Hæstiréttur íslands
Mál nr. 162/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Samaðild
- Samlagsaðild
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 8. júní 2004. |
|
Nr. 162/2004. |
Ólöf Adda Sveinsdóttir(Eva B. Helgadóttir hdl.) gegn Áshreppi og (enginn) Byggðasamlagi Húnavallaskóla (Othar Örn Petersen hrl.) |
Kærumál. Samaðild. Samlagsaðild. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Ó krafði Á og B óskipt um greiðslu kostnaðar sem hún taldi sig hafa orðið fyrir vegna skólagöngu fatlaðrar dóttur sinnar í Reykjavík. Hafði héraðsdómur vísað kröfu hennar á hendur B frá dómi. Í Hæstarétti var talið að kröfur Ó á hendur Á og B tengdust með þeim hætti að Ó hefði verið rétt að miða við að um samlagsaðild væri að ræða varnarmegin, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Umfjöllun héraðsdóms um að hvorki yrði séð af lögum né af samningi að B bæri óskipta ábyrgð með hverju sveitarfélagi fyrir sig, sem aðili að samlaginu, væri atriði sem kæmi til álita við efnisniðurstöðu málsins samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Yfirlýsing Ó um að hún teldi samaðild vera til varnar leiddi ekki ein og sér til þess að vísa ætti málinu frá dómi, hvað þá einungis hvað varðaði annan málsaðilann, líkt og gert var með hinum kærða úrskurði. Þá var ekki talið að málatilbúnaður Ó væri svo vanreifaður eða óljós vegna aðildar að ekki yrði lagður á málið efnisdómur. Var úrskurðurinn því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. apríl 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar og 6. maí 2004. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2004, þar sem kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðilanum Byggðasamlagi Húnavallaskóla var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfur hennar á hendur varnaraðilum til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Byggðasamlag Húnavallaskóla krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðilinn Áshreppur hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I.
Atvikum málsins eru ekki gerð fullnægjandi skil í hinum kærða úrskurði.
Samkvæmt gögnum málsins var sóknaraðili búsett í Áshreppi í Austur-Húnavatnssýslu þegar í ljós kom að dóttir hennar, sem er fædd 1995, var heyrnarskert. Hefur stúlkan af því tilefni sótt skóla í Reykjavík frá hausti 1998. Sóknaraðili hefur frá þeim tíma haldið heimili í Reykjavík ásamt fyrrgreindri dóttur sinni og annarri eldri ásamt því að halda heimili í Áshreppi, en faðir stúlkunnar mun vera áfram búsettur þar. Fyrir liggur að varnaraðilinn Byggðasamlag Húnavallaskóla hefur borið nokkurn kostnað vegna skólagöngu stúlkunnar í Reykjavík jafnframt því sem sóknaraðili naut fjárstuðnings frá félagsþjónustu Austur-Húnavatnssýslu vegna fötlunar hennar og kostnaðar við að halda tvö heimili af framangreindum sökum.
Í máli þessu krefst sóknaraðili greiðslu kostnaðar sem hún hefur þurft að bera vegna skólagöngu dóttur sinnar í Reykjavík. Samkvæmt héraðsdómsstefnu er annars vegar um að ræða kostnað vegna húsaleigu frá september 2000 til mars 2003 og hins vegar útgjöld vegna hita, rafmagns og húsfélagsgjalda frá september 2001 til maí 2003. Stefndi sóknaraðili báðum varnaraðilum fyrir héraðsdóm til greiðslu tiltekinnar fjárhæðar óskipt með vísan til 18. gr. laga nr. 91/1991. Með hinum kærða úrskurði var máli hennar á hendur varnaraðilanum Byggðasamlagi Húnavallaskóla vísað frá dómi á þeirri forsendu að það væri vanreifað hvað varðaði óskipta aðild varnaraðilanna.
II.
Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðilar beri óskipta ábyrgð á kostnaði þeim, sem hún hafi orðið fyrir vegna skólagöngu dóttur sinnar í Reykjavík. Þar sem deilt sé um skyldur samkvæmt lögum nr. 66/1995 um grunnskóla en ekki skyldur sveitarfélags samkvæmt lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sé aðild beggja varnaraðila nauðsynleg. Þetta komi ekki í veg fyrir að annar varnaraðilinn geti verið sýknaður af kröfu sóknaraðila þótt hinn verði látinn sæta ábyrgð. Þá heldur sóknaraðili því fram að í hinum kærða úrskurði felist í raun efnisdómur þar sem því hafi verið hafnað að varnaraðilinn Byggðasamlag Húnavallaskóla geti borið ábyrgð á þeim kostnaði sem ágreiningur málsaðila lýtur að. Bendir sóknaraðili á að sé ekki fyrir hendi skýr lagastoð fyrir óskiptri ábyrgð varnaraðila ætti það að leiða til frávísunar málsins í heild. Sé úrskurður héraðsdóms að þessu leyti í mótsögn við sjálfan sig.
Varnaraðilinn Byggðasamlag Húnavallaskóla bendir á að til þess að skilyrði samaðildar séu fyrir hendi þurfi sóknaraðili að sýna fram á, með ótvíræðum hætti, að varnaraðilarnir kunni báðir að bera óskipta ábyrgð á greiðslu þeirrar kröfu sem um ræðir í málinu. Þegar metin sé nauðsyn samaðildar til varnar í dómsmáli beri að líta til þess hvort skylda, sem hvíli sameiginlega á tveimur eða fleiri, sé þess eðlis að enginn einn þeirra geti efnt hana í þágu þeirra allra upp á sitt eindæmi eða verði krafinn um að gera það. Sé ljóst að sóknaraðili eigi þann eina kost að krefja einungis annan varnaraðila í málinu um greiðslu kröfunnar. Varnaraðili bendir á að fyrir liggi samningur um stofnun Byggðasamlags Húnavallaskóla þar sem skýrlega sé tekið fram að tilgangurinn með stofnun þess sé að reka og byggja upp grunnskóla á grundvelli laga nr. 66/1995, sbr. 2. gr. samningsins. Í umræddum samningi séu ekki takmarkanir á framsali þeirra réttinda og skyldna, sem felast í rekstri grunnskóla, enda ekki lagaheimildir fyrir slíkum takmörkunum. Geti sóknaraðili ekki byggt á því að réttarstaða varnaraðilans hafi verið svo óljós að henni hafi borið nauðsyn til að stefna báðum varnaraðilum fyrir dóm og krefjast þess að þeir beri sameiginlega ábyrgð á umræddum kostnaði. Þá verði ekki af héraðsdómsstefnu ráðið á hverju þessi óskipta ábyrgð sé byggð. Hvorki sé rökstutt að hún sé reist á reglum skaðabótaréttar né kröfuréttar auk þess sem ekki verði séð að lög standi til þess að óskipt ábyrgð hafi stofnast.
III.
Í máli þessu er eins og áður greinir deilt um greiðslu kostnaðar, sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir vegna skólagöngu fatlaðrar dóttur sinnar í Reykjavík. Hefur sóknaraðili stefnt báðum varnaraðilum til greiðslu óskipt og um aðild vísað til 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar verður máli frávísað ef brugðið er út af skyldu til samaðildar. Af því sem fram er komið í málinu verður að telja að kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðilum tengist með þeim hætti að sóknaraðila hefði verið rétt að miða við að um samlagsaðild væri að ræða varnarmegin, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Báðir varnaraðilar hafa krafist sýknu á grundvelli aðildarskorts. Umfjöllun í hinum kærða úrskurði um að hvorki verði séð af lögum né af tilgreindum samningi að varnaraðilinn Byggðasamlag Húnavallaskóla beri óskipta ábyrgð með hverju sveitarfélagi fyrir sig, sem aðili er að samlaginu, er atriði er kemur til álita við efnisniðurstöðu málsins samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Yfirlýsing sóknaraðila í máli þessu um að hann telji samaðild vera til varnar leiðir ekki ein og sér til þess að máli eigi að vísa frá dómi, hvað þá einungis hvað varðar annan málsaðilann, líkt og gert var með hinum kærða úrskurði. Verður ekki talið að málatilbúnaður sóknaraðila sé svo vanreifaður eða óljós vegna aðildar að ekki verði lagður á málið efnisdómur. Er því hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Rétt er að aðilarnir beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfu sóknaraðila, Ólafar Öddu Sveinsdóttur, á hendur varnaraðilum, Áshreppi og Byggðasamlagi Húnavallaskóla, til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2004.
Stefnandi þessa máls er Ólöf Adda Sveinsdóttir, kt. [...], Ásbrekku, Blönduósi, en stefndu Áshreppur, kt. [...], Ási, Blönduósi, og Byggðasamlag Húnavallaskóla, kt. [...], Húnavöllum, Blönduósi.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði dæmdir til að greiða in solidum stefnanda 1.373.582 krónur með dráttarvöxtum svo sem nánar greinir í stefnu. Einnig er krafist málskostnaðar með tilgreindum hætti.
Dómkröfur stefnda, Áshrepps, eru aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi. Til vara krefst hann þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda, Byggðasamlags Húnavallaskóla, eru aðallega að kröfu stefnanda verði vísað frá dómi. Til vara að byggðasamlagið verði sýknað af kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við flutning málsins og/eða að mati dómsins.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hrundið og krefst málskostnaðar úr hendi stefnda, Byggðasamlags Húnavallaskóla, af þessum þætti málsins eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Málið var munnlega flutt um kröfu Byggðasamlags Húnavallaskóla um frávísun 31. mars sl. og er sá ágreiningur hér til úrskurðar.
Stefndi, Byggðasamlag Húnavallaskóla, byggir kröfu sína um frávísun málsins frá dómi á því að ekki séu skilyrði til samaðildar stefndu í málinu. Stefnandi hafi ekki skýrt óskipta skyldu stefndu, en ljóst megi vera að stefndu beri ekki sameiginlega ábyrgð á kostnaði við skólagöngu barns stefnanda í öðru sveitarfélagi en lögheimilissveitarfélagi.
Vísað er til þess að 29. júlí 1996 hafi verið samið um að Byggðasamlag Húnavallaskóla tæki yfir réttindi og skyldur aðildarsveitarfélaga byggðasamlagsins samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 66/1995, en tilgangur samlagsins sé rekstur og uppbygging grunnskóla að Húnavöllum er sjái börnum á svæðinu fyrir grunn-skólanámi svo sem lögin kveði á um.
Þá er vísað til þess að sveitarfélögin beri ábyrgð á kostnaði vegna félagslegrar aðstoðar fyrir íbúa aðildarsveitarfélaga Byggðasamlags Húnavallaskóla, sbr. 4. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Fjárhagslega aðstoð, eins og hér um ræðir, beri því Áshreppur að veita án óskiptrar aðildar Byggðasamlags Húnavalla-skóla.
Þá er byggt á því að stefnandi geri ekki með skýrum hætti grein fyrir málsástæðum og lagarökum er leiði til skyldu Byggðasamlags Húnavallaskóla að greiða stefnanda stefnufjárhæð, sbr. e. og f. lið 80. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi byggir á því að óhjákvæmilegt hafi verið að stefna Áshreppi og Byggðasamlagi Húnavallaskóla óskipt til greiðslu stefnufjárhæðar þar sem stefndu beri óskipta ábyrgð á umframkostnaði sem stefnandi varð fyrir vegna skólagöngu dóttur sinnar.
Ályktunarorð: Óskipt aðild stefndu í þessu máli getur einungis byggst á því, að þeir beri óskipta skyldu samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Ekki er skýr lagastoð fyrir því að Byggðasamlag Húnavallaskóla og Áshreppur beri fortakslaust óskipta ábyrgð á „umframkostnaði", sem stefnandi varð fyrir vegna skólagöngu dóttur sinnar. Þá verður ekki lesið úr samningi sveitarfélaga, er standa að Byggðasamlagi Húnavallaskóla, að samlagið beri óskipta ábyrgð með hverju sveitarfélagi fyrir sig á kostnaði eins og hér um ræðir.
Stefnandi krefst þess að stefndu greiði henni óskipt ákveðna fjárhæð, sem rökstudd er með skírskotun til þeirrar stöðu - sem hún komst í vegna fötlunar dóttur sinnar - og byggð er á ákveðnum atvikum að öðru leyti. Málið telst ekki vanreifað nema hvað varðar óskipta aðild stefndu.
Vísa verður því kröfu stefnanda á hendur Byggðasamlagi Húnavallaskóla frá dómi, en ekki málinu í heild.
Með vísun til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmd til að greiða stefnda, Byggðasamlagi Húnavallaskóla, málskostnað. Hæfileg þóknun lögmanns samlagsins þykir 70.000 krónur.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda af þessum þætti málsins greiðist úr ríkissjóði.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kröfu stefnanda, Ólafar Öddu Sveinsdóttir, á hendur stefnda, Byggðasamlagi Húnavallaskóla, er vísað frá dómi.
Stefnandi greiði stefnda, Byggðasamlagi Húnavallaskóla, 70.000 krónur í málskostnað.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði.