Hæstiréttur íslands

Mál nr. 308/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


                                      Þriðjudaginn 15. ágúst 2000.

Nr. 308/2000.                          Lögreglustjórinn í Reykjavík

                                                (Egill Stephensen saksóknari)

                                      gegn

                                      X

                                      (Kristinn Bjarnason hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A.liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðs 103. gr. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. ágúst 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. ágúst 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 23. þessa mánaðar kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Í úrskurði héraðsdóms er því lýst að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi átt þátt í að flytja inn mikið af fíkniefnum. Fallist er á með héraðsdómara að vegna rannsóknarhagsmuna séu enn fyrir hendi skilyrði gæsluvarðhalds samkvæmt a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 9. ágúst 2000.

 

Ár 2000, miðvikudaginn 9. ágúst, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Allani V. Magnússyni héraðsdómara kveðinn upp svofelldur úrskurður:

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að X, [...], verði úrskurðaður til að sæta áfram gæsluvarðhaldi frá lokum þess gæsluvarðhalds sem hann nú sætir, en lýkur á morgun kl. 16:00, og allt til miðvikudagsins 23. ágúst nk., kl. 16.00.

[...]

                Verið er að rannsaka ætluð brot kærða gegn fíkniefnalöggjöfinni og gætu þau  ef sönnuð þættu varðað allt að 10 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða eftir atvikum fangelsisrefsingu samkvæmt lögum nr. 65/1974. Rannsókn málsins er enn ekki lokið.  Rannsóknargögn renna stoðum undir það að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að kærði sé viðriðinn brot á ofangreindri lagagrein.  Rétt þykir sbr. a-lið 1. mgr. 103. gr. laga 19/1991 að verða við kröfu lögreglustjórans í Reykjavík, enda ljóst af gögnum málsins að yfirheyra þarf kærða frekar svo og samseka og/eða vitni og ljóst er, að hann geti torveldað rannsókn málsins gangi hann laus.  Er því krafa lögreglunnar tekin til greina að öllu leyti og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 23. ágúst nk. kl. 16:00, eins og krafist er.

Úrskurðarorð:

         Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 23. ágúst nk. kl. 16:00.