfum stefnanda var mótmælt. Krafa stefnanda hafi svo verið greidd lögmanni hans 24. apríl sl. eftir að stefndi hafi að endingu fengið upp gefið númer bankareiknings til að greiða inná. Stefnandi hafi hins vegar ekki fallist á að sú greiðsla væri fullnægjandi og hafi stefndi því skilað greinargerð í málinu.

Málsatvikalýsing stefnanda sé alvarlega vanreifuð með tilliti til þess sem liggi fyrir í gögnum málsins og atvikalýsingu stefnda. 

Sýknukrafa stefnda sé aðallega byggð á því að hann hafi þegar greitt stefnanda sann­gjarnt endurgjald fyrir sína vinnu, sbr. 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Stefnukrafan sé því þegar greidd. Sú niðurstaða eigi sér m.a. stoð í matsgerð Böðvars Páls Ásgeirssonar, matstæknis og húsasmíðameistara. 

Stefnandi hafi verið fenginn til að athuga hvort allar lagnaleiðir vegna rafmagns í steypu væru opnar og óskemmdar, sbr. verkfund aðila. Athugun á lögnum sé gerð í þeim tilgangi að hægt sé að hreinsa og lagfæra þær lagnir sem væru ekki í lagi. Stefndi telji að fjárhæðir reikninga stefnanda hafi ekki verið í neinu samræmi við verkið sem var unnið. Uppgefinn tímafjöldi starfsmanna stefnanda sé langt umfram það sem stefndi telji eðlilegt með tilliti til umfangs verksins. Þess utan geti stefndi ekki séð hvort stefnandi hafi í raun innt allt verkið af hendi þar sem einungis hluti af lögnunum hafi verið merktur í lagi eða ólagi. Einungis 306 stútar af 788 hafi verið með ídráttar­spotta, þannig að um 62% stútanna hafi verið alveg ómerktir. Hafi stefnandi á annað borð unnið verkið þá hafi hann a.m.k. skilað því á algjörlega ófullnægjandi hátt. Þetta hafi valdið því að rafverktakarnir, sem að endingu hafi verið fengnir til að sjá um að leggja rafmagn í húsið, hafi þurft að skjóta í flest öll rörin aftur.

Þá sé ljóst að stefndi hafi heldur ekki notast við geislafjöður með sendibúnaði líkt og venja sé. Af því leiði að þótt stefndi hefði fengið upplýsingar um hvaða rör væru í raun stífluð, þá hefði hann ekki getað vitað hvar í rörunum stíflan væri. Hefði því þurft að skjóta aftur í þau rör með geislafjöðrum eða jafnvel brjóta þau upp til að leita að stíflunum. Vinna stefnanda, hefði hún á annað borð nýst stefnda, hefði því jafnframt verið að mun minni gæðum en stefndi hefði mátt vænta. 

Stefndi vísi að öðru leyti til matsgerðar Böðvars Páls Ásgeirssonar, en stefndi hafi þegar greitt stefnanda samkvæmt niðurstöðum hennar. Stefnandi hafi aldrei mótmælt umræddri matsgerð, hvorki forsendum hennar, framkvæmd né niðurstöðum. Stefndi hafi greitt 100.400 krónur með virðisaukaskatti í kostnað til matstæknisins vegna um­ræddrar matsgerðar. Matsgerðin hafi verið nauðsynleg í tilefni óréttmætra krafna stefnanda, en stefnandi hafi ekki fengist til að greiða þann kostnað til móts við stefnda. Stefndi telji ljóst að hann hafi því í raun greitt meira en eðlilegt sé fyrir umrætt verk.

Með hliðsjón af öllu sem að framan greini telji stefndi að stefnandi hafi ekki unnið verkið í samræmi við 4. gr. laga um þjónustukaup. Verkið hafi ekki verið unnið á fullnægjandi hátt og hafi verið haldið verulegum galla, sbr. 1. og 5. tl. 9. gr. sömu laga. Stefndi telji sig þegar hafa greitt stefnanda sanngjarnt verð í samræmi við þá vinnu sem stefnandi innti sannanlega af hendi, sbr. 28. gr. laga nr. 42/2000. Því sé ljóst að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda.  

Sýknukröfu sinni til stuðnings vísi stefndi til 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustu­kaup og einnig til 1. og 5. tl. 9. gr. sömu laga. Stefndi vísi jafnframt til almennra sjónarmiða um neytendavernd. Varðandi kröfu um málskostnað vísi stefndi til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæða 21. kafla sömu laga. Krafa um virðisauka­skatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.

Niðurstaða

Samkvæmt 28. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000 skal kaupandi greiða fyrir keypta þjónustu, þegar ekki er samið um verð, það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er. Reikningar stefnanda í málinu fyrir það verk sem stefndi fól honum að vinna eru fyrir 117,5 klukkustunda vinnu rafvirkja og 98,5 klukkustunda vinnu lærlings í júlí og ágúst 2011 ásamt efni, akstri, verkfæra- og vélagjaldi. Reikningur fyrir vinnu í júlí er að fjárhæð 540.507 krónur og fyrir vinnu í ágúst 561.984 krónur. Stefnandi hefur lagt fram sundurliðaðar vinnuskýrslur vegna verksins sem standa að baki þeim reikningum sem krafa hans í málinu er byggð á. Fram hefur komið að ekki hafi verið gerður sérstakur verk­samningur en verkinu sem stefnanda var falið er lýst í fundargerð eins og að framan er rakið.

Stefndi telur reikningana of háa og hefur þeirri staðhæfingu til stuðnings aflað álits matstæknis, sem einnig er húsasmíðameistari, á því hver sé heildarkostnaður við þá vinnu sem stefnandi lét stefnda í té. Í álitinu er því lýst að lagt sé mat á vinnu rafvirkja við nýbyggingu að Fagraþingi 5 í Kópavogi. Þar kemur enn fremur fram að dregið hafi verið í 306 stúta með þræði sem skotið hafi verið í gegnum 153 rör. Sanngjarnt sé að greiða fyrir þræddar lagir. Fyrir þetta er áætlaður tími á hvert skot 15 mínútur sem verða 42 klukkustundir með kaffitímum. Reiknaður er kostnaður við verkið svo og fyrir aukaverk, samtals 310.351 króna.

Álitsgerðar þessarar var ekki aflað í samræmi við fyrirmæli um matsgerðir í IX. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Af hálfu stefnda er því haldið fram að nauð­syn­legt hafi verið að fá óháðan aðila á verkstað sem fyrst, með tilliti til þess að aðstæður myndu fljótt breytast. Með því móti yrði fljótt erfitt að átta sig á hvaða aðstæður hefðu verið uppi nokkrum vikum eða mánuðum áður. Haft hafi verið samráð við fyrirsvarsmenn stefnanda um að fá mat á því hvert væri sanngjarnt endur­gjald fyrir vinnu stefnanda. Því til staðfestingar er af hálfu stefnda vísað til símtala umboðs­manns stefnda við fyrirsvarsmenn stefnanda og tölvupósts til fyrirsvarsmanns stefnanda sem ósannað er gegn andmælum stefnanda að hann hafi fengið.

 Álitsgerðinni er af hálfu stefnanda mótmælt svo og því að matstæknirinn hafi verið kallaður til í samráði við stefnanda eins og stefndi heldur fram að gert hafi verið. Með vísan til þess sem fyrir liggur í málinu og hér að framan er rakið verður að telja ósannaða þá staðhæfingu stefnda að samráð hafi verið haft við stefnanda af hálfu stefnda um að fengið yrði álit matstæknis á því hvað talið yrði sanngjarnt verð fyrir verkið sem stefnandi vann fyrir stefnda. Þá verður einnig að telja ósannað í málinu að stefndi hafi mátt líta svo á með réttu að aðilar væru sammála um að stefndi greiddi stefnanda samkvæmt niðurstöðu mats­gerðarinnar og að málinu yrði þannig lokið.

Að þessu virtu verður að hafna því að álitsgerðin hafi sönnunargildi í málinu við úrlausn á sakarefninu. Önnur gögn hafa ekki verið lögð fram í málinu af hálfu stefnda um umfang verksins og annað sem unnt væri að hafa til viðmiðunar við úrlausn á því hvað verði talið sanngjarnt verð fyrir verkið með hliðsjón af því hve mikil vinnan var sem um ræðir og hvers eðlis hún var. Greiðsla stefnda 24. apríl 2012, að fjárhæð 310.351 króna, sem er miðuð við niðurstöðu framangreindrar álitsgerðar, telst því ekki fullnaðargreiðsla fyrir verkið. 

Af hálfu stefnda er því haldið fram að vinnu stefnanda hafi verið áfátt. Hluti vinnunnar hafi verið til einskis þar sem ekki hafi verið merkt við þær lagnir sem voru í lagi og þær sem voru í ólagi. Því hafi þurft að kanna aftur hvaða rör voru í lagi og hver þeirra voru það ekki.

Samkvæmt verklýsingunni, sem stefnandi skyldi vinna eftir, fólst vinnan í því að athuga hvort allar lagnaleiðir vegna rafmagns í steypu væru opnar og óskemmdar. Þá segir þar enn fremur að rafverktaki fari í að ganga úr skugga um það. Önnur vinna rafverktaka skyldi vinnast á seinni stigum verksins. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að verkið hafi verið unnið með hefðbundnum hætti. Dreginn hafi verið spotti í allar lengri og flóknari lagnir sem voru opnar en merkt við þær sem voru lokaðar eða skemmdar.

Ágreiningslaust er í málinu að ekki var merkt við hvar skemmdir voru í þeim lögnum sem ekki voru í lagi en af hálfu stefnanda er því haldið fram að merkt hafi verið við enda eða stúta þeirra lagna sem ekki voru í lagi. Þá er því haldið fram af hálfu stefnanda að verkinu hafi verið skilað með því að gengið hafi verið um svæðið og afhentur seðill þar sem fram hafi komið niðurstöður um lagnir í ólagi. Engar athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu stefnda vegna þessara verkskila. Fram kom í fram­burði byggingarstjóra, er hann gaf skýrslu fyrir dóminum, að haldinn hafi verið fundur þar sem verkstaðan hafi verið rædd. Eftir fundinn hafi verið gengið um húsið og bent á hvað væri að og merkt inná þannig að hægt væri að fara yfir það hvernig yrði brugðist við.  

Fyrirsvarsmaður stefnanda lýsti því fyrir dóminum hvernig verkið var unnið. Bandi hafi verið blásið í lengri leiðir og það skilið þar eftir. Með því varð auðveldara að draga raflagnir í rörin og þetta verklag hafi komið í veg fyrir tví­verknað í löngum leiðum. Bandið var þá tilbúið og hægt að nota það til að draga raflagnirnar í allar langar lagnir. Erfiðara sé að draga í langar langir en stuttar en þá komi bandið í rörinu að gagni. Óþarfi sé að draga band í stuttar lagnaleiðir. Húsið hafi verið stórt og lofthæð mikil. Að öðru leyti hafi verið um hefðbundið verk að ræða. Öll skil á verkinu hafi verið með hefð­bundnum hætti og engar athugasemdir gerðar af hálfu stefnda.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefndi hafi tilkynnt stefnanda að hann teldi verkinu áfátt, þar á meðal að láðst hefði að merkja þá staði þar sem lagnir voru í ólagi og að ekki hefði verið skilað skýrslu um niðurstöður af þeim athugunum sem stefnanda var falið að vinna. Í bréfum umboðsmanns stefnda 20. og 21. september 2011 koma fram mótmæli stefnda vegna reikninganna sem mál þetta er sprottið af. Þar segir enn fremur að ekki hafi fengist viðhlítandi úrskýringar frá rafvirkja á tímafjölda og verkþáttum meints reiknings, sbr. ÍST 30:2003. Hins vegar kemur þar ekkert fram um að stefndi telji verkskilum stefnanda vera áfátt. Yfirlýsing, sem vitnað er til af hálfu stefnda, um að viðskilnaður stefnanda og ástand lagnaleiða hafi verið eins og lýst sé í matsgerð matstæknis frá 11. nóvember 2011 og að ekki hafi verið hægt að átta sig á því hvaða lagnaleiðir voru opnar og hverjar væru stíflaðar nema gera á því sjálfstæða könnun, kom fram eftir að stefnandi höfðaði málið en yfirlýsingin var lögð fram á dómþingi 30. ágúst sl. og er dagsett 27. sama mánaðar.

Af orðalagi verkbeiðninnar verður ekki ráðið að stefnanda hafi verið falið að gera annað en það sem þar kemur fram. Þar er engin lýsing á því hvernig lagnir skyldu merktar eða að verktaka bæri að skila skýrslu um verkið. Verður að telja að stefnandi hafi unnið verkið í samræmi við verkbeiðnina og í samráði við fyrirsvarsmenn stefnda. Þá verður að telja ósannað af hálfu stefnda að stefnandi hafi skilað verkinu í andstöðu við góða viðskiptahætti eða verklag sem tíðkist um vinnu eins og þá sem hér um ræðir. Engin gögn, sem unnt er að leggja til grundvallar við úrlausn málsins, liggja fyrir um það að verkinu hafi verið áfátt og verður stefndi að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Staðhæfingar stefnda um að verki stefnanda hafi verið áfátt verður því að telja ósannaðar.

Að öllu framangreindu virtu þykir stefnandi hafi fært fram fullnægjandi rök og gögn fyrir því gegn andmælum og staðhæfingum stefnda, sem teljast ósannaðar, að verðið sem hann krefur stefnda um greiðslu á fyrir verkið verði talið sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan var mikil og hver eðlis hún var. Ber því að fallast á kröfu stefnanda um að stefnda verði gert að greiða stefnanda umrædda fjárhæð, 1.102.491 krónu, ásamt dráttarvöxtum eins og krafist er að frádreginni innborgun, 310.351 krónu, sem dregst frá kröfunni 24. apríl 2012.        

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála þykir rétt að stefndi greiði stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Málið dæmir Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Kári Stefánsson, greiði stefnanda, Elmax ehf., 1.102.491 krónu auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu  nr. 38/2001 af 540.507 krónum frá 18. september 2011 til 16. október 2011 en af 1.102.491 krónu frá þeim degi til greiðsludags, að frádreginni 310.351 krónu sem kemur til frádráttar 24. apríl 2012. Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í máls­kostnað.