Hæstiréttur íslands

Mál nr. 607/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsalsbeiðni
  • Stjórnvaldsákvörðun


                                     

Fimmtudaginn 13. nóvember 2008.

Nr. 607/2008.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hdl.)

 

Kærumál. Framsalsbeiðni. Stjórnvaldsákvörðun.

Hæstiréttur felldi úr gildi ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra frá 13. október 2008 um að framselja X til Póllands.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2008 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2008, þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra 13. október 2008 um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann  málsvarnalauna fyrir Hæstarétti.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Málsatvikum og málsástæðum málsaðila er lýst í hinum kærða úrskurði. Vegna forsendna og niðurstöðu meirihluta Hæstaréttar 10. desember 2007 í máli nr. 634/2007 er fallist á niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 sé fullnægt fyrir kröfu sóknaraðila, þar sem refsirammi brotsins sem varnaraðili var dæmdur fyrir 24. janúar 2005 er meira en eitt ár samkvæmt íslenskum lögum.

Fyrir liggur í málinu endurrit ákvörðunar Héraðsdóms í Szczecin 19. júlí 2007 um að varnaraðili skyldi afplána fangelsisrefsinguna samkvæmt dóminum 24. janúar 2005. Í endurritinu kemur fram að ákvörðunin hafi verið byggð á því að varnaraðili hefði með nýjum dómi, kveðnum upp af sama dómstól í máli nr. IV K 736/06, verið dæmdur fyrir annað brot. Með því hefði hann rofið skilorð fyrri dómsins og skyldi hann því afplána refsinguna sem þar var dæmd.

Samkvæmt 4. mgr. 12. gr. laga nr. 13/1984 skal, með beiðni um framsal manns til fullnustu á dómi, dómurinn fylgja eða staðfest endurrit hans. Af málsatvikum er ljóst að ákvörðun um afplánun varnaraðila á nefndri fangelsisrefsingu er byggð á tveimur refsidómum, öðrum þar sem skilorðsbundin refsing var dæmd og hinum þar sem varnaraðili er sagður hafa verið dæmdur fyrir annað brot, sem í forsendum nefndrar ákvörðunar er talið hafa valdið rofi á skilorði fyrri dómsins. Við þessar aðstæður verður að skýra 4. mgr. 12. gr. laga nr. 13/1984 svo að báðir dómarnir auk nefndrar ákvörðunar þurfi að fylgja framsalsbeiðni, enda geta hvorki íslensk stjórnvöld né dómstólar að öðrum kosti gætt skyldu sinnar samkvæmt lögunum við könnun á skilyrðum framsals. Með því að síðari dómurinn fylgdi ekki framsalsbeiðni hinna pólsku yfirvalda er ekki unnt að fallast á hana. Verður hin umdeilda ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra því felld úr gildi.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um þóknun skipaðs verjanda verður staðfest.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984, og þykja þau hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra 13. október 2008 um að framselja varnaraðila, X, til Póllands er felld úr gildi.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um þóknun skipaðs verjanda varnaraðila er staðfest.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2008.

I

Mál þetta var tekið til úrskurðar 3. nóvember 2008.  Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 13. október 2008 til ríkissaksóknara tilkynnti ráðuneytið að fallist hafi verið á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um að framselja sóknaraðila, X til Póllands.  Var þeirri niðurstöðu ráðuneytisins komið á framfæri við sóknaraðila í skýrslutöku hjá lögreglu hinn 20. október 2008 og  með bréfi verjanda sóknaraðila 21. október 2008 krafðist hann þess að málið yrði borið undir Héraðsdóm Reykjavíkur.  Ríkissaksóknari kom þeirri kröfu á framfæri við dóminn 28. október 2008. 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur sóknaraðili sætt farbanni vegna framsalsmáls þessa frá 18. ágúst 2008 og var síðasti úrskurður þess efnis kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 20. október 2008 um að sóknaraðili skyldi sæta farbanni til  miðvikudagsins 12. nóvember 2008.

Dómkröfur sóknaraðila eru að fyrrgreind ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 13. október 2008 verði felld úr gildi.  Þá er krafist málsvarnarlauna úr hendi ríkissjóðs. 

Dómkröfur varnaraðila eru þær að staðfest verði fyrrgreind ákvörðun dómsmála­ráðuneytisins frá 13. október 2008.

II

Sóknaraðili er pólskur ríkisborgari, fæddur [...] 1983 og með lögheimili í Reykjanesbæ.  Hinn 29. júlí 2008 barst dóms- og kirkjumálaráðuneytinu beiðni pólska dómsmálaráðuneytisins um framsal sóknaraðila, X, til Póllands til fullnustu refsidóms.  Var krafist framsal sóknaraðila til fullnustu fangelsisrefsingar samkvæmt dómi uppkveðnum í Héraðsdómi Szczecin hinn 24. janúar 2005 í máli nr. VK 867/03.  Kemur fram í greinargerð varnaraðila að með þeim dómi hafi sóknaraðili verið sakfelldur fyrir brot á 1. mgr. 288. gr. pólskra hegningarlaga, með því að hafa hinn 14. febrúar 2003, í félagi við tvo aðra, valdið skemmdum á símaklefa í Szczecin og hafi tjónið verið metið á 1100 PLN.  Hafi refsing verið ákveðin fangelsi í eitt ár, skilorðsbundið til þriggja ára. 

Þá kemur fram í greinargerð varnaraðila að fyrir liggi ákvörðun Héraðsdómstólsins í Szczecin frá 19. júlí 2007 þess efnis að sóknaraðili skuli afplána fangelsisrefsingu samkvæmt dóminum frá 24. janúar 2005. Komi fram að sóknaraðili hafi á skilorðstímanum orðið uppvís að samkynja broti og hann hafi verið dæmdur fyrir það í  máli Héraðsdómstólsins í Szczecin nr. IV K 736/06 og þar með hafi hann rofið skilorð fyrri dómsins.  Fyrir liggur að sóknaraðili hefur ekki afplánað dóminn.

Lögreglan á Suðurnesjum kynnti sóknaraðila framsalsbeiðnina hinn 15. september 2008 og við skýrslutöku hjá lögreglu þennan dag kvaðst sóknaraðili kannast við að hafa valdið eignaspjöllum á símaklefa hinn 14. febrúar 2005 með því að hafa bakkað á hann á bifreið.  Honum hafi hins vegar aldrei verið birtur dómurinn og hafnaði hann framsalskröfunni.

Að fenginni umsögn ríkissaksóknara með bréfi 7. október 2008, um að uppfyllt væru skilyrði framsals samkvæmt I. kafla laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, tók dómsmálaráðherra hinn 13. október 2008 þá ákvörðun sem hér er til umfjöllunar.  Lögreglustjórinn á Suðurnesjum kynnti sóknaraðila þá ákvörðun hinn 20. október 2008 og með bréfi sem barst ríkissaksóknara 21. október 2008 krafðist verjandi sóknaraðila úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi.

III

Sóknaraðili byggir kröfu sína um heimild til málskots á til 14. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.

Sóknaraðili kveður ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um að verða við framsalskröfu lítt rökstudda og ekki standast ákvæði 1. tl. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 enda liggi ekki fyrir dómur heldur einungis ákvörðun um að taka upp skilorðsbindingu dóms sem liggi framsali til grundvallar.  Byggi framsalsbeiðni pólskra yfirvaldi á dómi frá 24. janúar 2005 þar sem refsing hafi verið ákveðin eins árs skilorðsbundið fangelsi.  Hafi þessi skilorðsdómur verið tekinn upp með ákvörðun Héraðsdóms í Szczecin hinn 19. júlí 2007 og hafi sú ákvörðun byggt á því að sóknaraðili hafi rofið skilorð með broti sem dæmt hafi verið í máli sama dómstóls nr. IV K 736/06.

Þá telur sóknaraðili að íslenskum yfirvöldum beri að synja um framsal vegna þess að beiðni pólskra yfirvalda fullnægi ekki kröfum 2. og 4. mgr. 12. gr. laga nr. 13/1984 enda fylgi beiðninni ekki endurrit dóms í máli nr. IV K 736/2006 sem talinn sé hafa valdið skilorðsrofi.  Að mati sóknaraðila liggi því ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar á sakargiftum þeim sem liggi til grundvallar framsalsbeiðni, sbr. áskilnað 2. mgr. 12. gr. laga nr. 13/1984.  Í 12. gr. Evrópusamningsins um framsal sakamanna frá árinu 1957 segi að framsalsbeiðni skuli fylgja greinargerð um afbrot þau sem framsals er beiðst vegna.  Gefa skuli eins nákvæmar upplýsingar og unnt sé um stað og stund er brotin voru framin, lagalega lýsingu þeirra og vísun til viðeigandi lagaákvæða.

Þá byggir sóknaraðili á því að fyrri málsliður 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 girði fyrir framsal en þar segi að framsal á manni sé aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður geti varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum.  Meta þurfi hver líkleg niðurstaða um refsingu yrði að íslenskum lögum fyrir það brot sem framsalsbeiðni sé reist á óháð refsiramma viðeigandi lagaákvæðis.  Sé því haldið fram af hálfu sóknaraðila að refsing fyrir eignaspjöll þau sem hann hafi verið dæmdur fyrir í Póllandi hefði verið mun vægari en eins árs fangelsi samkvæmt íslenskum lögum.

Um skilyrði framsals samkvæmt I. kafla laga nr. 13/1984 vísar varnaraðili til umsagnar ríkissaksóknara frá 7. október 2008 en þar kemur meðal annars fram að brot þau sem sóknaraðili hafi verið sakfelldur fyrir myndu varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Þá myndi fangelsisrefsing ekki vera fallin niður, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga.  Að mati varnaraðila séu þannig uppfyllt skilyrði framsals, sbr. einkum 1. og 3. mgr. 3. gr. og 9. gr. laga nr. 13/1984.  Jafnframt þyki fullnægt skilyrðum II. kafla laganna um form framsal­sbeiðninnar.  Af hálfu íslenska ríkisins sé málinu vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur, sbr. stafliður e í 2. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

IV

Í 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum segir að þann sem í erlendu ríki er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað sé heimilt að framselja samkvæmt lögunum.  Í 1. mgr. 3. gr. laganna segir að framsal á manni sé aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum.  Þá segir í 1. tl. 3. mgr.3. gr. laganna að framsal til fullnustu á dómi sé aðeins heimilt, nema annað sé ákveðið með samkomulagi við viðkomandi ríki, ef refsing samkvæmt dómi er minnst 4 mánaða fangelsi.

Sóknaraðili byggir á því í fyrsta lagi að ákvörðun dómsmálaráðherra um að verða við framsalskröfu standist ekki ákvæði 1. tl. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 enda liggi ekki fyrir dómur heldur einungis ákvörðun um að taka upp skilorðsbindingu dómsins frá  24. janúar 2005 sem liggi framsalskröfu til grundvallar. 

Af gögnum málsins er ljóst að framsalskrafan byggir á dóminum frá 24. janúar 2005 þar sem sóknaraðili var dæmdur í eins árs fangelsi skilorðsbundið.  Með ákvörðun 19. júlí 2007 tók sami dómstóll þá ákvörðun að sóknaraðili skyldi afplána þá refsingu sem hann hlaut með dóminum 24. janúar 2005 vegna skilorðsrofs.  Er því ljóst að skilyrðum framangreinds ákvæðis 1. tl. 3. mgr. 3. gr. laganna, að framsal til fullnustu á dómi sé aðeins heimilt ef refsing samkvæmt dómi er minnst 4 mánaða fangelsi, er fullnægt.

Þá byggir sóknaraðili á því að synja skuli um framsal þar sem beiðni pólskra yfirvalda fullnægi ekki kröfum 2. og 4. mgr. 12. gr. laga nr. 13/1984 þar sem beiðni þeirra hafi ekki fylgt endurrit dóms nr. IV K 736/06 sem talinn sé hafa valdið skilorðsrofi.  Liggi þannig ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar á sakargiftum þeim sem liggi til grundvallar framsalsbeiðni, sbr. 2. mgr. 12. gr. laganna.

Með vísan til þess sem að framan er rakið byggist framsalskrafan á dóminum frá 24. janúar 2005 og liggur endurrit hans fyrir í málinu.  Þá liggur einnig fyrir ákvörðun sama dómstóls um að sóknaraðili skuli afplána dóminn vegna skilorðsrofs.  Verður því ekki séð að nauðsyn beri til að fyrir liggi endurrit dóms vegna brota sem talin séu hafa valdið umræddu skilorðsrofi heldur nægir að fyrir liggi sá dómur sem er grundvöllur framsalsbeiðni og ákvörðun þar til bærra yfirvalda um að sóknaraðili skuli afplána refsingu samkvæmt þeim dómi. 

Þá byggir sóknaraðili á því að fyrri málsliður 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 girði fyrir framsali þar sem meta þurfi hver yrði líkleg niðurstaða um refsingu að íslenskum lögum fyrir það brot sem framsalsbeiðni sé reist á, óháð refsiramma.  Í tilgreindu ákvæði segir að framsal á manni sé aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Óumdeilt er að brot það sem sóknaraðili var sakfelldur fyrir myndi varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en þar segir að hver sem ónýtir eða skemmir eigur annars manns eða sviptir hann þeim skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.  Verður orðalagið „getur varðað fangelsi“ í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 ekki skilið á annan veg en að þar sé skírskotað til þess refsiramma sem liggur við broti en ekki líklegrar niðurstöðu hér á landi í sakamáli vegna brots af þessu tagi þar sem upplýsingar um atriði sem geta haft áhrif á refsinæmi verknaðar eru takmarkaðar.  Er því ljóst að ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 girðir ekki fyrir framsal á sóknaraðila.

Þegar allt framangreint er virt eru uppfyllt skilyrði um framsal á sóknaraðila og því er staðfest ákvörðun dómsmálaráðherra 13. október 2008 eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila úr ríkissjóði og með hliðsjón af umfangi málsins, meðal annars vinnu verjanda vegna farbannskrafna í tengslum við mál þetta þykir þóknun verjanda hæfilega ákveðin ákveðin 350.000 krónur.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Úrskurðarorð

Ákvörðun dómsmálaráðherra 13. október 2008, um að framselja sóknaraðila, X til Póllands, er staðfest. 

Þóknun verjanda sóknaraðila, Bjarna Haukssonar hdl. 350.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.