Hæstiréttur íslands

Mál nr. 589/2016

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Súsanna Björg Fróðadóttir fulltrúi)
gegn
X (Theodór Kjartansson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. ágúst 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. ágúst 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. ágúst 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að varnaraðila verði gert að sæta farbanni.

Varnaraðili hefur gefið tortryggilegar skýringar á tilgangi ferðar sinnar til landsins. Að því gættu og að öðru leyti með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, sbr. a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. ágúst 2016.

                Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess fyrir dóminum í dag, að X, [...] ríkisborgari, fæddur [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. ágúst 2016 kl. 16:00 og að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

                Krafan er reist á a og b liðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og b lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

                Meint brot kærða er talið varða við lög um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað og til vara að gæsluvarhaldi verði markaður skemmri tími.

                Í greinargerð lögreglustjórans segir m.a. að til rannsóknar sé aðild kærða á innflutning á ætluðum ávana- og fíkniefnum. Rannsókn málsins hafi hafist þriðjudaginn 16. ágúst 2016 í kjölfar tilkynningar frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar um afskipti af kærða X og öðrum aðila, Y, við tollhlið vegna gruns um að þeir kynni að hafa fíkniefni falin í fórum sínum. Höfðu kærðu verið að koma með flugi [...] frá [...] í [...].

Við leit í farangri meðkærða Y hafi fundist hylki með meintum fíkniefnum í. Hafi meðkærði Y gefið greinargóða lýsingu á kærða X við tollverði og sagt hann vera ferðafélaga sinn og bróður. Engin meint fíkniefni hafi fundist í fórum kærða X, hvorki í farangri né innvortis. Y hafi verið handtekinn og færður á lögreglustöðina við Hringbraut, Reykjanesbæ. Hann hafi gengist undir röntgenrannsókn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að kvöldi 16. ágúst 2016. Niðurstaða þeirrar rannsóknar hafi leitt í ljós að innvortis hafði hann yfir 30 pakkningar af ætluðum fíkniefnum. Að svo stöddu hafi 33 pakkningar af meintum fíkniefnum gengið niður af meðkærða Y. Hann hafi einnig verið með meint fíkniefni í ferðatösku sinni og upplýsti fulltrúi lögreglustjóra við fyrir töku málsins í dag að um kókaín væri að ræða og að samtals hafi meðákærði Y verið með um eitt kíló af fíkniefnum með sér.

Kærði X hafi verið yfirheyrður einu sinni vegna málsins og neiti hann því að kannast við meðkærða Y. Kærði X gefi að mati lögreglu ótrúverðugar skýringar á því hvers vegna hann sé komin hingað til lands og neiti að svara spurningum lögreglu um ferðir sínar að öðru leyti. Fulltrúi lögreglustjóra tók fram í þinghaldi í dag að meðkærði Y hafi að fyrra bragði, er hann var stöðvaður við tollhlið, bent á kærða X og sagt að hann hefði skipulagt innflutninginn.

Lögreglan heldur því fram að rannsókn málsins miðist við að kærði X hafi staðið að innflutningi að töluverðu magni ávana- og fíkniefna hingað til lands sem ætluð hafi verið til sölu og dreifingar. Lögregla telji einsýnt að kærði X hafi ekki staðið einn að innflutningi á því magni ætlaðra fíkniefna sem um ræðir. Vinni lögregla að því að upplýsa um hlutverk kærða X í málinu, m.a. um aðdraganda og fjármögnun ferðar hans svo og upplýsinga um ætlaða samverkamenn kærða X hér og landi og erlendis. Kærði X hafi verið yfirheyrður einu sinni vegna málsins þar sem hann hafi gefið ótrúverðugar skýringar á ferð sinni hingað til lands og neiti að tjá sig. Rannsóknin sé í fullum gangi og teygi anga sína víða. Sé nú m.a. unnið að úrvinnslu þeirra gagna sem aflað hafi verið auk þess sem fyrirliggjandi sé viðamikil gagnaöflun hér á landi og erlendis. Að mati lögreglustjóra sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði X hafi gerst brotlegur við ákvæði laga um ávana og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Lögreglustjóri telji nauðsynlegt að kærða X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Megi ætla að hann kunni að torvelda rannsókn málsins svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni, gangi hann laus. Séu þannig uppfyllt skilyrði a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Auk þess telji lögreglustjóri að mikil hætta sé á að kærði X muni reyna að komast úr landi eða leynast og koma sér þannig undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus. Sé á það bent að kærði, sem sé erlendur ríkisborgari, virðist ekki eiga nein tengsl við landið. Eigi hann þannig hvorki fjölskyldu né stundi atvinnu hér. Sé skilyrðum b liðar liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála einnig fullnægt. Þess sé krafist að kærða X verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/ 2008.

Eins og að framan er rakið var meðkærði Y handtekin við komu sína til landsins við tollhlið á Keflavíkurflugvelli. Lögreglan telur að hann hafi verið með tæpt kíló af meintu kókaíni með sér. Eftir að hann var handtekinn benti hann á kærða X sem samverkamann sinn og að hann hafi stjórnað og skipulagt innflutninginn. Í kjölfar þess var kærði X handtekinn en hann kom einnig með sama flugi til landsins. Að framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um brot sem geta varðað fangelsisrefsingu samkvæmt lögum um ávana og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins er á frumstigi og haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, m.a. með því að hafa áhrif á framburð vitorðsmanna og vitna. Skilyrði a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eru því fyrir hendi í málinu. Kærði er erlendur ríkisborgari og hefur að því er virðist engin tengsl við Ísland. Verður því talið að uppfyllt séu skilyrði b liðar 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. ágúst nk. kl. 16:00.

Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.