Hæstiréttur íslands
Mál nr. 478/1999
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Galli
- Kröfugerð
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 13. apríl 2000. |
|
Nr. 478/1999. |
Nasco ehf. (Þórður S. Gunnarsson hrl.) gegn Moray Seafoods Ltd. (Erlendur Gíslason hrl.) og gagnsök |
Lausafjárkaup. Galli. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.
M keypti 320 tonn af frystri rækju í skel af N og skyldi rækjan flutt í frystigámum frá Kanada til Skotlands, þar sem M hugðist fullvinna hana og selja á neytendamarkað. M hélt því fram að rækjan hefði verið haldin verulegum göllum og verið óhæf til þeirrar sölu, sem fyrirhuguð var. Krafði hann N um skaðabætur vegna tjóns, sem hann taldi sig hafa orðið fyrir af þessum sökum, en við fjárhæð bótanna miðaði hann við söluverð ógallaðrar rækju eftir vinnslu. Talið var að N hefði ekki fært neitt fram í málinu, sem tryggt gæti honum sönnun fyrir því, að rækjan hefði verið í umsömdu ástandi þegar áhættan af því að hún yrði fyrir skemmdum fluttist yfir á M. Var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að rækjan hefði verið gölluð og N væri skaðabótaskyldur af þeim sökum. Hins vegar þótti skorta á að í kröfugerð M væri tekið tillit til ýmissa atriða vegna kostnaðar við vinnslu rækjunnar. Lægi af þessum sökum ekki fyrir með viðhlítandi hætti hvers hagnaðar M hefði í raun mátt vænta af viðskiptum sínum við N. Þótti krafa hans um efndabætur svo vanreifuð að dómur yrði ekki lagður á hana við svo búið og var málinu í heild vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. desember 1999 og krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 14. febrúar 2000. Hann krefst þess að staðfest verði sú niðurstaða dómsins að aðaláfrýjandi skuli greiða sér 293.958 sterlingspund með vöxtum eins og greinir í héraðsdómi auk málskostnaðar, sem þar er ákveðinn. Hann krefst þess jafnframt að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 35.145,25 sterlingspund og 9.813,82 kanadíska dollara, hvort tveggja með dráttarvöxtum frá uppsögu dóms í Hæstarétti til greiðsludags eins og þeir eru ákveðnir af peningakröfum í þessum gjaldmiðlum. Hann krefst loks málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Ágreiningur málsaðila á rætur að rekja til viðskipta þeirra um rækju, sem gagnáfrýjandi pantaði hjá aðaláfrýjanda 6. nóvember 1998. Um var að ræða um 320 tonn af kaldsjávarrækju í skel, sem flutt skyldi í frystigámum frá Kanada til Skotlands. Í pöntun gagnáfrýjanda var getið um stærðarflokka rækjunnar og verð, en um ástand vörunnar var að öðru leyti vísað til skýrslna, sem kaupandinn hafði áður fengið í hendur og merktar voru skoðunarfélaginu Twilight Inspection & Enhancement Services. Fyrir liggur að þessar skýrslur voru þó ekki gerðar af því félagi, heldur framleiðanda vörunnar í Kanada, eins og kemur fram í héraðsdómi. Rækjuna hugðist gagnáfrýjandi fullvinna í verksmiðju sinni í Skotlandi og selja hana á neytendamarkaði. Við móttöku rækjunnar um miðjan desember 1998 taldi gagnáfrýjandi ljóst að hún væri haldin verulegum göllum, sem nánar er lýst í héraðsdómi, og óhæf til þeirrar sölu, sem fyrirhuguð var. Krefur gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda um skaðabætur vegna tjóns, sem hann kveðst hafa beðið af þessum sökum. Aðaláfrýjandi mótmælir því að hann sé skaðabótaskyldur gagnvart gagnáfrýjanda vegna gallans. Telur aðaláfrýjandi ósannað að rækjan hafi skemmst áður en hún var komin á skipsfjöl í Montreal í Kanada 21. nóvember 1998, en óumdeilt er að áhættan af tjóni á vörunni hafi þá flust yfir á gagnáfrýjanda. Telur aðaláfrýjandi að leggja verði til grundvallar að rækjan hafi skemmst eftir þann dag.
Í héraðsdómi er getið um tvær skoðunarskýrslur, sem óháð félög gerðu að tilhlutan gagnáfrýjanda um ástand rækjunnar eftir að hann fékk hana afhenta, og um líklegar ástæður fyrir skemmdunum. Eru skýrslur þessar ítarlegar og gafst aðaláfrýjanda kostur á að koma sjónarmiðum sínum að við gerð hinnar síðari, en það gerði hann ekki. Kemur meðal annars fram í þeim að eftir löndun úr fiskiskipum hafi rækjan verið sett í saltpækil og síðan fryst í verksmiðjum í tveim smábæjum í Labrador í Kanada. Eftir það var hún flutt sjóleiðis í gámum til tveggja áfangastaða á á leiðinni til Montreal. Er í báðum skýrslunum komist að þeirri niðurstöðu að líklegt sé að skemmdirnar hafi orðið á einhverju stigi við veiðar, vinnslu eða flutning áður en rækjunni var komið á skipsfjöl í Montreal.
Aðaláfrýjandi ber sem seljandi sönnunarbyrði fyrir því að rækjan hafi verið í umsömdu ástandi þegar áhættan af því að hún yrði fyrir skemmdum fluttist yfir á kaupandann. Hefur hann ekki fært fram neitt í málinu, sem tryggt getur honum sönnun fyrir því að rækjan hafi þá verið í því ástandi, sem samningur aðilanna stóð til. Samkvæmt því verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að aðaláfrýjandi sé skaðabótaskyldur vegna tjóns, sem gagnáfrýjandi hefur orðið fyrir vegna þessarar vanefndar hans.
II.
Í kröfugerð gagnáfrýjanda felst að honum verði bættur hagnaður, sem hann varð af vegna þess að rækjusendingin frá aðaláfrýjanda hafi reynst ósöluhæf. Telur gagnáfrýjandi að söluverð allrar rækjunnar ógallaðrar hefði eftir vinnslu numið 513.629 sterlingspundum, sem hann krefst að sér verði bætt. Við þá kröfugerð hefur hann gefið sér margvíslegar forsendur, þar á meðal að nýting hráefnisins hefði orðið 33,03% eftir vinnslu og rækjan fallið í fjóra misverðmæta stærðarflokka í tilteknum hlutföllum. Þessa áætlun styður hann við fyrirliggjandi gögn um reynslu sína af vinnslu rækju á árunum 1997 og 1998. Af hálfu aðaláfrýjanda er ekkert fram komið, sem hnekkir rökum gagnáfrýjanda í þessum efnum. Hinu sama gegnir um forsendur hins síðastnefnda um verð, sem fengist hefði fyrir rækjuna, en fram hafa verið lagðir nokkrir sölusamningar hans um rækju til nafngreinds kaupanda, sem voru gerðir um líkt leyti og viðskipti málsaðila fóru fram. Samkvæmt því er unnt að leggja til grundvallar það söluverð, sem krafan er reist á. Frá kröfu sinni um skaðabætur, sem svari til söluverðs allrar rækjunnar, dregur gagnáfrýjandi síðan tíunda hluta kaupverðs hennar, sem enn er ógreiddur, svo og það verð, sem fékkst fyrir rækjuna þegar honum tókst að selja hana öðrum framleiðanda í júlí 1999, að teknu tilliti til afsláttar, sem hann veitti í þeim viðskiptum. Krafa gagnáfrýjanda um skaðabætur var hvað varðar þessa liði tekin til greina með niðurstöðu héraðsdóms. Að auki krefst gagnáfrýjandi bóta vegna kostnaðar af geymslu rækjunnar í átta mánuði, stjórnun og þjónustu lögfræðinga í Skotlandi og Kanada.
Í kröfugerð gagnáfrýjanda er ekkert tillit tekið til þess að hann hefði óhjákvæmilega haft kostnað af því að fullvinna vöruna til að koma henni í það ástand, sem söluverðið miðast við. Svo sem krafan er fram sett kemur í raun aðeins til frádráttar áætluðu söluverði nettó andvirði rækjunnar í júlí 1999 og ógreiddur hluti kaupverðs hennar. Skortir þannig meðal annars á að í kröfugerðinni sé tekið tillit til launagreiðslna vegna vinnslu rækjunnar, kostnaðar við pökkun hennar og annars breytilegs kostnaðar, sem gagnáfrýjandi hefði óhjákvæmilega orðið að bera vegna vinnslunnar. Af þessum sökum liggur ekki fyrir með viðhlítandi hætti hvers hagnaðar gagnáfrýjandi hefði í raun mátt vænta af viðskiptum sínum við aðaláfrýjanda.
Í málsvörn aðaláfrýjanda er einungis stuttlega vikið að þessu atriði almennum orðum, en ekki vísað til þess sérstaklega að á skorti að kostnaður sé tilgreindur og krafan lækkuð samkvæmt því. Um þetta segir í greinargerð hans í héraði að krafan styðjist ekki við „nægilegar lagalegar forsendur og gögn” og einnig að því sé „vísað á bug að salan hefði skilað þeim tekjum sem stefnandi vill vera láta.” Ekki var vikið neitt frekar að þessu við flutning málsins fyrir Hæstarétti. Þótt umfjöllun aðaláfrýjanda um þetta sé ómarkviss og almenns eðlis verður að telja að með þessu sé því nægilega mótmælt að fjárhæð dómkröfu gagnáfrýjanda sé að þessu leyti tæk. Er því ekki unnt að taka kröfuna til greina eins og hún er fram sett á þeim grundvelli að mótmælum hafi ekki verið hreyft.
Samkvæmt því, sem að framan er rakið, á gagnáfrýjandi ótvírætt kröfu á því að aðaláfrýjandi endurgreiði kaupverð hinnar gölluðu rækju að frádregnu söluverði hennar í júlí 1999 og bæti honum tjón vegna hagnaðar, sem sannað megi telja að hann hafi farið á mis við. Krafa hans um efndabætur er hins vegar svo vanreifuð að dómur verður ekki lagður á hana við svo búið. Vegna þessa og þeirra tengsla, sem standa á milli þessa liðs og annarra í kröfum gagnáfrýjanda, verður ekki komist hjá að vísa málinu í heild sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Í ljósi þessarar niðurstöðu er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Málinu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 29. okt. sl., var höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 22. febrúar sl.
Stefnandi er Moray Seafoods Ltd., 3-5 Low Street, Buckie, Skotlandi.
Stefndi er Nasco ehf., kt. 561096-2799, Höfðabakka 9, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda:
Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 353.503 bresk pund ásamt 9,4% dráttarvöxtum af 534.960 £ frá 15. febrúar 1999 til 1. mars 1999, 9,2% dráttarvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 1. apríl s.á., 9,1% dráttarvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 1. maí s.á, 9% dráttarvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 1. júní s.á., 8,5% dráttarvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 1. júlí s.á., 8,3% dráttarvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 23. júlí s.á., en með 8,3% dráttarvöxtum af 281.756 £ frá þeim degi til 1. ágúst s.á., 8,2% dráttarvöxtum af sömu fjárhæð fram þeim degi til 1. september s.á., 8,3% dráttarvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 1. október s.á., en með 8,2% dráttarvöxtum af 353.503 £ frá þeim degi til 1. nóvember s.á., en með dráttarvöxtum af peningakröfum í breskum pundum samkvæmt auglýsingum Seðlabanka Íslands frá þeim degi til greiðsludags. Þess er jafnframt krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 15. febrúar 2000 og svo árlega þann dag.
Loks er þess krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu, sbr. framlagðan málskostnaðarreikning.
Endanlegar dómkröfur stefnda:
Stefndi krefst sýknu af dómkröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins.
Málavextir
Stefnandi keypti af stefnda samkvæmt pöntun nr. 2801, dags. 6. nóvember 1998, 16 gáma af frystri rækju. Að sögn stefnanda skyldi varan vera 1. flokks, þannig að ekki skyldi gæta gulnunar né svartra bletta í rækjunni. Varan var lestuð í skip 21. nóvember 1998 og send með skipi frá Montreal í Kanada. Reikningar voru útgefnir 25. nóvember 1998. Umsamið söluverð var USD 629.975. Söluskilmálar voru C&F Aberdeen, Skotlandi.
Varan var flutt með skipi frá Montreal í Kananda til Felixstowe á leið til Aberdeen. Vegna ágreinings aðila varð varan eftir í Felixstowe í Englandi. Þegar samkomulag hafði náðst og stefnandi greitt 90% kaupverðsins 8. des. 1998 flutti stefnandi vöruna sjálfur með flutningabílum frá Felixstowe. Með bréfi, dags. 7. desember 1998, lýsti stefnandi því yfir að hann myndi engar fjárkröfur gera á hendur stefnda vegna meintra tafa í flutningnum.
Að sögn stefnanda leiddi skoðun á rækjunni við komuna til Felixstowe, upp úr miðjum desembermánuði 1998, í ljós að rækjan var gölluð og metin af skoðunarmanni óhæf til neyslu.
Með bréfi, dags. 22. des. 1998, tilkynnti stefnandi stefnda um margskonar galla á vörunni. Með símbréfi, dags. 14. janúar 1999, viðurkenndi stefndi móttöku símbréfs stefnanda þar sem stefnandi neitaði viðtöku vörunnar. Í bréfi þessu kemur fram að stefndi taldi að a.m.k. hluti vörunnar væri viðunandi. Stefndi kvaðst mundu gera ráðstafanir til þess að selja vöruna til annars viðskiptavinar.
Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 15. janúar 1999, var krafist skaðabóta að fjárhæð 576.332 £ úr hendi stefnda. Með bréfi lögmanns stefnda til lögmanns stefnanda, dags. 25. janúar 1999, var kröfu þessari hafnað og tekið fram að í ljós hafi komið að hluti vörusendingarinnar hafi ekki uppfyllt almennar kröfur hvað lit varðar, en hins vegar hafi hluti vörusendingarinnar verið í ágætu og umsömdu ásigkomulagi.
Í skýrslu Liverpool & Glasgow Salvage Association, dags. 9. febrúar 1999, sem mun hafa verið gerð fyrir tryggingarfélag stefnanda, er lélegu ástandi rækjunnar lýst og raktar ástæður sem skýrsluhöfundur telur að geti verið fyrir göllunum.
Í skýrslu K&S Associated, dags. 24. febrúar 1999, kemur fram að ekkert af vörusendingunum hafi verið hæft til framleiðslu á viðunandi og þaðan af síður hágæða soðinni og pillaðri vöru. Jafnframt eru þar raktar þær ástæður sem skýrsluhöfundar telja vera fyrir ástandi vörunnar.
Sumarið 1999 seldi stefnandi hluta af vörunni til Wecofish a/s á 20 DKK kílóið. Vegna ástands vörunnar veitti stefnandi Wecofish a/s afslátt að fjárhæð 71.747 £ hinn 1. okt. 1999.
Málsástæður og rökstuðningur stefnanda
Stefnandi segir skoðanir sérfræðinga á rækjunni staðfesta að orsök galla vörunnar sé að rekja til þess að rækjan hafi ekki fengið nægilega frystingu fyrir lestun um borð í skip í Kanada. Rækjan hafi þar legið í óhæfilegan tíma í saltpækli.
Stefnandi telur ljóst að rækjan hafi verið afgreidd í skip í óhæfu ástandi þar sem fyrir liggur að sögn stefnanda að rækjan hafi hlotið eðlilega meðferð eftir að hún var lestuð um borð í Montreal. Að sögn stefnanda staðfestir hitastigssíriti í gámunum, sem varan var flutt í, að rétt hitastig hafi verið á vörunni á meðan á flutningi hennar frá Kanada til Englands stóð.
Stefnandi telur að lélegt ástand á rækjunni sé að rekja til meðferðar hennar fyrir lestun í skip, þ.e. að hún hafi þá ekki hlotið fullnægjandi frystingu og jafnvel að um gamla endurfrysta vöru sé að ræða. Ekki sé til að dreifa gildu vottorði um meðferð rækjunnar á þessum tíma. Stefnandi heldur því fram að vottorð sem sögð eru útgefin af Twilight Inspection & Enhancement Services (TIES) um vöruna fyrir flutning hafi í raun verið gefið út af framleiðanda vörunnar, Labrador Fishermens´ Union Shrimp Company Ltd. (LFUSC), án vitneskju og samþykkis TIES og hafi það því ekkert sönnunargildi um ástand vörunnar fyrir flutning í skip. Stefndi beri áhættuna af þessum sönnunarskorti.
Kaupverð rækjunnar var USD 629.975. Af þeirri fjárhæð hefur stefnandi greitt USD 566.977,50.
Stefnandi sundurliðar endanlega kröfu sína svo:
1.Tapaðar sölutekjur £513.629
2.Kostnaður vegna frystigeymslu £ 24.000
3.Vaxtakostnaður £4.494
4.Kostnaður Moray Seafodds vegna meðferðar á vörunni og stjórnunarkostnaður £ 5.370
5.Lögfræðikostnaður í Skotlandi £ 25.681 £573.174
6.10% kaupverðs ógreitt (USD 62.997,5 x 0,60659, gengi 08.12.1998) £ 38.214
7.Endursöluandvirði rækju m.v. 23.07.99 £ 253.204
8.Afsl. til kaupanda, Wecofish a/s 01.10.99 £ 71.747
Samtals £353.503
Töluliður 1 styðjist við sundurliðun stefnanda á áætluðu söluvirði rækjunnar. Kostnaður samkvæmt tl. 2 leiði af því að stefnandi sitji uppi með vöruna í stað þess að hún hefði farið beint út til viðskiptavina stefnanda í desember 1998. Tl. 3-5 felist í auknum fjármagns- og stjórnunarkostnaði stefnanda, sem hafi leitt af vanefndum stefnda.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að varan hafi verið á áhættu stefnda þar til hún var lestuð um borð í skip fyrir brottför frá Montreal í Kanada 21. nóvember 1998 þar sem varan var seld C&F Aberdeen. Stefndi hafi afhent í skip gallaða vöru og beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna alls tjóns sem af gallanum hafi hlotist. Skýrslur staðfesti að varan hafi fengið ónóga frystingu fyrir flutning frá Kanada.
Þar sem orsökina fyrir ófullnægjandi ástandi rækjunnar sé að finna meðan hún var í umráðum og á áhættu stefnda beri stefndi hlutlæga bótaábyrgð gagnvart stefnanda á tjóni stefnanda sem hafi hlotist af því að rækjan hafi verið afhent í ósamningshæfu ástandi.
Ekki sé til að dreifa öðrum orsökum á ástandi rækjunnar við komu til Englands en þeim sem stefndi beri áhættuna af. Varan hafi hlotið tilskylda frystingu í flutningsgámum í flutningum frá Kanada til Englands. Beri stefndi því einn alla bótaábyrgð á tjóni stefnanda.
Um bótaábyrgð stefnda er vísað til ákvæða 43. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Kröfur um dráttarvexti byggist á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. lög nr. 67/1989 um breytingu á þeim lögum. Málskostnaðarkrafan er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og rökstuðningur stefnda
Af hálfu stefnda er því haldið fram að hin selda vara muni hafa farið um borð í skip í Montreal í Kanada 21. nóv. 1998. Af ástæðum sem stefnda séu óviðkomandi hafi varan verið flutt af flutningsaðila (Mærsk Line) til Felixstowe á leið til Aberdeen. Vegna ágreinings milli stefnanda og stefnda um greiðsluskilmála hafi varan orðið eftir í Felixstowe í stað þess að fara með flutningsfarinu áfram til Aberdeen. Þegar samkomulag hafi náðst um greiðsluna og stefnandi greitt umsaminn hluta kaupverðsins (90%) hafi stefnandi sjálfur flutt vöruna með flutningabílum frá Felixstowe. Af þessu tilefni hafi stefnandi lýst því sérstaklega yfir að hann myndi engar fjárkröfur gera á hendur stefnda vegna meintra tafa í flutningnum.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að hin selda vara hafi verið gölluð þegar áhættan af ástandi hennar fluttist til stefnanda. Í þeim efnum verði að miða við hvenær varan fór um borð í flutningafarið í Montreal í Kanada. Fyrirliggjandi skýrslur og gögn sýni að varan hafi á þessu tímamarki verið í ágætu og umsömdu ásigkomulagi. Því er sérstaklega mótmælt að stefnanda sé heimilt að rifta vörukaupunum í heild sinni enda séu engin gögn sem styðji að varan í heild sinni hafi á þeim tíma sem hún var í ábyrgð stefnda verið verulega gölluð.
Skaðabótakröfu stefnanda er sérstaklega mótmælt enda styðjist hún ekki við nægilegar lagalegar forsendur og gögn. Mótmælt er hvorutveggja, bótaskyldu stefnda og fjárhæðum. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir meintu fjártjóni sínu. Reiknuð krafa um missi hagnaðar (tapaðar sölutekjur) sé ekki studd neinum viðhlítandi gögnum og er því alfarið vísað á bug að salan hefði skilað þeim tekjum sem stefnandi vilji vera láta.
Krafa um kostnað vegna frystigeymslu sé með öllu órökstudd og sama sé um meintan vaxtakostnað og kostnað vegna meðferðar á vörunni og stjórnunarkostnaðar. Kröfu um lögfræðikostnað í Skotlandi að fjárhæð bresk pund 25.681 er sérstaklega mótmælt enda sé krafan fráleit, hvort sem litið sé til greiðsluskyldu eða fjárhæðar.
Til rökstuðnings kröfum sínum vísar stefndi til 1. mgr. 17. gr, sbr. 10. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39/1922. Krafa um málskostnað er studd með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Ágreiningsefni máls þessa eru í fyrsta lagi um það hvort rækjan sem stefndi seldi stefnanda hafi verið í umsömdu ástandi eða ekki þá er hún var afhent flutningsaðila, Mærsk Line, í Montreal í Kanada. Í öðru lagi er ágreiningur um tjón stefnanda.
Pöntun stefnanda, dags. 6. nóv. 1998 liggur fyrir í málinu. Þar er varðandi gæði vörunnar vísað til skýrslu Twilight Inspection. Fram er komið að tilvitnuð skýrsla stafaði ekki frá Twilight Inspection, enda þótt skýrslan sé gerð á eyðublöð merkt því fyrirtæki. Skjöl málsins gefa til kynna að Labrador Fishermens Union Shrimp Company Limited, sem mun vera framleiðandi vörunnar, hafi gert skýrsluna en notað eyðublöð Twilight Inspection & Enhancement Services. Þannig liggur ekki fyrir skoðunargerð óháðs aðila varðandi ástand vörunnar áður en hún var afhent flutningsaðila. En því er ómótmælt að stefnandi hafi verið að kaupa góða vöru, ætlaða til gæðaframleiðslu.
Með bréfi, dags. 21. des. 1998, tilkynnti stefnandi stefnda um margskonar galla á vörunni.
Í skýrslu Liverpool & Glasgow Salvage Association, dags. 9. febrúar 1999, kemur m.a. fram, að skýrsluhöfundur telur að með hliðsjón af jafnri dreifingu galla í allri sendingunni sé varla hægt að rekja þá til þess að bilun hafi orðið í kælibúnaði hvers gáms fyrir sig. Heldur telur skýrsluhöfundur rökrétt að álykta að gallarnir tengist alfarið aðstæðum áður en að hleðslu gámanna og flutningi þeirra kom. Ástæður gætu t.d. verið of langur geymslutími um borð í fiskiskipi fyrir löndun, ófullnægjandi eftirlit með vinnslu, hugsanleg lenging á geymslutíma fyrir vinnslu eða ófullnægjandi jöfnun á hitastigi að vinnslu lokinni.
Í skýrslu K&S Associated, dags. 24. febrúar 1999, kemur fram að ekkert af vörusendingunum hafi verið hæft til framleiðslu á viðunandi og þaðan af síður hágæða soðinni og pillaðri vöru. Skýrsluhöfundar telja að rækjan hafi legið í saltpækli en ekki hlotið fullnægjandi frystingu í pæklinum, annað hvort vegna þess að tíminn í pæklinum hafi verið of stuttur eða vegna þess að hitastig pækilsins hafi verið of hátt eða vegna samverkan þessara þátta, tíma og hitastigs. Svo virðist sem aðalfrysting hafi verið gerð hægt, í köldu lofti frystigámanna. Mjög líklegt sé að gæði rækjunnar hafi tapast vegna ónógrar og hægfara frystingar.
Fram er komið að stefnda var gefinn kostur á að senda fulltrúa sinn til þess að vera viðstaddur skoðunargerð sem fram fór vegna þessarar skýrslu. Því var hafnað af hálfu stefnda. Af hálfu stefnda hefur því ekki verið hnekkt að varan hafi verið óhæf til framleiðslu á viðunandi og þaðan af síður hágæða soðinni og pillaðri rækju.
Ekkert hefur komið fram um að varan hafi ekki hlotið tilskylda frystingu í flutningsgámum í flutningnum frá Kanada til Skotlands, enda felst dómurinn á álit það sem fram kemur í framangreindum skýrslum að ólíklegt sé að bilun hafi orðið í kælikerfi allra gámanna.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður að telja fram komið að rækjan hafi ekki verið í umsömdu ástandi þegar hún var afhent flutningsaðila Mærsk Line. Samkvæmt 43. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, sbr. 24. gr. sömu laga, ber stefnda að svara stefnanda skaðabótum vegna tjóns sem stefnandi hefur orðið fyrir vegna þessarar vanefndar.
Kröfu vegna tapaðra sölutekna að fjárhæð £ 513.629 styður stefnandi við áætlað söluvirði rækjunnar miðað við 33.03% nýtingu. Þegar litið er til framlagðra gagna þá þykir mega fallast á þessa áætlun stefnanda varðandi tapaðar sölutekjur.
Krafa stefnanda um kostnað vegna frystigeymslu að fjárhæð 24.000 £ er samkvæmt stefnu vegna kostnaðar sem stefnandi segir hafa hlotist af því að stefnandi hafi setið uppi með vöruna í stað þess að varan hefði farið til viðskiptavina í desember 1998. Ekki hafa verið lögð fram nein gögn vegna þessa frystikostnaðar og krafan lítt rökstudd. Gegn andmælum stefnda verður þessi liður í kröfu stefnanda því ekki tekinn til greina.
Þriðji liður í kröfu stefnanda er vaxtakostnaður 4.494 £. Það er að sögn stefnanda krafa um 10% ársvexti í 6 vikur af fjárhæðinni sem stefnandi hafði greitt 8. des. 1998.
Þrátt fyrir að þessi liður í dómkröfu stefnanda sé ekki svo ljós sem skyldi er ljóst að vaxtakostnaður er hluti af tjóni stefnanda sem stefnda ber að bæta. Samkvæmt kröfugerð stefnanda er krafan um ársvexti en ekki dráttarvexti, enda telst stefnandi ekki eiga rétt á dráttarvöxtum í þessum hluta kröfugerðar sinnar. 10% ársvextir eru hærri vextir en leyfilegir dráttarvextir af peningakröfum í breskum pundum, sbr. 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Samkvæmt kröfugerð stefnanda á dskj. 63 virðist stefnandi hafa greitt 382.140 £ en samkvæmt útreikningi stefnanda á dskj. 10 virðist stefnandi hafa greitt 389.465 £. Rétt þykir að miða við það sem endanleg kröfugerð stefnanda gefur til kynna, þ.e að 382.140 £ hafi verið greidd hinn 8. desember 1998. Verður þessi liður dómkröfu stefnanda því tekinn til greina þannig að stefndi er dæmdur til þess að greiða stefnanda almenna innlánsvexti af innlánsreikningum í breskum pundum í íslenskum innlánsstofnunum af 382.140 £ í 6 vikur frá 8. des. 1998.
Krafa stefnanda að fjárhæð 5.370 £, þ.e. kostnaður stefnanda vegna meðferðar á vörunni og stjórnunarkostnaður, er ekki studd neinum gögnum og lítt rökstudd. Gegn andmælum stefnda verður krafa þessi því ekki tekin til greina. Sama er um kröfu stefnanda vegna lögfræðikostnaðar í Skotlandi að fjárhæð 25.681 £.
Til lækkunar kröfu stefnanda kemur 10% af kaupverði rækjunnar sem er ógreitt þ.e. 38.214 £.
Til lækkunar kröfu sinnar telur stefnandi endursöluandviði rækju sem hann seldi Wecofish a/s hinn 23. júlí 1999 að fjárhæð 253.204 £, en hækkar kröfu sína vegna afsláttar til þessa kaupanda að fjárhæð 71.747 £. Af hálfu stefnda hefur ekki verið sýnt fram á að hægt hafi verið að fá hærra verð fyrir vöruna en stefnandi miðar kröfugerð sína við. Enda ekkert fram komið um tilraunir stefnda til þess að selja vöruna annað en símbréf frá danska fyrirtækinu Sirena til stefnda, dags. 14. maí 1999, þar sem það fyrirtæki lýsir áhuga á að kaupa iðnaðarrækju í vörslu stefnanda, en ekkert er þar um verð. Verður því við niðurstöðu málsins miðað við framangreindar fjárhæðir.
Niðurstaða málsins verður því sú að stefndi er dæmdur til þess að greiða stefnanda 293.958 £ með vöxtum eins og segir í dómsorði.
Stefndi greiði stefnanda málskostnað sem ákveðst 1.691.292 kr. og hefur þá verið litið til útlagðs kostnaðar að fjárhæð 191.292 kr.
Málið dæmir Auður Þorbergdóttir héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Nasco ehf., greiði stefnanda, Moray Seafoods Ltd., 293.958 £ með almennum vöxtum á innlánsreikningum í íslenskum innlánsstofnunum í breskum pundum af 382.140 £ í 6 vikur frá 8. desember 1998, en ásamt 9,4% dráttarvöxtum af 475.415 £ frá 15. febrúar 1999 til 1. mars 1999, 9,2% dráttarvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 1. apríl s.á., 9,1% dráttarvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 1. maí s.á, 9% dráttarvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 1. júní s.á., 8,5% dráttarvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 1. júlí s.á., 8,3% dráttarvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 23. júlí s.á., en með 8,3% dráttarvöxtum af 222.211 £ frá þeim degi til 1. ágúst s.á., 8,2% dráttarvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 1. september s.á., 8,3% dráttarvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 1. október s.á., en með 8,2% dráttarvöxtum af 293.958 £ frá þeim degi til 1. nóvember s.á., en með dráttarvöxtum af peningakröfum í breskum pundum samkvæmt auglýsingum Seðlabanka Íslands frá þeim degi til greiðsludags.
Heimilt er að leggja dráttarvextir við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 15. febrúar 2000 og svo árlega þann dag.
Stefndi greiði stefnanda í málskostnað 1.691.292 kr.