Hæstiréttur íslands

Mál nr. 292/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárskipti
  • Óvígð sambúð


         

Fimmtudaginn 5. júní 2008.

Nr. 292/2008.

K

(Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.)

gegn

M

(Klemenz Eggertsson hdl.)

 

Kærumál. Fjárskipti. Óvígð sambúð.

Ágreiningur reis við opinber skipti á búi aðila í kjölfar sambúðarslita þeirra. K leitaði fyrir Hæstarétti breytinga á niðurstöðum hins kærða úrskurðar um hvernig farið skyldi við skiptin milli aðilanna með greiðslu sölulauna til fasteignasala vegna jarðaviðskipta, eignarrétt að tilteknum hrossum, innistæðu á bankareikningi sóknaraðila, söluverð hrossa, sem höfðu verið lögð inn til slátrunar, yfirdráttarskuld á bankareikningi varnaraðila og kostnað vegna bókhaldsþjónustu. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar voru ákvæði hans um þessi atriði staðfest. Krafa K um að hún fengi í sinn hlut þá lausafjármuni sem 2. liður í IV. kafla frumvarps skiptastjóra sneri að kom ekki til álita fyrir Hæstarétti enda hafði hún fallið frá þeim þætti í dómkröfum sínum í héraði. Hvorugur aðila kærði þá niðurstöðu héraðsdóms að hlutur M í bifreiðaeign aðila hafi verið 300.000 krónum umfram hlut K og stóð hún því óröskuð. Kröfu M um að K yrði gert að greiða dráttarvexti af 1.883.274 krónum var hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 28. apríl 2008, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningsefnum, sem risið höfðu við opinber skipti til fjárslita milli aðilanna vegna loka óvígðrar sambúðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að frumvarpi, sem skiptastjóri hefur gert til úthlutunar við opinberu skiptin, verði breytt á þann veg að varnaraðili verði einn látinn bera sölulaun til fasteignasölu að fjárhæð 2.527.350 krónur vegna sölu á jörðunum A, B og D í E, aðallega í heild en til vara 1.015.000 krónur af þeim, að 32 hross, folöld, merar og tryppi, sem lögð voru aðilunum út 1. maí 2007, verði talin eign sóknaraðila og komi ekki til skipta, að lausafjármunir, sem um ræðir í 2. lið IV. kafla frumvarps skiptastjóra, komi í hlut sóknaraðila við skiptin, aðallega án endurgjalds en til vara gegn greiðslu hennar á 200.000 krónum, að inneign á bankareikningi sóknaraðila að fjárhæð 109.229 krónur komi ekki til skipta, að verð hrossa við sölu til tilgreinds sláturhúss, 197.058 krónur, komi ekki til skipta, að ekki verði tekið tillit við skiptin til yfirdráttarskuldar á bankareikningi varnaraðila að fjárhæð 87.419 krónur, að hitakostnaður vegna íbúðarhúss að A fyrir tímabilið maí til ágúst 2006 að fjárhæð 60.000 krónur falli sameiginlega á aðilana og að kostnaði af gerð ársreiknings og skattframtals, 125.000 krónur, verði skipt þannig milli þeirra að 100.000 krónur falli á varnaraðila og 25.000 krónur á sóknaraðila. Þá krefst sóknaraðili þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að vextir verði reiknaðir í frumvarpi skiptastjóra af fé, sem hún hafi haft undir höndum frá því að sambúð aðilanna lauk. Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 16. maí 2008. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sóknaraðila verði gert að greiða í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Fyrir héraðsdómi gerði sóknaraðili sömu dómkröfur og getur hér að framan að tveimur atriðum frátöldum. Annars vegar krafðist hún þess að frumvarpi skiptastjóra til úthlutunar yrði breytt þannig að aðilarnir héldu hvort fyrir sig bifreiðum og dráttarvél, sem þau hefðu í vörslum sínum, gegn því að varnaraðili greiddi sóknaraðila 650.000 krónur, í stað þess að leggja að jöfnu ökutækin, sem hvor aðilinn fengi, svo sem ráðgert var í frumvarpinu. Í hinum kærða úrskurði var krafa sóknaraðila um þetta tekin til greina að hluta á þann hátt að lagt skyldi til grundvallar við skiptin að hlutur varnaraðila í bifreiðum hafi verið sem svarar 300.000 krónum verðmætari en hlutur sóknaraðila. Hvorugt aðilanna hefur kært niðurstöðu úrskurðar héraðsdóms um þetta atriði og stendur hún því óröskuð. Hins vegar var því lýst yfir við aðalmeðferð málsins í héraði að samkomulag hafi tekist milli aðilanna um að sóknaraðili fengi í sinn hlut við opinberu skiptin lausafjármuni, sem 2. liður í IV. kafla frumvarps skiptastjóra sneri að, gegn greiðslu á 200.000 krónum. Við munnlegan flutning málsins í héraði féll sóknaraðili þessu til samræmis frá þeim þætti í dómkröfum sínum, sem varðaði þessa muni, en gagnstætt því er hann samkvæmt áðursögðu nú tekinn upp á ný í þriðja hluta kröfugerðar hennar fyrir Hæstarétti. Með því að þetta samrýmist ekki þeirri ráðstöfun, sem sóknaraðili gerði á sakarefninu í héraði, getur þessi hluti dómkrafna hennar ekki komið til álita fyrir Hæstarétti.

Með fyrsta, öðrum, fjórða, fimmta, sjötta og áttunda hluta fyrrgreindra dómkrafna fyrir Hæstarétti leitar sóknaraðili breytinga á niðurstöðum hins kærða úrskurðar um hvernig farið skuli við skiptin milli aðilanna með greiðslu sölulauna til fasteignasala vegna jarðaviðskipta, eignarrétt að tilteknum hrossum, innistæðu á bankareikningi sóknaraðila, söluverð hrossa, sem hafi verið lögð inn til slátrunar, yfirdráttarskuld á bankareikningi varnaraðila og kostnað vegna bókhaldsþjónustu. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verða ákvæði hans um þessi atriði staðfest. Að því er varðar sjöunda hluta dómkrafna sóknaraðila hér fyrir dómi, sem lýtur að hitakostnaði af íbúðarhúsi á jörðinni A á tímabilinu frá maí til september 2006, varð niðurstaða héraðsdómara sú að varnaraðili skyldi bera þriðjung kostnaðarins, en hann falla á sóknaraðila að öðru leyti. Kæra varnaraðila tekur ekki til þessa atriðis í úrskurði héraðsdóms og skal hann því standa óraskaður að þessu leyti.

Fyrir héraðsdómi krafðist varnaraðili meðal annars þess að við skiptin milli aðilanna yrðu reiknaðir vextir sóknaraðila til gjalda vegna tímabilsins frá 2. október 2006 af nánar tilgreindum fjárhæðum, sem hún hafi haft í umráðum sínum af fé í sameign þeirra. Í hinum kærða úrskurði var vísað til þess að samkvæmt gögnum málsins hafi varnaraðili hvorki krafist að skiptastjóri tæki féð úr vörslum sóknaraðila og legði á bankareikning til ávöxtunar í þágu beggja aðilanna né að hann fengi sambærilega fjárhæð í hendur frá skiptastjóra. Af þeim sökum yrði krafa varnaraðila aðeins tekin til greina á þann hátt að dráttarvexti skyldi reikna af heildarfjárhæðinni frá þingfestingardegi málsins í héraði, 5. september 2007. Fallast verður á með héraðsdómara að hér skipti máli að varnaraðili hafi ekki hreyft fyrir skiptastjóra kröfum af þeim toga, sem að framan er getið. Á grundvelli þeirra röksemda er á hinn bóginn óhjákvæmilegt að hafna kröfu varnaraðila varðandi vexti að öllu leyti.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verður staðfest, en dæma verður sóknaraðila til greiðslu kærumálskostnaðar eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að hafnað er kröfu varnaraðila, M, um að frumvarpi skiptastjóra til úthlutunar við opinber skipti til fjárslita vegna loka óvígðrar sambúðar varnaraðila og sóknaraðila, K, verði breytt þannig að reiknaðir verði vextir úr hendi hennar af 1.883.274 krónum.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

                                     Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 28. apríl 2008. 

                                                                                  I

Mál þetta var þingfest hinn 5. september sl. og tekið til dóms að loknum munnlegum flutningi 3. mars sl.

Sóknaraðili er K.

Varnaraðili er M.

Dómkröfur

Sóknaraðili krefst þess að skipting eigna og skulda á sameiginlegu búi aðila við sambúðarslit þeirra verði með eftirfarandi hætti:

Varnaraðili greiði einn 2.527.350 króna sölulaun til fasteignasölunnar Fasteignamiðstöðvarinnar vegna sölu á jörðum aðila, A, B og D í E. Til vara verði sóknaraðila gert að greiða 1.015.000 krónur vegna sölu jarðanna en varnaraðili greiði eftirstöðvarnar.

Að 32 hross, folöld, merar og tryppi, sem útlögð voru til aðila hinn 1. maí 2007 séu einkaeign sóknaraðila og falli þar af leiðandi utan sameiginlegs bús aðila og komi ekki til skipta.

Að innistæða á reikningi sóknaraðila nr. xxxxx að fjárhæð 109.229 krónur á viðmiðunardegi skipta falli utan sameiginlegs bús aðila og komi þar af leiðandi ekki til skipta.

Að söluandvirði hrossa í slátrun til SHA afurða, alls 197.058 krónur, falli utan sameiginlegs bús aðila og komi því ekki til skipta.

Að yfirdráttarskuld á reikningi varnaraðila nr. 5219, að fjárhæð 87.419 krónur á viðmiðunardegi, falli utan sameiginlegs bús aðila og komi þar af leiðandi ekki til skipta.

Að bifreiða- og dráttarvélaeign aðila skiptist þannig að hvor aðili um sig haldi þeim bifreiðum og dráttarvél sem eru í þeirra vörslum og að varnaraðili greiði sóknaraðila 650.000 krónur vegna þessa.

Að hitunarkostnaður vegna íbúðarhússins að A fyrir tímabilið maí til ágúst 2006 teljist til sameiginlegra skulda aðila, alls um 60.000 krónur.

Að kostnaði vegna ársreiknings- og framtalsgerðar, að fjárhæð 125.000 krónur, verði skipt þannig á milli aðila að 100.000 krónur komi í hlut varnaraðila en 25.000 krónur í hlut sóknaraðila.

Að sóknaraðila verði ekki gert að greiða varnaraðila vexti við skiptin á það fé sem verið hefur í hennar vörslum síðan aðilar slitu óvígðri sambúð sinni.

Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili gerir þær dómkröfur að frumvarp skiptastjóra til úthlutunar verði lagt til grundvallar fjárskiptum milli aðila þannig að varnaraðili fái greiddar 6.774.402 krónur auk markaðsvaxta hjá Glitni hf. sem fjárhæðin ber á reikningi skiptastjóra, Guðmundar Ágústssonar hdl., frá innlögn 18. júní 2007 til greiðsludags og að hann verði sýknaður af kröfum sóknaraðila.

Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðili greiði honum dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 908.117 krónum frá 2. október 2006 til 1. janúar 2007, en af 1.784.745 krónum frá þeim degi til 7. febrúar 2007, og af 1.883.274 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Varðandi kröfu sína um greiðslu vaxta úr hendi sóknaraðila krefst varnaraðili markaðsvaxta KB banka hf. og því verði sóknaraðila gert að greiða 11.3% vexti af 908.117 krónum frá 2. október 2006 til 1. janúar 2007, af 1.784.745 krónum frá þeim degi til 7. febrúar 2007, með 11,8% ársvöxtum af 1.883.274 krónum frá þeim degi til 11. júní 2007, en með 12% ársvöxtum af 1.883.274 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Loks krefst varnaraðili málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi varnaraðila.

                                                                                  II

Málsatvik

Með úrskurði dómsins, uppkveðnum 31. janúar 2007, var bú aðila málsins tekið til opinberra skipta til fjárslita. Þann dag var Guðmundur Ágústsson héraðsdóms-lögmaður skipaður skiptastjóri í búinu. Sambúð aðila lauk í raun í byrjun árs 2006 en þau ákváðu að 1. maí 2006 skyldi vera viðmiðunardagur við skiptin. Helsta eign búsins voru jarðirnar A, B og D en þær voru seldar í lok maí 2006. Jarðir þessar voru áður í eigu foreldra sóknaraðila en aðilar málsins bjuggu í A. Sóknaraðili var þar með lögheimili eftir að sambúðinni lauk og síðar tók hún á leigu íbúðarhúsið í A af kaupanda jarðanna. Deilur spruttu upp vegna sölu jarðanna [...] Þessi málaferli töfðu nokkuð framgang skiptamáls þessa. Hinn 21. maí 2006 gerðu aðilar með sér samning um skiptingu söluverðs jarðanna en þar kemur meðal annars fram að söluandvirði skuli skipt jafnt á milli aðila og greiddi fasteignasali sá sem annaðist söluna kaupverðið til aðila í samræmi við samkomulag þetta.

Sóknaraðili greinir frá því í lýsingu sinni á málavöxtum að þegar aðilar hófu sambúð hafi á nefndum jörðum verið allt að 60 hross í lausagöngu en þau hafi verið í eigu sóknaraðila og foreldra hennar tilkomin vegna gjafar og arfs eftir föðurafa sóknaraðila sem ræktað hafði hross í áraraðir. Auk þessa hafi sóknaraðili átt önnur hross við upphaf sambúðarinnar og því hafi hrossaeign hennar verið veruleg þegar sambúð aðila hófst. Segir sóknaraðili að hross hennar hafi gengið laus á jörðunum og afrétti sem fylgdi þeim án verulegs tilkostnaðar fyrir aðila meðan á sambúð þeirra stóð. Þá hafi hún nánast eingöngu sinnt hrossunum en varnaraðili hafi komið lítið að hirðingu þeirra.

                                                                                  III

Málsástæður og lagarök

Sóknaraðili byggir almennt á því að skiptameðferð á búi aðila sé ekki lokið í heild sinni og því beri að fjalla um öll ágreiningsefni sem upp koma við skiptin fyrir dómi og þá skuli ákveðið hvernig með þau skuli farið. Í 113. gr. skiptalaga nr. 20/1991 sé mælt fyrir um að gengið skuli frá samkomulagi aðila með formlegum hætti, þ.e. með skriflegum samningi sem áritaður er af skiptastjóra, enda hafi skiptakostnaður verið greiddur. Í þessu máli hafi ekki verið gengið frá samkomulagi með þessum hætti enda ekkert samkomulag náðst og því nauðsynlegt að kveðinn verði upp úrskurður um það hvernig með skiptin skuli farið.

Sóknaraðili byggir kröfur sínar einnig á því að undir skiptin eigi aðeins að taka þær eignir aðila sem þau hafi myndað í sameiningu í sambúð sinni og vísar sóknaraðili í þessu sambandi til dómvenju um gagnkvæma hlutdeild sambúðarfólks í eignarmyndun á sambúðartíma. Sóknaraðili lýsir því yfir að hún sé sammála því að við skiptin skuli skipta eignum og skuldum jafnt á milli aðila, enda hafi báðir aðilar haft tekjur á sambúðartímanum. Hún heldur því hins vegar fram að eignir þeirra og skuldir hafi ekki allar verið sameiginlegar og því skuli halda sumum þeirra utan við skiptin.

Sóknaraðili reisir kröfu sína um að varnaraðili greiði einn söluþóknun vegna sölu á jörðum aðila á því að varnaraðili hafi hvorki haft hennar leyfi né umboð til að semja um 1,4% söluþóknun til viðkomandi fasteignasala eins og hann gerði. Sóknaraðili kveðst hafa gefið varnaraðila heimild til að setja eignirnar á sölu en vegna þess háa söluverðs sem væntanlegt var fyrir eignirnar hafi verið eðlilegt að semja um lægri þóknun til fasteignasalans. Varnaraðila hafi borið að leita sérstaks samþykkis hjá sóknaraðila fyrir þessum samningi en það hafi hann ekki gert og því verði hann að bera þennan kostnað einn. Sóknaraðili telur einnig að vinnubrögð fasteignasalans hafi verið með öllu óásættanleg, sem hefði átt að leiða til lægri söluþóknunar. Varnaraðili hafi ekkert gert vegna þessa heldur samþykkt að söluþóknun yrði að fullu dregin frá uppgjöri á kaupverði til beggja aðila en þetta leiði til þess að varnaraðili verði að bera kostnað vegna sölunnar sjálfur. Í þessu sambandi bendir sóknaraðili á að frágangur sölunnar hafi verið svo slælegur að leitt hafi til málarekstrar um kaupin [...] Með þessu móti hafi verið stofnað til deilna og réttarágreinings sem auðveldlega hefði mátt komast hjá og því vill sóknaraðili ekki greiða full sölulaun til fasteignasölunnar. Varnaraðili hafi aftur á móti samþykkt í nafni þeirra beggja að greiða sölulaunin og því verði hann að greiða þau sjálfur.

Varakrafa sóknaraðila þess efnis að hún greiði 1.015.000 krónur af sölulaunum jarðanna er á því byggð að söluþóknunin hafi borið virðisaukaskatt sem varnaraðili hafi reiknað sem innskatt í virðisaukaskattsskyldum rekstri búsins. Raungreiðsla varnaraðila hafi því numið sölulaununum að frádregnum virðisaukaskatti og því geti hlutur sóknaraðila ekki verið hærri en helmingur sölulaunanna þegar virðisaukaskattur hefur verið dreginn frá.

Sóknaraðili reisir kröfu sína um að hross, sem lögð voru út til aðila hinn 1. maí 2007, falli utan skipta á því að hrossin hafi verið einkaeign hennar og að hún hafi átt hrossin áður en aðilar hófu sambúð. Til skipta milli þeirra eigi eingöngu að koma eignir og skuldir sem þau mynduðu í sameiningu í sambúðinni en það eigi ekki við um hrossaeign hennar. Þá segir sóknaraðili að stór hluti hrossanna hafi verið til þegar aðila byrjuðu sambúð sína en það eigi við um þau hross sem séu eldri en 15 vetra. Þessi hross eigi alls ekki að skiptast milli aðila. Þá heldur sóknaraðili því fram að hún hafi fengið stofninn að þessari eign með gjöf frá afa sínum, föður og með fyrirframgreiðslu arfs frá foreldrum sínum. Af þessu megi sjá að engum fjármunum úr sameiginlegu búi aðila hafi verið varið til að mynda þessa eign, sem hafi verið til í sama mæli frá því að sambúð hófst. Hrossin hafi verið í lausagöngu á jörðunum og að mestu sjálfala og því hafi ekki þurft að verja neinum fjármunum sem máli skipti til að halda eigninni við en það fé sem til þess þurfti hafi alltaf komið frá sóknaraðila. Sóknaraðili áréttar að hún hafi fyrir sitt leyti aðeins samþykkt að hluti hrossanna yrði færður í vörslur varnaraðila hinn 1. maí vegna ítrekaðrar kröfu hans þar um. Með þessu hafi hún ekki samþykkt að eignarréttur þeirra yrði færður til varnaraðila, enda hafi skiptum á búi aðila verið ólokið og afhending hrossanna hafi verið háð því skilyrði að samkomulag yrði um önnur atriði varðandi skiptin.

Sóknaraðili reisir kröfu sína um að 197.058 króna söluandvirði hrossa sem sett voru í sláturhús í febrúar 2007 verði haldið utan við skiptin og komi í hennar hlut á sömu málsástæðum og að framan er rakið um hrossaeign sóknaraðila. Auk þess hafi hún annast um hrossin frá lokum sambúðar aðila fram að útlagningu þeirra 1. maí og því eðlilegt að ætla henni lágmarksgreiðslu fyrir það.

Sóknaraðili heldur því fram að inneign á bankareikningi hennar sé tilkomin vegna launagreiðslna til hennar fyrir mánuðina mars, apríl og maí, sem sé eftir tímamark raunverulegra sambúðarslita aðila. Peningar þessir hafi þannig ekki komið til sem sameiginleg eignamyndun aðila og því beri að halda fénu utan við skiptin. Sama eigi við um yfirdráttarskuld á reikningi varnaraðila. Sú skuld sé til komin vegna neyslu varnaraðila í mars og apríl 2006 án þess að snerta sameiginlegt fjárfélag aðila og því beri varnaraðili einn ábyrgð á þeirri fjárhæð.

Sóknaraðili byggir kröfu sína um að bifreiða- og dráttarvélaeign aðila sé skipt þannig, að hvort um sig haldi því sem það er með í sinni vörslu og varnaraðili greiði henni 650.000 krónur, á því að þær eignir sem varnaraðili hafi í sínum vörslum séu mun verðmeiri en þær sem sóknaraðili hafi fengið. Til að jafnræði verði með aðilum sé sanngjarnt að varnaraðili greiði henni nefnda fjárhæð. Þó komi til greina að varnaraðili greiði henni lægri fjárhæð að mati dómsins. Í þessu sambandi bendir sóknaraðili á að hún hafi haldið Toyota-bifreið sem hún hafi síðar selt á 170.000 krónur. Varnaraðili hafi fengið bifreið af Mitsubishi-gerð, sem þá hafi verið 1.200.000 króna virði miðað við sambærilegar bifreiðir, einnig hafi hann fengið Zetor-dráttarvél sem unnt hafi verið að meta á 300.000 krónur. Í vörslum sóknaraðila hafi síðan verið önnur Toyota-bifreið sem nýlega hafi verið boðnar 30.000 krónur fyrir. Þannig megi meta bifreiðir sem komu í hlut sóknaraðila á 200.000 krónur en bifreið og dráttarvél sem komu í hlut varnaraðila hafi verið 1.500.000 króna virði. Þennan mun beri síðan að jafna með 650.000 króna greiðslu frá varnaraðila til sóknaraðila.

Sóknaraðili heldur því fram að kostnaður vegna ársreikningsgerðar skuli falla á varnaraðila vegna þess að hann hafi fallið til vegna rekstrarframtals fyrir varnaraðila en óverulegur hluti hafi lotið að þeim hluta framtalsins sem varðaði sóknaraðila. Af þessum sökum beri varnaraðila að greiða fyrir meginhluta þeirrar vinnu.

Krafa sóknaraðila um að greiðsla fyrir hitun íbúðarhússins að A fram að afhendingu hússins til kaupanda jarðarinnar skuli skiptast milli aðila er reist á því að þar sé um að ræða rekstrarkostnað eignar sem aðilar hafi átt í sameiningu. Því sé eðlilegt að ætla lágmarksfrest fyrir þann sambýlismaka sem býr áfram á fyrra heimili aðila til að koma sér upp nýju heimili. Þá hafi verið nauðsynlegt að hita húsið til að koma í veg fyrir skemmdir á því þangað til að það var afhent nýjum eiganda hinn 1. september 2006. Því beri að skipta þessum kostnaði jafnt á milli aðila.

   Sóknaraðili heldur því fram að krafa varnaraðila um að henni beri að greiða honum vexti af því fé sem hún hefur haft í sínum vörslum skorti lagaheimild. Til að henni sé skylt að greiða vexti þurfi skýra lagaheimild. Varnaraðila hefði verið í lófa lagið að krefjast þess að féð yrði tekið úr vörslum sóknaraðila þegar við upphaf skipta en það hafi hann ekki gert og þar með sætt sig við að féð væri í hennar vörslum. Með þessu hafi hann fyrirgert rétti sínum til greiðslna sem tengst gætu vörslum fjárins.

Hvað lagarök varðar vísar sóknaraðili til 113. gr. skiptalaga og dómvenju um skipti á eignum sambýlisfólks við slit óvígðrar sambúðar.

Varnaraðili fer þá leið í greinargerð sinni að andmæla hverri kröfu sóknaraðila fyrir sig eins og þær eru settar fram af hennar hálfu og jafnframt gerir hann grein fyrir því hvers vegna kröfum sóknaraðila skuli hafnað.

Varnaraðili mótmælir því að hann skuli einn greiða sölulaun vegna sölu jarðanna. Aðilar hafi í sameiningu ákveðið að selja jarðirnar eins og margoft hafi komið fram, meðal annars í tölvupósti sóknaraðila til varnaraðila. Þá komi fram í samningi um söluþjónustu við Fasteignamiðstöðina að sóknaraðili sé einnig eigandi jarðanna. Í kauptilboði sem barst í jarðirnar sé sóknaraðili tilgreindur sem tilboðshafi/seljandi og hún hafi samþykkt tilboðið hinn 21. maí 2006 og þann sama dag undirriti aðilar samkomulag um að öllu skuli jafnt skipt á milli þeirra við sambúðarslitin. Þau hafi því litið á jarðirnar sem eign sem þau ættu að jöfnum hlut og skipti því engu máli þótt varnaraðili hafi verið þinglýstur eigandi jarðanna. Varnaraðili telur því ljóst að samkomulag hafi verið með aðilum um að skipta þessum kostnaði jafnt á milli sín og við það samkomulag sé sóknaraðili bundinn með vísan til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga.

Varnaraðili heldur því fram að af skiptastjóra frá 1. maí 2007 og fundargerð frá 3. apríl sama ár megi ráða að bindandi samkomulag hafi komist á milli aðila um skiptingu hrossa. Hrossunum hafi verið skipt hinn 1. maí 2007 að A, að viðstöddum aðilum,  lögmönnum þeirra, skiptastjóra og fleira fólki. Fullt samkomulag hafi verið um skiptinguna og hafi varnaraðili tekið þau hross sem í hans hlut komu í sína vörslu. Fjarstæðukennt sé að halda öðru fram og slíkt eigi ekki við nein rök að styðjast. Hrossin hafi tilheyrt sameiginlegum búrekstri aðila og þau ræktuð í búskap þeirra. Þau hross sem við skiptinguna komu í hlut varnaraðila hafi öll verið fædd í sambúðarbúskap aðila fyrir utan eina hryssu sem fædd var 1990. Varnaraðili bendir á að í hans hlut hafi eingöngu komið 14 af 38 hrossum sem voru til skipta. Þar fyrir utan hafi svo verið þrjú hross sem sögð voru í eigu nefnds manns á Blönduósi þó svo að þau hafi þá og séu enn skráð eign sóknaraðila. Þessu til viðbótar hafi svo verið tvö hross sem sögð voru eign nafngreinds manns á Akureyri þó svo að hann hafi afhent þau aðilum sem greiðslu fyrir fóður og hagabeit. Loks hafi sóknaraðili fengið þrjár merar sem fæddar voru 1987 eða eldri. Varnaraðili mótmælir fullyrðingum sóknaraðila þess efnis að hrossin hafi gengið laus á jörðunum og afrétt án verulegs kostnaðar og bendir á að bannað hafi verið að reka hross á afrétt frá 1980 til 2005.

Varnaraðili bendir á að samkomulag hafi tekist um að miða skiptin við 1. maí 2006, enda sé það viðurkennt í greinargerð lögmanns sóknaraðila. Af þessum sökum eigi 109.229 króna inneign sóknaraðila á bankareikningi að koma til skipta, enda þar um að ræða peninga sem tilheyra búinu hvernig svo sem þeir hafi komið til.

Varðandi kröfu sóknaraðila um að andvirði hrossa sem sóknaraðili sendi í sláturhús skuli haldið utan við skiptin þá heldur varnaraðili því fram að þessi hross hafi verið sameign aðila og því beri að skipta andvirði þeirra til helminga.

Varnaraðili heldur því fram að sömu rök eigi við um yfirdráttarskuld á tékkareikningi á hans nafni og að framan er rakið varðandi inneign á reikningi sóknaraðila.

Varnaraðili heldur því fram, varðandi kröfu sóknaraðila um skiptingu andvirðis bifreiða, að samkomulag hafi tekist með aðilum þess efnis að verðmæti bifreiða sem voru í vörslum hvors um sig væri jafnt. Bifreiðina X hafi sóknaraðili keypt um það bil sex mánuðum fyrir viðmiðunardag skipta fyrir 1.000.000 króna en hún hafi ekki viljað upplýsa varnaraðila um kaupverð bifreiðarinnar og þá hafi hún heldur ekki upplýst þann sem gert hefur ársreikninga og skattframtöl aðila um kaupverðið. Af þessum sökum hafi kaupverðið ekki komið fram í opinberum gögnum. Þá bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi selt bifreiðina eftir að bú aðila var tekið til opinberra skipta án samþykkis skiptastjóra en slíkt athæfi sé brot á lögum. Þá mótmælir varnaraðili verðmati sóknaraðila á bifreiðinni Y sem röngu og vísar í því efni til gagna sem hann hefur lagt fram um verðmæti bifreiðarinnar. Varnaraðili heldur því fram að Zetor-dráttarvél hafi alla tíð verið í eigu nafngreinds manns og skráð hans eign. Aðilar hafi hins vegar haft endurgjaldslaus afnot af dráttarvélinni í búskap sínum. Eigandi hafi alla tíð greitt tryggingar og gjöld af vélinni og hún sé nú í hans vörslum.

Varnaraðili heldur því fram að hitunarkostnaður íbúðarhússins í A hafi fallið til eftir viðmiðunardag skipta og eftir að hann var farinn af heimilinu og því eigi sóknaraðili að bera þann kostnað, enda hafi hún búið áfram í húsinu.

   Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að kostnaði við gerð ársreiknings og framtals, að fjárhæð 125.000 krónur, eigi að skipta jafnt á milli aðila. Vinna þessi hafi verið lögbundin vegna sameiginlegs búrekstrar aðila í beggja þágu og því beri þau saman kostnaðinn af þeirri vinnu.

Varnaraðili reisir kröfu sína um greiðslu vaxta úr hendi sóknaraðila á því að hún hafi hinn 2. október 2006 fengið greiddar beingreiðslur að fjárhæð 2.040.332 krónur og hinn 7. febrúar 2007 hafi hún fengið greitt sláturinnlegg að fjárhæð 197.058 krónur en hann hafi átt að fá í sinn hlut helming þessara greiðslna. Þá hafi hann greitt, fyrir 1. janúar 2007, sameiginlegar skuldir aðila þar sem hlutur sóknaraðila hafi numið 876.628 krónum. Þá kveðst varnaraðili við útreikning kröfu sinnar hafa dregið frá 112.049 krónur sem hafi verið hans hlutur af sameiginlegum skuldum sem sóknaraðili greiddi. Sóknaraðili kveðst ekki gera kröfu um að dráttarvextir séu greiddir af skuldinni mánaðarlega, jafnóðum og hún myndaðist, sem sé til hagsbóta fyrir sóknaraðila. Varnaraðili heldur því fram að með vísan til laga um vexti og verðtryggingu beri sóknaraðila að greiða honum vexti eins og hann hefur krafist. Til vara krefst varnaraðili þess að sóknaraðili greiði honum markaðsvexti eins og rakið er í kröfugerð hans.

                                                                                  IV

Niðurstaða

Við úrlausn ágreinings aðila verður hafður sá háttur á að leysa fyrst úr þeim kröfum sem sóknaraðili hefur gert í málinu, í sömu röð og í kröfugerð hennar, en síðan úr kröfu varnaraðila.

   Varnaraðili var einn skráður eigandi jarðanna A, B og D en enginn ágreiningur er um að andvirði jarðanna skyldi skipta jafnt á milli aðila. Þá er heldur ekki ágreiningur um að aðilar voru sammála um að fá fasteignasala til að annast sölu jarðanna. Aðilar áttu í samskiptum varðandi sölu jarðanna með tölvupósti en af þeim samskiptum verður ekki ráðið að sóknaraðili hafi lagt til að ákveðinni fasteignasölu yrði falið að selja jarðirnar. Í einum tölvupóstanna spyr sóknaraðili varnaraðila hvort hann sé búinn að setja jörðina á sölu og þá á hvaða fasteignasölu. Sóknaraðili bar fyrir dóminum að varnaraðili hafi ekki leitað eftir samþykki hennar fyrir því að fá þessa ákveðnu fasteignasölu til að annast söluna og hún hafi ekki samþykkt þá prósentutölu sem fasteignasalan fékk sem þóknun. Fyrir liggur að sóknaraðili undirritaði hinn 21. maí 2006 ásamt varnaraðila samkomulag sem gert var við Fasteignamiðstöðina um ráðstöfun  á söluandvirði jarðanna. Er því ljóst að sóknaraðili vissi að þessi ákveðna fasteignasala annaðist söluna en ekki verður séð að hún hafi gert við það athugasemdir. Telja verður að sóknaraðila hafi mátt vera ljóst að vinna fasteignasölunnar yrði ekki endurgjaldslaus frekar en almennt gerist. Þá verður ekki séð að hún hafi reynt að hlutast til um hvaða fasteignasala yrði fengin til að selja jarðirnar. Þá hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að söluþóknunin hafi verið hærri en almennt gerist. Að þessu virtu og því að aðilar sömdu um helmingaskipti við sambúðarslitin verður að hafna kröfu sóknaraðila um að varnaraðili beri einn kostnað af sölu jarðanna.

Sóknaraðili hefur haldið því fram til vara að henni beri að greiða lægri fjárhæð sem nemi virðisaukaskatti af sölulaununum þar sem varnaraðili hafi nýtt þann skatt sem innskatt. Í málinu liggur frammi yfirlýsing frá Bókhaldi og skattskilum ehf. en það félag annaðist framtalsgerð fyrir aðila málsins vegna rekstrarársins 2006. Þar kemur fram að reikningurinn hafi í heild verið færður á móti söluhagnaði en innskattur hafi ekki verið endurgreiddur. Þessi yfirlýsing er í samræmi við framburð varnaraðila fyrir dóminum. Þá verður ekki séð að handvömm fasteignasölunnar hafi valdið aðilum tjóni [...] Er varakröfu sóknaraðila í þessum lið einnig hafnað.

Sóknaraðili gerir kröfu um að hross sem til voru í búi aðila komi í hennar hlut og falli ekki undir skiptin. Ætla verður að sóknaraðili hafi fengið í arf allnokkur hross á árinu áður en aðilar hófu sambúð sína en ekki verður ráðið hversu mörg þau voru þegar sambúðin hófst. Hrossin gengu síðan í haga á jörð aðila og þá var þeim gefið á vetrum. Af framburði aðila má ráða að sóknaraðili hafi frekar sinnt hrossunum en varnaraðili og þá má ætla að nokkur endurnýjun hafi orðið á stóðinu á sambúðartímanum. Sóknaraðili krafðist þess í fyrstu að hrossin yrðu talin hennar eign og kæmu ekki til skipta. Hinn 3. apríl 2007 lýsti lögmaður sóknaraðila því yfir á skiptafundi að skjólstæðingur hennar væri tilbúinn til að skipta hrossunum jafnt á milli aðila. Hinn 1. maí var hrossunum skipt að viðstöddum aðilum, lögmönnum þeirra og skiptastjóra. Í hlut varnaraðila komu þá 14 hross sem hann tók þann sama dag í sínar vörslur. Í fundargerð skiptafundar, sem haldinn var hinn 30. maí 2007, segir meðal annars svo: „Samkomulag var um að skiptastjóri gengi frá bréfi til Bændasamtaka Íslands um umskráningu þeirra hrossa sem M fær í sinn hlut við skiptin.“ Í framhaldi af þessu sendi skiptastjóri tilkynningu um eigendaskipti á hrossunum til Fengs sem er skráningarforrit sem Bændasamtök Íslands halda um eignarhald á hrossum. Skiptastjóri bar fyrir dóminum að hann teldi að fullt samkomulag hafi verið milli aðila um þessa skipan mála og hann hefði ekki annast skráningu á hrossunum á nafn varnaraðila nema að fengnu samþykki aðila. Af þessu verður ekki annað ráðið en að fyrirvaralaust bindandi samkomulag hafi komist á með aðilum um að hrossunum yrði skipt með þeim hætti sem gert var. Skiptastjóri gekk síðan frá skráningu um eigendaskipti á hrossunum í samræmi við ákvörðun skiptafundarins sbr. ákvæði 110. gr. laga nr. 20/1991. Sóknaraðili getur ekki fallið frá þessu samkomulagi nú og verður kröfu hennar því hafnað.

Sóknaraðili heldur því fram að innistæða á bankareikningi hennar, nr. xxxxx, á viðmiðunardegi hinn 1. maí 2006 eigi ekki að koma til skipta með þeim rökum að þar sé um laun hennar fyrir mánuðina mars, apríl og maí 2006. Í málinu hefur verið lagður fram einn launaseðill sóknaraðila þar sem fram kemur að laun hennar hafi verið lögð inn á nefndan bankareikning. Launaseðillinn ber með sér að laun fyrir mars hafi verið greidd 1. apríl en af því má ráða að hún hafi fengið laun sín greidd eftir á. Var launanna því aflað fyrir viðmiðunardag og kemur innistæða á bankareikningi sóknaraðila á viðmiðunardegi því til skipta.

Kröfu sóknaraðila um að andvirði hrossa, sem send voru í sláturhús í febrúar 2007, verði haldið utan við skiptin er hafnað með sömu rökum og rakin eru að framan varðandi kröfu hennar þess efnis að hross, sem voru í búinu á viðmiðunardegi, skuli teljast hennar eign.

Kröfu sóknaraðila um að skuld á tékkareikningi í eigu varnaraðila, að fjárhæð 87.419 krónur á viðmiðunardegi, falli utan skipta er hafnað, enda hefur sóknaraðili ekki lagt fram nein gögn eða á annan hátt gert sennilegt að skuld þessi sé með einhverjum hætti öðruvísi en aðrar sameiginlegar skuldir aðila sem síðan ætti að leiða til þess að henni skuli haldið utan við skiptin.

Sóknaraðili gerir kröfu um 650.000 króna greiðslu úr hendi varnaraðila til að jafna út verðmæti bifreiða og dráttarvélar sem eru í vörslum hvors aðila um sig. Varnaraðili hefur haldið því fram að Zetor-dráttarvél, sem getið er í kröfugerð sóknaraðila, hafi aldrei verið þeirra eign. Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu þess efnis að aðilar hafi átt  Zetor-dráttarvél og verður því við það að miða við úrlausn máls þessa og verður krafa vegna þeirrar dráttarvélar því ekki tekin til greina. Sóknaraðili heldur því fram að bifreið sú sem í hennar hlut kom hafi verið 170.000 króna virði en fyrir þá fjárhæð hafi hún selt bifreiðina 13. febrúar 2007. Hins vegar hafi hún keypt þessa bifreið í nóvember 2005 fyrir 280.000 krónur. Þá heldur sóknaraðili því fram að bifreiðin sem kom í hlut varnaraðila hafi verið 1.200.000 króna virði en við munnlegan flutning málsins upplýsti lögmaður sóknaraðila að það verðmat hafi fengist af netinu með því að skoða sambærilega bíla. Varnaraðili hefur lagt fram í málinu gögn er varða söluskoðun bifreiðarinnar svo og sölutilboð. Þessi skjöl eiga það sameiginlegt að þau eru ekki gerð fyrr en í október 2007 eða löngu eftir viðmiðunardag skipta. Verulega skortir á upplýsingar um hvers virði bifreiðarnar sem komu í hlut aðila voru í raun hinn 1. maí 2006. Þegar horft er til þess, að á skiptafundi hinn 7. maí 2007 lýsti varnaraðili því sjálfur að hann teldi bifreið sína vera um 500.000 króna virði, og þeirra skjala sem lögð hafa verið fram um kaup og sölu bifreiðar sóknaraðila þykir rétt að ákvarða að varnaraðili hlutur varnaraðila í bifreiðum hafi verið 300.000 krónum hærri en hlutur varnaraðila og þann mun beri að jafna við skiptin. Kröfur eru ekki hafðar uppi varðandi aðrar bifreiðar eða tæki.

Sóknaraðili krefst þess að hitunarkostnaður vegna íbúðarhússins að A tímabilið maí til og með ágúst 2006 skuli teljast sameiginleg skuld aðila. Reisir hún kröfu sína á því að eðlilegt sé að sá sambýlismaki sem áfram býr á fyrra heimili aðila fái ákveðinn frest til að finna sér nýtt húsnæði, enda hafi hún séð um rekstur þess. Ekki eru efni til að fallast á þessi rök sóknaraðila. Hins vegar má fallast á með henni að aðilar hafi haft ákveðnum sameiginlegum skyldum að gegna gagnvart nýjum kaupanda þar sem eignin skyldi ekki afhendast fyrr en 1. september 2006 og því nauðsynlegt að hafa einhvern hita í húsinu á þeim tíma. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að varnaraðili bjó eitthvað fram í maí á sameiginlegu heimili aðila. Nákvæm tala um kostnað við hitun hússins liggur ekki frammi í máli þessu en með hliðsjón af því sem að framan er rakið þykir rétt að skipta þessum kostnaði þannig á milli aðila að sóknaraðili greiði tvo þriðju hluta en varnaraðili einn þriðja.

Sóknaraðili hefur gert kröfu um að kostnaði vegna ársreiknings og framtalsgerðar verið skipt á milli aðila með ákveðnum hætti. Í málinu hefur verið lögð fram yfirlýsing þess aðila sem taldi fram til skatts fyrir aðila málsins vegna ársins 2005. Þar kemur fram að reikningur að fjárhæð 125.994 krónur hafi verið vegna vinnu við sameiginlegt bókhald og skattframtal fyrir báða aðila þessa máls. Eru því ekki efni til að taka kröfu sóknaraðila hvað þetta varðar til greina.

Varnaraðili hefur gert kröfu um að sóknaraðili greiði honum dráttarvexti af fé sem hún fékk greitt til sín en fé þetta hafi verið sameign aðila. Til vara hefur hann gert kröfu um vexti samsvarandi markaðsvöxtum Kaupþingsbanka hf. Ekki virðist vera ágreiningur með aðilum um fjárhæðir eða hvenær sóknaraðili fékk féð greitt. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að varnaraðili hafi gert kröfu um að fé þetta yrði tekið úr vörslum sóknaraðila og lagt inn á reikning hjá skiptastjóra þannig að það bæri vexti báðum aðilum til hagsbóta. Þá gerði hann heldur ekki kröfu um að fá greiddar af því fé sem var í fórum skiptastjóra sambærilegar fjárhæðir en hvorutveggja var honum í lófa lagið. Að þessu virtu þykir rétt að sóknaraðili greiði varnaraðila dráttarvexti frá þingfestingu máls þessa hinn 5. september 2007.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Þorbjörg Inga Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður en af hálfu varnaraðila Klemenz Eggertsson héraðsdómslögmaður.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan. Uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna anna dómarans en lögmenn aðila hafa lýst því yfir að þeir telji ekki þörf á endurflutningi málsins vegna þessa.

                                                                                  ÚRSKURÐARORÐ

Við opinber skipti til fjárslita á búi sóknaraðila K og varnaraðila M teljast sölulaun að fjárhæð 2.527.350 krónur sölu vegna jarðanna A, B og D til sameiginlegra skulda aðila.

Hafnað er kröfu sóknaraðila þess efnis að við opinber skipti til fjárslita milli hennar og varnaraðila verði viðurkennt að 32 hross, folöld, merar og tryppi, sem útlögð voru til aðila hinn 1. maí 2007 teljist einkaeign sóknaraðila og komi ekki til skipta.

Við opinber skipti til fjárslita á búi aðila telst innistæða á bankareikningi sóknaraðila nr. [...] að fjárhæð 109.229 krónur til eigna búsins.

Við opinber skipti til fjárslita á búi aðila telst greiðsla að fjárhæð 197.058 krónur vegna hrossa sem slátrað var hjá SHA til eigna búsins.

Við opinber skipti til fjárslita á búi aðila telst yfirdráttarskuld á bankareikningi varnaraðila nr. [...], að fjárhæð 87.419 krónur til sameiginlegra skulda aðila.

Viðurkennt er að við opinber skipti til fjárslita aðila verði lagt til grundvallar að hlutur varnaraðila í bifreiðaeign aðila hafi verið 300.000 krónur umfram hlut sóknaraðila.

Viðurkennt er að við opinber skipti til fjárslita á búi aðila verði lagt til grundvallar að hitunarkostnaður vegna íbúðarhússins að A fyrir tímabilið maí til ágúst 2006 teljist sameiginleg skuld aðila þannig að sóknaraðila tilheyra 2/3 hlutar en 1/3 hluti tilheyrir varnaraðila.

Við opinber skipti til fjárslita á búi aðila telst kostnaður að fjárhæð 125.000 krónur vegna ársreiknings- og framtalsgerðar til sameiginlegra skulda aðila.

Viðurkennt er að við opinber skipti til fjárslita á búi aðila verði lagt til grundvallar að sóknaraðili greiði varnaraðila dráttarvexti samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.883.274 krónum frá 5. september 2007 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.