Hæstiréttur íslands
Mál nr. 541/2006
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 15. febrúar 2007. |
|
Nr. 541/2006. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl. Sveinn Guðmundsson hdl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Miskabætur.
X var ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með nánar tilgreindri háttsemi gagnvart systurdóttur sinni. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, var lagður til grundvallar framburður stúlkunnar með þeim stuðningi sem hann fékk í vottorðum kvensjúkdómalæknis, barnalæknis, heimilislæknis og framburði móður hennar. Með vísan til þessa var talið sannað að X hefði gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greindi og þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tólf mánuði. Hann var jafnframt dæmdur til að greiða stúlkunni miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. september 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og hann dæmdur til að greiða brotaþola 600.000 krónur í miskabætur auk vaxta og dráttarvaxta eins og í ákæru greinir.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing hans verði milduð og bótakröfu vísað frá dómi eða hún lækkuð.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en miskabætur handa brotaþola, sem ákveðnar verða 600.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði verður dæmdur til greiðslu áfrýjunarkostnaðar málsins, sem er málsvarnarlaun samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar, eins og nánar segir í dómsorði, en virðisaukaskattur er innifalinn í fjárhæð þeirra.
Héraðsdómur var kveðinn upp 30. mars 2006 en ekki birtur ákærða fyrr en 2. september sama ár. Þessi dráttur á birtingu dómsins, sem ekki hefur verið réttlættur, er aðfinnsluverður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að ákærði, X, greiði Y 600.000 krónur með vöxtum eins og í héraðsdómi greinir.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 30. mars 2006.
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms 21. febrúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 10. febrúar 2005, á hendur X, fæddum [...], til heimilis að [...], ,,fyrir kynferðisbrot framin á heimili ákærða að nóttu til í júní 2003, gegn systurdóttur hans, Y, sem þá var 10 ára gömul, með því að hafa, þá er telpan svaf í rúmi með ákærða, káfað innan klæða á rassi og kynfærum hennar, sett fingur inn í kynfæri telpunnar og nuddað lim sínum við ber kynfæri hennar og rass.
Telst þetta varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu Y, kennitala [...], er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 600.000 auk vaxta og dráttarvaxta skv. lögum nr. 38/2001 frá 30. júní 2003 til greiðsludags.”
Af hálfu ákærða er aðallega gerð krafa um sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara vægustu refsingar sem lög frekast heimila og að refsing verði skilorðsbundin og í því tilfelli verði bótakrafa lækkuð.
Málið var dæmt í héraði þann 6. maí 2006. Með dómi Hæstaréttar Íslands þann 15. desember sl. var dómur héraðsdóms ómerktur og málinu vísað heim í hérað til frekari meðferðar og dómsálagningar að nýju.
II
Málavextir
Samkvæmt framburði ákærða og vitna flutti A ásamt þremur börnum sínum að [...] um haustið 2002. Á heimilinu voru fyrir faðir hennar og kona hans svo og ákærði sem er hálfbróðir A. Ekki liggur fyrir hvort fleiri voru þar í heimili. Eftir að A hafði dvalið þar í tvo til þrjá mánuði flutti hún að [...] í [...]. Ákærði flutti einnig á þessum tíma í sömu götu. Áður en A flutti að [...] hafði nánast ekkert samband verið á milli ákærða og A og barna hennar. Þá verður og ráðið af framburði fyrir dóminum að gott samband hafi tekist á milli ákærða og dóttur A, Y, sem á þessum tíma var á 10. ári. Eftir að ákærði flutti í [...] bjó hann einn að [...]. Hús það sem ákærði bjó í er á tveimur hæðum. Á neðri hæð eru stofur, eldhús, salerni og eitt herbergi sem kunningi ákærða leigði um tíma. Á efri hæð eru tvö herbergi og kompa. Í júnímánuði 2003 var dóttir ákærða, þá á sjöunda ári, hjá honum í viku til 10 daga. Á þeim tíma gisti Y ítrekað heima hjá ákærða en hún mun ekki hafa gist þar í annan tíma. Ákærði svaf þá í svefnherbergi á efri hæð í sama rúmi og báðar telpurnar.
Þann 20. ágúst 2003 barst lögreglunni á [...] kæra frá Barnaverndarnefnd [...] þar sem farið var fram á rannsókn á meintu kynferðisbroti ákærða gagnvart Y. Í kæru nefndarinnar er rakin frásögn móður telpunnar á samtölum hennar við telpuna. Daginn eftir að kæran barst lögreglu var telpunni skipaður réttargæslumaður. Næsta dag var svo tekin lögregluskýrsla af móður stúlkunnar þar sem frásögn móður á því sem telpan sagði henni er rakin. Þann 23. ágúst 2003 kynnir lögregla fyrir ákærða að hann hafi verið sakaður um kynferðislegt ofbeldi gagnvart stúlkunni. Aðspurður hvort hann vildi tjá sig um kæruna kvaðst hann fyrst vilja jafna sig á því áfalli sem hann varð fyrir við ásakanirnar og þá vildi hann ráðfæra sig við væntanlegan verjanda sinn. Þann 27. ágúst 2003 var þess farið á leit við dóminn að tekin yrði skýrsla af telpunni fyrir dómi. Tveimur dögum síðar var skýrsla tekin í Barnahúsi. Telpan reyndist þá ófáanleg til að tjá sig um meinta misnotkun ákærða. Í framhaldi af þessu viðtali fór telpan í meðferðarviðtöl hjá Ólöfu Ástu Farestveit í Barnahúsi. Í tölvupósti frá Ólöfu Ástu til lögreglunnar á [...] frá 30. september 2003 kemur fram að telpan hafi upp úr miðjum september, í öðru meðferðarviðtali sínu, lýst því að hún hafi sætt kynferðislegri misnotkun af hálfu ákærða. Þann 29. september 2003 óskaði lögreglan á [...] eftir því að skýrsla yrði öðru sinni tekin af telpunni fyrir dómi og var skýrslan tekin í Barnahúsi þann 24. október 2003.
Að beiðni Barnaverndarnefndar [...] og Þorsteins Þorsteinssonar læknis á Heilbrigðisstofnuninni á [...] var framkvæmd læknisskoðun á telpunni þann 17. október 2003 á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Í vottorði Andreu Andrésdóttur barnalæknis á FSA kemur fram að Anna Mýrdal kvensjúkdómalæknir hafi framkvæmt skoðunina en Andrea hafi verið viðstödd. Í vottorðinu segir m.a. ,,Við skoðun kom í ljós afbrigðilegt útlit meyjarhafts þar sem tvö hök voru í meyjarhaftið, annars vegar kl. 11 og hins vegar kl. 5. Þessi vik verða að teljast merki um áverka á kynfærin en þau eru vel gróin og atburðurinn því greinilega ekki nýskeður. Það er hins vegar ekki með neinni vissu hægt að segja um það hvenær þessi atburður hefur átt sér stað eða hvers konar áverki hefur valdið. Niðurstaðan er því sú að útlit meyjarhaftsins samrýmist ástandi eftir gróinn áverka og getur þetta samræmst þeirri sögu sem móðir telpunnar gaf. Teknar voru rannsóknir með tilliti til kvensjúkdóma og voru þær allar neikvæðar.”
Þorsteinn Þorsteinsson læknir á Heilbrigðisstofnuninni á [...] ritaði tvö vottorð varðandi telpuna. Fyrra vottorðið er ritað 23. janúar 2004. Í því kemur fram að móðir telpunnar hafi leitað til hans 24. september 2003 vegna þess að telpan ætti mjög erfitt. Á henni væri mikið álag og hún svæfi illa. Af þessum sökum hafi henni verið gefnar svefntöflur til að koma réttu lagi á svefninn. Í vottorðinu segir ennfremur að telpan hafi komið aftur til skoðunar þann 31. október 2003 vegna doða eða tilfinningaleysis í höndum en hún hafi verið að meiða sig á handarbökum vegna þessa og var hún með smá sár á báðum handarbökum. Skoðun leiddi í ljós að skyntapið var ekki raunverulegt, heldur eitthvað sem telpan upplifði sjálf. Taldi læknirinn líklegt að skýringa væri að leita í miklu andlegu álagi. Læknirinn telur ljóst að telpan hafi átt við andlegt álag og streitu að stríða sem valdið hafi henni talsverðri vanlíðan. Svefntruflanir og síðar líkamleg einkenni sem rekja megi til streitu og andlegs álags og jafnvel sjálfsmeiðingar séu yfirleitt merki um mjög slæma andlega líðan.
Þann 3. mars leitaði móðir telpunnar aftur með hana til Þorsteins Þorsteinssonar læknis og þá vegna tíðra skapofsakasta sem hún kvað telpuna taka. Ritaði læknirinn vottorð vegna þessarar komu þann 1. apríl 2004. Í vottorðinu hefur læknirinn eftir móður telpunnar að hún taki tíð skapofsaköst sem standi mislengi. Segir hún að telpan fái martraðir þó hún neiti því sjálf. Móðir kvað köstin einkum koma eftir að telpan hafi orðið vör við gróft tal eða að hún hafi séð frændfólk sitt. Þá er í vottorðinu haft eftir móður telpunnar að telpan hafi verið í viðtölum hjá barnageðlækni eða barnasálfræðingi en henni hafi reynst erfitt að tala um þessa hluti og neitað að mæta í síðasta tímann. Í viðtalinu tjáði stúlkan sig mjög lítið en var róleg og hlustaði á tal móður sinnar og læknisins. Í niðurlagi vottorðsins kemur fram að læknirinn telur hegðun og framkomu stúlkunnar geta vel passað við viðbrögð eftir mikið áfall eða álag. Alla vega sé ljóst að hún virðist vera í miklu andlegu ójafnvægi og með mikla vanlíðan.
III
Framburður fyrir dómi
Vitnið Y bar að í þau skipti sem hún gisti heima hjá ákærða hefði hann sofið í sama rúmi og hún og dóttir hans. Hann hefði verið á milli þeirra til að byrja með en dóttir hans hafi að jafnaði fært sig í miðjuna. Í umrætt sinn hafi hann viljað að dóttir hans svæfi í öðru herbergi en telpan hafi ekki viljað það og vitnið kvaðst hafa hjálpað dóttur ákærða að fá að sofa hjá þeim og það hafi síðan gengið eftir.
Vitnið bar aðspurt að ákærði hefði komið við hana innan klæða og farið inn fyrir nærbuxur hennar. Hann hafi dregið nærbuxur hennar aðeins niður en ekki klætt hana úr þeim. Hann hafi snert kynfæri hennar og rass en ekki aðra staði. Vitnið sagði ákærða hafa snert kynfæri hennar með fingrum sínum og bar einnig að hann hefði nuddað kynfæri hennar og rass innan klæða með fingrunum. Þá hafi hann einnig snert kynfæri hennar og rass með kynfærum sínum. Þegar vitnið var spurt hvar ákærði hefði komið við hana með kynfærum sínum svaraði hún ,,aftan pínu fyrir framan.” Vitnið sagðist ekki muna hvort limur ákærða var harður eða linur en hún kvaðst aðspurð um bleytu hafa fundið fyrir pínu bleytu einhversstaðar hjá kynfærunum. Hún kvaðst hafa legið á hliðinni og ákærði hafi legið fyrir aftan hana. Vitnið kvaðst hafa heyrt að ákærði fór ,,pínu” úr nærbuxum sínum. Þá bar vitnið að ákærði hefði sleikt fingur sína meðan á þessu stóð. Hún var spurð hvernig hún vissi það og þá svaraði hún ,,Ég veit það bara.” Þá var hún spurð hvort hún hefði séð það og þá svaraði hún ,,Nei pínu.”
Vitnið kvaðst hafa látist sofa meðan á þessu stóð en ákærði hafi hætt þegar hann fór á klósettið en hún hafi heyrt að hann sturtaði niður. Eftir að ákærði kom aftur upp hafi hún enn látist sofa og lagst til svefns á gólfinu þegar hún taldi að ákærði væri sofnaður. Vitnið bar að hún hefði sagt móður sinni og bróður frá því sem gerðist en neitaði að hafa sagt starfsmanni Barnahúss sögu sína.
Ákærði neitaði fyrir dóminum sakargiftum. Hann bar að samskipti hans og Y hafi verið eðlileg, góð og venjuleg en veit ekki hvort þau voru mikil en þau hafi verið eðlileg. Það hafi verið ágæt samskipti milli heimilanna og hann oft kíkt í heimsókn til hálfsystur sinnar. Ákærði kvað telpuna ekki hafa komið mikið í heimsókn til hans þegar hann var einn en mikið meira þegar hann var með dóttur sína, sem er um það bil þremur árum yngri en Y, hjá sér. Ákærði kvaðst aðspurður ekki geta sagt að hann hafi gengið stúlkunni í föðurstað þó svo samskiptin hafi verið mikil og taldi ekki að stúlkan hafi litið á hann sem föður. Bræður stúlkunnar hafi þó þurft mikla athygli og hún hafi þess vegna kannski verið útundan. Hann hafi kannski veitt telpunni meiri athygli af þeim sökum. Hann kvaðst hafa verið einhleypur á þessum tíma.
Ákærði kannaðist við að Y hafi verið samfleytt hjá honum og gist í um það bil viku til 10 daga í lok júní 2003. B dóttir hans, sem á þessu tíma var hjá honum í sumarleyfi, og Y hafi verið saman á reiðnámskeiði. Ákærði bar að þær frænkur hefðu skipst á að vera hjá honum og móður Y. Ákærði bar að þegar Y gisti hafi þau þrjú, hann Y og B, öll þrjú sofið í sama rúmi. Hann kvaðst sjálfur eingöngu hafa sofið í nærbuxum en Y hafi verið í náttfötum eða náttserk og nærbuxum. Ákærði kvað Y aldrei hafa gist á heimili hans þegar B var ekki þar.
Aðspurður kannaðist ákærði við að talað hefði verið um að dóttir hans fengi rúm til að sofa í og bar að móðir Y hefði látið hann hafa rúm handa henni. Ákærði kvaðst síðar hafa útbúið annað herbergi á efri hæðinni fyrir B. Hann kannaðist hins vegar ekki við að rúmið hafi verið sérstaklega ætlað Y en hann hafi vantað barnarúm fyrir dóttur sína. Ákærði mundi ekki til þess að systir hans hafi rætt við hann um að Y svæfi ekki uppí rúmi hjá honum.
Aðspurður um ,,sms” skilaboð sem hann sendi Y sagði ákærði þau hafa verið send þegar telpan var hjá föður sínum. Hún hafi sent honum skilaboð og hann sent henni til baka. Hann kvaðst ekki hafa hringt til hennar á þessum tíma. Ákærði bar að hann hefði ekki staðið Y að ósannsögli og sagðist ekki muna eftir neinu sem sæti eftir í því efni. Hann kvaðst ekki vita hvers vegna þetta mál sé til komið og sagðist ekki getað áttað sig á því.
Að sögn ákærða er hann í sambúð í dag og á von á barni en fyrir eigi hann áðurnefnda B sem í dag sé á níunda ári. Hann kvaðst vinna við jarðboranir og hafi gert það í eitt og hálft ár en fram að því hafi hann verið á sjó og unnið almenna verkamannavinnu.
Vitnið A, kvaðst ekki muna dagsetningu á því þegar dóttir hennar spurði hana hvort menn gætu gert eitthvað við börn sem ekki má gera við börn meðan viðkomandi væri sofandi. Hún kvaðst hafa spurt telpuna hvort hún hefði lent í einhverju þannig og þá hafi hún sagt já og aðspurð hafi hún sagt að það hefði verið af hendi ákærða. Telpan hafi sagt að hún vissi ekki hvort ákærði hefði verið vakandi eða sofandi. Í umrætt sinn hafi B, dóttir ákærða, einnig verið í rúminu með þeim og Y hafi sagt að B hún hefði verið í miðjunni. Vitnið sagði að Y hefði aðspurð sagt að ákærði hefði þreifað þarna niðri og hún hafi að fyrra bragði sagt að ákærði hefði farið með tvo fingur inn í ,,gudduna” en neitað því aðspurð að hún hefði fundið fyrir ,,hinu eða lillanum”. Hún hafi líka sagt að hún hefði fundið fyrir einhverju við rassinn og hún kvaðst ekki hafa farið nánar út í það. Telpan hafi sagt að hún hefði ekki þorað að gera neitt og látist sofa. Ákærði hafi síðan farið á fætur og farið niður og þvegið sér en hún hafi heyrt í vaskinum. Vitnið kvaðst ekki muna hvort Y hefði sagt að hún hefði fært sig á gólfið eða bara fært sig til í rúminu. Telpan hafi sagt að henni hafi þótt þetta vont en hún hafi ekki nefnt blóð í þessu sambandi. Að sögn vitnisins átti þetta samtal þeirra mæðgna sér stað allnokkru eftir þennan atburð, það er í lok ágúst 2003.
Vitnið segir að rúmið sem ákærði svaf í með telpurnar hafi verið 120-140 cm á breidd. Hún hafi rætt við Y um að hún gæti sofið í hinu herberginu og raunar hafi hún rætt þetta líka við ákærða og dóttur hans. Telpan hafi sagt henni að hún vildi ekki sofa uppí hjá ákærða en ekki þorað að segja honum það og þá hafi hún sagt henni að hún ætti bara að fara annað. Það hafi verið útbúið herbergi fyrir dóttur ákærða sem hún hafi m.a. látið hann hafa gardínur fyrir. Vitnið minnti að hún hefði komið með rúm til ákærða en mundi ekki hvort það átti eftir að stytta í því fjalir eða eitthvað þess háttar.
Vitnið bar að hún hafi fundið breytingu á Y eftir atburðinn. Hún hafi hætt að vilja gista á heimili ákærða. Einu sinni hafi ákærði farið á sjó með frænda þeirra og Y hafi verið heima hjá honum á meðan. Telpan hafi verið miður sín vegna þessa og verið hrædd um að ákærði kæmi heim um nóttina. Þetta hafi gerst áður en telpan var búin að segja henni frá atvikinu. Hún hafi síðan eftir á að hyggja séð að telpan var hætt að sækja eins mikið í ákærða og áður, en nokkur samgangur hafi verið á milli ákærða og hennar einkum þegar dóttir ákærða var hjá honum. Að sögn vitnisins leit Y á ákærða sem vin, frænda eða pabba og hún hefði ekki séð sólina fyrir honum en samband hennar við föður sinn hafi verið lítið. Vitnið sagði að eftir þetta atvik hefði Y þurft minna til að komast úr jafnvægi og hún verið og sé raunar enn hrædd við að vera nálægt karlmönnum sem hún ekki þekkir. Hún hafi fengið hræðslukast vegna þess manns sem vitnið er nú í sambandi við út af engu og hún eigi erfitt með að þola að þau sýni hvort öðru atlot. Y vilji ekki gista hjá vinkonum sínum ef pabbar þeirra eru heima en ef þeir eru heima vilji hún hafi náttföt og auka buxur. Vitnið bar að Y hefði tveimur til þremur vikum áður en hún sagði henni frá atvikinu spurt hvað væri gert við menn sem gerðu svona við börn. Hún kvaðst þá hafa haldið að telpan væri að spyrja vegna þess að svona mál hefðu verið mikið í fréttum.
Hún kvaðst ekki geta fullyrt hversu oft Y gisti hjá ákærða í [...] og þá kvaðst hún ekki geta fullyrt hvort hún gisti þar þegar B var þar ekki. Eftir að málið kom upp hafi allt vensla fólk ákærða slitið sambandi við hana og hennar börn. Vitnið kvaðst hafa flutt frá [...] á [...] 8 dögum eftir að Y sagði frá og síðan hafi hún flutt frá [...] um mánaðarmótin júní/júlí 2004 vegna málsins. Y hafi alltaf verið að rekast á ákærða eða tvíburabróður hans eða hans fólk og því hafi hún ákveðið að flytja.
Vitninu þykir sem Y vilji spjara sig sjálf en hún sé einhvern veginn minni í sér en samt mjög dugleg. Telpan hafi opnast þegar hún fór að umgangast ákærða en eftir atvikið hafi geðsveiflur orðið tíðari og meiri en áður. Hún verði vör við þessar sveiflur enn í dag. Hún sé þó að eldast en það vantar traust einkum gagnvart hinu kyninu. Að mati vitnisins hjálpuðu viðtöl Y við Ólöfu Ástu henni en hún hafi sjálf hætt að vilja fara til hennar. Hún hafi sagt að henni þætti nóg að rekast á ákærða á [...] þó hún þyrfti ekki að tala um það líka. Vitnið segir að Y gangi vel í skóla og svo hafi alltaf verið. Þá bar vitnið að hún hefði ekki orðið vör við að Y væri að segja ósatt eða ýkja.
Vitnið C, bróðir Y, bar að morguninn eftir atvikið hafa Y spurt ákærða hvort hann hefði farið á klósettið en hann hafi neitað því en dóttir ákærða hafi hins vegar tekið undir með Y. Vitnið kvaðst á þessum tíma ekki hafa áttað sig á því hvers vegna Y var að spyrja um þetta. Síðar þegar þau voru flutt hafi Y sagt móður þeirra frá því sem gerðist og honum seinna en þá hafi hún verið ofboðslega niðurdregin. Hún hafi sagt honum að hún hafi ekki verið sofandi og að ákærði hafi potað í kynfærin á henni með fingrunum og sleikt þá á eftir. Hún hafi talað um að snertingar ákærða hafi verið óþægilegar og jafnframt sagt honum að hún hefði farið niður á gólf eftir þetta. Y hafi sagt að ákærði hafi ekki verið drukkinn og alveg vakandi er hann fór á klósettið eftir atvikið en Y hafi seinna sagt honum að hún hefði heyrt í vatnskrananum. Y hafi einnig sagt honum að henni líði illa út af þessu. Hún sé nú verri á geði og hrædd við karlmenn og þau taki öll eftir því. Vitnið segir að ákærði hafi reynst þeim vel og Y sé döpur vegna þess að sambandinu sé lokið en hún sakni ekki afa síns. Vitnið segir að fyrir komi að Y ræði þetta mál við hann.
Vitnið Ólöf Ásta Farestveit starfsmaður Barnahúss, bar að hún hefði hitt Y fjórum sinnum þar af þrisvar á [...]. Í fyrsta viðtalinu ræddi hún mikið við móður hennar. Þann 17. september sagði telpan frá því sem gerðist en það hafi hún ekki gert fyrst þegar hún fór í skýrslutöku í Barnahúsi. Í þetta sinn hafi hún greint frá því að ákærði hefði verið að pota í kynfærin á henni og hann haldið að hún hefði ekki verið vakandi. Í framhaldi af þessu hefði hún haft samband við lögreglu og látið vita að stúlkan hefði sagt frá. Í þriðja viðtali hafi telpan verið þung og dauf og illa hefði gengið með hana heima fyrir. Hún hafi þá lagt til við barnavernd að telpan fengi meiri þjónustu því ekki væri nægjanlegt að hún ræddi við telpuna einu sinni í mánuði. Í fjórða skiptið hafi henni enn liðið illa og þá ákveðið að hún færi í fjölskyldumeðferð þar sem öll fjölskyldan væri tekin saman. Þegar hún svo ætlaði að hitta hana í fimmta sinn hafi telpan ekki viljað koma og móðir hennar hafi sagt að viðtölin minntu á atburðinn og telpan ekki tilbúin að takast á við hann. Í viðtölum hafi komið fram að það olli telpunni vanlíðan að hitta ákærða í bænum. Einu sinni hafi hún séð ákærða koma út úr búð og hún þá hlaupið heim þrátt fyrir að hún hefði verið á leið í skóla. Stúlkan hafi sagt að ákærði hefði gengið henni í föðurstað og þetta atvik því verið henni mikið áfall og henni hafi gengið illa að takast á við samskiptaslit við fólkið sem stendur að ákærða. Fram hafi komið hjá telpunni að ákærði hefði potað í kynfæri hennar og það hafi valdið henni sársauka en þetta hafi hætt þegar ákærði þurfti að fara á klósettið. Telpan talaði ekki um neina bleytu hjá henni en hún hafi átt mjög erfitt með að tala um þetta mál en það sem hún sagði hafi komið í frjálsri frásögn hjá henni. Meðferðin hafi gengið út á að hjálpa henni til að líða vel og takast á við ýmsa erfiðleika sem þessu fylgja. Til hafi staðið að telpan færi í frekari meðferð á Akureyri og því hafi hún lokað málinu.
Vitnið segir að fram hafi komið hjá telpunni að ákærði hefði alltaf komið vel fram við hana og sinnt henni. Henni hafi þótt gaman að hitta hann þar sem hún hitti pabba sinn aldrei. Vitnið kveðst ekki hafa farið nánar út í þessi samskipti þeirra enda meðferðin gengið út á að henni liði betur.
Vitnið Þorsteinn Marinó Þorsteinsson læknir bar að telpan hafi komið tvisvar sinnum til hans. Í fyrra skiptið vegna tilfinningaleysis eða doða í höndum. Hún hafi verið með lítil húðsár eins og eftir eggjárn á höndum sem gæti passað við að hún hefði klipið sig eða klippt. Hann hafi túlkað það svo að tilfinningaleysið væri ekki raunverulegt heldur hafi hún verið með skyn í höndunum. Vitnið segir að draga megi þá ályktun að telpan hafi orðið fyrir líkamlegu eða andlegu áreiti a.m.k. hafi hann túlkað það sem svo eftir hans kunnáttu í læknisfræði og taldi að á þessum tíma hafi stúlkan verið í andlegu ójafnvægi. Vitnið kvaðst hafa rætt við telpuna og hún hafi svarað honum ágætlega og hún hafi, án athugasemda, hlustað á þegar móðir hennar lýsti því að telpan hafi sjálf veitt sér þessa áverka og hann hafi tekið það trúanlegt. Vitnið segir þekkt að börn og unglingar veiti sér áverka þegar þau séu undir álagi.
Í síðara skiptið hafi komið fram við líkamlega skoðun að hún hefði látið bróður sinn brenna sig á handarbaki með heitum pönnukökuspaða og passaði áverki á handabaki hennar við það. Hann kvaðst ekki hafa skoðað hana að öðru leyti líkamlega eða andlega. Telpan hafi lítið tjáð sig en hlustað á samtal hans og móður hennar. Hann hafi síðan dregið þær ályktanir sem fram koma í vottorðinu. Þetta atferli sé í raun sjálfsmeiðing og merki um andlega vanlíðan sem geti verið eftir áfall. Ályktunina hafi hann dregið af frásögn móður en ályktanir séu oft dregnar af frásögn fullorðinna þegar börn eiga í hlut svo og því að stúlkan lét bróður sinn brenna handarbak hennar. Þá hafi hann og stuðst við fyrra vottorð sitt. Vitnið mundi ekki til þess að móðirin hafi greint frá því að telpan hafi tekið skapofsaköst áður en þær fluttu frá [...].
Vitnið Andrea Elísabet Andrésdóttir barnalæknir sagði að beiðni hefi borist um afmarkaða skoðun á telpunni en beiðnin hafi snúist um skoðun á kynfærum. Anna Mýrdal Helgadóttir kvensjúkdómalæknir hafi í raun framkvæmt skoðunina en hún hafi aðstoðað. Skoðunin hafi leitt í ljós afbrigðilegt útlit á meyjarhafti en vik hafi sést kl. 11 og kl. 5. Að þeirra mati séu þessi vik merki um áverka á kynfærin. Vikin hafi verið vel gróin og því ekki hægt að segja til um hvenær áverkinn kom en svona áverki grói á nokkrum dögum en áverkinn sjáist áfram. Þá sé heldur ekki unnt að segja til um hvað olli þessum áverka. Þessi áverki hafi ekki bent til fullra samfara en að þeirra mati hafi einhver áverki orðið og telur vitnið að eitthvað hafi rekist upp í kynfærin en segir að ekki sé hægt að segja nánar til um það. Að mati vitnisins er líklegt að lítilsháttar blóð hefði komið með þessu en ekki mikið.
IV
Niðurstaða
Ákærði hefur allt frá upphafi rannsóknar máls þessa neitað sök. Hann lýsti samskiptum sínum og telpunnar sem góðum frá því að hann kynntist henni fyrst haustið 2002. Jafnframt bar hann að hann hafi gefið henni meiri athygli en bræðrum hennar en þeir hafi tekið mikið af tíma móður þeirra og telpan þannig verið sett svolítið til hliðar. Hann kvaðst enga skýringu geta gefið á því hvers vegna telpan sakaði hann um þetta og hann sagðist ekki hafa staðið hana að því að segja ósatt. Framburður ákærða hefur verið staðfastur, án ósamræmis og ekkert komið fram sem veikir hann.
Ákærði og telpan eru ein til frásagnar um atburð þann er ákært er fyrir. Ákærði hefur alla tíð neitað sök. Telpan sagði fyrst móður sinni frá atburðinum 18. ágúst 2003 á þann hátt að hún spurði hvað væri gert við menn sem gera eitthvað við börn. Aðspurð segir hún þá móður sinni frá þeim atburði sem ákært er fyrir. Jafnframt sagði hún eldri bróður sínum nokkru seinna frá atburðinum. Í fyrstu skýrslu af telpunni í Barnahúsi 29. ágúst 2003 svaraði hún skilmerkilega þar til kom að því að lýsa atburðinum. Í annarri skýrslutöku í Barnahúsi 24. október 2003 skýrði telpan frá atburðinum eins og í ákæru greinir. Hinn 17. september 2003 greindi telpan frá atburðinum í öðru viðtalinu sínu við starfsmann Barnahúss. Þótt telpan hafi ekki skýrt ókunnugum frá atburðinum strax, er það niðurstaða dómsins að hún hafi verið trúverðug og einlæga í framburði sínum. Ber skýrslutakan það einnig með sér að atburðurinn hefur haft mikil áhrif á hana. Kemur það einnig fram í læknisvottorðum, en samkvæmt þeim þjáðist telpan eftir atburðinn af svefntruflunum og sjálfsmeiðingum, sem að mati heimilislæknisins er yfirleitt merki um mjög slæma andlega líðan. Þá er það niðurstaða kvensjúkdómalæknis og barnalæknis að grónir áverkar séu á meyjarhaftinu og geti þeir samrýmst þeirri sögu sem móðir telpunnar gaf. Í framburðum sínum hefur telpan verið samkvæm sjálfri sér og hún hefur samkvæmt framburðum ákærða og móður ekki verið staðin að ósannsögli. Þá er fram komið, að engin samskipti séu lengur á milli ákærða, stjúpmóður hans og föður (afa telpunnar) og telpunnar. Í ljósi þess sem að framan greinir telur dómurinn ekki varhugavert að leggja framburð telpunnar til grundvallar niðurstöðu, með þeim stuðningi sem hann fær einkum í vottorði kvensjúkdómalæknisins og barnalæknisins og einnig vottorðum heimilislæknisins svo og í framburði móður. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir og varðar við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003.
Ákærði hefur ekki sætt refsingu, svo kunnugt sé. Með broti sínu misnotaði hann aðstöðumun í aldri og þroska gagnvart telpunni og brást trúnaðartrausti hennar. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin 12 mánaða fangelsi.
Af hálfu A, fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar Y, hefur verið lögð fram krafa að fjárhæð 600.000 krónur í miskabætur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. júní 2003 þar til mánuður er liðinn frá því að krafan er kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum frá þeim tíma til greiðsludags. Dómurinn telur að telpan eigi rétt á miskabótum á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/2003. Brot ákærða hefur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir hana. Þykja bætur til hennar hæfilegar ákveðnar 500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. júní 2003 til 22. mars 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Sakarkostnaður málsins er samtals 806.938 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, þar með talin málsvarnar- og réttargæslulaun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 515.750 krónur og þóknun Jóns Sigfúsar Sigurjónssonar héraðsdómslögmanns, 124.500 krónur. Rétt þykir að ákærði greiði framangreindan sakarkostnað að undanskilinni málsvarnarþóknun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, sem til féll við síðari meðferð málsins í héraði.
Dóm þennan kveða upp Halldór Halldórsson dómstjóri sem dómsformaður ásamt Ásgeiri Magnússyni og Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómurum. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómsformanns en sakflytjendur hafa lýst því yfir að þeir telji ekki þörf á endurflutningi vegna þessa.
DÓMSORÐ
Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði greiði 726.938 krónur í sakarkostnað.
Málsvarnarþóknun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði greiði Y 500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. júní 2003 til 22. mars 2005, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Sératkvæði Halldórs Halldórssonar dómstjóra
Ákærði hefur frá fyrstu skýrslutöku neitað sök. Framburður hans fyrir dómi er einn og sér trúverðugur og ekkert misræmi hefur verið í framburði hans sem er til þess falllið að draga úr trúverðugleika hans. Telpan er ein til frásagnar um þá atburði sem hún hefur lýst. Framburður hennar við síðari skýrslutöku fyrir dómi var í aðalatriðum skýr og einn og sér trúverðugur. Þó gætir nokkurs ósamræmis í smærri atriðum í framburði hennar sem þó er vart meira en gera má ráð fyrir í framburði barns á þessum aldri um atburð sem þennan. Framburður telpunnar fær nokkra stoð í vottorði og framburði Andreu Andrésdóttur barnalæknis og framburði og vottorðum Þorsteins Þorsteinssonar læknis sem þó er ekki sérfræðingur á því sviði er hann tjáði sig um. Þá hefur móðir telpunnar lýst því fyrir dóminum hvernig það bar til að telpan sagði henni frá atvikum.
Við mat á framburði stúlkunnar verður að horfa til þess að hún hafði áður gefið skýrslu fyrir dómi en þá vildi hún ekki tjá sig um málið. Vegna þess hversu erfiðlega gekk að fá telpuna til að tjá sig um málið urðu spurningar sem til hennar var beint við skýrslugjöfina of leiðandi og verður að taka mið af því. Eftir fyrri skýrslutökuna fór hún í viðtal í Barnahúsi og síðar átti hún viðtal við starfsmann frá Barnahúsi þar sem hún tjáði sig að einhverju leyti um háttsemi ákærða og eftir það var aftur tekin af henni skýrsla fyrir dómi. Í áðurnefndu vottorði Andreu Andrésdóttur barnalæknis segir ekki annað en að áverkar á meyjarhafti geti komið heim og saman við lýsingu telpunnar á háttsemi ákærða. Fyrir dóminum bar Andrea að annað væri ekki hægt að fullyrða en í vottorðinu greinir en áverkar á meyjarhafti grói á nokkrum dögum. Þá bar læknirinn að líkur væru til þess að við áverkann hafi komið lítilsháttar blæðing en ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til að svo hafi verið í þetta sinn. Vottorðið er því einvörðungu sönnun þess að áverkar hafi verið á meyjarhafti telpunnar en segir í raun ekki til um hvernig þeir eru tilkomnir eða hvenær.
Vottorð og framburð Þorsteins Þorsteinssonar læknis verður að skoða í því ljósi að hann er ekki sérfræðingur á því sviði sem hann tjáði sig um og þá er skoðun ekki byggð á viðtölum við telpuna. Hann hitti hana í tvígang og ræddi við hana í fyrra skiptið og mun hún þá hafa svarað honum ágætlega en í síðara skiptið ræddi hann nánast eingöngu við móður hennar.
Það er mitt mat að framburður bróður telpunnar sé ótrúverðugur og tel ég að drengurinn sé í raun ekki að segja annað en það sem er til þess fallið að styrkja framburð systur hans.
Það er því mín niðurstaða að þau læknisfræðilegu gögn sem til staðar eru í máli þessu svo og ótrúverðugur framburður bróður styrki framburð stúlkunnar ekki nægjanlega til þess, gegn staðfastri neitun ákærða, að fram sé komin lögfull sönnun fyrir sekt hans og ber því að sýkna ákærða af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu. Að fenginni þessari niðurstöðu ber með vísan til 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að vísa skaðabótakröfu Y frá dómi.
Ég er sammála meirihluta dómsins um málsvarnarlaun og réttargæsluþóknun lögmannanna en samkvæmt þessari niðurstöðu tel ég að allur sakarkostnaður skuli greiðast úr ríkissjóði.